- Kjarnyrt
- Posts
- Tíu atriði sem sýna tæmandi að leiðrétting veiðigjalda er eðlileg og réttlát aðgerð
Tíu atriði sem sýna tæmandi að leiðrétting veiðigjalda er eðlileg og réttlát aðgerð
Til stendur að leiðrétta veiðigjöld þannig að þau skili eiganda fiskveiðiauðlindarinnar auknum tekjum sem hægt er að nýta til innviðauppbyggingar. Fyrirséð var að þessari breytingu yrði mætt með harmakveinum og ofsa líkt og öllum öðrum slíkum í gegnum tíðina. Hér að neðan eru tíu spurningar og tíu svör sem rekja allar hliðar þessa máls, hrekja allan hræðsluáróðurinn og sýna fram á að það er ekki bara gerlegt heldur æskilegt fyrir útgerðina að friðmælast við þjóðina og greiða þau veiðigjöld fyrir afnot af þjóðarauðlindinni sem henni ber að greiða. Fyrir börnin.
1. Á þjóðin í alvöru þennan fisk? Á fiskurinn sig ekki bara sjálfur?
Fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða er eftirfarandi: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Þessi setning útskýrir sig nokkuð vel. Kvótakerfið varð til fyrir rúmlega 40 árum síðan. Þá fengu hópur fólks úthlutað þessari þjóðareign án endurgjalds. Nokkrum árum síðar fengu þessir hópar leyfi til að selja þá eign, sem þeir áttu ekki og borguðu ekki fyrir. Árið 1997 var svo ákveðið að hópurinn mætti veðsetja eignina sem hann átti ekki fyrir bankalánum. Þau gat hann notað til að kaupa aðra út úr greininni.
Sumir hlupu þó of hratt í gegnum gleðinnar dyr og í lok árs 2008, eftir bankahrun, skuldaði íslenskur sjávarútvegur föllnum bönkum um 560 milljarða króna á þávirði. Eiginfjárstaða hans var neikvæð um 80 milljarða króna. Eignir voru ansi langt frá því að duga fyrir skuldum. Þessar skuldir voru fluttar inn í nýja banka sem ríkið átti og almenningur í landinu bar ábyrgð á. Á þessum tíma hefði íslenska ríkið getað látið bankanna í sinni eigu ganga að veðunum fyrir lánunum sem útgerðirnar gátu ekki borgað.
Pólitískt skipuð sáttarnefnd ákvað hins vegar að gera þetta ekki. Í skýrslu hennar frá 2010 var lagt til að ráðist yrði í „frekari úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og setja skýrar reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja“ og að gerðir yrðu „samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr“.
Það er því ljóst að þjóðin á fiskveiðiauðlindina og að sátt sem gerð var 2010 fól í sér að hún gekk ekki að henni. Í staðinn áttu þeir sem fengu að veiða hana og vinna að borga fyrir það.
2. Hvað eru eiginlega þessi veiðigjöld? Taka þau ekki framtíðina í burtu frá börnunum okkar?
Árið 2012 voru sett á auðlindagjöld, sem í daglegu tali eru kölluð veiðigjöld. Í aðdraganda þess var hart tekist á. Útgerðarmenn boðuðu að allir myndu tapa stórt á þessari gjaldtöku. Einn forstjóri stórútgerðar sagði á borgarafundi að „afleiðingarnar af þessu blessaða veiðigjaldi, gangi það í gegn, verða margvíslegar. Þetta mun stöðva alla framþróun fyrirtækja, framleiðslubúnaður mun eldast, samkeppnishæfni mun stöðvast og við munum skapa minni verðmæti með meiri tilkostnaði.“ Undir lok erindis síns birti hann mynd af börnunum sínum og sagði: „Gerum þetta þannig að hún færi börnunum okkar líka framtíð.“ Á fremsta bekk gagnrýnenda sátu fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins og núverandi varaformaður flokksins, sem árum saman leiddi hagsmunagæsluarm stórútgerða.

Frétt DV um borgarafund sem fór fram árið 2012. Mynd: Tímarit.is
Skömmu síðar sigldu útgerðarmenn flotanum flautandi í land í Reykjavík til að mótmæla lögunum.
