• Kjarnyrt
  • Posts
  • Hvílum þá sem telja suma jafnari en alla hina

Hvílum þá sem telja suma jafnari en alla hina

Á meðan að vaxta- og skattbyrði hefur stóraukist á venjulegar vinnandi fjölskyldur á Íslandi á síðustu árum hefur hagur þeirra sem eiga mest í samfélaginu, og hagnast langt umfram aðra á kerfunum sem það byggir á, haldið áfram að blómstra. Auður og áhrif þeirra hafa haldið áfram að aukast ár frá ári. Kerfin byggja á þeirri hugmynd að sumt fólk, þiggjendurnir, búi yfir meiri verðleikum en annað. Stjórnmál þeirra sem byggðu kerfin snúast um að sannfæra þá sem þau gagnast lítið eða ekkert um hið gagnstæða. Þessu þarf að breyta. Og það þarf að breyta því núna.

Það er nánast þjóðaríþrótt hjá þeim sem líta svo á að íslensk stjórnkerfi eigi að virka til að auka hlut sumra á kostnað annarra að reyna að sannfæra venjulegt vinnandi fólk um að svart sé hvítt, að niður sé upp og að vaxandi ójöfnuður sé í raun hið gagnstæða. Þetta er ítrekað reynt að gera með því að tala um heildarumfang skattalækanna jafnvel þótt að beinharðar hagtölur sýni að þær hafi fyrst og síðast skilað lægri skattbyrði á efsta lagið í samfélaginu, það sem hefur miklar tekjur af fjármagni. En svæsnasta leiðin er afflutningur á eignaskiptingu og ójöfnuði út frá hlutfallstölu í stað þess að horfa á hana út frá krónutölu.

Nýlega var birt svar við árlegri fyrirspurn um skiptingu eigna og skulda á Alþingi. Þar kom fram að ríkasta 0,1 prósent landsmanna, sirka 269 fjölskyldur, hafi átt 382 milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót. Þessi hópur skuldar lítið sem ekkert. Eiginfjárhlutfall hans af eignum er um 98 prósent. Hver fjölskylda innan hópsins átti um 1,5 milljarð króna að meðaltali í eignum en skuldaði um 37 milljónir króna. Vitaskuld eru sumar fjölskyldurnar innan hópsins mun ríkari en aðrar þannig að meðaltalið segir minna en hálfa söguna um stöðu þeirra.

Ríkasta eitt prósentið, tæplega 2.700 fjölskyldur, átti svo 1.233 milljarða króna í eigin fé. Það skuldar líka lítið sem ekkert og eiginfjárhlutfallið er 96 prósent. 

Yfirstandandi ofurskattur vegna svimandi hárra vaxta sem leggst á venjulegt vinnandi fólk með húsnæðislán er því ekki að hafa nein neikvæð áhrif á þennan hóp. Þvert á móti hefur hann fengið mjög góða ávöxtun á innlánin sín í banka á þeim tíma sem vextir hafa verið á meðal þeirra hæstu í álfunni. 

Þetta er hópur sem hagnast á kerfunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forgöngu um að byggja upp og vernda. Kerfum fákeppni og fyrirgreiðslu. Vegna þessara kerfa hagnast þessi hópur jafnt í uppsveiflum sem niðursveiflum. Enda kerfin hönnuð með þarfir hans í huga. 

Eitt prósent tekið til sín 750 milljarða á áratug

Morgunblaðið gerði frétt um þessar tölur í síðustu viku. Stríðsfyrirsögn á forsíðu blaðsins nokkrum dögum fyrir kosningar var „Jöfnuðurinn jókst milli ára“. Þar var vísað í að hlutfall ríkasta fólks landsins af heildarauð hafi dregist saman. Og þetta er ekki beinlínis rangt, eins langt og það nær. En þetta er þekktur afflutningur settur fram til að afvegaleiða. 

Forsíða Morgunblaðsins nokkrum dögum fyrir þingkosningar. Mynd: Skjáskot

Morgunblaðið bendir til að mynda á að auður ríkasta eitt prósent landsmanna hafi farið úr 15 í 14,2 prósent á milli ára. Og á sama hátt má benda á að frá 2017, þegar fráfarandi ríkisstjórn settist að völdum, hafi hlutfallið farið úr 18,3 í 14,2 prósent. Þetta sé skýrt dæmi um meiri jöfnuð.

