• Kjarnyrt
  • Posts
  • ​​Stjórnin sem hlustaði á þjóðina og þeir sem eru dauðhræddir við hana

​​Stjórnin sem hlustaði á þjóðina og þeir sem eru dauðhræddir við hana

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar sýnir að hún ætlar sér að að taka á þeim málum sem allar mælingar segja að skipta þjóðina mestu máli núna, og leiða í jörð mál sem hafa sundrað henni áratugum saman. Hann sýnir að stjórnin ætlar sér af auðmýkt að vinna fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt. Konurnar eru mættar og þær ætla að uppfæra Ísland.

Þrjár konur hafa myndað ríkisstjórn á Íslandi. Þær innsigluðu það með hópfaðmlagi, ekki stífum handaböndum. Forsætisráðherrann er sá yngsti í Íslandssögunni og er auk þess yngsti þjóðarleiðtogi í heimi. Það eru fleiri konur í stjórninni en karlar, sjö á móti fjórum. Þetta gerðist í landi þar sem nýr forseti Íslands er kona, nýr biskup er kona, nýr forseti Alþingis er kona, nýr umboðsmaður Alþingis er kona og ríkislögreglustjórinn er kona. Allt er þetta nýtt, einstakt og nauðsynlegt. Það eru umbætur í loftinu. Það er verið að fara að uppfæra Ísland.

Ný ríkisstjórn var kynnt um liðna helgi. Mynd: Skjáskot

Sú breyting sést líka vel á stjórnarsáttmálanum sem var gerður milli flokkanna þriggja sem standa að nýju stjórninni. Það er þrennt sem skilgreinir hann. Í fyrsta lagi fjallar hann um þau mál sem brenna helst á flestum landsmönnum. Í öðru lagi þá mætir hann vilja þjóðarinnar í mörgum lykilmálum sem hafa orsakað sára sundrungu áratugum saman. Í þriðja lagi er hann réttlátur, skýr og skiljanlegur leiðarvísir samhentrar ríkisstjórnar sem ætlar sér að vinna að sameiginlegum markmiðum fyrir þjóðina, ekki bara raða sér á valdastóla til að verja ólíka sérhagsmuni líkt og hjá þeirri stjórn sem setið hefur síðustu sjö árin.

Hræðslan við uppstokkunina

Það var nokkuð kostulegt að upplifa raunverulegu hræðsluna hjá þeim sem haldið hafa á valdinu of lengi, eða þeim sem byggja tilveru sína á því að hanga í pilsfaldinum á þeim í von um brauðmola, þegar það loksins rann upp fyrir þeim að þetta væri sannarlega að gerast. Að frjálslynd félagshyggjustjórn þriggja sterkra kvenna sé tekin við völdum á Íslandi. Og að framundan séu löngu tímabærar breytingar. 

Þeir kepptust við að tala þessa nýju stöðu niður, efuðust um umboð og eftirspurn eftir flokkum sem eru með drjúgan meirihluta á þingi og gerðu lítið úr þeirri gjörbreyttu stefnu sem kynnt hefur verið almenningi. „Þunn súpa,“ sagði einn. „Rýrt í roðinu,“ sagði annar. „áberandi glufur,“ sagði sá þriðji.

Á viðbrögðunum sést líka sá veruleiki sem stjórnin mun þurfa að eiga við, dreginn upp af sérhagsmunaöflunum og miðlað áfram af fjölmiðlunum þeirra. Síðast þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin, árið 2009, þá keyptu þessi öfl gjaldþrota Morgunblaðið af banka til að fá „öðru­vísi tök á í umræð­unn­i.“ Það þýddi í raun að þau vildi koma í veg fyrir breytingar á sjávarútvegskerfinu, inngöngu í Evrópusambandið og að breyta umræðum um Icesave í pólitískt vopn. Til viðbótar var líka sér­stakt upp­legg að koma vinstri stjórn­inni sem sat á tíma­bil­inu 2009-2013 frá og að koma í veg fyrir stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar. Ég vann á Morgunblaðinu á þessum tíma og tilgangurinn var sannarlega ekkert leyndarmál. Honum var miðlað skýrt til starfsmanna. Hér sjáum við manninn sem leiddi kaupin segja frá þessu opinskátt í viðtali. 

