- Kjarnyrt
- Posts
- Nýtt efnahagslegt stýrikerfi í stað uppfærslu á úr sér gengnum hugbúnaði
Nýtt efnahagslegt stýrikerfi í stað uppfærslu á úr sér gengnum hugbúnaði
Verið er að taka stór og örugg skref í að uppfæra stýrikerfið í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Tími óvandaðra og heimatilbúinna uppfærslna á kerfum sem þjóna ekki lengur tilgangi sínum nema fyrir fáa sérhagsmunahópa er liðinn. Framtíðin er ábyrg efnahagsstjórn í stað þess að reka ríkið stanslaust á dýrum yfirdrætti, kvik og þjónandi stjórnsýsla byggð á heildarhagsmunum og fjölbreytt atvinnulíf þar sem áhersla er lögð á framleiðni og skýrt tillit tekið til áhrifa vaxtar á önnur svið samfélagsins. Ísland 2.0 er handan við hornið.
Eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmála eru efnahagsmál. Þau hafa áhrif á allt annað. Á getu stjórnvalda til að fjármagna önnur mikilvæg verkefni og á daglegt líf venjulegs vinnandi fólks. Stór breyta í því að síðasta ríkisstjórn var eins óvinsæl og raun bar vitni var að á vakt hennar fór verðbólga um tíma í tveggja stafa tölu, var yfir markmiði árum saman og skilaði stýrivöxtum í yfir níu prósent í næstum fimmtán mánuði.
Afleiðingar þessa urðu meðal annars þær að vaxtagjöld heimila landsins rúmlega tvöfölduðust milli 2021 og 2024, sem í krónum og aurum þýðir að þau greiddu 84,5 milljörðum króna meira í vexti af lánum sínum á síðara árinu en því fyrra. Á sama tíma síðasta ríkisstjórn mikilvæga innviði grotna niður.
Það hefur ekki skort á áskoranir í efnahagsmálum á síðustu mánuðum. Viðskipta- og tollastríð á alþjóðavísu vegna gjörbreyttrar efnahagsstefnu Bandaríkjanna mun alltaf reyna á útflutningsþjóð eins og Ísland.
Þrátt fyrir það hefur gengið ansi vel síðustu mánuði að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og stíga rétt skref í átt að bættu efnahagskerfi.
Skref í átt að stöðugleika
Tölurnar tala sínu máli. Á fyrsta ársfjórðungi 2025 mældist hagvöxtur á Íslandi 2,6 prósent. Það þýðir að landsframleiðsla, að teknu tilliti til verðbólgu, er að aukast vel umfram það sem almennt er að gerast í löndunum í kringum okkur. Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birt var í júlí eru horfur á að hagvöxtur á næsta ári verði svipaður og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og að á árinu 2027 sé „gert ráð fyrir 2,8 prósenta hagvexti þar sem aukning landsframleiðslunnar verður á breiðari grunni.“
Í fyrra, þegar önnur ríkisstjórn sat að völdum, dróst íslenska hagkerfið saman um 0,7 prósent.
Ef horft er til hlutabréfamarkaðar þá var úrvalsvísitalan, sem mælir gengi þeirra 15 fyrirtækja á honum sem eru með mestan seljanleika, tæplega 18 prósentum hærri á fimmtudag en hún var fyrir ári áður. Í júlímánuði hækkaði hún um 4,6 prósent sem skilaði því að heildarmarkaðsvirði skráðra fyrirtækja var 75 milljörðum krónum meira í lok þess mánaðar en í byrjun hans.
Mikill barlómur heyrðist um áhrif þess að samþykkja leiðréttingu veiðigjalda á Alþingi og því haldið fram að hún myndi hafa svartnættisafleiðingar fyrir sjávarútveg landsins og almenna verðmætasköpun. Ein birtingarmynd þess átti að vera virðisfall þeirra þriggja útgerðarfyrirtækja sem eru skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn. Raunveruleikinn er hins vegar sá að á þeim mánuði sem liðinn er frá því að frumvarpið var samþykkt hefur gengi allra þriggja hækkað. Í tilfelli Brims jókst markaðsvirðið um 5,3 prósent síðastliðinn mánuði, gengi Síldarvinnslunnar hefur farið upp um tæplega átta prósent á sama tíma og virði Ísfélagsins jókst umheil tólf prósent á þessum örfáu vikum.
Engin innistæða var því fyrir rausinu.
