- Kjarnyrt
- Posts
- Loksins sjáum við hugarfar þjónandi stjórnsýslu
Loksins sjáum við hugarfar þjónandi stjórnsýslu
Það hefur legið fyrir árum saman að sveitarstjórnarstigið á Íslandi, með sínum 62 sveitarfélögum, er óhagvæmt á margan hátt. Mörg sveitarfélög geta ekki staðið undir því að veita grunnþjónustu og íbúar stærri sveitarfélaga þurfa margir hverjir að bera mun þyngri byrðar en aðrir íbúar þegar kemur að kostnaði vegna veittrar þjónustu. Það myndi spara marga milljarða króna á ári, sem nýst geta í betri þjónustu og uppbyggingu innviða, að fækka sveitarfélögum á Íslandi verulega. Nú er komin ríkisstjórn sem stefnir á það.
Eyjólfur Ármannsson, nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var til viðtals í Silfrinu á mánudag. Þar sagði hann meðal annars að það væri mikilvægt að innleiða hvata til þess að sveitarfélög á landsbyggðinni sjái hag sinn í að sameinast. „Það verður að styrkja sveitarfélög úti á landi. Þau verða að verða stærri og öflugri svo þau geti sinnt hlutverki sínu.“
Eyjólfur bætti við að það væri löngu orðið tímabært að hraða þeirri vegferð íslensk samfélags að fækka sveitarfélögum og gera þau öflugri. Eyjólfur hefur rétt fyrir sér.
Tvö sveitarfélög með 50 íbúa
Það eru 62 sveitarfélög á Íslandi. Tvö þeirra eru með 50 íbúa. Fjögur með færri en 100 og 26 með færri en eitt þúsund íbúa. alls 51 eru með færri en fimm þúsund íbúa, átta eru með fleiri en tíu þúsund íbúa og eitt, Reykjavík, er með fleiri en 50 þúsund íbúa. Í höfuðborginni búa raunar 138.510 manns, eða tæplega 36 prósent allra íbúa landsins. næstum tveir af hverjum þremur íbúum þess búa á höfuðborgarsvæðinu og um átta af hverjum tíu á suðvesturhorni Íslands.
Meðalútsvarsprósenta sveitarfélaga í ár verður 14,94 prósent. Það þýðir að langflest sveitarfélög eru með útsvarið, veigamesta tekjustofn þeirra, í botni, enda hámarksútsvar samkvæmt lögum nú 14,97 prósent. Einungis þrjú sveitarfélög eru með útsvarið undir 14 prósentum. Lægst er það í Fljótsdalshreppi, þar sem búa 90 manns, eða 12,44 prósent. Ástæðan er sú að þetta fjórða fámennasta sveitarfélag landsins býr svo vel að stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar er innan marka þess og þorri tekna sveitarfélagsins fellur til vegna fasteignaskatts sem greiddur er af því húsi. Fyrir vikið hafa tekjur á hvern íbúa stundum verið hæstar á landinu innan árs í Fljótsdalshreppi þrátt fyrir að íbúar þar þurfi að borga umtalsvert lægri skatta.
Milljörðum sóað í fitulag
Fyrir liggur að mörg sveitarfélög á landinu ráða ekki við að sinna grundvallarþjónustu fyrir íbúa sína. Þau eru einfaldlega of máttlítil á alla kanta. Það á ekki bara við um þau sem eru fámennari en sumir vinnustaðir á Íslandi, heldur líka um mörg þeirra sem eru með þúsundir íbúa. Þetta hefur legið fyrir lengi og meira að segja verið greint afar skilmerkilega. Það var gert í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um möguleika Íslands til langtímahagvaxtar, og birt var í nóvember 2012. Ein helsta tillagan sem þar var sett fram var að fækka sveitarfélögunum, sem þá voru 74, í tólf. Síðan eru liðin rúm tólf ár og þeim hefur að meðaltali fækkað um einungis eitt á ári.
