- Kjarnyrt
- Posts
- Úr frjálslyndi í fjarhægri
Úr frjálslyndi í fjarhægri
Fyrir áratug var unga hægrið á Íslandi afar frjálslynt. Það lagði áherslu á frelsi til athafna, aukin mannréttindi og stuðning við jaðarhópa, bætta stöðu neytenda og öflugt alþjóðasamstarf í áherslum sínum. Með þessum áherslum ætlaði unga fólkið í hægristjórnmálum að kippa flokknum sínum, Sjálfstæðisflokki, inn í nútímann. Þau töldu mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og takast á við áskoranir framtíðar í stað þess að óttast þær, í stað þess að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Nú er unga hægrið búið að skipta sér niður á fleiri en einn flokk og er komið á bólakaf í allt það sem það ætlaði sér að forðast.
Við lifum á áhugaverðum, og stundum víðsjárverðum, tímum. Fyrir nokkru fjallaði ég nokkuð ítarlega um þau stjórnmálaöfl á Íslandi sem leggja áherslu á að hræða fólk til að kjósa sig í stað þess að bjóða því upp á von um bjarta framtíð og praktískar lausnir á leysanlegum áskorunum. Þau öfl sem beita tvíhyggju í sinni stjórnmálatækni og leggja nær einvörðungu áherslu á að stilla hópum upp gagnstætt hvorum öðrum.
Sem leggja upp með að annar sé alltaf að taka frá hinum og að ekki sé hægt að bæta hag samfélagsins í heild með samtakamætti. Þeim sem halda því fram að lífsgæði séu takmörkuð stærð og til að einn geti bætt sín þurfi að taka þau af öðrum. Öfl sem líta á frjálslyndi, alþjóðasamstarf, mannréttindi jaðarhópa og jöfnuð sem skammaryrði.
Þetta er ekki taktur sem var fundinn upp á Íslandi, enda tekur vanalega nokkur ár fyrir íslenskar pólitískar hljómsveitir að ná tökum á slíkum dómsdagssöngvum þannig að úr verði vara sem sé þess eðlis að hægt sé að stilla henni upp með sjálfstrausti í kosningaversluninni.
Það sést best á flokknum sem var sérstaklega stofnaður árið 2017 til að ná tökum á þessari pólitísku stefnu, Miðflokknum, sem er nú fyrst að eignast sína ungu fjarhægri-forystumenn í sömu ímynd og hafa sprottið upp svo víða annars staðar í heiminum. Menn sem eru opnir með sína sundrungu vandlega pakkaða saman í falskar umbúðir skynsemi og fullveldisástar og beint gegn mörgum viðkvæmustu hópum samfélagsins.
Miðflokkurinn er þó ekki eina aflið sem er að halla sér fast inn í nýja fjarhægrið. Það er annar rótgróinn íhaldsflokkur líka að gera.
Þá
Byrjun aðeins á því að spóla til baka, nánar tiltekið um áratug. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2015 gerðu ungliðar innan hans skæruárás þar sem lagðar voru fram alls kyns breytingartillögur á stefnu hans. Á meðal þess sem lagt var fram var krafa um aukin mannréttindi handa trans- og intersexfólki, jöfn réttindi samkynhneigðra foreldra og að ekki yrði talað um konur og karla þar sem það myndi útiloka hið þriðja kyn.
Hópurinn vildi tilfærslu hjónavígslna alfarið til sýslumanna, aflagningu mannanafnanefndar, að samkynhneigðir karlmenn fengju að gefa blóð, setti fram kröfu um nýjan gjaldmiðil, aðskilnað ríkis og kirkju, aukið netfrelsi, aflagningu refsistefnu í fíkniefnamálum, að kvótakerfið í landbúnaði yrði afnumið og að kosningaaldur yrði lækkaður í 16 ár.
