- Kjarnyrt
- Posts
- Þurfa tekjuhæstu hópar samfélagsins að fá milljarða í skattaafslátt á hverju ári?
Þurfa tekjuhæstu hópar samfélagsins að fá milljarða í skattaafslátt á hverju ári?
Sokkarnir sem ríkisstjórnin er að tína upp af gólfinu eftir þá sem rusluðu til eru af ýmsum toga og í alls konar litum. Sumir þeirra eru skattastyrkir sem veittir hafa verið til tekjuhæstu hópa samfélagsins á undanförnum árum og eru að styðja við hópa sem þurfa ekki á stuðningi að halda. Aðrir stuðla beinlínis að aukinni misskiptingu á Íslandi. Ákvarðanir um að hætta slíkum millifærslum úr ríkissjóði eru ekki alltaf vinsælar hjá þeim sem missa þann sokk af fætinum. En þær eru réttar til að koma landinu á betri stað.
Liðin vika hófst á einni furðulegustu líkingu sem ég man eftir að hafa heyrt í þingsal. Formaður Sjálfstæðisflokksins ætlaði að slá á létta strengi og koma sér í fjölmiðla með því að gera lítið úr tiltektaráformum sitjandi ríkisstjórnar, og sagði hana ekki mikla tiltekt. „Þetta er svona eins og að taka einn sokk upp af gólfinu í herberginu hjá Hauki syni mínum,“ sagði Guðrún.
Ef líkingin er rétt skilin þá á Haukur að vera holdgervingur síðustu ríkisstjórnar og herbergið hans efnahagsmálin sem hún skildi eftir sig. Og til þess að hún gangi upp og skili þeim hughrifum sem Guðrún vildi þá þarf að vera nokkuð mikið af rusli á gólfinu í herberginu, sem endurspeglar mistökin sem gerð voru og afleiðingarnar af þeim. Því var formaður Sjálfstæðisflokksins í raun að gagnrýna síðustu ríkisstjórn, sem hún sat sjálf í og fyrirrennari hennar á formannsstóli hélt um veskið hjá árum saman, mun harðar en hún var að gagnrýna þá sem nú situr. En sjálfsmörk eru svo sem engin nýmæli þegar kemur að minnihlutanum á Alþingi síðustu misseri.
Allt að öðru þá blasir við flestu skynsömu fólki að verkefnið við að taka til í kerfunum sem byggð hafa verið upp hérlendis, og skilað því að ríkið hefur verið rekið með samanlögðum mörg hundruð milljarða króna halla árum saman með þeim afleiðingum að vaxtagjöld ríkissjóðs verða 125 milljarðar króna á næsta ári, er risavaxið. Og tiltektin mun taka tíma. Sokk fyrir sokk.
Hægt er að lesa um aðhaldssokkinn (107 milljarðar króna til ársins 2030), skuldalækkunarsokkinn (skuldir ríkissjóðs munu fara úr um 60 prósentum af landsframleiðslu í um 51 prósent í lok næsta árs) og tekjuaukningarsokkinn (meðal annars leiðrétting veiðigjalda og kerfisbreytingar til að geta sinnt viðhaldi vega) sem þegar er búið að tína upp af gólfinu eftir partí síðustu ríkisstjórnar hér að neðan.
Engir nýir skattastyrkir/sokkar
Eitt af því sem síðasta ríkisstjórn gerði var að fjölga undanþágum í skattkerfinu, oftast þannig að í þeim fólst lækkun á sköttum sem afmarkaðir hópar þurftu að greiða. Þessar aðgerðir, eða sokkar sem hent var á gólfið svo haldið sé í líkinguna, léku stóra rullu í að það tókst ekki að reka ríkissjóð réttu megin árum saman, enda ekki gerðar neinar ráðstafanir til að afla annarra tekna til að vega á móti þessum ófjármögnuðu skattalækkunum.