Kaupmáttur jókst á fyrsta ársfjórðungi
Atvinnuleysi á Íslandi mælist lítið, eða alls 3,4 prósent, og hefur lækkað úr 4,3 prósentum í febrúar. Það er mun minna en almennt í Evrópu og Bandaríkjunum. Atvinnuþátttaka er líka gríðarleg og hlutfall þeirra 246.280 starfa sem voru til á íslenskum vinnumarkaði sem voru laus í lok júní var einungis 1,9 prósent. Fyrir ári síðan var það hlutfall 3,3 prósent. Hlutfall lausra starfa hefur raunar einungis einu sinni verið minna samkvæmt mælingum Hagstofunnar síðan í lok árs 2020.
Hagstofan birti líka tölur um ráðstöfunartekjur og kaupmátt heimila landsins í sumar. Ráðstöfunartekjur á mann, það sem situr eftir í veskinu um mánaðarmótin eftir að búið er að greiða skatta og gjöld, jukust um 7,5 prósent milli ára og kaupmáttur, það sem fæst fyrir peningana sem eftir sitja, jókst um 3,2 prósent umfram verðbólgu. Það þýðir á mannamáli að heimili landsins fá meira fyrir peninginn nú en þau fengu fyrir ári síðan. Samhliða því jukust vaxtagjöld heimilanna minna en kaupmáttur og voru einungis 1,5 prósent meiri en ári áður.
Verðbólga hefur reynst þrálát en hefur samt sem áður lækkað það sem af er ári og mælist nú 4,0 prósent sem eru efri mörk Seðlabankans. Hún hefur verið, meira og minna, nokkuð stöðug á þeim stað síðustu mánuði og mælist nú 0,8 prósentustigum minni en hún var þegar sitjandi ríkisstjórn tók við. Hagstofan spáir því að verðbólgan hjaðni áfram í öruggum skrefum í átt að 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans næstu misseri.
Ábyrgt fólk við stýrið
Samandregið sýna ofangreindar tölur að eftir hrein stjórnarskipti þá er komið ábyrgt fólk við stýrið á íslensku þjóðarskútunni sem tekur hlutverk sitt alvarlega. Fólk sem tók við ríkissjóði sem hafði verið rekinn í mörg hundruð milljarða króna uppsöfnuðum halla ár eftir ár. Ríkissjóði sem rekinn hafði verið á dýrum yfirdrætti. Í stað þess að auka tekjur, draga úr ónauðsynlegum útgjöldum og borga niður skuldir þá tók síðasta ríkisstjórn bara meiri peninga að láni til að geta haldið partíinu gangandi. Á meðan var litlu viðhaldi á þjóðarheimilinu sinnt og innviðir fengu að grotna niður.
Nú þegar hefur verið gefið skýrt út að reka eigi ríkissjóð réttu megin við á árinu 2027 – sem verður í fyrsta sinn í níu ár sem það gerist – og þau stóru skref sem stigin verða í þá átt munu birtast í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í september. Áhersla verður lögð á ráðdeild í rekstri ríkissjóðs með eðlilegri tekjuöflun og hagræðingu ásamt því að styðja við öfluga verðmætasköpun atvinnulífsins.
Þetta er nauðsynlegt til að geta unnið á hátt í 700 milljarða króna uppsafnaðri innviðaskuld, til að ná niður vöxtum og verðbólgu og til að geta farið að byggja upp sjálfbærara og fjölbreyttara efnahagskerfi til lengri tíma.
Betra lánshæfismat og jákvæðar horfur
Það þarf ekkert að velkjast í vafa um að þessi vegferð er þegar hafin. Skýrt dæmi um það er ákvörðun alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings um að færa upp lánshæfismat ríkissjóðs, sem er nú A með jákvæðum horfum. Það endurspeglar sterkari stöðu opinberra fjármála en verið hefur.
Í tilkynningu Fitch segir að þetta hafi gerst vegna þess að skuldir hins opinbera séu að lækka verulega á árinu 2025 eftir vel heppnað uppgjör á skuldbindingum ÍL-sjóðs – sem eitt og sér lækkaði skuldahlutfall ríkissjóðs um fimm prósent – og sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Þá er innleiðing stöðugleikareglu talin jákvæð þróun.
