- Kjarnyrt
- Posts
- Þegar varaformaður hætti óvart að flauta og fór að syngja hástöfum
Þegar varaformaður hætti óvart að flauta og fór að syngja hástöfum
Miðflokkurinn hefur nú opinberað, að einhverju leyti óvart, að hann er á móti EES-samningnum og vill takmarka fjölda þeirra sem búa á Íslandi. Hann stendur nú frammi fyrir því að svara spurningum um hvernig samfélagið á að líta út ef mikilvægasti viðskiptasamningur Ísland – íslenskt hagkerfi hefur fimmfaldast að umfangi frá því að hann tók gildi – verður ekki lengur virkur. Enn fremur þarf hann að segja nákvæmlega hversu marga íbúa landið má hafa samkvæmt hugmyndum Miðflokksins, hvernig samsetning þess íbúafjölda má vera og hvernig flokkurinn aðgreinir „alvöru Íslendinga“ frá hinum.
Vatnaskil urðu í stjórnmálum á Íslandi í síðustu viku. Þá fór fram sérstök umræða um skýrslu starfshóps um þróun í útgáfu dvalarleyfa og misræmi við önnur Norðurlönd. Sá sem bað um sérstöku umræðuna var Snorri Másson, nýlega kjörinn varaformaður Miðflokksins. Í ræðum sínum sagðist hann meðal annars vilja skoða að Ísland skoði að segja sig úr samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem veitir landinu aðgengi að innri markaði Evrópu meira og minna án tolla og landsmönnum frelsi til að lifa, læra og starfa hvar sem er innan saman markaðar. Okkar „heimamarkaður“ inniheldur því 450 milljón viðskiptavini í stað þess að telja um 393 þúsund manns.
Um er að ræða fyrsta skiptið sem forystumaður Miðflokksins leggur fram þessa stefnu, að Ísland ætti að skoða úrsögn úr sínum mikilvægasta viðskiptasamningi.
Snorri sagðist líka vilja hætta alfarið móttöku flóttafólks, loka því sem næst alfarið fyrir komu fólks utan EES til Íslands, takmarka verulega þjónustu við fólk sem hingað hefur flutt, auka heimildir til að vísa því úr landi og viðraði loks glænýjar hugmyndir um að takmarka íbúafjöldann á Íslandi, án þess að segja hreint út hversu margir ættu nákvæmlega að fá að búa á Íslandi.
Án þess, að því er virðist, að átta sig almennilega á því þá steig Snorri stærra skref frá innfluttu MAGA-handbókinni sem Miðflokkurinn er að spila harða hægris-pólitíska leikinn sinn eftir. Í stað þess að senda hundaflautu-dulkóðuð skilaboð án þess að segja raunverulegt markmið upphátt þá fór hann að syngja hástöfum, og fara skýrt með textann.
Miðflokkurinn er á móti EES-samningnum og vill takmarka hversu margir mega búa á Íslandi.
Fimmfalt hagkerfi og allt hitt
Það er sennilega best að kryfja þessa yfirlýsingu frá þeim stjórnmálaflokki sem mælist með næstmest fylgi allra og er að ná yfirtökunum í hægra hólfi íslenskra stjórnmála, í mátulega stórum bitum. Byrjun á mikilvægi EES-samningsins.
Hann tók gildi í byrjun árs 1994 og tryggir okkur aðgengi að innri markaði Evrópusambandsins, og 450 milljónum viðskiptavina innan hans, án flestra hindrana. Um er að ræða nokkurs konar aukaaðild að hagkerfi sem kemst nærri stærð hagkerfis Bandaríkjanna. Við fáum þetta aðgengi en í staðinn hefur Ísland skuldbundið sig til að undirgangast fjórfrelsið svokallaða (frjáls för fólks, varnings, þjónustu og fjármagns) innan innri markaðarins og að innleiða reglugerðir hans svo það sama gildi fyrir alla sem á honum starfa.