Þótt allar kröfur ungliðanna hafi ekki náð í gegn þá gerði þorri þeirra það. Þær höfðu umtalsverð áhrif á landsfundinn og niðurstöðu hans. Það endurspeglaðist ágætlega í kosningu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem sat í stjórn SUS og hafði leitt hópinn, sem ritari Sjálfstæðisflokksins, þá rétt að verða 25 ára gömul. Fyrirsagnir fjölmiðla af fundinum hverfðust fyrst og fremst um að frjálslyndið hefði væri ráðandi í flokknum.

Frétt mbl.is af landsfundi Sjálfstæðisflokks árið 2015. Mynd: Skjáskot
Áslaug Arna sagði við RÚV af þessu tilefni að ungliðarnir hefðu vonast til þess að geta kippt Sjálfstæðisflokknum inn í nútímann með aðgerðum sínum. „Ég held að flokkurinn sé á þeim stað í dag að hann verði að fara að hlusta á unga fólkið. Ef hann hlustar ekki á unga fólkið á þessum fundi, þá held ég að hann fari bara að syngja sitt síðasta.“
Í fréttaskýringu sem ég skrifaði árið 2019 um átök innan Sjálfstæðisflokksins sagði meðal annars um ofangreint: „Þessi vel heppnaða aðgerð ungliðanna þótti til marks um að verulegar glæður væru enn í frjálslyndisarmi flokksins. Áslaug Arna hefur síðan hlotið mikinn framgang, verið kosin á þing og fékk kornung það hlutverk að sinna formennsku í utanríkismálanefnd.“
Síðar varð Áslaug Arna auðvitað ráðherra í ríkisstjórn og bauð sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum fyrr á þessu ári, þar sem hún tapaði með örfáum atkvæðum fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Hún er nú í námsleyfi frá þingstörfum.
Svo
Þessar átakalínur frjálslyndis og afturhalds, oft milli ungra og eldri innan Sjálfstæðisflokksins, birtust víða árin á eftir. Árið 2019 var til að mynda hart tekist á um þá ný lög um þungunarrof sem heimiluðu slíkt fram á 22. viku þungunar og svo þriðja orkupakkann.
Fyrrnefnda málið er klassískt kvenfrelsis- og menningarstríðsmál þar sem íhaldsamari tókust á við frjálslyndari og framsæknari. Síðarnefnda var þvælumál sem hélt Alþingi í herkví málþófs og dómsdagsþvaðurs um að við þyrftum að einkavæða orkufyrirtækin og leggja hingað sæstrengi án þess að vilja það vegna innleiðingar á þriðja orkupakka ESB. Ekkert af því rættist auðvitað.
Þessi átök fortíðar og framtíðar birtust líka í leiðaraskrifum Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu. Á þessum tíma gagnrýndi hann Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þá varaformann flokksins, harkalega, meðal annars en ekki einvörðungu fyrir skynsamlega og rétta afstöðu hennar í orkupakkamálinu.
Þessari aðför var svarað fullum hálsi, meðal annars af Áslaugu Örnu í grein sem hún skrifaði í Morgunblaðinu sumarið 2019 með fyrirsögninni: „Flokkur sem á sér framtíð“. Þar sagði hún meðal annars: „Rétt er það sem áður hefur verið haldið fram í þessu blaði að uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Því er mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og leiða þær óumflýjanlegu breytingar sem framtíðin mun hafa með sér fremur en að óttast þær [...] Það er ekki hlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Við gerum greinarmun á grunngildum og einstaka stefnumálum eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við berum virðingu fyrir sögunni er mikilvægt að við mótum framtíðina.“

Nú
Þessi framsýni, frjálslyndi og alþjóðlegi tónn er ekki sýnilegur lengur í Sjálfstæðisflokknum. Fólkinu sem spilaði hann hefur verið ýtt til hliðar eða það hreinlega kúvenst og tekið upp nýja og íhaldsamari afstöðu. Síðustu ár hefur flokkurinn helst virkað sem varnarbandalag fyrir tiltekna sérhagsmuni sem hefur verið tilbúið að gefa allan afslátt af stefnumálum sínum til að halda völdum og geta þannig varið kerfið sem umræddir sérhagsmunahópar hagnast á. Þannig skilaði Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokknum af sér eftir 16 ára formennsku.
