- Kjarnyrt
- Posts
- Árið 1994 ... en nú á landsvísu
Árið 1994 ... en nú á landsvísu
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa stýrt Íslandi, annað hvort saman eða í sitthvoru lagi, meira og minna allan lýðveldistímann. Flokkarnir hafa búið til kerfi í kringum fyrirgreiðslupólitík og sérhagsmunagæslu. Kosningarnar um síðustu helgi skiluðu niðurstöðu þar sem kjósendur sögðust vilja nýtt upphaf. Þeir vilja hverfa frá valdakerfum helmingaskiptaflokkanna og fá stjórnsýslu sem er þjónustumiðuð með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Tækifærið sem nú er til staðar er svipað því sem var í Reykjavíkurborg fyrir 30 árum og varð til þess að Sjálfstæðisflokknum hefur, meira og minna, verið haldið frá stjórn hennar nær alla tíð síðan.
Það eru miklar breytingar í loftinu. Síðan Íslendingar fóru að ráða sér sjálfir hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur oftast nær stjórnað Íslandi, annað hvort saman eða í sitthvoru lagi. Nær ómögulegt hefur verið að mynda stjórn án annars þeirra. Sá fyrrnefndi hefur haldið um stjórnartaumana í meira en fjögur af hverjum fimm árum síðan að Ísland var sjálfstæð þjóð og, ef frá er talið kjörtímabilið 2009 til 2013, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt aðild að öllum ríkisstjórnum frá árinu 1991. Í 29 af 33 árum. Til að setja þá tölu í samhengi þá voru 174.237 íbúar landsins 33 ára eða yngri í byrjun yfirstandandi árs.
Framsóknarflokkurinn er sá sem oftast stýrir með Sjálfstæðisflokknum, eða hefur verið þungamiðjan í flestum þeirra örfáu stjórna sem myndaðar hafa verið án hans. Fyrir Jóhönnu- stjórnina sem mynduð var fyrir rúmum 15 árum, og var fyrsta tveggja flokka vinstri stjórn Íslandssögunnar sem hafði skýran meirihluta á þingi, þá var hægt að telja tímann sem einhver annar en annað hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsókn stýrði sjálfstæðu Íslandi í mánuðum. Það gerðist nánar tiltekið milli 23. desember 1958 og fram til 20. nóvember 1959 og svo aftur frá 15. október 1979 til 8. febrúar 1980. Í bæði skiptin sat Alþýðuflokkurinn einn í stjórn. Í síðara skiptið í starfsstjórn eftir að ríkisstjórn hafði sprungið.
Þeir sem bjuggu til kerfin
Það er því engum vafa undirorpið að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa búið til kerfin sem eru allsráðandi á Íslandi. Kerfi sem hafa skilað því að 69 prósent svarenda í nýlegri könnun Gallup sögðust telja að íslenskt samfélag væri á rangri leið þegar horft sé til hagsmuna almennings, og einungis 17 prósent þeirra töldu samfélagið vera á réttri leið. Raunar voru það bara kjósendur Sjálfstæðisflokks sem töldu með afgerandi hætti að samfélagið væri að þróast í rétta átt, enda má ætla að á meðal þeirra séu helstu styrkþegar kerfanna sem flokkurinn hefur komið á.
Þeir sem þurftu áminningu um hvernig sérhagsmunagæslupólitík helmingaskiptaflokkanna hefur virkað fengu hana rækilega fyrr á þessu ári þegar meirihluti atvinnuveganefndar laumaði inn breytingum á frumvarpi á búvörulögum sem gerðu risa í landbúnaði að fríríki. Eftir samþykkt laganna var bann við samráði þeirra á milli afnumið. Formaður nefndarinnar, þingmaður Framsóknar, átti fjárhagslega hagsmuni undir afgreiðslunni. Nýlega staðfesti að hún var stjórnarskrárbrot. Hægt er að lesa um málið hér:
Enn nýrra dæmi er ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks, um að heimila hvalveiðar til fimm ára. Bjarni situr sem umboðslaus ráðherra í starfsstjórn og er nýbúinn að fá sína verstu útreið í kosningum frá upphafi. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins mætti svo í sjónvarpssal í gær og varði ákvörðunina, sem er hápólítísk og sérstaklega ófyrirleitin, og reyndi að selja hana sem einfalt lagatæknilegt úrlausnarefni. Það versta við þetta mál er að framferði Bjarna kom eiginlega engum á óvart. Enda var sonur erindreka sem Bjarni hafði sett inn í matvælaráðuneytið búinn að opinbera á leynilegri upptöku að þetta stæði til, og að ástæðan væri þjónkun við einn ríkasta manns landsins. Innan Sjálfstæðisflokksins er svona spilling einfaldlega talin vera hluta af eðlilegri pólitískri menningu. Hægt er að lesa um það mál hér:
Áratugir af 4+1
Eftir bankahrunið hvarf traust milli almennings og helstu lykilstofnana samfélagsins, þar með talið Alþingis. Fram að því höfðu fjórir flokkar sögulega verið undirstaðan í íslenskum stjórnmálum. Þeir skiptu stundum um nafn en á hinu pólitíska litrófi röðuðu sér nokkuð skýrt frá vinstri til hægri í áratugi. Samanlagt voru þessir fjórir flokkar, sem í dag heita Vinstrihreyfingin grænt framboð, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn samanlagt oftast nær með um 90 prósent allra atkvæða. Kerfið sem var við lýði hérlendis frá lýðveldisstofnun og fram á eftirhrunsárin er oft kallað 4+1 kerfið. Það samanstóð af ofangreindum fjórflokki og oft einum tímabundnum til viðbótar, sem endurspeglaði með einhverjum hætti stemningu hvers tíma. Sú stemning birtist í til dæmis í Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna, Bandalagi jafnaðarmanna, Kvennalistanum, Borgaraflokknum, Þjóðvaka og Frjálslynda flokknum.
