- Kjarnyrt
- Posts
- Takk SFS fyrir að hneppa niður að nafla, þyrla í hvítvíni og reyna að gaslýsa þjóð
Takk SFS fyrir að hneppa niður að nafla, þyrla í hvítvíni og reyna að gaslýsa þjóð
Það ber að fagna rándýrri auglýsingaherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í henni opinberast hversu aftengd fáveldisstéttin í sjávarútvegi er orðin raunveruleikanum og samfélaginu sem bjó hana til. Það staðfestist líka að stórútgerðin er enn að styðjast við sömu handbókina um leikjafræði sem nýttist henni svo vel í að hræða þjóðina til hlýðni árið 2012. Nú er munurinn hins vegar sá að þjóðin er ekki lengur hrædd og landinu er stýrt af fólki sem þorir. Þjóðin vill leiðrétta veiðigjöld, skilur hvernig það er gert og veit að það er nægt svigrúm til að borga meira.
Það hefur vart farið framhjá nokkrum landsmanni með internettengingu og sæmilega heyrn að til stendur að gera breytingar sem snerta á fyrirkomulagi sjávarútvegs á Íslandi.
Vegna þessa hefur skrattinn verið málaður á vegginn. Sett upp leiksýningum harmleik sem gefur til kynna að ef þessi frumvörp nái fram að ganga muni grundvallaratvinnuvegur lepja dauðann úr skel, sveitarfélög leggjast af og nýsköpun stöðvast.
Þetta birtist meðal annars í auglýsingum sem hagsmunagæsluarmur stórútgerða, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), hefur birt undanfarnar vikur. Tilgangur þeirra allra er að vekja upp einhverskonar samúð með atvinnuveginum vegna þess að til stendur að leiðrétta þau veiðigjöld sem hann greiðir fyrir aðgang að þjóðarauðlind sem hann fær að nýta. Þennan tón hefur stjórnarandstaðan á Alþingi svo að mestu gert að sínum. Þar ætla þrír flokkar að stilla sér upp með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum. Með hinum fáu gegn öllum hinum.
Auglýsingarnar, sem hafa sennilega nú þegar kostað hagsmunagæsluarminn að minnsta kosti á annað hundrað milljóna króna í framleiðslu og birtingu, eru að uppistöðu með þrenns konar þemum, sem öll eiga það sameiginlegt að einblína á eitthvað allt annað en þau örfáu fjölskyldufyrirtæki sem munu greiða þorra viðbótarinnar sem leiðrétting veiðigjalda mun skila í ríkissjóð.
Förum yfir þetta á tölulegum grunni. Innheimt veiðigjald árið 2023 var 9,4 milljarðar króna. Ef búið hefði verið að leiðrétta gjaldið á því ári hefði það verið 16,1 milljarður króna. Munurinn hefði því verið 6,7 milljarðar króna. Tíu stærstu útgerðarfyrirtæki landsins, sem eru flest að uppistöðu í eigu fjölskyldna sem er metnar á tugi eða hundruð milljarða króna, hefðu greitt um 80 prósent af þessari aukningu og næstum 70 prósent allra greiddra veiðigjalda. Frumvarpið gerir ráð fyrir að 30 stærstu sjávarútvegsfyrirtækin greiði 90 prósent af veiðigjöldum að loknum breytingum.
Þarna liggja stóru hagsmunirnir. Fyrir þennan hóp eru SFS og þingmenn stjórnarandstöðuflokka að berjast.
Gervigrasrótarherferðin árið 2012
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem stærstu útgerðarmenn landsins, stjórnarflokkar með mikil tengsl við þá og fylgitungl þeirra leggja í svona gervigrasrótarherferð, þar sem markmiðið er að gefa í skyn að fjölþættir hagsmunir séu undir, að byggðarlög séu í hættu vegna óbilgirni stjórnvalda og að fjöldahreyfing standi að baki boðskapnum. Það gerðu þeir líka árið 2012 vegna fyrirliggjandi frumvarpa sem áttu að breyta lögum um stjórn fiskveiða, meðal annars um að stærstu útgerðir landsins myndu greiða meira í samneysluna.

Umfjöllun DV í maí 2012. Mynd: Skjáskot
Þá var flotanum siglt í land og sett í loftið vefur með myndböndum af allskyns fólki úr feltinu sem var stillt upp til að verja hagsmuni útgerðarinnar, sem borgaði brúsann.
