- Kjarnyrt
- Posts
- Skapandi túlkun á tölum til að barna fullyrðingu um sprengingu
Skapandi túlkun á tölum til að barna fullyrðingu um sprengingu
Valdir fjölmiðlar hafa nýverið fjallað um atvinnumál erlendra ríkisborgara á Íslandi og það sem þau kalla „sprengingu“ í kostnaði vegna útlendingamála. Umfjöllunin er grundvölluð á saman- og úttektum Samtaka skattgreiðenda. Þegar rýnt er í opinberar tölur og samhengi þá er annað erfitt en að klóra sér ansi fast í hausnum yfir þeim ályktunum og fullyrðingum sem bornar eru á torg á grundvelli þeirra.
Um miðjan þennan mánuð birtu félagasamtökin Samtök skattgreiðenda það sem þau kalla „úttekt á lýðfræði þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur“ sem er sögð byggja á tölum frá Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun. Um er að ræða stutta tilkynningu á vef þeirra með einni mynd sem á að sýna hlutfall atvinnuleysis eftir ríkisfangi.
Yfirskriftin er að erlendir ríkisborgarar séu fimm sinnum líklegri en íslenskir til að vera á slíkum bótum og sagt að þeir sem komi til landsins frá Palestínu séu líklegastir til að vera atvinnulausir.
Enn fremur er því haldið fram að „atvinnuleysi íslenskra ríkisborgara kosti um 20,7 milljarða á ári og atvinnuleysi erlendra ríkisborgara um 25,5 milljarða króna.“
Tólf dögum eftir að þessi úttekt var birt var skrifuð frétt um hana í Morgunblaðinu. Þar var meðal annars lagt út frá tölum Samtaka skattgreiðenda um að fólk „frá Palestínu og Grikklandi er líklegast til að þiggja atvinnuleysisbætur […] Af þeim sem búa hérlendis eru 18 prósent af fólki frá Palestínu atvinnulaus“.
Í blaðinu er rætt við formann stjórnar Samtaka skattgreiðenda sem segir að það sem hafi komið honum á óvart sé „hversu frjálslynd við erum með að gefa fólki rétt á atvinnuleysisbótum og hversu lengi þær standa. Það er uppskrift að misnotkun, ef svo má segja, þó að við séum ekki að halda því fram að þetta sé allt þannig, fjarri lagi.“
Þar vísar hann í að réttur til atvinnuleysisbóta á Íslandi gildir í 30 mánuði en í flestum nágrannalöndum okkar er hann styttri.
Atvinnuleysi á Íslandi er lítið
Úttektin olli mér nokkrum heilabrotum og því ákvað ég að kanna málið aðeins. Það er enda þannig að með einbeittum vilja er hægt að nýta tölur frá opinberum aðilum til að fá út þær niðurstöður sem viðkomandi telur henta málflutningi sínum. Og ef það gengur ekki, þá er líka bara hægt að skálda í eyðurnar. Áður en við vöðum í fullyrðingar samtakanna þá er ágætt að fara yfir nokkrar staðreyndir sem tengjast þessum málum.
Til að byrja með þá er það rétt að erlendir ríkisborgarar eru fleiri á atvinnuleysisskrá en íslenskir. Það á kannski ekki að koma mikið á óvart. Hlutfall innflytjenda á Íslandi fór úr því að vera átta prósent af íbúafjölda árið 2015 í að vera 18 prósent hans í fyrra. Uppistaðan í þessum hópi er fólk sem flytur til Íslands á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem tryggir frjálsa för fólks innan aðildarríkja þess. Í gegnum þetta fyrirkomulag geta Íslendingar líka búið hvar sem er innan EES. Alls eru yfir 50 þúsund Íslendingar með lögheimili utan heimalandsins, langflestir í Evrópu.

