- Kjarnyrt
- Posts
- Listin að nota litla manninn sem skjöld fyrir breiðu bökin
Listin að nota litla manninn sem skjöld fyrir breiðu bökin
Síðasta ríkisstjórn lagði mesta áherslu á að ráðast í ófjármagnaðar skattalækkanir á breiðustu bökin í samfélaginu og mjög dýrar ófjármagnaðar aðgerðir til að bregðast við aðstæðum. Afleiðingin var linnulaus hallarekstur og ríkissjóður sem reka átti á yfirdrætti í níu ár. Ný ríkisstjórn hefur þegar snúið þessu við. Hún ætlar að auka tekjur ríkissjóðs með því að sækja slíkar á breiðu bökin, meðal annars með því að loka skattaglufum, en lækka daglegan kostnað venjulegs vinnandi fólks með efnahagslegum stöðugleika sem dregur hratt úr vaxtagjöldum heimilanna í landinu.
Í aðdraganda kosninganna í haust var eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar að loka hinu svokallaða ehf- gati. Áróðursvélar þeirra sem eru vanir að stjórna á Íslandi, og sáu fyrir sér að missa þau völd, fóru á fullt við að pakka þessari aðgerð inn sem aðför að iðnaðarmönnum og tekjulága einyrkja. „Munu skattleggja hárgreiðslufólk, smiði og pípara“ sagði í einni fyrirsögninni sem var ætlað að hræða kjósendur frá því að kjósa þá sem vinna að almannahag til valda.
Raunveruleikinn var auðvitað allur annar. Gögn frá Rafiðnaðarsambandinu sýndu til að mynda að sjálfstætt starfandi voru einungis 3,8 prósent af félagsmönnum þess og af þeim fjölda voru einungis fimm prósent með tekjur yfir þeim mörkum sem þessi breyting myndi hafa áhrif á. Hjá tekjulægri einyrkjum eru skattalegir hvatar til tekjutilflutnings hverfandi.
Þeir sem þessi lokun skattaglufu myndi hafa áhrif voru hins vegar tekjuhæsta fólk landsins, enda fara um 70 prósent allra fjármagnstekna til ríkustu tíu prósent landsmanna. Árið 2023 voru það 211 milljarðar króna og þær hækkuðu um fjórðung milli ára. Hér var um að ræða skattaglufu sem er ekki til til staðar á neinum hinum Norðurlandanna, og hefur staðið til að loka áratugum saman. Það var meira að segja í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar frá árinu 2021 að múra upp í þessa óréttlátu og óskynsömu kjarabót sem nær einungis breiðustu bökin í samfélaginu geta nýtt sér. Þar stóð orðrétt að það ætti „að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“
Sama varðstaðan aftur og aftur
Svo var kosið og stjórnarflokkarnir töpuðu. Allir fengu þeir sína verstu útreið í sögu sinni, sem hefur leitt þá í mikla sjálfsmyndarkreppu. Sú staða hefur þó ekkert breytt leikjafræðinni. Alltaf þegar ráðast á í breytingar fyrir hönd flesta landsmenn þá taka gömlu valdaflokkarnir upp varðstöðu fyrir þá fáu og ríkustu, en klæða hana í einhverskonar abstrakt búning og láta sem að þeir séu að verja litla manninn.
Nýjasta dæmið snýst um afnám heimildar til samnýtingar tveggja efstu skattþrepanna hjá hjónum og sambúðarfólki, sem stjórnarandstaðan kallar ranglega afnám samsköttunar. Ónýttur persónuafsláttur mun enn ganga á milli samskattaðra einstaklinga líkt og verið hefur.
Alltaf þegar ráðast á í breytingar fyrir hönd flesta landsmenn þá taka gömlu valdaflokkarnir upp varðstöðu fyrir þá fáu og ríkustu, en klæða hana í einhverskonar abstrakt búning og láta sem að þeir séu að verja litla manninn.