Skilaboðin voru að lagabreytingar myndu ríða mörgum útgerðum að fullu og leggja byggðir samhliða í eyði. Nýsköpun myndi nær leggjast af. „Kynntu þér hvað fólkið í landinu hefur að segja um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða,“ sagði í kynningu á síðunni. Myndböndin sem voru búin til er hægt að sjá hér að neðan:
Talsmaður hópsins sem stóð að herferðinni var Jens Garðar Helgason, núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og lénið var í eigu Útvegsmannafélags Austurlands, sem stýrt var af Gunnþóri Ingvasyni, þá og nú forstjóra Síldarvinnslunnar.
Engin skilur útgerðina
Í viðtali við Fréttablaðið á þessum tíma sagði Adolf Guðmundsson, þáverandi formaður LÍU (SFS áður en það fór í gegnum ímynda- og andlitslyftingu) að nauðsynlegt hefði verið að fara í þessa herferð vegna þess að allt sem stjórnvöld væru að gera væri á misskilningi byggt. Þáverandi útfærsla á gríðarlegu skattspori greinarinnar var tíunduð, talað um samráðsleysi og ítrekað að áhrifin á önnur fyrirtæki í kringum sjávarútveg og byggðarlög yrðu katastrófa ef frumvörpin yrðu að lögum. „Auglýsingar eru einfaldlega nauðsynlegar. Við höfum ekki aðgang að fjölmiðlum eins og ríkisstjórnin sem á auðveldara með að koma sínum sjónarmiðum að.“

Fréttablaðið 25. maí 2012. Mynd: Skjáskot
Semsagt allt á svipuðum nótum og nú, 13 árum síðar.
Sami Adolf sagði að út frá sjálfum sér þarna árið 2012, sem væri að reka sjávarútvegsfyrirtæki á Seyðisfirði, þá hefði hann „verið í samfélagslegum rekstri heima og við höfum ekki verið að fylla vasa hluthafa.“
Um tveimur árum síðar höfðu Adolf og aðrir hluthafar, sem voru alls 14 talsins, selt sína útgerð, Gullberg á Seyðisfirði, til Síldarvinnslunnar. Kaupverðið var trúnaðarmál en miðað við þann kvóta sem útgerðin hélt á, og algengt verð á þorskígildistonnum á þeim tíma sem salan fór fram, þá er ljóst að það hljóp á milljörðum króna. Tilkynnt var um það samhliða að staðinn yrði vörður um starfsemina á staðnum þótt félagið yrði selt.
Árið 2023 tilkynnti Síldarvinnslan, sem þegar hafði flutt kvótann annað, að vinnslu á Seyðisfirði yrði hætt, þótt þeirri ákvörðun hafi verið frestað nokkrum sinnum og vinnslan sé enn starfandi í dag. Samhliða hefur innreið laxeldis í Seyðisfjörð verið kynnt sem eina mögulega lausnin til þess að halda byggðinni við. Sá sem leiddi þá innreið fyrir fyrirtækið Kaldvík var aðstoðarforstjóri þess, Jens Garðar Helgason.
Afvegaleiðing í auglýsingaformi
En aftur að nýju auglýsingum SFS sem eru allt umlykjandi nú um stundir.
Eitt þemað í herferðinni fjallar um einhverskonar jákvæð samfélagsleg áhrif, sem verði, samkvæmt tóninum, í hættu ef veiðigjöld hækka. Hún sýnir þekktan íslenskan leikara og áhrifavald tala upp samfélagsleg áhrif íslensks sjávarútvegs, áhrif hans á nýsköpun og í skilti í enda hennar segir að atvinnuvegurinn hafi greitt 89 milljarða króna til samfélagsins árið 2023.
Þar er vísað í svokallað skattspor sem inniheldur alla launaskattar starfsmanna, lífeyrisgreiðslur þeirra, það sem allir birgjar greiða, skattar greiddir af vátryggjendum, það sem fer til lánveitenda í formi vaxta, eigenda í formi arðs og svo loks það sem fyrirtækin sjálf greiða beint í skatta vegna starfsemi sinnar. Þar er allskonar undir: tekjuskattur, útsvar, tryggingagjald sem lagt er ofan á launagreiðslur, kolefnisgjöld, veiðigjöld, hafnargjöld, fasteignaskattar.
Þessi framsetning á samfélagslegum ávinningi af starfsemi atvinnuvegar er, vægast sagt, mjög umdeild. Ég hef áður bent á að það vanti bara að telja til virðisaukaskattinn sem fer í ríkisstjórn af matarinnkaupum starfsmanna vinnsla eða erfðafjárskattinn sem þarf að borga af eignum sem færast milli kynslóða þegar einhver deyr.