Hægt er að sjá tölulega þróun á þessu víða í fjárlagafrumvarpi næsta árs, til dæmis í fyrirbæri sem heitir skattastyrkir. Þar er átt við alls kyns leiðir sem hafa verið innleiddar í skattkerfið sem fela í sér að ríkið gefur afslátt á skattkröfu. Styrkjum er veitt í gegnum skattkerfið með sértækum hætti og á skjön við það almenna skattkerfi sem flestir þurfa að lúta. Þarna getur verið um undanþágu frá skattskyldu að ræða, frádrátt eða frádráttarheimild og svo auðvitað bara lægri skattprósentu.

Sokkar á gólfi. Myndin tengist efni greinarinnar ekki beint, enda búin til af gervigreind. En samt, hún gerir það eiginlega. Mynd: ChatGPT
Um er að ræða gríðarlegar upphæðir sem veittar eru í svona skattafslætti á ári hverju, og þær hafa vaxið mikið á skömmum tíma. Árið 2021, við upphaf síðasta kjörtímabils, námu skattastyrkirnir tæplega 104 milljörðum króna. Í ár eru þeir áætlaðir rúmlega 148 milljarðar króna. Því hafa þeir aukist um 44 milljarða króna á örfáum árum, eða um 42 prósent að nafnvirði.
Á næsta ári verður þessi þróun stöðvuð. Þá munu skattastyrkir í krónum talið dragast saman í fyrsta sinn í langan tíma og engir nýir skattastyrkir verða innleiddir. Fyrir vikið munu þessir styrkir fara niður í 2,8 prósent af landsframleiðslu og verða því undir þremur prósentum hennar. Það hefur ekki gerst síðan árið 2019.
Stærsti styrkurinn/sokkurinn til ferðaþjónustu
Smá samhengi fyrst. Langmestur kostnaður vegna veitts skattastyrks fer til ferðaþjónustunnar. Stór hluti hennar borgar 11 prósenta virðisaukaskatt í stað þeirra 24 prósenta sem flestir þurfa að greiða. Um fimmtungur allra skattastyrkja sem ríkissjóður veitir fer til ferðaþjónustunnar vegna þessa, eða um 30 milljarðar króna á næsta ári. Afslátturinn hefur farið hratt hækkandi undanfarin ár, en málefnasviðið ferðaþjónusta fékk 5,8 milljarða króna skattaafslátt árið 2020. Aðrar vörur sem sitja í þessu lægra virðisaukaskattsstigi eru til að mynda smokkar og bleyjur.
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur ítrekað gert athugasemdir við þessa stöðu og hvatt til þess að ferðaþjónustan verði færð upp í sama þrep og aðrar. Skattafslátturinn dragi úr tekjum ríkissjóðs og brengli efnahagsumhverfið.
Raunar stóð til að fara í þá aðgerð árið 2017, þegar Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar, var fjármála- og efnahagsráðherra íi ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins. Í grein sem hann skrifaði í maí það ár þar sem hann lagði fyrir þá ætlun sína að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu en lækka um leið almenna þrepið úr 24 í 22,5 prósent. Breytingarnar áttu að hægja á vexti ferðaþjónustu og draga úr þrýstingi til hækkunar krónu. Einnig átti rekstrargrundvöllur atvinnugreina að jafnast og skattkerfið verði skilvirkara. Ríkisstjórnin sem Benedikt sat í sprakk hins vegar um haustið og áformin, sem áttu að gilda frá ársbyrjun 2019, urðu að engu.
Það stendur þó ekki til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi að sinni. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í sumar að slíkt þyrfti að gera með góðum fyrirvara og vanda til verka. Engin slík vinna væri farin af stað. Það er ábyrg afstaða.
Þess í stað stendur til að koma á auðlindagjaldi fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Sú gjaldtaka er í samræmi við þá stefnu sem sett var fram í stjórnarsáttmála að innheimta réttlát auðlindagjöld af þeim sem nýta náttúruauðlindir landsins. Sú vegferð hófst í sumar þegar frumvarp um leiðrétt veiðigjöld var samþykkt.