Ríkisstjórnir síðastliðins rúma áratugar hafa einfaldlega ekki haft áhuga á því að nýta opinbert fé betur, og styrkja getu til að veita öfluga grunnþjónustu í nærsamfélaginu.
Það sjá allir með sæmilega dómgreind að það er hægt að nýta opinbert fé mun betur ef hætt verður að sóa milljörðum króna á ári í óþarft stjórnsýslulegt fitulag og smákóngaveldi sem virðast fyrst og síðast vera til þess fallið að tryggja pólitísk ítök. Áherslan hefur verið á að viðhalda valdakerfi, ekki þjónustukerfi.
Frekar horft í hina áttina
Fyrsta ríkisstjórnin sem tók við eftir að McKinsey-skýrslan kom út, og stakk henni djúpt ofan í skúffu, var skipuð Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Í stjórnarsáttmála hennar var mótuð stefna í þveröfuga átt frá almennri skynsemi. Þar stóð að stefna ætti að því að afnema lágmarksútsvar og í kjölfarið var lagt fram frumvarp þess efnis, sem blessunarlega var ekki samþykkt.
Ef þessi frjálshyggjudraumsýn hefði orðið að veruleika þá hefðu orðið til skattaparadísir innan sveitarfélaga, með tilheyrandi möguleika á „gervibúsetu“ þeirra sem hafa mestan áhuga á að greiða sem minnsta skatta. Íbúar þeirra sveitarfélaga sem áttu að fá að lækka skatta sína niður í lítið, eða jafnvel ekkert, myndu þá sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum. Ef þessi áform hefðu gengið eftir þá myndi sá hópur sem myndi hagnast á þessu fyrirkomulagi bætast í hóp fjármagnseigenda sem borga ekkert útsvar af sínum tekjum. Árlegt tap sveitarfélaga á útsvarsgreiðsluleysi fjármagnseigenda, sem eru að uppistöðu breiðustu bök samfélagsins, hefur verið metið á um tíu milljarða króna á ári á núvirði hið minnsta.
Hver íbúi í Reykjavik borgar 35 prósent meira
Það fyrirkomulag sem nú er við lýði gerir það að verkum að stærri sveitarfélög, og íbúar þeirra, greiða kostnaðinn af viljaleysi þeirra sem vilja halda sköttum til að standa undir grunnþjónustu í lágmarki og getuleysi þeirra sveitarfélaga sem hafa ekki bolmagn til að standa undir henni.
Skýrust er þessi staða á höfuðborgarsvæðinu. Skattgreiðendur í Reykjavík, lengi vel eina sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu sem stýrt var af öðrum en Sjálfstæðisflokknum, eða allt þar til að félagshyggju-meirihluti tók við í Mosfellsbæ 2022, bera til að mynda mun þyngri byrðar en aðrir íbúar þegar kemur að kostnaði vegna veittrar þjónustu.
Mest ber á milli þegar kemur að félagsþjónustu. Í tölum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman kemur fram að á árinu 2023 greiddi hver íbúi í Reykjavík 326.435 krónur í veitta félagsþjónustu. Hún hækkaði um tíu prósent milli ára og er langhæsta greiðsla á hvern íbúa hjá nokkru sveitarfélagi en vegið meðaltal var 241.088 krónur. Það þýðir að hver íbúi í höfuðborginni greiddi um 35 prósent meira í félagsþjónustu en meðallandsmaðurinn.

Íbúar í Reykjavík greiða mun meira í félagsþjónustu en íbúar annarra sveitarfélaga. Mynd: Mælaborð Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Þetta er ekki að öllu leyti óeðlilegt. Höfuðborgir heims hafa oftast nær stærra hlutverki að gegna við veitingu á félagsþjónustu en aðrar borgir og bæir og þær njóta þess líka að hafa umtalsverðar tekjur af því að flestar lykil stjórnsýslubyggingar eru staðsettar í þeim. Af því fá höfuðborgir umtalsverðar tekjur, til dæmis vegna fasteignagjalda.
