• Kjarnyrt
  • Posts
  • Vegferðin sem endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt

Vegferðin sem endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt

Það kostar íslenska ríkið 651 milljarð króna að leysa úr málum ÍL-sjóðs. Sú niðurstaða er betri en á horfðist og er afleiðing af aðgerðum ríkisstjórnar sem tók við fyrir innan við þremur mánuðum. Harmsaga sjóðsins teygir sig hins vegar aftur til ársins 2003 er saga ítrekaðra pólitískra mistaka. Þau fólu meðal annars í sér tilraun til að lokka erlendra fjárfesta til Íslands, eitt dýrasta kosningaloforð Íslandssögunnar og risalán úr gjaldþrota sjóði til að borga fyrir stuðning í faraldri sem var látinn endast allt of lengi.

Í október 2022 hélt þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, blaðamannafund. Tilgangurinn var að ræða um hinn svokallaða ÍL-sjóð, sem flestir landsmenn vissu sennilega ekki hvað var á þeim tímapunkti. Á fundinum útlistaði Bjarni áætlanir um að knýja kröfuhafa sjóðsins til að semja um slit hans. Ef þeir myndu ekki spila með þá ætlaði hann sér að leggja fram frumvarp sem myndi knýja fram slík slit fyrir árslok 2022. Bjarni sagði að hann væri að spara ríkinu stórfé með þessari hörku sinni gagnvart kröfuhöfunum. Tap þess yrði „aðeins“ 47 milljarðar króna í stað 200 milljarða króna vegna aðgerða hans.

Bjarni Benediktsson var ráðherra samfleytt frá árinu 2013 og þangað til í desember 2025. Lengst af var hann fjármála- og efnahagsráðherra og hafði með málefni ÍL-sjóðs að gera. Mynd: Stjórnarráðið.

Þetta hljómaði sennilega vel í eyrum margra. Það breyttist hins vegar þegar fólk áttaði sig á hverjir kröfuhafarnir eru. Til einföldunar má segja að þeir séu að uppistöðu sama fólkið og Bjarni ætlaði að spara þessar stórar fjárhæðir, almenningur í landinu. Þorri skulda ÍL-sjóðs er nefnilega við 18 íslenska lífeyrissjóði.

Lífeyrissjóðirnir brugðust, eðlilega, ókvæða við því að ráðherra í ríkisstjórn ætlaði sér að nota kylfu og gulrótar-leikjafræðina sem hafði áður verið notuð gegn erlendum vogunarsjóðum þegar verið var að gera upp eftirmál hrunsins, með þeim afleiðingum að þeir gáfu eftir mörg hundruð milljarða króna í ríkissjóð.

Sjóðirnir sögðu að fyrirhuguð lagasetning um slit ÍL-sjóðs þar sem þeir yrðu knúnir til að taka á sig mjög stórt tap stæðust hvorki skilmála, lög né stjórnarskrá.

Ný ríkisstjórn setti úrlausn mála ÍL-sjóðs, eins stærsta myllusteinsins utan um háls ríkissjóðs, framarlega í forgangsröð sinni. Tæpum þremur mánuðum eftir að hún tók við var búið að ná saman og leggja fram tillögur um uppgjör. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar á þriðjudag að uppgjörið væru „góðar fréttir“ fyrir íslenskt þjóðarbú.

Afleiðingar pólitískra mistaka fortíðar

Áður en ég kafa í uppgjörstillögurnar og áhrif þeirra þá er vert að rifja upp hvað þetta ÍL-sjóðs vandamál er og af hverju við stöndum frammi fyrir því. Um er að ræða afleiðingu af því þegar þáverandi stjórnvöld ákváðu, snemma á þessari öld, að leggja niður húsbréfakerfið svokallaða og taka upp nýtt íbúðalánakerfi sem fól í sér að Íbúðalánasjóður gaf út skuldabréf sem nutu einfaldrar ríkisábyrgðar en sem sjóðurinn sjálfur mátti ekki greiða upp fyrr en þau voru komin á gjalddaga, sem eru allt til ársins 2044. Þeir sem Íbúðalánasjóður lánaði svo áfram gátu greitt upp lánin áður en kom að gjalddaga og í miðjum klíðum var ákveðið að það yrði ekkert uppgreiðslugjald.