Á þeim rúmu þremur áratugum sem liðnir eru frá því að EES-samningurinn var gerður þá hefur efnahagur Íslands umturnast. Hagkerfið hefur fimmfaldast að nafnvirði og þrefaldast að raunvirði. Helstu þjóðartekjur okkar koma til vegna sölu á sjávarafurðum, orku til stóriðju og ferðaþjónustu. Yfir 70 prósent af útflutningi Íslands fer til EES-svæðisins í dag.
Skilyrðin sem voru sett fyrir viðskiptalegu aðgengi Íslands að svæðinu hafa þó líka fært okkur annað en bara efnahagslegan ávinning. Það hafa orðið feikilega mikilvægar uppfærslur á samfélaginu vegna þeirra innleiðinga sem við þurftum að undirgangast. Í gegnum þær höfum við fengið stjórnsýslulög, upplýsingalög, mannréttindi, neytendavernd og neytendaúrbætur, svo fátt eitt sé nefnt.
Grunnurinn að nútímavæddu Íslandi er þessi samningur. Án hans værum við áratugum frá þeirri stöðu sem við erum í í dag.
Spyrjið Breta hvernig gangi með lífskjörin
Það er ekkert grín að yfirgefa alþjóðasamstarf sem lönd hafa verið hluti af áratugum saman vegna þess að pólitískar kreddur óábyrgra lukkuriddara ná tímabundnum vinsældum. Spyrjið bara Breta.
Þeir ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið árið 2016. Þrátt fyrir að vera sjötta stærsta hagkerfi heims með næstum 70 milljón íbúa, og sögulega heimsveldi, þá hefur þeim farnast afleitlega eftir úrsögnina. Áhrifin á daglegt líf íbúa landsins eru gríðarleg.
Það hefur dregið úr viðskiptum og framleiðni í landinu. Landsframleiðsla Breta verður um fjögur prósent minni en hún hefði annars verið þegar full áhrif af Brexit eru komin fram. Matvöruverð hefur hækkað vegna tolla sem Bretar þurfa nú að greiða til Evrópulanda, raunlaun og kaupmáttur hafa staðið í stað og í sumum tilvikum dregist saman, verðbólga hefur aukist og þrengt hefur verulega að vinnuafli.

Var Brexit þess virði? Fátt í hagtölum bendir til þess. Þvert á móti. Mynd: Quartz/Skjáskot
Lífskjör í Bretlandi hafa einfaldlega versnað eftir Brexit. Það hefur leitt til þess að skatttekjur hins opinbera hafa dregist umtalsvert saman og ráðafólk stendur því frammi fyrir að þurfa að hækka skatta til að standa undir sömu þjónustu og áður, eða reyna að vinda ofan af þeim skaða sem orðið hefur á sambandinu við Evrópu út af þessu súrrealíska brölti.
Nú er alvöru umræða að verða til í breskum stjórnmálum um að það þurfi að endurreisa tollabandalag Bretlands við Evrópusambandið hið minnsta. Það sé eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að verja venjulegt vinnandi fólk frá enn meiri álögum.
Þeir sem bera mesta ábyrgð á Brexit bjuggu til strámann úr útlendingum og kenndu honum um þá hnignun „vestræns“ samfélags sem þeir voru að selja, þegar stór ástæða hennar lá í aðgerðum breskra íhaldsmanna í að slátra velferðarkerfum til að lækka álögur á breiðustu bökin og geta einkavætt ríkisfyrirtæki og -eignir. Með því bútuðu þeir í sundur öryggisnetið bresku þjóðarinnar en kenndu svo útlendingum, sérstaklega öðrum en hvítum Evrópumönnum, um það.
Það sem hefur gerst í Bretlandi síðan að Brexit varð er að útlendingum utan EES hefur fjölgað mikið en þeim sem komu innan EES, og teljast almennt hluti af vestrænu samfélagi, snarfækkaði.
Múslímar í morgunkorninu
Miðflokknum hefur tekist ágætlega að hræra í þeim hræðslupottum sem hann ætlar sér að hræra í til að ná pólitískum árangri með því að tala almennt og óskýrt um útlendinga. Að selja fólki það að múslímar gætu leynst í morgunkorninu.

Skopmynd af Snorra Mássyni sem birtist nýverið í Morgunblaðinu.
