• Kjarnyrt
  • Posts
  • Bréf frá bankastjóra á biðilsbuxum

Bréf frá bankastjóra á biðilsbuxum

Allar ákvarðanir sem teknar verða um sölu banka sem eru í eigu ríkisins verða teknar með almannahagsmuni, og þá einvörðungu, að leiðarljósi. Hagsmunir eða vilji annarra hluthafa banka munu ekki fá að ráða þar för. Mikilvægast er, í ljósi sögunnar, að það ríki traust á söluferlinu og að almenningur hafi forgang.

Stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki högnuðust samtals um 88,4 milljarða króna í fyrra. Það er næst mesti hagnaður sem þeir hafa skilað í krónum talið frá því að þeir voru endurreistir á nýjum kennitölum eftir bankahrunið. eina skiptið sem þeir hafa grætt meira var árið 2015, þegar sameiginlegur hagnaður þeirra fór í fyrsta og eina skiptið rétt yfir 100 milljarða króna.

Stóra breytan í miklum hagnaði bankanna á árinu 2024 er góð afkoma ríkisbankans Landsbankans, sem var 37,5 milljarðar króna á síðasta ári og því um 42 prósent af heildarhagnaði hinna þriggja stóru. Hægt er að lesa meira um uppgjör Landsbankans, og af hverju það væri afleit hugmynd að selja hann, hér að neðan:

Hreinar vaxtatekjur fóru aftur yfir 150 milljarða

Hagnaður stóru bankanna þriggja í fyrra var fyrst og síðast vegna undirliggjandi rekstrar sem samanstendur af vaxtatekjum og þjónustutekjum. Þar skipta hinar fyrrnefndu mestu máli, enda var vaxtamunur, sem segir til um muninn sem er á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir lán og þess sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum peninga, Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka 2,7 til 3,1 prósent á árinu 2024. Það er mun hærra en í samanburðarlöndunum og vert að taka fram að hann var lægstur hjá eina bankanum sem er nær alfarið í eigu ríkisins. Annað árið í röð fóru samanlagðar hreinar vaxtatekjur bankanna þriggja yfir 150 milljarða króna, en þær stóðu nánast í stað milli ára.

Á sama tíma jukust vaxtagjöld heimila gríðarlega. Þannig greiddu heimilin 69 prósent meira í slík haustið 2024 en þau gerðu þremur árum áður. Á ársgrundvelli hækkaði vaxtabyrði venjulegs vinnandi fólks samanlagt um marga tugi milljarða króna. Það er þetta sem átt er við þegar rætt er um ofurskattinn sem lagður var á íslensk heimili á síðasta kjörtímabili og er ástæða þess að stöðugleiki og ráðdeild í efnahagsmálum er efst á baugi hjá nýrri ríkisstjórn. Ekkert mun færa landsmönnum meiri hagsæld hraðar en lægri vexti.

Miklar arðgreiðslur og endurkaup

Arion banki er sá banki sem hefur verið duglegastur í að greiða hluthöfum sínum mest út úr starfsemi sinni á síðustu árum. Hann er líka sá banki sem er með hæsta vaxtamuninn og sá banki sem er með flesta einkafjárfesta í eigendahópi sínum. Alls greiddi Arion banki hluthöfum sínum út 25,5 milljarða króna í fyrra í arð og vegna kaupa á eigin bréfum. Íslandsbanki greiddi slíkum út 21,3 milljarða króna en Landsbankinn greiddi íslenska ríkinu 16,5 milljarða króna í arð.

Búast má við því að arðgreiðslur og endurkaup verði á svipuðu róli hjá Arion banka og Íslandsbanka í ár og á árinu 2024 en áhugavert verður að fylgjast með hvort Landsbankinn nýti tækifærið til að greiða út sérstaka arðgreiðslu síðar á þessu ári í kjölfar sameiningar Marels og JBT, sem var bankanum afar hagfelld.