Flokkurinn hefur líka misst hlutverk sitt sem leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum, nýtur nú stuðnings undir fimmtungs þjóðar og er, ásamt Miðflokknum og Framsókn, hluti af stjórnarandstöðu sem tveir af hverjum þremur landsmönnum telja að standi sig illa. Í nýlegri könnun Prósents mældist Sjálfstæðisflokkurinn með jafn mikið fylgi á höfuðborgarsvæðinu og frjálslyndi klofningsflokkurinn Viðreisn, eða 16 prósent.
Sérhagsmunagæsluáran minnkaði ekki með framgöngu þingflokks Sjálfstæðismanna á fyrsta þingi nýs kjörtímabils, sem hann reyndi að breyta í sirkus þvæluræðna og tafarleikja vegna þess að það átti að hækka leigu á þjóðareign lítillega í takti við vilja mikils meirihluta landsmanna.

Við upphaf kjörtímabilsins sögðust 28 prósent landsmanna vera óánægð með stjórnarandastöðuna. Í dag er það hlutfall komið í 62 prósent. Mynd: Maskína
Fullorðna fólkið í flokknum virðist ekki hafa hugmynd um hvað Sjálfstæðisflokkurinn eigi að vera nú þegar Bjarnatímanum er lokið. Hvort hann eigi að vera hófsamur og frjálslyndur hægri flokkur eða hvort hann eigi að elta Miðflokkinn út í skurð þjóðernispopúlisma í von um skammtímafylgi sem slíkur hefur fært sumum sundrungarflokkum á meginlandinu.
Guðrún Hafsteinsdóttir hefur sagt að hún vilji ná til breiðari hóps og þess flokks sem skilgreindur var á tyllidögum sem „stétt með stétt“. Það væri nýrrar forystu að endurnýja erindi flokksins. Enn sem komið er bolar lítið á því erindi og enn minna á þeirri breikkun sem var boðuð.
Í framtíðinni
Það er hins vegar ljóst hvert ungliðar Sjálfstæðisflokksins stefna. Sá vegur gæti ekki verið ólíkari þeim sem Áslaug Arna, Þórdís Kolbrún og hinir ungliðarnir fetuðu á landsfundinum 2015. Skýrasta birtingarmynd þess er stjórnmálaályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem lá fyrir eftir nýlegt sambandsþing. Það náði sennilega enginn að fanga anda hennar betur en Páll Ivan frá Eiðum á skopmiðli sínum Fréttirnar, sem breytir fyrirsögnum á alvöru fréttum svo þær endurspegli andlag þeirra betur en þær sem fyrir voru. Hans afgreiðsla var eftirfarandi:

Mynd: Fréttirnar
Ef stiklað er á stóru um innihaldið þá kemur þar fram að í stað þess að gera kröfu um aukin mannréttindi handa trans- og intersexfólki er tiltekið, undir flokknum menningarmál, að SUS telji það mikilvægt að „það mál sem birtist í blöðum, netsíðum og öðru tengdu efni á vegum flokksins skuli vera á hefðbundnu máli en ekki „kynhlutlausu“.“
Í stað þess að telja að framtíðarlausn fyrir Ísland felist í öðrum gjaldmiðlum en krónunni er nú keyrt á því að vera alfarið á móti inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið. Í stað þess að leggja áherslu á að lögreglu verði gert skylt að mynda skýran og opinberan verkferil í kynferðisbrotamálum er ekkert minnst á lögreglu né kynferðisbrotamál.