Í kjölfar álagningu veiðigjalda tók við mesta hagsældartímabil í sögu íslensks sjávarútvegs, methagnaður hefur verið ár eftir ár, fjárfesting í geiranum hefur aldrei verið meiri, skuldir hafa verið greiddar hratt niður og hann hefur tæknivæðst með miklum tilkostnaði og árangri. Má þar nefna hátæknivinnsluhús Samherja á Dalvík og botnfisksvinnslu Brim á Granda, sem báðar eru á meðal þeirra fullkomnustu í heimi. Engar líkur eru á því að vinnslu verði hætt í þessum vinnsluhúsum þótt útgerðum verði gert að verðleggja veiðar á markaðsverði.
Fyrir vikið er hann í fremstu röð í heiminum, ef ekki fremstur allra. Samhliða hafa stærstu eigendur útgerða orðið stórefnaðir á alþjóðlegan mælikvarða og margir þeirra eru þegar búnir að færa þann ávinning til næstu kynslóðar, barnanna sinna. Þeirra framtíð er því ágætlega tryggð.
Veiðigjöldin frá 2012 voru þannig að auðlindarentan var skilgreind og gjöldin áttu að verða 65 prósent hennar eftir fjögurra ára aðlögunartíma. Í þessum lögum var litið á veiðar og vinnslu sem eina heild. Eftir kosningarnar árið 2013 tók hins vegar við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem innleiddi frádrátt bókhaldslegra afskrifta og vaxtagjalda sem leiddu til lækkunar. Sjávarútvegsráðherra í þeirri ríkisstjórn var Sigurður Ingi Jóhannsson, nú formaður Framsóknar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra í ríkisstjórninni sem var mynduð árið 2013. Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra. Mynd: Skjáskot
Árið 2018, þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sat að völdum, tóku ný lög gildi sem fólu í sér afturhvarf til þeirrar skilgreiningar á auðlindarentu sem gömlu lögin studdust við en með ákveðnum frávikum. Þau voru meðal annars sú að veiðar og vinnsla voru aðgreind þannig að veiðigjöldin lögðust bara á veiðarnar og afskriftir og jafnháir vextir voru látnir koma í stað reiknaðs fjármagnskostnaðar. Það þýðir til dæmis að hægt er að fjárfesta í nýju skipi og nota þá fjárfestingu til að fá afslátt af veiðigjaldi þar til öll fjárfestingin hefur skilað sér aftur til útgerðar.
3. Og hvað? Er eitthvað að þessum lögum sem eru í gildi? Þarf eitthvað að breyta?
Á Íslandi er mjög algengt að stærstu fyrirtæki landsins í sjávarútvegi eigi alla virðiskeðjuna: veiðar, vinnslu, markaðssetningu og sölu afurðanna. Í því er falið mikið hagræði fyrir útgerðarrisanna en líka ákveðinn freistnivandi til að taka út hagnaðinn þar sem hann skilar þeim sem minnstum skattgreiðslum.
Þau lög um veiðigjöld sem eru í gildi eru gölluð. Ágallinn felst fyrst og síðast í því að útgerðir sem eiga alla ofangreinda virðiskeðju geta sjálfar ákveðið á hvaða verði þau selja vinnslum í eigin eigu fiskinn sem veiddur er. Veiðigjaldið leggst nefnilega einungis á aflann, og skiptist þannig að 33 prósent af virði hans fer í veiðigjald en útgerðin heldur eftir 67 prósent. Til einföldunnar skulum við segja að heildarafli sé að seljast á 100 milljónir króna á markaði en að útgerðin sé að selja sjálfri sér sama afla á 50 milljónir króna. Þá borgar hún bara veiðigjald af 50, ekki 100. Það er helmingsafsláttur af veiðigjöldunum. Til viðbótar tryggir þessi aðferð útgerðinni líka glufu til að greiða sjómönnum lægri laun og tækifæri til að lágmarka hafnargjöld, sem renna til sveitarfélaga. Enginn græðir á þessu fyrirkomulagi nema eigendur útgerðarinnar sem taka þann aukna hagnað bara út annarsstaðar í virðiskeðjunni.
