• Kjarnyrt
  • Posts
  • Ríkið sent í löngu tímabæra megrun eftir óhóf síðustu ára

Ríkið sent í löngu tímabæra megrun eftir óhóf síðustu ára

Ríkisstjórnin óskaði eftir liðsinni landsmanna við að finna leiðir til að koma rekstri ríkisins í betra form. Það eru flestir sammála um að ríkislíkaminn er orðinn með of hátt fituhlutfall og megi vel við því að svitna nokkrum milljörðum króna. Það skilar betri meðferð á peningum almennings og skilvirkari stjórnsýslu sem er betur í stakk búin til að veita landsmönnum þjónustu.

Hagræðingahópur sem forsætisráðherra skipaði í byrjun árs skilað af sér tillögum í vikunni. Það tók hann 42 daga að vinna þær. Mjög mikilvægt er að taka fram að ekki er um að ræða aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í, heldur þær sem faglegur hópur vann úr mörg þúsund tillögum sem bárust. Nú tekur við pólitísk greining á tillögunum og hvernig þær ríma við pólitískar áherslur sitjandi ríkisstjórnarinnar. Vinnuhópur hennar mun ráðast í þá vinnu og tekið verður mið af niðurstöðum hans við gerð fjármálaáætlunar 2026 til 2030.

Tillögurnar eru að uppistöðu gott innlegg inn í vitræna umræðu um að nýta almannafé betur og margt sem blasir við að verður ráðist í. Það hefur ekki verið vanþörf á hinu vitræna á því sviði. Landinu hefur árum saman verið stýrt af flokkum sem öskra á torgum að þeir standi fyrir góðri meðferð fjár á sama tíma og þeir hafa hlaðið inn í kerfið allskyns sporslum fyrir þá sem eru þeim þóknanlegir með þeim afleiðingum að allskyns kostnaður hins opinbera hefur stóraukist. Minna hefur farið fyrir því að sýna sameiginlegum sjóðum virðingu.

Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir þann hluta sem vert er að skoða gaumgæfilega að hrinda í framkvæmd.

Má bjóða ykkur tvær þjóðarhallir?

Stærsti hagræðingarpósturinn sem er settur fram er í opinberum innkaupum. Í glærum hópsins segir að Fjársýsla ríkisins eigi að leiða þá vinnu. „Rafrænar tengingar milli reikninga og samninga skortir. Stofnanir þurfa að gera innkaupaáætlanir í ríkari mæli. Margir samningar eru útrunnir. Aðrir eru of víðir, en það er þannig í dag að rammasamningar eru opnir sveitarfélögum og ýmsum samtökum ótengdum ríkinu og því ekki hægt að gefa eða framfylgja magnloforðum.”

Til að fólk átti sig á stærðunum sem eru hér undir þá nema opinber innkaup í A-hluta ríkissjóðs tæpum 300 milljörðum króna á ári. Hópurinn telur að það sé hægt að ná tveggja prósenta hagræðingu með markvissum aðgerðum, sem myndi skila 30 milljörðum króna á fimm ára tímabili. Fyrir þann pening væri til að mynda hægt að staðgreiða tvær Þjóðarhallir. Það munar um minna. 

Reiknað er með að fyrirhuguð Þjóðarhöll muni kosta um 15 milljarða króna. Mynd: RÚV

Margt í tillögunum er einfaldlega almenn skynsemi. Þar má til að mynda nefna að bæta lausafjárstýringu. Í glærum hópsins er greint frá því að sérstaklega þurfi að skoða þar stöðuna hjá Menntasjóði námsmanna þar sem rúmlega 30 milljarðar króna liggja á veltureikningum banka vegna offjármögnunar á sjóðnum. Við blasir að þessir fjármunir nýtast betur, til dæmis til að greiða óhagstæða útistandandi ríkisvíxla upp á um 200 milljarða króna, enda óþarfa tap sem skapast á vaxtamuninum þarna á milli. Hópurinn metur tap hins opinbera af svona vinnubrögðum í kerfinu á 3,75 milljarða króna á tímabilinu 2026 til 2030.