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að Íbúðalánasjóður, í eigu og á ábyrgð ríkisins, skuld­batt sig til að greiða af þessum skuldabréfaflokkum út líf­tíma þeirra. Þeir sem tóku lán hjá Íbúða­lána­sjóði, sem fjár­mögnuð voru með útgáfu skulda­bréfa­flokk­anna, gátu hins vegar greitt þau upp og fært lánin sín annað ef hag­stæð­ari kostur bauðst. Þá sat Íbúða­lána­sjóður eftir með það að þurfa að greiða niður lánin sem höfðu verið tekin til að fjár­magna íbúða­lán við­kom­andi, en án vaxta­tekna til að standa undir þeim greiðsl­um.

Einn megintilgangurinn með þessum bréfum var að gera þau áhugaverð fyrir erlenda fjárfesta. Áhugi erlendra aðila á þessum skuldabréfum reyndist hins vegar lítill sem enginn. Þess í stað keyptu íslenskir lífeyrissjóðir þau.

Skyndihugmynd sem reyndist afdrifarík

Dæmi um auglýsingar Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2003. Mynd: Úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð.

Í aðdraganda kosninga 2003 ákvað Framsóknarflokkurinn, sem hafði þá setið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki í átta ár, að lofa fólki 90 prósent lán til húsnæðiskaupa. Það ætlaði flokkurinn að gera með því að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs í áföngum upp í áðurnefnt hlutfall af kaupverði venjulegs íbúðarhúsnæðis. Í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birt var sumarið 2013, var haft eftir Páli Péturssyni, fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokks, að hugmyndin hefði ekkert verið rædd innan flokksins fyrr en rétt fyrir kosningar og það hefði verið „einkennilegt hvað [hún] fæddist snarlega“.

Í auglýsingu sem birtist á baksíðu Fréttablaðsins, þá mest lesna dagblaðs landsins en nú minningin ein, í vikunni fyrir kosningarnar sagði að þetta teldu framsóknarmenn mögulegt „vegna þeirra breytinga sem við höfum hrint í framkvæmd á íslenskum fjármálamarkaði á síðasta kjörtímabili. Þær breytingar gera okkur nú kleift að búa til enn skilvirkara og neytendavænna íbúðalánakerfi um leið og lagður er grunnur að stöðugleika til lengri tíma.“

Samhliða voru keyrðar skondnar sjónvarpsauglýsingar sem sýndu nauðsyn þess að foreldrar losnuðu við stálpuð börn sín út af heimilum sínum og út á íbúðamarkaðinn, öllum hlutaðeigandi til heilla. 

Glæra úr kynningu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Mynd: Skjáskot

Þetta skilaði Framsókn árangri og stjórnarsamstarfið var endurnýjað. Staðið var við loforðið. Það sem gerðist nánast samhliða er að íslensku bankarnir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð og fóru að bjóða upp á allt að 100 prósent lán, betri vaxtakjör og hærri lán. Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð orðaði það þannig í kynningu á niðurstöðum sínum að sjóðurinn hefði átt að halda sér til hlés á þessum tíma og einbeita sér að því að lágmarka eigið tap. „Íbúðalánasjóður gerði það ekki heldur fór í samkeppni við bankana og reyndi að lána sem allra mest.”

Fólk flúði með fótunum

Auk þess var slakað á greiðslumati sem lántakendur þurftu að standast til að fá lán. Húsnæðisverð hækkaði skarpt á þessum tíma og því jukust líkur á að í framtíðinni myndi húsnæðisverð síga. Það skapaði hættu á að eftirstöðvar 90 prósent láns yrðu hærri en verðmæti íbúðar, sem varð síðar raunin eftir bankahrun.

Það sem raungerðist var að fólk flúði með fótunum inn í þau gylliboð sem einkareknu bankarnir buðu og Íbúðalánasjóður sat uppi með Svarta Pétur: fullt af peningum sem hann hafði tekið að láni og þurfti að borga vexti af, en sífellt færri vildu fá þá lánaða. 

