- Kjarnyrt
- Posts
- Að halda partí, rusla allt út, verða fjarlægður en öskra svo á þá sem taka til
Að halda partí, rusla allt út, verða fjarlægður en öskra svo á þá sem taka til
Ef efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórnar er sett í líkingu við heimilisbókhald þá gekk hún út á það að útgjöld væru alltaf meiri en innkoma. Heimilisfólkið vildi samt hvorki grípa til aðgerða til að auka innkomuna né draga úr útgjöldunum. Það hentaði ekki. Þess í stað jók hún bara yfirdráttinn. Svo lauk þessu partíi og ábyrgara fólk tók við. Nú stendur yfir tiltekt og viðhald svo þjóðaríbúðin komist í stand á ný. Fyrrverandi heimilisfólk í stjórnarráðinu hangir á meðan á glugganum og reynir að kenna þeim sem eru að þrífa upp eftir það um óreiðuna.
Það hefur verið nett kostulegt að fylgjast með minnihlutanum á Alþingi bregðast við því að stýrivöxtum hafi verið haldið óbreyttum. Ákvörðun sem blasað hefur við í allt sumar að myndi verða tekin og allir greiningaraðilar spáðu fyrir um.
Forystufólk flokka sem bera alla ábyrgð á því að hafa leitt Ísland inn í þær verðbólgu- og vaxtahækkunarógöngur sem samfélagið sat fast í árum saman með gríðarlegu ábyrgðarleysi í efnahagsmálum eru skyndilega mætt sem samstilltur kór til að kenna nýverandi stjórnvöldum um eigin mistök sem nú er unnið hörðum höndum að því að laga. Stöðu sem verið er að mæta í öruggum og ábyrgum skrefum sem hafa þegar skilað því að verðbólga er lægri en þegar stjórnarskipti urðu og vextir líka.
Ég fór yfir það í síðustu viku hvernig matsfyrirtæki, alþjóðlegar stofnanir og meira að segja hagsmunagæsluhópar með sterk pólitísk tengsl við stjórnarandstöðuna hafa dæmt efnahagsstjórn sitjandi ríkisstjórnar fyrstu mánuði við stjórnvölinn. Niðurstaða allra er mjög jákvæð. Rétt skref hafa verið stigin í átt að auknum stöðugleika sem er grunnur þess að vextir geti haldið áfram að lækka. Hægt er að lesa þá grein hér:
Þessi pólitík minnihlutans er þó löngu hætt að koma á óvart og er afar fyrirsjáanleg. Þetta er það sama og hann gerir í öllum málum. Að öskra á innsoginu, reyna að hræða fólk, giska í eyðurnar eða slást við heimaföndraða strámenn.
Á réttri leið og það er að „kólna“
Það eru vissulega vonbrigði að vextir séu ekki að lækka hraðar og til þess að verðbólgan leiti áfram niður þarf samstillt átak atvinnulífs og stjórnvalda. Atvinnulífið þarf að standast þá skammsýnu freistingu að hækka verð á vöru og þjónustu umfram verðbólgu til að auka arðsemi sína. Ýmislegt í nýjustu verðbólgutölum bendir til þess að þar vanti töluvert upp á, enda drifkraftar verðbólgu húsnæði, flugfargjöld, hótel og veitingastaðir og dagvöruverð.
Stjórnvöld leggja sitt á vogarskálarnar með ábyrgri efnahagsstjórn og aðhaldi á tekju- og gjaldahlið. Og það kom mjög skýrt fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, þegar hann kynnti nýjustu vaxtaákvörðunina, að hann væri afar ánægður með þau skref sem stjórnvöld hafa verið að stíga á fyrstu mánuðum sínum við störf. Þar vísaði hann sérstaklega til innleiðingar stöðugleikareglu, úrlausn mála ÍL-sjóðs sem stórlækkaði skuldahlutfall ríkissjóðs og sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem gekk fumlaust fyrir sig, mun lækka opinberar skuldir um tugi milljarða króna til viðbótar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Seðlabanki Íslands
Svo sagði Ásgeir: „Þrátt fyrir allt þá höfum við náð verðbólgunni niður, þrýstingurinn er að minnka og við erum að sjá skýr merki um það að þetta sé að kólna.“
Gúmmítékkar og ófjármagnaðar skattalækkanir
Uppsafnaður halli á þeim tíma sem ríkissjóður hefur verið rekinn í mínus – ferli sem hófst 2019 – hleypur á mörg hundruð milljörðum króna þótt hann fari verulega minnkandi. Þeir flokkar sem stýrðu landinu inn í þessa stöðu voru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn.
