- Kjarnyrt
- Posts
- Það tók 526 daga að ákveða að þagnarskylda er mikilvægari en hagsmunir almennings
Það tók 526 daga að ákveða að þagnarskylda er mikilvægari en hagsmunir almennings
Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka í lokuðu útboði til 207 fjárfesta vorið 2022 er einn svartasti bletturinn á ferli fráfarandi ríkisstjórnar. Fúskið í kringum hana markaði upphafið að endalokum stjórnarinnar. Þegar Íslandsbanki ákvað að játa margháttuð lögbrot við söluna gerði hann sátt um að greiða metsekt fyrir. Í sáttinni sem birt var opinberlega var búið að strika yfir upplýsingar. Það tók nefnd 526 daga að komast að þeirri niðurstöðu að almenningur, eigandi hlutarins sem var seldur, eigi engan rétt á þeim upplýsingum.
Í byrjun júlí í fyrra hafnaði Seðlabanki Íslands beiðni minni um að fá samkomulag Íslandsbanka við Seðlabanka Íslands um að ljúka með sátt máli vegna brota bankans við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum án þess að búið sé að strika yfir upplýsingar úr sáttinni.
Ég, þá starfandi ritstjóri fjölmiðils, hafði óskað eftir upplýsingunum sem strikað var yfir á þeim grundvelli að þær ættu ríkt erindi við almenning, enda var um að ræða sölu á ríkiseign sem þá þegar lá fyrir að var framkvæmd með ólögmætum hætti.
Auk þess ákvað Bjarni Benediktsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra, að birta lista yfir kaupendur á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022. Ráðuneyti hans mat það svo að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta féllu ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríkti um ráðstöfun opinberra hagsmuna ákvað ráðherrann að birta listann. Þetta var gert þrátt fyrir að Bankasýsla ríkisins hefði aflað sér lögfræðiálits sem sagði að þetta mætti ekki.
Því lá fyrir að stjórnvöld höfðu tekið þá ákvörðun að birta upplýsingar um hverjir kaupendur af hlutnum eru. Þær upplýsingar sem eru útmáðar í sátt Seðlabanka Íslands við Íslandsbanka eru sama eðlis og þær sem ráðherra ákvað að birta í apríl. Ég hafði áður óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið að lagt yrði sambærilegt sjálfstætt mat á hvort birt ætti þær upplýsingar sem strikað var yfir í sátt Seðlabankans við Íslandsbanka og var gert þegar ákveðið var að birta kaupendalistann í heild sinni.
Í svari ráðuneytisins sagði að það tæki undir sjónarmið um mikilvægi þess að upplýsingar um söluferlið væru gerðar almenningi aðgengilegar en benti þó jafnframt á að „umbeðin gögn stafa frá sjálfstæðri eftirlitsstofnun og ráðuneytið hefur hvorki aðgang að þeim né telur það sig geta óskað eftir þeim.“
Þögn mikilvægari en að almenningur fái að vita
Í kjölfarið sendi ég því upplýsingabeiðni á Seðlabanka Íslands og bað um sáttina án yfirstrikanna. Í svari lögfræðings hjá Seðlabankanum við fyrirspurn minni sem barst 7. júlí 2023, sagði að bankinn hafi farið yfir umbeðnar upplýsingar, sem afmáðar hafa verið úr umræddu samkomulagi. „Er það afstaða bankans að upplýsingarnar varði annars vegar viðskipti og rekstur eftirlitsskylds aðila, tengdra aðila og annarra, sbr. 1. mgr. 41. gr. Seðlabankalaga, sbr. einnig 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Hins vegar varði upplýsingarnar viðskipta- og fjárhagsmálefni viðskiptamanna Íslandsbanka, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Óhjákvæmilega er beiðni þinni þar með hafnað.“
Það tók hana 526 daga að afgreiða þá kæru og kveða upp úrskurð. Hámarksviðmið fyrir afgreiðslu kæra til nefndarinnar samkvæmt lögum er 150 dagar. Málsmeðferðartíminn á kærunni minni var því 3,5 sinnum það hámark sem kveðið er á um í lögum.
Ég kærði ákvörðunina samstundis til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það tók hana 526 daga að afgreiða þá kæru og kveða upp úrskurð. Hámarksviðmið fyrir afgreiðslu kæra til nefndarinnar samkvæmt lögum er 150 dagar. Málsmeðferðartíminn á kærunni minni var því 3,5 sinnum það hámark sem kveðið er á um í lögum. Frá því að ég sendi kæruna og þangað til að ég fékk svör hafði ég lokið störfum á þeim fjölmiðli sem ég stýrði, forsætisráðherra þjóðarinnar var búin að segja af sér og tapa forsetaframboði, Bjarni Benediktsson var búinn að sitja í þremur mismunandi ráðuneytum, það var búið að gjósa sjö sinnum í námunda við Grindavík, ríkisstjórn hafði sprungið og búið var að boða til kosninga.