Það má segja að þessi hópur hafi náð öllum sínum markmiðum með kaupunum. Við það skapaðist hvati til að halda áfram að dæla milljörðum, beint og óbeint, í útgáfuna án viðskiptalegra forsendna. Íslenskt fjölmiðlaumhverfi hefur líka veikst verulega síðan að eina hreina tveggja flokka vinstri stjórnin sat að völdum, og tök sérhagsmunahópanna á því styrkst. Ríkisstjórnin þarf því ekki einungis að há sína baráttu í sölum Alþingis heldur á vettvangi bjagaðs fjölmiðlaumhverfis.

Karlarnir stýra enn peningunum

Þótt konurnar séu sestar í helstu áhrifastöðu stjórnmála og stjórnsýslu þá er það ekki staðan í flestum öðrum áhrifastöðum samfélagsins. Á Íslandi flæða nefnilega þúsundir milljarða króna um æðar atvinnulífsins á hverju ári. Ákvarðanir eru teknar daglega um hvert þessir fjármunir eigi að fara, hvaða verkefni eigi að fá tækifæri og hver þyki ekki nægilega eftirsóknarverð til að gefa vængi. Þessum peningum, og kerfunum sem þeir flæða í gegnum, er stýrt af einstaklingum af holdi og blóði. Þorra þeirra er, og hefur verið, stýrt af körlum.

Þetta er ekki bara tilfinning, heldur staðreynd. Ég tók saman upplýsingar um þá sem stýrðu peningum á Íslandi í tíu ár í röð. Í síðustu úttektinni, sem var gerð í fyrra á áratugsafmæli þess að lög um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja tóku gildi, voru konur í 17 af þeim 115 störfum sem hún náði til, en karlar í 98. Á þessum tíu árum fór hlutfall kvenna sem stýrði fjármagni á Íslandi úr því að vera sjö prósent í 14,7 prósent. 

Stórbæta skattheimtu og glufum lokað

Stjórnarsáttmálar ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks áttu það sameiginlegt að vera löng orðasalöt sem höfðu fyrst og síðast þann tilgang að hver stjórnarflokkanna gat túlkað þau eftir eigin hentugleika og til heimabrúks. Sá fyrri var 6.212 orð og sá síðari, sem reyndi að setja Evrópu- og ólympíumet í að vera loðinn, heil 9.645 orð. 

Stjórnarsáttmáli fyrsta ráðuneytis Kristrúnar Frostadóttur er 1.566 orð, eða 16 prósent af þeim orðum sem fylltu sáttmála síðustu stjórnar á undan, sem þó var ekki sammála um neitt annað en að vilja stjórna. Samt er nýi sáttmálinn miklu innihaldsríkari, þótt í honum sé ekki að finna nákvæmar lýsingar á útfærslum. Hann er enda…stefnuyfirlýsing, ekki leiðbeiningarvísir um hvernig eigi að setja saman flókinn vélbúnað.

Þar er að finna áherslur og lausnir á því sem skiptir landsmenn mestu máli akkúrat núna, og fyrir liggur vilyrði um að brátt muni verða sett fram áætlun um þau verk sem ráðist verður í á fyrstu 100 dögunum. 

Um er að ræða boðaðar aðgerðir til að ná tökum á fjármálum ríkisins sem leiða til lægri vaxta fyrir heimilin. Ríkissjóður hefur verið rekinn í halla árum saman og vaxtabyrði heimila hefur aukist um tugi milljarða króna á ári vegna slælegra taka á efnahagsmálum þjóðarinnar. Ofurskattinum á venjuleg heimili verður lyft af. Nýja ríkisstjórnin ætlar að innleiða stöðugleikareglu og stórauka tekjur með því að „bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu“. Þetta verður meðal annars gert með því að innleiða nýjar stafrænar lausnir í skattskilum sem hafa skilað miklu betri skattheimtu, og þar af leiðandi miklu meiri tekjum, í ýmsum löndum í kringum okkur.

Það á líka að sýna ráðdeild í rekstri ríkissjóðs með því að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Þegar hefur verið ákveðið að sýna þann vilja í verki með því að fækka ráðuneytum um eitt. 

Innviðaskuld, húsnæðismál, biðlistar og lögreglumenn

Ríkisstjórnin ætlar að rjúfa kyrrstöðuna í samgöngumálum, vinna á mörg hundruð milljarða króna innviðaskuld í vegakerfinu, framfylgja samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með því að efla almenningssamgöngur og hefjast handa við Sundabraut. Í ljósi þess að mikilvægustu skrefin í átt að uppsetningu Borgarlínu verða tekin á komandi kjörtímabili þá er það ekki lítið mikilvægt að hér sitji stjórn sem styður það verkefni. 

