- Kjarnyrt
- Posts
- Þeir sem nota kúbein til að sundra og hinir sem vilja frekar líma hluti saman
Þeir sem nota kúbein til að sundra og hinir sem vilja frekar líma hluti saman
Hræðsla er megininntakið í þeirri pólitík sem gömlu valdaflokkarnir á Íslandi og afsprengi þeirra stunda. Þeir vilja að hópar innan samfélagsins séu hræddir við hvern annan og allir eiga að vera hræddir við allt sem kemur að utan. Þeir eru líka hræddir við að leyfa þjóðinni að taka eðlilegt samtal og framkvæma hagsmunamat á stórum spurningum sem snerta lífsgæði hennar beint, og skíthræddir við að leyfa henni að kjósa um slíkt. Hræddastir eru þó draugar fortíðar við fólk sem vill brjóta upp kerfi sem hafa það sem meginmarkmið að útdeila tækifærum, upplýsingum og peningum annarra til útvalinna.
Við Íslendingar erum heppnir. Sú bylgja sundrungarstjórnmála, sem hefur það markmið að etja hópum innan þjóða saman, brjóta upp alþjóðakerfið sem hefur tengt saman hagsmuni og tryggt frið víða í næstum öld og selja fólki þá hugmynd að það sé ekkert til sem heiti samfélag, bara hópar einstaklinga sem taki hver frá öðrum, hefur ekki nema að litlu leyti skollið á okkur.
Þótt hún sé sífellt að rísa á samfélagsmiðlum og með auknu hundablístri valinna stjórnmálamanna, jafnt innan þings og á meðal þeirra sem þykjast vera fjölmiðlamenn, þá er staðan enn þá að minnsta kosti þannig að þeir verða móðgaðir ef kallaðir það sem þeir reyna að vera. Viðbragðið verður þá ætið að hér sé bara verið að spyrja spurninga. Velta upp hugmyndum. Nýta tjáningarfrelsið. Og jafnvel frelsa aðra.
Inntakið er þó það sem einhvern tímann var kallaður þjóðernispopúlismi, að draga upp tvískipta mynd af sínum menningarheimi annars vegar og útlendingum og öllu utanaðkomandi hins vegar. Að skipta heiminum upp í „við“ og „hinir“. Svarthvíta mynd sem aðgreinir hið meinta „góða“ frá hinu ætlaða „illa“.
Reynt að sundra samhentri stjórn
Þeir sem keyrðu sína pólitík hvað harðast á andstöðu við útlendinga hafa lent í ákveðnum vandræðum með þann málflutning síðustu misseri vegna þess að þeim sem flytja til Íslands hefur fækkað ansi hratt, flóttafólk sem kemur í ár verður rétt rúmur fjórðungur þess fjölda sem kom árið 2023, opinberar tölur sýna að þeir sem hingað flytja taka meiri þátt á vinnumarkaði en þeir sem fyrir voru, eru ólíklegri til að þiggja ýmiss konar bætur og hafa ekki haft nein teljandi áhrif á þróun glæpa á Íslandi. Kostnaður við það sem er skilgreint sem útlendingamál í fjárlögum er nú áætlaður 6,6 milljarðar króna á næsta ári, sem er næstum tíu milljörðum krónum minna en fór í málaflokkinn í fyrra. Samdrátturinn er 59 prósent á tveimur árum.
Það sem okkur hefur tekist vel á síðustu misserum er að geta talað um útlendingamál af manngæsku en líka praktík. Þótt það hafi fært Íslandi mjög margt að hingað hafi flutt fullt af fólki til að setjast að þá hafi það líka haft í för með sér margháttaðar áskoranir og þrýsting á ýmis svið samfélagsgerðarinnar. Hér er einfaldlega staða sem við getum unnið saman að því að leysa með hag allra að leiðarljósi.
Þess vegna hefur leikáætlun þeirra sem ætla að spila stjórnmálaleik sundrungar frekar en sameiningar tekið breytingum. Það sást vel á síðasta þingi þegar stjórnarandstaðan á þingi og fylgitunglin hennar í fjölmiðlum færðu nálina í sínum „wedge-politics“ að því að reyna að sundra stjórnarflokkunum þremur og reyna að koma á deilum þeirra á milli, aðallega með því að leggjast á einn þeirra af ofsa.