Lykilhráefnið þar er að gera nær aldrei greinarmun á þeim sem koma til Íslands frá EES-svæðinu til að starfa og lifa, þeim sem koma utan þess og fá hér dvalarleyfi til að starfa eða læra og fólki á flótta. Hugmyndafræðin gengur út á að allir hugsi um flóttamann frá Miðausturlöndum sem tilheyri öðrum menningarheimi þegar greint er frá því að innflytjendur á Íslandi hafi verið 73.795 í byrjun þessa árs og að hlutfall þeirra af mannfjöldanum hafi farið úr 7,4 í 18,9 prósent frá 2012. Næstum 70 prósent allra sem hingað hafa flutt koma frá EES-svæðinu og eru þar af leiðandi hluti af þeirri „vestrænu menningu“ sem þjóðernispopúlistar óttast að sé að hrynja. Atvinnuþátttaka þessa hóps, og reyndar allra útlendinga yfir höfuð, er meiri en innfæddra Íslendinga.
Sú aðferðarfræði sem þeim hugnast best að beita birtist ágætlega í formannaþætti Silfursins á RÚV á mánudag, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði ítrekað um að það ríkti stjórnleysi á íslensku landamærunum og að það orsakaðist af flaumi flóttamanna til Íslands. Raunveruleikinn er sá að hælisumsóknum fækkaði um 54 prósent í fyrra og það stefnir allt í að þær verði um 65 prósentum færri í ár en þær voru árið 2022. Um miðja þessa viku, þegar örfáir dagar voru eftir af árinu 2025, þá nam heildarfjöldi umsækjenda 1.628 manns, sem er 307 færri en komu allt árið 2024. Smávægileg aukning í haust er einvörðungu vegna þess að við höfum verið að taka á móti fleira fólki frá Úkraínu, sem allir flokkar á þingi segjast styðja.
Umsóknum um hæli á Íslandi er því almennt að snarfækka. Og enn færri fá vernd. Þannig höfðu heilir 177 fengið hæli á Íslandi um síðustu mánaðamót vegna umsókna sem afgreiddar eru í efnislegri meðferð.
Þetta hefur formaður Miðflokksins komist upp með að kalla stjórnleysi á landamærunum.
Tækifæri til vaxtar og velmegunar
Það sem hefur hins vegar gerst á síðustu árum, undir forystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, er að hagvöxtur á Íslandi hefur byggst á fólksfjölgun til að standa undir stækkun lágframleiðnigreina. Þeim sem eru með erlendan bakgrunn hefur fjölgað mikið og það fólk hefur gengið í störf sem Íslendingar annaðhvort gátu ekki eða vildu ekki sinna. Með þeirri atvinnustefnu fluttum við inn stéttarskiptingu og stjórnvöld gerðu lítið sem ekkert til að draga úr þeirri stöðu.
Á því hefur orðið breyting, sem kom skýrt fram í ræðu Guðmundar Ara Sigurjónssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í sérstöku umræðunni hans Snorra. Þar sagði hann. Þar sagði hann að umræðan eigi að snúast um að uppfæra regluverk og stjórnsýslu til að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu, verja réttindi fólks, tryggja að vöxtur samfélagsins sé ekki tilviljanakenndur heldur sjálfbær og heyri undir skýrt regluverk. „Sannleikurinn er sá að á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld ekki staðið sig í að uppfæra regluverk í takt við Norðurlöndin og þá veikleika sem eru í íslenska dvalarleyfiskerfinu. Það hefur ýtt undir stéttaskiptingu og fátækt hér á landi á sama tíma og ríkið hefur ekki fylgt eftir með innviðum, húsnæði, menntun og tungumálanámi. Það er ekki ábyrg stjórnmálastefna, hvorki gagnvart íslensku samfélagi né fólkinu sem hingað kemur.“
Verkefnið fram undan ætti því að vera að samræma regluverk, laga misræmi milli leyfisflokka, styrkja stjórnsýsluna og eftirlit með brotum á vinnumarkaði. „Ef við gerum þetta af yfirvegun, ef við samræmum reglur og styrkjum innviði á sama tíma, er sjálfbær fjölgun fólks ekki ógn heldur tækifæri til vaxtar og velmegunar fyrir samfélagið allt. En ef við sitjum áfram með veika stjórnsýslu og innviði, þá eru það einmitt veikleikarnir sem skapa óöryggi í samfélaginu.“
Vill þrepaskiptan aðgang að velferðarkerfi
Ræða Snorra Mássonar í umræðunni snerist hins vegar ekki um yfirvegun, samræmdar reglur, sterkari innviði og að nýta tækifæri til vaxtar og velmegunar, heldur risastórar pólitískar yfirlýsingar sem hafa ekki áður verið settar fram á Alþingi samtímans.