Málaflutningsmenn þessarar brauðmolakenningar hafa nefnilega talið sér trú um að jöfnuður sé þegar eignir lágtekjumannsins hækki um tíu prósent og eignir auðmannsins um sömu hlutfallstölu. Þeir kjósa að horfa framhjá því að fyrir þann sem á milljón krónur og ávaxtar hana um ofangreint hlutfall þá skilar það hundrað þúsund krónum. Fyrir auðmanninn sem á einn milljarð króna skilar það 100 milljónum króna. Þar munar 99,9 milljónum króna. 

Það er enda þannig að ríkasta prósent landsmanna hefur aukið auð sinn um 750 milljarða króna á síðustu tíu árum, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist aftur í ríkisstjórn. Hann hefur 2,5faldast á tímabilinu og heildar eigið fé þessa hóps var 1.233 milljarðar króna um síðustu áramót. Frá 2017 hefur auður hópsins aukist um 71 prósent. 

Hærra húsnæðisverð ráðandi breyta

Það er fáránlegt að bera saman eigið fé venjulegs fólks og þeirra sem skapa sér miklar tekjur af fjármagni. Klisjan um epli og appelsínur á sannarlega þar við. Fólk borðar fyrir krónur og aura, ekki hlutfallstölur. 

Heildarauður landsmanna hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Sá vöxtur hefur fyrst og síðast verið vegna þess að húsnæðisverð hefur hækkað meira á Íslandi en í nokkru öðru OECD-landi. Milli 2022 og 2023 mátti til að mynda rekja næstum 83 prósent aukningarinnar á eigin fé til þess að fasteignamat hækkaði. Raunar er það þannig að þorri landsmanna á fyrst og síðast steypu, 80 prósent af öllu eigin fé einstaklinga í landinu er bundið í fasteignum. 

Langflestir eiga bara íbúðina eða húsið sem þau búa í. Þau eru ekki að leysa út þann hagnað sem myndast og þurfa að kaupa sér nýtt þak yfir höfuðið ef það gamla er selt. Færa má sterk rök fyrir því að þessi stjarnfræðilega hækkun á húsnæðisverði sem orðið hefur á Íslandi, og er bein afleiðing af afleitri hagstjórn, valdi venjulegu vinnandi fólki meiri vandræðum en gagni jafnvel þótt hækkandi fasteignamat gefi til kynna einhvern uppsafnaðan auð. Skýrast er þar að benda á að hærra húsnæðisverði fylgja hærri lán og hærri greiðslubyrði. Þegar vextir og verðbólga skjótast upp líkt og á síðustu árum þá eykst vaxtabyrði heimila um tugi milljarða króna og sífellt fleiri eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman. Við þær aðstæður veitir vitund um hærra fasteignamat á íbúðinni enga tilfinningu um ríkidóm. 

269 fjölskyldur þénuðu fjórðung fjármagnstekna

Sá hópur sem getur hins vegar leyst út hagnað, og notað hann til að búa til meiri nothæfan auð, eru fjármagnseigendur og þeir sem eiga fasteignir sem fjárfestingarvöru. Í fyrra þénuðu þau tíu prósent landsmanna sem voru með hæstu tekjurnar 74 prósent allra fjármagnstekna, eða 211 milljarða króna. Hin 90 prósent landsmanna þénuðu 73 milljarða króna.  

Ríkasta eitt prósent landsmanna þénaði tæpan helming allra fjármagnstekna. Ríkasta 0,1 prósent landsmanna þénar um fjórðung allra fjármagnstekna. Þau voru alls með 68,5 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2023. 

Til að taka þetta saman þá þénaði ríkasta 0,1 prósent landsmanna, 269 fjölskyldur, næstum jafn mikið í fjármagnstekjur í fyrra og þau 90 prósent landsmanna, alls 241.698 fjölskyldur, sem höfðu lægstu tekjurnar. Þetta er einhverskonar jöfnuður í huga þeirra sem skilja ekkert hvað hugmyndir um jöfnuð, sanngirni og réttlæti snúast um. 

Verulega vanmetnar eignir þeirra ríkustu

Ef horft er á þann nýja auð sem orðið hefur til hérlendis frá því að ríkisstjórn sem tók við árið 2017 settist að völdum þá telur hann alls 5.031 milljarð króna samkvæmt tölum Hagstofunnar. 

Þorri þeirrar aukningar hefur orðið, líkt og rakið var að ofan, vegna hækkunar fasteignaverðs. Af þessum rúmlega fimm þúsund milljörðum króna hefur tæpur helmingur farið til þeirra tíu prósent landsmanna sem eru ríkust, rúmlega tíu prósent til ríkasta eins prósents landsmanna og þrjú prósent til ríkasta 0,1 prósentsins. 