Kúbeinspólitíkin er allsráðandi hjá minnihlutaflokkunum á Alþingi. Mynd: ChatGPT
Reynt var að troða kúbeini milli flokkanna sem valdir voru til að fara með völdin í landinu í lýðræðislegum kosningum. Tilraunirnar voru oft og tíðum yfirgengilegar en skiluðu engu öðru á endanum en að herða límið í stjórnarsamstarfinu. Því meira sem var djöflast, því meiri varð samstaðan. Og fylgið.
Í stað þess að höggva skarð í stjórnarsamstarfið endaði kúbeinið aftur og aftur í sköflungi minnihlutans, með tilheyrandi sársauka.
Endurlífguð fullveldis-mælskulist
Það hefur reynst ýmsum ágætt að reyna að beina athyglinni annað þegar allt er í hakki heima fyrir.
Það er öllum sem vilja sjá augljóst að stjórnarandstöðuflokkarnir þrír eru að glíma við töluverð innanmein. Innan þeirra allra togast á öfl sem vilja elta innflutta pólitíska orðræðu í stjórnmálum frá Bandaríkjunum og mörgum ríkjum Evrópu sem fela oft í sér ofstæki, árásargirni, illkvitni og að stilla hópum upp á móti hvorum öðrum – kenna einum um stöðu hins í stað þess að reyna að finna lausnir sem virki fyrir sem flesta – og þeirra sem vilja stunda frjálslyndari og hófsamari stjórnmál. Allt í nafni frelsis sem felur þó í sér hömlur á frelsi annarra, frelsi sem takmarkar samt getu jaðarhópa til að vera eins og þeir eru og frelsi sumra til að segja hvað sem er um hvern sem er í krafti tjáningarfrelsis en á sama tíma hefta heimild þeirra sem eru ósammála til sambærilegrar tjáningar.
Birtingarmyndir þessara innanmeina eru margar, og nokkuð skýrar.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, sem vann það sæti í fjarveru stuðningsmanna andstæðings síns sem sváfu yfir sig, hefur til að mynda verið í því sem innanflokks-agentar hafa meira að segja sjálfir kallað hreinsanir á skrifstofu flokksins, í forystu þingflokks og á meðal starfsfólks hans til að styrkja veika stöðu formannsins. Þetta hefur farið verulega öfugt ofan í flokkspólitíska aðgerðarsinna í vinveittum fjölmiðlum og öll hægri hlaðvörpin sem þeir skiptast á að halda úti eða mæta í sem viðmælendur.
Það birtist líka jafn skýrt í mjög illa földum tilraunum varaformanns Framsóknarflokksins, sem féll af þingi í lok síðasta árs og á enga bakdyraleið inn þar sem flokkurinn er án þingmanna í hennar kjördæmi, til grafa undan og koma formanni flokksins frá. Það vill hún gera til að setjast sjálf í hans sæti með endurlífgaðri fullveldis-mælskulist sem hefði sæmt sér vel í pólitískri orðræðu á síðustu öld.
Svo mætti Miðflokkurinn í persónuleikakrísuna
Síðustu vendingarnar, sem tók aðeins lengri tíma fyrir að koma upp á yfirborðið en eru nýjar fyrir allra augum, eru árekstrar persónulegs metnaðar ýmissa leikenda innan Miðflokksins, sólkerfis sem hverfist í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það sólkerfi er nú skyndilega fullt af fólki, jafnt innan þingflokks og í starfsliðinu í kringum hann, sem vill vera fylgitunglið í mestri nálægð við formanninn í stað þess að vera smástirni sem brenna upp í lofthjúpnum á einu kjörtímabili. Það er þó flókin jafnvægislist. Ef metnaðurinn og fyrirferðin verður of mikil, og er farin að taka athygli og súrefni frá formanninum sjálfum, þá verða afleiðingar. Það er bara pláss fyrir eina sól í Miðflokknum.
Allir minnihlutaflokkarnir eiga það svo sameiginlegt að vera ekki búnir að finna almennilega út hverjir þeir eru í samtímanum, fyrir hvað þeir standa, hvert þeir vilja fara, hvað þeir hafi fram að færa né hverjir eigi að bera fram þá köldu pólitísku og örbylgjuhituðu skyndirétti.