Frá og með kosningunum 2013 hefur orðið algjör breyting á þessu mynstri. Þá fengu hefðbundnu flokkarnir fjórir 74,9 prósent atkvæða og þremur árum síðar var sameiginlegt fylgi þeirra komið niður í 62 prósent. Þegar kosið var aftur árið síðar, 2017, þá hífði fjórflokkurinn sig upp í 65 prósent og í kórónuveirukosningunum óvenjulegu árið 2021 var það um 64 prósent.
Smáflokkakerfistilraunin
Önnur breyting sem varð árið 2013 er að þá voru sex flokkar kosnir á þing. Björt Framtíð og Píratar bættust við. Rúmum þremur árum síðar urðu þeir sjö þegar nýstofnuð Viðreisn bauð fram, fékk 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn.
Björt framtíð dó eftir að hafa sprengt fyrstu og einu ríkisstjórnina sem flokkurinn var aðili að nokkrum mánuðum eftir að hún var mynduð og mikið var rætt um það í aðdraganda kosninganna 2017 að það þyrfti að koma á pólitískum stöðugleika að nýju. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þá að „brestir í smáflokkakerfinu“ hefðu orsakað það að slitnað hefði upp úr síðustu ríkisstjórn og að hann vildi „sjá að nýju stjórnarsamstarf sem byggir á tveimur sterkum flokkum. Ég held að það kosti minnstar málamiðlanir milli flokka og ef slík stjórn verður í boði eftir kosningar þá verði það lang sterkasti kosturinn.“
Kjósendur hlustuðu ekki á Bjarna. Í staðinn fyrir möguleikann á sterkri tveggja flokka stjórn og fækkun flokka var mynduð undarleg ríkisstjórn þriggja íhaldsflokka sem voru ekki sammála um margt annað en að vilja stýra, og teygði sig þvert yfir hið pólitíska litróf frá vinstri til hægri.
Flokkunum á þingi fækkaði heldur ekki, heldur urðu átta með því að Flokkur fólksins og Miðflokkurinn komu til sögunnar.
Helmingur kaus fjórflokkinn
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á árunum 2017 til 2024 var kyrrstöðustjórn, og hennar helsta markmið var að berjast gegn öllu sem gæti flokkast sem kerfisbreytingar. Fljótt fjaraði undan vinsældum hennar, sem höfðu tekið kipp á meðan að veiran geisaði, þegar takast þurfti á við alvöru stjórnmál að nýju síðla árs 2021. Samkvæmt könnunum var stjórnin orðin sú óvinsælasta í Íslandssögunni þegar hún loks hrökklaðist frá í október síðastliðnum og boðað var til kosninga. Þá var Katrín farin frá til að leggja í mislukkað forsetaframboð og óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, Bjarni Benediktsson, orðinn forsætisráðherra þvert á vilja allra nema nánustu ættingja, þeirra sem tilheyra sérstökum áhangendaklúbbs hans og aðila í viðskiptalífinu sem hagnast á fyrirgreiðslu þeirra stjórnmála sem formaður Sjálfstæðisflokksins stendur fyrir.