Önnur glæra úr skýrslunni, sem kom út árið 2013. Mynd: Skjáskot

Uppgreiðslurnar hreinlega hrúguðust inn og námu 112 milljörðum króna á þávirði frá september 2004 til apríl 2006. Þrátt fyrir að þurfa ekkert á því að halda, vegna þess að eftirspurn eftir lánum hans hafði dregist svo mikið saman, hélt Íbúðalánasjóður áfram að gefa út skuldabréf og sanka að sér peningum sem hann þurfti ekkert á að halda. Þá gerði sjóðurinn enn ein mistökin: hann fór að lána samkeppnisaðilunum peninganna sem safnast höfðu upp og fjármagnaði þar með samkeppnina við sig sjálfan, uppgreiðslur á eigin lánum og jók þannig eigið tap.

Risalán tekið úr sjóðnum

Eftir bankahrun, nánar tiltekið á árunum 2010 til 2016, þurfti að taka vel yfir eitt hundrað milljarða króna úr ríkissjóði og dæla inn í Íbúðalánasjóð svo hann færi ekki á hausinn.

Árið 2019 voru skuldabréfaflokkarnir svo færðir úr Íbúðalánasjóði inn í nýjan sjóð, ÍL-sjóð, enda öllum ljóst að sjóðurinn var orðinn úrlausnarefni, ekki virkur sjóður. Sá sjóður heyrir beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og skuldaði 180 milljörðum krónum meira en hann átti við stofnun. Verk­efni Íbúðalánasjóðs og lán­veit­ingar til íbúð­ar­hús­næðis, sem skil­greind voru ein­göngu á félags­legum for­sendum, voru flutt í nýja stofn­un, Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un.

Nú átti loks að takast á við vandamálið og leysa úr þessu. Svo skall kórónuveirufaraldurinn á og ríkinu vantaði skyndilega pening. Þá er hentugt að vera með sjóð sem var með fullt af lausafé inn í sér, og stýrt af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þótt skuldir hans hefðu verið miklu meiri. Ráðherra þess tíma ákvað að taka tvö lán upp á 190 milljarða króna, á mjög lágum (0,52 til 0,87 prósent) verðtryggðum vöxtum.

Í þeirri miklu verðbólgu sem skall á eftir að faraldrinum lauk þá hækkaði umrætt lán mikið og stendur nú í 239 milljörðum króna.

Skuldin hækkaði um 1,5 milljarð á mánuði

Ríkisábyrgð vegna skulda ÍL-sjóðs er langstærsti hluti veittra ábyrgða ríkissjóðs, eða 88 prósent. Næst á eftir koma ábyrgðir vegna skulda LÍN, sem eru sjö prósent, og Landsvirkjunar, sem eru þrjú prósent. Í fjárlagafrumvarpinu segir orðrétt: „Þróun efnahags ÍL-sjóðs er mikilvægur óvissuþáttur í langtímaþróun skulda ríkissjóðs.“ 

ÍL-sjóður tapaði enda 23,5 milljörðum króna árið 2023, samanborið við 30,1 milljarðs króna tap árið 2022. Eigið fé ÍL-sjóðs var neikvætt um 261 milljarða króna um mitt síðasta ár. Staðan hefur án nokkurs vafa versnað síðan þá enda hefur verið áætlað að kostnaður við uppgjör á ríkisábyrgð aukist um 1,5 milljarða króna hið minnsta með hverjum mánuði sem líður.

Allskonar æfingar hafa verið reyndar til að ná niðurstöðu í þessu erfiða máli. Í fyrra var til að mynda fléttað inn í frumvarp um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að lífeyrissjóðum yrði gert kleift að greiða fyrir hluti í Íslandsbanka með ÍL-sjóðs­bréf­um. Ef það hefði orðið hefðu þó færri krónur skilað sér í ríkissjóð til að greiða niður þær skuldir sem eru undir við útreikning á skuldareglu, en ÍL-sjóðs skuldirnar eru ekki taldar með þar. Það er enda ekki hægt að nota hverja krónu oftar en einu sinni.

