• Kjarnyrt
  • Posts
  • Það sem gerist þegar skrúfað er frá peningakrönum

Það sem gerist þegar skrúfað er frá peningakrönum

Afar mikilvægt er að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnulífi. Skapa störfin sem þjóðin er að mennta sig til að sinna, tryggja að þau séu framleiðni aukandi, vel borguð og staðsett um allt land. Til þess að stuðla að þessu hafa stjórnvöld í gegnum tíðina stutt við fjölmargar atvinnugreinar með beinum greiðslum úr ríkissjóði. Sumar eru kallaðar styrkir, aðrar endurgreiðslur. Um er að ræða tugi milljarða króna á ári og því mikilvægt að þeim sé úthlutað af ábyrgð og fagmennsku. Síðasta ríkisstjórn gerði það ekki, heldur skrúfaði frá peningakrönum, sinnti litlu eftirliti og mældi ekki árangur. Styrkirnir lentu ekki allir þar sem þeir áttu að lenda. Nú hefur orðið breyting á því.

Ein stærsta breytingin sem varð á útgjöldum í tíð síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna var gríðarleg aukning í stuðningi við nýsköpun. Sá stuðningur var 1,3 milljarðar króna árið 2015 en í ár voru endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar áætlaðar 17,2 milljarðar króna. Ríkisstjórnin sem kvaddi í lok síðasta árs var með áform um að kostnaður vegna þessara styrkja yrði kominn upp í 24 milljarða króna á ári í lok síðustu fjármálaáætlunar hennar, sem átti að standa út árið 2029.

Hugmyndin að baki þessum stuðningi er góð og göfug. Það átti að fjölga stoðunum undir íslensku efnahagslífi. Í staðinn fyrir að treysta um of á fisk, orku og ferðamenn og í staðinn fyrir að allt samfélagið þyrfti að standa og sitja með sveiflum í þessum þremur meginstoðum undir hagkerfinu, þá átti að virkja hugarvitið og fjölga stoðunum. Búa til störfin sem þjóðin er að mennta sig til að sinna.

Veigamesta breytingin sem gerð var á þessu tímabili var gerð á tímum kórónuveirufaraldursins og fól í sér hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu í 35 prósent af útlögðum kostnaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 25 prósent í tilviki stórra fyrirtækja.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fóru mest í þessari vegferð og nú fyrrverandi formaður þess flokks kallaði Ísland „draumaland nýsköpunarmanna“ í ræðu á Alþingi vorið 2024.

Skrúfað frá krana

Þótt tilgangurinn hafi verið göfugur var fyrirkomulagið sem Sjálfstæðisflokkurinn og meðreiðarsveinar hans í síðustu ríkisstjórnum komu á gagnrýnt víða, sérstaklega fyrir að vera svokallaður „krani“. Það er orðatiltæki sem notað er yfir það þegar skrúfað er frá fjárútlátum án þess að nokkur fyrirsjáanleiki sé fyrir hendi um hversu víðtæk og umfangsmikil þau verða.

Þegar kostnaðarliður vex úr rúmum milljarði króna og upp í það að eiga að vera um 24 milljarðar króna á fimmtán árum, og fer í sífellu langt umfram það sem áætlað var í kostnað, þá fellur hann undir þetta orðatiltæki. Sama má segja um endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu. Þær voru til að mynda áætlaðar um 1,7 milljarðar króna í fjárlögum ársins 2023 en enduðu á því að vera 5,8 milljarðar króna það ár. Þar skipti máli að eitt erlent verkefni, fjórða þáttaröð True Detective-þáttanna, framleidd af HBO Max í Bandaríkjunum, fékk rúma fjóra milljarða króna í endurgreiðslur úr ríkissjóði Íslands. Til að standa undir þessari greiðslu þurfti að sækja aukafjárheimild á fjárlögum.

Samhliða því að ríkissjóður rúmlega 13 faldaði styrki sína til rannsókna og þróunar á áratug hafa heildarútgjöld til slíks starfs aukist umtalsvert líka. Í krónum talið jukust þau um 64 milljarða króna á ári frá árinu 2015 og til 2023 samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands tekur saman. Þar munar mestu um aukin útgjöld fyrirtækjanna sjálfra.

