• Kjarnyrt
  • Posts
  • Það er kominn tími til að velja

Það er kominn tími til að velja

Kosið verður um hvort Ísland eigi að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild á allra næstu árum. Lengi hefur legið fyrir að þjóðin hefur viljað fá það ákvörðunarvald, en stjórnmálamenn hafa staðið í vegi fyrir því. Staða Íslands til að fara í slíkar viðræður nú er miklu betri en hún var fyrir tæpum 15 árum, þegar fyrst var sótt um. Framundan er mikið áróðursstríð þar sem búast má við miklum fagurgala úr einu horninu og miklum bölmóði úr hinu. Raunveruleikinn liggur svo einhversstaðar þar á milli.

Ísland ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 þegar fyrsta tveggja vinstriflokka meirihlutastjórn lýðveldistímans, skipuð Samfylkingu og Vinstri grænum, gerði slíkt. Ísland var, og er, raunar þegar með nokk­urs konar auka­að­ild að sambandinu í gegnum samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið sem tók gildi fyrir 31 ári, en án áhrifa á ákvörð­un­ar­töku. Hann tryggir Íslandi aðgengi fyrir vörur sínar og þjón­ustu að yfir 450 milljón manna innri mark­aði Evr­ópu án flestra hind­r­ana gegn því að við aðlögum reglu­verk og lagaum­hverfi að gang­verki þess mark­að­ar. Með þeim aðlög­un­ar­kröfum höfum við fengið stjórnsýslulög, upp­­lýs­inga­lög, mann­rétt­indi, neyt­enda­vernd, neyt­enda­úr­bætur og alveg ótrú­­leg við­­skipta­tæki­­færi. Mesta hag­vaxt­ar­skeið Íslands­sög­unnar byggir á þessu aðgengi sem EES-­samn­ing­ur­inn tryggir okk­ur. Og full Evr­ópu­sam­bands­að­ild er, í hugum margra, rök­rétt fram­hald af hon­um. 

Í baksýnisspeglinum var það hins vegar vond ákvörðun að sækja um á þessum tíma, fyrir tæpum 15 árum, og hún eyðilagði sennilega meira fyrir möguleikum Íslands á að ganga í sambandið en nokkuð annað. 

Of mörg verkefni og veik staða

Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi stóð Ísland mjög veikt og frammi fyrir gríðarlegum vandamálum í kjölfar bankahrunsins. Afleiðingarnar þess urðu þær að gjaldmiðill Íslendinga veiktist um tugi prósenta, verðbólga fór í 18,6 prósent, stýrivextir í 18 prósent, atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að vera nær gjaldþrota, skuldir heimila margfölduðust, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett á, Ísland þurfti að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins hvarf. Mótmæli urðu daglegt brauð, eldar voru kveiktir og pólitískur óstöðugleiki varð að normi. Það átti ekki að vera for­gangs­at­riði að ganga í Evr­ópu­sam­bandið á þeim tíma, heldur eyða öllum kröftum í að takast á við önnur fyr­ir­liggj­andi vanda­mál. Ríki eru í bestu samn­ings­stöð­unni þegar staða þeirra er sterk, ekki þegar þau eru á barmi gjald­þrots. 

Í öðru lagi var ekki meirihluti fyrir því að ganga í sambandið á Alþingi né innan ríkisstjórnarinnar, þar sem Vinstri græn voru og eru andsnúin aðild. Þá sýndu skoð­ana­kann­­anir á þeim tíma að slíkur meiri­hluti var heldur ekki til staðar hjá þjóð­inni.

Stjórnvöld þessa tíma hefðu getað nælt sér í aukið lögmæti fyrir ferlinu með því að fara í tvö­falda þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu, fyrst um hvort sækja ætti um og svo um hvort sam­þykkja ætti fyr­ir­liggj­andi samn­ing, en gerðu það ekki. Fyrir vikið gaf það þeim sem einsettu sér með miklum árangri að hindra inngöngu, á endanum með algjörum árangri, sterk vopn til að beita. 