Kostar ríkið 651 milljarð króna að semja

Nú er svo búið að semja, með fyrirvara um að 75 prósent kröfuhafa samþykki tillöguna og að Alþingi veiti í kjölfarið heimild til að leysa úr málinu með þeim hætti sem sátt hefur náðst um.

Í uppgjörinu felst að skuldabréfaflokkarnir tveir sem lifa enn af útgáfunni alræmdu metin á 651,4 milljarð króna. Sú tala endurspeglar virðismat bréfanna í lok dags 7. mars 2025 miðað við núvirta ávöxtunarkröfu upp á fasta prósentu fyrir þá. Til samanburðar þá var bókfært verð þeirra í lok júní í fyrra, samkvæmt árshlutareikningi ÍL-sjóðs, um 807 milljarðar króna.

Ríkisstjórnin hefur einsett sér að sýna ráðdeild í ríkisrekstri, meðal annars með því að óska eftir og vinna með hagræðingatillögur frá almenningi. Sú lausn sem nú liggur fyrir varðandi ÍL-sjóð mun líka hjálpa mikið inn í framtíðina. Mynd: Stjórnarráðið

Til að gera upp þessa gríðarlega háu fjárhæð gefur ríkið út ný ríkisskuldabréf í níu flokkum upp á 540,4 milljarða króna með lengsta gjalddaga árið 2050 og afhendi kröfuhöfunum. Með þeim verður meðal annars gerð upp áðurnefnd 238 milljarða króna lán sem ríkið tók hjá ÍL-sjóði til að greiða fyrir aðgerðir í kórónuveirufaraldrinum. Þá verða önnur verðbréf sem ríkið á afhent, en þar er um að ræða sértryggð skuldabréf Landsbankans og Íslandsbanka, skuldabréf útgefin af Lánasjóði sveitarfélaga og Greiðslumiðluninni Hring sem samanlagt eru metin á 38 milljarða króna. Loks vera 55 milljarðar króna greiddir í reiðufé í evrum og 18 milljarðar króna í reiðufé í íslenskum krónum.

Áætlað er að aðgerðin skili jákvæðu greiðsluflæði til ríkissjóðs á næstu árum og að skuldahlutföll A-hluta ríkissjóðs muni að loknum öllum ráðstöfunum vegna uppgjörsins batna um að minnsta kosti fimm prósent af vergri landsframleiðslu. Þá munu ríkisábyrgðir vitanlega lækka um 88 prósent miðað við stöðu í árslok 2024 og verðbréf, sem ríkissjóður hefur gefið út eða ábyrgst, munu við uppgjör bréfanna lækka um 111 milljarða króna að markaðsvirði.

Búast má við að þetta muni bæta lánshæfismat ríkissjóðs.

Betri en leið Bjarna sem lamaði markaði

Viðbrögðin við skjótum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við að leysa þetta erfiða og ömurlega mál með nauðsynlegri skynsemi og fyrirsjáanleika hafa ekki látið á sér standa. Seðlabankastjóri hefur til að mynda þegar fellt sitt dóm um niðurstöðuna: Hún er betri en leið Bjarna Benediktssonar.

Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og formaður bankaráðs Seðlabankans, benti á það í færslu á Facebook að sú misbeiting á löggjafarvaldinu sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að ráðast í til að taka snúning á eigendum skuldabréfa ÍL-sjóðs, hafi verið „einstaklega vond hugmynd og hefði líklega aldrei staðist fyrir dómi en eftir að hún kom fram hefur stór hluti íslenska skuldabréfamarkaðarins verið nánast lamaður. Nú sér vonandi fyrir endann á því.“

Eftir stendur súpa af áminningum um hversu afdrifaríkar illa ígrundaðar pólitískar ákvarðanir, ætlaðar til skammtímavinsælda, geta verið fyrir þjóðarbúið. Nú sem áður er þarft að rifja upp helstu niðurstöðu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð um hann. Þar sagði að „þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“

  • Í upphaflegri útgáfu greinarinnar stóð að viðræður hefðu hafist 23. febrúar 2025. Hið rétta er að þær hófust 23. febrúar 2024. Beðist er afsökunar á þessu.

Reply

or to participate.