- Kjarnyrt
- Posts
- Markaðsvirði skráðra félaga á Íslandi jókst um 549 milljarða á einu ári
Markaðsvirði skráðra félaga á Íslandi jókst um 549 milljarða á einu ári
Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur verið í töluverðri lægð allt frá því að stjórnvöld hófu að draga úr efnahagslegum hvataaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Heildarvísitala Kauphallarinnar lækkaði árin 2022 og 2023 og sá dvali náði langt inn á síðasta ár. Um haustið tók hins vegar allt við sér og árið í heild endaði í blússandi plús. Von er á mikilli innspýtingu af fjármagni inn á markaðinn ný þegar JBT hefur tekið yfir Marel og borgað hluthöfum þess út svimandi upphæðir. Það, ásamt lækkandi vaxtastigi, gæti gert árið 2025 stórt á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Kórónuveirufaraldurinn, og þær aðgerðir sem seðlabankar og stjórnvöld um allan heim, þar með talið hérlendis, gripu til vegna efnahagslegra áhrifa hans bjuggu til eignabólur. Það þýðir að verði á eignaflokkum hækkaði umfram það sem undirliggjandi þættir gefa tilefni til. Þeir eignamarkaðir sem hækkuðu mest voru hlutabréfa- og fasteignamarkaðurinn.
Á árinu 2020 hækkaði heildarvísitala hlutabréfa um 24,3 prósent. Markaðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á markaðina tvo – Aðalmarkað og First North – hækkaði um 312 milljarða króna á því ári, eða um 24 prósent.
Árið 2021 gekk enn betur. Bréf í öllum félögum á aðalmarkaði, og öllu nema einu á First North, hækkuðu. Alls hækkaði heildarvísitala hlutabréfa um 40,2 prósent. Þau tvö félög sem hækkuðu mest í virði, Arion banki og Eimskip, tvöfölduðu markaðsvirði sitt. Að teknu tilliti til þess að fjögur félög voru skráð á markað á því ári þá hækkaði markaðsvirði allra skráðra félaga um næstum eitt þúsund milljarða króna á árinu 2021, og var 2.556 milljarðar króna í lok þess árs.
Árið 2022 dró úr þessum aðgerðum, fjármagn varð dýrara samhliða hækkandi stýrivöxtum og verðbólga fór á flug. Á því ári lækkað heildarvísitala Kauphallarinnar um 17 prósent. Það hélt áfram að vera þungt yfir árið eftir þegar heildarvísitalan lækkaði um 3,4 prósent.
Kúvending um haust
Það stefndi í annað þungt ár framan af árinu 2024. Vísitölurnar leituðu niður á við samhliða því að stýrivextir héldust svimandi háir og verðbólga reyndist þrálátari en vonast hafði verið til. Þangað til í september, skömmu áður Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í fyrsta sinn síðan á árinu 2020. Frá því snemma í þeim mánuði, og út árið, hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem mælir gengi þeirra 15 félaga sem eru með mestan seljanleika á bréfum sínum, um 26 prósent. Þar af féll helmingur hækkunarinnar til eftir að ríkisstjórnin sprakk rétt fyrir miðjan október.
Þegar árið er gert upp er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hafi gengið vel í fyrra, svona heilt yfir. Alls hækkuðu 20 félög á Aðalmarkaði í verði en átta lækkuðu. Þrjú þeirra fimm sem skráð eru á First North markaðinn hækkuðu en tvö lækkuðu. Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var 3.249 milljarðar króna í lok nýliðins árs samanborið við 2.700 milljarða króna í lok árs 2023. Virði þeirra hækkaði því um 549 milljarða króna, eða 20 prósent. Ávöxtun fjárfesta sem tóku þátt á íslenska markaðnum var sú hæsta á Norðurlöndunum, en Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um tæp 16 prósent á árinu.
Þá var veltan á markaði um þriðjungi hærri en árið áður, eða yfir fjórir milljarðar króna á dag. Í þeirri veltu eru risaviðskipti í tengslum við yfirtökutilboð hins bandaríska JBT í Marel, sem voru samþykkt af miklum meirihluta hluthafa þess síðarnefnda í desember, ekki meðtalin. Þau viðskipti munu nær örugglega færa líf í markaðinn í ár, enda fá flestir hluthafar í Marel greitt fyrir yfirtökuna þannig að 65 prósent verður í bréfum í nýju sameinuðu félagi en 35 prósent í reiðufé sem þarf að fara aftur í vinnu. Önnur leið til að líta á þetta er að niðurstaðan mun leiða til þess að hluthafar Marel fá, samanlagt bæði í gegnum tilboðið og innlausnina, um 950 milljónir evra, 136,7 milljarða króna, í reiðufé og um 38 prósent eignarhlut í sameinuðu félagi JBT og Marel.
Play í vanda
Tvö félög bættust við á Aðalmarkað á árinu 2024. Annars vegar í Oculis, sem vinnur að þróun nýrra lyfja sem eru komin á stig klínískra rannsóknar til meðhöndlunar á alvarlegum augnsjúkdómum og hækkkaði um alls 38 prósent frá skráningu, en bréf þess félags eru tvískráð hér og í Bandaríkjunum. Hins vegar færði flugfélagið Play sig af First North markaðnum og yfir á Aðalmarkaðinn.
Og Play var það félag sem var í mestum vanda, en bréf í félaginu lækkuðu alls um 87 prósent á árinu 2024. Félagið tapaði samtals um fimmtán milljörðum króna frá því það tók til starfa í júní 2021 og út árið 2023. Sá taprekstur hélt áfram í fyrra – Play tapaði um 3,7 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins – og þegar fyrir lá að uppfærð afkomuáætlun félagsins benti til verri rekstrarafkomu í fyrra en árið áður boðaði Play grundvallarbreytingar á viðskiptalíkani félagsins. Í þeim fólst að það mun draga úr tengiflugsleiðakerfi sínu sem hefur hingað til verið rekið með tapi og efla þess í stað arðbæra sólaráfangastaði félagsins frá Íslandi til Suður-Evrópu ásamt Norður-Afríku og Asíu. Samhliða ofangreindum breytingum hyggst félagið leigja út hluta flotans og sótti um flugrekstrarleyfi á Möltu.

