• Kjarnyrt
  • Posts
  • Bábiljur um fjárhagsleg vandræði Reykjavíkur byggja á engu nema sandi

Bábiljur um fjárhagsleg vandræði Reykjavíkur byggja á engu nema sandi

Reykjavíkurborg skilaði rekstrarniðurstöðu sem er langt umfram áætlun borgarinnar á síðasta ári. Fjárhagsleg staða höfuðborgarinnar er, ásamt Kópavogi, mun heilbrigðari en annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fer hratt batnandi. Samt er sú hugmynd ólseig í huga margra að Reykjavík brenni og rambi á barmi gjaldþrots. Hún á sér engar rætur í staðreyndum eða þeim lykiltölum sem notaðar eru til að mæla fjárhagslegan styrkleika sveitarfélaga.

Áróður er lævíst fyrirbæri. Tækninni er beitt til að sannfæra þá sem á hlusta að veruleikinn sé ekki sannur, heldur lygin sem haldið er að þeim. Ef lygin er endurtekin nógu oft, og af nógu mörgum, þá verði hún að einhverskonar sannleika. Þannig geti stjórnmálamaður kastað henni fram, einn fjölmiðill hliðhollur honum tekið hana upp, annar á svipuðum slóðum endurtekið og hlaðvörpum úr sama heimi magnað með gífuryrðum.

Þessari áróðurstækni er beitt víða í stjórnmálum. Þar sem henni hefur verið beitt með hvað mestum árangri er í tengslum við fjármál Reykjavíkurborgar. Ég hef átt ófá samtöl við fólk á undanförnum árum sem hefur fullyrt að allt sé í efnahagslegri rúst í höfuðborginni. Þegar spurt er um á hverju það byggir þá framsetningu er svarið nær án undantekninga að einhver úr minnihluta í borgarstjórn hafi sagt það, að viðkomandi hafi lesið það í Morgunblaðinu ( sem bjó til sérstakan fréttaflokk á vefsíðu sinni sem kallaðist „Fjárhagsörðugleikar Reykjavíkur“) eða Viðskiptablaðinu og síðan heyrt það í einhverju af fjölmörgum hægrisinnuðu hlaðvörpunum.

Að efnahagur borgarinnar sé alsettur bókhaldsbrellum og réttast væri að ráðuneyti sveitarstjórnarmála tæki yfir rekstur hennar áður en hún yrði hreinlega gjaldþrota.

Næstum fimm milljarða króna afgangur

Reykjavíkurborg birti ársreikning sinn fyrir síðasta ár fyrir viku síðan. Þar kemur fram að A-hluti rekstursins, sá sem rekinn er fyrir skattfé, skilaði 4,7 milljörðum króna í hagnað. Árið áður hafði borgin tapað fimm milljörðum króna og því um verulegan viðsnúning, um næstum tíu milljarða króna að ræða, á milli ára.

Niðurstaðan er líka langt yfir því sem fjárhagsáætlun borgarinnar gerði ráð fyrir, en samkvæmt henni átti hagnaður A-hlutans að vera 650 milljónir króna í fyrra.

Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar í borginni. Mynd: Aðsend

Taprekstur fyrri ára var að mestu í takti við áætlanir enda ákvað Reykjavík að bregðast við kórónuveirufaraldrinum með því að stórauka fjárfestingar til að draga úr efnahagsáfallinu sem fylgdi honum og draga úr atvinnuleysi. Það kallaðist Græna planið og með því ætlaði borgin að vaxa út úr vandanum, sem hún sannarlega gerði.

Þetta er auk þess í takti við þá stefnu borgarstjórnarmeirihlutans sem settist að völdum eftir síðustu kosningar, að rekstrarniðurstaða A-hlutans yrði jákvæð frá og með árinu 2024.

Breytt tekjuskipting, ekki skattahækkun

Samt sagði oddviti Sjálfstæðisflokks í borginni í viðtali við þátt á mbl.is í lok síðustu viku að engar vísbendingar væru um að rekstur borgarinnar væri á réttri leið. Hún sagði heimilin í borginni „hafa greitt upp óráðsíuna“. Þetta útskýrði hún með því að aukin skattheimta væri ástæðan fyrir auknum tekjum og vísaði annars vegar auknar tekjur vegna hærra útsvars og hins vegar þess að hækkun á fasteignamati hafi skilað hærri tekjum vegna fasteignaskatta.

