• Kjarnyrt
  • Posts
  • Sjálfstæðisflokkur á þrisvar sinnum meiri pening en allir hinir til samans

Sjálfstæðisflokkur á þrisvar sinnum meiri pening en allir hinir til samans

Fjármál Sjálfstæðisflokksins eru ekki ósvipuð því sem Valur býr við í íþróttaheiminum. Fasteignaþróun í kringum höfuðstöðvar flokksins hefur tryggt honum fjárhagslega yfirburði í íslenskri pólitík. Síðan að það varð veruleikinn hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist fyrir því að opinber framlög til annarra flokka verði skert umtalsvert. Framlög sem hafa skilað honum mestum ávinningi allra og flokkurinn samþykkti sjálfur að koma á þegar hann vantaði pening.

Fram­lög til stjórn­­­mála­­flokka úr rík­­is­­sjóði voru hækkuð veru­­lega eftir kosningarnar 2017, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar var mynduð. Þá hafði verið kosið tvisvar á tveimur árum og fjárhagsstaða flestra stjórnmálaflokka bágborin fyrir vikið, enda kosningar helsti útgjaldaliður þeirra. 

Á  milli jóla og nýárs það ár var tillaga sex flokka sem sæti áttu sæti á Alþingi um að hækka fram­lag rík­­­­­­­is­ins til stjórn­­­­­­­­­­­­­mála­­­­­­­flokka sem náðu yfir 2,5 prósent atkvæða í kosningunum á undan á árinu 2018 um 127 pró­­­­­­­sent sam­­­­­­­þykkt í fjár­­­­­­­lögum. Fram­lög til stjórn­­­­­­­­­­­­­mála­­­­­­­flokka á því ári áttu að vera 286 millj­­­­­­­ónir króna en urðu 648 millj­­­­­­­ónir króna. Ein­ungis full­trúar Flokks fólks­ins og Pírata skrif­uðu ekki undir til­lög­una. 

Hún var sett fram sem sam­eig­in­legt erindi sem bar yfir­­­­­­­­­­­skrift­ina „Nauð­­­­­­syn­­­­­­leg hækkun opin­berra fram­laga til stjórn­­­­­­­­­­­mála­­­­­­sam­taka“. Í því var farið fram á að fram­lög til stjórn­­­­­­­­­­­mála­­­­­­flokka yrðu „leiðrétt“. Í grein­­­­­­ar­­­­­­gerð sem fylgdi erind­inu sagði að sú upp­­­­­­hæð sem stjórn­­­­­­­­­­­mála­­­­­­flokkum væri ætluð á fjár­­­­­­lögum hefði lækkað um helm­ing á raun­virði frá árinu 2008. 

Fram­lögin hækk­­uðu síðan jafnt og þétt og voru 728,2 millj­­ónir króna um tíma. Í ár voru þau 692,2 milljónir króna.  

Úr mínus í plús

Þessi breyt­ing kúventi fjár­hags­stöðu stjórn­mála­flokk­anna. Fimm þeirra voru til að mynda með nei­kvætt eigið fé í lok árs 2017, þegar ákvörð­unin um að marg­falda fram­lagið úr opin­berum sjóðum var tek­in. Það þýðir að eignir þeirra hrukku ekki fyrir skuld­um. Í lok síðasta árs voru allir flokkarnir níu sem fengu framlög úr ríkissjóði með jákvætt eigið fé. 

Það sést á nýbirtum ársreikningum þeirra á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. Allir flokkarnir hafa skilað inn slíkum en reikningur Samfylkingarinnar, sem barst síðastur, er enn í skoðun hjá stofnuninni. Því verður miðað við stöðu þess flokks í árslok 2022 í þessari samantekt. 

Framlög til stjórnmálaflokka hafa lækkað lítillega í krónum talið á undanförnum árum. Í ár skiptust 692,2 milljónir króna á milli flokkanna níu. Mynd: Stjórnarráðið

Staða flokkanna er afar mismunandi og flestir þeirra eiga það sameiginlegt að framlögin úr ríkissjóði eru uppistaðan í tekjunum. Þannig koma 98,2 prósent allra tekna flokks fólksins þaðan, 92,3 prósent tekna Pírata, og um 85 prósent tekna bæði Viðreisnar og Vinstri grænna. Miðflokkurinn kemur þar skammt undan með tæplega 83 prósent allra tekna sinna úr ríkissjóði og Sósíalistaflokkurinn með 81,4 prósent. Ofan á þetta koma svo greiðslur frá sveitarfélögum til þeirra flokka sem eru með kjörna fulltrúa á því stjórnsýslustigi.

