- Kjarnyrt
- Posts
- Hvers virði er húsnæðisöryggi?
Hvers virði er húsnæðisöryggi?
Einstaklingshyggja felur í sér að það sé ekkert samfélag, bara einstaklingar eða hópar sem takast á um gæðin og verðmætin. Hún byggir á þeirri hugmynd að ákveðið fólk sem fæðist inn í þessa hópa eða er fengið inn í þá sé með einhverjum hætti verðmætara en annað. Það eigi meira skilið. Þessi hugmyndafræði birtist skýrt í helstu áherslum Viðskiptaráðs, hugveitu hægri stjórnmála á Íslandi, sem er kyrfilegur hluti af valdakerfi þeirra. Nýjasta útspil þess snýst um að það líti á íbúðir sem fjárfestingavöru til að græða á, ekki húsnæði til að búa í.
Viðskiptaráð kvartaði nýverið til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, vegna þess að því finnst hið opinbera veita of mikið af stuðningi til óhagnaðardrifinna leigufélaga. Ráðið telur að fyrirkomulagið sé ósanngjarnt gagnvart öðrum sem starfa á húsnæðismarkaði. Það dragi úr samkeppni og jafnræði, skekki markaðinn og sé brot á EES-samningnum.
Á mannamáli þýðir þetta að Viðskiptaráð telur, samkvæmt kærunni, byggingu 1.600 íbúða af félögum sem hafa það markmið að tryggja fólki viðráðanlega leigu og húsnæðisöryggi án þess að nokkur annar græði á því einhvern óskapnað sem hindri þá sem vilja græða á húsnæðismarkaði frá því að gera það. Enn verra sé að til standi að um þrjú þúsund af rúmlega níu þúsund sem til stendur að byggja í Reykjavík á næstu árum eigi þjóna þessu félagslega hlutverki.
Viðskiptaráð er á þeirri skoðun að þessi uppbygging sé stækt óréttlæti. Það er þeirrar skoðunar að íbúðir eigi frekar að vera fjárfestingavara en heimili.
Félagslega kerfið sem var
Áður en þessi firra er tækluð skulum við fara í smá sagnfræði. Á Íslandi var til staðar félagslegt íbúðakerfi, að hluta til kennt við verkamannabústaði, í hartnær 70 ár. Tilgangur þess var að tryggja tekjulágu fólki þak yfir höfuðið, annaðhvort með því að veita þeim félagsleg lán til að kaupa húsnæði á lágum vöxtum eða leigja því húsnæði gegn hóflegu gjaldi. Seint á síðustu öld voru félagslegu íbúðirnar í landinu rúmlega ellefu þúsund talsins, á tíma þegar íbúar landsins voru sirka 118 þúsund færri en þeir eru í dag.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem tók við völdum árið 1995 undir forsæti Davíðs Oddssonar, er mesta nýfrjálshyggju-ríkisstjórn lýðveldistímans. Hennar mottó var að selja sem flestar ríkiseignir, minnka hlutverk ríkisins og lækka á móti skatta. Afleiðingar þessa kokteils voru alls konar, og alls ekki allar neikvæðar.
En heilt yfir hefur sennilega öllum orðið ljóst að einstaklingshyggjan og Thatcherisminn sem þessi stjórn lagði alla áherslu á er grundvöllurinn að þeim gríðarlegu áhrifum sem alþjóðlega fjármálakreppan hafði á Ísland og leiddi af sér íslenska bankahrunið á haustmánuðum 2008, með tilheyrandi áhrifum á ríkissjóð, efnahag fjölda margra venjulegra Íslendinga og þjóðarsálina.
Svartur dagur
Á meðal þess sem nýfrjálshyggjustjórnin beindi sjónum sínum að var húsnæðiskerfið. Hún lagði niður Húsnæðisstofnun ríkisins, hætti félagslegum lánveitingum og aflagði alla lánastarfsemi Byggingasjóðs verkamanna. Félagslega íbúðarkerfið var lagt niður með lögum sem tóku gildi á síðasta ári síðustu aldar.
Vegna þess að mikið er rætt um málþóf þessa dagana þá er vert að minnast þess að í stjórnarandstöðu á þessum tíma var fólk sem sá fyrir að þetta væri alvarlegur afleikur. Þar fór fremst Jóhanna Sigurðardóttir, síðar forsætisráðherra, sem flutti lengstu ræðu Íslandssögunnar við aðra umræðu til að sýna andstöðu sína.

