- Kjarnyrt
- Posts
- Kosningar sem geta leitt af sér nýtt upphaf á Íslandi
Kosningar sem geta leitt af sér nýtt upphaf á Íslandi
Í fyrsta sinn í Íslandssögunni eru bæði ytri aðstæður og niðurstöður kosninga fyrir hendi sem gera það mögulegt að ráðast í alvöru, sanngjarna og réttláta uppfærslu á kerfunum í íslenskri stjórnsýslu. Að búa til ríkisstjórn, undir forystu öflugra kvenna, sem ætlar sér að vinna fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt. Stjórn sem ætlar sér að ná alvöru efnahagslegum stöðugleika og byggja upp lífskjör og velferð á́ grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Hinn valkosturinn er enn ein valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli.
Niðurstöður kosninganna í gær eru nokkuð afgerandi ákall á nýja tíma. Samfylkingin er í annað sinn frá stofnun sinni stærsti flokkur landsins og á því að fá umboð til að mynda nýja stjórn. Hún fékk flest atkvæði, flesta þingmenn kjörna og er stærsti flokkur landsins í þremur kjördæmum. Árangurinn í Reykjavík norður er magnaður, en þar fékk Samfylkingin 50 prósent fleiri atkvæði en Sjálfstæðisflokkurinn, sem var næst stærstur. Í könnunum rétt fyrir kosningar kom skýrt fram að flestir vilja að Kristrún Frostadóttir verði næsti forsætisráðherra þjóðarinnar. Raunar vildu enn fleiri að hún yrði næsti fjármála- og efnahagsráðherra og kannski er ákall á að Kristrún taki hluta af efnahagsstjórninni með sér inn í forsætisráðuneytið, setjist hún þangað líkt og vilji kjósenda stendur til. Þeir skildu Planið og vilja sjá því hrint í framkvæmd.

Kristrún Frostadóttir leiddi Samfylkinguna til sögulegs sigurs í gær. Mynd: Samfylkingin
Hinir sigurvegarar kosninganna eru Viðreisn, sem fær sína langbestu útkomu frá því að flokkurinn var stofnaður, og Flokkur fólksins, sem er nú fjórði stærsti flokkur landsins og hefur aldrei fengið jafn mörg atkvæði. Sá fyrrnefndi er næst stærstur í tveimur af stærstu kjördæmunum, Kraganum og Reykjavík suður þar sem Viðreisn fékk fleiri atkvæði en Sjálfstæðisflokkurinn. Sá síðarnefndi náði því líka að vera stærsti flokkurinn í víðfeðmasta kjördæmi landsins, Suðurkjördæmi, sem hefur nær alltaf verið mikið vígi Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna. Sú niðurstaða er ákveðið afrek.
Klofningurinn stærri en móðurflokkurinn
Miðflokkurinn fékk líka sína bestu útkomu í kosningum síðan að hann var stofnaður í skyndi fyrir kosningarnar 2017 en í ljósi þess að hann mældist næst stærsti flokkur landsins í könnun Gallup um miðjan nóvembermánuð þá hlýtur niðurstaðan, að vera næst minnstur þeirra sem munu sitja á nýju þingi, að vera nokkuð súrsæt. Flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar getur þó huggað sig við það að hann er umtalsvert stærri en flokkurinn sem hann klauf sig frá, Framsókn, og nær í fyrsta sinn fleiri þingmönnum inn en gamli móðurflokkurinn.
Framsókn beið algjört afhroð. Þrír ráðherrar hans féllu af þingi, þar af bæði varaformaður og ritari flokksins. Stjörnur kosninganna 2021 heilluðu ekki marga þremur árum síðar. Til að átta sig á því hversu vond niðurstaða flokksins er þá hafði Framsókn minnst fengið 10,6 prósent í kosningunum 2017. Nú fékk hann meira en fjórðungi minna fylgi en þá og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, datt ekki inn sem jöfnunarmaður fyrr en í allra síðustu tölum. Framsóknarflokkurinn á nú engan þingmann á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ⅔ hluti landsmanna búa.
Versta niðurstaða sögunnar
RÚV úrskurðaði niðurstöðu Sjálfstæðisflokksins sem „varnarsigur“. Það er áhugaverð túlkun á verstu niðurstöðu flokksins í sögunni, fyrsta skiptinu sem hann nær ekki að taka til sín að minnsta kosti fimmtung atkvæða og í annað sinn frá því fyrir seinni heimsstyrjöld sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stærsti flokkur landsins á þingi. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei haft jafn fáa þingmenn og nú síðan að 63 þingmanna fyrirkomulagið var tekið upp.