Þetta er afar áhugaverð framsetning, svo ekki sé meira sagt. Taka verður skýrt fram að í hvorugu tilvikinu er um skattahækkun að ræða. Árið 2023 var ákveðið að hækka útsvar sem rennur til sveitarfélaga og lækka tekjuskatt sem rennur í ríkissjóð með þeim hætti að sex milljarðar króna sem áður fóru í ríkissjóð renna nú til sveitarfélaga.

Prósenta fasteignaskatta er auk þess nú lægri í  Reykjavík en hún var fyrir áratug og er með þeirri lægstu á landinu. Hún stóð í stað milli ára. Raunar eru bara þrjú sveitarfélög, öll á höfuðborgarsvæðinu, sem voru með lægri fasteignaskattaprósentu á íbúðarhúsnæði en Reykjavík í fyrra (Garðabær, Kópavogur og Seltjarnarnes) auk þess sem Reykjavík hefur boðið upp á afslátt fyrir elli- og örorkuþega af slíkum gjöldum sem getur hlaupið á hundruð milljóna króna á ári. Þá er lóðaleiga umtalsvert lægri í höfuðborginni en annarsstaðar.

Samandregið þá hafa engir skattar hækkað í Reykjavík. Að halda því fram er einfaldlega lygi.

Lykiltölur um fjármálalegt heilbrigði

Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru rekin réttu megin við á árinu 2024, að Seltjarnarnesi undanskildu. Þar var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 464 milljónir króna. Í einhverjum tilfellum var stór hluti af hagnaðinum eignasala, líkt og sala á lóðum, sem er takmörkuð auðlind og því einskiptisleið til að bæta stöðuna. Sum sveitarfélög voru með rekstrarniðurstöðu sem var langtum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, og önnur voru töluvert frá því að ná markmiði sínu.

Bæði Reykjavík og Mosfellsbær rukkuðu hámarksútsvar upp á 14,97 prósent en Kópavogur og Hafnarfjörður voru skammt undan með 14,93 prósent og Garðabær í skottinu á þeim með 14,91 prósent. Það sveitarfélag sem rukkaði lægsta útsvarið, 14,71 prósent, var það eina sem skilaði tapi á árinu 2024.

Fjórar lykiltölur eru vanalega skoðaðar til að skoða fjármálalegt heilbrigði sveitarfélaga: Skuldahlutfall, skuldir á íbúa, veltufé frá rekstri og veltufjárhlutfall. Nú þegar öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa skilað ársreikningum sínum vegna síðasta árs er ekki úr vegi að bera saman hvernig þau standa samkvæmt þessum mælikvörðum.

Þegar skuldahlutfall þess hluta rekstrar sveitarfélaga sem rekin eru fyrir skattfé er skoðað kemur í ljós að Reykjavík er í fínum málum. Skuldahlutfallið lækkaði úr 113 í 105 prósent milli ára og er það næst lægsta á höfuðborgarsvæðinu á eftir Kópavogi. Hæst er það í Hafnarfirði, eða 141 prósent.

Sveitarfélag

Skuldahlutfall

Reykjavík

105 prósent

Garðabær

118 prósent

Kópavogur

95 prósent

Hafnarfjörður

141 prósent

Seltjarnarnes

122 prósent

Mosfellsbær

120 prósent

Einn mikilvægasti mælikvarðinn sem vert er að skoða til að sjá hvort sveitarfélag ráði við skuldastöðu sína er svokallað veltufjárhlutfall. Það segir til um peningalega stöðu um áramót og þumalputtareglan er að mikilvægt sé að það sé yfir 1,0. Ef það er yfir þeirri tölu þá hefur sveitarfélagið laust fé um áramót til að greiða útistandandi skuldir sem gjaldfalla á árinu, allar lausaskuldir og afborganir á lánum á yfirstandandi ári. Frá lokum árs 2018 og fram til loka árs 2022 var Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem var með veltufjárhlutfall yfir 1,0. Það breyttist 2023 þegar hlutfallið fór niður í 0,94. Í fyrra hækkaði það upp í 1,06 og er það hæsta á höfuðborgarsvæðinu. Hafnarfjörður kemur þar næst með 0,92 en staðan er verst í Garðabæ, þar sem veltufjárhlutfallið er 0,4.