Jóhanna Sigurðardóttir varð formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra árið 2009. Mynd: Samfylkingin
Andstaða Jóhönnu eldist vel, enda snerist hún um rétt viðkvæmra hópa til að vera með þak yfir höfuðið. Upplifa húsnæðisöryggi. Ekki hundaflaut átta þingmanna af 63 úr einum flokki af sex um að fólk eigi að vera hrætt við bókun við samning eða sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokks fyrir stórútgerðina í landinu. Í ræðu sem Jóhanna flutti við afgreiðslu málsins sagði hún málið vera ósvífnustu og grimmilegustu atlögu sem sést hefði um áratugaskeið að kjörum fátæks fólks á Íslandi. „Þetta er svartur dagur í sögu félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum fátæks fólks á Íslandi.“
Ræða Jóhönnu eldist vel.
Eitt af stærri hagstjórnarmistökunum
Ástæðan fyrir þessu öllu saman var barnaleg séreignarstefna þáverandi stjórnvalda. Hugmyndin var að nær allir ættu að eiga eigið húsnæði. Það myndi gerast ef félagslegir möguleikar yrðu einfaldlega fjarlægðir af markaðnum og lán til kaupa gerð aðgengilegri og hærri.
Með þeirri ákvörðun voru allir þeir sem áður bjuggu í félagslegu kerfi færðir inn í almennt kerfi. Þeir þurftu að taka lán á sömu kjörum og aðrir sem þar voru en höfðu meira á milli handanna eða keppa við þá um verulega takmarkað magn leiguíbúða. Þeir sem sátu í félagslegu íbúðunum akkúrat á þessum tíma fengu að kaupa eignirnar á lágu verði og þegar óumflýjanleg ruðningsáhrif á húsnæðismarkaði urðu gátu þeir selt þær með hagnaði. Þess vegna reyndist þessi aðgerð sértæk tilfærsla á fjármunum til afmarkaðs hóps.
Afleiðingin var að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Fjallað er um þessa ákvörðun í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um afleiðingar bankahrunsins. Þar segir að nefndin hafi flokkað ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi endurskipulagningu húsnæðismarkaðar og hækkun hámarkslánshlutfalls Íbúðalánasjóðs sem eitt af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna.
Í úttekt OECD sem birt var 2023 var greint frá því að íbúðaverð hefði hækkað meira á Íslandi en í nokkru öðru landi sem á aðild að stofnuninni áratuginn á undan. Þegar búið var að leiðrétta fyrir verðbólgu hafði verðið rúmlega tvöfaldast. Hækkað um 104 prósent á tíu árum. Til samanburðar hækkaði húsnæðisverð í Noregi að raunvirði um 23 prósent á sama tíma.
Þessi þróun gerði tekjulágum Íslendingum enn frekar erfitt, og í sumum tilvikum nær ómögulegt, að koma öruggu þaki yfir höfuðið.
Fólk með laun undir reglulegum meðallaunum
Samt var lítið eða ekkert gert í félagslegri uppbyggingu húsnæðis utan þess sem sveitarfélögin, og þá fyrst og síðast Reykjavík, gerðu árum saman, eða þangað til að lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Þau snúast um að slíkar íbúðir séu byggðar fyrir stofnframlög og hagstæð lán frá hinu opinbera af óhagnaðardrifnum leigufélögum. Þau lög, sem urðu grunnur að nýju íbúðakerfi, voru tilraun til að endurreisa á einhvern veginn ofangreindu félagslegu húsnæðiskerfi.
Íbúðirnar sem hafa fengið stofnframlög eru ætlaðar fyrir alls kyns hópa sem eru með lágar tekjur. Þar ber fyrst að nefna þá félagshópa sem eru undir skilgreindum tekju- og eignarviðmiðum. Bjarg, stærsta óhagnaðardrifna leigufélagið og það sem fer mest í taugarnar á Viðskiptaráði, er til að mynda með þau viðmið að einstaklingur sé ekki með meira en tæplega 724 þúsund krónur á mánuði.
Það eru laun sem eru vel undir meðaltali reglulegra launa á Íslandi í fyrra, sem voru 845 þúsund krónur á mánuði. Hjón eða sambúðarfólk mega ekki vera með meira en 1.013 þúsund krónur samtals á mánuði og svo má bæta við 181 þúsund krónum á hvert barn, fyrir skatta. Heimilið má ekki eiga eign sem er meira virði en 9,4 milljónir króna.