Það vekur þó athygli þegar tölurnar eru skoðaðar að milli áranna 2022 og 2023 drógust útgjöldin saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þótt opinberu styrkjagreiðslurnar hefðu haldið áfram að aukast. Og enn meiri athygli vekur að framlag fyrirtækjanna sjálfra til rannsókna og þróunar óx einungis úr 1,44 prósentum af landsframleiðslu í 1,92 prósent af henni samhliða því að opinberir styrkir voru orðnir rúmlega tíu sinnum meiri en þeir voru tæpum áratug áður.

Árangur ekki metinn og eftirlit lítið sem ekkert

Harðasta gagnrýnin á svona styrkjakerfi kom að utan. Bæði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hafa ítrekað lýst yfir rökstuddum áhyggjum af fyrirkomulaginu sem viðhaft hefur verið við nýsköpunarstuðning og bent á að íslensk stjórnvöld þurfi að mæla árangur af þeim styrkjum sem þau eru að beina í þennan farveg á mun skýrari hátt en gert hafi verið.

Það hafa þau stundum lofað að gera. Þegar fjárlög ársins 2023 voru afgreidd, með þeim hætti að framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina voru aukin um 6,1 milljarð króna, kom til að mynda fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, sem samanstóð af nefndarmönnum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, að nefndin stefndi „að því að meta árangur og skilvirkni af auknum fjármunum á árinu 2023.“ Ekki var staðið við neitt af þessu.

Það er gríðarlega mikilvægt að styðja við uppgang hugvitsgreina, en það skiptir máli hvernig það er gert og viljinn má ekki undanskilja stjórnvöld frá þeirri ófrávíkjanlegu ábyrgð að fara vel með opinbert fé. Mynd: Pexels

OECD hefur enn fremur bent á að eftirlit og eftirfylgni með styrkþegum og verkefnum þeirra sé verulega ábótavant. AGS sagði í áliti sendinefndar sjóðsins sem birt var í maí í fyrra að rannsókna- og þróunarhvatar hafi stuðlað að vexti nýsköpunarfyrirtækja og aukinni verðmætasköpun í hátæknigeirum. „Til að halda kostnaði í skefjum og hámarka efnahagsleg áhrif rannsókna- og þróunarhvata ætti að skýra betur útgjaldaviðmið fyrir opinberan stuðning til rannsókna- og þróunarverkefna ásamt því að styrkja ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun.“

Töldu fram almennan rekstrarkostnað

Skatturinn, sem var annar þeirra aðila sem eiga að hafa eftirlit með þessum gríðarlegu greiðslum, hefur líka gagnrýnt stöðuna. Í umsögn sem hann skilaði inn til Alþingis fyrir rúmlega fjórum árum síðan, sagði að mikil þörf væri á eftirliti með útgreiðslu styrkjanna meðal annars vegna þess að „nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð, sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af, verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna“.

Skatturinn benti á að ekki hafi verið sett með lögum ákvæði um beitingu álags eða annarra refsiviðurlaga til að bregðast við eða skapa varnaðaráhrif vegna „háttsemi sem samrýmist ekki lögum þessum [...] Ekki ætti að þurfa að árétta að misnotkun á þessum stuðningi með óréttmætum kostnaðarfærslum getur leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera, í formi óréttmætra endurgreiðslna, auk þess að raska samkeppni á markaði.“

Í ljósi alls þessa taldi Skatturinn „óvarlegt að gera ráðstafanir sem ljóst þykir að muni leiða til aukins umfangs málaflokksins til frambúðar og aukinna endurgreiðslna úr ríkissjóði án þess að hugað sé að því hvernig styrkja megi viðeigandi regluverk í því skyni að einfalda og styrkja umrædda framkvæmd. Slíkar breytingar væru jafnframt til þess fallnar að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika gagnvart skattaðilum.“

Við gerð fjárlaga í fyrra kom fram í minnisblaði að það þyrfti að fjölga eftirlitsferðum og auka samhæfingu milli Rannís, sem tekur við, fer yfir og samþykkir umsóknir, og Skattsins, sem sinnir öðru eftirliti. Þar kom einnig fram að Rannís og Skatturinn væru „með fáa einstaklinga sem sinna þessum verkefnum og því ljóst að verkefnið er viðkvæmt fyrir mannabreytingunum.“

Ekkert var því gert til að bregðast við þessu í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Þegar skilað 3,4 milljörðum króna