Frétt Morgunblaðsins um úttekt Samtaka skattgreiðenda sem birtist í vikunni. Mynd: Skjáskot Morgunblaðið
Flestir þeirra sem hingað koma gera það til að vinna í störfum sem skapast hafa í íslenska hagkerfinu á síðustu árum og hafa drifið áfram þann mikla hagvöxt sem verið hefur. Þar hefur skipt mestu máli ferðaþjónusta sem nú er orðin stærsta gjaldeyrisskapandi efnahagsstoðin okkar. Sá gríðarlegi vöxtur, sem byggir á fjölgun lágframleiðnistarfa, hefur líka leitt til aukinnar eftirspurnar eftir starfsfólki í alls kyns öðrum geirum. Fólksfjölgunin hefur raunar verið svo mikil að hún er sú mesta á meðal allra ríkja OECD síðastliðinn áratug.
Í úttekt á inngildingu innflytjenda að íslensku samfélagi í samanburði við önnur OECD-ríki, sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld og birt í fyrra, kemur fram að atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er mjög mikil. Samkvæmt henni voru 83 prósent innflytjenda á vinnualdri í starfi árið 2023, sem var hæsta atvinnuhlutfall innflytjenda innan OECD. Atvinnuþátttaka var líka gríðarlega mikil í öllum alþjóðlegum samanburði, eða alls 89 prósent og sú hæsta innan OECD. Það er raunar meira en þátttaka innfæddra Íslendinga á vinnumarkaði. Það liggur þó fyrir, og hefur komið fram í ýmsum skýrslum, að útlendingar eru fyrstir til að missa vinnuna þegar atvinnuleysi eykst.
En aðalatriðið er auðvitað að atvinnuleysi á Íslandi er afar lítið. Það mældist 3,4 prósent í júní. Til samanburðar er atvinnuleysi innan Evrópusambandsins (ESB) 5,9 prósent og í Bandaríkjunum 4,1 prósent. Raunar eru einungis tvö lönd í ESB með minna atvinnuleysi en við: Pólland með 3,3 prósent og Tékkland með 2,8 prósent.
Sleppa því sem hentar
Nú skulum við skoða úttekt Samtaka skattgreiðenda á atvinnuleysi og máta við raunveruleikann.
Þar er, líkt og áður sagði, lagt upp með að 55 prósent allra atvinnulausra séu útlendingar. Og það er rétt en má alveg fylgja sögunni að fjöldi þeirra fer lækkandi. En það má líka setja þessar tölur fram með ýmsum öðrum hætti. Til að mynda má benda á að 5.171 af þeim 7.695 sem voru án vinnu í lok júní voru annaðhvort íslenskir eða pólskir ríkisborgarar, eða tveir af hverjum þremur. Eða að 40 prósent allra útlendinga sem eru án atvinnu tilheyri langfjölmennasta erlenda hópnum hér á landi, Pólverjum, sem hafa komið hingað áratugum saman á grundvelli fjórfrelsis EES-samningsins og verið lykilbreyta í að manna hagvaxtarskeiðin okkar.
Af þeim tólf þjóðernum fyrir utan íslenska ríkisborgara sem voru með flesta atvinnulausa á Íslandi voru raunar tíu frá EES-löndum. Að Íslendingunum meðtöldum voru þeir næstum 85 prósent allra atvinnulausra.
Svo vantar auðvitað inn þann fjölda sem er ekki að vinna en er í starfsendurhæfingu hjá VIRK og á endurhæfingarlífeyri. Í lok síðasta árs taldi hann 3.838 manns og í þeim hópi voru um ellefu prósent erlendir ríkisborgarar. Þegar sá hópur er talin með er ansi hæpið fyrir Samtök skattgreiðenda að ætla að halda sig við þá fullyrðingu að erlendir ríkisborgarar séu fimm sinnum líklegri til að vera á bótum vegna atvinnuleysis.
Reiknað sig niður á palestínskar áherslur
Í úttekt Samtaka skattgreiðenda á atvinnuleysi útlendinga er fókusinn hins vegar annars staðar. Í millifyrirsögn segir einfaldlega: „Íbúar frá Palestínu líklegastir til að vera atvinnulausir.“

Mælaborð Vinnumálastofnunar yfir atvinnuleysi í lok júní. Þar sést til að mynda að 62 einstaklingar frá Palestínu eru atvinnulausir. Mynd: Vinnumálastofnun
Einn gagnasérfræðinga samtakanna segir í frétt Morgunblaðsins um úttektina að hún grundvallist á tölum frá Hagstofunni og Vinnumálastofnun. Frá Hagstofu voru notuð gögn um fjölda íbúa á landinu á aldrinum 20 til 69 ára frá janúar 2024, eða fyrir meira en einu og hálfu ári síðan. Frá Vinnumálastofnun mælaborð um atvinnuleysi sem er uppfært mánaðarlega, síðast í lok júní 2025, eða fyrir mánuði síðan.