Árið 2023 var veiðigjaldið líka einungis um 11 prósent af þessu ætlaða skattspori. Ekkert liggur fyrir að flest af þessum tekjum myndi ekki finna sér farveg óháð óbreyttri starfsemi sjávarútvegs, og það er sannarlega ekkert sem bendir til þess að leiðrétting veiðigjalda dragi nokkuð úr hinu ætlaða skattspori.
Uppbygging samfélaga er samspil
Annað þemað sýnir unga íbúa á Eskifirði, Grundarfirði og Dalvík sem sýna fara yfir fleti samfélagsins. Leikskólann, ræktina, verkstæðin, matsölustaðurinn og svo framvegis. Í lokin er svo sagt: „Við lifum öll á sjávarútvegi“ og með því gefið í skyn að ekkert af þessu væri til staðar ef stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins væru látin greiða aðeins meira í veiðigjald vegna þess að þau fái ekki lengur að ákveða andlag gjaldtökurnar sjálf, líkt og síðasta ríkisstjórn ákvað að leyfa þeim að gera.
Við þetta er, að minnsta kosti, tvennt að athuga. Í fyrsta lagi er uppbygging samfélaga samspil einkareksturs og ríkisreksturs. Á slíku samspili hvílir góður efnahagslegur árangur Íslands. Bæjarfélög og atvinnugreinar innan þeirra þrífast ekki án menntunar, heilbrigðisþjónustu, samgangna og alls hins sem hið opinbera sér þeim fyrir. Það er því sérstaklega óskammfeilið að gefa í skyn að leiðrétting á gjaldtöku vegna aðgengis að þjóðareign muni með einhverjum hætti grafa undan tilveru þessara bæjarfélaga.
Hver er það sem leggur byggðir í rúst?
Og þá komum við að öðru atriðinu sem er athugunarvert í þessu þema. Þetta er beinlínis siðlaus framsetning í ljósi þess að kvótakerfið hefur, með þeirri samþjöppun sem henni hefur fylgt, lagt fjölmörg bæjarfélög sem byggðust upp í kringum sjávarútveg í rúst. Ég tel að minnsta kosti 28 slík, sem urðu fyrir því að kippt væri undan þeim tilverugrundvellinum þegar útgerðarmenn sem héldu á kvóta ákváðu að selja hann annað. Það var gert með því að kaupa upp útgerðir, oft með bankalánum með veði í öðrum kvóta, og færa starfsemi þeirra í heilu lagi annað.
Gefum Ívari Ingimarssyni á Stöðvarfirði orðið: „Ég bjó í sjávarþorpi þar sem stórútgerðin lokaði. Þar var frystihús, togari, vélaverkstæði, netaverkstæði, bræðsla, skreiðarvinnsla, kaupfélag, banki, pósthús. Þetta er allt farið og öllu lokað og enn þá í dag er hægt að kaupa stór einbýlishús í þorpinu á 25-30 miljónir [… ] Það er skrítið þegar sjávarútvegsfyrirtæki á Neskaupsstað Fjarðabyggð skilar 11000 miljón króna hagnaði og á sama tíma er auglýst eftir starfsmanni brothættra byggða á Stöðvarfirði Fjarðabyggð. Það fer ekki saman hljóð og mynd.“
Fjölmargir víða um land, með tengsl við byggðir sem hafa orðið fyrir þessari hagræðingu, hafa dreift sambærilegum skilaboðum. Þau kallast „Hin Hliðin“ á áróðri SFS og eru eftirfarandi:
„Mig langar til að sýna þér þorpið okkar.
Þarna var bakaríið okkar
þarna var vélsmiðjan okkar
Þarna var trésmíðaverkstæðið okkar
Þarna voru verzlanirnar okkar
Þarna var fiskvinnslan okkar
Þarna var frystihúsið okkar
Þarna voru bátarnir okkar
en ekki núna
Grundvöllur lífsins var sjávarútvegur, veiðar og vinnsla
en ekki núna.
Maðurinn sem átti kvótann er farinn
Fjörðurinn er fullur af fiski
en við megum ekki veiða, við eigum ekki fiskinn.