Ein skýrasta birtingarmynd þess hversu sérkennilegt fyrirkomulagið er er sú að tekjur af veiðigjaldi hafa ekki staðið undir kostnaði við þá þjónustu sem ríkið veitir sjávarútvegi. Sá kostnaður, sem er meðal annars vegna rannsókna, eftirlits, rekstur Fiskistofu og verðlagsstofu skiptaverðs, var ellefu milljarðar króna árið 2023 á meðan að veiðigjöld voru um tíu milljarðar króna. Ríkið borgaði því með þjónustunni við útgerðina á einu besta rekstrarári hennar í sögunni.
4. Hvað er þá verið að gera núna?
Veiðigjöldin verða ekki hækkuð. Áfram er skiptingin sú að útgerðin fær 67 prósent af hverri veiðiferð en þarf að borga 33 prósent af henni fyrir afnotin.
Leiðréttingin sem nú verður innleidd felur hins vegar í sér að útgerðirnar verða látnar selja aflann til eigin vinnslna á markaðsvirði. Þær munu ekki lengur geta ákveðið verðið sjálfar svo veiðigjöldin verði lægri. Til að finna það verð er stuðst við tólf mánaða meðaltal á íslenskum fiskmarkaði fyrir þorsk og ýsu, en verð á markaði í Noregi, þar sem veiðar og vinnsla eru aðskilin með lögum og allur afli fer á markað, þegar kemur að síld, kolmunna og makríl. Hér er einfaldlega verið að finna bestu mögulegu viðmiðunarverð sem hægt er að finna fyrir sambærilega vöru. Greining hefur sýnt að verð fyrir síld er um 49 prósent dýrari á markaði í Noregi en hún er í viðskiptum íslenskra útgerða við sig sjálfar. Í tilfelli makríls er munurinn 117 prósent.
Þetta mun leiða til þess að sjávarútvegsfyrirtæki munu þurfa að borga rétt veiðigjöld. Hliðaráhrif af því eru að veiðigjöld munu sennilega tvöfaldast, og hefðu orðið um 20 milljarðar króna í fyrra í stað 10,2 milljarða króna. Þau munu þó áfram sveiflast með gengi greinarinnar. Ef hún mætir áskorunum þá dragast gjöldin saman. Ef henni gengur vel, líkt og henni hefur gengið meira og minna frá 2009, þá aukast þau.
5. Vill þjóðin í alvöru hærri veiðigjöld?
Svarið við því er klárt já. Í því samhengi má til dæmis benda á könnun Gallup frá því í ágúst 2021 þar sem niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Í sama mánuði sýndi önnur könnun að tveir af hverjum þremur landsmönnum eru óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi, 14 prósent voru ánægðir með hana og 64 prósent sögðu að hún ógnaði beinlínis lýðræðinu.
Sumarið 2022 birtist önnur könnun þar sem kom fram að 46 prósent kjósenda höfðu miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi en 28 prósent litlar. Sumarið 2023 birtist enn ein könnunin sem sýndi að um 57 prósent sögðust vetra ósátt með íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið en tæplega 23 prósent sátt. Í þeirri könnun var landsmönnum líka gefið tækifæri til að segja hvað þeim fannst ekki vera að virka og ráðandi í svörum þeirra var megn óánægja með að arðurinn af nýtingu þjóðarauðlindar rynnu til fárra í stað þess að nýtast við innviðauppbyggingu sem gagnist öllum.

Mun fleiri svarendur töldu að skipting auðlindakökunnar væri ranglát en réttlát. Mynd: ASÍ
Í fyrrahaust var svo gerð könnun þar sem fram kom að 57 prósent landsmanna töldu að hlutdeild almennings í arðinum af nýtingu auðlinda væri ranglát en einungis 26 prósent sögðu hana réttláta.
Skömmu síðar var kosið til Alþingis, þrír flokkar sem allir boðuðu aukin veiðigjöld fengu 36 af 63 þingsætum og mynduðu í kjölfarið ríkisstjórn. Í stefnuyfirlýsingu hennar var fyrsta markmiðið sagt vera að ná stjórn á fjármálum ríkisins. Annað markmiðið var að koma á réttlátum auðlindagjöldum sem renna ættu að hluta til nærsamfélagsins. Þessi ríkisstjórn nýtur stuðnings 67 prósent þjóðarinnar samkvæmt síðustu gerðu könnun og traust til Alþingis jókst úr 27 í 34 prósent eftir að hún settist að völdum.