Til að byrja með sagði Snorri að hann telji að „hinir miklu fólksflutningar okkar tíma séu allra mikilvægasta pólitíska viðfangsefni minnar kynslóðar“. Síðan fylgdu kunnugleg stef um að það þyrfti að loka „því sem næst alfarið fyrir fólksflutninga hingað utan EES-svæðisins vegna þess að á þessum fólksflutningum höfum við stjórn. […] Við þurfum að hætta kerfisbundinni móttöku hælisleitenda alveg.“
Því var fylgt eftir með bollaleggingum um þrepaskiptan aðgang fólks að velferðarkerfinu, nauðsynlegan niðurskurð á fjárhagsstuðningi ríkis og sveitarfélaga til allra erlendra ríkisborgara og viðrun á hugmyndum um að það þyrfti að auka heimildir hins opinbera til að vísa útlendingum úr landi.
Hann geymdi þó sprengjurnar þangað til í lokin á flutningsræðu sinni.
Óttinn við eigin lýðfræðilegu örlög
Þá sagði hann orðrétt: „Svo er EES-samstarfið sem ráðherrann neitar því miður að taka til umræðu í sambandi við innflytjendamálin. Það er auðvitað stóra breytan í innflytjendamálum hér að hér eru opin landamæri fyrir 450 milljónir manna. Ég segi í því sambandi að ef útlendingum heldur áfram að fjölga á Íslandi tvöfalt hraðar en Íslendingum þá tel ég í fyrsta lagi að við þurfum að beita okkar neyðarheimildunum innan EES-samningsins til að taka stjórn á fólksflutningum hingað til lands. Við höfum þær heimildir, við gætum það. Ef það virkar ekki, ef við hreinlega missum stjórn á eigin lýðfræðilegu örlögum, þá tel ég að hagsmunum okkar sé augljóslega betur borgið utan samstarfsins ef þetta heldur svona áfram mikið lengur.“
Ef einhver efaðist um afstöðu Snorra, og þar með Miðflokksins, til EES-samningsins eftir þessi orð þá tók hann af allan vafa í seinni ræðu sinni og með ummælum á samfélagsmiðlum í kjölfarið. Í ræðunni dró hann að einhverju leyti í efa fullyrðingar um að EES-samningurinn sé forsenda velmegunar á Íslandi og sagði: „En hvaða velmegun er það nákvæmlega ef íslenskar fjölskyldur eru hættar að vilja fjölga sér?“
Í færslu á samfélagsmiðlum í kjölfarið hélt Snorri því fram að það lægi „nákvæmlega ekkert fyrir um að Íslendingar missi sinn rétt til dvalar erlendis bara vegna þess að við sjálf viljum hafa minnstu stjórn á flæðinu hingað til okkar. Hvers konar samningur væri það annars,“ og vísaði þar til þeirrar skoðunar sinnar að Íslandi eigi að geta sagt upp einu af fjórfrelsunum sem eru grundvöllur EES-samningsins, einhliða og þannig að hægt yrði að banna öðrum að flytja til Íslands án þess að það hefði áhrif á getu þeirra um 40 þúsund Íslendinga sem búa og starfa í EES-löndunum.
Skaðleg og óábyrg hugmynd sem ber að fagna
Ljóst má vera, af viðbrögðum ýmissa flokksfélaga Snorra og þeirrar nálgunar sem Miðflokkurinn beitti í þingræðum daginn eftir, að hann hafi gengið lengra en þau ætluðu. Hann flautaði ekki óræðan tón, heldur söng skýran texta.
