- Kjarnyrt
- Posts
- Bjarnatímabilinu lýkur
Bjarnatímabilinu lýkur
Fyrir áhugafólk um stjórnmál eru það alltaf mikil tíðindi þegar fyrirferðamiklir stjórnmálamenn tilkynna að þeir ætli að yfirgefa sviðið. Brotthvarf Bjarna Benediktssonar virðist þó ekki hreyfa við fólki í samræmi við að þar fari maður sem hafi leitt Sjálfstæðisflokkinn næst lengst allra. Meira að segja málgagninu fannst ekki tilefni til að minnast á það í leiðara né gera því mikil skil á forsíðu.
Það voru ekki mjög óvænt tíðindi að Bjarni Benediktsson hefði ákveðið að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og hætta í stjórnmálum. Það héldu raunar ansi margir í stjórnmálum, jafn innan flokksins, hjá samstarfsflokkunum í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu, að hann væri á skipulegri útleið haustið 2023. Íslandsbankasalan í mars 2022, og sérstaklega vera föður Bjarna á lista yfir þá sem fengu að kaupa, hafði reynst honum pólitískt mjög erfið.
Þegar umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði skort hæfi til að selja föður sínum hlut í ríkisbanka sagði hann enda af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra og færði sig yfir í utanríkisráðuneytið. Hann var búinn að vera formaður í næstum 15 ár, ráðherra í meira en áratug og hvert hneykslis- eða átakamálið rekið annað nánast allan hans pólitíska feril. Honum hafði tekist að standa þau öll af sér og haldið stöðu sinni sem einn valdamesti, ef ekki valdamesti, einstaklingurinn í íslenskum stjórnmálum nánast allan þann tíma. En þetta virtist vera pólitíski banabitinn. Teflon-maðurinn, sem ýtti ítrekað frá sér hneykslis- og álitamálum líkt og steikingapanna ýtir frá sér fitu, virtist hafa klárað pólitísku inneignina.
Þegar hann skipaði fyrrverandi aðstoðarmann sinn og ráðuneytisstjórann sem hann hafði unnið með árum saman í sendiherraembætti þá túlkuðu flestir það sem aðgerð sem pólitíkus sem hefði áhyggjur af því að ná árangri í kosningum í nánustu framtíð myndi aldrei gera. Í tilfelli aðstoðarmannsins, Svanhildar Hólm Valsdóttur, þurfti ekki að auglýsa stöðuna heldur var hún skipuð tímabundið til fimm ára. Það var gert í krafti umdeildar lagabreytingar frá árinu 2020 en Svanhildur var fyrsti einstaklingurinn sem skipaður var á grundvelli hennar. Í kjölfarið var sett af stað frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á verklagi ráðherra við skipunina sem lauk ekki áður en blásið var til kosninga, og óvíst er hvernig fer með.
Ríkisstjórn Katrínar
Á nýársdag í fyrra breyttist allt. Guðni Th. Jóhannesson, þá forseti Íslands, tilkynnti að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri. Ýmsir ráðherrar ályktuðu strax, og sögðu frá því í einkasamtölum, að þessi ákvörðun gæti haft mikil áhrif á hið sérstaka stjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem haldið hafði frá haustinu 2017. Ástæðan var að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherrann og langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar, myndi hafa hug á að sækjast eftir því embætti. Katrín var oft kölluð, réttilega, límið í stjórninni. Hún átti einkar gott með að leiða ágreining í jörðu og takast á við það að verja verk hennar út á við. Það var hins vegar verulega gengið á hennar pólitísku inneign Katrínar þegar þarna var komið. Flokkur hennar mældist með hættulega lítið fylgi og í desember 2023 hafði könnun sýnt, í fyrsta sinn að fleiri landsmenn báru lítið traust til Katrínar sem forsætisráðherra en þeir sem sögðust treysta henni vel. Munurinn var auk þess töluverður.
Bjarni tók við lyklunum af forsætisráðuneytinu af Katrínu Jakobsdóttur í apríl í fyrra. Í október var hann búinn að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til kosninga. Mynd: Stjórnarráðið
Það átti ekki að hafa komið öllum í opna skjöldu að Katrín væri farin að hugsa um útleið úr pólitík. Í viðtali við Heimildina í ágúst 2023 viðurkenndi hún að hafa íhugað stöðu sína þá um sumarið, og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri „mjög til í þennan vetur“.
Það að Katrín gæti farið í forsetaframboð, sem hún svo gerði án þess árangurs sem hún vonaðist eftir, veikti strax tilverugrundvöll ríkisstjórnarinnar. Ljóst var að innan Vinstri grænna, minnsta flokksins í stjórninni, var enginn annar stjórnmálamaður sem gæti gert kröfu um að verða forsætisráðherra. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsókn myndu taka það í mál.
