- Kjarnyrt
- Posts
- Nokkrar góðar ástæður fyrir því að það er vond hugmynd að selja Landsbankann
Nokkrar góðar ástæður fyrir því að það er vond hugmynd að selja Landsbankann
Til stendur að selja eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka á næstu mánuðum, enda ríkið orðið minnihlutaeigandi í þeim banka. Forsætisráðherra hefur hins vegar verið skýr með það að ekki komi til greina að selja stærsta banka landsins, Landsbankann, líkt og Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir. Ástæðurnar fyrir því að slík sala væri ekki góð hugmynd eru mýmargar. Hér er farið yfir þær helstu.
Ríkisbankinn Landsbankinn hagnaðist um 37,5 milljarða króna í fyrra. Það er umtalsvert betri niðurstaða en árið áður þegar hagnaðurinn nam 33,2 milljörðum króna og meira en 20 milljörðum krónum betri afkoma en árið 2022, þegar Landsbankinn hagnaðist um 17 milljarða króna.
Arðsemi eiginfjár, sá mælikvarði sem stjórnendur bankans nota til að mæla árangur ,fór úr því að vera 6,3 prósent árið 2022 í 11,6 prósent árið 2023 og í 12,1 prósent á síðasta ári. Þessi arðsemi náðist á eigin fé sem nam 325 milljörðum króna um síðustu áramót, en það jókst um 21 milljarð króna á árinu 2024. Eiginfjárhlutfallið, þegar búið er að taka tillit til 19 milljarða króna arðgreiðslu í ríkissjóð, var 24,3 prósent og vel yfir þeim eiginfjárkröfum sem eftirlitsaðilar setja.
Það þýðir á einföldu máli að ef Landsbankinn myndi selja allar eignir sínar á markaðsvirði og gera upp allar skuldir sínar þá myndi eigandinn, að uppistöðu almenningur á Íslandi, eiga 325 milljarða króna. Sú upphæð er nálægt efri mörkum þess sem Samtök atvinnulífsins telja, í nýframlögðum en endurunnum tillögum sínum um hagræðingu í ríkisrekstri, að hægt sé að fá fyrir bankann ef hann yrði seldur.

Samtök atvinnulífsins telja að ríkið geti fengið allt að 330 milljarða króna fyrir Landsbankann ef það ákveður að selja allt hlutafé hans. Mynd: Samtök atvinnulífsins
Sparnaður í vaxtagjöldum minni en arður
Tillögur samtakanna voru settar fram undir lok síðasta mánaðar. Í þeim segir að ríkið myndi selja eftirstandandi hlut sinn í Íslandsbanka, allt hlutafé í Landsbankanum, ÁTVR, Íslandspóst og fasteignir í eigu íslenska ríkisins upp á 30 til 60 milljarða króna, þá væri hægt að greiða niður ríkisskuldir um lækka árleg vaxtagjöld ríkissjóðs, sem eru áætluð 127 milljarðar króna í ár, um tíu til 20 milljarða króna á ári.

Úr tillögupakka Samtaka atvinnulífsins um hvað þurfi að selja af ríkiseignum til að ná niður vaxtagjöldum ríkisins. Mynd: Samtök atvinnulífsins
Árleg arðgreiðsla Landsbankans, sem nemur helmingi hagnaðar hans og myndi eðlilega ekki skila sér í ríkissjóð ef ríkið seldi bankann, er því alveg við efri mörk þess sparnaðar. Þá á eftir að taka tillit til arðgreiðslunnar sem Íslandsbanki mun greiða stærsta eiganda sínum og þess að ÁTVR hefur oft greitt arð af sinni starfsemi líka. Það liggur því fyrir að arðgreiðslurnar sem þessar eignir skila í ríkissjóð árlega eru hærri en væntur sparnaður í vaxtagreiðslum.