Sveitarfélag

Veltufjárhlutfall

Reykjavík

1,06

Garðabær

0,4

Kópavogur

0,5

Hafnarfjörður

0,9

Seltjarnarnes

0,7

Mosfellsbær

0,8

Peningarnir sem eru eftir í lok árs

Veltufé frá rekstri er allt það fjármagn sem stendur eftir úr rekstri sveitarfélags í lok hvers árs og hægt er að nýta í fjárfestingar eða niðurgreiðslu á skuldum. Hér er um einn allra mikilvægasta mælikvarðann sem horfa þarf á þegar fjárhagslegt heilbrigði er mælt.

Veltufé frá rekstri er sett fram sem hlutfall af tekjum viðkomandi sveitarfélags í reikningum þeirra. Það var 6,3 prósent hjá Reykjavík á árinu 2024 sem er aðeins minna en í Kópavogi (7,0 prósent) og Mosfellsbæ (6,9 prósent) en töluvert meira en í hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Á Seltjarnarnesi er það til að mynda þrjú prósent.

Sveitarfélag

Veltufé frá rekstri

Reykjavík

6,3 prósent

Garðabær

5,3 prósent

Kópavogur

7 prósent

Hafnarfjörður

3,9 prósent

Seltjarnarnes

3 prósent

Mosfellsbær

6,9 prósent

Fjórði og síðasti mælikvarðinn er skuldir á íbúa, sem útskýrir sig sjálfur. Þar er staðan í Reykjavík þannig að hver íbúi skuldaði 1.395 þúsund krónur um síðustu áramót. Einungis íbúar Kópavogs skulduðu minna að meðaltali og skuldir á hvern íbúa Hafnarfjarðar nálgast nú tvær milljónir króna.

Sveitarfélag

Skuldir á íbúa í þúsundum króna

Reykjavík

1.395

Garðabær

1.672

Kópavogur

1.224

Hafnarfjörður

1.950

Seltjarnarnes

1.644

Mosfellsbær

1.778

Ef sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er gefin einkunn frá 1-6 um hvar þau raða sér á ofangreindum fjórum mælikvörðum, og þær tölur lagðar saman þannig að því lægri sem talan er, því betri er staðan, þá kemur í ljós að fjárhagsstaðan er langbest í Kópavogi og Reykjavík. Hin sveitarfélögin eru miklir eftirbátar.

Borga miklu meira í félagslega þjónustu

Þetta er staðan þrátt fyrir að Reykjavík sinni félagslegri þjónustu langt umfram öll hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar landinu öllu.

Í tölum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman kemur fram að á árinu 2023 greiddi hver íbúi í Reykjavík 326.435 krónur í veitta félagsþjónustu. Hún hækkaði um tíu prósent milli ára og er langhæsta greiðsla á hvern íbúa hjá nokkru sveitarfélagi en vegið meðaltal var 241.088 krónur. Það þýðir að hver íbúi í höfuðborginni greiddi um 35 prósent meira í félagsþjónustu en meðallandsmaðurinn. 

Íbúar í Garðabæ greiða minnst allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu í félagsþjónustu, eða 183.720 krónur hver íbúi. Kópavogsbúar borga aðeins meira, eða 191.056 krónur hver, og íbúar Seltjarnarness borga 198.784 krónur hver. Hafnfirðingar komast næst Reykvíkingum þegar kemur að því að greiða fyrir félagsþjónustu, með 255.678 krónur á hvern íbúa, og þar á eftir eru íbúar Mosfellsbæjar, sem greiddu að meðaltali 256.108 krónur hver. 