Þættinum barst óvænt bréf

Búist var við því að helstu tíðindi á fjármálamarkaði í ár yrðu þau að gengið yrði frá kaupum Landsbankans á TM, sennilega í næsta mánuði, og svo yrði hlutur ríkisins í Íslandsbanka seldur. Áform um fyrirkomulag þeirrar sölu voru kynnt fyrir viku. Stuttu seinna var sent óvænt bréf sem gæti, mögulega en ósennilega, sett þau áform í uppnám.

Arion banki sendi umrætt bréf til Íslandsbanka á föstudag og lýsti þar eftir áhuga á viðræðum um sameiningu banka. Bankinn býður fimm prósent yfirverð ofan á markaðsverð komi til sameiningar, sem myndi þýða að eignarhlutur ríkisins í sameinuðum banka yrði rúmlega 20 prósent. Arion banki gaf Íslandsbanka 14 daga til að svara.

Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka og sá sem sendi bréfið. Mynd: Arion banki

Í bréfinu frá Arion banka var lögð mikil áhersla á hver beinn sparnaður neytenda yrði af sameiningunni og sagt að hann væri „áætlaður að lágmarki 50 milljarðar króna á næstu tíu árum, sem er mikilvægt innlegg í sparnaðarátak nýrrar ríkisstjórnar. Einnig gæti komið til verulegur óbeinn sparnaður neytendum til hagsbóta.“ Það myndi þýða að ætlaður sparnaður neytenda yrði að meðaltali fimm milljarðar króna á ári næsta áratuginn.

Væri hægt að fækka um fleiri en sex hundruð

Morgunblaðið fjallaði um hugmynd Arion banka á þriðjudag og vitnaði þar í greiningu frá Akkri þar sem farið var yfir kosti og galla mögulegs samruna. Þar var rýnt í mögulega samlegð í gegnum minnkandi launakostnað ef af sameiningunni yrði. Sú rýni miðaði við að starfsmönnum bankanna, sem voru samtals 1.647 um síðustu áramót, myndi fækka um 381 til 667.

Það þýðir að allt að 40 prósent starfsmanna myndu missa vinnuna við sameiningu. Þetta ætti, samkvæmt greiningu Akkurs, að geta sparað átta til 14 milljarða króna í launakostnað miðað við að kostnaður við hvert ársverk í bönkunum sé á bilinu 20 til 22 milljónir króna. Miðað við þann sparnað þá ganga áætlanir forsvarsmanna Arion banka út á að skila fimm milljörðum króna til neytenda en að sameiginlegi bankinn haldi eftir þremur til níu milljörðum króna af þeirri hagræðingu fyrir sig sjálfan.

Það eiga fleiri að græða en neytendur

Arion banki reiknaði þó ekki bara með því að spara í launakostnaði. Í bréfinu sagði að þarna væri um einstakt tækifæri til að endurskipuleggja íslenskt fjármálakerfi að ræða. Það fæli í sér möguleikann á því að „auka skilvirkni þess með því að dreifa þunga regluverksins á stærri eignagrunn og ná fram samlegðaráhrifum í nýsköpun og þróun þannig að sameinaður banki væri betur í stakk búinn að mæta þörfum viðskiptavina og íslensks efnahagslífs. Samruni bankanna myndi þannig styrkja stoðir tveggja kerfislega mikilvægra banka sem gætu veitt betri þjónustu með lægri tilkostnaði, stutt efnahagslegan vöxt, minnkað kerfisáhættu og gert íslenskt fjármálakerfi samkeppnishæfara á alþjóðlegum vettvangi.“

Samlegðaráhrifin, mæld í krónum, eru því sennilega langt umfram það sem til sparast í starfsmannahaldi. Og því ljóst að ávinningur hluthafa af því að sameina bankana tvo væri umtalsvert meiri en það sem til stendur að skila til neytenda samkvæmt bréfinu.

Var bankastjóra alvara eða voru þetta skilaboð?