Þar segir enn fremur að áfram fjölgi „stoðum í atvinnulífinu, með áherslu á verðmætar atvinnugreinar, svo sem lyfjaiðnað, upplýsinga- og samskiptatækni og líftækni. Gnægð endurnýjanlegrar orku og samkeppnishæft orkuverð hafa laðað að sér fjárfestingar í orkufrekum gagnaverum. Þá eru miklir möguleikar í fiskeldi þar sem Ísland hefur samkeppnisforskot á heimsvísu.“

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja fram fyrsta fjárlagafrumvarp sitt í september. Mynd: RÚV
Klykkt er út með því að aukin trú á „verulegri og viðvarandi lækkun skuldahlutfalls ríkissjóðs, áframhaldandi kröftugur vöxtur og vísbendingar um frekari fjölbreytni í efnahagslífinu sem dregur úr áhættu Íslands gagnvart ytri áföllum, gæti leitt til hærri lánshæfiseinkunnar.“
Þessi stöðutaka kemur í kjölfar jákvæðra niðurstaðna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD. Meira að segja Viðskiptaráð Íslands hefur verið að birta greiningar þar sem efnahagsleg staða Íslands er máluð björtum litum. Í skýrslu þess um íslenska hagkerfið segir að horfur til næstu ára séu bjartari. „Íbúum landsins fjölgar hratt, að mestu leyti vegna innflytjenda. Útflutningsgreinum hefur vaxið ásmegin og Ísland hefur styrkt alþjóðlega samkeppnishæfni sína.“
Ráðið gerði líka úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála ríkisstjórnarinnar á fyrsta þingvetri hennar. Samkvæmt henni höfðu 17 mál markverð efnahagsleg áhrif „og eru heildaráhrif nokkuð jákvæð.“
Langtímamarkmið um aukna hagsæld
Þótt ýmislegt gott hafi þegar verið gert þá er margt eftir. Fyrirliggjandi var að það þarf að ráðast í ýmiss konar kerfisbreytingar til að hrista af sér efnahagsstjórnun Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og innleiða skynsamleg og sanngjörn langtímamarkmið.
Til að sýna fram á þetta skulum við hverfa aftur til haustsins 2012. Þá kom út hin afar merkilega skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um möguleika Íslands til eflingar langtímahagvaxtar og á grundvelli hennar var myndaður Samráðsvettvangur um aukna hagsæld. Helsta niðurstaða skýrslunnar var að það ætti að stefna að sjálfbærum hagvexti á Íslandi til lengri tíma litið með því að auka framleiðslu í hagkerfinu. Þar ætti að vera forgangsmál að auka verulega hugvitsdrifinn útflutning, hinn svokallaða alþjóðageira. Við gætum ekki lengur treyst á að auðlindageirinn, sem nýting á náttúru, veiðar á fiski og virkjun á orku tilheyra, gæti staðið undir þeim vexti sem nauðsynlegur er til að viðhalda og jafnvel bæta lífsskilyrði á Íslandi.
Samráðsvettvangurinn var þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem var ætlað að koma þessum markmiðum til leiðar. Fyrirtæki, aðilar vinnumarkaðar, stjórnmálamenn og margir fleiri lögðu sín lóð á vogarskálarnar.

Forystufólk þeirra stjórnmálaflokka sem tóku þátt í samráðsvettvangnum á fundi vorið 2013. Skömmu síðar var verkefninu ýtt til hliðar. Mynd: Stjórnarráðið
Eftir kosningarnar vorið 2013, þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar skipuð Framsókn og Sjálfstæðisflokki tók við völdum, var þessari vinnu hins vegar ýtt til hliðar. Megináherslan var lögð á stóraukna ferðaþjónustu sem hagvaxtarhvata í stað þess að leggja í það langtímaverkefni að raunverulega fjölga stoðunum undir íslensku efnahagslífi.
Afleiðingin var sú að það var vissulega hagvöxtur á Íslandi. Hagkerfið óx. En það var gert á grunni fólksfjölgunar, ekki aukinnar verðmætasköpunar og aukinnar framleiðni. Undanfarin sjö ár hefur hagvöxtur á mann enda verið enginn, og árangurinn miklu minni en í samanburðarríkjum. Þetta er ekki sjálfbær vegferð og hefur auk þess mikil, og alvarleg, neikvæð hliðaráhrif á önnur svið samfélagsins. Á húsnæðismarkaðinn. Á heilbrigðiskerfið. Á skólana, samgöngur, löggæslu og aðra innviði.
Það er þetta með að fjölga eggjunum
Átta árum eftir að skýrsla McKinsey kom út – haustið 2020 – birtist viðtal við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í Kjarnanum. Þar endurómaði hann þá skoðun margra að önnur vaxtatækifæri en í ferðaþjónustu hefðu farið forgörðum vegna þess að það hefði ekki verið nægjanleg athygli borin á þeim frá stjórnvöldum. Það þyrfti að taka mjög stórar og strategískar ákvarðanir um hvernig ætti að byggja upp verðmætasköpun í landinu.