Viðbragðið hjá formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, og almennt hjá þingmönnum hans var gaslýsing um að Viðreisn væri sérkennileg og það að þingmenn flokksins hefðu bent á að Snorri hefði sagt það sem hann sagði væri „hræðsluáróður“. Þau klykktu svo út með endurtekinni „nei þú“ orðræðu um að eini flokkurinn sem vildi sannarlega ganga úr EES væri Viðreisn, sem vildi gera það með því að ganga inn í ESB.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, greindi stöðuna nánast fullkomið í færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún skrifaði: „Tortryggni Miðflokksins í garð hugmyndafræði um frelsi og alþjóðlegt samstarf gat kannski ekki endað öðruvísi en með hugmyndum um að Ísland segði sig frá Evrópska efnahagssvæðinu og hætti í EES.
Ég tel hugmyndina skaðlega og óábyrga. Samt fagna ég henni.
Það er hollt fyrir lýðræðið að valkostir séu skýrir og stjórnmálamenn segi það sem þeir eru raunverulega að hugsa. Þá gefst tækifæri til dýpri umræðu um framtíð Íslands.
Næsta verkefni Miðflokksins er að útskýra hvernig Íslandi væri betur borgið í efnahagslegu, menningarlegu, öryggislegu og pólitísku tilliti ef við setjum aðgengi að okkar langstærsta markaði í uppnám og fórnum frelsi okkar til þess að ferðast, mennta okkur, skapa og starfa hindranalaust í þeim ríkjum sem standa okkur næst.“
Þið þurfið að svara
Þetta er rétt hjá Þórdísi Kolbrúnu, þótt hún verði sennilega líka að eiga þetta sama samtal við ungliða í eigin flokki, sem eru með afar sambærilegar skoðanir á EES og Miðflokkurinn, líkt og lesa má hér að neðan:
Nú stendur á Snorra og Miðflokknum að svara þessum spurningum.
Snorri og Miðflokkurinn þurfa að útskýra fyrir atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni að samningurinn sem er undirstaðan að efnahagslegri velferð og öllum okkar helstu viðskiptatækifærum, hefur fært okkur stjórnsýslulög, mannréttindasáttmála, frelsi til athafna, ferða og búsetu ásamt því að stuðla að eðlisbreytingu á rétti neytenda sé nú að mati flokksins ónauðsynlegur.
Snorri og Miðflokkurinn þurfa að útskýra fyrir neytendum á Íslandi að það sé nauðsynlegt fyrir vörur sem þeir eru vanir að flytja til landsins tollfrjálst frá innri markaði Evrópu verði nú annaðhvort mun dýrari vegna tolla eða ófáanlegar.
Snorri og Miðflokkurinn þurfa að segja frá því hvernig Ísland á að staðsetja sig í ansi breyttum heimi með skýrum öryggisógnum, án samstöðu og samstarfs við okkar helstu viðskiptalönd og menningarlegu bandamenn.
Snorri og Miðflokkurinn þurfa að segja þeim um 40 þúsund Íslendingum sem búa innan EES hvaða hugmyndir hann hefur fyrir framtíð þeirra. Vill hann að þau flytji öll heim til Íslands ef EES-samningnum verður sagt upp?
Snorri og Miðflokkurinn þurfa ekki síður að útskýra fyrir æsku landsins af hverju hún á ekki að geta sótt sér menntun, tækifæri og ævintýri til Evrópu vegna þess að Miðflokkurinn er hræddur við allt sem er ekki íslenskt, samkvæmt hans óljósu skilgreiningu.
En fyrst og fremst þurfa Snorri og Miðflokkurinn að svara spurningum um það hversu margir eigi að fá að búa á Íslandi, fyrst flokkurinn er farinn að tala fyrir hugmyndum um að takmarka íbúafjöldann hér, og hvernig samsetning þess hóps má vera. Hvernig skilgreinir Miðflokkurinn „alvöru Íslendinga“? Mega slíkir vera giftir útlendingum? Eiga ömmur eða afa sem eru að öllu leyti eða hluta til „erlend“?
Eitthvað segir mér að það verði fátt um vitræn svör.
Reply