Í stað þess að lagður sé til aðskilnaður ríkis og kirkju líkt og ungliðarnir gerðu með ástríðu fyrir áratug er nú lagt til að leggja niður Land og skóg, sem fer með landgræðslu og skógrækt í landinu og vinnur markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í stað þess að standa með alls kyns mannréttindum er megináhersla SUS í þeim málaflokki nú að saka Mannréttindadómstól Evrópu um að hafa verið „verið beitt í pólitískum tilgangi til að hnekkja niðurstöðum íslenskra dómstóla.“
Vildu gera það sem þau gátu
Það voru fleiri en ungliðarnir sem boðuðu frjálslyndi og manngæsku á þessum landsfundi fyrir áratug síðan. Ólöf Nordal heitin, sem tók þar við varaformennsku í flokknum, svaraði til að mynda spurningu úr sal um málefni flóttamanna frá Sýrlandi sem voru væntanlegir til landsins. Þar sagði hún: „Meginstefið hlýtur að vera það, að við erum þarna að hjálpa fólki sem er í mikilli neyð. Ég er viss um að þetta fólk vill vera heima hjá sér. Það vill enginn vera á vergangi. Það vill enginn koma og þurfa að hefja nýtt líf í öðru landi vegna þess að það getur ekki lengur búið heima hjá sér. Þannig að við gerum það sem við getum til þess að hjálpa þessu fólki.“

Af landsfundi Sjálfstæðisflokks árið 2015. Mynd: XD.is
Þetta er töluvert annar tónn en birtist í ályktun SUS árið 2025. Þar er meðal annars lagt til að setja nýjar umsóknir um alþjóðlega vernd í tímabundna bið á meðan farið sé yfir forsendur og framkvæmd kerfisins, að afturkalla ætti alþjóðlega vernd þeirra sem heimsækja landið sem þeir eru að flýja og að Íslendingar ættu að taka upp samfélagsfræðipróf fyrir þá sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt.
Þá vill SUS skoða möguleikann á því að taka upp vegabréfaeftirlit, sem er reyndar þegar til staðar á landamærum fyrir aðra en þá sem ferðast til landsins frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Slíkt eftirlit myndi þá þýða úrsögn úr Schengen og um leið uppsögn á EES-samningnum, þeim alþjóðasamningi sem hefur fært Íslandi meiri auð og lífsgæði en nokkurt annað síðustu tæpu þrjá áratugi.
Þannig að ungliðar Sjálfstæðisflokksins vilja, í stuttu máli, stunda einangrunarhyggju, segja sig úr EES, draga úr mannréttindum, einkavæða skógrækt, loka landamærunum alfarið gagnvart flóttafólki og þrengja getu flestra annarra til að heimsækja Ísland og herja á minnihlutahópa líkt og þeir séu sakamenn.
Færri að drekka þetta súra Kool-Aid
Sjálfstæðisflokkurinn er því nokkuð augljóslega að verða þrengri flokkur, ekki breiðfylking sem rúmar ólíkar skoðanir þeirra sem eru sammála um grunnstefnu. Ungliðar hans, samviska flokksins, eiga miklu meira sameiginlegt með þjóðernispopúlískum Miðflokki en þeim Sjálfstæðisflokki sem baðaði sig í auknu frjálslyndi eftir landsfund 2015. Sumt sem einkenndi ályktun þessarar samvisku á síðasta sambandsþingi hennar nýverið hefur augljóslega ratað í ræður þingmanna flokksins síðustu misseri. Þar er tvíhyggjan sífellt meira ráðandi.
Oftast þegar einhver breytir svona svakalega um kúrs í lífinu á jafn skömmum tíma þá er það vegna þess að viðkomandi sér að það er einhver eftirspurn eftir nýja leikritinu. Það sé meiri bisness í grimmd og myrkri en von og birtu. Gefi betur í atkvæðahöndina að nota hugtakið Íslendingur til að sunda þjóðinni frekar en að nota það til að sameina.