Það bjuggu 492 Palestínumenn á Íslandi í ársbyrjun 2024. Alls 330 þeirra voru á aldrinum 20-69 ára á þeim tíma. Í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn í janúar 2024 er ekkert að finna um hversu margir Palestínumenn voru án atvinnu á Íslandi á þeim tíma og því var ekki verið að styðjast við þá skýrslu. Í mælaborði stofnunarinnar segir hins vegar að þeir hafi verið 62 í lok júní 2025. Svo virðist sem gagnasérfræðingar Samtaka skattgreiðenda hafi einfaldlega deilt þeirri tölu við fjölda Palestínumanna sem bjuggu hérlendis í byrjun árs í fyrra, til að fá út að 18 prósent einstaklinga þaðan á vinnualdri væri án atvinnu.
Á það þarf vart að benda að það er hörmulegt stríð og hungursneyð í Palestínu. Þar ríkir algjört neyðarástand og fólk sem þaðan kemur er eðlilega verulega markað af þessum aðstæðum. Íslensk stjórnvöld hafa, á grundvelli fjölskyldusameininga, verið að liðka verulega fyrir því að Palestínubúar sem flýja stríðsástandið á Gaza komist hingað til lands, nú síðast seint í júnímánuði. Samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun sóttu 95 Palestínubúar um vernd á Íslandi í fyrra og alls 61 fengu hana á því ári. Í ár hafa 84 sótt um og 31 þegar fengið hana.
Þótt Vinnumálastofnun brjóti ekki þennan hóp niður eftir aldri má ganga út frá því að hluti hans sé á vinnualdri og ætti því að teljast viðbót við þann hóp Palestínubúa sem bjó hér í byrjun árs 2024. Hlutfall þeirra Palestínubúa sem eru atvinnulausir yrði þá miklu lægra en úttekt Samtaka skattgreiðenda gaf til kynna.
Þess má geta að Palestínubúar eru 0,8 prósent allra atvinnulausra á Íslandi.
32 milljarðar verða 46 milljarðar
Í úttekt Samtaka skattgreiðenda á kostnaðinum við greiðslu atvinnuleysisbóta var fullyrt að „atvinnuleysi íslenskra ríkisborgara kosti um 20,7 milljarða á ári og atvinnuleysi erlendra ríkisborgara um 25,5 milljarða króna.“ Þessar tölur byggja á áætlun gagnasérfræðinga samtakanna. Samtals eru þeir að áætla að kostnaður vegna atvinnuleysis sé 46,2 milljarðar króna.
Það passar ekki við raunveruleikann. Gagnasérfræðingarnir hefðu til að mynda getað skoðað ríkisreikning fyrir árið 2024 og séð að kostnaður við Atvinnuleysissjóð, sem greiðir út atvinnuleysisbætur, var um 32 milljarðar króna í fyrra, sem var nokkuð undir áætlun fjárlaga. Svo hefðu þeir getað skoðað gildandi fjárlög, sem lögð voru fram af ríkisstjórn sem leidd var af Sjálfstæðisflokknum í fyrrahaust, og séð að þar er reiknað með að 35,6 milljarðar króna verði greiddir út í atvinnuleysisbætur í ár.
Að þessu loknu hefðu gagnasérfræðingarnir getað kíkt á fjármálaáætlun sitjandi ríkisstjórnar þar sem fram kemur að áætlaður kostnaður vegna greiðslu atvinnuleysisbóta verði á bilinu 33 til 34 milljarðar króna á ári á árunum 2027 til 2030.