Loforð sem var svikið vegna „pólitísks ómöguleika“

Viðræðurnar stóðu frá sumrinu 2010 og fram í byrjun árs 2013, þegar þáverandi stjórn ákvað að setja þær á ís. Þá höfðu mak­ríl­veiðar Íslend­inga og ó­sam­staða í rík­is­stjórn­inni gagn­vart aðild staðið við­ræð­unum fyrir þrifum um nokk­urt skeið og ljóst að ekki næð­ist að fá nið­ur­stöðu í þær fyr­ir­ ­þing­kosn­ing­arnar í apríl 2013.

Stuðningur við vinstristjórnina hafði líka hrunið og hún hlaut síðan mesta afhroð sem nokkur stjórn hefur orðið fyrir í kosningum. Sameiginlegt fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna fór úr 51,5 prósentum árið 2009 í 23,8 prósent fjórum árum síðar. Flokkarnir töpuðu 18 þingmönnum og fengu einungis 16.

Í stjórn settust Framsóknarflokkur, þá leiddur af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, og Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar. Evrópusambandsmálið hafði verið umdeilt innan síðarnefnda flokksins í lengri tíma. Bjarni hafði sjálfur, um tíma, verið hlynntur inngöngu, en snúist eftir að hann tók við formennsku. Fjöldi frjáls­lyndra alþjóða­sinna sem studdu aðild að Evrópusambandinu voru þó enn í flokknum og til að halda þeim hópi góðum lofaði Sjálfstæðisflokkurinn að aðildarviðræðum yrði ekki slitið nema að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það.  Hægt er að sjá þau loforð hér að neðan.

Þegar á reyndi, og búið var að mynda nýja stjórn eftir kosningarnar, stóð Bjarni ekki við það lof­orð með þeim rökum að það hefði verið „póli­­tískur ómög­u­­leiki“ að halda slíka þjóð­­ar­at­­kvæða­greiðslu þar sem ráða­­menn beggja stjórn­­­ar­­flokk­anna, Sjálf­­stæð­is­­flokks og Fram­­sókn­­ar, væru á móti aðild. 

Flokkur klofnar

Þann 21. febr­úar 2014 lagði Gunnar Bragi Sveins­son, þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra í rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, fram þings­á­lykt­un­ar­til­lögu um að draga umsókn Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu til baka. 

Í kjöl­far þess að til­lagan var lögð fram urðu fjölda­mót­mæli á Aust­ur­velli og hópur alþjóða­sinn­aðra sjálf­stæð­is­manna klauf sig opin­ber­lega frá flokknum sín­um. Meðal annars gagn­rýndi fyrr­ver­andi vara­for­mað­ur Sjálfstæðisflokksins, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir, stefnu flokks­ins harð­lega og sagði að hún vildi ekki að harð­lífið tæki hann yfir. „Við viljum ekki að svart­stakk­arnir í flokknum eigi flokk­inn meira en ég og þú,“ sagði Þor­gerður Katrín í þætti á RÚV skömmu eftir að til­lagan var sam­þykkt.

Þessir atburðir klufu Sjálfstæðisflokkinn og leiddu til stofnunar Viðreisnar, sem Þorgerður Katrín leiddi í ríkisstjórn eftir kosningarnar seint á síðasta ári og eru því einn helsti áhrifavaldur í sögu Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur aldrei náð vopnum sínum að fullu aftur og fékk í fyrsta sinn í sögu sinni undir fimmtungi atkvæða síðast þegar þjóðin gekk að kjörkössunum. 