Heimar, sem stýrt er af Halldóri Benjamín Þorbergssyni, var það félag sem hækkaði mest í fyrra. Eitt stærsta fyrirtækið á markaði er svo Alvotech, sem var meðal annars stofnað af Jóhanni G. Jóhannssyni. Hér sjást þeir saman nýlega þegar samstarf fjárfestingarfélagsins Flóka Invest, sem Jóhann tók þátt í að stofna, við Heima vegna uppbyggingu allt að þriggja nýrra leikskóla var handsalað. Mynd: Heimar
Gengi bréfa í Play í byrjun árs var ein króna á hlut. Til samanburðar var útboðsgengi Play 20 krónur á hlut fyrir tilboð undir 20 milljón krónur og 18 krónur á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna í hlutfjárútboði sem fór fram í aðdraganda þess þegar félagið skráði sig á First North markaðinn árið 2021.
Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn átti heldur ekki gott ár. Hlutabréf í því lækkuðu um 32 prósent og markaðsvirði félagsins hefur rúmlega helmingast frá því að það náði hámarki í ágúst 2022. Þá lækkuðu öll skráðu sjávarútvegsfyrirtækin, og fyrirtæki sem reka þjónustustarfsemi við þau, líka vel í verði. Eimskip átti erfitt ár og lækkaði um rúmlega fimmtung í verði.
Vaxtafyrirtækin í ágætis málum
Það var hins vegar veisla hjá fasteignafélögunum sem skráð eru á markað. Gengi bréfa í Heimum hækkaði um 63 prósent, bréf í Kaldalóni um 54 prósent, Í Reitum um 38 prósent og Eik um 21 prósent. Eina félagið sem hækkaði um meira en 50 prósent sem er ekki fasteignafélag var auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals, sem er nú metið á um 72 milljarða króna. Það félag náði þeim áfanga seint á síðasta ári að tilkynna um að fyrsta framleiðsla og steypun á gulli hefur átt sér stað í Nalunaq-námu félagsins í Suður-Grænlandi. Hlutabréfaverð í Amaroq, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á málmum í Grænlandi, hækkaði umtalsvert í kjölfarið, en þorri hluthafa þess eru íslenskir.
Annað vaxtafélag á markaði, Alvotech, átti enn eitt athyglisverða árið. Eftir að hafa tapað 322 milljónum króna á dag á fyrsta ársfjórðungi, og alls 180 milljörðum króna á 27 mánuðum, varð viðsnúningur og rekstrarhagnaður á næstu tveimur. Alvotech fékk hins vegar leyfi til að selja Simlandi, fyrstu líftæknilyfjahliðstæðuna við Humira, eins mest selda lyfs heims á síðustu árum snemma á árinu og það breytti stöðu þessa um tíma verðmætasta fyrirtækis á íslenskum hlutabréfamarkaði, sem metið er á 601 milljarða króna, gríðarlega.

Alvotech hefur átt mikla rússíbanareið frá því að félagið var skráð á markað. Nú stefnir allt í rétta átt hjá félaginu og hluthafar gætu hagnast mikið. Ef eitthvað í planinu fer úrskeiðis þá gætu hlutirnir hins vegar súrnað hratt. Mynd: Alvotech
Hinn risinn á íslenska hlutabréfamarkaðnum er vitanlega Marel sem, líkt og áður sagði, hefur nú runnið saman við JBT og er þar með orðið langverðmætasta skráða félag landsins, með markaðsvirði upp á tæplega 900 milljarða króna.
Fínn gangur í fákeppninni
Þrátt fyrir samdrátt í einkaneyslu, svimandi háa verðbólgu og eina hæstu stýrivexti í Evrópu þá gekk vel hjá þjónustufyrirtækjunum sem skráð eru á markað. Þeim sem selja okkur mat, bensín, tryggingar, fjármálaþjónustu, fjarskipti og allt hitt í fákeppnisumhverfinu sem ríkir í krónuhagkerfinu. Hlutabréf í Festi, sem rekur til Krónuna, N1 og tengd fyrirtæki, hækkuðu til að mynda um 38 prósent á síðasta ári og helsti samkeppnisaðili þeirra Hagar, eigandi Bónus, Hagkaupa og Olís, hækkaði um 33 prósent.

Mynd: Nasdaq Iceland
Hóflegustu hækkanirnar voru hjá skráðu bönkunum þremur, Icelandair sem þurfti, ofan á erfitt vaxtaumhverfi, að glíma við afleiðingar jarðeldanna við Grindavík á ferðaþjónustu, og fjarskiptafyrirtækinu Nova, sem hækkaði um einungis átta prósent milli ára.
Á vef Keldunnar má sjá 12 mánaða ávöxtun 18 íslenskra hlutabréfasjóða. Þar kemur fram að þeir hafi allir nema einn skilað jákvæðri afkomu síðastliðið ár, og sá sem leiddi þá vegferð ávaxtaði fjárfestingu viðskiptavina sinna um 23,8 prósent. Eini sjóðurinn sem fjárfestir í íslenskum hlutabréfum og skilaði neikvæðri ávöxtun á síðastliðnu ári var Akta Stokkur, sem var niður um samtals 21,7 prósent.
Reply