Ef efnahagsstjórn þeirra er sett í líkingu við heimilisbókhald þá gekk hún út á það að útgjöld væru alltaf meiri en innkoma. Heimilisfólkið vildi samt hvorki grípa til aðgerða til að auka innkomuna né draga úr útgjöldunum. Þess í stað fór það bara alltaf í bankann á föstudegi, jók yfirdráttinn, skellti sér á barinn og þóttist eiga inni fyrir því að taka túr en bjóða líka vel völdum að drekka á sinn kostnað án þess að nokkur innistæða væri fyrir því.
Ein undirliggjandi ástæða þessarar aðferðafræði er sú að flokkarnir sem sátu saman í síðustu ríkisstjórn gátu ekki komið sér saman um neitt annað en að sitja að völdum. Eina stefnan var algjört stefnuleysi. Skref fyrir skref þá fóru ráðherrar og ráðuneyti að starfa sem sjálfstæðar einingar og taka sjálfstæðar ákvarðanir um fjárútlát sem ætluð voru til vinsælda án þess að skeyta um áhrif þessa á heildarmyndina og -hagsmuni.
Mjög dýrir gúmmítékkar í alls kyns verkefni og ófjármagnaðar skattalækkanir urðu því arfleið þessarar ríkisstjórnar. Til viðbótar við þá vítaverðu ákvörðun að láta stuðningsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins, oft til fyrirtækja og einstaklinga sem þurftu ekkert á þeim að halda, lifa allt of lengi. Afleiðingin varð óþarfa þensla sem ýkti verðbólgu síðustu ára upp úr öllu valdi. Þann reikning borga skuldsett heimili.
Staðan verri en látið var í skína
Það var því ekki lítil tiltekt sem blasti við nýrri ríkisstjórn þegar hún tók við fyrir nokkrum mánuðum síðan. Staðan var auk þess mun verri en af hafði verið látið. Efnahagsumsvif og tekjur til ríkisins voru einfaldlega minni en látið hafði verið uppi um. Þetta bú var afleiðing af ákveðnu stjórnarfari sem hafði verið til staðar, og einkenndist af ábyrgðarleysi við stjórn efnahagsmála.
Vísir að þeirri breyttu vegferð sem nú er rekin við stjórn landsmála birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem birt var í vor. Þar kom fram að ríkissjóður verður rekinn hallalaus árið 2027 í fyrsta sinn í níu ár. Fyrri ríkisstjórn var með áform um að reka hann í mínus út þennan áratug.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur líka verið mjög skýr, nú síðast í vikunni, um að þetta markmið standi óhaggað og að gripið verði til viðeigandi aðgerða til að það náist. Í kvöldfréttum Sýnar á miðvikudag sagði hann til að mynda: „Fjármálafrumvarpið í haust mun sýna meira aðhald heldur en menn hafa séð hjá fyrri ríkisstjórnum einfaldlega vegna þess að við ætlum okkur að tryggja stöðugleika í verðlagi.“
Bjuggu til kerfið og stöðvuðu breytingar
Upphlaup minnihlutans er enn hjákátlegra þegar horft er til þess að verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis er á markmiði Seðlabankans, eða 2,5 prósent. Húsnæðisliðurinn er því enn leiðandi breyta í þrálátri verðbólgu. Sem þýðir að það eru brestir á húsnæðismarkaði, sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bera alla ábyrgð á að hafa hannað, sem eru orsökin. Hægt er að lesa um sögu þeirra flokka við mótun húsnæðismála sem hafa skilað því neyðarástandi sem ríkt hefur hjá mörgum hópum íslensks samfélags hér að neðan:
Til að gera málflutninginn enn farsakenndari þá lágu fyrir mikilvæg frumvörp um umbætur á þessum sama húsnæðismarkaði sem fengu ekki afgreiðslu vegna málþófs, tafarleikja, pólitískra klækjaleikja og svo loks fýlukasts yfir því að hafa ekki getað bannað ríkisstjórn að leiðrétta veiðigjöld. Má þar nefna lög sem myndu taka á skammtímaleigu íbúða í gegnum Airbnb og fjölga þannig íbúðum sem standa landsmönnum til boða sem heimili en fækka íbúðum sem notaðar eru sem fjárfestingarvörur. Þar má líka nefna frumvarp um breytingar á húsaleigulögum sem átti að innleiða almenna skráningarskyldu leigusamninga í leiguskrá.
Ef minnihlutaflokkarnir vildu leggja sitt af mörkum til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði þá hefði þeim verið í lófa lagt að hleypa þeim frumvörpum í gegn. Þeir völdu hins vegar að gera það ekki.
Fullt af tómum íbúðum…
Núverandi ríkisstjórn hefur náð samkomulagi um hvernig eigi að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði af festu. Það samkomulag verður öllum skýrt á næstu misserum.
