- Kjarnyrt
- Posts
- Afleiðingar risastóru en ófjármögnuðu útgjaldapakkanna
Afleiðingar risastóru en ófjármögnuðu útgjaldapakkanna
Í ár hefur miklum opinberum fjármunum verið varið í að aðstoð við Grindvíkinga og til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Samtals hleypur kostnaðurinn á tugum milljarða króna. Fráfarandi ríkisstjórn aflaði hins vegar ekki tekna, né sýndi nægjanlegt aðhald í ríkisrekstri, til að standa undir þessum mikla kostnaði heldur bætti við sífellt hærri yfirdráttinn sem hún hefur rekið ríkissjóð á árum saman. Það verður næstu ríkisstjórnar að takast á við afleiðingarnar.
Kjarasamningar voru undirritaðir í vor. Yfirlýst markmið þeirra var að skapa grundvöll til þess að ná niður verðbólgu og vöxtum sem höfðu lagt ofurskatt á venjuleg íslensk heimili í formi óhoflegrar vaxtabyrði, sem jókst um 40 milljarða króna á tveimur árum, og verðlag hækkað gríðarlega á sama tíma.
Um var að ræða langtímasamninga, til alls fjögurra ára, sem innihéldu afar hóflegar launahækkanir. Á móti steig íslenska ríkið inn með aðgerðir fyrir barnafjölskyldur, millistétt og lægri tekjuhópa í gegnum millifærslukerfin sem stærsti flokkurinn í stjórninni, Sjálfstæðisflokkur, hafði leynt og ljóst verið að reyna að leggja niður eftir að hann komst aftur til valda árið 2013. Tveir þriðju hlutar þeirra kjarabóta sem áttu að fást á fyrsta ári eftir gildistöku nýju kjarasamninganna áttu komu frá hinu opinbera, og þriðjungur úr atvinnulífinu.
Fyrirtækin í landinu sem selja okkur vörur og þjónustu, og hafa skilað methagnaði á síðustu árum, fengu samhliða það verkefni að þurfa að stilla verðlagningu sinni þannig í hóf að verðbólgan myndi fara úr 6,6 prósent þegar kjarasamningarnir voru undirritaðir niður í 4,95 prósent áður en að endurskoðun kjarasamninga á sér stað í september 2025 og í 4,7 prósent í september 2026. Þetta markmið mun nást ef ekkert mikið breytist. Tólf mánaða verðbólga er þegar komin niður í 4,8 prósent og Seðlabankinn hefur hafið vaxtalækkunarferli sitt, þótt stýrivextir séu enn 8,5 prósent og á meðal þeirra hæstu í Evrópu. Samkvæmt nýjustu spá Landsbankans verður verðbólgan komin undir fjögur prósent í mars og því aðstæður til að lækka stýrivexti hratt við næstu vaxtaákvarðanir Seðlabankans.
Dýr aðkoma að kjarasamningum
Pakkinn sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur samþykkti að leggja til um einum mánuði áður en hún sagði af sér sem forsætisráðherra og fór í mislukkað forsetaframboð, var enginn smásmíði. Þegar fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar var kynnt í vor kom fram að ríkið ætlaði sér að setja 13 til 23 milljarða króna á ári í ýmiss konar aðgerðir sem samþykkt var að ráðast í til að liðka fyrir gerð kjarasamninga til lengri tíma. Heildarkostnaður vegna þeirra aðgerða á fjórum árum var áætlaður um 83 milljarðar króna.
Í aðgerðunum átti meðal annars að felast aukning á framboði á íbúðarhúsnæði með því að tryggja fjármagn í byggingu á allt að eitt þúsund hagkvæmum íbúðum á ári á gildistíma kjarasamninga, sem var þó bara dropi í eftirspurnarhafið á íbúðamarkaði. Áætluð íbúðaþörf á landinu árið 2024 var 4.208 en að nýjar fullbúnar íbúðir á árinu verði 3.406.