Hvernig svona lagað gat gerst á vakt síðustu ríkisstjórna er síðan sérstök spurning sem vert væri að svara en til framtíðar þarf að vinda ofan af þessu og finna hagkvæmari leiðir til að spara í viðlíka kostnaði. Hópurinn segir að fjármála- og efnahagsráðuneytið geti náð fram mikilli hagræðingu með breyttu verklagi í samvinnu við Fjársýslu ríkisins og Seðlabanka Íslands. 

Tekið til í stjórnarráðinu

Þrátt fyrir tilraunir blaðamanns Morgunblaðsins, á blaðamannafundi þar sem tillögurnar voru kynntar, til að láta sem að hagræðingartillögurnar snéru ekkert að Stjórnarráðinu eða þinginu þá sýnir það frekar skort á lesskilningi en raunveruleika.

Fyrir liggur að nú þegar, og utan mengis hagræðingahópsins, hefur verið fækkað um eitt ráðuneyti, sem sparar um 350 milljónir króna á ári. Það er sirka sú upphæð sem þarf til að halda meðferðarúrræðum fyrir fíknisjúka opnum yfir sumartímann. Þá tilkynnti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í vikunni að hann ætli að falla frá ráðstöfun 600 milljóna króna af fjárheimildum ráðuneytis hans á þessu ári. Tvær ákvarðanir hafa því skilað næstum einum milljarði króna í hagræðingu. 

Í tillögum hópsins er líka lagður til stóraukinn samrekstur innan ráðuneyta. Þar segir orðrétt: „Lagt er til að mannauðsstjórnun, skjalamál, upplýsingamál, almennur rekstur og önnur stoðhlutverk sem nú eru dreifð á hvert ráðuneyti færist til Umbru sem nú þegar fer með ýmis samrekstrarverkefni innan Stjórnarráðsins. Þá er lagt til að fasteignaumsýsla ráðuneyta færist til FSRE og rekstur bifreiða og mannahald bílstjóra færist til Ríkislögreglustjóra.”

Allskyns misgáfulegir sjóðir hafa auk þess verið settir upp innan ráðuneyta í gegnum tíðina. Umsýslukostnaður þeirra var 840 milljónir króna árið 2022. Hagræðingarhópurinn reiknar sér til að ef hægt yrði að lækka þann kostnað um 40 prósent myndi það þýða hagræðingu upp á 340 milljónir króna á ári. 

Loksins lokað á skúffuféð

Þá var birt sú góða tillaga að leggja niður hið svokallaða skúffufé ráðherra, sem á að spara 150 milljónir króna á fimm ára tímabili. Þar er um að ræða peninga almennings sem ráðherrar hafa getað ráðstafað í gæluverkefni og vinveitta aðila eftir hentugleika árum saman. Í umfjöllun hagfræðingahópsins stendur að þetta séu „úrelt vinnubrögð sem þekkjast ekki hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við.”

Sá ósiður hefur tíðkast áratugum saman að ráðherrar geta ráðstafað svokölluðu skúffufé í það sem þeim dettur í hug. Mynd: Freebiee

Þá er hægt að spara 100 milljónir króna á sama tímabili með því að hætta að prenta þingskjöl. Tillaga þess efnis kom frá dómsmálaráðuneytinu og því er hægt að hætta þessum óþarfa, og úrelta, kostnaði strax. 

Forsætisráðherra hefur þegar sagt að hún ætli að verða við tillögu hópsins um að handhafar forsetavalds, sem eru meðal annars hún sjálf, fái sérstaka þóknun fyrir að hafa með það í fjarveru forseta. Sú aðgerð, ásamt því að afnema heimild opinberra starfsmanna til að halda starfi sínu nái þeir kjöri til Alþingis, mun spara ríkissjóði 55 milljónir króna á næstu árum. 

Þetta eru kannski ekki risafjárhæðir sem sparast, en allt skiptir máli og það er uppörvandi að sjá ráðamenn sýna fordæmi með því að horfa inn á við og finnast það sjálfsagt að gefa eftir réttindi, sporslur eða ferla sem eiga sér ekki tilverurétt í nútímanum, og áttu hann kannski aldrei. 

Hugmyndir eins flokks um breytta styrki

Hópurinn leggur til að styrkir til stjórnmálaflokka verði endurskoðaðir, að ákvæði um lágmarkskjörfylgi verði hækkuð og heildarfjárframlög lækkuð en bendir sérstaklega á að styrkir til stjórnmálasamtaka hafi lækkað um 50 prósent að raunvirði frá árinu 2019. Þarna hefur því þegar orðið samdráttur. 