Í firðinum OKKAR.“
Leikarinn Pálmi Gestsson, sem býr nú á heimaslóðum í Bolungarvík, náði sömuleiðis að fanga þennan anga með öflugum hætti í myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðlum:
Svo er það Sjálfstæðismaðurinn Elías Pétursson, sem hefur reynslu af því að vera bæjarstjóri í tveimur landsbyggðarsveitarfélögum og þekkir vel áhrif þess þegar verðmæti voru færð frá þorpum og þorpsbúum til handhafa fiskveiðiheimilda. Í ótrúlega áhrifamikilli færslu á samfélagsmiðlum, sem hægt er að lesa í heild sinni hér að neðan, segir meðal annars: „Hvað sem öðru líður bið ég um vinsamlegast um að mér verði hlíft við þessum makalausa áróðri SFS því hann er fullkominn vanvirða við þorpin, fullkominn vanvirða við heilbrigða skynsemi, fullkomin vanvirða við samfélagið sem við byggjum og fullkomin vanvirða við söguna - en segir afar mikið um þá sem bera áróðurinn fram og fjármagna.“
Að ráða Exit-leikara til að gaslýsa þjóð
Þriðja tegund auglýsingar sem SFS hlóð í snýst um að reyna að selja Íslendingum að með leiðréttingu veiðigjalda sé verið að fara einhverja „norska leið“, sem allir eigi að hræðast ægilega.
Uppleggið, í fokdýrri auglýsingu með norska leikaranum Jon Øigarden og öðrum til, er að gefa til kynna að nýsköpun í sjávarútvegi leggist af ef veiðigjöld útgerða verði leiðrétt.
Það sem gerir auglýsinguna sérstaklega ósmekklega er að Øigarden virðist eiga að vera í einhverri útgáfu af karakter Jeppe Schøitt, siðlaus og ofbeldishneigðs fjármála- og glæpamanns sem glímir við peninga-, kynlífs- og kókaínfíkn á veruleikafirringarstigi, sem hann lék í norsku þáttunum Exit. Hneppt niður á nafla, með hvítvín þyrlandi í glasi á óræðri verönd á dýrum veitingastað talar hann fjálglega um hvernig það sé hægt að græða meira á fiski og gefið er í skyn að besta leiðin til þess sé sú íslenska. Í framhaldsauglýsingu tala herramennirnir svo um að „gera eins og Íslendingarnir“ en til þess þurfi þeir að kaupa norska fiskinn til baka frá Póllandi. Tilgangurinn er að senda út þau skilaboð að ef veiðigjöld verði leiðrétt muni stórútgerðin loka vinnslum á Íslandi og senda allan fisk til Póllands til vinnslu. Samhliða muni hún hætta að fullnýta hráefnið. Sem útgerðin mun auðvitað ekkert gera. Þetta er bara hræðsluáróður.
Það má hrósa þeim sem gerðu auglýsinguna fyrir SFS fyrir að hafa óvart hitt naglann á höfuðið. Norskir öfunda auðvitað íslenska á því hvað þeir fá, óáreittir að mestu, að græða mikið á nýtingu þjóðarauðlindar. Leikstjóri hennar lýsir því raunar ágætleglega í viðtali sem hann fór í vegna framleiðslunnar.
Engin ógn við lítil og meðalstór fyrirtæki
Nú skulum við snúa okkur frá skáldaða harmleiknum sem birtist í auglýsingum SFS og skella okkur inn í raunveruleikann þar sem staðreyndir skipta máli, ekki bara áferð.
Í frumvarpinu sem búið er að samþykkja í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokka, og verður tekið til 1. umræðu á þingi eftir helgi, kemur fram að frítekjumark verður hækkað verulega frá fyrstu drögum til að draga úr áhrifum á litlar og meðalstórar útgerðir. Ítarlegar greiningar sýna sömuleiðis áhrif frumvarpsins á 100 stærstu fyrirtækið, áhrifamat á heildarskattlagningu sjávarútvegsfyrirtækja og ítarlega samantekt um verðmyndun í Noregi.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum dugi ekki sem stendur fyrir þeim kostnaði sem ríkið hefur af því að þjónusta atvinnuveginn. Til að ná markmiði fyrstu greinar laga um veiðigjöld, sem segja að gjaldið eigi að standa undir slíkum kostnaði og „tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar“ þá er augljóst öllum að leiðrétta þarf hvernig gjöldin eru ákvörðuð.