Margir hafa klórað sér í hausnum yfir þessari bréfasendingu og allskyns kenningar eru uppi um tilgang hennar. Nokkur borðleggjandi þykir að Samkeppniseftirlitið muni ekki samþykkja slíka samþjöppun á einum mikilvægasta neytendamarkaði á Íslandi, sérstaklega þar sem bankarnir þrír eru nær einvörðungu í viðskiptum innanlands, við íslensk heimili og fyrirtæki. Ísland er fákeppnismarkaður á nánast öllum sviðum og rök um að aukin samlegð fyrirtækja skili neytendum betri kjörum en virk samkeppni hafa ekki hlotið mikinn hljómgrunn, enda sýnir sagan að sá sparnaður sem hlýst af sameiningu stórra fyrirtækja skilar sér oftar en ekki aðallega til hluthafa, ekki viðskiptavina.

Lagt hefur verið út frá því í viðskiptapressunni að þarna sé um skilaboðasendingu til að fylgja eftir markaðsherferð stóru íslensku bankanna um hið svokallaða „Íslandsálag“ sem ég fjallaði um í greininni hér að neðan:

ViðskiptaMogginn gekk raunar svo langt að spyrja Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, hvort það væri raunverulega alvara á bakvið bréfið eða hvort það ætti frekar að líta á það sem ábendingu til ráðamanna. Hann sagði svo vera.

Það er þetta með almannahagsmunina

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur greint frá því í tilkynningu að ríkið muni halda áfram að vinna að undirbúningi á sölu á hlut sínum í Íslandsbanka í almennu og opnu útboði þrátt fyrir tilboð Arion banka. Þar segir meðal annars: „Í ljósi þess að um er að ræða stórt mál, sem varðar tvo skráða banka á samkeppnismarkaði með fjölbreyttan hluthafahóp, er eðlilegt og nauðsynlegt að málið verðið metið með vönduðum hætti af hálfu ríkisins, stærsta hluthafans, áður en nokkur afstaða er tekin til erindis Arion banka.“

Hann sagði svo við fjölmiðla í vikunni að ef það þyrfti ekki að hafa áhyggjur af samkeppnissjónarmiðum hérlendis þá væri líklegast bara einn banki á landinu. Sá mikli kostnaður sem væri af því að vera með þrjá banka í litlu kerfi væri hluti af því að vera með krónuna sem gjaldmiðil.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var enn afdráttarlausari en Daði í svörum sínum til fjölmiðla og sagði skýrt að það kæmi sér verulega á óvart ef af samruna Arion banka og Íslandsbanka yrði. Í samtali við Vísi sagði hún: „Ef þú spyrð mig um mína pólitísku skoðun, þá skil ég alveg þau sjónarmið að fólk vilji ýta undir skilvirkni og hagræðingu. Það breytir því samt ekki að málin flækjast þegar kemur að neytendahliðinni, markaðslegu aðhaldi og hvert hagræðing rennur. Ég er kosin og við öll hérna í pólitík, til að gæta almannahagsmuna.“

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, var sömuleiðis nokkuð skýr í samtali við Vísi um að honum hugnist alls ekki áform um sameiningu tveggja af þremur viðskiptabönkum landsins. „Það er alveg nógu lítil samkeppni á markaði nú þegar, að ekki þurfi að draga úr henni enn frekar með því að fækka viðskiptabönkunum úr þremur í í tvo. Þar yrði annar þeirra yfirgnæfandi risi á íslenskum markaði. En það sem er kannski athyglisverðast í þessu er að í rauninni er atvinnulífið að segja, með kröfum um að skera sig úr samkeppni, að íslenska hagkerfið sé of lítið fyrir samkeppni. Það er mjög athyglisverð afstaða.“

Lægri ábati en kostnaður af samruna

Samruni Íslandsbanka við Arion banka hefur raunar verið meira og minna útilokaður með rökum af stofnun sem hafði það hlutverk að losa um hlut ríkisins í fyrrnefnda bankanum. Í stöðuskýrslu Bankasýslu ríkisins, sem birt var í mars 2020 áður en fyrsta skrefið var stigið í sölu á Íslandsbanka, sagði að ljóst væri að samruni hans við annan innlendan banka myndi ekki eiga sér stað nema með samþykki Samkeppniseftirlitsins, vegna þess að þegar væri mikil samþjöppun á markaði fyrir fjármálaþjónustu á Íslandi.