Þessari tillögu verður að taka með nokkrum fyrirvara þótt eðlilegt sé að rýna fyrirkomulagið reglulega. Um er að ræða mikið baráttumál Sjálfstæðisflokksins, fólk innan hans skilaði tillögum um það til hópsins og það ber að skoðast í því ljósi. Sá flokkur var einn þeirra sem hafði forgöngu um innleiðingu núverandi styrkjakerfis þegar honum vantaði pening, en hefur síðan ráðist í umtalsvert fasteignabrask sem felur í sér að breyta bílastæðum í þétta byggð. Það hefur gert það að verkum að Sjálfstæðisflokkurinn á um þrisvar sinnum meiri pening en allir hinir stjórnmálaflokkarnir, sem hann vill nú veikja fjárhagslega með tillögum sínum, til samans. Hægt er að lesa um þetta hér að neðan: 

Engin stofnun með færri en 50

Hagræðingarhópurinn áætlar að það sé hægt að sameina stofnanir og spara með því 13 til 19 milljarða króna á tímabilinu. Stofnanir ríkisins eru sem stendur 154 talsins og 44 prósent þeirra, alls 68, eru með færri en 50 stöðugildi. Hópurinn segir réttilega að óhagræði og skortur á slagkrafti fylgi svo litlum stofnunum og leggur til að starfshópur verði stofnaður sem hafi þann tilgang að undirbúa sameiningar út kjörtímabilið. Markmiðið sé að engin stofnun verði starfandi í landinu þar sem stöðugildi séu færri en 50. 

Hópurinn leggur fullt af tillögum inn í þá vinnu. Hann vill að sýslumannsembættin í landinu verði sameinuð í eitt, líkt og liggur reyndar fyrir að ríkisstjórnin ætlar að gera. Kalla ætti nýju stofnunina Þjónustumiðstöð ríkisins og renna mætti bæði Þjóðskrá Íslands og Útlendingastofnun inn í hana. Aðrar stjórnsýslustofnanir gætu svo fært einstaklingsþjónustu til Þjónustumiðstöðvarinnar. 

Lagt er til að lögregluembættum verði fækkað þannig að lögreglan starfi sem eitt lið, að héraðsdómstólar verði sameinaðir í einn, að sameiginleg stjórnsýsla verði fyrir alla framhaldsskóla, gera háskóla í samstarfi að Háskólasamstæðum undir einni stjórnsýslu, sameina opinber söfn og haftengdar stofnanir og færa enn fleiri sjálfstæðar stofnanir inn í nýstofnaða Náttúruverndarstofnun. 

Mjög mikilvægt er að árétta að tilgangurinn er ekki sá að draga störf inn á höfuðborgarsvæðið með þessum aðgerðum. Hópurinn segir skýrt í glærum sínum að með því „að ráðast í fleiri en eina sameiningu er hægt með heildstæðum hætti að dreifa höfuðstöðvum og starfsstöðvum.”

Það þarf að efla eftirlit

Ein tillagan snýr að því að sameina Samkeppniseftirlitið, Fjarskiptastofu, Neytendastofu og Fjölmiðlanefnd í eina stofnun með það að augnamiði að styrkja markaðseftirlitið og neytendavernd en fækka forstjórum og fjármálastjórum. Hún er og verður umdeild og ef það á að ráðast í slíka framkvæmd þá þarf það að vera á þeim forsendum að verið sé að auka getu og heimildir, ekki draga tennurnar úr gríðarlega mikilvægum eftirlitsstofnunum. 

Það má nefnilega færa fyrir því rök að eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að hafa hemil á fákeppnismörkuðum á Íslandi og stuðla að því að bæta hag neytenda hafi kerfisbundið verið veiktar á síðustu árum að kröfu þeirra sem þær áttu að hafa eftirlit með. Það var gert með fjársvelti, lagabreytingum og pólitísku niðurtali. Þessi ríkisstjórn er aldrei að fara að halda áfram á þeirri vegferð.

