- Kjarnyrt
- Posts
- Við eigum að borga miklu minna fyrir að borga
Við eigum að borga miklu minna fyrir að borga
Heimili og fyrirtæki landsins borga tugi milljarða króna fyrir greiðslumiðlun á hverju ári og sú miðlun er háð fáum erlendum aðilum. Þetta fyrirkomulag ógnar þjóðaröryggi og er miklu kostnaðarsamara fyrir almenning en það gæti verið. Þess vegna hafa verið samþykkt lög sem gefa Seðlabanka Íslands tækifæri til að bregðast við, auka öryggið og lækka þennan mikla kostnað. Þeir sem hagnast á greiðslumiðlun eins og hún er í dag mótmæltu þessu hástöfum en lögin voru samt sem áður afgreidd með öllum greiddum atkvæðum þingmanna í fyrrasumar.
Síðustu daga hefur verið fjallað töluvert um greiðslumiðlun Íslendinga. Það hljómar kannski ekki mjög spennandi en er viðfangsefni sem snertir okkur öll á hverjum degi. Ástæða umræðunnar er skyndilegur fréttaflutningur af frumvarpi sem varð að lögum í fyrrasumar. Tilgangur þess vera að veita Seðlabanka Íslands heimildir til reglusetningar á sviði greiðslumiðlunar „í þeim tilgangi að efla viðnámsþrótt greiðslumiðlunar hér á landi en traust og örugg greiðslumiðlun er ein undirstaða þess að hagkerfið virki sem skyldi sem og efnahagslegrar velsældar á Íslandi.“
Hvað þýðir þetta? Heimili og fyrirtæki landsins þurfa að geta treyst því að á hverjum tíma sé hægt að greiða fyrir vörur og þjónustu í gegnum virkar greiðsluleiðir. Það hefur komið upp að verulega hefur reynt á hvort slíkar greiðslumiðlunarleiðir séu virkar. Slíkt gerðist til að mynda eftir bankahrunið haustið 2008, þegar greiðslumiðlun Íslands var í fullkomnu uppnámi um tíma.
Fyrir um fimm árum síðan kom seðlabankastjóri því á framfæri við þjóðaröryggisráð Íslands að hann hefði áhyggjur af því hversu fáum erlendum aðilum svokölluð smágreiðslumiðlun væri háð hér á landi. Þar er átt við greiðslu fyrir vöru og þjónustu óháð fjárhæð sem fer annars vegar fram með greiðslukortum sem fara um innviði alþjóðlegu kortasamsteypanna VISA eða Mastercard og hinsvegar greiðslur sem byggjast á millifærslum í netbanka sem fara um íslenska innviði lánastofnana og Seðlabankans.
Í þjóðaröryggisráði sitja forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og allir ráðuneytisstjórar þeirra ásamt fulltrúa Landsbjargar, ríkislögreglustjóra, forstjóra Landhelgisgæslunnar og tveimur þingmönnum.
Enginn á móti
Sú breyting hefur orðið á greiðslumiðlun hérlendis á undanförnum árum að erlendir innviðir eru sífellt meira nýttir fyrir heimildagjöf og jöfnun debetkorta. Þá hafa tvö stærstu greiðslumiðlunarfyrirtækin sem gefa út VISA og Masterkort á Íslandi, og hétu einu sinni Valitor og Borgun, komist í erlenda eigu á síðustu árum. Þau heita í dag Rapyd, í eigu ísraelskra aðila, og Teya, sem er í eigu aðila sem hösluðu sér upphaflega völl í greiðslulausnum í Suður-Ameríku.
Í nefndaráliti vegna áðurnefnds frumvarps sagði að „mikil samþjöppun er á greiðsluleiðum hér á landi en 90 prósent greiðslna eru inntar af hendi með greiðslukortum sem háðar eru erlendum innviðum og aðilum. Þá eru netógnir vaxandi vandamál sem eykur mikilvægi viðnámsþróttar og fjölbreytni greiðsluleiða. Frumvarpinu er ætlað að stuðla að því að unnt verði að koma upp innlendum grunninnviðum til að virkja frekar greiðsluleiðir sem byggjast á færslum af reikningi kaupanda vöru og þjónustu yfir á reikning seljanda.“
Það er nú hægt, í ljósi þess að frumvarpið var samþykkt við lok vorþings í fyrra. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn því.
Seðlabankinn vinnur að eigin lausn
Það sem farið hefur verið yfir hér að ofan er öryggishluti þess að það er góð hugmynd að koma upp innlendum innviðum fyrir greiðslumiðlun sem þarf ekki að treysta á erlenda kortarisa ef á reynir. Hin stóra ástæðan er sú að þetta er risastórt neytendamál.