Það verður ráðist í bráðaaðgerðir í húsnæðismálum vegna þess neyðarástands sem þar ríkir með fjölbreyttum aðgerðum. Þar mun plan Samfylkingarinnar, sem lagt var fram í aðdraganda síðustu kosninga, verða leiðarljósið og skila miklum árangri, bæði til skemmri og lengri tíma. 

Það þarf að bregðast hratt við því að sjúklingum á Landspítalanum hefur fjölgað miklu hraðar en starfsfólki og að fjármunum sé beinlínis sóað með því að láta eldra fólk liggja inni á spítalanum í dýrustu úrræðum sem við eigum þegar það þarf þess ekki. Það verður gert með þjóðarátaki í umönnun eldra fólks, meðal annars með fjölgun hjúkrunarrýma og eflingu heimahjúkrunar ásamt því að vinna að því þjóðarmarkmiði að allir landsmenn fái fastan heimilislækni. Það verður sérstök áhersla lögð á að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. 

Sú staða að almennir lögreglumenn séu nú jafn margir á vakt á höfuðborgarsvæðinu og þeir voru bara í Reykjavík árið 2007, þegar íbúarnir voru miklu færri verður tekin alvarlega og ráðist verður strax í að fjölga verulega starfandi lögreglumönnum.

Loksins réttlát auðlindagjöld

Þá ætlar nýja ríkisstjórnin að leiða í jörð mörg mál sem valdið hafa mikilli sundrungu árum og jafnvel áratugum saman á Íslandi. Svöðusár sem þarf að gera að, plástra og leyfa að gróa. 

Hún ætlar til að mynda, í takti við skýran og afgerandi þjóðarvilja, að koma á réttlátum auðlindagjöldum og hafa forgöngu um að samþykkt verði ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareign. Þá ætlar hún að gera auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi og skerpa á skilgreiningu tengdra aðila í sjávarútvegi. Lesið allt um stöðuna þar hér að neðan:

Auðlindarentan mun ná yfir fleiri atvinnuvegi sem nýta sér gæði landsins en sjávarútveg. Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar og ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu á því gjaldi verða innheimt komugjöld á ferðamenn sem koma til landsins. 

Þá skal ekki vanmeta þær aðgerðir og áherslur sem boðaðar eru í orkumálum. Að einfalda ferli leyfisveitinga, gera tímafresti lögbundna og skjalfesta að verkefni í nýtingarflokki rammaáætlunar verði látin njóta forgangs í stjórnsýslu orkumála mun liðka fyrir aukinni orkunýtingu. Nýr ráðherra málaflokksins gerði það líka ljóst á fyrsta degi í embætti að hann ætli að tryggja, og lögfesta, forgang heimila og smærri fyrirtækja að raforku.

Það liggur fyrir að í tíð síðustu ríkisstjórnar fóru af stað fjölmörg verkefni, mörg hver fjármögnuð af erlendum stórfyrirtækjum, sem höfðu það markmið að byggja upp vindmyllugarða í einkaeigu á Íslandi. Kannanir sýna þó, með ítrekuðum og skýrum hætti, að mikill meirihluti landsmanna vill að orkufyrirtæki í eigu hins opinbera, eins og Landsvirkjun, sjái ein um að virkja vindinn. Í ljósi þessa er afar mikilvægt að sjá það skrifað í stjórnarsáttmála að ný ríkisstjórn ætli að „vinna að breiðri sátt um lagaumgjörð vindorkunýtingar og sjá til þess að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags.“

Svartur blettur þrifin burt

Það á líka að innleiða keðjuábyrgð í stærri verklegum framkvæmdum, herða eftirlit með starfsmannaleigum, lögfesta skýrari refsiákvæði vegna vinnumansals og taka fast á öllum félagslegum undirboðum, sem eru því miður viðvarandi en svartur blettur á íslensku atvinnulífi sem allir ættu að vera sammála um að losna við. 

Þá ætlar stjórnin að hækka örorku- og ellilífeyri á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu, en þó aldrei minna en verðlag, og hækka almennt frítekjumark ellilífeyris í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði, taka upp frítekjumark ellilífeyris vegna vaxtatekna og draga úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna. Að hluta til er þarna um að ræða svipaða hluti og Bjarni Benediktsson lofaði að gera fyrir eldri borgara í frægu bréfi sem hann sendi þeim fyrir kosningarnar 2013, en stóð aldrei við á þeim ellefu árum sem hann stýrði landinu. 