Þar segir reyndar líka að fyrirhugað sé að Þ„stytta tímabilið sem hægt er að vera samfleytt á framfærslu atvinnuleysistrygginga til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum og má gera ráð fyrir að áhrifanna byrji að gæta frá árinu 2027.“
Fjallað var um þessi áform í fréttum í byrjun apríl þannig að þau eru ekkert leyndarmál, þar sem fram kom að þau gætu sparað um fjóra milljarða króna á ári.
Að búa til útlendingamál
Þetta var þó ekki eina gagnasöfnunarævintýrið sem Samtök skattgreiðenda lögðu upp í á síðustu vikum. Þann 23. júlí birtu þau niðurstöðu samantektar þar sem þau segja, samkvæmt forsíðufrétt Morgunblaðsins á þriðjudag um hana, að útgjöld vegna „umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi farið úr 220 milljónum árið 2012, þegar útgjöld vegna hælisleitenda voru fyrst sérgreind í ríkisbókhaldi, í 20,5 milljarða á síðasta ári.“
Svo var sagt að íslenska ríkið legði til 13,5 milljarða króna í alþjóðlega þróunarsamvinnu á árinu 2024 „og námu því heildarútgjöldin vegna útlendingamála 34 milljörðum.“
Þarna er blandað saman kostnaði við alþjóðlega þróunarsamvinnu, erlenda efnahagsaðstoð og kostnaði við móttöku flóttafólks til að fá út þessa risastóru tölu til að geta sagt að „sprenging“ hafi orðið í útgjöldum til „útlendingamála“ á síðustu 20 árum.
Þetta er meðal annars fundið út með því að „áætla hlutföll út frá heildarútgjöldum viðkomandi stofnana“ og klykkt út með að sennilega sé þessi tala vanáætluð þar sem „Vilhjálmur Árnason þingmaður (D) og Ragnar Árnason, Prófessor emeritus hafa nýlega nefnt að heildarkostnaður geti verið um eða yfir kr. 100 milljarðar á ári vegna hælisleitenda.“

Vilhjálmur Árnason, hér lengst til vinstri, hefur verið hluti af forystuteymi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Mynd: XD.is
Sprengt upp á verðlagi hvers árs
Nú skulum við kíkja á þessa súpu.
Til að ýkja þessa „sprengingu“ er stuðst við verðlag hvers árs þegar útgjöldin eru skoðuð. Þannig er litið framhjá því að 890 milljóna króna framlög til þróunarmála árið 2004 eru rúmlega 2,6 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Þar er líka litið fram hjá því að landsframleiðsla Íslands hefur margfaldast á þessum tveimur áratugum og var í kringum 4.600 milljarðar króna á síðasta ári.

Samtök skattgreiðenda hafa verið að greiða fyrir þessa auglýsingu á X þar sem íslenskir ríkisborgarar eru sýndir glaðværir til vinstri en útlendingar niðurlútir til hægri. Þess má geta að megin hluti erlendra ríkisborgara hérlendis er evrópskur.
Í öðru lagi er litið framhjá því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu hafa verið lág í samanburði við önnur iðnríki heimsins síðustu áratugi þrátt fyrir að vera eitt ríkasta land í heimi. Þessi framlög reiknast sem hlutfall af áætluðum þjóðartekjum, voru um 0,35 prósent af þeim í fyrra og höfðu þá farið hækkandi árin á undan. Sem hlutfall af landsframleiðslu þá hafa þau ekki haggast mikið síðustu áratugi. Markmið Sameinuðu þjóðanna er að ríki eyði 0,7 prósent af landsframleiðslu í slíkan stuðning.
Samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028, sem var samþykkt af Alþingi hinn 15. desember 2023, var gert ráð fyrir að framlög Íslands til þróunarsamvinnu færu hækkandi á næstu árum og verði 0,46 prósent árið 2028. Yfirmarkmið þróunarsamvinnu Íslands eru: „Útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði“. Hægt er að lesa um verkefnin sem Ísland stendur að hér.