Þekkt leið til að drepa athygli og áhuga
Það er öllum með sæmilega dómgreind ljóst að stjórnsýslan nýtir sér vangetu úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að afgreiða erindi á boðlegum tíma til að drepa óþægilega umræðu um mál.
Í athugun sem umboðsmaður Alþingis gerði á þessu heimatilbúna innanmeini, og lauk í haust, vakti hann meðal annars athygli á því að markmið upplýsingalaga væru samofin tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og hljóti því að skoðast sem ein af forsendum þess aðhalds sem eðlilegt er að stjórnvöld sæti í lýðræðislegu samfélagi. „Í því tilliti bendi ég á að óhóflegar tafir við meðferð mála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kunna í ýmsum tilvikum að leiða til þess að þær upplýsingar sem óskað er aðgangs að verði meira eða minna þýðingarlausar. Hér hef ég ekki síst í huga aðgang fjölmiðla að upplýsingum í þágu umfjöllunar um opinber málefni. Ég tel því að viðhlítandi málshraði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sé mikilvæg forsenda þess að sú löggjöf sem Alþingi hefur sett um þetta efni nái tilgangi sínum.“
Undirbúningur sagður „vandaður“
Til upprifjunar þá átti umrædd sala sér stað á vormánuðum 2022. Ákveðið var að styðjast við fyrirkomulag sem var hvorki almennt né þannig að það hefði verið framkvæmt áður við sölu ríkiseigna á Íslandi. Um var að ræða svokallað lokaútboð þar sem bjóða átti völdum hópi fjárfesta, svokölluðum „hæfum fjárfestum“, að kaupa 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka eftir lokun á þriðjudegi og fyrir opnun þeirra á miðvikudegi.
Ferlinu var hrundið af stað 22. mars og hluturinn seldur fyrir 52,65 milljarða króna til samtals 207 fjárfesta. Það leið ekki langur tími þar til að ansi marga fór að gruna að maðkur væri í mysunni. Fyrst opinberaðist að fólk ofarlega í goggunarröðinni hjá bankanum sem verið var að selja, og var einn helsti umsjónaraðili útboðsins, hefði verið valið í lokaða hópinn sem fékk að kaupa, og þeir keyptu fyrir frekar lágar fjárhæðir í stóra samhenginu. Sá þeirra sem keypti fyrir minnst keypti bréf fyrir ellefu milljónir króna. Spurningar vöknuðu um að ef þessir voru á meðal hinna „hæfu fjárfesta“ hvort að það hafi fleiri sem voru að kaupa fyrir svona lágar fjárhæðir?
Stemmningin í ríkisstjórninni var hins vegar önnur. Átta dögum eftir að salan fór fram gaf Bjarni Benediktsson munnlega skýrslu um söluna á Alþingi þar sem hann sagði ríkisstjórnina hafa „náð öllum helstu markmiðum okkar með sölunni“ og að hún hefði gengið „vel á alla mælikvarða“. „Af öllu þessu má sjá að það er óneitanlega full ástæða til að hrósa Bankasýslu ríkisins fyrir góða niðurstöðu.[...] Góður árangur í sölunni, jafnt nú sem síðasta sumar, raungerðist ekki fyrir tilviljun. Undirbúningur málsins alls hefur verið umfangsmikill og vandaður.“
Upphafið að endalokunum
Það var þó ekki allt svona slétt og fellt og fullkomið eins og Bjarni vildi af láta. Sama dag og hann flutti munnlegu skýrsluna sendi hann bréf til Bankasýslu ríkisins, stofnun sem heyrði undir hann og hafði haft umsjón með söluferlinu. Í bréfinu óskaði Bjarni eftir því að Bankasýslan myndi skila sér lista yfir þá sem keyptu í Íslandsbanka. Stofnunin taldi sig ekki hafa lagaheimild til að birta listann en sendi hann samt á Bjarna, sem birti hann á vef stjórnarráðsins.

Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra eftir að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi skort hæfi til að selja föður sínum hlut í banka. Mynd: Skjáskot
Listinn opinberaði að á meðal þeirra 207 sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka voru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa í útboðinu, litlir fjárfestar sem rökstuddur grunur var um að uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlendir skammtímasjóðir sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir höfðu engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðarmenn, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og faðir fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Sveinsson, sem keypti fyrir um 55 milljónir króna.
Þetta var upphafið að endalokum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Traust almennings á henni hvarf og Bjarni Benediktsson varð óvinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Það er staða sem hann hefur haldið alla tíð síðan.
526 dagar
Þrátt fyrir ákall um að skipa rannsóknarnefnd Alþingis þá valdi ríkisstjórnin aðra leið. Formenn ríkisstjórnarflokkanna sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem boðað var að Bankasýslan yrði lögð niður og ákváðu að Ríkisendurskoðun yrði látin fara yfir málið.