Samt er öskrað á torgum, og búnir til falskir útreikningar sem nafnlaus tröll á samfélagsmiðlum eru látin dreifa, til að sýna að þetta sé aðgerð sem bitni fyrst og síðast á „illa á barnafjölskyldum sem eru í svokölluðu harki en hingað til hafa hjón eða sambúðarfólk í miklum mæli nýtt sér þennan möguleika“ líkt og einn Sjálfstæðisflokksþingmaðurinn orðaði það í pontu Alþingis í vikunni. Það er eins og þessu fólki sé alveg sama þótt tölulegar staðreyndir geri þau fullkomlega ómarktæk. Eina sem skipti máli sé að öskra hátt og endurtaka oft, þá verði hvítt að svörtu og lygi að sannleik.
Gagnast aðallega efnuðum körlum
Til að hrekja þessa þvælu skulum við byrja á árinu 2016. Þá lagði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson þá formaður Sjálfstæðisflokksins, fram frumvarp sem fól meðal annars í sér að samnýting milli skattþrepa yrði afnumin. Meira að segja honum þótti þetta galin leið. Meirihlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, að mestu skipaður þáverandi stjórnarflokkum, stöðvaði hins vegar þessar breytingar.
Næst skulum við fara fram til ársins 2019 þegar Bjarni Benediktsson er enn í sama ráðuneyti og enn að leiða Sjálfstæðisflokkinn. Þá var unnin skýrsla sem bar heitið „Endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum“ fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið í aðdraganda lífskjarasamninganna.
Þar sagði meðal annars að greining á þeim hópi sem hefur notið góðs af samnýtingu skattþrepa þau sex ár sem fyrirkomulagið hefur verið við lýði hefði leitt í ljós að „flestir eru þannig að hámarka afsláttinn ef þeir njóta samnýtingar á annað borð með því að annar aðilinn er þá heimavinnandi og hinn með háar tekjur.“
Síðar sagði að áætlað væri að heildarkostnaður vegna samnýtingar tekjuskattþrepa hafi verið 3,5 milljarðar króna við álagningu tekjuskatts á árinu 2018 vegna tekna sem aflað var 2017. „Um það bil 91 prósent af þeirri upphæð mun renna til hækkunar á ráðstöfunartekjum karla og einungis um 9 prósent til hækkunar á ráðstöfunartekjum kvenna. Þá er vert að benda á að samnýting skattþrepa er algengust meðal allra tekjuhæstu sambúðaraðila.“
Letur atvinnuþátttöku kvenna
Spólum svo fram í nútímann. Nú á að loka þessari skattaglufu sem samnýting milli skattþrepa felur í sér og Skatturinn var af því tilefni beðinn um að taka saman nýjar tölur. Í þeim kom fram að ríkissjóður hafi orðið af 2,7 milljörðum króna í tekjuskatt á árinu 2023 vegna samnýtingar hjóna og sambúðarfólks. Gögnin sýna skýrt að aðgerðin eykur fyrst og síðast ráðstöfunartekjur tekjuhærri heimila.
Þannig er að 4,3 prósent einstaklingar í álagningarskrá Skattsins nýta sér samnýtingu og 95 prósent þeirra eru í efstu tekjutíund. Af þeim eru 82 prósent karlar. Það sem meira er þá er notkunin á þessari glufu miklu meiri hjá efri helmingi efstu tekjutíundarinnar en þeirri neðri, en 93,3 prósent hennar er þar. Þessi breyting þýðir að tekjuskattgreiðslur efri helmingsins í þessari tekjutíund hækka um 0,62 prósent en þær lækka hjá neðri helmingnum um 0,07 prósent. Þeir sem njóta samnýtingar „fá álagðan 26 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti einstaklinga og er því einnig um að ræða eignamikla aðila."
Markmið samnýtingar á skattþrepum er líka óljóst. Þetta er einfaldlega skattaglufa sem nýtist fyrst og síðast ríkasta hluta landsmanna, og aðallega körlum, við að borga lægri skatta. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur meira og minna sagt þetta í skýrslum. Samt hafa stjórnvöld síðustu ára ekki gert neitt í þessu. Kannski einmitt vegna þess að þau hafa gætt hagsmuna þeirra efnuðustu umfram annarra á Íslandi.
