• Kjarnyrt
  • Posts
  • Verðbólgnar yfirlýsingar, kærkomin loðna og loksins er helvítis húsnæðisverðið að lækka

Verðbólgnar yfirlýsingar, kærkomin loðna og loksins er helvítis húsnæðisverðið að lækka

Húsnæðis- og leiguverð hefur farið lækkandi á Íslandi síðustu mánuði. Það hefur dregið úr verðbólguþrýstingi en slíkt verð var leiðandi í vexti verðbólgunnar þegar hún rataði upp í tveggja stafa tölu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Síðustu skrefin í að ná verðbólgunni niður í markmið eru oft flókin og hún hefur flakkað milli þess að vera undir fjórum prósentum í að skríða yfir fimm prósent á síðustu þremur mánuðum. Heilt yfir erum við þó á réttri leið og fyrirsjáanlegt er að verðbólga hjaðni á næstu mánuðum sem mun leiða til enn frekari lækkunar vaxta. Efnahagslífið er svo að sýna gríðarlegan viðnámsþrótt og markaðsvirði stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins hefur aukist um yfir 160 milljarða króna á hálfu ári. Heilt yfir er bjart fram undan fyrir íslenska þjóð.

Í gær voru birtar nýjar verðbólgutölur. Samkvæmt þeim hækkaði verðbólgan lítillega milli mánaða, og fór í 5,2 prósent. Það er við efri mörk þess sem flestir greiningaraðilar höfðu spáð. Vitað var að upptaka kílómetragjalda, svo hægt sé að fjármagna vegakerfið og vinna á mörg hundruð milljarða króna innviðaskuld þess, myndi ýta verðbólgunni eitthvað upp þennan mánuðinn ásamt breytingu á vörugjöldum á bílum, sem framkvæmd eru annars vegar í sama tilgangi og kílómetragjöldin og hins vegar til að styðja við orkuskipti.

Þar er ekki einungis um umhverfis- og loftslagsaðgerð að ræða heldur mikilvægt efnahagsmál. Orkuskipti bílaflotans spara nefnilega þjóðinni mikilvægan gjaldeyri. Í stað þess að flytja inn dýrt bensín þá ganga rafbílar, sem eru nú 14 prósent allra fólksbíla í landinu, fyrir grænni orku framleiddri á Íslandi. Vel var fjallað um þetta í nýlegri frétt RÚV þar sem neðangreint graf birtist.

Sú hækkun sem varð á verðbólgu vegna gjaldabreytinga hins opinbera var í fullu samræmi við það sem fjármála- og efnahagsráðuneytið spáði og skýrðu vel innan við helming af hækkun verðbólgu. Það sem kom hins vegar á óvart, og skýrði þorran af annarri hækkun hennar, voru gjaldahækkanir á eldsneyti, álagning á því og álagning sem lögð er á nýjar bifreiðar. Í þeim verðlagshækkunum liggur mesta hækkunin á verðbólgu milli mánaða.

Ástæða þess að þetta kemur á óvart er til að mynda sú að vörugjöld á rafbíla, sem eru um 60 prósent af þeim nýju bílum sem heimili landsins kaupa um þessar mundir, voru felld niður um síðustu áramót. Samt hækkaði verðið á þeim hjá bílaumboðunum um 6,4 prósent!

Þrjú fyrirtæki sem eru um 500 milljarða virði

Viðbrögð minnihlutans á þingi og helstu hagsmunagæsluaðila fjármagnseigenda voru fyrirsjáanleg. Furðuleg Þórðargleði yfir tímabundnum efnahagslegum áskorunum, yfirprjón í yfirlýsingum og oft á tíðum sýnileg vanþekking á grundvallaratriðum efnahagsmála.

Öll eru þessi harmakvein til þess að reyna að mála upp mynd af stöðu sem er ekki í neinum takti við raunveruleikann vegna þess að minnihlutinn á þingi upplifir að það sé hústökufólk í stjórnarráðinu.

Það má til að mynda benda á að nánast á sama tíma og verðbólgutölurnar voru opinberaðar var tilkynnt um að loðnukvóti verði fimmfalt meiri en það sem áður hafði verið lagt upp með. Í fréttum sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem veiðir mikið af loðnu, að aukningin ein og sér geti skilað þjóðarbúinu 30 milljörðum króna. Með öðrum orðum verða áhrifin á hagvöxt verulega jákvæðan, öllum landsmönnum til heilla. Allar líkur eru á að rekstrarniðurstaða ríkissjóðs verði skaplegri en stefnt var að. Í slíku felst helsta vopn stjórnvalda gagnvart verðbólgunni.