Því þarf það ekki að koma neinum á óvart að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi sagt það hátt og skýrt að það komi ekki til greina að selja Landsbankann. Einblínt verði á að selja eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka, þar sem ríkið er orðið minnihlutaeigandi eftir síðustu tvö söluferli.
Það þarf að selja banka með réttum hætti
Áherslan þar verður á að gera hlutina mun betur en þegar hlutur í bankanum var síðast seldur vorið 2022. Sú sala, og fúskið í kringum hana, markaði upphafið að endalokum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Til upprifjunar þá var ákveðið var að styðjast við fyrirkomulag sem var hvorki almennt né þannig að það hefði verið framkvæmt áður við sölu ríkiseigna á Íslandi. Um var að ræða svokallað lokaútboð þar sem bjóða átti völdum hópi fjárfesta, svokölluðum „hæfum fjárfestum“, að kaupa 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka eftir lokun á þriðjudegi og fyrir opnun þeirra á miðvikudegi.
Ferlinu var hrundið af stað 22. mars og hluturinn seldur fyrir 52,65 milljarða króna til samtals 207 fjárfesta. Það leið ekki langur tími þar til að ansi marga fór að gruna að maðkur væri í mysunni.
Þrýstingur skapaðist á stjórnvöld að opinbera hverjir hefðu fengið að kaupa. Á endanum höfðu þau ekki annan kost en að verða við þeim kröfum. Listinn opinberaði að á meðal þeirra 207 sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka voru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa í útboðinu, litlir fjárfestar sem rökstuddur grunur var um að uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlendir skammtímasjóðir sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir höfðu engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðarmenn, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og faðir þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra sem keypti fyrir um 55 milljónir króna.
Ætti að gera skilað um 100 milljörðum króna
Ríkisendurskoðun var fengin til að fara yfir söluferlið og skilaði af sér skýrslu í nóvember 2022 þar sem fellt var áfelli yfir ferlinu, og sérstaklega hlutverki Bankasýslunnar í því. Síðar komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að Bjarna Benediktssyni hefði skort hæfi til að selja félagi í eigu föður síns hlut í Íslandsbanka, sem leiddi til þess að Bjarni sagði af sér ráðherraembætti, og tók svo við öðru nokkrum dögum síðar.
Rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands skilaði því svo að Íslandsbanki viðurkenndi margháttuð lögbrot í söluferlinu og samþykkti að greiða næstum 1,2 milljarða króna í sekt í ríkissjóð, sem er metsekt. Enn er verið að rannsaka þátt annarra söluráðgjafa.
Nú er búið að leggja niður Bankasýsluna og sala á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka mun fara fram á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Söluferlið á að vera gagnsætt og traust og tryggja almenningi forgang að kaupum í bankanum. Miðað við markaðsvirði Íslandsbanka ætti salan á 42,5 prósent hlut ríkisins að gera skilað um 100 milljörðum króna í ríkiskassann sem gætu þá lækkað skuldir hans um þá upphæð.
Sameining Marel afar hagfelld
En aftur að Landsbankanum. Líkt og kom fram ofar þá er eiginfjárstaða hans töluvert betri en hún þarf að vera samkvæmt kröfum fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Markmið bankans er að viðhalda eiginfjárhlutfalli alls yfir 22 prósent á hverjum tíma og vera í hæsta flokki fyrir áhættuvegið eiginfjárhlutfall, eins og það er ákvarðað og metið af viðeigandi lánshæfismatsfyrirtækjum, eiginfjárhlutfall bankans í lok árs 2024 var 24,3 prósent. Það er því svigrúm til staðar hjá eiganda Landsbankans til að greiða sér út tugi milljarða króna í umfram eigið fé með sérstakri arðgreiðslu sé vilji til þess.