Blessað veiðigjaldið
Einhverskonar Íslands- og Evrópumet í þvælu hefur verið sett í umræðu um eðlilega leiðréttingu veiðigjalds. Látið er að því liggja að engar greiningar séu á bakvið útfærsluna og að það skorti á samtal um hvernig eigi að hátta þessari eðlilegu auðlindagjaldtöku fyrir aðgengi að þjóðareign. Þessu er meðal annars haldið fram af flokkum sem stóðu að síðustu ríkisstjórn og voru búnir að ákveða að hækka veiðigjöld um fimm milljarða króna í ár án þess að eiga samtal við nokkurn nema sig sjálfa.
Sennilega má fullyrða að það hafi ekki átt sér stað jafn mikið af samtölum og samráði um nokkurn hlut í gegnum tíðina á Íslandi en um það sem væri eðlilegt að útgerðir greiddu fyrir aðganginn. Munurinn nú er sá að það sitja í ríkisstjórn flokkar sem boðuðu það allir skýrt, fyrir kosningar og í stjórnarsáttmála, að það yrði farið í þessa vegferð. Hinn munurinn er sá að nú er hagsmunagæsluarmur útgerðarinnar ekki ráðandi afl í að útfæra gjaldtöku á sig sjálfa, líkt og hún var síðast þegar fyrirkomulaginu var breytt og flokkar í hagsmunabandalagi við hana réðu á Íslandi.
Nóg er af greiningum. Ég hef þegar rakið þær flestar, og hrakið um leið hræðsluáróðurinn um að leiðrétting veiðigjalda sé einhverskonar árás á viðkvæmustu hópana í sjávarútvegs-fæðukeðjunni.
Fyrir liggur, í opinberum gögnum, að handfylli útgerða mun greiða þorra þeirrar hækkunar sem fellur til vegna leiðréttingarinnar á góðum árum og að þær séu reknar í miklum meiri rekstrarhagnaði en önnur fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi. Þrátt fyrir breytt veiðigjöld verður rekstrarhagnaðarhlutfall þeirra enn tvöfalt við það sem er annars staðar í fyrirtækjarekstri á Íslandi. Þannig munu tíu stærstu útgerðirnar, sem margar tengjast innbyrðis og eru að hluta í eigu sömu fjölskyldna, borga um 60 prósent veiðigjalda, líkt og þær hafa gert hingað til. Árið 2023 voru þau 7,6 prósent af rekstrarhagnaði þessara tíu fyrirtækja.
Lægra veiðigjald ef reiknað er á núvirði
Svo má líka líta hlutina frá öðru sjónarhorni. Ef veiðigjald, sem var um tíu milljarðar króna í fyrra, er reiknað á núvirði þá hefur það lækkað verulega frá árinu 2018, þegar það var 15,5 milljarðar króna. Það var líka lægra á síðasta ári en árin 2012, 2013, 2014, 2015 og 2023.
Nokkuð augljóst er að þær breytingar sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, skipuð Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, gerðu á veiðigjaldainnheimtu í byrjun stjórnartíðar sinnar gerðu það að verkum að ríkissjóður varð af tugum milljarða króna á tímabili sem var eitt það besta í sögu íslensks sjávarútvegs.
Tugum milljarða króna sem fóru þess í stað til eigenda útgerða, en frá 2018 og út árið 2022 hefur eigið fé íslensks sjávarútvegs aukist um 150 milljarða króna þrátt fyrir að geirinn hafi greitt samtals 96 milljarða króna til eigenda sinna í arð. Á sama tímabili greiddi útgerðin 59 milljarða króna í veiðigjald á verðlagi hvers árs.
Stjórnarandstaðan sem talar sig hása um að vera að verja litla manninn er í raun ekki að gera neitt annað en að nota hann sem skjöld fyrir breiðustu bökin. Alveg eins og hún er að gera í afbökun sinni á afnámi samnýtingar skattþrepa.
Leikrit stjórnarandstöðunnar og ábyrgð efnahagsstjórn
Sama leikritið er uppi í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þær línur sem hún leggur í efnahagsstjórninni. Klifað er á því að verið sé að hækka álögur á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Venjulegt vinnandi fólk. Fjölskyldurnar. Það er einfaldlega rangt. Það er verið að auka álögur á breiðustu bökin, alveg eins og lofað var að gera í aðdraganda kosninga.
Stóra ástæða þess að verðbólgan varð eins hvimleið og hún varð hérlendis, og vextirnir urðu á meðal þeirra hæstu á byggðu vestrænu bóli, var sú að síðasta ríkisstjórn var allt of lengi að draga úr covid-aðgerðunum. Það leiddi til ofhitunar á hagkerfinu.