Sú staða hefur ugglaust breytt áformum Bjarna Benediktssonar líka. Ef Katrín stigi til hliðar þá myndi opnast leið fyrir hann að verða forsætisráðherra aftur. Síðast þegar hann sat í þeim stól þá entist það ekki út árið og því skiljanlegt að það hafi kitlað pólitískan hégóma manns sem virtist vera á síðustu metrum sinnar pólitískrar tilveru.
Vandamálið var að tilvera ríkisstjórnarinnar hvíldi á Katrínu. Hún var mynduð í kringum hana. Í könnun íslensku kosningarannsóknarinnar fyrir kosningarnar 2021 kom meira að segja fram að fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokksins vildu Katrínu í stól forsætisráðherra en Bjarna Benediktsson, formann flokksins sem þeir studdu. Án Katrínar var ekki hægt að réttlæta stjórnina, sem þegar var orðin ákaflega óvinsæl, gagnvart þjóðinni. Ofan á allt þá var Bjarni langóvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar og hafði verið það stöðugt í langan tíma samkvæmt mælingum.
Tvö handrit
Samt var ákveðið að kýla á framhald með Bjarna í brúnni. Það endaði ekki vel. Í könnun sem Maskína gerði fyrir Heimildina skömmu eftir forsætisráðherraskiptin kom í ljós að 73 prósent svarenda báru lítið traust til nýja forsætisráðherrans, 69 prósent sögðust neikvæð gagnvart þeim breytingum sem gerðar voru á ríkisstjórninni og 67 prósent sögðust treysta stjórninni síður.
Snemma í fyrrahaust studdu einungis 23,6 prósent landsmanna studdu ríkisstjórnina, sem gerir hana að óvinsælustu stjórn Íslandssögunnar. Á svipuðum tíma birtist könnun sem sýndi að 39 prósent svarenda töldu að Bjarni hefði staðið sig verst allra ráðherra á kjörtímabilinu sem hófst 2021. Stjórnarsamstarfið logaði í illdeilum og þær voru nú bornar á torg daglega í stað þess að ólík sjónarmið yrðu sætt bakvið luktar dyr. Óróleikinn var sérstaklega sýnilegur á meðal sumra Sjálfstæðismanna, sem voru orðnir öflugasta stjórnarandstaðan á síðustu metrunum. Það fór enda svo að Bjarni sleit samstarfinu í október og boðaði til kosninga, sem fóru fram í lok nóvember.
Þegar þetta gerðist var þegar búið að boða næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem mun að óbreyttu fara fram í lok febrúar og byrjun mars. Það var enginn tími til að skipta um forystu fyrir kosningar. Bjarni hafði í raun engu að tapa á því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í gegnum kosningarnar. Fylgið mældist sögulega hræðilegt og myndi, þegar hin velþekkta kosningavél flokksins hrykki í gang, að minnsta kosti aukast eitthvað þannig að hægt yrði að kalla niðurstöðuna eitthvað annað en hún var, til dæmis „varnarsigur“. Ef kosningarnar myndu skila flokknum aftur í ríkisstjórn gæti hann haldið áfram, væri búinn að standa af sér enn eina ágjöfina, með endurnýjað umboð. Ef þær myndu skila flokknum slæmu fylgi og stjórnarandstöðu væri hann búinn að taka einn fyrir liðið og næsti formaður gæti byrjað uppbyggingarstarf og drauminn um endurkomu til valda með nokkuð hreint borð.
Fyrri niðurstaðan varð ofan á. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína verstu kosningu í sögunni og fór í fyrsta sinn undir fimmtungsfylgi. Hann er ekki lengur stærsti flokkur landsins og verður, að óbreyttu, í stjórnarandstöðu næstu fjögur árin. Líkt og áður hefur verið bent á á þessum vettvangi er valdamesti kjörni fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í dag bæjarstjórinn í Kópavogi. Það er einstök, og algjörlega ný, staða.
Eindálkur og miðopna
Þann 6. janúar tilkynnti Bjarni, í færslu á Facebook, það sem flestir vissu. Hann ætlaði að hætta, jafnt sem formaður og þingmaður. Í ljósi þess að Bjarni hefur setið næst lengst allra formanna Sjálfstæðisflokks – aðeins Ólafur Thors hefur setið lengur – og hefur tekist á við mörg risastór verkefni samhliða öllum skandölunum sem honum tókst að rata stanslaust í þá voru viðbrögðin við brotthvarfi hans, vægt til orða tekið, hófstillt. Morgunblaðið, sem hefur sögulega oftast nær verið hluti af pólitík Sjálfstæðisflokksins og valdastéttarinnar í atvinnulífinu, birti til að mynda einungis stuttan eindálk á forsíðu sinni daginn eftir um þessi tímamót, tæpa síðu inni í blaðinu og minntist ekki einu orði á þau í leiðara. Þess í stað skrifaði leiðarahöfundurinn, sem af stílnum af dæma var augljóslega Davíð Oddsson, um skoðanir Guðna Ágústssonar, manns sem hætti á þingi fyrir 16 árum síðan, á Evrópusambandinu.

