• Kjarnyrt
  • Posts
  • Af meintum boðflennum og tilfinningalegum herbergjum

Af meintum boðflennum og tilfinningalegum herbergjum

Í hönnuðum hólfum harða hægrisins lifir veruleiki glundroða sem fáir í raunheimum kannast við. Um er að ræða framsetningu sem fólk þarf að fara að venjast. Hún er viðbragð við því þegar þeir sem telja sig eiga völdin missa þau, og líta á hina sem fólkið kaus til valda sem boðflennur.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn datt út úr ríkisstjórn í fyrsta sinn í næstum 17 ár snemma árs 2009 þá átti flokkurinn, flokksmenn og viðhengi í töluverðum vandræðum með að venjast nýjum veruleika. Frægasta birtingarmynd þess var þegar formaður flokksins fór fram á að þáverandi forsætisráðherra í réttkjörinni ríkisstjórn landsins myndi „skila lyklunum“ að stjórnarráðinu. Líkt og þeir hefðu verið hans eign sem boðflennur hefðu stolið. Sögulega hefur Sjálfstæðisflokkur enda verið samofin valdinu á landsvísu. Hann hefur haldið um stjórnartauma í fjögur af hverjum fimm árum síðan að Ísland varð sjálfstætt ríki.

Efnað og áhrifamikið fólk úr þeirra mengi brá meðal annars á það ráð að kaupa útgáfufélag Morgunblaðsins, sem var þá tæknilega gjaldþrota, til að mæta nýrri stöðu. Ég vann á blaðinu á þeim tíma og okkur starfsfólkinu var gert það nokkuð ljóst að tilgangur kaupanna var fyrst og síðast að ná öðruvísi tökum á umræðunni. Markmiðið voru skýr: að koma sitjandi vinstri stjórn frá völdum, að koma í veg fyrir að Ísland gengi í Evrópusambandið, að hindra stórfelldar breytingar á sjávarútvegskerfinu og breyta Icesave-umræðunni í pólitískt vopn til að grafa undan stuðningi við flokkanna sem þjóðin hafði falið tiltekt eftir að nýfrjálshyggjufyllerí fyrstu ára aldarinnar hafði leitt af sér neyðarlagasetningu, gjaldeyrishöft, óðaverðbólgu, svimandi vaxtastig og næstum sett ríkissjóð á hausinn.

Hér er ekki verið að draga einhverja ályktun. Fyrrverandi útgefandi Morgunblaðsins greindi sjálfur frá þessum áherslum í viðtali nokkrum árum síðar.

Þess má geta að ég hætti á Morgunblaðinu þetta sama ár.

Arðbær fjárfesting í tökum á umræðu

Á þessum árum var blaðið enn með mikinn slagkraft og náði til fólks langt út fyrir kjósendahóp Sjálfstæðisflokksins. Það var lesið af meira en 40 prósent landsmanna daglega og fréttavefur þess var í algerri forystu hérlendis.

Ef horft er til þess að eigendahópurinn, sem var og er að uppistöðu með djúp tengsl við stórútgerð, hefur síðan þá borgað með útgáfu sem tapað hefur um þremur milljörðum króna síðan að þeir keyptu hana þá velta sumir kannski fyrir sér hvort þetta hafi verið skynsamleg fjárfesting. Ef litið er á áðurnefnd markmið, sem öll náðust, og þá staðreynd að litlar breytingar á gjaldtöku fyrir nýtingu á þjóðarauðlindinni hafa skilað því að stórútgerðir landsins hafa hagnast um mörg hundruð milljarða króna á síðustu 15 árum, en þurfa einungis að greiða lítinn hluta þess hagnaðar í ríkissjóð, þá er svarið klárlega já. Við bættist að flokkurinn sem eigendahópurinn styður komst aftur til valda árið 2013 og sat þar óslitið þangað til í desember í fyrra.

Segja má að þetta hafi verið ákaflega arðbær fjárfesting.

Þeim sem var ekkert boðið

En nú er staðan breytt. Ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum sem ætlar sér að hverfa frá valdakerfum helmingaskiptaflokkanna og innleiða stjórnsýslu sem er þjónustumiðuð með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Stjórn sem ætlar sér að ráðast í verkefni sem bæta líf venjulegs vinnandi fólks en hafa setið á hakanum allt of lengi.

Það var viðbúið að þessi staða, sem byggir á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, myndi framkalla nokkuð vanstillt viðbrögð hjá þeim sem telja sig eiga valdið. Það eru einhverjir aðrir skyndilega mættir þar sem þau telja að þau eigi alltaf að vera, án þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðið þeim þangað.

Þótt Morgunblaðið hafi látið verulega á sjá frá því að flokksarmur þess sat síðast utan stjórnar, og er nú, þrátt fyrir vikulega fríútgáfu, lesið af einungis fimmtungi þjóðarinnar, þá hefur fjölmiðlaumhverfið í heild líka versnað umtalsvert og er í dag mun fátæklegra en áður.  Sú staða er að stóru leyti afleiðing af meðvitaðri kerfisbundinni veikingu fjölmiðlaflórunnar með aðgerðarleysi stjórnvalda. Í því felst að hafa litið á fjölmiðla sem framlengingu á hagsmunabaráttu frekar en hornstein virks lýðræðis og forsendur opinnar lýðræðislegrar umræðu, sem hafa það mikilvæga samfélagslega hlutverk að veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins viðeigandi aðhald.