Pólitískar ákvarðanir
Hinn málaflokkurinn sem reiknast til útlendingamála í úttektinni er kostnaður vegna móttöku flóttafólks, sem gagnasérfræðingarnir eru búnir að reikna sig niður á að sé 20,5 milljarðar króna á ári. Hann var sama sem enginn fyrir 20 árum, enda samanstóð flóttamannamóttaka Íslands á tímabilinu 1956 til þangað til fyrir tæpum áratug af uppistöðu af því að taka við um tólf kvótaflóttamönnum að meðaltali á ári. Hingað kom nánast enginn á eigin vegum.
Það breyttist skarpt á síðasta áratug. Þeir sem sóttu um vernd hér fóru fyrst yfir 350 árið 2015 og skriðu rétt yfir eitt þúsund á ári næstu tvö árin á eftir, fækkaði niður í 800 árið 2018, voru 867 árið 2019, 654 árið 2020 og 874 árið 2021.

Frétt Morgunblaðsins um meintan kostnað vegna útlendingamála, sem birt var í liðinni viku. Mynd: Skjáskot Morgunblaðið
Gríðarleg aukning var hins vegar í umsóknum þeirra á árunum 2022, þegar 4.495 sóttu um vernd hérlendis, og 2023, þegar 4.159 gerðu það. Til að setja þær tölur í samhengi þá sóttu 2.286 fleiri um vernd á þessum tveimur árum en höfðu gert það samanlagt tólf árin á undan. Það er svakaleg breyting fyrir þjóð sem telur ekki 400 þúsund manns.
Þessi mikla aukning árin 2022 og 2023 var vegna pólitískra ákvarðana þáverandi ráðuneyta, stýrt af ráðherrum Sjálfstæðisflokks, um að hleypa tveimur hópum fram fyrir röðina. Alls komu 79 prósent þeirra sem sóttu um vernd á Íslandi árið 2022 frá annaðhvort Venesúela eða Úkraínu. Árið 2023 var hlutfallið 77 prósent.
Ákveðið var að hætta að veita fólki frá Venesúela viðbótarvernd í byrjun árs 2023. Stór hluti kostnaðar sem féll til vegna útlendingamála á því ári og í fyrra, og verður farið betur yfir rétt bráðum, fór í að koma umsækjendum þaðan sem komu með réttmætar væntingar um að boð íslenskra stjórnvalda væri alvöru, úr landi.
Varðandi Úkraínufólkið þá var ákveðin grein í lögum um útlendinga virkjuð hérlendis vorið 2022, eftir að stríð braust út, sem veitir Úkraínufólki nánast skilyrðislausa vernd hérlendis. Um er að ræða úrræði sem flest nágrannaríki okkar í Evrópu virkjuðu líka. Þannig verður málum sennilega háttað meðan stríð ríkir í álfunni.
Kostnaður helmingur þess sem haldið er fram
Þessar tvær ástæður, og gríðarlegur kostnaður við að koma þegar komnum Venesúelabúum úr landi, var stærsta ástæða þess að kostnaður við útlendingamál, eins og þau eru skilgreind á fjárlögum, fór úr 6,9 milljörðum króna árið 2022 í 14,5 milljarða króna árið 2023 og 14,7 milljarða króna í fyrra. Um var að ræða rúmlega tvöföldun.
Þessi kostnaður mun hins vegar dragast verulega saman í ár. Samkvæmt fjárlögum er hann áætlaður 9,5 milljarðar króna, sem er um 35 prósenta lækkun milli ára.

Fjöldi þeirra sem sótt hafa um vernd hérlendis hefur dregist verulega saman á síðustu árum. Mynd: Lögreglan
Í fyrra rúmlega helmingaðist fjöldi þeirra sem sóttu um vernd á Íslandi og það sem af er þessu ári hafa 760 flóttamenn sóst eftir slíkri hérlendis. Miðað við þá þróun má ætla að heildarfjöldinn í ár verði um 1.300, sem er vel undir þriðjungi þess fjölda sem sótti um þegar mest var. Þessi þróun hefur meðal annars leitt til þess að Vinnumálastofnun sagði nýverið upp samningi við þrjú stór sveitarfélög um þjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd. Forstjóri stofnunarinnar sagði við Vísi að því tilefni að miklu, miklu færri væru að sækja um, fækkunin væri gríðarleg og „þá er eðlilegt að staldra við og finna út hvernig er best að haga málum og hugsa málin upp á nýtt, sérstaklega með tilliti til fjárútláta og þjónustu.“
Því er sannarlega ekki loku fyrir það skotið að samdrátturinn í kostnaði verði enn meiri en gildandi fjárlög gera ráð fyrir. Ekkert er minnst á þetta í úttekt Samtaka skattgreiðenda.