Framhaldið þekkja flestir landsmenn. Ríkisendurskoðun skilaði af sér skýrslu í nóvember 2022 þar sem fellt var áfelli yfir söluferlinu á Íslandsbanka í mars það ár og sérstaklega hlutverki Bankasýslunnar í því. Síðar komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði skort hæfi til að selja félagi í eigu föður síns hlut í Íslandsbanka, sem leiddi til þess að Bjarni sagði af sér ráðherraembætti, og tók svo við öðru nokkrum dögum síðar.
Rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands skilaði því svo að Íslandsbanki viðurkenndi margháttuð lögbrot í söluferlinu og samþykkti að greiða næstum 1,2 milljarða króna í sekt í ríkissjóð, sem er metsekt.
Þegar sátt eftirlitsins við Íslandsbanka var birt var hins vegar búið að strika yfir ýmislegt í henni. Það þótti mér ekki í anda gagnsæis, né í samræmi við þann rökstuðning sem Bjarni Benediktsson hafði beitt fyrir sig þegar hann birti listann yfir kaupendur í útboðinu vorið 2022. Í honum kom skýrt fram að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta féllu ekki undir bankaleynd að mati Bjarna.
Stjórnsýslan var hins vegar búin að skipta um skoðun um nauðsyn gagnsæis þegar verið væri að sýsla með eignir ríkisins þegar ég leitaði eftir því að fá sáttina afhenta án yfirstrikanna. Nú komu ýmsar upplýsingar almenningi ekki lengur við. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók sér svo 526 daga til að verða meira og minna sammála þeirri nálgun.
„Þótt hagsmunir almennings kunni að standa til þess…“
Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að það sé mat Seðlabanka Íslands að það skipti engu að upplýsingar um kaupendur hafi verið birtar í apríl 2022. Það sem strikað hafi verið yfir varði hagsmuni viðskiptamanna bankans og falli því undir þagnarskylduákvæði í lögum um starfsemi bankans. Ákvæði sem Seðlabankanum er í raun heimilt að túlka eftir vild og fella hvað sem er undir. Hann hefur í gegnum árin beitt því við flestum þeirra fyrirspurna um viðkvæm málefni, sem eiga skýrt erindi við almenning, sem ég hef spurt um.

Úr sáttinni sem gerð var við Íslandsbanka. Víða er strikað yfir upplýsingar sem eiga skýrt erindi við almenning, stærsta eiganda bankans. Mynd. Skjáskot
Þetta gerir bankinn þrátt fyrir að ákvæði hafi verið bætt var við lög um starfsemi hans árið 2019 sem veitir honum heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæðinu ef hagsmunir almennings af birtingu gagna vega þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd.
Vert er að taka fram að nöfn umræddra viðskiptamanna, sem voru þeir starfsmenn Íslandsbanka sem höfðu ólöglegan hag af þátttöku í útboði sem sumir þeirra uppfylltu ekki skilyrði til að taka þátt í, voru ekki birt í sáttinni. Það var því ekki verið að strika yfir slíkar persónulegreinanlegar upplýsingar. Það var hins vegar mat Seðlabankans að hægt yrði að bera kennsl á þá ef aðgengi yrði veitt að yfirstrikuðu upplýsingunum.
Að teknu tilliti til mótmæla Seðlabankans ákvað úrskurðarnefndin að heimila einungis aðgengi að litlum hluta þess sem strikað var yfir, og þá einungis upplýsingum um fjárhæðir sem skipta litlu eða engu máli fyrir stóra samhengið. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir blákalt að þagnarskylda Seðlabankans sé fortakslaus og „þótt hagsmunir almennings kunni að standa til þess að fá aðgang að upplýsingunum getur það ekki haft áhrif á framangreinda niðurstöðu.“
Ætlaði að endurheimta traust en tapaði því í staðinn
Þegar ríkisstjórn var mynduð þvert yfir hið pólitíska litróf árið 2017 var það meðal annars gert í þeim yfirlýsta tilgangi að endurheimta traust á stjórnmál og á fjármálakerfið. Salan á Íslandsbanka vorið 2022 hafði þveröfug áhrif á bæði. Hún var upphafið að endalokum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og gerði það að verkum að taka þurfti í sundur allt regluverk í kringum bankasölu og smíða nýtt. Almennt er það skoðun flestra með sæmilega sómatilfinningu og réttlætiskennd að söluferlið hafi einkennst af fúski, frændhygli og strokuspillingu. Nánast allt sem gat mistekist, mistókst. Ástæðan er að uppistöðu sú að Ísland er alltaf persónulegt, aldrei faglegt.
Til að endurheimta þetta traust þarf helst að gera tvennt: innleiða góða og faglega stjórnarhætti sem farið er eftir og að vera með fullt gagnsæi, ekki þykjustugagnsæi. Í raun er þetta ekki flókið. Í þessu felst að gæta hlutlægni, vanda sig, koma hreint fram og segja satt. Að gera eitthvað sem þegar hefur fest sig í sessi í flestum löndunum sem við berum okkur saman við, en virðist því miður hálf óyfirstíganlegt að koma á hér.
Reply