Í fyrra nam hreinn hagnaður af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði hjá bankanum um 12,7 en þar vega þyngst gangvirðisbreytingar verðbréfaeigna. Sú verðbréfaeign er fyrst og síðast 14,2 prósent hlutur Landsbankans í Eyri Invest, fjárfestingafélags sem var stærsti eigandi Marel áður en það félag sameinaðist hinu bandaríska JBT nýverið. Eyrir Invest gaf út tilkynningu í vikunni þar sem kom fram að eftir sameininguna, þar sem hluthafar í Marel fengu greitt fyrir hluti sína með blöndu af hlutabréfum í sameinuðu félagi (alls 6,6 prósent eignarhlut) og reiðufé, væri Eyrir skuldlaust félagi og ætti eigið fé upp á 62 milljarða króna. Til að tryggja áframhaldandi gagnsæi og samráð við hluthafa muni Eyrir Invest halda hluthafafund í febrúar.
Fordæmi fyrir útgreiðslu á sérstakri arðgreiðslu
Hluthafahópur Eyris Invest samanstendur af fjársterkum einstaklingum og stofnanafjárfestum. Erfitt er að sjá hvaða tilgangi það þjóni að halda þeim hópi saman undir hatti Eyris áfram, nú þegar samrunin er frágengin og búið er að gera upp allar skuldir. Það hlýtur því að koma til greina að slíta félaginu á hluthafafundinum síðar í mánuðinum. Miðað við að Landsbankinn hefur reynt að selja hlut sinn í Eyri Invest áður, bæði 2016 og 2018, í opnu söluferli en án árangurs, og að það er yfirlýst stefna bankans að selja eignir sem hann heldur á en eru ekki hluti af kjarnastarfsemi bankans, þá er að minnsta kosti hægt að draga þá ályktun að Landsbankinn muni styðja þá leið. Þá gæti opnast tækifæri fyrir bankann að greiða sérstaka arðgreiðslu í ríkissjóð.
Fordæmi eru fyrir því að greiða út slíkar sérstakar arðgreiðslur eftir stórar sölur í íslensku viðskiptalífi. Arion banki seldi greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor fyrir nokkrum árum og greiddi söluandvirðið út hluthafa. Síminn gerði slíkt hið sama þegar hann seldi Mílu og Origo líka eftir að hafa selt Tempo.
Kaupin á TM gætu reynst mikið gæfuspor
Þá liggur fyrir að Landsbankinn er langt kominn með að kaupa tryggingafélagið TM á 28,6 milljarða króna. Þau kaup eru enn til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu en búist er við niðurstöðu þess í næsta mánuði hið síðasta. Í ljósi þess að Arion banki á tryggingafélagið Vörð, og að VÍS sameinaðist fjárfestingabankanum Fossum fyrir ekki svo löngu, þá liggur fyrir að það eru skýr fordæmi um sameiningu banka og tryggingafélags.
Landsbankinn, sem er stærsti banki landsins, sér mikil tækifæri í kaupunum á TM. Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri sagði í tilkynningu til Kauphallar í mars í fyrra að kaupin væru „góð fjárfesting sem styrkir rekstur bankans og gerir hann verðmætari til framtíðar“. Þáverandi formaður bankaráðs Landsbankans sagði á sama stað að bankaráð og stjórnendur hefðu um nokkurt skeið skoðað kosti þess að bæta tryggingum við fjölbreytta þjónustu bankans, „enda fer tryggingastarfsemi og rekstur á stórum viðskiptabanka vel saman. Við teljum að með kaupum á TM muni bæði félögin eflast og styrkjast.“
Hugmyndin með kaupunum er, auðvitað og eðlilega, meiri samlegð. Landsbankinn er með fullt af viðskiptavinum, bæði á einstaklings- og fyrirtækjahliðinni í rekstri sínum. Kaupi hann tryggingafélag og fari að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör á tryggingum í kjölfarið þá getur það vissulega haft neikvæð áhrif á afkomu hinna tryggingafélaganna, en jákvæð áhrif á kjör neytenda í landinu.
Reply