Kosningamál…í næstu kosningum

Þrátt fyrir að grunnurinn að Viðreisn hafi verið lagður fyrir tæpum ellefu árum síðan og flokkurinn, sem stofnaður var utan um óánægju með framferði Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum, hafi boðið fyrst fram 2016 og setið í skamman tíma í ríkisstjórn í kjölfarið, þá hafa Evrópumál ekki farið hátt frá því að umsóknin var dregin til baka. Það hefur skort ákveðið sjálfstraust hjá þeim flokkum sem styðja aðild að gera það með kassann úti. Í kosningunum 2021 bauð Viðreisn til að mynda upp á veika tillögu um tví­hliða samn­ing við Seðla­banka Evr­ópu um að tengja krónu við evru, sem engin for­dæmi eru fyrir né eng­inn sýni­legur áhugi á hjá mót­að­il­an­um. Því verður varla haldið fram að aðild hafi verið ofarlega á baugi í nýliðnum kosningum, hvorki hjá flokkunum í framboði né hjá almenningi. Í könnun Prósents í ágúst í fyrra nefndu til að mynda einungis 15 prósent aðspurðra Evrópumál sem eitt þeirra mála sem mestu skipti. Þjóðin var miklu uppteknari af heilbrigðismálum, efnahagsmálum, verðbólgu, húsnæðis- og lóðamálum og ætlaði sér fyrst og fremst að kjósa um þau.

Í desember settust hins vegar tveir flokkar, Viðreisn og Samfylkingin, sem eru með aðild að Evrópusambandinu í stefnu sinni, í ríkisstjórn með Flokki fólksins, sem er á móti aðild. 

Málamiðlunin sem flokkarnir náðu um málið felur í sér að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi síðar en árið 2027, eða ári fyrir næstu kosningar. Hugmyndin er, augljóslega, sú að láta þjóðina ákveða hvort það eigi að fara í þessa vegferð og samþykki hún það þá verða aðildarviðræðurnar risastórt kosningamál 2028. Flokkar munu þá þurfa að svara því afgerandi hvort þeir ætli að fara gegn vilja þjóðarinnar komist þeir í ríkisstjórn og þjóðin svo að taka ákvörðun um hvort hún ætli að gera aðildarmál að úrslitaatriði í kjörklefanum í kjölfarið. 

Í mun sterkari stöðu

En af hverju ætti Ísland að skoða hvort hægt sé að ná hagstæðum samningum um að ganga í Evrópusambandið nú, og hvað hefur breyst frá því áður? Fyrst blasir auðvitað við að staða Íslands er miklu sterkari en hún var árið 2009. Búið er að leysa úr lausum endum bankahrunsins, endurskipuleggja fjármálakerfið, losa gjaldeyrishöft og nota fjármunina sem kröfuhafar voru knúnir til að skilja eftir til að stórbæta skuldastöðu ríkissjóðs. Atvinnuleysi er lítið og hagvöxtur hefur, yfir nokkurra ára tímabil, verið mikill. Það yrði því sótt um úr sterkri stöðu, ekki veikri líkt og síðast. 

Und­an­þágu­kröfur okkar í síðustu viðræðum snéru að uppi­stöðu að því að tryggja sér­lausnir fyrir sjáv­ar­út­veg. Í dag eru íslensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki stór­leik­endur í evr­ópskum sjáv­ar­út­vegi og ekk­ert bendir til ann­ars en að þau myndu styrkja þá stöðu frekar en hitt við inn­göngu. Enda hefur for­ysta grein­ar­innar kallað opinberlega eftir því að íslensk stjórn­völd beiti sér fyrir tollaí­viln­unum inn á Evr­ópu­sam­band­ið. Ívilnunum sem myndu fást með inngöngu.

Þá er stóraukinn órói á alþjóðasviðinu og innrás Rússa inn í sjálf­stæða og full­valda Úkra­ínu hefur fært stríð aftur til Evrópu. Á sama tíma ríkir óvissa um framtíðarskipulag NATO vegna kosningar Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna, en hann hefur miklar efasemdir um bandalagið og gæti breytt eðli þess. Evr­ópu­sam­bandið var stofnað sem frið­ar­banda­lag og til að tvinna saman hags­muni landa sem mörg hver höfðu verið meira og minna í stríði í árhundruð og tryggja stöð­ug­leika og lífs­kjara­sókn í álf­unn­i.