Innleiðing á pólitísku narratívi

Morgunblaðinu er ritstýrt af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarformaður útgáfufélags þess er faðir eina tilkynnta frambjóðandans í verðandi formannskjöri flokksins. Flestir lykilstarfsmenn blaðsins eru flokksbundnir sama flokki og hafa gegnt ýmiskonar trúnaðarstörfum fyrir hans hönd.

Þessir sömu lykilstarfsmenn skrifa meira og minna alla pólitíska umfjöllun sem birtist í blaðinu og á vef þess. Hún ber þess skýrt merki að hafa ekki upplýsingu að leiðarljósi, heldur innleiðingu á pólitísku narratívi sem hentar ákveðnum hagsmunum.

Helsti farvegur þessa á fyrstu stigum hins nýja veruleika valdahópanna sem skyndilega eru ekki með völd lengur, og búa við það að valdamesti stjórnmálamaðurinn í þeirra hópi er bæjarstjórinn í Kópavogi, eru að atast í Flokki fólksins. Línan fyrir það at er sett í Morgunblaðinu og tengdum miðlum en svo étin upp af fylgitunglunum flokks og blaðs í hlaðvarpsheimum.

Tilgangurinn er að hanna orðræðu og reyna að selja þá hugmynd að nýja ríkisstjórnin sé í einhverskonar vanda. Sem hún er sannarlega ekki, þótt tilvera hennar sé auðvitað bráðavandi í hugum þeirra sem spinna þennan þráð.

Er flokkur flokkur?

Það mál sem mest hefur verið blásið upp er að Flokkur fólksins, einn stjórnarflokkanna, hafi ekki breytt skráningu sinni úr félagasamtökum í stjórnmálasamtök eftir breytingu á lögum fyrir nokkrum árum sem gerði flokkum að breyta á þann veg til að geta fengið styrkjagreiðslur úr ríkissjóði. Fyrirsagnir um yfirvofandi þrot flokksins í bollaleggingar um stjórnarslit í kjölfarið tröllriðu harða hægrinu.

Forsíða Morgunblaðsins á þriðjudag var undirlögð undir Ingu Sæland. Mynd: Skjáskot/Morgunblaðið

Þessi narratíva reyndist svo ekki sama pólitíska vopn og vonast var til þegar það kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafði sjálfur flaskað á því að breyta skráningunni sinni um tíma, en samt þegið styrki. Það gerðu þrír aðrir flokkar líka. Þetta var reynt að útskýra í burtu með gaslýsingum, án tilætlaðs árangurs.

Ef málið er skoðað af sæmilegri skynsemi þá liggur fyrir að Flokkur fólksins er auðvitað stjórnmálaflokkur, líkt og hinir sem uppfærðu ekki skráningu sína í tíma. Hann hefur verið starfandi sem slíkur frá árinu 2016 og uppfyllt skilyrði þess að bjóða sig fram í kosningum. Í þeim síðustu kusu næstum 30 þúsund manns flokkinn. Ekkert bendir til þess að flokkurinn hafi ráðstafað þeim fjármunum sem hann fékk úthlutað á annan hátt en lög gera ráð fyrir að stjórnmálaflokkar geri.

Yfirsjón fyrri ríkisstjórnar

Fyrir liggur að fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem laut stjórn forystufólks úr Sjálfstæðisflokknum, kannaði ekki hvort flokkar sem áttu rétt á styrk úr ríkissjóði vegna setu á Alþingi væru rétt skráðir í stjórnmálaskrá Skattsins áður en styrkirnir voru greiddir út. Fyrir liggur að Fjársýslan, sem greiddi styrkina út, gerði það ekki heldur. Fyrir liggur að ársreikningar stjórnmálaflokka voru samþykktir af Ríkisendurskoðun án athugasemda um skráningu þeirra ár eftir ár eftir ár, þrátt fyrir að uppistaðan af þeim fjármunum sem fara í rekstur flestra flokka sé úr opinberum sjóðum og á grunni laga um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Í tilfelli Flokks fólksins koma til að mynda 98,2 prósent allra tekna flokksins úr ríkissjóði.

Þess utan hvílir leiðbeiningarskylda á stjórnvaldi samkvæmt stjórnsýslulögum. Í sama kafla laganna er fjallað um meðalhófsregluna, sem segir að stjórnvald skuli aðeins „taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“

Það er ekki úr vegi að horfa til þessa áður en teknar eru ákvarðarnir um gera flokka sem tugir þúsunda landsmanna hafa kosið til valda, gjaldþrota.

Að því sögðu þá eiga þessi formsatriði hvað varðar skráningu auðvitað að vera rétt. Fyrir liggur að misbrestur hefur verið í framkvæmd laga um fjármál stjórnmálaflokka. Þetta þarf að laga og það er ný ríkisstjórn að gera, ólíkt þeirri sem sat áður.