Leiðir á nánast öllum sviðum
Íbúar í Garðabæ greiða minnst allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu í félagsþjónustu, eða 183.720 krónur hver íbúi. Kópavogsbúar borga aðeins meira, eða 191.056 krónur hver, og íbúar Seltjarnarness borga 198.784 krónur hver. Hafnfirðingar komast næst Reykvíkingum þegar kemur að því að greiða fyrir félagsþjónustu, með 255.678 krónur á hvern íbúa, og þar á eftir eru íbúar Mosfellsbæjar, sem greiddu að meðaltali 256.108 krónur hver.
Það hlutfall af skatttekjum Reykvíkinga sem fór í félagsþjónustu árið 2023 lækkaði úr 31,7 í 29,5 prósent. Einungis tvö önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjörður (23,1 prósent) og Mosfellsbær (22,2 prósent), nýttu yfir fimmtung skatttekna sinna í félagslega þjónustu. Í Kópavogi og á Seltjarnarnesi var hlutfallið rétt yfir 18 prósent en í Garðabæ 17 prósent.
Þegar fjárhagsaðstoð á íbúa er skoðuð kemur í ljós að hún nam 19.293 krónur á hvern íbúa í Reykjavík árið 2023. Hafnfirðingar voru þeir einu sem komust í tveggja stafa tölu utan þeirra, en þar nam fjárhagsaðstoð á íbúa 11.608 krónur.
Lægstar voru greiðslurnar á Seltjarnarnesi, þar sem hver íbúi greiddi einungis 1.833 krónur í fjárhagsaðstoð á ári en þær greiðslur lækkuðu um 36 prósent milli ára. Í Garðabæ var kostnaður á hvern íbúa 3.933 krónur eða 20 prósent af því sem hann var í Reykjavík. Í Mosfellsbæ var hann litlu meiri og hver Kópavogsbúi skreið rétt yfir sjö þúsund króna kostnað vegna veittrar fjárhagsaðstoðar á síðasta ári.
Eini flokkur félagslegrar þjónustu sem Reykjavík leiðir ekki er þjónusta við aldraða. Það gerðist í fyrra að Seltjarnarnes tók stökk upp úr 36.169 krónum á hvern íbúa og upp í 60.722 krónur. Á sama tíma greiddi hver íbúi í Reykjavík 52.312 krónur, hver íbúi í Mosfellsbæ 23.506 krónur og hver Hafnfirðingur 20.925 krónur. Hver íbúi í Kópavogi borgaði um 20.656 krónur en lægstur var kostnaðurinn milli ára í Garðabæ, alls 12.558 krónur.
Skortir getu til að takast á við flókin verkefni
Þörfin fyrir það að endurhugsa sveitarstjórnarstigið, og sameina sveitarfélög, birtist ekki bara í því hversu ósanngjarnar fjárhagslegu byrðarnar eru. Árið 2022 var birt skýrsla verkefnastjórnar um starfsaðstæður kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa sem skipuð var haustið 2021. Henni var ætlað að taka út starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Ástæðan var sú að endurnýjun í hópi sveitarstjórnarmanna hafði verið afar mikil hérlendis, og að afar hátt hlutfall gefi ekki kost á sér aftur til þátttöku í sveitarstjórnum eftir að hafa setið í þeim í eitt kjörtímabil.
Verkefnastjórnin sagði að ríki og sveitarfélög yrðu að taka höndum saman um að bæta vinnuaðstæður, stuðla að markvissari vinnubrögðum, tryggja réttindi og sanngjarnari kjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum í því skyni að efla sveitarfélögin. „Með sama hætti er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr hættunni á hvers kyns áreiti og ofbeldi í garð kjörinna fulltrúa. Brýnt er að veita kjörnum fulltrúum aukna fræðslu til að takast á við sífellt flóknara hlutverk sem og stuðning og ráðgjöf til að takast á við neikvæða fylgifiska þess.“

Sumir stjórnmálamenn hafa frekar verið á þeirri skoðun að ákveðin hverfi eigi að segja sig úr Reykjavík en að ýta eigi undir frekari sameiningar sveitarfélaga. Mynd: Vitya Maly
Hófleg niðurstaða hennar var sú að sveitarfélög með undir eitt þúsund íbúa þurfi að taka það til alvarlegrar skoðunar að sameinast öðrum. Þá myndi þeim hins vegar einungis fækka um 26 og yrðu enn 36.