Fimmföldum á loðnukvóta mun skipta sköpum fyrir þjóðarbúið í ár. Tekjur munu verða miklu meiri og störf fleiri. Mynd: ChatGPT

Það mun líka hafa gríðarlega jákvæð áhrif á markaðsvirði þeirra þriggja útgerða sem skráðar eru á íslenskan hlutabréfamarkað: Síldarvinnslunnar, Ísfélagsins og Brims sem eru þau þrjú fyrirtæki sem halda á mestum loðnukvóta. Þarna er um að ræða sömu fyrirtæki og minnihlutinn á þingi vældi um að myndu sogast ofan í einhvers konar manngert hyldýpi sem myndi þurrka upp nær allar rekstrarforsendur og fjárfestingu ef þau myndu greiða sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar.

Þarna er um að ræða þrjú fyrirtæki sem eru samtals metin á um 484 milljarða króna. Frá því að veiðigjaldafrumvarpið var samþykkt um miðjan júlí í fyrra og þangað til í byrjun vikunnar hafði markaðsvirði þeirra samtals aukist um 162 milljarða króna.

Til að setja þá tölu í annað samhengi þá er Brim eitt og sér metið á 163 milljarða króna. Það hefur eitt Brim bæst við markaðsvirðið á hálfu ári. Virði Síldarvinnslunnar og Brims hefur aukist um rúmlega 50 prósent á umræddu tímabili og virði Ísfélagsins um rúmlega 40 prósent.

Búast má við því, í ljósi stóraukins loðnukvóta og þeirra verða sem eru nú á heimsmarkaði fyrir sjávarútveg, að þetta virði muni frekar leita upp en hitt.

Vextir hafa lækkað en þurfa að lækka meira

Tölur og gögn endurspegla raunveruleikann. Íslenskt efnahagslíf gengur almennt vel. Verðbólgan í nóvember var miklu lægri en reiknað var með og sú sem mældist í desember hærri. Á síðustu þremur mánuðum síðasta árs var hún í fullum takti við það sem spáð hafði verið og heilt yfir er hún að tikka niður, þótt sveiflur séu milli mánaða.

Það má líka benda á að verðbólgan í nóvember var sú minnsta sem hafði mælst í fimm ár og verðbólgan í desember, þótt hærri væri, var samt sem áður sú minnsta sem mælst hafði í jólamánuðinum í jafn mörg fimm ár.

Þótt að tólf mánaða verðbólga sé að hækka í janúar þá er mánaðarbreytingin ekkert sérstaklega mikil, eða 0,36 prósent. Það ýkir hækkun á árlegu verðbólgunni líka að hún mældist gífurlega lá í janúar í fyrra, eða -0,32 prósent á ársgrundvelli. Sú mæling er nú að detta út og hin nýja að koma inn líkt og bent er á í meðfylgjandi færslu:

Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa lækkað um tvö prósentustig á rúmu ári, sem hefur fjölgað krónunum í veskjum landsmanna sem skulda umtalsvert. Þetta er ekki bara einhver frasi, heldur töluleg staðreynd. Fyrir venjulega fjölskyldu með 40 milljóna króna óverðtryggt húsnæðislán þýðir þetta til að mynda um 60 þúsund krónur í auknar ráðstöfunartekjur á mánuði. Þegar Samfylkingin talaði um að lyfta ofurskattinum af heimilunum fyrir síðustu kosningar, þá var það þetta sem hún átti við.

Hægt er að horfa á þetta út frá upplýsingum Hagstofunnar líka. Samkvæmt tölum sem hún birti um miðbik síðasta mánaðar hefur aukning á vaxtakostnaði heimila stöðvast. Hann er meira og minna sá sami nú í krónum talið og hann var þegar skipt var um ríkisstjórn undir lok árs 2024. Á sama tíma hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna hins vegar aukist myndarlega, sem þýðir að fleiri krónur eru til að borga niður óbreyttan vaxtakostnað.

Verðbólga var í tveggja stafa tölu fyrir nokkrum árum

Sögulega er verðbólga hérlendis oftast nær nokkuð há, og frá bankahruni hefur hún að meðaltali verið vel yfir markmiði Seðlabanka Íslands. Hæst fór hún í 18,6 prósent í byrjun árs 2009 og hefur ekki verið undir 2,5 prósenta markmiðinu í næstum sex ár, eða síðan í apríl 2020. Í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna fór hún um tíma í tveggja stafa tölu.

Hér sést hvernig verðbólga hefur sveiflast eins og rússíbani síðan eftir bankahrunið. Mynd: Seðlabanki Íslands

Að því sögðu þá er auðvitað skiljanlegt að fólk þyrsti í að verðbólgan og vextirnir lækki hraðar. Það stefnir líka í það. Gildandi spá Seðlabankans gerir ráð fyrir því að verðbólga verði 4,2 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og greiningaraðilar eru á svipuðum slóðum. Flestir telja einboðið að verðbólgan lækki í febrúar. Nú liggur fyrir að það þarf að gera meira og þá verður gert meira. Það aðhald mun koma skýrt fram við gerð fjármálaáætlunar til næstu fimm ára sem mun birtast seint í vor.