Ekki er vanþörf á. Alls kyns skrýtni er til staðar á þeim markaði. Seðlabankastjóri benti til að mynda á það í vikunni að það væri „gríðarlega mikið umfram framboð á fasteignamarkaði ef við horfum bara á eignir sem eru skráðar á sölu. En að sama skapi höfum við samt séð hækkun á fasteignaverði.“
Þarna er hann að vísa til þess að þrátt fyrir að mikil eftirspurn sé eftir íbúðum þá sé framboð að aukast. Nýjar íbúðir sem standa auðar hafa raunar aldrei verið fleiri, en sölutími þeirra er sem stendur mjög langur í sögulegu samhengi og hlutfall nýrra íbúða af seldum íbúðum er afar lágt.
Til einföldunar þýðir þetta að það er ekki skortur á fjölda íbúða á markaðnum núna og framboð á þeim hefur aukist mikið undanfarin misseri. Þar spilar inn í að hægt hefur á þeirri gríðarlegu fólksfjölgun sem verið hefur á Íslandi á síðustu árum, með tilheyrandi þrýstingi á húsnæðismarkað, og að Grindavíkuráhrifin hafa runnið sitt skeið. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans voru 4.800 íbúðir til sölu í júlí og þar af voru um 1.900 nýbyggingar. Þetta er mikil fjölgun á skömmum tíma.
… sem kosta einfaldlega of mikið
Vandamálið sem er til staðar er að stór hluti þeirra íbúða sem eru á markaðnum kostar allt of mikið fyrir þá sem mynda eftirspurnina eða eru af öðrum ástæðum ekki það sem markaðurinn kallar eftir.
Svo virðist sem að verktakar og byggingafélög velji frekar að halda íbúðunum tómum og vonast eftir að kaupgetan nálgist verðmiðann sem er á þeim í dag. Þetta er kostnaðarsamt veðmál í því vaxtaumhverfi sem er í dag þar sem fjármagnskostnaður er fljótur að rjúka upp úr öllu valdi.
Fyrir liggur því að verð verður að lækka til að nýju íbúðirnar seljist og þeir sem byggðu þær geti gert upp lánin sem þeir tóku til að gera það. Eða eins og seðlabankastjóri sagði í vikunni: „Það er mjög mikilvægt að við sjáum aðlögun á fasteignamarkaði […] Það sem heldur verðbólgu uppi núna eru að einhverju marki hækkanir sem hafa komið á leiguverði og fleira.“
Svo þarf auðvitað að byggja fleiri minni og hagkvæmari íbúðir til að mæta þeim hópum sem eru í mestum erfiðleikum með að koma þaki yfir höfuðið.
Það mun hafa jákvæð áhrif á verðbólgu og vexti.
Fólk sér í gegnum látalætin
Samandregið þá sér fólk í gegnum þessi látalæti minnihlutans á Alþingi, og hefur gert það í lengri tíma. Þeim þremur íhaldsflokkum sem skipuðu síðustu ríkisstjórn, vítaverðu efnahagslegu sinnuleysi þeirra, endurteknum mistökum þeirra á húsnæðismarkaði og kerfisvarnarpólitíkinni sem þeir hverfast allir um var enda kyrfilega hafnað í síðustu kosningum.
Vinstri græn voru kosin af þingi og munu berjast fyrir áframhaldandi tilveru sinni í komandi sveitarstjórnarkosningum. Framsóknarflokkurinn fékk sína verstu útreið í kosningum í sögunni í fyrra og hlutirnir hafa lítið lagast hjá honum þá mánuði sem liðnir eru af árinu. Flokkurinn mælist nú með sitt minnsta fylgi í sögunni og ef kosið yrði í dag væri raunverulegur möguleiki á að hann þurrkaðist út af þingi. Þeim fækkar hratt sem telja það bara best að kjósa Framsókn.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem er aðallega upptekinn við að elta Miðflokkinn og hægrihlaðvörpin út á jaðar stjórnmála þegar hann tekur sér frí frá hefðbundinni sérhagsmunagæslu, er nú, í fyrsta sinn á kjörtímabilinu, að mælast með minna fylgi en hann fékk í síðustu kosningum og í fyrsta sinn kominn með vel undir 20 prósent síðan að nýr formaður tók við stjórnartaumunum í mars.
Meðbyrinn er allur með sitjandi ríkisstjórn. Stuðningur við hana er mikill og vaxandi. Almenningur skilur að þar er verið að taka til og byggja til framtíðar. Flokkarnir sem að henni standa hafa auk þess sýnt að þeir hræðast ekki að takast á við erfiðar áskoranir.
Það að koma skikki á efnahagsmál þjóðarinnar eftir áralanga óreiðu er ein slík áskorun.
Sú áskorun er stór og flókin, en hún verður yfirstigin.
Reply