Svo þarf að ítreka að eignir ríkustu hópa samfélagsins, þeirra sem hafa miklar tekjur af fjármagni, eru verulega vanmetnar í opinberum tölum. Þessir hópar eiga megin þorra þeirra hlutabréfa sem eru í eigu einstaklinga á Íslandi. Virði hlutabréfa í ofangreindum tölum er reiknað á nafnvirði, og sýnir því hvað var greitt fyrir þau, en ekki hvað væri hægt að fá fyrir bréfin yrðu þau seld. Dæmi um þetta eru kaup á bréfum í félagi sem hefur tífaldast í verði fyrir 500 milljónir króna. Ef bréfin yrðu seld í dag fengi viðkomandi fimm milljarða króna fyrir þau en í opinberum tölum eru þau enn talin fram sem 500 milljóna króna virði. Sömu sögu er að segja af fasteignum. Upplausnarverð þeirra er í flestum tilvikum vel yfir fasteignamati og þeir sem eiga margar fasteignir umfram eigin heimili – geta keypt þær sem fjárfestingarvörur – eiga þar töluverð óinnleyst verðmæti.

Skýrasta dæmið um vanmetnar eignir í eigu ríkra Íslendinga er svo fiskveiðikvótinn. Miðað við viðskipti sem gerð voru 2021 ætti upplausnarvirði kvótans að vera um 1.200 milljarðar króna á virði þess árs. Í gagnagrunni, sem Deloitte tekur árlega saman um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, var kvótinn hins vegar bókfærður á 460 milljarða króna í lok árs 2022. Hann var því vanmetinn um 740 milljarða króna. Eigið fé geirans, sem var 374 milljarðar króna samkvæmt gagnagrunninum, ætti því að vera rúmlega 1.100 milljarðar króna. Þar skeikar litlum 726 milljörðum króna.

Það þarf að breyta Íslandi

Á síðustu vikum höfum við fengið upp á borðið ýmsar staðreyndir. Ein er sú að skattbyrði þeirra 90 prósent landsmanna sem eru með lægstu tekjurnar hefur aukist á síðastliðnum áratug á meðan að skattbyrði þeirrar tíundar sem á og þénar mest hefur dregist saman.

Önnur er sú að kaupmáttur ungs fólks hefur dregist saman á síðustu tuttugu árum á meðan að kaupmáttur þeirra sem eru yfir sextugu hefur aukist verulega. Ójöfnuður milli kynslóða hefur með öðrum orðum stóraukist.

Enn ein er sú að stjarnfræðilega háir vextir, sem eru afleiðing af hræðilegri efnahagsstjórn síðustu ára, hafa lagt ofurskatt á venjulegt vinnandi fólk. Sá ofurskattur felst í því að heimilin í landinu borguðu 40 milljörðum krónum meira í vexti í fyrra en tveimur árum áður. Á sama tíma hafa þeir sem eiga mikið af peningum og skulda lítið eða ekkert notið þess að fá háa vexti á innlánin sín. 

Allt þetta byggir á einhverri skakkri hugmynd um að sumir búi yfir meiri verðleikum en aðrir vegna þess að þeir hafa betra aðgengi að völdum, upplýsingum og peningum. Allt þetta dregur úr samtakamætti og trausti í samfélaginu. Það er hægt að laga með því að stilla af kerfin og láta breiðu bökin greiða meira til samneyslunnar svo hægt sé að styrkja innviði og velferðarkerfi og létta byrðum af þeim sem eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman. Betra skatteftirlit til að koma í veg fyrir stórfellda skattasniðgöngu, hærri fjármagnstekjuskattur á það litla mengi sem þénar þorra fjármagnstekna og eðlileg auðlindagjöld sem skila meiru til eigenda auðlinda eru augljós, sanngjörn og réttlát fyrstu skref. 

Það mun næsta ríkisstjórn þurfa að innleiða. Það verður ekki létt, og þeir sem eru þiggjendur gildandi kerfa munu berjast hatrammlega gegn öllum þessum breytingum. Sú barátta er raunar þegar hafin.

Þau mega ekki vinna. Við megum ekki við því. Þess vegna þarf að mynda frjálslynda félagshyggjustjórn á grundvelli niðurstöðu kosninganna um liðna helgi. Stjórn nýrra tíma sem vinnur fyrir alla, ekki stjórn sem telur suma jafnari en aðra.

Það þarf að breyta Íslandi. Það þarf að gerast núna.

Reply

or to participate.