Pólitíska persónuleikakrísan, og fyrir vikið erindisleysið, sem einkennir alla þessa flokka er vegna þessa æpandi.
Kúbeininu beitt á þjóðina
En það gekk sem sagt, vægt til orða tekið, illa að sundra stjórnarflokkunum. Þjóðin horfði á minnihlutann sem furðuverk þar sem hann öskraði og grenjaði af frekju í málþófi og barnalegum pólitískum tafarleikjum yfir því að geta ekki bannað samhentri ríkisstjórn að breyta kerfum eins og gjaldtöku fyrir aðgang að þjóðareign.
Þegar bræðin rann af þeim í sumar ákvað andstaðan því að fara að reyna ný brögð. Í stað þess að sundra stjórn ætlaði hún að reyna að sundra þjóð, reka kúbein milli hópa þar. Í þeirri viðleitni gengu sumir úr þessum hópi hreinlega af göflunum í kjánalegum fullyrðingum til að reyna að hræða kjósendur sína til að halda að hvítt sé svart og öfugt.
Fyrirferðamest var orðræða um að megintilgangur sitjandi ríkisstjórnar væri ekki að breyta úr sér gengnum kerfum, taka til í efnahagsmálum, bæta hag þeirra verst settu, auka öryggi þjóðarinnar og ráðast í sjálfbæra verðmætasköpun til að standa undir velferð framtíðar. Nei, megintilgangur hennar væri að lauma að lauma Íslandi inn í Evrópusambandið bakdyramegin.
Það sé gert með því að bjóða framkvæmdastjóra stærstu viðskiptablokkar heims í heimsókn til að ræða við hana um viðskiptakjör og varnar- og öryggismál. Að leynilegar aðlögunarviðræður standi yfir samhliða því að reynt sé að kúga þjóðina til inngöngu. Allt sem Evrópu-eðlufólkið í ríkisstjórninni geri miði að því að veikja stöðu Íslands svo mikið að ekki sé annað hægt en að gefa sig Brussel-valdinu.
Fólk sem er hrætt við eigin þjóð
Á baki þessa snákaolíufyllerís komu helstu akkeri íhaldsins í alþjóðamálum út af fundum með utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd í sumar náhvítir í framan. Allt sem þeir höfðu óttast væri að raungerast.
Hvernig strámaðurinn sem hræddi þá var klæddur gátu þeir ekki lýst, né af hverju fólk ætti að vera svona ægilega hrætt við hann. Enda snerist hræðslan ekki um neitt annað en að þessir menn, sem vilja ráða en hafa ekki til þess nokkurn stuðning, áttuðu sig á því að til stæði að gera það sem stæði í stjórnarsáttmála: Að leyfa þjóðinni að segja skoðun sína á því hvort Ísland ætti að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili.
Þeir voru, og eru, fyrst og síðast hræddir við eigin þjóð og skoðanir hennar.
Þessu hefur verið fylgt eftir með ótrúlegu magni af innihaldslausum hræðsluvaðli settum fram í grein eftir grein eftir grein skrifaða af fulltrúum Sjálfstæðis-, Mið- og Framsóknarflokks, aðallega á leiðarasíðu Morgunblaðsins. Þegar þeir eru ekki að skelkast hefur eins manns áróðursdeild Heimssýnar fyllt upp í óttatómið með svipuðum trommuslætti.
Það voru því gríðarleg vonbrigði fyrir allt þetta fólk þegar kom í ljós að þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu var ekki á þingmálaskrá yfirstandandi þings.
Eina málið sem þau ætluðu að takast á um í vetur er ekki á dagskrá strax.
Allt önnur útgerð í dag en þá
Helsta hræðslutól þeirra sem segja tröllasögur af Evrópugrýlunni til að hræða börnin í svefn hefur verið að Evrópusambandsaðild þýði samstundis afsal á yfirráðum yfir náttúruauðlindum þjóðar og að sjávarauðlindin sé sú fyrsta til að hverfa inn í skriffinnskuhítina í Brussel. Síðast þegar farið var í aðildarviðræður þá vigtaði þessi málflutningur, bakkaður upp af lobbýistum stórútgerða og endurtekinn í sífellu í fjölmiðlinum sem þeir keyptu sér til að koma honum á framfæri, mjög þungt í umræðunni.