Og kosningarnar fyrir tæpri viku voru sögulegar fyrir margra sakir. Í fyrsta lagi þá fékk fjórflokkurinn sína verstu sameiginlegu útreið frá upphafi, en einungis 50,25 prósent atkvæða féllu honum í skaut. Það orsakast af því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína verstu niðurstöðu nokkru sinni og fór í fyrsta sinn undir 20 prósent múrinn, Framsókn hefur heldur aldrei áður fengið hlutfallslega jafn fá atkvæði og Vinstri græn biðu þannig afhroð að flokkurinn komst ekki einu sinni yfir 2,5 prósent markið sem tryggir flokkum fjármagn úr ríkissjóði. Samanlagt fengu stjórnarflokkarnir þrír 29,5 prósent atkvæða. Þeim, og því sem þeir standa fyrir, var mjög bersýnilega og algjörlega hafnað.

Fráfarandi stjórnarflokkar töpuðu samtals 19 þingmönnum um síðustu helgi, ef Birgir Þórarinsson sem færði sig úr Miðflokki í Sjálfstæðisflokk eftir kosningarnar 2021, er talinn með. Mynd: Wikipedia
Samfylkingin var eini gömlu flokkanna sem aukin eftirspurn var eftir. Svo mikil raunar að flokkurinn, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, rúmlega tvöfaldaðist að stærð milli kosninga og náði því í annað sinn að vera stærsti flokkur landsins eftir kosningar.
Það er umbótastjórn í loftinu
Ýmis önnur tíðindi urðu. Píratar, sem hafa setið á þingi frá 2013, féllu út og Sósíalistaflokkurinn náði ekki inn í annarri tilraun sinni til að komast að. Fyrir vikið eru flokkarnir á þingi sex og hafa ekki verið færri síðan á kjörtímabilinu sem hófst vorið 2013 og lauk snemma haustið 2016 vegna Panamaskjalanna. Alls fóru 10,4 prósent atkvæða til fimm flokka sem náðu ekki manni inn á þing sem er samt minna en 2013 þegar 11,8 prósent atkvæða, sem dreifðust á níu flokka, féllu niður dauð.
En stærstu tíðindin eru að mjög gerlegt er að mynda ríkisstjórn umbóta- og framfaraflokka án aðkomu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins eru með ríflegan meirihluta á þingi, 36 þingmenn á móti 27 hjá flokkunum sem sitja munu í stjórnarandstöðu að óbreyttu. Það eru skýr tækifæri til kerfisbreytinga á grundvelli almannahagsmuna og á kostnað fyrirgreiðslu og sérhagsmuna.
Farið á límingunum
Vegna þessa eru allir gaslýsingarlamparnir á fullu. Þeir sem eru að missa tökin á völdunum sem þeir hafa haft yfir stjórnmálunum hafa áhyggjur af því að þegar annað fólk sem ætlar ekki að útdeila tækifærum, upplýsingum og peningum annarra eftir flokksskírteinum heldur eftir faglegum ferlum og með samfélagsheill að leiðarljósi muni þrengja að þeim. Þessi hópur er einfaldlega að fara á límingunum. Það sést á fjölmiðlunum þeirra, samfélagsmiðlafærslunum, opinberu yfirlýsingunum.
Í pípunum er ríkisstjórn leidd af þremur konum sem ætlar að leggja áherslu á vinna fyrir allt fólkið í landinu, ná alvöru efnahagslegum stöðugleika, ráðast í stórátak í húsnæðismálum, uppfæra velferðarkerfin, taka geðheilbrigðismál föstum tökum og tryggja að heilbrigðisþjónusta sé skipulögð og fjármögnuð þannig að hún standist væntingar þeirra sem þurfa að nýta sér hana og þeirra sem í henni starfa. Við stjórnarmyndunina þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þurfa að vigta inn sérhagsmunaþarfir skjólstæðinga helmingaskiptaflokka líkt og í næstum öllum kosningum í lýðveldissögunni.

R-listinn, eða Reykjavíkurlistinn, var stofnaður fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 1994 og vann stórsigur. Að honum stóðu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Framsóknarflokkur og Kvennalistinn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjóraefni. Mynd: Skjáskot
Um margt minnir staðan á það sem gerðist í Reykjavíkurborg fyrir 30 árum síðan, eftir borgarstjórnarkosningarnar 1994, þegar félagshyggjuöfl ýttu Sjálfstæðisflokknum frá. Þá breyttist stjórnsýsla borgarinnar úr valda- og gæðaúthlutunarfyrirbæri í þjónustustofnun fyrir íbúa hennar. Það sama getur gerst á landsvísu.
Ef það tekst þá er ekkert því til fyrirstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn og þau kerfi sem hann stendur fyrir verði bútuð í sundur og erindi hans við stjórn landsins verði ekkert næstu 30 árin hið minnsta. Nema flokkurinn skipti auðvitað alfarið um persónuleika, tilgang og verklag.
Reply