Þrír skera sig úr

Þrír elstu flokkarnir: Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Samfylkingin skera sig úr hvað þetta varðar. Þeir hafa allir aðrar leiðir til að afla fjár en bara þá að fá fjármuni úr ríkissjóði. Þar skiptir auðvitað máli að allir flokkarnir eru ágætlega sterkir á sveitarstjórnarstiginu sem tryggir greiðslur þaðan. Samanlagt eru Sjálfstæðisflokkurinn (113), Framsókn, (63) og Samfylkingin (26) með 208 af 470 fulltrúa á landsvísu á því stjórnsýslustigi og eru þá ekki taldir með þeir sem kjörnir voru á listum þar sem flokkarnir tóku þátt í sameiginlegum framboðum. 

Þessir þrír flokkar hafa líka átt það sameiginlegt að eiga nokkuð dýrar fasteignir. Þannig voru fasteignir í eigu Samfylkingarinnar metnar á 246 milljónir króna í lok árs 2022 og flokkurinn aflaði um tíu milljóna króna í leigutekjur á því ári. 

Verðmætasta eign Framsóknarflokksins hefur verið Hverf­is­gata 33, gömlu höf­uð­stöðvar ­flokks­ins, sem hafa á síðustu árum verið vistuð inni í dótt­ur­fé­lag­inu Skúla­garði ehf. Fast­eigna­mat húss­ins var 107 millj­ónir króna í lok árs 2020 þótt bók­fært virði væri ein­ungis 42,3 millj­ónir króna, en á eign­inni hvíldu lán upp á 125 millj­ónir króna sam­kvæmt árs­reikn­ingi Skúla­garðs. Árið 2017 var fast­eignin sett að veði fyrir 50 milljón króna láni frá Kviku banka á fjórða veð­rétti. Á fyrsta veð­rétti var Lands­bank­inn, vegna láns þar sem upp­haf­legur höf­uð­stóll var 20 millj­ónir króna, og á öðrum og þriðja var Afl Spari­sjóð­ur, vegna lána sem upp­haf­lega voru upp á sam­tals um 60,4 millj­ónir króna.

Í lok árs 2019 veitti Spari­sjóður Aust­ur­lands flokknum lán upp á 15 millj­ónir króna á fjórða veð­rétti og var þá búið að gera upp lánið við Lands­bank­ann. Það lán var greitt upp nokkrum dögum síðar ásamt lán­inu frá Kviku banka þegar Fram­sókn tók 70 millj­óna króna lán hjá Arion banka á þriðja veð­rétti, á eftir skuld­inni við Afl Spari­sjóð, seint í des­em­ber 2019.

Í sumar keypti svo félag Avrahams Feldmans, rabbína gyðinga á Íslandi, Framsóknarhúsið á 325 milljónir króna. Þar af fékk dótturfélag Framsóknarflokksins, Skúlagarður, 167 milljónir króna í sinn hlut sem var langt umfram bókfært verð og vel yfir veðskuldum flokksins.

Fasteignaþróunarfélagið Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í sérflokki þegar kemur að fjármálum stjórnmálaflokka. Hann er sá flokkur sem hefur verið að fá hæstu fjárhæðirnar úr opinberum sjóðum, þótt það breytist á komandi ári í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur stærsti flokkurinn á þingi. Hann er líka flokkur sem fær mest fé frá einstaklingum í formi framlaga og félagsgjalda. Og hann er sá flokkur sem atvinnulífið styður umfram aðra, en það gaf honum meira fé, tæplega 49 milljónir króna, á árinu 2022 en það hefur gert síðan á árinu 2007. Framlögin þaðan drógust saman milli ára en voru samt 33 milljónir króna í fyrra. Sá geiri sem gefur flokknum langmest er sjávarútvegur.  

Þetta eru þó ekki meginástæður þess að Sjálfstæðisflokkurinn stendur betur en nokkurt annað stjórnmálaafl í landinu. Þær liggja í fasteignaþróun. Það má í raun segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé eins og Valur er í íslenska íþróttaheiminum, sem er lang ríkasta íþróttafélag á Íslandi vegna þess að það gat selt og þróað verðmætt byggingarland sem félagið eignaðist á sínum tíma undir íþróttastarfsemi sína. Sú staða gerir Val kleift að bjóða upp á aðstöðu, aðstæður og launagreiðslur sem önnur íþróttafélög geta illa eða ekki keppt við. Niðurstaðan er sú að Valur er í fremstu röð á öllum vígstöðvum helstu hópíþrótta á Íslandi hjá báðum kynjum og hefur hirt hvern titilinn á fætur öðrum árum saman. Fyrir vikið er Valur oft kallað „Fasteignafélagið“ í kaldhæðni af gagnrýnendum, með vísun í að félagið hafi forskot á önnur félög sem þurfi fyrst og síðast að fjármagna atvinnumannahluta starfs síns með því að þróa leikmenn og ná árangri, ekki fasteignabraski.