Mynd: HMS
Þarna vantar um 800 íbúðir og þá átti eftir að taka tillit til þess að Grindvíkingar, sem áttu um 1.200 heimili, komu inn á markaðinn eftir tilkomu Þórkötlu sem keypti af þeim húsnæði í bænum svo þeir gætu keypt sér nýtt annars staðar. Staðan 2025 og 2026 versnar að óbreyttu. Íbúðaþörfin verður langt umfram vænt framboð. Aðrar aðgerðir í tengslum við kjarasamninga snérust meðal annars um að greiða, í eitt skipti, út sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán, að hækka barnabætur, hækka fæðingarorlofsgreiðslur og gera skólamáltíðir í grunnskólum fríar.
Stórar fjárhæðir til að styðja við Grindavík
Þá liggur fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna Grindavíkur, og jarðhræringanna þar í kring, er áætlaður 80 milljarðar 2023 og 2024. Þar munar mestu um framlag til Þórkötlu en það var komið upp í 65 milljarða króna í ágúst. Af þeirri upphæð gátu 15 milljarðar króna komið úr Náttúruhamfaratryggingasjóði Íslands, en fjármála- og efnahagsráðherra hefur heimild til slíkrar ráðstöfunar úr sjóðnum. Tímabundinn stuðningur til launagreiðslna þeirra sem störfuðu í Grindavík, bygging varnargarða í kringum Grindavík annars vegar og fyrirtækin í Svartsengi, kostnaður Almannavarna vegna atburðanna, sértækur húsnæðisstuðningur íbúa og tímabundinn rekstrarstuðningur við fyrirtæki í Grindavík er uppistaðan í restinni af kostnaðinum.

Röð eldgosa við Grindavík hefur valdið miklum skaða á innviðum. Mynd: Skjáskot/RÚV
Til að fjármagna þessar stórtæku aðgerðir sem beindust aðallega að barnafólki og Grindvíkingum átti að grípa til þess sem kallað var „sérstæðar ráðstafanir“. Markmiðið var, þegar fjármálaáætlunin var kynnt í vor, að þær myndu skila því að útgjöld ríkissjóðs minnki um 17 milljarða króna frá fyrri áætlun og af þeirri upphæð séu 17 milljarðar króna varanleg lækkun.
Stærsti hluti þessarar upphæðar átti að falla til vegna þess að gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis verður frestað. Það átti að taka gildi um næstu áramót en á nú að taka gildi 1. september 2025. Þessi frestun lækkar þær greiðslur sem öryrkjar hefðu annars fengið út úr kerfinu á næsta ári um 10,1 milljarð króna. Auk þess átti að draga úr umfangi hins svokallaða „almenna varasjóðs“ innan ríkissjóðs, sem er sjóður upp á nokkra tugi milljarða króna á ári sem stjórnvöld geta eytt í hvað sem er. Þessi skúffupeningasjóður átti, samkvæmt fjármálaáætluninni, að verða tíu milljörðum krónum lægri á ári 2025 og 2026 en áður var áætlað, sjö milljörðum krónum lægri 2027 og fimm milljörðum krónum minni á síðustu tveimur árum hennar. Hér er þó ekki um beint aðhald eða niðurskurð að ræða heldur ákvörðun um að setja minni pening í sjóð sem ráðherrar hafa, meira og minna, getað eytt í hvað sem er.
Enn eykst hallinn
Ríkissjóður Íslands hefur nú verið rekinn stanslaust í halla frá árinu 2019. Það þýðir að ríkið hefur verið að reka sig á nokkurskonar yfirdrætti allan þann tíma, og áætlar að gera það í að minnsta kosti níu ár í röð. Allt stefndi í að uppsafnaður halli frá byrjun árs 2019 og út það næsta yrði 659 milljarðar króna á verðlagi hvers árs fyrir sig. Sú tala hækkaði hins vegar hækkað umtalsvert eftir að ljóst var að boðað yrði til kosninga.
Samkvæmt fjárlögum ársins 2024 átti hallinn á ríkissjóði í ár að vera rúmlega 51 milljarður króna. Þegar síðustu fjáraukalög ársins, þau fimmtu, voru afgreidd í nóvember var hallinn kominn upp í rúmlega 75 milljarða króna.
Frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram 10. september, og þangað til að fjárlög voru afgreidd rúmum tveimur mánuðum síðar, fór væntur halli á árinu 2025 úr því að vera 41 milljarður króna í að vera tæpir 63 milljarðar króna. Því má ætla að uppsafnaður halli frá árinu 2019 og út næsta ár verði yfir 700 milljarðar króna.
Risastórir en ófjármagnaðir útgjaldapakkar
Almennt gildir sú regla að hallarekstur ríkissjóðs felur í sér frestun á skattlagningu sem hækkar ráðstöfunartekjur heimila til skamms tíma en lækkar þær í framtíðinni. Á mannamáli þýðir það að ríkisstjórn síðustu ára hefur ráðist í allskyns aðgerðir sem kostað hafa umtalsverðan pening, og verið réttlætanlegar vegna þess að brýn þörf var á, en ekki getað komið sér saman um að afla tekna til að borga fyrir þær.
Eini nýi tekjustofninn sem var innleiddur til að standa straum af kostnaði vegna Grindavíkur, sem líkt og áður sagði er áætlaður um 80 milljarðar króna frá því að atburðirnir hófust, var svokallað forvarnargjald. Gjaldið átti að skila um einum milljarði króna í tekjur strax á þessu ári og áætlað var að það myndi skili yfir þremur milljörðum króna í ríkissjóð á þeim þremur árum sem þessi tímabundni skattur átti að vera í gildi. Útgjöld vegna kjarasamninga eru með öllu ófjármögnuð til framtíðar.
Þetta sést mjög skýrt á nýbirtum tölum Hagstofunnar um afkomu hins opinbera. Þar segir að tekjuafkoman hafi verið neikvæð um 37 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2024 eða sem nemur 3,1 prósent af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Til samanburðar nam hallinn á þriðja ársfjórðungi 2023 0,5 prósent af vergri landsframleiðslu þess ársfjórðungs.
Útgjöldin hafa vaxið um 11,8 prósent en tekjurnar einungis um 5,2 prósent, meðal annars vegna þess að eignaskattar, sem ríkasta fólk landsins greiðir að uppistöðu, drógust saman um sjö prósent milli ára. Í frétt Hagstofunnar segir að hér vegi þungt 17,8 prósent aukning í útgjöldum vegna félagslegra tilfærsla til heimila, sem eru aðgerðirnar vegna kjarasamninga, og að einnig hafi „útgjöld vegna þeirra úrræða sem ríkissjóður hefur gripið til vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík töluverð áhrif á afkomu hins opinbera.“
Skuldareglan tekur aftur gildi eftir næsta ár
Þetta er það ástand sem fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig. Tug milljarða króna ófjármagnaðar aðgerðir í tengslum við kjarasamninga og Grindavík og svimandi háa yfirdráttarheimild sem er sífellt að vaxa. Vanda sem er velt yfir á næstu ríkisstjórn til að takast á við ofan á svimandi háa vexti, neyðarástand á húsnæðismarkaði, svelt velferðarkerfi og innviðaskuld sem hleypur á hundruðum milljarða króna vegna þess að það hefur skort á getu til að afla tekna og ráðast í þjóðhagslega mikilvægar fjárfestingar.
Helst þarf að finna lausn á öllum þessum útgjaldavanda á næsta ári. Ástæðan er sú að árið 2015 voru sett lög um opinber fjármál. Á meðal þess sem var innleitt með þeim var svokölluð skuldaregla. Samkvæmt henni mega heildarskuldir ríkissjóðs, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, ekki fara yfir 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019 og til að bregðast við því var skuldareglan einfaldlega tekin tímabundið úr sambandi þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, eða út árið 2025. Árið 2023 var hlutfallið komið niður í 31,2 prósent en samkvæmt fjárlögum næsta árs mun það verða 32,5 prósent í lok næsta árs.
Það er því ansi stórt verkefni sem blasir við nýrri ríkisstjórn, sem þarf að ná að halda sig innan marka til að tryggja efnahagslegan stöðugleika en á sama tíma að ná að setja fjármagn í þau kerfi sem þjóðin kallaði á nauðsynlegar uppfærslur á í nýliðnum kosningum.
Reply