Til skamms tíma er staðan erfið en til lengri tíma verður þetta miklu betra.

Hnökkrar en mikið viðþolsþróttur hagkerfisins

Það hafa líka sannarlega komið upp óvæntar hindranir á þessari vegferð, sem hafa orsakað hnökkra. Sá órói sem ríkir í alþjóðakerfinu, sem sett hefur alþjóðaviðskipti og -lög í uppnám, hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum. Fyrir örþjóð úti í miðju ballarhafi sem á allt sitt undir útflutningi, hagstæðum tollum og opnum flutningarleiðum þá getur allt slíkt sett risastórt efnahagslegt strik í reikninginn. Með virkri hagsmunagæslu og klókindum hefur tekist að afstýra því að mestu og áhrifin á Ísland eru, enn sem komið er, takmörkuð.

Það hafa líka verið áskoranir hér heima. Play fór á hausinn, PCC á Bakka lokaði vegna markaðserfiðleika og bilun varð í álveri Norðuráls á Grundartanga sem hefur dregið tímabundið úr framleiðslu þess.

Ekkert af þessum áföllum urðu vegna aðgerða stjórnvalda og ekkert þeirra er þess eðlis að eðlilegt teljist að stjórnvöld grípi inn með beinum hætti til að styðja við viðkomandi fyrirtæki. Þau starfa öll á einkamarkaði og það er hluthafa þeirra og gagnaðila að finna út úr stöðunni. Það sem sitjandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert er að að skipa verkefnastjórn atvinnuuppbyggingar á Bakka, þar sem lokun PCC opnar dyr fyrir alls kyns annarri starfsemi. Þegar er búið að undirrita fjórar viljayfirlýsingar um slíka starfsemi og fleiri fyrirtæki hafa sýnt áhuga. Vonast er til að einhver ný starfsemi hefjist jafnvel strax á þessu ári.

Heilt yfir sýnir það þó hversu mikill viðþolsþróttur íslenska hagkerfisins er orðinn, og með hversu ábyrgum hætti er verið að halda á ríkisfjármálum, að þessi áföll hafi ekki haft meiri áhrif en þó raun beri vitni. Það var sannarlega ekki alltaf þannig.

Stórar aðgerðir sem eru að virka

Allt að öllu er sú staða sem er uppi afleiðing plans. Sitjandi ríkisstjórn tekur ábyrgð á því plani og stendur með því þótt tímabundið gefi á. Það var ákveðið að innleiða ábyrga efnahagsstefnu, taka til í kerfum, hagræða þar sem hægt var að hagræða, innheimta sanngjarnar tekjur af nýtingu náttúruauðlinda, leggja fram fjármagnaða og raunhæga samgönguáætlun sem mun rjúfa kyrrstöðu í nýframkvæmdum, ráðast í að laga velferðarkerfin en skila samt hallalausum fjárlögum árið 2027. Það var ákveðið að fara í markvissar og stórtækar aðgerðir á húsnæðismarkaði eftir að húsnæðisverð hafði hækkað meira hér en í öllum öðrum OECD-ríkjum áratuginn á undan. Þær aðgerðir hafa þegar skilað því að bæði íbúða- og leiguverð, sem árum saman drógu verðbólguna áfram, er nú byrjað að lækka.

Á meðfylgjandi mynd sést að íbúðamarkaður hefur kólnað verulega eftir að húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar var kynntur í haust. Það er gríðarlega mikilvægt til að draga úr verðbólgu til lengri tíma. Mynd: HMS

Allt þetta er þess eðlis að skapa aðstæður og forsendur til að halda áfram að lækka vexti, heimilum og fyrirtækjum landsins til heilla.

Ráðist var í allar þessar aðgerðir á innan við einu ári. Þær eru ábyrgar og miða að því að innleiða stöðugleika og eðlilegan hagvöxt sem byggir ekki einungis á fólksfjölgun, líkt og var síðustu sjö árin áður en skipt var um fólk og flokka í brúnni. Í ofanálag er verið að móta atvinnustefnu til tíu ára í fyrsta sinn í Íslandssögunni þar sem áherslan verður á framleiðni sem fjölgar störfum út um allt land, eykur samkeppnishæfni Íslands, eflir hagvöxt og skilar hinu opinbera stórauknum tekjum sem geta nýst til að fjárfesta enn meira í velferð og innviðum.

Með þessu öllu er verið að undirbúa Ísland fyrir sókn sem nýtist öllum. Það kann vissulega að vera mörgum fjarlægt enda eru flestir vanir því að vera með stjórnarherra sem hafa það fyrst og síðast sem markmið að verja kerfi sem gagnast fámennum hópi efst í tekju- og eignarpýramídanum.

En þannig er málum háttað og Íslendingar sem heild munu uppskera ríkulega á þessu kjörtímabili.

Reply

or to participate.