Það er því nokkuð ljóst samkvæmt skoðanakönnunum og niðurstöðu lýðræðislegra kosninga hvað þjóðin vill. Þeir sem eru mjög á móti hærri veiðigjöldum eru stórútgerðir landsins, Morgunblaðið (í eigu stórútgerða landsins), Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og stundum Framsóknarflokkurinn.
6. En hvað með börnin? Hefur sjávarútvegur efni á að borga meira í veiðigjöld?
Stutta svarið er mjög skýrt já. Og það er hægt að sýna fram á það með nokkrum mismunandi leiðum.
Framlegð er hugtak sem notað er yfir tekjur að frádregnum svokölluðum breytilegum kostnaði. Til útskýringar þá virkar hún svona: útgerð þarf að kosta ákveðinni upphæð til að veiða fisk. Í henni felast kostnaður við skip, laun og allt annað slíkt. Hún selur svo vöruna á verði sem er hærra en það og mismunurinn er framlegð. Á árinu 2023 var framlegðin hjá útgerðum landsins 93,8 milljarðar króna. Ef sú leiðrétting sem nú á að innleiða við útreikning á veiðigjöldum hefði verið komin í virkni 2023 hefði framlegðin „aðeins“ verið 84,2 milljarðar króna.
Rekstrarhagnaðarhlutfall er hugtak sem fær flesta til að hugsa um skútu. En í einföldu máli sýnir það hvert hlutfall hagnaðar er af tekjum úr rekstri. Það er, hversu mikið af tekjunum endar beint í vasa eigenda en þarf ekki að fara aftur inn í reksturinn. Á árunum 2014 til 2023 var rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs að meðaltali 24 prósent. Í íslensku viðskiptahagkerfi var þetta hlutfall níu prósent á sama tíma, og það þykir almennt gott. Sjávarútvegur er því langarðbærasta atvinnugrein landsins, sem auk þess nýtur þeirrar sérstöðu að hagnast á nýtingu á auðlind sem skilgreind er þjóðareign. Ef sjávarútvegur hefur greitt níu milljörðum krónum meira í veiðigjöld á hverju ári á umræddu tímabili hefði rekstrarhagnaðarhlutfall hans farið úr 24 í 20 prósent. Það væri enn rúmlega tvöfalt á það sem gengur og gerist í íslensku viðskiptalífi. Tvær af hverjum tíu krónum sem verða til í rekstrinum færu áfram sem áður í vasa eigenda.

Sjávarútvegur mun áfram vera rúmlega tvisvar sinnum arðbærari atvinnugrein en meðaltalið í viðskiptahagkerfinu þrátt fyrir leiðréttingu veiðigjalda. Mynd: Stefán Ólafsson
Hagnaður er það sem situr eftir hjá fyrirtæki eftir að það hefur greitt allan kostnað, fjárfestingu og gjöld. Honum er almennt hægt að ráðstafa með tvennum hætti: það er hægt að greiða hann út sem arð til eigenda eða leggja hann við eigið fé fyrirtækja. Frá árinu 2009 og út árið 2023 var hagnaður sjávarútvegs, veiða og vinnslu, vel á sjöunda hundrað milljarða króna á gengi hvers árs fyrir sig. Á föstu gengi var hann miklu meiri. Önnur leið til að nálgast hagnaðinn er að skoða hver hann var áður en sjávarútvegur greiddi veiðigjald, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð. Frá árinu 2011 og út árið 2023 skiptist sá hagnaður þannig að sjö af hverjum tíu krónum fóru til útgerða en þrjár af hverjum tíu fóru til hins opinbera. Ef einungis er horft á árið 2023 þá var hagnaður sjávarútvegs það árið 67,5 milljarðar króna. Ef hann hefði greitt leiðrétt veiðigjöld á því ári þá hefði hagnaðurinn farið niður í 60 milljarða króna.