Kostnaður heimila vegna greiðslu fyrir vöru og þjónustu getur lækkað verulega vegna þessara breytinga, og tekjur þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa haft vel upp úr því að rukka landsmenn og fyrirtæki fyrir það að strauja debet- og kreditkort munu hríðlækka nái ný greiðslumiðlun fótfestu.

Það er ekki ókeypis að strauja kortið. Mynd: Energepic.com
Og Seðlabankinn er langt kominn með slíka lausn. Gunnar Jakobsson, þá varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, sagði í samtali við Heimildina í desember 2023 að vinna við að koma á svokallaðri reikning í reikning-lausn, sem byggir á því að rafræn beiðni um borgun er send frá söluaðila til viðskiptavinar án aðkomu milliliðar líkt og tíðkast í kortaviðskiptum, væri langt komin. Slík smágreiðsluleið verður líklega í formi apps sem hægt er að nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu með beinni millifærslu inn á reikning. Gunnar sagðist þá vonast til þess að lausnin gæti verið innleidd á Íslandi fljótlega jafnvel haustið 2024 eða í upphafi næsta vetrar á eftir. Miðað við þá tímalínu þá ætti að vera stutt í hana.
Kostar tugi milljarða á ári
Í fréttum undanfarið hefur verið sagt að kostnaður Íslendinga við erlent greiðslumiðlunarkerfi er um 50 milljarðar króna á hverju ári og sé miklu hærri en gengur og gerist annars staðar. Sá kostnaður sé til að mynda þrisvar sinnum meiri en hjá Dönum, sem eru þegar með sitt eigið Dankort-kerfi. Ísland er raunar eina ríkið á Norðurlöndum sem er ekki með innlent greiðslumiðlunarkerfi sem lækkar kostnað neytenda verulega.
Óljóst er á umræðunni hvaðan 50 milljarða króna talan kemur nákvæmlega. Í ritinu „Kostnaður við smágreiðslumiðlun“ sem Seðlabankinn birti fyrir tæpu ári, kom hins vegar fram að kostnaður vegna þjónustugjalda sem rukkuð eru fyrir notkun á debet- og kreditkortum, beinna og óbeinna, hafi verið 36,7 milljarðar króna á árinu 2022. Alls fara á milli 90 til 95 prósent allra viðskipta Íslendinga fram þannig að þeir nota debet- eða kreditkort til að borga fyrir vörur og þjónustu. Bankinn áætlaði að hreinar tekjur þeirra fyrirtækja á Íslandi sem hafa ávinning af því að miðla greiðslum frá kaupanda til seljanda, í gegnum útgefin debet- og kreditkort, hafi verið 32,6 milljarðar króna á árinu 2022. Tekjur þeirra fyrirtækja hækkuðu um 37 prósent frá árinu á undan, einkum vegna þess að rukkun á þjónustugjöldum á greiðslukortum skiluðu miklum viðbótartekjum.
Hver færsla á greiðslukorti innanlands kostaði þann sem straujaði að meðaltali 20 krónur á árinu 2022. Ef notkun kortsins átti sér stað erlendis greiddi viðkomandi 118 krónur að meðaltali. Kostnaðurinn við að nota kreditkort var enn meiri. Innanlands kostaði hver færsla að meðaltali 51 krónur en hver færsla erlendis heilar 177 krónur.
Þeir sem selja vörur þurfa líka að greiða fyrir notkun korta og gjöldin sem fjármálafyrirtæki hafa lagt á þau hækkuðu mikið milli 2021 og 2022, eða um 23,5 prósent að raunvirði. Hækkunina má helst rekja til aukinnar veltu kreditkorta og aukins færslufjölda erlendra greiðslukorta. Hver debetkortafærsla kostaði söluaðila um 50 krónur að meðaltali en hver kreditkortafærsla um 142 krónur.
Samandregið þá sér því hver heilvita einstaklingur að það fyrirkomulag sem við búum við í dag er gríðarlega dýrt fyrir heimili og fyrirtæki landsins ofan á að geta beinlínis ógnað þjóðaröryggi.
Kölluðu frumvarpið „óvenjulegt inngrip“
Þótt frumvarpið hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum i þinginu í júní í fyrra þá er ekki þar með sagt að það hafi ekki mætt andstöðu hagsmunagæsluaðila. Samtök fjármálafyrirtækja sendu til að mynda inn umsögn um það í febrúar í fyrra. Þar var óskað eftir því að beðið yrði með lögfestingu þess vegna þess að samtökin töldu „verulegan vafa á því hvort að lagasetningin standist grundvallarreglur stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnskipunarréttar“ og að það geri „ráð fyrir óvenjulegu inngripi í rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði“.