Ef lesið er á milli línanna í skýrslunni liggur ljóst fyrir að allt of mörg sveitarfélög skortir getu til að takast á við flókin verkefni, til dæmis í skipulagsmálum. Það gerir þau vanmáttug þegar til að mynda stór alþjóðleg fyrirtæki vilja koma á fót starfsemi sem getur haft alls kyns neikvæð áhrif á samfélagið í heild en jákvæð áhrif á bankareikning fyrirtækjanna og þeirra einstaklinga sem þau fá til liðs við sig til að fá sínu fram.
Vilja frekar að hverfi segi sig úr borginni
Síðustu ár hefur umræðan hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokks, sem sat óslitið í ríkisstjórn frá 2013 og þangað til í desember í fyrra og er sá flokkur sem er með langflesta sveitarstjórnarfulltrúa, frekar verið á þann veg að það eigi að fjölga sveitarfélögum en fækka. Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og þáverandi ráðherra sveitarstjórnarmála, lagði fram frumvarp árið 2020 sem fól í sér að lágmarksfjöldi íbúafjölda sveitarfélaga skyldi vera eitt þúsund þá skrifaði Óli Björn Kárason, þá þingmaður Sjálfstæðisflokks, grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði frumvarpið byggja á valdboði og ganga „gegn hugmyndafræði sjálfsstjórnar og frelsis sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt á.“ Hugmyndafræði valdboðsins sem væri að baki lögþvingaðri sameiningu væri „ógeðfelld“.
Frumvarpinu var breytt áður en það var samþykkt á þann veg að mótbárum Óla Björns og flokkssystkina hans var mætt. Í stað þess að þvinga sveitarfélög sem voru undir mörkunum til að sameinast öðrum var sagt að stefnt skyldi að því. Í greinargerð frumvarpsins var meðal annars fjallað um hagræn áhrif fækkunar sveitarfélaga. Samkvæmt greiningunni var áætlað að hagræn áhrif kynnu að verða 3,6 til fimm milljarðar króna á verðlagi ársins 2021 vegna breyttra áherslna við rekstur sveitarfélaga. Á núvirði er sú upphæð frá fjórum til sex milljarðar króna.
Umræðan lagaðist ekkert þegar leið á seinna kjörtímabil ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum 2017. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lagði til að mynda til árið 2023 að Vesturbær Reykjavíkur ætti að ganga úr höfuðborginni og sameinast Seltjarnarnesi og að Grafarvogur ætti að gera slíkt hið sama til að geta runnið saman við Mosfellsbæ.
Markmiðið á að vera skilvirkni og betri þjónusta
Því er afar jákvætt að heyra þann nýja pólitíska tón sem ráðherra sveitarstjórnarmála í ríkisstjórninni sem tók við völdum skömmu fyrir jól hefur strax slegið. Það er kominn tími til að ræða sameiningu sveitarfélaga af fullri alvöru og með almannahag að leiðarljósi.
Samhliða þarf líka að endurskoða tekjustofna þeirra svo þau geti með góðu móti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu og fara yfir hvaða þjónusta sem nú er hjá ríkinu á betur heima hjá sveitarfélögum, og öfugt.
Með þessu fæst betri þjónusta, meiri nálægð við íbúa og það sparast milljarðar króna á ári sem geta þá nýst í uppbyggingu innviða, aðra fjárfestingu og í að mæta grunnþörfum íbúa.
Reply