Eigið fé er virði eigna umfram skuldir. Í lok árs 2022, sem eru nýjustu birtu tölur, var bókfært eigið fé sjávarútvegs 449 milljarðar króna. Það hafði þá aukist um 150 milljarða króna á fimm árum. Eigið féð er um 173 milljörðum krónum meira en allt eigið fé þess 60 prósent hluta þjóðarinnar sem hefur lægstu tekjurnar. Vert er að taka fram að þetta eru peningarnir sem sitja eftir inni í fyrirtækjunum eftir að þau hafa greitt arð, skatta og gjöld og alla fjárfestingu. Til viðbótar liggur fyrir að virði eigna sjávarútvegs, yrðu þær seldar, er miklu meira en það er fært í bækur þeirra. Ástæðan liggur í því að aflaheimildir, kvóta, eru í mörgum tilvikum verulega vanmetnar. Þær eru bókfærðar á fimmta hundrað milljarða króna en ef miðað er við viðskipti sem gerð voru með kvóta árið 2021 er heildarvirði þeirra nær 1.200 milljörðum króna. Samkvæmt því myndu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja eiga vel yfir þúsund milljarða króna í reiðufé ef þeir myndu selja allar eignir sínar í geiranum og gera upp allar skuldir sínar.
7. En í alvöru, hvað með börnin?
Líkt og áður hefur komið fram þá hefur útgerðarfyrirtækjum gengið mjög vel á síðustu árum, eigendur margra þeirra hafa hagnast ævintýralega og hafa nýtt það fjármagn til að kaupa sig inn í allskyns ótengdan rekstur. Þar er átt við að peningar sem orðið hafa til vegna fiskveiða eru notaðir til að kaupa í fyrirtækjum sem hafa ekkert með þær að gera.
Í skýrslu sem var birt á Alþingi árið 2019 kom fram að tuttugu stærstu útgerðir landsins áttu bókfærða eignarhluti í öðrum félögum en útgerðarfélögum upp á að minnsta kosti tæplega 180 milljarða króna. Nýverið var lögð fram ný skýrslubeiðni um sama efni á þingi. Auk þess hefur verið lagt fram frumvarp sem er ætlað að auka gagnsæi í sjávarútvegi, aðlaga leikreglurnar sem tíðkast hafa í sjávarútvegi við aðrar og skilgreina systkini og sambúðarfólk sem tengda aðila. Ég skal slá því föstu að skýrslan og nýju lögin munu sýna umfangsmeiri eign tengdra aðila í ótengdum rekstri en var fyrir tæpum sex árum.

Á meðal innlendra framleiðslufyrirtækja sem eru nú í eigu eigenda sjávarútvegsfyrirtækja er Gunnars ehf., sem framleiðir majónes, sósur og ídýfur. Mynd: Skjáskot
Stærstu blokkirnar í íslenskum sjávarútvegi hafa nokkuð augljóslega úr miklu meira fé að spila en þarf í rekstur þeirra. Þá peninga hafa þær, eða eigendur þeirra, notað til að kaupa sig inn í rekstur beggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, banka, smásölurisa sem selja okkur matvöru, eldsneyti og aðrar daglegar nauðsynjar, skipafyrirtæki, innflutningsfyrirtæki, fiskeldi, velferðar- og heilbrigðisþjónustufyrirtæki, matvæla- og landbúnaðarframleiðslu, skyndibitakeðjur, sósugerðir og majonesframeiðslu, svo fátt eitt sé nefnt. Þá hefur þessi hópur verið afar stórtækur í uppkaupum á fasteignum og þróun á fasteignaverkefnum fyrir utan öll uppkaupin sem átt hafa sér stað utan landsteinanna, og hafa aldrei verið kortlögð með tæmandi hætti.
8. Er veiðigjald landsbyggðarskattur?
Fyrst ber að nefna að einn helsti tilgangur kvótakerfisins var að stuðla að hagræðingu í sjávarútvegi. Í henni fólst að fækka þeim sem gerðu út, með þeim afleiðingum að kvóti færðist frá ýmsum byggðum sem urðu til í kringum fiskveiðar. Guggan er ekki lengur gul víða um land.
Í nýjustu aðgengilegu tölum um hvernig kvótinn deilist niður á útgerðir þá kemur fram að tíu stærstu útgerðir landsins haldi samtals á tæplega 57 prósent alls úthlutaðs kvóta, og að 15 stærstu haldi á 69 prósent. Þrjú útgerðarfyrirtæki eru skráð á markað. Restin er í einkaeigu, oft fjölskyldna.