Sokkar af vel settum körlum yfir miðjum aldri
Tiltektin sem nú á sér stað í skattastyrkjunum nær til ýmissa annarra sviða. Þannig verður til að mynda styrkur í formi undanþágu frá virðisaukaskatti fyrir bílaleigur sem endurselja notaða vistvæna bíla felldur á brott um komandi áramót. Um er að ræða hluta af ríkisstyrkjapakka og ívilnunum til rafbílakaupa sem veittur var einstaklingum og fyrirtækjum til að reyna að hraða orkuskiptum í samgöngum. Á einstaklingshliðinni hefur um helmingur allra greiðslna úr orkusjóði farið til þess fimmtungs þjóðarinnar sem er með hæstar tekjur.
Sú breyting sem mest læti hafa verið vegna er sú að afnema samnýtingu skattþrepa. Í einföldu máli er um að ræða skattalega ívilnun til sambúðarfólks þar sem annar aðilinn hefur tekjur í efsta skattþrepi en hinn ekki. Þá getur sá sem þénar meira nýtt sér skattþrep hins til að borga lægri skatta. Til að falla undir þessa skilgreiningu þarf tekjuhærri aðilinn að vera með að minnsta kosti 1.325 þúsund krónur í mánaðarlaun, eða tvöfalt hærri laun en miðgildi mánaðarlauna var á Íslandi í fyrra.

Á þessari skýringamynd sést hvaða hópar nutu ávinnings af samnýtingu skattþrepa í fyrra. Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Um er að ræða skattastyrk upp á 2,8 milljarða króna sem nýtist aðallega vel settum körlum yfir miðjum aldri. Samkvæmt greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fer upphæðin öll til þeirra sjö prósent landsmanna sem þéna mest, um 700 milljónir króna fer til efsta prósentsins og meðalaldur þeirra sem njóta ívilnunarinnar er 52 ár. Þá eiga þeir sem fá þennan styrk að jafnaði 28 milljónir króna í eign umfram aðra sem eru á sama stað í tekjudreifingu og sumir sem þiggja hann eiga mörg hundruð milljónir króna í hreinni eign. Einungis um fjögur prósent þjóðarinnar geta nýtt sér afsláttinn og 81 prósent upphæðarinnar fer til karla. Skýr rök eru fyrir því að þetta fyrirkomulag letji konur til að fara út á vinnumarkað, afla sér fjárhagslegs sjálfstæðis og greiða um leið fjármuni í lífeyrissjóði sem eru ekki aðfarahæfir, til dæmis við skilnað eða gjaldþrot.
OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hafa gagnrýnt þennan skattastyrk til efnameiri karla og sagt okkur að hætta þessu. Hin Norðurlöndin gera þetta alls ekki með sama hætti og við og fyrir liggur að þessir milljarðar sem ríkið gefur eftir í tekjur vegna þessa geta sannarlega nýst betur en í þessa illa rökstuddu skattastyrki til tekjuhæstu íbúa landsins.
Sokkur af fæti ríkasta hóps landsmanna
Þá er boðað í fjárlagafrumvarpi næsta árs að persónuafsláttur muni til framtíðar ekki nýtast á milli hjóna til frádráttar frá fjármagnstekjuskatti. Sérstakt frítekjumark er nú þegar vegna fjármagnstekna einstaklinga og meirihluti þeirra sem nýtir persónuafslátt til greiðslu fjármagnstekjuskatts fullnýtir líka frítekjumarkið og fær þannig tvöfaldan afslátt. Um er að ræða miklar fjárhæðir. Eftirgjöf fjármagnstekjuskatts vegna frítekjumarksins var 8,9 milljarðar króna í fyrra. Það að hætta að heimila þeim sem greiða þessa skatta að nýta persónuafsláttinn líka mun skila ríkissjóði um 1,2 milljörðum króna í nýjar tekjur á árinu 2026.