Svo sagði Sigurður að það væri löngu tímabært að stjórnvöld myndu móta atvinnustefnu sem byggi á að auka samkeppnishæfni með umbótum. Aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna kórónuveirufaraldursins hafi hins vegar sýnt „svart á hvítu“ að þáverandi ríkisstjórn væri með atvinnustefnu af öðrum toga en þá sem æskileg væri. „Sú atvinnustefna gengur út á það að velja sigurvegara.“
Aðgerðarleysi stjórnvalda við að fjölga eggjunum í körfunni, og setja aukna áherslu á meiri framleiðni í hugvitsgeirum, sést skýrt á neðangreindu grafi frá Viðskiptaráði Íslands. Útflutningsgreinarnar okkar eru að uppistöðu þrjár: Ferðaþjónusta, sjávarafurðir og stóriðja sem byggir á innlendri orkuframleiðslu. Allt hitt, sem fellur í „annað“ flokkinn, var undir fjórðungi af útflutningi Íslands í fyrra.

Úr skýrslu Viðskiptaráðs um íslenska hagkerfið. Mynd: Viðskiptaráð
Atvinnustefna til tíu ára
Sitjandi ríkisstjórn ætlar að nálgast efnahagsmál og atvinnulíf á allt annan hátt en tíðkast hefur. Hún ætlar að móta skýra auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld, og hefur þegar stigið stór skref í þá átt. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kom líka fram að lögð yrði fram atvinnustefna sem ætti að stuðla að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði.
Áformaskjal um slíka atvinnustefnu til ársins 2035 liggur nú fyrir í samráðsgátt stjórnvalda. Til stendur að stefnan verði samþykkt í ríkisstjórn á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og gefin út. Um verður að ræða tíu ára vaxtaplan sem lýsir því hvernig stjórnvöld ætla að vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun. Meginmarkmið stefnunnar er að fjölda vel launuðum störfum um land allt og styðja við hagvöxt og verðmætasköpun til lengri tíma sem verði drifin af auknum útflutningi.
Í drögum að stefnunni segir að til að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja muni verða ráðist í samstilltar aðgerðir til að efla innviði, einfalda regluverk og auka skilvirkni í opinberri þjónustu. Áfram verður lögð áhersla á hvata til nýsköpunar ásamt því að aðgengi að hagkvæmri og endurnýjanlegri orku verði aukið til að styðja við hagvöxt og orkuskipti. Þá munu stjórnvöld „verja aðgengi að erlendum mörkuðum með virkri hagsmunagæslu á alþjóðlegum vettvangi“.
Valdakerfi munu rakna upp
Þegar allt ofangreint er tekið saman liggur fyrir að við erum loksins að stíga fyrstu skrefin í að uppfæra stýrikerfið í íslensku atvinnu- og efnahagslífi í stað þess að þráskallast endalaust við með heimatilbúnum uppfærslum á kerfum sem duga ekki lengur fyrir Ísland nútímans. Við erum að nálgast Ísland 2.0 með almannahag að leiðarljósi.
Það er verið að breyta stjórnsýslunni í að vera þjónandi, innleiða eðlilega og sanngjarna gjaldtöku vegna nýtingar auðlinda, ná stöðugleika í efnahagsstjórn með ábyrgum aðgerðum og móta langtímastefnu um hvaðan vöxtur íslensks efnahagslífs eigi að koma þar sem horft er á aukna framleiðni og áhrif á önnur svið samfélagsins sem lykilbreytur.
Hér er á ferðinni pólitík sem þorir. Henni verður, og hefur þegar, verið mætt með miklum ofsa úr hendi þeirra sem telja gildandi kerfi þjóna sínum hagsmunum. Ýmsir munu missa spón úr aski sínum. Erfiðara verður að útdeilda almannafé, skattaafsláttum og annars konar gæðum til sérhagsmunaafla og vildarvina. Valdakerfi sem myndast hafa á gráa svæðinu milli stjórnmála og atvinnulífs munu rakna upp.
Hvergi var það augljósara en í slagnum um leiðréttingu veiðigjalda í vor og sumar. Þar sýndi ríkisstjórnin hins vegar að hún ætlar sér að standa í lappirnar og sýna almenningi í landinu að það er hægt að breyta því sem er ekki að virka.
Að stjórnmál séu list hins gerlega og að pólitískur ómöguleiki sé bara hugtak sem var fundið upp til að gaslýsa þjóð um hið gagnstæða.
Reply