Formaður flokksins, óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, hefur gert það að listgrein að skilgreina tap sem einhverskonar sigur.
Til að setja stöðuna í annað samhengi má nefna að um síðustu áramót hafði Sjálfstæðisflokkurinn einungis tvívegis mælst með undir 20 prósent fylgi í sögu skoðanakannana á Íslandi, í apríl 2022 og nóvember 2023. Í bæði skiptin mældist fylgið 19,8 prósent.
Formaður flokksins, óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, hefur gert það að listgrein að skilgreina tap sem einhverskonar sigur. Hann hefur enda stýrt flokknum næst lengst allra formanna og náð að fram sex af sjö verstu kosninganiðurstöðum hans. Í könnun Maskínu í nóvember kom fram að einungis einn af hverjum tíu landsmönnum vilja Bjarna sem forsætisráðherra.
Töpuðu nær öllum tekjunum sínum
Vinstri græn verða varla mikið i lengur til, að minnsta kosti í þeirri mynd sem hann hefur verið, eftir þessar kosningar. Flokkurinn á reyndar níu sveitarstjórnarfulltrúa, þar af einn í Reykjavík sem fékk fjögur prósent atkvæða vorið 2022, en í ljósi þess að Vinstri græn fengu einungis 2,3 prósent allra greiddra atkvæða í kosningunum um helgina þá munu þau ekki fá framlög úr ríkissjóði á komandi kjörtímabili. Til þess þarf að rjúfa 2,5 prósent múrinn, sem bæði Sósíalistar og Píratar gerðu þótt þeir næðu ekki manni inn. Í fyrra komu 84,4 prósent allra tekna Vinstri grænna úr ríkissjóði, alls 99 milljónir króna af 117,2 milljónum króna sem skiluðu sér í kassann. Það verður að minnsta kosti áskorun að ætla að halda úti boðlegu flokksstarfi þegar nær allar tekjurnar sem eiga að standa undir því eru ekki lengur til staðar.
Samanlagt náðu flokkarnir sem setið hafa að völdum frá árinu 2017 einungis 29,5 prósent fylgi samanlagt. Þeir töpuðu næstum helmingnum af þeim stuðningi sem þeim var veittur í síðustu kosningum á undan þessum.
Mikið af atkvæðum féllu niður dauð
Píratar, sem hafa setið á þingi frá 2013 og mældust þremur árum síðar með 36 prósent fylgi í könnunum Gallups, ná yfir þröskuldinn og fá einhverjar greiðslur úr ríkissjóði á komandi kjörtímabili. Það er því ekki útilokað að flokkurinn geti lifað af, og stutt við þá fjóra fulltrúa sem hann á í sveitarstjórnum landsins. Þrír þeirra sitja í Reykjavík þar sem Píratar hafa verið í meirihluta með öðrum félagshyggjuflokkum síðastliðin tíu ár.
Sósíalistaflokkurinn náði sömuleiðis yfir 2,5 prósent og fær greiðslur úr ríkissjóði. Hann á tvo borgarfulltrúa í Reykjavík á sveitarstjórnarstiginu og gæti því lifað áfram sé áhugi í grasrótinni fyrir því. Það hlýtur þó að vera mikið áhyggjuefni fyrir þessa tvo vinstri flokka, og frjálslynda félagshyggjuaflið Pírata, að samanlagt fylgi þeirra upp á 9,3 prósent hafi ekki skilað þeim einum einasta þingmanni.
Ríkisstjórn sterkra kvenna í kortunum
Ýmsir möguleikar eru uppi hvað varðar ríkisstjórn. Sá augljósasti er ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, með 36 þingmenn á móti 27. Hún yrði fyrsta ríkisstjórn Íslandssögunnar sem leidd yrði af þremur konum og hefði á bakvið sig mjög sterkan meirihluta til að ráðast í réttlátar og sanngjarnar breytingar á þeim kerfum sem þarf að uppfæra á Íslandi.
Þetta er ágætis grunnur til að mynda ríkisstjórn breytinga, réttlætis og sanngirni sem getur uppfært Ísland á næstu árum.
Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins eru allir sammála um að styrk efnahagsstjórn sem nær hratt niður vaxtarstiginu og lækkar ofurskatt vaxtabyrðar sem sitjandi ríkisstjórn lagði á heimili landsins sé forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar. Flokkarnir eru allir sammála um að það þurfi að ráðast í stórátak í uppbyggingu húsnæðis til að mæta því neyðarástandi sem ríkir í þeim málaflokki, og nokkuð góður samhljómur er með mörgum þeirra leiða sem þeir vilja fara til að ná því markmiði.

Ríkisstjórn þriggja sterkra kvenna eða enn ein valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli. Mynd: RÚV
Allir hafa flokkarnir talað fyrir aukinni velferð og bættri heilbrigðisþjónustu. Allir eru þeir sammála um breytingar á gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda og allir eru þeir sammála um aukna orkuvinnslu til að standa undir kostnaði við stóraukna fjárfestingu í innviðum. Allir eru flokkarnir þrír líka sammála um mikilvægi þess að ráðast í stórátak í geðheilbrigðismálum á breiðum grundvelli. Þetta er ágætis grunnur til að mynda ríkisstjórn breytinga, réttlætis og sanngirni sem getur uppfært Ísland á næstu árum.
Forðist hægri glundroðann sem drepur samstarfsflokka
Þeir flokkar sem eru að velta fyrir sér hvort það sé kannski góð hugmynd að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar, sem sannarlega er hægt, ættu að splæsa símtali á Bjarta framtíð og Vinstri græn, flokka sem þurrkuðust báðir út af þingi eftir að hafa lagt í slíkt samstarf. Eða bara Viðreisn og Framsóknarflokk sem báðir fengu sína verstu niðurstöðu í sögunni eftir að hafa setið í stjórn með Sjálfstæðisflokki Bjarna.
Þeir mega líka hugsa um hvort Sjálfstæðisflokkur Bjarna sé yfirhöfuð stjórntækur. Hann hefur setið í ríkisstjórn samfleytt frá árinu 2013 en einungis einu sinni lokið heilu kjörtímabili. Í tvívegis hefur stjórn flokksins sprungið vegna hneykslismála sem tengdust formanninum og síðast sprengdi hann stjórnina sjálfur, eftir að hluti flokksins hafði verið meira og minna í stjórnarandstöðu allt síðasta kjörtímabil. Það er því erfitt að selja Sjálfstæðisflokkinn sem ímynd pólitísks stöðugleika. Þá liggur fyrir að afleit efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins á síðustu árum hefur hækkað vexti, hækkað verð og hækkað skatta á hinn almenna mann frá árinu 2013. Ófjármagnaðar skattalækkanir á breiðustu bökin skiluðu því að ríkissjóður hefur verið rekinn í halla í sex ár í röð og Sjálfstæðisflokkurinn stefndi að því að gera það í þrjú ár í viðbót.
Fyrir kosningarnar 2021 lofaði Bjarni og flokkurinn því að verðbólga og vextir yrðu lágir ef kjósendur myndu bara kjósa þá áfram til valda. Niðurstaðan varð verðbólga sem fór í tveggja stafa tölu og stýrivextir sem voru yfir níu prósent í 15 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn er því ekki ímynd efnahagslegs stöðugleika heldur.
Kjósendur vilja uppfærslu
Nýtt upphaf blasir við á Íslandi. Nú er tækifæri til að mynda frjálslynda félagshyggjustjórn sem lætur almannahag, ekki sérhagsmuni, ráða för. Stjórn sem setur sér skýr markmið og togar öll í sömu átt, í stað þess glundroða sem ríkt hefur á nýliðnu kjörtímabili.
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég að það væri ekki einhver pólitískur ómöguleiki að breyta íslensku kerfunum úr því að vera valdakerfi þar sem gæðum er úthlutað í að vera þjónustukerfi þar sem gæði eru tryggð. Og að það væri vel hægt að gera það án þess að auka álögur á heimilin í landinu.
Niðurstöður kosninganna sýna að það er nú möguleiki á að innleiða þessar breytingar. Það er gerlegt að ráðast í alvöru uppfærslu. Ná alvöru efnahagslegum stöðugleika og byggja upp lífskjör og velferð á́ grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Það er hægt að mynda ríkisstjórn sem starfar fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt.
Vonandi ber okkur gæfa til að koma slíkri ríkisstjórn á. Hinn valkosturinn er enda bara enn ein valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli líkt og verið hefur meira og minna síðastliðinn rúman áratug.
Skýrasta niðurstaða nýafstaðinna kosninga var að það er enginn salur fyrir slíkri.
Reply