Það hlutfall af skatttekjum Reykvíkinga sem fór í félagsþjónustu árið 2023 lækkaði úr 31,7  í 29,5 prósent. Einungis tvö önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjörður (23,1 prósent) og Mosfellsbær (22,2 prósent), nýttu yfir fimmtung skatttekna sinna í félagslega þjónustu. Í Kópavogi og á Seltjarnarnesi var hlutfallið rétt yfir 18 prósent en í Garðabæ 17 prósent.

Borið uppsafnaðan halla upp á 50 milljarða

Þetta er auðvitað ekki að öllu leyti óeðlilegt. Höfuðborgir heims hafa oftast nær stærra hlutverki að gegna við veitingu á félagsþjónustu en aðrar borgir og bæir og þær njóta þess líka að hafa umtalsverðar tekjur af því að flestar lykil stjórnsýslubyggingar eru staðsettar í þeim. Af því fá höfuðborgir umtalsverðar tekjur, til dæmis vegna fasteignagjalda. En það má sannarlega deila um hvort það sé eðlilegt að íbúi í Reykjavík greiði allt að 78 prósent meira í félagsþjónustu en íbúi í nágrannasveitarfélagi sem tekur nokkrar mínútur að keyra til.

En til að setja málin í samhengi má líta til málefna fatlaðra, sem færð voru yfir til sveitarfélaga frá ríkinu árið 2011 án þess að nægjanlegt fjármagn hefði fylgt með. Frá þeim tíma er uppsafnaður halli borgarinnar vegna málaflokksins 50,7 milljarðar króna. Það er vegna þessarar stöðu sem tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga hefur verið tekin upp tvívegis á síðustu árum, með þeim afleiðingum að útsvar hefur hækkað og tekjuskattar lækkað um samsvarandi upphæð. Samt er staðan enn sú að halli vegna reksturs þessa málaflokks var 6,9 milljarðar króna hjá Reykjavík í fyrra. Það er umtalsvert hærri upphæð en borgin fékk í arð vegna eignarhlutar síns í Orkuveitu Reykjavíkur.

Ofan á það hafa greiðslur til Reykjavíkur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verið takmarkaðar með furðulegum sérreglum. Það mun breytast með fyrirliggjandi frumvarpi á þingi og tekjur borgarinnar aukast umtalsvert í kjölfarið, íbúum hennar til heilla.

Alls 78 prósent félagslegra íbúða í Reykjavík

Þá er ótalin uppbygging á öruggu og ódýru almennu eða félagslegu húsnæði fyrir þá sem komast ekki inn á eignamarkað, geta illa ráðið við hátt leiguverð á almennum leigumarkaði eða finna af öðrum ástæðum ekki húsnæði sem rúmar þeirra stöðu í lífinu.

Dagur B. Eggertsson, sem var borgarstjóri í Reykjavík árum saman en er nú þingmaður borgarinnar, lagði nýverið fram skriflega fyrirspurn á Alþingi um fjölda félagslegra leiguíbúða í eigu sveitarfélaga. Í svari félags- og húsnæðismálaráðherra kom fram að á höfuðborgarsvæðinu væru alls 3.706 slíkar íbúðir. Þar af eru 2.870 í Reykjavík, eða 77,4 prósent allra félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu, en íbúar Reykjavíkur eru 56 prósent íbúa svæðisins. Til samanburðar eru 0,4 prósent félagslegra íbúða á Seltjarnarnesi og 1,2 prósent í annars vegar Garðabæ og hins vegar Mosfellsbæ.

Sveitarfélag

Félagslegar íbúðir

Reykjavík

2.870

Garðabær

44

Kópavogur

453

Hafnarfjörður

282

Seltjarnarnes

14

Mosfellsbær

43

Því liggur því fyrir að höfuðborgin axlar ábyrgð á uppbyggingu og framboði á félagslegu húsnæði langt umfram nágrannasveitarfélögin.

Tvær af hverjum þremur í Reykjavík

Dagur spurði líka um hversu margar almennar íbúðir hefðu verið byggðar fyrir stofnframlög frá því að lög um slíkt voru samþykkt sumarið 2016. Þau lög, sem urðu grunnur að nýju íbúða­­­­kerfi, voru til­­­­raun til að end­­­­ur­reisa ein­hvern vísi að félags­­­­­­­lega hús­næð­is­­­­kerf­inu sem var aflagt undir lok síð­­­­­­­ustu aldar með þeim afleið­ingum að félags­­­­­­­legum íbúðum fækk­­­­aði um helm­ing milli áranna 1998 og 2017.