Skilar ríkinu tekjum en ógnar ekki sveitarfélögum
Veruleg hækkun á frítekjumarkinu mun gera það að verkum að nú er áætlað að innheimt veiðigjöld verði lægri en þegar frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt, eða 17,3 milljarðar króna á næsta ári, sem er rúmlega sex milljörðum krónum meira en það hefði orðið samkvæmt gildandi lögum. Á árunum 2027 til 2030 munu þau svo verða á bilinu 18 til 19 milljarðar króna miðað við gefnar forsendur, en það verður þó að taka fram að töluverð óvissa ríkir um reiknistofn gjaldsins. Í frumvarpinu er til að mynda gert ráð fyrir því að gefin verði út loðnukvóti á síðarnefnda þriggja ára tímabilinu, sem muni hækka veiðigjöld. Verði það ekki raunin, líkt og er í ár, þá munu gjöldin lækka.
Í greinargerð frumvarpsins sem mælt verður fyrir eftir helgi er slegið á þær áhyggjur sem viðraðar hafa verið um áhrif á einhver sveitarfélög. Þær áhyggjur virðast byggja á einhverskonar misskilningi. Frumvarpið er ekki með nokkrum hætti að leggja til breytingar á rekstri fiskvinnslna eða segja útgerðum sem eiga sínar vinnslur sjálfar á hvaða verði þær ákveða að selja sjálfum sér fisk. Það er hins vegar að færa í lög að veiðigjaldið sem útgerðirnar verða að greiða taki mið af markaðsvirði, ekki því verði sem útgerðir ákveða sjálfar.
Sveitarfélög með litlar og meðalstórar útgerðir hafa líka lýst yfir áhyggjum um að hækkun veiðigjalda verði þeim ofviða. Við því er brugðist með áðurnefndri hækkun á frítekjumarki, sem mildar áhrifin á þau verulega.
Engin áhrif á fjárfestingu né nýsköpun
Áróður um að frumvarp sem leiðréttir veiðigjöld hafi einhver drastísk áhrif á nýsköpun og fjárfestingarget hérlendis, og í tengslum við sjávarútveg, eru líka beint upp úr leikjabókinni sem beitt var 2012.
Í fyrsta lagi þá hefur verið myljandi hagnaður í sjávarútvegi á síðustu árum þrátt fyrir mikla fjárfestingu. Hagnaður útgerðarinnar var 67,5 milljarðar króna árið 2023 og telur mörg hundruð milljarða króna á síðustu 15 árum. Þetta er það sem eftir stendur þegar búið er að fjárfesta, borga allan kostnað og greiða niður skuldir. Geirinn greiðir sér út tugi milljarða króna af þeim hagnaði út árlega í arð en samt hleðst eigið fé hans upp. Það var komið upp í 449 milljarða króna í lok árs 2022, og hefur án nokkurs vafa vaxið umtalsvert síðan þá.
Í greinargerð frumvarpsins kemur skýrt fram að atvinnuvegaráðuneytið telji að leiðréttingin muni ekki hafa þau áhrif að draga úr fjárfestingargetu fyrirtækja í sjávarútvegi til framtíðar, hvort sem hún er í hefðbundnum öngum greinarinnar eða í nýsköpun.
Heimurinn mun ekki farast
Í enda dags þá ber að fagna auglýsingaherferð SFS. Hún, líkt og herferðin sem LÍÚ stóð fyrir árið 2012, sýna skýrara en nokkur orð, nokkur ræða og nokkurt frumvarp hversu aftengd fáveldisstéttin í sjávarútvegi er orðið raunheimum og samfélaginu sem bjó hana til. Leikjafræðin sýnir einbeittan ásetning til að láta venjulegt fólk efast um eigin upplifun á veruleikanum og ríkan vilja til að bera á torg innihaldslausan hræðsluáróður.
Blessunarlega er þrælsóttinn sem einu sinni einkenndi of marga ekki til staðar lengur. Kannanir sýna svart á hvítu að nær allir landsmenn vilja leiðrétta veiðigjöld, skilja hvernig á að gera það og telja að það sé nægt svigrúm hjá útgerðinni að borga meira.
Sveitafélög munu ekki leggjast af. Nýsköpun mun áfram þrífast á Íslandi. Sjávarútvegur mun geta fjárfest og hann verður áfram mun arðsamari en aðrir atvinnuvegir á Íslandi.
Það eina sem mun gerast er að nokkrar fjölskyldur og eitt kaupfélag munu safna aðeins minni auði, sem er sprottinn af heimild til að nýta eigur annarra og telur þegar mörg hundruð milljarða króna, og eigendur þjóðarauðlindarinnar fá nokkra milljarða króna í viðbót inn í samneyslunni til að byggja upp innviði sem nýtast öllum.
Það er allt og sumt. Og það er sanngjarnt og réttlátt.
Reply