Við mat á slíkri samþjöppum styðst Samkeppniseftirlitið við ákveðin stuðul (svokallaðan HHI stuðul) til að mæla samþjöppun og við viðmiðunarreglur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samkvæmt þeim viðmiðunarreglum myndi eftirlitið einungis samþykkja samruna Íslandsbanka og Arion banka ef hann leiddi af sér minni samþjöppun.

Í samantekt um þetta mál í stöðumatsskýrslu Bankasýslunnar sagði einfaldlega að það væri „ljóst að stóru viðskiptabankarnir þrír hafa afar sterka markaðsstöðu á öllum mörkuðum. Sést það á umfangi starfsemi þeirra m.v. fjárhæð, hlutdeild Arion banka og Íslandsbanka og breytingum á HHI stuðlinum við mögulegan samruna þessara tveggja banka, en hann yrði í öllum tilfellum langt umfram öll viðmið samkeppnisyfirvalda á Vesturlöndum. Þannig útilokar Bankasýsla ríkisins samruna Íslandsbanka við Arion banka hf. („Arion banka“) eða Landsbankann, nema að komi til sérstakrar lagasetningar, þar sem stofnunin telur að samruninn hafi í för með sér lægri ábata en kostnað.“

Ofan á allt annað má benda á að reiknað er með fjármunum úr bankasölunni við rekstur ríkisins í ár. Við blasir að það myndi taka eftirlitsstofnanir hins opinbera að minnsta kosti vel inn á næsta ár að komast til botns í því hvort heimila ætti samruna Íslandsbanka og Arion banka eða ekki.

Það skiptir máli hver selur

Allar ákvarðanir sem teknar verða um sölu fjármálafyrirtækja sem eru í eigu ríkisins verða teknar með almannahagsmuni, og þá einvörðungu, að leiðarljósi. Hagsmunir eða vilji annarra hluthafa banka munu ekki fá að ráða þar för. Mikilvægast er, í ljósi sögunnar, að það ríki traust á söluferlinu og að almenningur hafi forgang.

Það blasir við að það er ekki neytendum fyrir bestu að vera með tvo, eða þess vegna einn, viðskiptabanka. Það gildir á fjármálamarkaði eins og öðrum fákeppnismörkuðum á Íslandi þar sem fyrirtæki sem starfa meira og minna bara á Íslandi keppa, oft með takmörkuðum áhuga, um hylli landsmanna.

Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra og fer með sölu á hlutum ríkisins í bönkum sem það á. Mynd: Stjórnarráðið/Bernharð

Langlíklegasta þróun mála er því sú að bréf bankastjóra Arion banka muni ekki skila neinum öðrum árangri en að hjálpa fjármálakerfinu við það að koma skoðunum þeirra á álögum á íslenska banka í fréttir um stundarsakir.

Á meðan mun ríkið halda áfram þeirri vegferð sem mótuð hefur verið og selja eftirstandandi 42,5 prósent hlut sinn í Íslandsbanka í útboði þar sem viðhaft verður hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi sem birtist meðal annars í því að almenningi verður tryggður forgangur að kaupum á hlutum í bankanum. Fyrirkomulagið verður þannig að verðið sem fagfjárfestum býðst að borga fyrir hluti í bankanum verður aldrei lægra en í þeirri tilboðsbók sem almenningur mun bjóða í gegnum.

Ekki síður er mikilvægt að það er ríkisstjórn sem nýtur stuðnings sjö af hverjum tíu landsmanna sem fer nú með verkefnið, en ekki fyrri ríkisstjórn sem náði með fúski að klúðra síðustu skrefum í söluferlinu þannig að það skilaði henni því sögulega hlutverki að verða óvinsælasta ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Það skiptir nefnilega ekki bara máli að selja, heldur að fólk treysti þeim sem eru að selja.

Reply

or to participate.