Til að vera með fjármagnstekjur þarf viðkomandi að eiga viðbótarfjármagn sem hann getur látið vinna fyrir sig. Það getur verið í ýmsu formi, til dæmis sparnaður á innlánsreikningi sem ber vexti eða að eiga hlutabréf sem leiða af sér arðgreiðslur og mögulegan söluhagnað. Árið 2023 fóru um 70 prósent allra fjármagnstekna til ríkustu tíu prósent landsmanna. Ekki er búið að birta tölur fyrir síðasta ár en ef sama hlutfall hefur haldist þá, sem er sennilegt miðað við þróun fyrri ára, þá væri þessi tíu prósenta hópur með um 241 milljarð króna í fjármagnstekjur.
Þeir sem þéna þannig upphæðir þurfa ekki skattastyrki.
Gömlu Leiðréttingarsokkarnir
Þá stendur til að láta almenna skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána falla niður um komandi áramót. Þetta er óþjált heiti yfir risastóra aðgerð sem varð miðpunktur húsnæðisstuðningakerfis þeirra ríkisstjórna sem sátu á Íslandi á árunum 2013 til 2024.
Um er að ræða úrræði sem var annar hluti Leiðréttingarinnar svokölluðu, sem fól líka í sér að yfir 110 milljarðar króna á núvirði voru millifærðir úr ríkissjóði sem skaðabætur inn á hluta þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009. Um 70 prósent þeirrar upphæðar fór til efnameiri helmings þjóðarinnar, tæplega 14 prósent fór til ríkustu tíu prósent landsmanna og á meðal þeirra sem fengu þennan styrk úr ríkissjóði fyrir rúmum áratug voru fjölskyldur sem greitt höfðu auðlegðarskatt, en til þess að gera það þurftu þær að eiga meira en tæplega 160 milljónir króna á núvirði í hreinni eign. Ég þekki sjálfur fólk sem fór í seinni skíðaferðina þann vetur sem Leiðréttingarpeningarnir voru greiddir út fyrir þá upphæð sem það fékk úr ríkissjóði.

Leiðréttingin var kynnt árið 2014 af þáverandi forsvarsmönnum ríkisstjórnar þess tíma. Vel á annað hundrað milljarða króna hafa farið úr ríkissjóði í styrki vegna leiða hennar. Obbi þeirrar upphæðar hefur farið til tekjuhæstu hópa samfélagsins.
Hin leiðin, séreignarsparnaðarleiðin, átti upphaflega að renna út um mitt ár 2017. Þar sem um gríðarlega eftirgjöf framtíðarskatta var um að ræða reyndist leiðin hins vegar ákaflega vinsæl bæði hjá þeim sem gátu nýtt hana, og fengu fullkomið skattleysi í meðgjöf, en ekki síður hjá tækifærissinnuðum stjórnmálamönnum sem voru að eyða skatttekjum barna og barnabarna sinna í það að reyna að veiða sér fleiri atkvæði. Þess vegna var hún framlengd aftur og aftur og aftur.
Loks átti að draga línu í sandinn í lok síðasta árs. Ríkisstjórnin sem sprakk í fyrrahaust hafði þá sjálf gengist skýrt við því að séreignarsparnaðarleiðin væri ekki að styðja við þá sem þurftu mest á stuðningi að halda á Íslandi. Þvert á móti. Sigurður Ingi Jóhannsson, þá ráðherra húsnæðismála, sagði í viðtali sem ég tók við hann vorið 2023 að ríkisstjórnir sem hann hafði setið í hefðu oft reynt að láta séreignarsparnaðarleiðina renna sitt skeið. Það væri bara „erfitt að hætta þessu.“
Vert er að taka fram að „Fyrsta fasteign“, sem virkar að uppistöðu eins og almenna úrræðið en er einvörðungu ætlað fyrstu kaupendum, mun áfram vera í boði fyrir þá sem uppfylla skilyrði til að nota þá leið. Enda ekki vanþörf á að styðja við ungt fólk sem er að reyna að koma þaki yfir höfuðið.