Fjöldi almennra íbúða sem hafa þegar risið er reyndar mun umfangsmeiri en þær sem tilteknar eru í kæru Viðskiptaráðs, sem ná bara yfir tiltekin húsnæðisfélög. Í nýlegu svari við fyrirspurn á Alþingi kemur fram að stofnframlögum hafi verið úthlutað til byggingar eða kaupa á 2.575 almennri íbúð frá því að lögin tóku gildi fyrir um níu árum síðan. Af þeim eru 1.704 í Reykjavík, eða tvær af hverjum þremur. Í almennum íbúðum búa 6.152 manns. Þar af búa 3.918 í Reykjavík.
Sveitarfélag | Almennar íbúðir (byggðar og keyptar) |
---|---|
Reykjavík | 1.704 |
Garðabær | 40 |
Kópavogur | 70 |
Hafnarfjörður | 219 |
Seltjarnarnes | 6 |
Mosfellsbær | 8 |
Hvers virði er húsnæðisöryggi?
Flestir íbúar landsins leigja af nauðsyn. Þeir hafa ekki ráð á öðru. Þess vegna skiptir miklu máli að þeir möguleikar sem þeim standi til boða séu á viðráðanlegu verði, sé vel við haldið og mæti þörfum fólks um stærð á húsnæði.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gerir leigumarkaðskönnun árlega. Sú nýjasta var birt í fyrrahaust. Þar kom fram að einungis þrjú prósent þeirra sem leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi eru óánægðir með leigusalann sinn en 68 prósent ánægðir. Á meðal þeirra sem leigja af einkareknum leigufélögum er um fimmtungur hins vegar óánægður. Húsnæðisöryggi mældist langmest hjá þeim sem leigja af óhagnaðardrifnum leigufélögum. Mesta húsnæðisóöryggið mælist hjá þeim sem leigja af einkareknum leigufélögum sem rekin eru í hagnaðarskyni.
Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi ef að minnsta kosti 40 prósent af ráðstöfunartekjum – því sem er eftir í veskinu eftir greiðslu skatta og gjalda – fer í að borga hann. Á íslenskum leigumarkaði er staðan þannig að meðalhlutfall þess sem fer í leigu er 44 prósent, sem þýðir að meðaltalið er yfir íþyngjandi-mörkunum. Hjá einkareknum leigufélögum greiddi um fimmtungur leigjenda 60 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Best var staðan hjá þeim sem leigja af ættingjum eða vinum eða af óhagnaðardrifnum leigufélögum. Í síðarnefnda hópnum var staðan þannig að 39 prósent greiddu innan við 30 prósent af ráðstöfunartekjum í húsaleigu.
Eftir að almenna íbúðakerfið tók kipp í umfangi hefur fjöldi þeirra leigjenda sem er að safna sér fyrir útborgun til íbúðarkaupa aukist hratt. Sá fjöldi var til að mynda 39 prósent árið 2023 en 52 prósent í fyrra.
Þeir sem telja sig meira virði en aðrir
Samandregið þá er Viðskiptaráð að fetta fingur út í framtak sem hefur stóraukið möguleika fjölda fólks á því að upplifa húsnæðisöryggi, fá húsnæði við hæfi og borga upphæð í húsnæðiskostnað sem er ekki það íþyngjandi að fólk geti varla gert neitt annað en að borga leigu. Þetta finnst Viðskiptaráði vera óskapnaður.
Og það þarf í raun ekkert að koma á óvart að hugveita sem er hluti af valdakerfi Sjálfstæðisflokksins, sem ríkti á Íslandi allt of lengi, setji einstaklingashyggju á oddinn, og trúi því ekki að það sé til neitt sem heiti samfélag. Þannig tónn er í nær öllum greiningum, skoðunum eða öðru efni sem ráðið sendir frá sér. Skilaboðin eru að tilgangur þorra fólks sé að vera einingar sem aðrir geti hagnast á. Hugmyndafræðin gengur út á að sumt fólk - þeirra fólk - búi yfir meiri verðleikum en annað vegna þess að það hefur betra aðgengi að völdum, upplýsingum og peningum. Það eigi meira skilið og fái það í gegnum valdakerfið sem mótast af hagsmunum þeirra.
Jafnaðarfólk er á annarri skoðun. Það hefur sýnt það í verki í stærsta sveitarfélagi landsins, þar sem það hefur stýrt málum meira og minna í rúmlega 30 ár, að það er ekki pólitískur ómöguleiki að breyta íslensku kerfunum úr því að vera valdakerfi þar sem gæðum er úthlutað í að vera þjónustukerfi þar sem gæði eru tryggð.
Nú er verið að gera slíkt hið sama, í öruggum skrefum, á landsvísu.
Reply