Þrisvar sinnum meira eigið fé en allir hinir

Eignir Sjálfstæðisflokksins voru metnar á 1.751 milljónir króna í lok síðasta árs. Þar skiptir mestu að á árinu 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag Háaleitisbrautar 1, lóðinni sem Valhöll, höfuðstöðvar flokksins, standa á. Samkvæmt því var heimilt að bæta tveimur nýjum byggingarreitum við lóðina. Á þeim er meðal annars gert ráð fyrir að byggja 47 íbúða fjölbýlishús, skrifstofuhúsnæði og bílakjallara. Hluti byggingarréttar Valhallarreitsins, sem snýr að horni Skipholts og Bolholts, var seldur á árinu 2021. Ári síðar var byggingarreiturinn næst Kringlumýrarbraut seldur. Samtals skilaði sala þessara reita stærsta stjórnmálaflokki landsins 564 milljónum króna í tekjur á tveimur árum. Ofan á þetta er fasteignamat fasteigna og lóða í eigu flokksins rúmlega milljarður króna.

Fyrir vikið var eigið fé Sjálfstæðisflokksins 1.397 milljónir króna í lok árs 2023. Til samanburðar þá var eigið fé allra annarra stjórnmálaflokka sem fengu styrki úr ríkissjóði, alls átta talsins, samkvæmt síðustu birtu ársreikningum þeirra 448 milljónir króna. Eigið fé Sjálfstæðisflokksins var því rúmlega þrisvar sinnum meira en hinna átta flokkanna sem keppa við hann um hylli kjósenda til samans. 

Þetta fasteignaþróunarbrölt, sem felur í sér fækkun bílastæða og þéttingu byggðar, er nokkuð spaugilegt þegar það er mátað við stefnu hluta borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sem er með allt á hornum sér yfir slíkri þróun. 

Vilja nú draga úr opinberu styrkjunum

Á allra síðustu árum hefur borið á töluverðri gagnrýni hjá kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á það fyrirkomulag að veita stjórnmálaflokkum ríflega styrki úr ríkissjóði. Fyrirkomulagi sem flokkurinn þó tók þátt í að koma á í árslok 2017 og sem hefur skilað honum fleiri krónum í kassann en nokkrum öðrum. 

Sumarið 2022 fór Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og þá fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, í tvö við­töl. Í öðru þeirra, við Dag­­mál á mbl.is, sagði Bjarni að hann teldi það fjöl­­flokka­­kerfi sem sé á Íslandi, þar sem átta flokkar voru á þingi og einn til við­­bótar hafi ekki verið langt frá því að ná inn, væri að stóru leyti sjálf­­sköpuð staða. Flokk­­arnir hafi ákveðið að stór­auka fram­lög úr rík­­is­­sjóði og setja þannig reglur að þeir flokkar sem fá ákveðið hlut­­falla atkvæða, 2,5 pró­­sent, fái líka mikið fjár­­­magn, jafn­­vel þótt þeir nái ekki inn á þing. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem fór fram haustið 2022, samþykkti ályktun um að afnema opinbera styrki til flokka með öllu. Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Á Sprengisandi á Bylgj­unni skömmu síðar sagði Bjarni að hann vildi draga úr opin­berum styrkjum til stjórn­­­mála­­flokka og að það hafi vakið „at­hygli hve ríf­­legur stuðn­­ingur er við stjórn­­­mála­­flokka sem engan full­­trúa fá kjör­inn á Alþingi í kosn­­ing­­um.“ 

Þá um haustið fór fram síðasti landsfundur flokksins sem haldinn hefur verið. Þar var samþykkt ályktun um að afnema ætti opinbera styrki til stjórnmálaflokka og að samhliða ætti að hækka hámarks framlag annarra til þeirra.

Frumvörp lögð fram

Í kjölfarið hefur Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt flokksfélögunum sínum ítrekað lagt fram frumvarp sem hefur þann tilgang að lækka opinber framlög til stjórnmálaflokka og hækka þröskuldinn til að hljóta framlag úr 2,5 í fjögur prósent atkvæðamagns. 