Af ummælum í greinargerð frumvarpsins mætti ráða að það væri ætlun stjórnvalda að ný löggjöf myndi heimila Seðlabankanum að setja reglur sem veiti bankanum heimild til þess að skylda nokkur fjármálamálafyrirtæki til að „þróa nýja innlenda greiðslulausn samkvæmt fyrirmælum í reglum frá Seðlabankanum og bera kostnað af þróun þessarar greiðslulausnar og af rekstri hennar og viðhaldi á sama tíma og heimild verður til staðar til að takmarka gjaldtöku fjármálafyrirtækja vegna hennar.“
það fyrirkomulag sem við búum við í dag er gríðarlega dýrt fyrir heimili og fyrirtæki landsins ofan á að geta beinlínis ógnað þjóðaröryggi.
Samtökin sögðu enn fremur að reynt hefði verið að réttlæta slík inngrip með vísan til þjóðaröryggis en gáfu lítið fyrir þá röksemdarfærslu og töldu að aðrar ástæður séu þeirri sterkari. „Þjóðaröryggi getur haft talsverða þýðingu við mat á svigrúmi löggjafans til lagasetningar, meðal annars við beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar, en þegar horft til þeirra varaleiða sem nú þegar eru til staðar er ljóst að hagsmunir af innleiðingu innlendrar greiðslulausnar eru ekki þess eðlis að lagasetning með inngripi í rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði á grundvelli þjóðaröryggis geti komið til álita. Frumvarpið vekur spurningar um jafnræði, heimildir stjórnvalda til inngripa í rekstur fyrirtækja og heimildir til að leggja gjöld eða kostnað á fyrirtæki. Þá virðist takmarkað mat hafa farið fram á því hvort að fyrirhuguð lagasetning kunni að brjóta gegn samkeppnislögum og reglum EES-réttar um ríkisaðstoð, staðfesturétt og frjálst flæði þjónustu.“
Báðu um endurskoðun
Fleiri hagaðilar voru ósáttir. Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, sendi líka umsögn. Í henni kom fram að bankinn vildi að allt málið yrði endurskoðað þar sem hann væri búinn að fjárfesta svo mikið í nýjum greiðslukerfum. Stjórnvöld ættu frekar að skoða innleiðingu varaleiðar fyrir þá greiðslumiðlun sem er þegar til staðar, sem væri hægt að grípa til ef eitthvað gerðist.
Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd var á svipuðum slóðum og gagnrýndi að lausnin sem á að innleiða verði í almennri notkun, en ekki einungis varalausn sem virkjuð yrði í neyðartilvikum. „Í umsögninni koma fram áhyggjur af því að innlendri óháðri smágreiðslulausn sé ætlað að koma í staðinn fyrir núverandi lausnir í smágreiðslumiðlun sem fyrirtækið sinnir og að hvatt verði til notkunar nýrrar lausnar í staðinn fyrir þær lausnir.“ Gefið var til kynna að svona breyting á eðli markaðar með smágreiðslumiðlun kunni að brjóta gegn lögum um Evrópska efnahagssvæðið og stjórnarskrá.
Almenningur borgar í gegnum vöruverð
Allt að öllu þá eru lögin sem eru nú í gildi mikið framfaraskref, hvort sem litið sé til þess að tryggja þjóðaröryggi eða til þess að lækka tug milljarða króna árlegan kostnað almennings vegna gildandi greiðslumiðlunar. Kostnað sem að mestu er inni í vöruverði, og breytingar ættu því að skila lægri verðbólgu samhliða, ef verslunin í landinu myndi ákveða að skila ávinningnum aftur til neytenda í stað þess að hirða hann sjálf.
Nú þarf einfaldlega að taka ákvörðun um að innleiða nýja, öruggari og ódýrari lausn til að borga fyrir vörur og þjónustu innan Íslands. Því fyrr því betra.
Skilaboð til lesenda:
Ég þakka mjög góðar viðtökur á þessu fréttabréfi frá því að ég setti það í loftið í september. Áskrifendur eru mörg þúsund og opnunartíðnin langt umfram væntingar. Það hefur hvatt mig til að halda áfram og ég hef skrifað tvær greinar í viku, sem birst hafa á þriðjudögum og föstudögum. Nú þarf ég aðeins að hægja á skrifum vegna anna. Stefnan er sett að hafa Kjarnyrt áfram opið og frítt en að birta að jafnaði eina grein í viku, helst á föstudögum. Ef mikið liggur við þá geri ég auðvitað undantekningar á þessu.
Reply