Í tillögunum er líka bent á hagræði sem hlýst af því að sameina Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar á ný, enda eru stofnanirnar tvær mikið til að þjónusta sömu kúnna og nota sama tölvukerfi. 

Sú áhugaverða tillaga er sett fram að sameina Persónuvernd, Jafnréttisstofu, Umboðsmann barna, Landskjörstjórn og nýstofnaða Mannréttindastofnun. Augljósi kosturinn er mun minni yfirbygging án þess að dregið yrði úr getu eininga til að starfa í samræmi við tilgang sinn.

Fækka miðstöðvum, nefndum og ráðum

Sömu sögu er að segja um þær sex kynningarmiðstöðvar lista sem reknar eru í dag, sem eru í dag reknar hver í sínu lagi með tilheyrandi yfirbyggingu þrátt fyrir að hafa keimlíkt hlutverk sem er að styðja við viðkomandi listgreinar og auka sýnileika. Flestar eru með tíu eða færri stöðugildum og auk hins augljósa sparnaðar sem myndi fást í yfirbyggingu mætti ná fram miklum faglegum ávinningi með sameiningu þeirra. Þá væri hægt að renna allskyns sjóðum sem settir hafa verið upp víða í stjórnkerfinu inn í nýja Listamiðstöð Íslands. 

Fækka á nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Ekki er vanþörf á. Samkvæmt besta fáanlega mati eru úrskurðar- og kærunefndir 39 talsins, ráðgefandi nefndir 170, afgreiðslunefndir 87 og eftirlitsnefndir 16.

Aukin skilvirkni og mannúð við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem í felst að stytta málsmeðferðartíma, á að geta sparað 2,5 milljarða króna á því tímabili sem tillögurnar ná til. 

Afnema fáránleika

Svo er þarna að finna skýr réttlætismál. Þeim fáránleika er flaggað að hæstaréttardómarar sem hafa náð 65 ára aldri geta fengið full laun út ævina. Ástæðan er umdeild túlkun á stjórnarskrá og vinnulag sem felur í sér að ef dómari biður ráðherra um að segja sér upp þá fær hann þessi fáránlegu kjör umfram aðra þegna. Fyrir vikið eru nú yfir 20 hæstaréttardómarar á fullum launum, þrátt fyrir að starfandi dómarar við réttinn séu, líkt og áður sagði, einungis sjö. Merkileg fréttaskýring var skrifuð um þessi mál í fyrrahaust. Hana er hægt að lesa hér:

Það blasir við flestu skynsömu fólki að þessi útfærsla er ekki réttlætanleg með nokkrum hætti. Og skömm að því að dómarar hafi ekki séð sóma sinn í að sleppa því að nýta sér þessa glufu. Þeir þurfa þess nefnilega ekki, þeir kjósa að gera það. 

Skipta tugir milljarða engu máli?

Stóra niðurstaða hagræðingahópsins er sú að uppsafnaður sparnaður vegna þeirra tillagna sem búið er að áætla fyrir er upp á marga tugi milljarða króna á árunum 2026 til 2030. Heildarsparnaður hins opinbera getur orðið miklu meiri, enda stórar tillögur sem liggja fyrir en er ekki búið að áætla hagræðingu af. Stjórnarandstaðan hefur látið sem að þetta sé eitthvað smælki. Að ekki sé ráðist í „stóru kerfin“. Þar er undirliggjandi vilji til þess að draga úr eða einkavæða þjónustu, ekki að skera burtu óþarfa fitu og hagræða.

Tillögurnar eru margar skynsamlegar og auðskiljanlegar. Þær sýna hversu mikið er hægt að auka í skilvirkni kerfis sem hefur fengið að vaxa og fitna á forsendum annarra en þeirra sem það á að þjóna. Það þurfti pólitíska forystu og þor ríkisstjórnar sem leidd er af jafnaðarmönnum til að ýta því þjóðþrifaverkefni í framkvæmd að senda kerfið í löngu tímabæra aðlögun og megrun án þess að það bitni á getu þess til að sinna þjóðhagslega mikilvægum verkefnum. 

Í þessum tillögum, og boðaðri eftirfylgni þeirra, birtist skýrt hvernig hægt er að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum og nýta krónurnar sem venjuleg íslensk heimili og fyrirtæki greiða í ríkissjóð betur.

Reply

or to participate.