• Kjarnyrt
  • Posts
  • Eiga fjölmiðlar bara að vera framlenging á hagsmunabaráttu?

Eiga fjölmiðlar bara að vera framlenging á hagsmunabaráttu?

Nýjar tölur sýna að tekjur fjölmiðla á Íslandi séu að dragast saman og að stærri hluti þeirra rati út fyrir landsteinanna en nokkru sinni áður. Þeir sem starfa í geiranum eru nú brotabrot af þeim fjölda sem gerði það fyrir örfáum árum síðan og margt af því fólki sem horfið hefur frá bjó yfir gríðarlegri reynslu. Sá skóli sem lítur á fjölmiðlun sem framlengingu á hagsmunabaráttu er að vinna skólann sem telur fjölbreytta fjölmiðla eina mikilvægustu lýðræðisstoð sem við eigum.

Af umræðu á Íslandi um hlutverk og mikilvægi fjölmiðla má ætla að þar takist á tveir skólar. 

Annars vegar er hópur sem telur frjálsa, faglega og fjölbreytta fjölmiðla vera hornstein lýðræðis og forsendu opinnar lýðræðislegrar umræðu, sem hefur það mikilvæga samfélagslega hlutverk að veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Hins vegar er hópur sem telur að fjölmiðlar eigi fyrst og síðast að vera framlenging á hagsmunabaráttu. Þeirra hlutverk sé að endurspegla sýn ólíkra valdahópa á samfélagið þar sem þeir háværustu og best fjármögnuðu stjórni orðræðunni.

Ég nálgast hlutverk fjölmiðla út frá fyrri skólanum og horfi ekki á fjölmiðlamarkað sem hvern annan samkeppnismarkað, heldur sem mikilvæga lýðræðisstoð. Síðari skólinn er hins vegar að vinna á Íslandi eins og er. Og hann er að vinna stórt.

Ein birtingarmynd þess er að árið 2008 störfuðu 2.363 við fjölmiðla á Íslandi. Árið 2013 hafði þeim fækkað niður í 1.892 og í lok árs 2022 voru þeir 907. Starfandi fækkaði því um meira en helming á áratug og mjög stór hluti þeirra sem frá hafa horfið eru reynslu- og getumikið fólk sem gafst upp á lágum launum, vondum vinnutíma og áreitinu sem fylgir því að stunda gagnrýna blaðamennsku í örríki. 

Vert er að taka fram að á árinu 2023 fór Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, á hausinn. Það var einn stærsti einkarekni fjölmiðill landsins og störfum í geiranum fækkaði umtalsvert við það sára gjaldþrot. Því má ætla að starfandi hafi verið enn færri í fyrra en þeir voru 2022. Það þarf að drekka ansi mikið til að komast að þeirri niðurstöðu að þetta skili ekki veikara fjölmiðlaumhverfi.

Meira til þeirra sem borga ekki skatta á Íslandi

Ýmsar ástæður eru fyrir þessari þróun. Rekstrarumhverfið hefur auðvitað kúvenst vegna tækni- og upp­­lýs­inga­­bylt­ing­­ar­innar sem hefur ger­breytt neyt­enda­hegðun og haft mikil neikvæð áhrif á hefð­bundin tekju­­mó­d­el fjöl­miðla. Fyrir vikið vilja færri greiða fyrir fréttir og frétta­vinnslu og það hefur gert það að verkum að nýjar teg­undir miðla, sér­­­stak­­­lega sam­­­fé­lags­mið­l­­­ar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar lækkuðu tekjur fjölmiðla á árinu 2023, alls um fjögur prósent. Þar munar langmest um að auglýsingatekjur drógust saman um heil tólf prósent, sem er afleiðing af því að Fréttablaðið – árum saman einn stærsti auglýsingabirtingaraðili á Íslandi – hætti að koma út. Þær tekjur skiluðu sér því augljóslega ekki nema að litlu leyti til hinna sem eru að keppa á markaðnum.

Á síðasta ári námu heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa ríflega 26,4 milljörðum króna, þar af féllu 13 milljarðar króna í skaut erlendra miðla sem borga flestir enga skatta á Íslandi, eða 49 prósent, á móti 13,5 milljörðum til innlendra miðla, eða 51 prósent. Árið 2012 fóru um fjögur prósent auglýsingatekna til erlendra miðla á borð við Google/Youtube og Facebook , sem taka til sín vel yfir 90 prósent af greiðslum vegna birtingar auglýsinga sem greiddar eru með greiðslukortum. Það ár fóru 96 prósent til innlendra miðla. Hér er því ekki um stigbreytingu að ræða. Þetta er eðlisbreyting. 

Sú breyting hefur orðið á síðustu árum að dag- og vikublöð eru ekki lengur mikilvægustu auglýsingamiðlarnir hér á landi. Auglýsingatekjur skiptast nær jafnt á milli vefmiðla, sjónvarps og hljóðvarps eða um fimmtungur á hvern þeirra á sama tíma og hlutdeild dag- og vikublaða lækkaði umtalsvert á milli ára.

