• Kjarnyrt
  • Posts
  • Hið augljósa eyðileggingarafl samfélagsmiðla

Hið augljósa eyðileggingarafl samfélagsmiðla

Það trúir því varla nokkur manneskja með sæmilega dómgreind að samfélagsmiðlarisarnir séu reknir með samfélags- eða lýðræðisleg markmið að leiðarljósi. Tilgangur þeirra er að safna upplýsingum um okkur til að græða peninga. Ef þau þurfa að valda skaða til að ná því markmiði þá hafa stjórnendur þessara gríðarlega valdamiklu fyrirtækja sýnt að það truflar þá lítið. Sú sýn hefur mikið með mörg þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir í dag að gera.

Þegar Facebook varð til fyrir rúmum tveimur áratugum þá var yfirlýstur tilgangur fyrirbærisins að tengja fólk saman. Með því væri það að mæta eftirspurn sem væri eftir slíkum tengslum og því væri tilvera Facebook ekki einungis réttlætanleg heldur eftirsóknarverð. 

Nú eru notendur Facebook, sem heitir nú Meta og á líka Instagram, Whatsapp og Threads, yfir þrír milljarðar. Það er varla nokkur með sæmilega dómgreind sem trúir því að einhver göfugur samfélagslegur eða lýðræðislegur tilgangur sé að baki tilvist fyrirtækisins. Þetta er grjótharður bisness og markmiðið er að græða peninga. Markaðsvirði Meta er yfir 1,5 billjónir króna, sem gerir það að sjöunda verðmætasta fyrirtæki í heimi. Velta og hagnaður þess á hverju ári er stjarnfræðilegur og fer stigvaxandi. Samandregið er Meta peningaprentunarvél fyrir eigendur Meta. 

Facebook, og aðrir miðlar undir hatti Meta, hagnast að mestu með því að safna saman upp­lýs­ingum um not­endur sína og selja til aug­lýsenda svo þeir geti, með hjálp algóritma, sett þær vörur og þjón­ustur sem þeir telja að not­endur gætu viljað kaupa fyrir framan þá. Umræddar vörur geta þrætt allan skalann. Þær geta verið drasl frá Temu, allskyns hugbúnaður sem lofar þér leið að betri heilsu eða frísklegra útliti eða stækur, og oft á tíðum hættulegur, pólitískur áróður. 

Vald Meta/Facebook er því gríðarlegt. Og fyrirtækið hefur ítrekað orðið uppvíst að því að misnota það. 

Fyrirtækið framar þjóðinni

Listinn yfir skaðann sem Meta/Facebook hefur valdið er langur. Fyrirtækið gerði til að mynda þriðja aðila kleift að safna upp­lýs­ingum um tugi millj­óna manna til að hag­nýta og selja í aðdrag­anda lýð­ræð­is­legra kosn­inga og ógna þannig frið­helgi einka­lífs­ins. 

Uppljóstrari sýndi fram á fyrir rúmum þremur árum að Meta/Facebook hunsi almanna­hag þegar hann ógnar gróða fyr­ir­tæk­is­ins. Í gögnum uppljóstrarans kom fram að fyr­ir­tækið hafi hylmt yfir sönn­un­­ar­­gögn um dreif­ingu fals­frétta og áróð­­urs í gróða­­skyni. Í skjöl­unum mátti líka finna upp­­lýs­ingar um hvernig Meta/Facebook flokkaði not­endur sína í „elítu“ og hefð­bundna, skað­­leg áhrif Instagram á ungar stúlkur hvað varðar lík­­ams­í­­mynd, og vægast sagt umdeildar til­­raunir Facebook til að ná til ung­­menna. Þetta er fjarri því tæmandi listi, enda var mottó fyr­ir­tæk­is­ins inn­an­húss lengi vel „fyr­ir­tækið framar þjóð­inni“. Þá nálgun má raunar yfirfæra á heimsbyggðina alla, enda Meta risastór alþjóðleg samsteypa. 

Eftir gríðarlegan þrýsting, og mikla neikvæða umfjöllun, brást fyrirtækið, og stofnandi þess Mark Zuckerberg, við með því að lofa að bæta sig með ýmsum hætti. Á meðal þess sem átti að gera var að fara í samstarf við allskyns staðreyndarvaktir til að draga úr falsfréttum og upplýsingaóreiðu á miðlinum. Fyrirtæki bannaði svo Donald Trump um tíma í kjölfar árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna árið 2021. 

Aukin skautun og meiri þvæla

Nú er allt breytt á ný. Trump er á leiðinni í Hvíta húsið aftur og naut til þess gríðarlegs stuðnings eiganda annars samfélagsmiðils, Elons Musk sem keypti Twitter fyrir nokkrum árum og breytti í hégómaheiminn X. 