Ábendingar um að gjaldmiðilinn okkar, blessuð krónan, sé að sveiflast mun minna en oft er látið hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum undanfarið. Og það er í sjálfu sér rétt. En inn í þá umræðu vantar að krónan flýtur ekki frjáls og fær ekki að lúta lögmálum frjálsra gjaldeyrisviðskipta. Hún er studd með þjóðarvarúðartækjum. Fram til 2017 voru það fjármagnshöft en á síðustu árum hefur Seðlabankinn beitt rúmlega 900 milljarða króna gjaldeyrisvaraforða sínum til að draga úr sveiflum í gengi. Þegar krónan veikist þá kaupir Seðlabankinn krónur, þegar hún styrkist um of þá selur hann þær. Síðasta slíka inngrip  var í febrúar á síðasta ári. Því má segja að fyrirkomulagið sem við höfum stuðst við sé nokkurs konar króna á hækjum. 

Þeir sem geta hafa yfirgefið krónuna

Atvinnulífið hefur að hluta til þegar yfirgefið krónuna. Fyrir rúmu ári birtist svar við fyrirspurn á Alþingi sem sýndi að alls 248 íslensk félög hafi fengið heimild frá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt. Flest þeirra, 68 talsins, eru eignarhaldsfélög, og 39 eru annaðhvort í útgerð, frystingu, söltun eða annarri vinnslu á fiski, umboðssölu á fiski og öðrum fiskafurðum eða fiskeldi. Þá eru 13 félaganna í hugbúnaðargerð samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands.

Öll stærstu fyr­ir­tæki lands­ins hafa fyrir löngu yfir­gefið krónuna og gera upp í annarri mynt til að fá betri kjör og meiri stöð­ug­leika. Það á við, líkt og áður sagði, um sjáv­ar­út­veg, stærsta flug­fé­lag­ið, skipa­fé­lög og þau íslensku hug­vits­fyr­ir­tæki sem náð hafa mestum árangri á alþjóða­vísu.

Þessi fyrirtæki líta því svo á að það sé ekki hagkvæmt fyrir þeirra rekstur að notast við íslensku krónuna sem uppgjörsmynt. Þannig losa umrædd fyr­ir­tæki sig við þá áhættu sem fylgir sveiflum íslensku krón­unn­ar. Þau taka ein­fald­lega ekki þátt í henni á tekju­hlið­inni. Slíkt getur leitt til þess að fyrirtækjunum bjóðist fjármögnun hjá bönkum erlendis, þar sem í boði eru kjör sem eru mun skaplegri en þau sem bjóðast hjá íslenskum bönkum. 

Það er raunar öruggt að kjörin eru betri við þær aðstæður sem nú eru uppi. Vegnir meðalvextir útistandandi óverðtryggðra fyrirtækjaútlána stóru bankanna þriggja í íslenskum krónum voru 12,7 prósent í lok október. Þeir hafa hækkað gríðarlega, í takt við hækkun stýrivaxta Seðlabankans, á undanförnum árum. Í apríl 2021 voru þeir 4,4 prósent. Erfitt er að halda því fram, ef viðkomandi vill láta taka sig alvarlega, að slíkt flökt á vaxtakjörum sé eitthvað sem flest fyrirtæki í Evrópu þurfi að sætta sig við. 

Kemur í veg fyrir erlenda fjárfestingu

Það hefur líka legið fyrir lengi að erlendir langtímafjárfestar vilja síður fjárfesta á Íslandi vegna krónunnar. Þeir fjárfesta einfaldlega lítið sem ekkert hérlendis nema þegar í boði er að kaupa upp þjóð­hags­lega mik­il­væga inn­viði í fjar­skiptum, græna orku fyrir stór­iðj­u á spott­prís til margar ára­tuga eða hugvitsfyrirtæki sem hægt er að kaupa upp að fullu. 

Flestir erlendir fjár­fest­ar sem versla í íslensku fjárfestingabúðinni eru spákaupmenn sem veðja á ákveðna þróun til skamms tíma. Það sást vel þegar þeir útlendingar sem voru fastir inni í fjármagnshöftum til ársins 2019 voru loks losaðir. Þeir fóru meira og minna á árinu 2020 og í byrjun árs 2021. 