Í fyrra var staðan sú að stærstur hluti tekna fjölmiðla var fenginn frá notendum, eða næstum þrjár af hverjum fjórum krónum (62 prósent). Þar er átt við, að langmestu leyti, áskriftartekjur eða notendagjöld, þótt í þann flokk falli líka styrkjagreiðslur og annað slíkt.  

Sá fjölmiðill sem er með langhæstu notendatekjurnar er Ríkisútvarpið (RÚV). Þær eru lögbundnar, fylgja verðlagi og aukast við það að íbúum landsins fjölgar. Tekjur þess voru um 8,7 milljarðar króna á árinu 2023. Þar af komu um 5,7 milljarðar króna úr ríkissjóði en restin voru auglýsingatekjur. Hlutdeild RÚV í heildartekjum jókst myndarlega og auglýsingatekjur fyrirtækisins jukust líka á milli ára, úr 20 í 22 prósent af heildarkökunni. 

Til marks um samþjöppunina sem ríkir á þessum markaði sýna tölur Hagstofunnar að fimm stærstu aðilarnir á fjölmiðlamarkaði tóku til sín alls 87 prósent af samanlögðum tekjum allra fjölmiðla á Íslandi í fyrra. 

Þeir sem eru ekki reknir á viðskiptalegum forsendum

Það er til staðar markaðsbjögun í íslensku fjölmiðlaumhverfi. Hún hefur leitt af sér að fjölmiðlafyrirtæki geta rekið sig í miklu tapi og án viðskiptalegra forsendna árum saman. Það á sérstaklega við Árvakur, móðurfélag Morgunblaðsins, og tengd félög. Þessi samstæða á einu dagblaðaprentsmiðju landsins og rekur eina fyrirtækið sem getur dreift prentuðum dagblöðum. Samkeppnisaðilar neyðast því til að eiga umfangsmikil viðskipti við Árvakur og tengd félög. Frá því nýir hluthafar, að mestu stórútgerðir, eignuðust samstæðuna árið 2009 hefur hún tapað tæplega þremur milljörðum króna en hluthafarnir hafa haldið áfram að fjármagna félagið með nýju hlutafé og lánum. Þeir hafa lagt félaginu til hlutafé upp á að minnsta kosti tvo milljarða króna á tímabilinu. 

Eftir að Fréttablaðið fór í þrot þá er Morgunblaðið eina dagblað landsins. Það rekur harða pólitíska áróðursstefna sem styður við Sjálfstæðisflokkinn og þann anga atvinnulífsins sem tengjast eignarhaldi Árvakurs eða eru eigendum og stjórnendum félagsins þóknanlegir. Miðlum Árvakurs er sömuleiðis beitt af miklum ofsa gagnvart þeim sem skilgreindir eru sem andstæðingar þessara aðila. Trúið mér, ég veit.

Helgi Magnússon kostaði miklu til þegar hann keypti Fréttablaðið og tengda miðla. Hann lagði auk þess umtalsverða fjármuni inn í reksturinn áður en hann sigldi í þrot í lok mars 2023. Mynd: Torg

Vegna þess að Árvakur er ekki rekinn á viðskiptalegum forsendum þá hefur útgáfufélagið getað staðið af sér allar áskoranir sem hafa fellt aðra, eins og til dæmis Fréttablaðið. Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki í ríkisstjórn, en það verður annað kjörtímabilið sem svo er ekki síðan árið 1991, þá mun Morgunblaðið og tengdir miðlar að óbreyttu stýra pólitísku narratívi á Íslandi á komandi árum. Aðrir starfandi miðar, RÚV (í opinberri eigu) og miðlar Sýn (í eigu fjarskiptafélags sem er skráð á markaði), eru of passífir og, að einhverju leyti, kurteisir í samanburði til að mæta þeirri stöðu. Áherslur þeirra og persónuleiki liggja einfaldlega annars staðar. 

Ísland skilur sig frá hinum Norðurlöndunum

Þessi staða er afleiðing pólitísks aðgerðarleysis. Á meðan að hin Norðurlöndin, sem öll hafa gripið til margháttaðra aðgerða til að styrkja fjölmiðlaumhverfið sitt, raða sér ár eftir ár í efstu sæti yfir þau lönd þar sem fjölmiðlafrelsi er mest samkvæmt mælingu Blaðamanna án landamæra, situr Ísland í 18. sæti. Land­ið hef­ur aldrei far­ið neð­ar á list­an­um en það en fram­an af öld­inni sat Ís­landi í efstu sæt­um hans. Ófræg­ing­ar­her­ferð­ir og lög­reglu­rann­sókn­ir á blaða­mönn­um er með­al þess sem dreg­ur Ís­land nið­ur.