Á meðal þess sem Musk hefur gert síðan þá er að breyta algóritmunum þannig að persónulegar færslur hans, sem oft á tíðum eru fullar af þvælu og lygum, séu sýnilegar mun fleirum en hafa sérstaklega lýst áhuga á þeim. Sömu sögu má segja um efni frá þeirri pólitísku hlið sem Musk og Trump tilheyra og upp á síðkastið er sá fyrrnefndi farin að reyna að endurtaka leikinn í Evrópu með stuðningi við þá flokka sem skilgreina sig þar lengst til hægri. Musk er einfaldlega með puttann á vogarskálum upplýsingamiðlunar og er ekkert sérstaklega mikið að reyna að fela það. Það hvernig hann hefur hagað málum sem eigandi X er, vægt til orða tekið, ekki til að draga úr áhyggjum vegna nýlegra frétta um að hann muni mögulega kaupa TikTok, sem annars gæti verið bannað í Bandaríkjunum.

Það hefur vakið nokkra athygli að Mark Zuckerberg hefur uppfært útlit sitt á síðustu misserum. Áður var hann nokkuð stöðugur í því að birtast opinberlega sem stereótýpískur tækninörd. Nú er öll áferð hans mun ríkari af testesteróni. Mynd: Skjáskot

Zuckerberg, sem hefur sjálfur gengið í gegnum einhverskonar snemmbúna miðlífskrísu, hefur undanfarið unnið hratt að því að aðlaga sig að þörfum Trump. Kannski spilar inn í að verðandi forsetinn hefur ítrekað hótað honum fangelsisvist vegna þess að hann telur Meta/Facebook hafa brotið á sér með ýmsum hætti. Niðurstaðan er að minnsta kosti sú að Zuckerberg ákvað, eftir fund með Trump í nóvember, að hætta samstarfi við staðreyndavaktir og láta notendum eftir allt eftirlit með mögulegri hatursorðræðu, upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Áferðin á þessari ákvörðun er sú að þetta sé gert til að draga úr ritskoðun og ýta undir málfrelsi. Raunveruleikinn er auðvitað sá að hún mun ýta enn meira undir skautun í samfélaginu. 

Milljarðamæringarnir sem stýra upplýsingunum

Zuckerberg og Musk eru á meðal valdamestu manna í heimi. Þeir hafa tekið sér ritstjórnarvald samfélagsmiðlanna sem þeir stýra og þar er ekki stuðst við hefðbundin viðmið vestrænnar blaðamennsku til að reyna að tryggja notendum sem bestar upplýsingar. Þar eru hagsmunir þeirra, hvort sem þeir eru viðskiptalegir eða pólitískir hverju sinni, settir framar öllu öðru. 

Það er ekki einungis þannig að þessir miðlar hafi styrkt stöðu sína, og orðið ráðandi í upplýsingadreifingu í heiminum, heldur hefur rekstrarumhverfi hefðbundinna fjölmiðla hrunið frá því að Facebook og sambærilegir miðlar urðu stað­al­bún­aður. Það er einfaldlega staðreynd að færri vilja greiða fyrir fréttir og frétta­vinnslu og sam­­­fé­lags­mið­l­­­ar, taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til fjölmiðla sem starfa, að minnsta kosti að hluta, á grunni samfélagslegra gildra. 

Nýlega birti ég tölur sem sýna þessa stöðu hérlendis. Þar kom fram að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands lækkuðu tekjur íslenskra fjölmiðla á árinu 2023, alls um fjögur prósent. 

Á því ári námu heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa ríflega 26,4 milljörðum króna, þar af féllu 13 milljarðar króna í skaut erlendra miðla sem borga flestir enga skatta á Íslandi, eða 49 prósent, á móti 13,5 milljörðum til innlendra miðla, eða 51 prósent. Árið 2012 fóru um fjögur prósent auglýsingatekna til erlendra miðla á borð við Google/Youtube og Meta/Facebook, sem taka til sín vel yfir 90 prósent af greiðslum vegna birtingar auglýsinga sem greiddar eru með greiðslukortum. Það ár fóru 96 prósent til innlendra miðla. Hér er því ekki um stigbreytingu að ræða. Þetta er eðlisbreyting. 

Afleiðing er atgervisflótti úr stétt blaða- og fréttamanna sem kristallast í því að starfandi í fjölmiðlum fækkaði um rúmlega helming milli 2013 og 2022. Fyrir vikið fá landsmenn minna af upplýsingum og fréttum frá ritstýrðum fréttastofum, og mun meira frá „vinum“ sínum á samfélagsmiðlum. 