Þingmennirnir hafa líka lagt til að hver flokkur sem fær að minnsta kosti einn mann kjör­inn á Alþingi, og á í dag rétt á 12 milljón króna grunn­rekstr­ar­fram­lagi, fái héðan í frá sjö millj­ónir króna og að styrkir til að mæta útlögðum kostn­aði vegna kosn­inga­bar­áttu verði aflagð­ir. Þeir hafa einnig viljað að hámarks­greiðslur ein­stak­linga og lög­að­ila til stjórn­mála­flokka verði hækk­aðar úr 550 þús­und krónum í 1,3 millj­ónir króna. 

Í greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu þegar það var lagt fram fyrir rúmu ári síðan sagði: „Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu, eins og vonast var til með setningu laganna og er miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.“

Rataði í kosningaáherslur

Þessi lína var svo hluti af orðræðu Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda nýafstaðinna kosninga. Formaður flokksins sagði á fundi Viðskiptaráðs 13. nóvember að hans „sýn er að við eig­um stór­lega að draga úr op­in­beru fram­lagi til stjórn­mála­flokka en þeir þurfa þá að fá heim­ild­ir til að bjarga sér sjálf­ir. Fjár­hæðamörk­in varðandi hvað fyr­ir­tæki eða ein­stak­ling­ar mega leggja til stjórn­mála­starfs eru allt of lág. Þau þarf að hækka.“

Í kosningunum fækkaði flokkunum sem eru á þingi um tvo. Þeir eru nú sex. Auk þeirra munu tveir aðrir flokkar, Píratar og Sósíalistaflokkurinn, áfram fá fjármuni úr ríkissjóði þar sem þeir náðu yfir 2,5 prósent þröskuldinn í fylgi. Hvorugur hefði fengið nokkuð ef það hlutfallslega atkvæða viðmið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til í frumvörpum síðustu ára hefði verið tekið upp. Í ljósi þess að 92 prósent tekna Pírata koma úr ríkissjóði og 81 prósent tekna Sósíalistaflokksins má ætla að þeir myndu lenda í verulegum vanda við að viðhalda einhverju starfi ef opinberu styrkirnir yrðu afnumdir. 

Vinstri græn náðu hins vegar ekki einu sinni 2,5 prósent markinu og munu ekki fá krónu þaðan á komandi ári. Í ljósi þess að um 85 prósent tekna flokksins komu úr ríkissjóði í fyrra þá má draga þá ályktun að tilveru þessa 25 ára gamla flokks sé verulega ógnað með því niðurstöðu kosninganna. 

Flokkur fákeppni getur ekki keypt allt

Tillögur Sjálfstæðisflokksins um að stórlega draga úr, eða afnema með öllu, opinbert framlag til stjórnmálaflokka, verður að skoða í því ljósi að flokkurinn, í gegnum fasteignaþróun, á rúmlega þrisvar sinnum meira eigið fé en allir aðrir stjórnmálaflokkar landsins til samans. Þær verður að skoða í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fær meiri framlög frá einstaklingum og úr atvinnulífinu, sérstaklega frá sjávarútvegi, en nokkur annar flokkur. 

Tillögurnar miða að því að veikja stöðu allra annarra flokka til að taka þátt í stjórnmálum en tryggja Sjálfstæðisflokknum algjöra fjárhagslega yfirburðastöðu. Það má velta því fyrir sér hversu lýðræðislegt það yrði. Reyndar má hrósa Sjálfstæðisflokknum fyrir það hversu heiðarlegur hann er með þau áform sín um að aðgengi að peningum eigi að ráða stefnumótun í samfélaginu og að fákeppni hugnist honum mun betur en samkeppni. Það er í fullum takti við ýmislegt annað sem er ráðandi í stefnu hans.  

Jafnvel þótt að farið yrði þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að leggja til þá þarf það ekki að þýða að honum myndi takast að vinna meiri hylli á meðal þjóðarinnar en áður. Frá því að hann hóf sitt fasteignabrask, og varð ríkari en allir hinir flokkarnir til samans nánast yfir nóttu, þá hefur fylgi hans bara haldið áfram að hríðfalla. Formaður flokksins er auk þess óvinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar og Sjálfstæðisflokkurinn fékk í fyrsta sinn undir 20 prósent atkvæða í kosningunum sem fóru fram í síðasta mánuði. Um helgina verður líka staðfest að flokkurinn verði ekki í ríkisstjórn í annað sinn frá árinu 1991.

Það sýnir að peningar geta ekki keypt allt. Til dæmis skynsemi kjósenda. 

Reply

or to participate.