Nú er staðan hins vegar önnur. Vægi sjávarútvegs í íslenskum útflutningi hefur dregist saman með öflugri sókn annarra greina, sérstaklega ferðaþjónustu og hugverkageirans. Þegar síðast var sótt um aðild var hlutfall hans í samsetningu útflutnings fjórðungur en er í dag 18 prósent.

Vægi sjávarútvegs í samsetningu íslensks útflutnings hefur dregist saman á síðustu árum. Mynd: Stjórnarráðið
Stórúrgerðirnar eru líka flestar orðnar stór alþjóðleg fyrirtæki með umsvif víða í Evrópu, og sumar þeirra sennilega á meðal stærstu útgerða álfunnar. Þær fá úthlutað Evrópusambandskvóta, reka vinnslur og söluskrifstofur víða á meginlandinu og gera upp í öðrum gjaldmiðlum en þeim íslenska. Þetta síðastnefnda á raunar ekki bara við um stóru útgerðirnar.
Þeir sem hafa þegar yfirgefið krónuna
Fyrir rúmum tveimur árum var birt svar við fyrirspurn á Alþingi þar sem kom fram að alls 248 íslensk fyrirtæki hafi gert upp í erlendri mynt á þeim tíma. Flest þeirra, 129 talsins, völdu hina hræðilegu evru til að gera upp reikninga sína. Fyrirkomulagið nýtur sífellt meiri vinsælda, enda völdu 75 prósent allra fyrirtækja sem gerðu upp í öðrum gjaldmiðli en krónunni á árinu 2023 að skipta um uppgjörsmynt áratuginn á undan. Þegar sá fjöldi var greindur niður á geira kom í ljós að aðrar myntir en króna voru vinsælastar sem uppgjörsmyntir hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa ákveðið að hætta að notast við íslensku krónuna á síðustu árum. Mynd: Pexels
Erfitt er að álykta annað en að útgerðir sem þetta gera líti svo á að það sé ekki hagkvæmt fyrir þeirra rekstur að notast við íslensku krónuna sem uppgjörsmynt. Þannig losa umrædd fyrirtæki sig við þá áhættu sem fylgir sveiflum íslensku krónunnar. Þau taka einfaldlega ekki þátt í henni á tekjuhliðinni. Slíkt getur leitt til þess að fyrirtækjunum bjóðist fjármögnun hjá bönkum erlendis, þar sem í boði eru kjör sem eru mun skaplegri en þau sem bjóðast hjá íslenskum bönkum.
Girða fyrir úthlutun gæða til vina
Evrópuumræðan snerist svo nýverið á höfðinu þegar Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi sjávarútvegsrisans Brims, mætti á landsþing Viðreisnar. Guðmundur er sannarlega engin léttvigt í geiranum sem hann starfar í. Hann var um skeið stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) en hætti skyndilega í sumar. Í yfirlýsingu sagði hann að áherslur sínar í starfi nytu ekki stuðnings Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, né annarra í forystunni. Hans áherslur hafi snúist um „öflugt samtal og samstarf við stjórnvöld og faglegar stofnanir sem grundvallast á gagnkvæmri virðingu og þeirri sannfæringu að það sem er gott fyrir íslenskan sjávarútveg er gott fyrir samfélag okkar í heild. Slíkt samtal á sér ekki stað í dag.“
Guðmundur, sem nýlega sýndi að lygin um að leiðrétting veiðigjalda myndi ganga frá fjárfestingagetu sjávarútvegsrisa er ekkert annað en holur hljómur með því að kaupa Lýsi á 30 milljarða króna, var í pallborði á áðurnefndu landsþingi. Þar sagði hann sjávarútveginn ekki hafa tekið faglega umræðu um Evrópusambandið síðan árið 2009. Síðan þá hefur eigið fé geirans vaxið um að minnsta kosti 500 milljarða króna.
Forstjórinn sagði svo, með mjög afgerandi hætti, að hann væri fylgjandi því að þjóðin fengi að kjósa um hvort það ætti að fara í aðildarviðræður um aðild og að sú atkvæðagreiðsla ætti að fara fram sem fyrst.