Markvisst dregið úr dreifingu á ritstýrðu fréttaefni

Það eru ekki bara auglýsingatekjurnar sem Meta/Facebook hefur hirt. Fyrirtækið hefur líka, á undanförnum árum, markvisst breytt algóritmanum hjá sér til þess að hann sýni notendum minna af fréttaefni, sérstaklega hlekki af fréttasíðum. Samkvæmt samantekt frá lestrarmælingarfyrirtækinu Chartbeat þá drógust „referrals“, eða vísanir, inn á síður fréttamiðla af Facebook saman um 48 prósent á einu ári, frá nóvember 2022 til nóvember 2023 (62 prósent frá ágúst 2022 til ágúst 2023 samkvæmt annarri mælingu).

Vísanir hjá stórum alþjóðlegum fjölmiðlafyrirtækjum eru nú minna en fimmtungur af því sem þær voru árið 2020. Dæmi um stóra fjölmiðla með alþjóðlega skírskotun sem hafa upplifuðu samdrátt í vísunum frá því í ágúst 2022 til ágúst 2023 eru: 

  • Business Insider: 80 prósent samdráttur

  • The Guardian: 79 prósent samdráttur

  • The Daily Mail: 77 prósent samdráttur

  • The Mirror: 75 prósent samdráttur

  • BuzzFeed: 72 prósent samdráttur

  • The New York Times: 66 prósent samdráttur

  • CNN: 66 prósent samdráttur

  • Yahoo News: 66 prósent samdráttur

Stór breytingin á algóritmanum, sem dró enn úr vísunum, var gerð í maí 2023 og hún hefur haldist stöðugt síðan. Tilgangur Meta/Facebook með þessu virðist, samkvæmt greiningum, vera þríþættur. Í fyrsta lagi að draga úr dreifingu á efni sem sendir notendur út af Facebook. Í öðru lagi var talið að Meta/Facebook væri að reyna að gera miðla sína að minna umdeildu fyrirbæri. Í þriðja að fyrirtækið væri að bregðast við því að ríki eins og Ástralía og Kanada, sem hafa dregið vagninn í lagasetningu sem hefur það markmið að láta Meta/Facebook borga fyrir notkun á fréttaefni, og að hamla getu fyrirtækisins til að geta óáreitt hirt þær auglýsingatekjur sem það hirðir án þess að greiða fyrir það virðisaukaskatt í þeim löndum sem tekna er aflað. 

Er þetta gott?

Samtalið um hvort tækni- og upplýsingabyltingin, sem hófst þegar að snjallsímar og samfélagsmiðlar urðu órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi, sé af hinu góða eða hinu vonda er flókin. Það er auðvitað margt gríðarlega jákvætt við tækniframfarir. Árið 2006, þegar Facebook var enn að mótast, fór ég í heimsreisu. Helstu leiðir til að eiga samskipti við vini og vandamenn voru dýr símtöl í gegnum almenningssíma og netkaffihús, þar sem hægt var að ræða við þá sem maður hafði addað á MSN, ef þeir voru online. Nú eru nær allir, alltaf, online og með tölvu í vasanum. Það er hægt að hringja myndsímtöl með litlum sem engum kostnaði, oft á dag. Það er hægt að finna nær hvern sem þú þarft að ná í nokkuð auðveldlega og vera kominn í einhverskonar samband við viðkomandi innan sekúndna. Allskyns tækniframfarir hafa líka aukið lífsgæði okkar á ótrúlega margvíslegan hátt. Um þetta verður var deilt.

Að sama skapi verður heldur ekki deilt um þann skaða sem orðið hefur. Að tæknin hafi dregið úr persónulegum samskiptum, víða valdið félagslegri einangrun og átt virkan þátt í því að einmanaleiki er heimsfaraldur. Það verður heldur ekki framhjá því litið að samfélagsmiðlar leika lykilhlutverk í því að skautun, upplýsingaóreiða, falsfréttaflutningur og hatursorðræða fer sífellt vaxandi. Að traust milli almennings og lykilstofnana samfélagsins hefur dregist saman á grunni, oft á tíðum, rangrar upplýsingagjafar sem hefur pólitískan, ekki samfélagslegan, tilgang. 

Og staða ritstýrðra fjölmiðla, sem nálgast upp­lýs­inga­miðlun út frá við­miðum hefð­bund­innar og heið­ar­legrar blaða­mennsku, hefur gjörbreyst til hins verra. Dregið hefur úr fjölræði og mun auðveldara er fyrir sérhagsmunahópa að kaupa sig inn í umræðuna fyrir vikið með því að taka einfaldlega á sig taprekstur.  Mörkin milli skoðana og áróðurs annars vegar og ritstýrðra frétta hins vegar hafa orðið óljósari og hafa í einhverjum tilfellum horfið. 

Þetta getur varla verið staða sem við sættum okkur við. En samt gerum við það. Jafnvel þótt hún versni ár frá ári. 

Reply

or to participate.