Það þarf að treysta þjóðinni

Svo á auðvitað, loksins, að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. Slíkri atkvæðagreiðslu var lofað í aðdraganda kosninganna 2013 af Sjálfstæðisflokknum en það loforð svo svikið og vísað í „pólitískan ómöguleika“. Viðræðurnar voru í kjölfarið settar á hilluna. Allar kannanir hafa sýnt, árum, saman, að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styður að boðað verði til slíkrar atkvæðagreiðslu og í næstum tvö ár hafa þær líka sýnt að fleiri vilja ganga inn í sambandið en standa utan þess. Stjórnmálamenn sem treysta ekki þjóð sinni fyrir svona ákvörðun, eða treysta sér ekki til að framfylgja þjóðarviljanum komi hann skýrt fram í slíkri atkvæðagreiðslu, eru ekki merkilegur pappír. Og geta illa sagst vera að sinna þjónustu við almenning. 

Að lokum eru ýmis réttlætismál, jafnt á frjálslyndis- og félagshyggjugrunni, sem leiða á til lykta. Það á að leggja áherslu á að gefa innflytjendur tækifæri til að læra íslensku og taka virkan þátt í samfélaginu, gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýslu til að tryggja mannúðlegt og skilvirkt móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hægt er að lesa um helstu áskoranir Íslands í málefnum innflytjenda hér: 

Ríkisstjórnin ætlar að breyta fæðingarorlofskerfinu til að styrkja afkomuöryggi fjölskyldna, koma þróun barnabóta í fastar skorður svo að fjárhæðir fylgi launaþróun og stuðningur haldist stöðugur og breyta kosningalögum til að auka jafnræði í atkvæðavægi og þingsætadreifingu.

Það sem fólkið vildi

Í október birti Alþýðusamband Íslands (ASÍ) könnun, sem Gallup sá um, á afstöðu þjóðarinnar til ýmissa mála. Í niðurstöðum hennar mátti meðal annars sjá að 69 prósent svarenda töldu íslenskt samfélag vera á rangri leið þegar horft sé til hagsmuna almennings. Einungis kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru í meirihluta á öndverðri skoðun. Í þjóðmálakönnununum kom líka fram að um 85 prósent þjóðarinnar töldu síðustu stjórnvöld bera mikla ábyrgð á því ófremdarástandi sem ríki í húsnæðismálum hér á landi, að tæp 80 prósent þjóðarinnar telji að leggja eigi mikla áherslu á byggingu húsnæðis á vegum óhagnaðardrifinna félaga á næstu árum og að rúmlega 80 prósent hennar telji núverandi fyrirkomulag húsnæðislána ósanngjarnt. Þá töldu næstum átta af hverjum tíu að eftirlit með samkeppni á íslenskum neytendamarkaði væri of lítið og, ólíkt þeirri mynd sem ýmsir flokkar máluðu upp í kosningunum, þá telja um 60 prósent landsmanna að áhrif innflytjenda á íslenskt efnahagslíf séu jákvæð. Meirihluti er andvígur frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og 57 prósent sögðu að hlutdeild almennings í þeim arði sem verður til við nýtingu auðlinda sé ranglát. Einungis þrjú prósent landsmanna voru hlynnt því að nýting auðlinda til orkuframleiðslu sé að miklu eða öllu leyti í höndum einkafyrirtækja og 85 prósent vilja að hún eigi að miklu leyti eða alfarið að vera í höndum ríkisfyrirtækja. 

Það er ljóst að íslensk þjóð fékk ríkisstjórnina sem hún óskaði sér. Stjórnarsáttmálinn ber þess skýrt merki að við stýrið sé stjórn sem ætlar sér að fylgja vilja meirihluta almennings. Stjórn sem ætlar að ráðast í löngu nauðsynleg verkefni en líka að fjármagna þau með því að sækja auknar tekjur á breiðustu bökin. Stjórn sem ætlar að stýra fyrir alla, ekki bara suma. 

Hún er skipuð þeim þremur flokkum sem komu sem sigurvegarar út úr síðustu kosningum, sem eru með rúman meirihluta á þingi og með meirihluta þingmanna á bakvið sig. Samkvæmt könnunum var þetta stjórnarmynstrið sem flestir vildu og nýi forsætisráðherrann er sá sem þjóðin kallaði helst eftir að myndi leiða. 

Það er von og bjartsýni í loftinu. Það er meðbyr með Sólstöðustjórninni. Það er nýtt upphaf á Íslandi. Til hamingju með það og gleðilega hátíð.

Reply

or to participate.