Sokkur sem hefur kostað 90 milljarða
Frá því að opnað var fyrir þessa leið húsnæðisstuðnings í nóvember 2014 og út maí síðastliðinn höfðu um 187,2 milljarðar króna, á verðlagi hvers árs fyrir sig, ratað inn á höfuðstól lána þeirra sem hafa getað nýtt sér hann. Ef sú upphæð yrði uppreiknuð á fast verðlag færi hún langt yfir 200 milljarða króna. Það sem ríkissjóður hefur gefið eftir af skatttekjum framtíðar vegna úrræðisins er nú yfir 90 milljarðar króna.
Samkvæmt greiningu stjórnvalda liggur fyrir að því hærri tekjur sem fólk hefur, því líklegra er það til að safna í séreign. Þannig söfnuðu alls 82 prósent þeirra sem tilheyrðu ríkustu tíu prósent landsmanna í séreign en einungis tvö prósent þeirra sem tilheyra tekjulægstu tíundinni. Það þarf því ekki að koma á óvart að 80 prósent þeirra rúmlega 90 milljarða króna sem ríkissjóður hefur gefið eftir í tekjum vegna úrræðisins hefur farið til þriggja tekjuhæstu tekjutíundanna.
Enginn vafi er því um að þetta sé húsnæðisstuðningur við best settu hópa samfélagsins. Sérstakur skattastyrkur fyrir tekjuhæstu heimilin sem gagnast þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman, lítið og í flestum tilvikum ekkert. Bæði AGS og OECD hafa enda gagnrýnt séreignarsparnaðarleiðina árum saman, meðal annars með þeim rökum að stuðningurinn sé ekki markviss og rannsóknir hafi sýnt að hann geti leitt til „hærra húsnæðisverðs og minni almennrar hagkvæmni á húsnæðismarkaði.“ Til viðbótar eykur þessi skattastyrkur til þá betur settu þenslu, gerir verðbólgu þrálátari og hægir þannig á vaxtalækkun.
Það er rétt og klókt að tína upp þessa sokka
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að þeir sem njóta góðs af skattastyrkjum vilji viðhalda þeim áfram. Það er bæði eðlilegt og mannlegt.
Skattastyrkur sem þessi bætir hins vegar óumdeilanlega hag hinna betur settu, sem þurfa alls ekki ríkisstuðning, en gerir stöðu þeirra sem þurfa raunverulega á stuðningi að halda, og ná varla eða ekki endum saman, enn verri. Hann eykur misskiptingu. Bitnar mest á þeim sem eru með minnst á milli handanna. Þeir finna mest fyrir verðbólgunni sem spratt upp úr allt of miklum vexti á örfáum árum, sem stjórnvöld ívilnuðu frekar en að hemja.
Þetta breikkandi bil birtist meðal annars í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Þar kemur fram að minna en einn af hverjum tíu landsmönnum nær ekki endum saman á meðan nær sjö af hverjum tíu ná að safna sparifé.
Skattastyrkir beina fjármunum úr ríkissjóði til þeirra sem geta lagt fyrir, ekki þeirra sem ná ekki endum saman. Það eykur getu stórra hópa á Íslandi til einkaneyslu, sem eykur verðbólguþrýsting sem viðheldur háu vaxtastigi. Þetta er augljóslega verulega skakkt.
Þess vegna er ekki bara réttlátt og sanngjarnt að fækka þessum styrkjum, glufum, sokkum eða hvað sem fólk vill kalla þetta. Það er beinlínis efnahagslega skynsamlegt, til að lækka verðbólgu og vexti, að tína þá upp af gólfi ríkissjóðs.
Reply