Í síðasta birta fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands segir að hrein nýfjárfesting erlendra aðila hafi verið  jákvæð um 26 milljarða króna á fyrstu átta mánuðum síðasta árs. Hreint innflæði í ríkisbréf nam hins vegar 27 milljörðum króna þar sem „erlendir aðilar hafa einnig átt lítil viðskipti með skráð hlutabréf á árinu og nemur hreint útflæði úr þeim um 1 ma.kr.“

Í könnun sem gerð var sum­arið 2019, og var unnin upp úr svörum 735 fyr­ir­tækja sem sótt höfðu um styrk til Tækn­i­­­þró­un­­­ar­­­sjóðs á síð­­­ustu þremur árum fyrir þann tíma, kom fram að 73,5 pró­­­sent aðspurðra töldu að sér­­­ís­­­lenskur gjald­mið­ill hefði nei­­­kvæð áhrif á rekstur nýsköp­un­­­ar­­­fyr­ir­tækja. Rúm­­­lega helm­ing­ur aðspurðra, eða 61 pró­­­sent, töldu að banka­­­þjón­usta á Íslandi hent­aði illa eða mjög illa fyrir nýsköp­un­­­ar­­­fyr­ir­tæki. Upp­taka evru, aðgengi að evr­ópsku styrkja­kerfi og inn­koma erlendra banka á íslenska mark­að­inn myndi gjör­breyta þess­ari stöð­u. Og laða að erlenda fjár­festa.

Þá vantar að taka með í dæmið hinn augljósa ávinning heimila og neytenda af því að fá virka samkeppni í fjármálaþjónustu, matvöru, tryggingasölu, fjarskiptum og öllu hinu sem fákeppni er í hér á landi. Ávinningurinn yrði í verði, fjölbreytni og gæðum. Og auðvitað miklu skaplegri húsnæðisvöxtum.

Kominn tími til velja

Þótt stjórnarsáttmálinn sé einungis nokkurra vikna gamall, og enn geti verið næstum þrjú ár í boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður, þá er baráttan strax byrjuð. Augljóst er, til dæmis á lestri Morgunblaðsins, að fyrsti fleygurinn sem valdaöflin hafa valið að reyna að reka milli nýrra stjórnarflokka er Evrópusambandsmál. Þar verður herjað á Flokk fólksins af miklum krafti og hryllingssögur af stöðnuðu Evrópusambandi bornar fram reglulega. Á það má þó benda, áður en að fólk fer að týna sér í þeim áróðri, að The Economist tók nýverið saman upplýsingar um hvaða hagkerfi stóðu sig best á síðasta ári. Þar voru Evrópusambandsríki í fimm efstu sætunum, en Ísland í 14. sæti. 

Stuðningsmenn aðildarviðræðna byrja slaginn líka í ákveðnum meðvindi. Allar kannanir hafa sýnt, árum saman, að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styður að boðað verði til atkvæðagreiðslu um þær. Í nýjustu könnun Maskínu um málið þá sögðust 58 prósent vera hlynnt því að Ísland tæki aftur upp viðræður en einungis 25 prósent voru andvíg. Í næstum tvö ár sýndu kannanir líka að fleiri vildu ganga inn í sambandið en standa utan þess. Á því varð reyndar breyting í síðustu könnun  þar sem 42,7 prósent sögðust vera á móti aðild en 37,5 prósent fylgjandi. 

Ljóst er að tíminn þar sem Evrópusambandsaðild verður rædd hátt og með sjálfstrausti á umræðutorgum íslensks samfélags er kominn og tíminn þar sem varðmönnum gamla Íslands tókst að láta slíka umræðu virka eins og boðflennu í þeirra samkvæmi er liðinn. 

Það er kominn tími fyrir þjóðina að velja, í stað þess að heimasmíðaður ómöguleiki sé látinn ráða för. Vonandi ber okkur gæfa til að velja rétt. 

Reply

or to participate.