Síðan sagði Guðmundur: „Ef ég væri stjórnmálamaður væri ég skíthræddur við upptöku evru. Það myndi girða fyrir möguleika stjórnmálamanna að úthluta gæðum til vina og vandamanna […] Ef það má ekki breyta neinu, þá náum við engum árangri og krónan verður áfram. Því stjórnmálamaðurinn þynnir bara kjörin okkar hinna með því að fella krónuna. Ef þú ert með evruna, þá geturðu ekki gert þetta.“
Varnir gegn strokuspillingu og tollaleysi
Ég ætla að lýsa mig að öllu leyti sammála Guðmundi í Brimi þarna. Þótt nú sitji við völd ríkisstjórn sem sé ekki með það sem meginmarkmið að útdeila tækifærum, upplýsingum og peningum annarra til útvalinna og koma upp pilsfaldskapítalískum strúktúrum í sama tilgangi, líkt og þær sem sátu á undan, þá er ekki augljóst að svo verði um alla tíð.
Það er því þarft að innleiða sem flestar varnir fyrir almenning til að skýla honum frá skammsýni og nepótískum ákvörðunum stjórnmálamanna sem valda ekki hlutverki sínu sem þjónustuaðili við fólkið í landinu heldur líta frekar á vald sem tól til að skammta sumum á kostnað allra hinna.

Það á ekki að hræðast innleiðingu varna gegn nepótisma. Mynd: ChatGPT
Raunar er augljóst að það kraumar áhugi á Evrópusambandsaðild víða í sjávarútveginum. Skýrasta dæmið um þetta birtist fyrir rúmum þremur árum þegar Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, hélt ræðu á uppgjörsfundi hennar. Þar kallaði hann, forstjóri skráðs fyrirtækis þar sem Samherjafjölskyldan er stærsti eigandi og ræður för, eftir því að íslensk stjórnvöld myndu beita sér fyrir tollaívilnunum inn í Evrópumarkað fyrir sjávarútveg. „Það er mikil neysla á makríl og síld á þeim mörkuðum en við búum við tolla sem skerða okkar samkeppnishæfni þar,“ sagði Gunnþór og vildi fá tollana fellda niður.
Þeir tollar sem Gunnþór, og þar af leiðandi Samherji, kölluðu eftir að losna við myndu hverfa ef gengið yrði í Evrópusambandið.
Rými fyrir eðlilegt samtal og hagsmunamat
Þegar allt er tekið saman er staðan eftirfarandi: Sitjandi ríkisstjórn er að horfa inn á við í vegferð sinni til að bæta lífsgæði venjulegs fólks á Íslandi. Hún er að beita verkfærum sínum til að lagfæra, styrkja, bæta og byggja upp samansafn kerfa sem virka. Sú ríkisstjórn lítur ekki á Evrópusambandsaðild sem töfralausn á öllum þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir.
Því fylgja hins vegar skýrir kostir að ganga inn í Evrópusambandið og því fylgja skýrir gallar líka. Sú staða getur meira að segja komið upp að kostir eins séu gallar annars. Tekist hefur verið á um þessi mál áratugum saman á Íslandi án þess að hleypa þjóðinni að með sína skoðun á því. Það hefur ríkisstjórnin sammælst um að gera fyrir lok árs 2027.
Í millitíðinni er verið að búa til rými fyrir eðlilegt samtal og hagsmunamat. Ríkisstjórnin mun leggja sitt að mörkum til að vitræn umræða um alla kostina og mögulegu gallana fari fram í samfélaginu þannig að þjóðin hafi ómengaðar og rökstuddar upplýsingar. Það verður meðal annars gert með því að láta hæfa erlenda sérfræðinga vinna skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum, sem á að skila á fyrri hluta næsta árs.
Það er allt og sumt. Svo mun íslensk þjóð taka ákvörðun um hvort hún vilji fara í aðildarviðræður eða ekki. Öll þjóðin, ekki bara þeir sem réðu hér áratugum saman en gera það ekki lengur.
Við niðurstöðu hennar þarf enginn að vera hræddur.
Reply