Sagan er löng og ljót. Til­kynnt var um að nefnd, undir formennsku Björgvins Guðmundssonar, sem ætti að skoða leiðir til að styrkja íslenskt fjöl­miðlaum­hverfi yrði skipuð í lok árs 2016. Und­ir­liggj­andi var að tryggja að gagn­rýnin umræða, aðhald, fjöl­breyttar skoð­­anir og sjón­­­ar­mið, menn­ing­­ar­­leg fjöl­breytni og rann­­sókn­­ar­­blaða­­mennska – grund­­völlur hvers lýð­ræð­is­­rík­­is – myndi eiga sér til­veru­grund­völl. 

Nefndin skilaði af sér árið 2017 og setti fram sjö til­­lögur um umbætur sem gætu bætt rekstr­­­ar­skil­yrði fjöl­miðla. Þær snéru meðal ann­­­ars að stöðu RÚV á aug­lýs­inga­­­mark­aði, að lækka virð­is­auka­skatt sem leggst á vörur fjöl­miðla, að heim­ila aug­lýs­ingar í íslenskum fjöl­miðlum sem í dag eru bann­að­ar, tryggja gagn­sæi í kaupum hins opin­bera á aug­lýs­ingum í fjöl­miðlum og end­ur­greiðslum fyrir textun og tal­­­setn­ingu. Tilgangurinn var að tryggja fjöl­breytni og fjöl­ræði í íslensku fjöl­miðlaum­hverfi með ólíku eign­ar­haldi. 

Nú, átta árum eftir að hópurinn var skipaður og sjö árum eftir að hann skilaði af sér, þá hefur ein tillaga Björgvins-nefndarinnar orðið að veruleika. Um er að ræða styrkja­kerfi að nor­rænni fyr­ir­mynd sem felur í sér að end­ur­greiða hluta af fram­leiðslu­kostn­aði á fréttum og frétta­tengdu efn­i sem deildi út 551 milljónum krónum til á þriðja tug fjölmiðla í ár. Af þeirri upphæð fór langstærsti hlutinn til stærstu fjölmiðlasamsteypa landsins (Árvakur og Sýn fengu 124 milljónir króna hvor) en minnihluti til fjölmiðla í vexti og þróun. 

Styrkjakerfið er nú runnið sitt skeið þar sem lög um það giltu einungis fram að komandi áramótum. Alþingi þarf því að endurnýja lögin eigi styrkirnir að greiðast út á næsta ári.

Það sem þarf að gera

Sam­hliða hinni kerf­is­bundnu veik­ingu fjöl­miðlaum­hverf­is­ins hafa hagsmunagæslusamtök gengið á lagið, nýtt sér þessa vegferð stjórnmálamanna og hert tök sín á narratívi þjóðmálaumræðu. Afleiðingin er að lobbýistar miðla miklu magni upplýsinga í búningi „frétta”.

Það ætti öllum að vera ljóst að það þurfi að grípa til samþættra aðgerða sem hafa það markmið að styrkja fjölræði og fjölbreytni í íslensku fjölmiðlaumhverfi, að fjölga öflugum fjölmiðlum sem starfa eftir hefðbundnum viðmiðum blaðamennsku, kemur í veg fyrir samkeppnisbjögun, stöðvar spekileka úr greininni og fjölgar starfandi fjölmiðlafólki. Á meðal þeirra eru, skattlagning tæknirisa á borð við Facebook og Google og nýta ávinninginn til þess að styðja við íslenska fjölmiðla sem framleiða og miðla efni á íslensku. Það þarf líka að innleiða skattalega hvata með breytingu á virðisaukaskatti eða tryggingagjaldi til að styrkja íslenskt fjölmiðlaumhverfi. 

Þá er bráðnauðsynlegt að aðlaga hlutverk RÚV að breyttum tíma, þannig að stærð ríkismiðilsins taki ekki of mikið súrefni frá einkareknum miðlum svo þeir geti ekki vaxið með eðlilegum hætti. Það er hægt að gera til dæmis með takmörkunum á þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði og með því að veita öðrum fjölmiðlum gjaldfrjálsar auglýsingar hjá RÚV.

Það þarf líka að fara yfir öll opinber auglýsinga- og áskriftakaup hins opinbera og tryggja að íslenskir fjölmiðlar njóti forgangs við slík kaup umfram til dæmis erlend tækni- og samfélagsmiðlafyrirtæki. Þá þarf einnig að gilda jafnræði í kaupum á auglýsingum og áskriftum íslenskra miðla. 

Að lokum þarf að stórauka stuðning við nýsköpun og þróun í fjölmiðlum, til dæmis með sérstöku styrktarkerfi, og bæði styrkja og skerpa á lagaumhverfinu þannig að blaðamenn þurfi ekki að eiga á hættu á að sæta tilhæfulausum lögreglurannsóknum eða annars konar ofsóknum fyrir að vinna vinnuna sína. 

Reply

or to participate.