Sitjandi ríkisstjórn tók þessi mál föstum tökum. Strax var gefin út sú lína að farið yrði vel með opinbert fé og að eftirlit með slíku yrði hert þar sem það þyrfti til. Skýr stefna er að auka fyrirsjáanleika í útgjöldum ríkissjóðs, og skrúfa því fyrir áðurnefnda „krana“ þannig að það þyrfti ekki að finna fullt af aukamilljörðum króna í lok hvers árs til að standa undir þeim skuldbindingum sem stofnað hefur verið til. Fullt af aukamilljörðum sem síðasta ríkisstjórn setti bara á fokdýra yfirdráttinn með öllu hinu, enda stjórn sem hafði engan vilja til að afla tekna til að standa undir innviðaþörf eða aukinni velferð heldur einbeitti sér fyrst og síðast að því að moka fjármunum út úr ríkissjóði til breiðustu baka samfélagsins.

Afleiðingar þess að ábyrgð og þjónandi fólk er tekið við sjást strax. Rannís birti tilkynningu á vef sínum í október þar sem kom fram að stofnunin hefði hafnað mun fleiri umsóknum en áður. Nánar tiltekið þá samþykkti Rannís 42 prósent nýrra umsókna og 84 prósent framhaldsumsókna, en hafnaði öðrum en samþykkti ekki vegna fjárhagsvandræða þeirra fyrirtækja sem sóttu um styrk. Í tilkynningunni sagði orðrétt: „Helsta orsök höfnunar var að lýsing á verkefni eða verkþættir báru með sér að verkefni væri hluti af reglubundinni almennri starfsemi umsóknarfyrirtækis og uppfyllti því ekki þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að Rannís samþykki þau sem rannsókna- og þróunarverkefni.“

Þar sagði einnig að Rannís vinni „með ráðuneytum fjármála og nýsköpunar að endurskoðun á regluverki og verklagi sem munu leiða til þess að afgreiðslutími umsókna sem hafa borist á þessu ári muni verða styttri.“

Það regluverk og verklag mun meðal annars birtast í frumvarpi sem er væntanlegt inn í þingið á allra næstu dögum. Í breytingum á fjárlagafrumvarpinu milli umræðna kemur fram að áætlaðar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar muni, vegna alls ofangreinds, verða 3,4 milljörðum króna lægri á næsta ári en áður var áætlað.

Til að setja þá tölu í samhengi þá nær hún yfir aukin framlög til öryggisvistunar, framlög vegna endurbóta og uppbyggingar á neyðarvistun Stuðla og rekstur slökkviliðs og öryggisgæslu í Grindavík í eitt ár en skilur samt 100 milljónir króna eftir í ríkissjóði.

Ábyrg efnahagsstjórn án kúvendinga

Ábyrg efnahagsstjórn er forsenda þess að geta rekið burðugt og blómstrandi ríki. Við erum að upplifa það þessi dægrin. Síðustu ríkisstjórnir hafa ítrekað rekið ríkissjóð á yfirdrætti til að takast á við áskoranir og áföll, og vegna þess að þær hefur skort getu og vilja til að standa undir eðlilegum kostnaði við innviði og velferð, með því að skapa nægilegar tekjur til að byggja boðlegt samfélag.

Þrátt fyrir ítrekuð áföll í efnahagslífinu undanfarna mánuði þá þarf enga slíka kúvendingu nú. Þær breytingar sem gerðar verða á fjárlagafrumvarpinu eru hófstilltar en ná samt að mæta þeirri stöðu sem er uppi án þess að víkja frá fjármálaáætlun og án þess að það þurfi að brjóta stöðugleikareglu.

Þessum árangri hefur meðal annars verið náð með því að taka til í stórum kerfum, að þora að loka skattaglufum sem komið hefur verið inn í regluverkið til að koma fjármunum úr ríkissjóði til breiðustu baka samfélagsins, að leiðrétta gjöld sem innheimt eru fyrir nýtingu á sameign þjóðar eða lykilinniviði og koma því þannig fyrir með eðlilegu eftirliti að allir þurfa að spila eftir sömu reglunum. Svo verður mótuð skýr atvinnustefna til tíu ára með áherslu á aukna framleiðni og vel borguð störf út um allt land.

Svo fátt eitt sé nefnt.

Reply

or to participate.