Það segir þó ekki alla söguna, þar sem að á milli margra þessara útgerða eru eignatengsl. Fjórar blokkir, sem hverfast um Samherja, Brim, Fisk Seafood (sjávarútvegsarmur Kaupfélags Skagfirðinga) og Ísfélagið, halda í dag á vel á sjötta tug prósenta af öllum úthlutuðum kvóta. Það þarf því ekki að óttast aukna samþjöppun. Hún er fyrir löngu búin að eiga sér stað.
Gagnrýnendur segja að leiðrétting veiðigjalda muni fyrst og síðast bitna á litlum og meðalstórum útgerðum úti á landi. Það stenst ekki nánari skoðun. Kerfið eins og það er í dag virkar þannig að í gildi er frítekjumark sem er að hámarki 3.390.432 krónur. Það þýðir í einföldu máli að þeir sem fá á sig veiðigjald upp á þeirri upphæð þurfa ekki að greiða krónu. Alls leggjast gjöldin á um 900 fyrirtæki. Af þeim nýtta einungis um 100 frítekjumarkið að fullu. Það þýðir að hin 800 eru þegar með svigrúm í óbreyttu kerfi áður en þau reka sig upp í frítekjumarksþakið. Til að vernda þessi fyrirtæki enn frekar fyrir áhrifum verður frítekjumarkið hækkað upp í að hámarki átta milljónir króna og gert þrepaskipt.
9. Mun leiðrétt veiðigjald gera út af við hinar dreifðu byggðir landsins?
Það er þannig að sex samstæður, stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, borguðu um helming allra veiðigjalda á síðasta ári. Samherji Ísland, Síldarvinnslan (Samherji á beint 30 prósent hlut í henni) og Vísir (í 100 prósent eigu Síldarvinnslunnar) borguðu samtals næstum 20 prósent af veiðigjaldinu. Brim, stærsta einstaka útgerð landsins, borgaði tæp tíu prósent, FISK Seafood og Vinnslustöðin (FISK á um þriðjung í henni) borguðu rúmlega átta prósent og Ísfélagið borgaði tæplega sjö prósent. Þetta eru langhagkvæmustu einingarnar í sjávarútvegi. Risafyrirtæki sem eiga meira og minna alla virðiskeðju sinna viðskipta og skila myljandi hagnaði á hverju ári.

Nokkrar stórar blokkir borga þorra veiðigjaldsins. Á því verður ekki breyting eftir leiðréttingu. Mynd: Skjáskot af vef Fiskistofu
Það sem af er liðið af þessu ári þá hefur 19,5 prósent af greiddu veiðigjaldi verið greitt af fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og þau fyrirtæki sem greitt hafa mest eru með heimilisfesti í 101 Reykjavík.

Mynd: Skjáskot af vef Fiskistofu
En helsta röksemdarfærslan gegn þessum hræðsluáróðri um að leiðrétting veiðigjalda hafi neikvæð áhrif á landsbyggðina liggur í því að þeir viðbótarfjármunir sem eiga að fást í ríkiskassann eiga að uppistöðu að fara í vegabætur á landsbyggðinni. Ekki veitir af, enda uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu komin í 265 til 290 milljarða króna. Fyrir liggur að aukið slit á kerfinu er að uppistöðu vegna stóraukinna þungaflutninga, enda sýna útreikningar að ein ferð 20 tonna vörubíls slítur vegum á við tíu þúsund ferðir tveggja tonna fólksbíls. Ein þeirra atvinnugreina sem nýtir vegakerfið hvað mest til þungaflutninga er sjávarútvegur.
10. Þannig að samandregið, er þetta þá ekki bara góð, sanngjörn og vel undirbyggð aðgerð sem ætti ekki að koma neinum á óvart?
Svarið við því er jú. Þetta er sanngjörn, réttlát og eðlileg leiðrétting sem atvinnugreinin ræður mjög vel við og mun leiða af sér hraðari uppbyggingu innviða á Íslandi. Litlum og meðalstórum útgerðum verður hlíft og ávinningurinn fer í uppbyggingu innviða. Líkt og ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála sagði nýverið þá er stóri landsbyggðarskatturinn „grotnandi innviðir, raforkuþurrð og ónýtir vegir. Skattur sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mun lækka hratt og örugglega.“
Reply