Stjórnarandstaðan hefur sett upp hvert leikritið á fætur öðru þar sem hún þykist vera að taka stöðu með venjulegu vinnandi fólki en er í raun að verja sérhagsmuni. Mynd: Monica Silvestre/Pexels
Sú ríkisstjórn ákvað að láta heimilin, venjulegt vinnandi fólk, taka skellinn vegna þessa í gegnum stóraukin vaxtakostnað af lánum sínum. Nýjar tölur Hagstofunnar sýna að þau greiddu 121 milljarð króna í vaxtagjöld á síðasta ári. Þau höfðu vaxið um 51 milljarð króna frá árinu 2021 og ellefu milljarða króna frá árslokum 2023. Hvert prósentustig í lækkun vaxta skilar heimilunum tugum milljarða króna í auknar ráðstöfunartekjur og því er til mikils unnið að sýna ábyrgð í efnahagsmálum með því að auka tekjur þar sem það er hægt og hagræða þar sem það bitnar ekki á þjónustu.
Allt rekið á yfirdrætti
Það var einfaldlega ekki gert. Samkvæmt fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar átti að reka ríkissjóð í halla alls níu ár í röð. Í stað þess að auka tekjur í takti við útgjöld var ráðist í ófjármagnaðar skattalækkanir upp á tugi milljarða króna sem gögnuðust helst tekjuhæstu hópum samfélagsins. Samhliða valdi síðasta ríkisstjórn að fjársvelta velferðarkerfin þannig að þau geta ekki sinnt þeirri almannaþjónustu sem þeim er ætlað að gera. Það jók álag á fólkið sem þar starfar.

Síðasta ríkisstjórn vann með þá hugmyndafræði að stofna til mikilla útgjalda samhliða því að veikja tekjustofna og reka stjórnarheimilið í miklum mínus ár eftir ár. Mynd: Úr safni
Ríkisstjórn sem sat frá 2017 og fram í desember síðastliðinn byrgði einfaldlega aldrei brunninn. Hún fjármagnaði aldrei þær aðgerðir sem hún þurfti að ráðast í né safnaði til mögru áranna. Þess í stað tók sú ríkisstjórn peninganna sem hún dældi út í kórónuveirufaraldrinum – mörg hundruð milljarða króna – að láni úr gjaldþrota ÍL-sjóði, réðst í ófjármagnaðar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum upp á tugi milljarða króna og gerði slíkt hið sama vegna aðgerða sem tengjast atburðunum í Grindavík, sem hafa kostað langleiðina í 100 milljarða króna. Þau veiktu tekjurnar og juku útgjöldin samhliða gríðarlega.
Þau ráku ríkissjóð á yfirdrætti. Þau ýttu kostnaðinum af þessum kostnaðarsömu aðgerðum yfir á börn dagsins í dag sem munu þurfa að borga reikninginn þegar þau eru orðin fullorðin.
Unnið fyrir alla
Markmiðið sem lagt er upp með í fjármálaáætlun sitjandi ríkisstjórnar er hins vegar að ná hallalausum fjárlögum 2027. Markmiðið er að lækka verðbólgu og vexti þannig að ofurskattinum sem svimandi há vaxtagjöld eru á venjulegt vinnandi fólk geti lækkað hratt. Engin ein aðgerð mun skila fleiri krónum í vasa þorra heimila og sú aðgerð.
Markmiðið er að gera ríkissjóð í stakk búinn til að sýna viðnámsþrótt næst þegar á bjátar. Nýjustu vendingar á alþjóðavettvangi, þar sem tollastríð er skollið á, sýna að ekki veitir af, enda flytur Ísland inn meira af vörum en út og er því sérstaklega viðkvæmt fyrir svona kúvendingum.
Markmiðið er að geta búið til svigrúm svo hægt sé að fjárfesta í innviðum og vinna á innviðaskuld sem slagar nú upp í 700 milljarða króna.
Þetta eru göfug markmið sem gagnast öllum. Hinum raunverulega almenningi í landinu. Litlum sem stórum. Ekki bara efsta hlutanum í efsta tekjuhópnum.
Reply