Sveitarfélag

Almennar íbúðir (byggðar og keyptar)

Reykjavík

1.704

Garðabær

40

Kópavogur

70

Hafnarfjörður

219

Seltjarnarnes

6

Mosfellsbær

8

Íbúð­­­irnar sem hafa fengið stofn­fram­lög eru ætl­­­aðar fyrir allskyns hópa sem eru með lágar tekj­­­ur. Þar ber fyrst að nefna þá félags­­­hópa sem eru undir skil­­­greindum tekju- og eign­­­ar­við­mið­­­um. Félögin sem hafa byggt upp kerfið af mikilli festu eru óhagnaðardrifin, leiga er mun lægri en á almennum markaði og í könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var í fyrrahaust sögðust  89 prósent ánægð með leigusalann sinn. Einungis þrjú prósent sögðust óánægð með óhagnaðardrifna félagið sem leigði þeim. Hjá þessum hópi greiddi líka 39 prósent innan við 30 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu á sama tíma og meðalhlutfall ráðstöfunartekna sem fer í húsaleigu í heild er 44 prósent á leigumarkaðinum öllum.

Helmingur leigjenda býr nefnilega við það sem skilgreint er sem íþyngjandi húsnæðiskostnaður, en þá fer að minnsta kosti 40 prósent af því sem er er eftir í veskinu um mánaðamótin eftir skatta og gjöld í húsaleigu.

Dagur B. Eggertsson var borgarstjóri Reykjavíkur um árabil og er nú þingmaður. Mynd: RÚV

En aftur að fyrirspurn Dags. Í svari við henni kemur fram að alls hafi stofnframlögum verið úthlutað til byggingar eða kaupa á 2.575 almennri íbúð frá því að lögin tóku gildi fyrir um níu árum síðan. Af þeim eru 1.704 í Reykjavík, eða tvær af hverjum þremur. Í almennu íbúðum búa 6.152 manns. Þar af búa 3.918 í Reykjavík.

Þessar tölur sýna svart á hvítu að Reykjavík er leiðandi í að leysa húsnæðisvanda viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Tölum stolt um raunveruleikann

Það góða við tölur, mælanlegar stærðir og staðreyndir er að það er erfitt að rífast við þær. Skynsamt fólk sem les ofangreinda yfirferð sér svart á hvítu að staðan í höfuðborginni er góð. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstrinum á síðustu tveimur árum og sú áætlun sem lagt var upp með árið 2020 til að mæta efnahagsáfalli hefur gengið að mestu eftir. Það skiptir litlu hvar drepið er niður, allt er í rétta átt. Skuldahlutfall lækkar hratt, veltufjárhlutfall hækkar og veltufé frá rekstri er á heilbrigðum stað. Þetta er staðan þótt borgin og íbúar hennar axli lungann af öllum félagslegum byrðum sem leggjast á höfuðborgarsvæðið.

Framundan eru enn blómlegri tímar vegna löngu tímabærrar tekjuskiptingar, tilfærslu kostnaðarsamra og viðkvæmra verkefna frá sveitarfélögum til ríkis og breytingum á lögum um Jöfnunarsjóð. Allt þetta mun bæta fjárhag Reykjavíkur.

Þá er ótalin sú gæfa höfuðborgarinnar að hafa ekki selt eignarhlut sinn í næst stærsta orkufyrirtæki landsins, sem skilar henni miklum tekjum á hverju ári og væntingar eru til að geti skilað enn meira í nánustu framtíð.

Sú upplýsingaóreiða sem haldið hefur verið að fólki um afleita stöðu Reykjavíkur er beinlínis hlægileg í ljósi þessa. Og löngu tímabært að fara að tala um hana á nótum raunveruleika í stað þess að leyfa bábiljum pólitísks áróðurs fólks sem er súrt yfir því að það er skortur á eftirspurn kjósenda eftir þeim að móta alla umræðu um góðu borgina okkar.

Reply

or to participate.