Það er þetta með staðreyndirnar
Þá skulum við draga þetta saman. Þegar ofangreint er rýnt þá liggur fyrir að kostnaður vegna atvinnuleysis á Íslandi er ekki 46,2 milljarðar króna heldur var hann 32 milljarðar króna í fyrra og er áætlaður tæplega 36 milljarðar króna í ár. Til að reikna sig niður á að Palestínubúar séu líklegastir allra útlendinga til að vera atvinnulausir þá þarf að beita ansi skapandi útreikningum og valkvæðri gagnasöfnun. Algjörlega er litið fram hjá því að Ísland hefur í rúm 30 ár verið hluti af EES og að meginþorri þeirra útlendinga sem starfa hérlendis, og eftir atvikum missa vinnuna tímabundið, kemur þaðan á grundvelli fjórfrelsisins.
Þá er valið að líta fram hjá því að það geti verið rökréttar skýringar á því að erlendir ríkisborgarar eru líklegri til að vera án atvinnu en íslenskir. Forstjóri Vinnumálastofnunar fór til að mynda yfir það í viðtali fyrir skemmstu. Þar sagði hún að þetta væri yfirleitt hópurinn sem fyrst er látinn fara og síðastur tekinn inn aftur. Stærsta skýringin sé sennilega að fólk sem kemur hingað erlendis frá vinni mikið í árstíðarbundnum atvinnugreinum á borð við ferðaþjónustu og jafnvel byggingariðnað. Svo má geta þess að til að vinna sér inn fullar atvinnuleysisbætur þarf fólk að vera búið að vinna á Íslandi í tólf mánuði og að meðaltali er það fjóra til sex mánuði á atvinnuleysisskrá. Erlendir ríkisborgarar eru ekki að dvelja þar lengur en Íslendingar.
Ekki beint vandað til verka
Til að fá út „sprengingu“ í kostnaði vegna útlendingamála ákveða Samtök skattgreiðenda að blanda saman þróunarsamvinnu og kostnaði vegna alþjóðlegrar verndar. Það er verulega hæpin aðferðafræði. Til að sýna ýkta mynd af aukningu á framlögum til þróunarmála er stuðst við verðlag hvers árs, ekki tekið tillit til þess gríðarlega vaxtar sem orðið hefur á landsframleiðslu Íslands á síðustu tveimur áratugum og aldrei reynt að máta þessi framlög við hlutfall af þeirri landsframleiðslu. Hefði það verið gert hefði birst sú skýra mynd, sem reyndar oft hefur verið fjallað um á síðustu árum, að Ísland hefur verið töluvert langt frá því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar í málaflokknum þótt nokkur bragabót verði gerð á í nánustu framtíð.
Þá liggur fyrir að kostnaður vegna þess flóttafólks sem sækist eftir vernd á Íslandi er ekki 20,5 milljarðar króna á ári líkt og Samtök skattgreiðenda halda fram. Hann var 14,7 milljarðar króna í fyrra og er áætlaður 9,5 milljarðar króna í ár. Ef horft er til þess að fjöldinn sem nú sækir um vernd á Íslandi er nú tæplega þriðjungur þess sem hann var á hvoru árinu 2022 og 2023, og að stofnanir ríkisins eru farnar að rifta stórum þjónustusamningum vegna þess að flóttafólki hefur fækkað svo mikið, þá er eðlilegt að ætla að þessi kostnaður getið lækkað enn frekar.
Þegar allt þetta er tekið saman þá verður seint sagt að úttekt og samantekt gagnasérfræðinga samtakanna, sem valdir fjölmiðlar tóku upp gagnrýnislaust, sé vandað verk.
Svo vægt sé til orða tekið.
Reply