Hvað má Inga Sæland eiga marga fermetra?

Eftir rúnt Morgunblaðsins um umfjöllun sem byggði á frásögn þriðja aðila að einkasamtali tveggja um skópar menntaskólanema, sem hvorugt vildu staðfesta að frásögn þriðja aðilans væri rétt, þá var komið að Smartlandsfrétt um að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefði keypt tvær fasteignir með skömmu millibili. Sú frétt var mest lesna fréttin á mbl.is á miðvikudag og henni var deilt af starfsfólki þess á Facebook með eftirfarandi texta: „Ættu 328 fm að duga?“.

Facebook-deiling á frétt um kaup Ingu Sæland á fasteignum fyrir mörgum árum síðan, á hóflegu verði. Mynd: Skjáskot

Þegar fréttin er lesin kemur hins vegar í ljós að önnur fasteignin er á Ólafsfirði, þaðan sem Inga er, og var keypt á tólf milljónir síðsumars árið 2018, eða fyrir næstum sex og hálfu ári. Hin fasteignin var keypt árið 2021 á 58,5 milljónir króna, er íbúð í blokk í Grafarvogi þar sem Inga býr ásamt eiginmanni sínum. Samanlagt er því þarna um að ræða fjárfestingu upp á rúmlega 70 milljónir króna fyrir mörgum árum síðan. Til að setja þessa tölu í samhengi var meðalkaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu 85,5 milljónir króna í nóvember síðastliðnum, eða umtalsvert hærra en sem nemur fjárfestingu Ingu Sæland í fasteignum í krónum talið.

Meti svo hver um sig tilganginn með þessum skrifum.

Tilfinningalegt herbergi

Skondnasta birtingarmynd yfirstandandi frekjukasts er þó án nokkurs vafa viðbrögð þingflokks Sjálfstæðisflokks, sem birt voru í Morgunblaðinu í gær, við þeirri fyrirsjáanlegu kröfu að Samfylkingin fái stærsta þingflokksherbergið í Alþingishúsinu. Það er gert á grunni þess að eðlilegt sé að fundarherbergi í þinghúsinu séu nýtt í samhengi við stærð og samsetningu flokka. Þá hefur verið skipt um alla stjórnarflokka milli kosninga og við búið að þeir sem nú eru í ríkisstjórnarsamstarfi vilji vera í kallfæri við hvorn annan. Þess vegna, til að einfalda störf stjórnarflokkanna, er praktískt að þingflokksherbergi þeirra séu samliggjandi.

Rökin fyrir því að það eigi ekki að verða við þeirri kröfu eru þau að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf átt þetta herbergi og nýtt það í 84 ár, að það sé málað blátt og þar af leiðandi í einkennislitum flokksins og að þar hangi málverk af fyrrverandi þingforsetum hans. Fyrir vikið hafi herbergið „tilfinningalegt gildi fyrir flokkinn“. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks hótaði hlægjandi setuverkfalli þingmanna á vöktum í herberginu ef ekki yrði orðið við kröfum þeirra um að fá að halda því á grunni einhverskonar hefðarréttar.

Hér takast því annars vegar á praktísk krafa sett fram með yfirveguðum hætti og byggð á rökum, og hins vegar frekjukast byggt á tilfinningum, tilætlunarsemi og ranghugmyndinni um að kjósendur hafi ekki í alvöru framkallað aðskilnað milli flokks og hins opinbera með atkvæðum sínum.

Nýr veruleiki

Svo allrar sanngirni sé gætt þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem deilur um þingflokksherbergi koma upp eftir kosningar. Framsóknarflokkurinn þurfti að gefa eftir sitt sögulega herbergi til Vinstri grænna eftir kosningarnar 2009, þegar sá síðarnefndi varð miklu stærri en sá fyrrnefndi, og Píratar ásældust sama herbergi eftir kosningarnar 2016, þegar þingflokkur þeirra þrefaldaðist að stærð.

Það er einfaldlega eðlilegt að hlutirnir taki breytingum í takti við tímann. Framsókn, sem oftar en ekki hefur stýrt Íslandi með Sjálfstæðisflokknum eða verið þungamiðjan í þeim örfáu stjórnum sem myndaðir hafa verið án hans, hefur sannarlega fengið að upplifa það á síðustu árum. Í síðustu kosningum fékk hann einungis 7,8 prósent atkvæða og fimm þingmenn. Þrír af fjórum ráðherrum Framsóknar féllu af þingi. Sá flokkur þarf að aðlaga sig að nýjum veruleika.

Það sama gildir nú um Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið. Þegar flokkur bíður sögulegt afhroð í kosningum og tapar forystuhlutverki sínu í landinu þá hefur það eðlilega afleiðingar. Nýr veruleiki blasir við.

Það að láta málgagnið hamast á Ingu Sæland vegna þess að hún keypti sér hús á Ólafsfirði fyrir næstum sjö árum eða reyna að afla sér samúðar þjóðarinnar vegna tilfinningarofs milli flokks og herbergis breytir engu um það.

Reply

or to participate.