Ein leið til að mæla þennan árangur er að horfa á fylgisþróun þeirra tveggja flokka sem eru mest að sækja inn á þjóðernispopúlísku fjarhægrimiðin í íslenskum stjórnmálum.
Árið 2017, þegar Miðflokkurinn bauð fyrst fram, fengu hann og Sjálfstæðisflokkur samanlagt 36,1 prósent fylgi. Það er nálægt því mesta sem þeir hafa mælst með í könnunum Gallup á þeim árum sem liðin eru frá þeim tíma.
Í næstu kosningum á eftir, 2021, fengu flokkarnir 29,8 prósent og síðast þegar var kosið, í lok nóvember í fyrra, skiptu þeir á milli sín 31,5 prósent fylgi. Í aðdraganda þeirra kosninga gerðist það í fyrsta sinn að Miðflokkurinn fór yfir Sjálfstæðisflokkinn í könnunum. Þegar það gerðist, í afar stuttan tíma, þá fylgdi auknu fylgi Miðflokks það að Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði hratt samhliða. Annar fór upp, hinn niður.

Á myndinni sést fylgi Sjálfstæðisflokks annars vegar og Miðflokks hins vegar frá því á sá síðarnefndi var stofnaður. Nokkuð ljóst er að sameiginlegt fylgi þeirra hefur dalað á síðastliðnum árum. Mynd: Gallup
Það gefur sterkt til kynna að flokkarnir tveir séu að slást, að mestu, um sama fylgi. Og það virðist vera lítið fyrir þá að sækja út fyrir það mengi. Þessi þróun sést vel á myndinni hér að neðan og hefur verið augljós í mörg ár.
Yfirgaf nútímann og snéri aftur í torfkofann
Í dag mælast Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur með samanlagt 31,3 prósenta fylgi, sem er nánast sami stuðningur og þeir fengu í kosningum fyrir um ári. Myndin sýnir líka skýrt að samhliða aukinni færslu þeirra inn í fjarhægrið á síðustu árum hefur sameiginlega fylgið sem þeir ná til dregist saman. Það er marktækt minna nú en það var árið 2017 og allt að sex prósentustigum minna en þegar best blés fyrir þá í skoðanakönnunum á síðasta áratug.

Svona sér gervigreindin fyrir sér torfkofa í jakkafötum. Mynd: ChatGPT
Niðurstaðan er því sú að Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlaði að kippa sér inn í nútímann, en hætti svo við og fór að elta Miðflokkinn inn í fyrndina, stefnir nú hraðbyri að því að eyða alveg því að láta taka sig alvarlega. Hann er ekki að hlusta á það sem unga fólkið sagði á fundinum 2015 og fyrir vikið gæti spádómur Áslaugar Örnu, sem hún setti fram fyrir áratug, um að „hann fari bara að syngja sitt síðasta” ræst.
Þetta gerði flokkurinn þrátt fyrir að allar tölur og öll trend bendi til þess að það sé miklu meiri salur á Íslandi fyrir frjálslyndi og velferðarpólitík – voninni og birtunni – sem byggir á lausnum gagnvart mismunandi þörfum og þjónustumiðuðum stjórnmálum.
Svona vindhanapólitík er fljót að opinbera sig fyrir það sem hún er, viðbragð við því sem viðkomandi heldur að eftirspurn sé eftir í stað þess að skapa alvöru framboð með raunverulegan kjarna.
Fólk vill nefnilega að stjórnmálamenn hlusti á sig, beri virðingu fyrir upplifunum þess, segi satt og sé duglegt við að reyna bæta lífsgæði allra, ekki að þeir afbaki staðreyndir, tali á það með innfluttum þjóðernispópúlískum fjarhægri-frösum úr bandarískum hlaðvarpshandbókum og reyni að hræða það til fylgilags milli þess sem þeir verja hagsmuni sumra. Íslendingar vilja standa saman frekar en sundrast.
Þar liggja átakalínurnar í íslenskum stjórnmálum í dag.
Reply