Hér má sjá forsiðu Morgunblaðsins daginn eftir að Davíð Oddsson tilkynnti að hann ætlaði að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og forsíðu sama blaðs þegar Bjarni Benediktsson gerði slíkt hið sama.
Ef viðbrögð Morgunblaðsins eru borin saman við þau þegar Davíð tilkynnti sjálfur, á blaðamannafundi, að hann ætlaði að hætta sem formaður og ráðherra, í september 2005, þá er himinn og haf á milli þeirra sem Bjarna var boðið upp á. Forsíðan var að mestu undirlögð undir brotthvarf Davíðs. Það var miðopnan líka auk þess sem umfjöllunin flæddi yfir á næstu síðu. Leiðarinn þennan dag fjallaði einvörðungu um þessi miklu tímamót og honum lauk með eftirfarandi orðum: „Það er að sjálfsögðu ekki auðvelt fyrir þá, sem taka við af Davíð Oddssyni, að fara í fötin hans. „Niðurstaðan er örugglega sú að Ísland er miklu fjölbreyttara, öflugra, skemmtilegra og betra samfélag nú en það var fyrir tíu-tuttugu árum,“ sagði hann á blaðamannafundinum í gær, þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni. Undir það geta flestir Íslendingar tekið – og þakkað Davíð Oddssyni fyrir hans hlut í því.“
Þau sem vilja fara í fötin hans Bjarna
Fyrirsögn leiðarans var „Davíðstímabilinu lýkur“. Nú er Bjarnatímabilinu næstum lokið, og þeir sem ætla að bítast um að fara í fötin hans eru farin að brýna kutana. Nokkuð augljóst er að fjórir hið minnsta eru komin í gang og ætla sér formennsku, hvað svo sem gerist þegar nær dregur landsfundi. Varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur verið klár í að stíga upp í lengri tíma og ekki falið það. Guðlaugur Þór Þórðarson reyndi að steypa Bjarna á síðasta landsfundi og fékk 40 prósent atkvæða. Hann mun reyna aftur. Hans helsti andstæðingur innan flokks, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, mun gera það líka og allt virðist benda til þess að Guðrún Hafsteinsdóttir muni að minnsta kosti kanna gaumgæfilega hvort hún eigi einhvern séns.

Miðopna Morgunblaðsins 8. september 2005 var undirlögð undir brotthvarf Davíðs Oddssonar og leiðari þess dags fjallaði allur um arfleið hans.
Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu, og kjörtímabilið nýhafið, er nær útilokað að næsti formaður komi utan þingflokksins. Staðan væri allt önnur ef flokkurinn væri í ríkisstjórn og nýr formaður gæti komið inn sem utanþingsráðherra.
Hver sem vinnur mun takast á við flókið verkefni við að sætta allskyns ólík sjónarmið sem eru uppi innan flokksins. Áslaug Arna kallaði eftir kynslóðaskiptum í forystunni grein í dag í Morgunblaðinu, sem mun sennilega styðja hana í komandi baráttu í ljósi þess að faðir hennar er stjórnarformaður útgáfufélags blaðsins, svo Sjálfstæðisflokkurinn geti aftur orðið öflugasta stjórnmálaafl landsins og geti endurheimt trúverðugleika í samfélaginu. Þeim orðum er augljóslega beint gegn Guðlaugi Þór, sem er eldri en Bjarni, og Guðrúnu, sem er jafngömul fráfarandi formanni. Áslaug og Þórdís eru hins vegar umtalsvert yngri. Af annarri kynslóð.
Flokkurinn hefur áður farið í gegnum þann fasa að missa völdin þar sem hann hefur meira og minna alltaf haft þau. Það gerðist í Reykjavík árið 1994 og siðan þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn í borginni meira og minna verið utan meirihluta. Þar er hann augljóslega klofið ósamstíga rekald sem getur ekki ákveðið fyrir hvað hann stendur. Hefur einfaldlega þótt, um margra ára skeið, óstjórntækur í höfuðborginni. Það eru væntanlega örlög sem ný forysta vill forðast.
Það kemur í ljós eftir nokkrar vikur hvort þeir flokksmenn sem hafa seturétt á landsfundi séu sammála Áslaugu Örnu og hvort þeim takist að finna sameiginlegan persónuleika fyrir flokkinn sinn aftur. Við hin áhugafólkið um íslensk stjórnmál poppum á meðan.
Reply