• Kjarnyrt
  • Posts
  • Skrattinn málaður á vegginn án innistæðu í rammpólitískum tilgangi

Skrattinn málaður á vegginn án innistæðu í rammpólitískum tilgangi

Kvótinn sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki halda á, en er í eigu þjóðarinnar, er metinn á yfir 500 milljarða króna í bókum þeirra. Sú tala er þó sýnilega vanmetin og raunvirði kvótans, yrði hann seldur á markaðsvirði, vel rúmlega tvisvar sinnum sú tala. Það gríðarlega eigið fé sem bunkast hefur upp í geiranum á undanförnum árum setur hann í sérdeild í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir endalausar tilraunir stjórnmálamanna, fjölmiðla og lobbýista stórútgerða til að mála upp svarta mynd af stöðu sjávarútvegs í rammpólitískum tilgangi er staðan frábær og mjög bjart fram undan. Verð halda áfram að hækka, loðnukvóti er á leiðinni, mikil fjárfesting síðustu ár mun skila stóraukinni hagkvæmni og tollastríð virðast ekki hafa nein teljandi áhrif á aðgengi.

 

Kvótinn sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki halda á, en er í eigu þjóðarinnar, er metinn á yfir 500 milljarða króna í bókum þeirra. Sú tala er þó sýnilega vanmetin og raunvirði kvótans, yrði hann seldur á markaðsvirði, vel rúmlega tvisvar sinnum sú tala. Það gríðarlega eigið fé sem bunkast hefur upp í geiranum, á bakinu á eitt þúsund milljarða króna hagnaði fyrir skatta, á undanförnum árum setur hann í sérdeild í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir endalausar tilraunir stjórnmálamanna, fjölmiðla og lobbýista stórútgerða til að mála upp svarta mynd af stöðu sjávarútvegs er mjög bjart fram undan. Verð halda áfram að hækka, loðnukvóti er á leiðinni, mikil fjárfesting síðustu ár mun skila stóraukinni hagkvæmni og tollastríð virðast ekki hafa nein teljandi áhrif á aðgengi.

Morgunblaðið var í frídreifingu í gær, sem þýðir að blaðinu er dreift til tugþúsunda fleiri en borga fyrir áskrift óháð því hvort þeir vilji fá það eða ekki. Á forsíðu þess var stríðsfyrirsögn: „Tekjufall í sjávarútvegi“. Inni í blaðinu voru tvær stórar umfjallanir um sama mál og leiðari þess fjallaði sömuleiðis um svartnættið sem undirstöðuatvinnuvegurinn sé að rata í. Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, er að uppistöðu í eigu tveggja af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins.

Tilefnið var árleg kynning á upplýsingum úr gagnagrunni Deloitte um stöðu sjávarútvegs, sem fór reyndar fram á þriðjudag og hafði verið til umfjöllunar í miðvikudagsblaðinu líka, en því var ekki frídreift.

Forsíðan á frídreifðu Morgunblaðinu fimmtudagsins. Mynd: Skjáskot

Öll áherslan í fréttaflutningnum er á að tekjur hafi dregist saman milli áranna 2023 og 2024. Hughrifin sem reynt er að ná fram eru að hann sé vegna leiðréttingar veiðigjalda sem eru enn ekki komin til framkvæmda en ekki vegna þess að engin loðna var veidd á árinu 2024 á meðan að þær veiðar skiluðu tugum milljarða króna í tekjur árið áður.

Þegar gagnagrunnur Deloitte er skoðaður án flokkspólitískra gleraugna og án sagnar frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi þá er hann stórmerkileg heimild um gríðarlega öflugan atvinnuveg. Hér að neðan er farið yfir helstu staðreyndirnar sem þar birtast.

Langverðmætasta eignin er kvótinn

Íslenskur sjávarútvegur átti eigið fé upp á 516 milljarða króna í lok árs 2023. Hann ákvað að greiða eigendum sínum út 17 milljarða króna af þeim í arð í fyrra en restin sat eftir inni í fyrirtækjunum. Frá árinu 2010 nema arðgreiðslur út úr geiranum rúmlega 200 milljörðum króna á gengi hvers árs fyrir sig, en eru vitanlega enn meiri á raunvirði. Þegar horft er til þess að sjávarútvegurinn var með neikvætt eigið fé við bankahrunið, fyrir 17 árum síðan, þá hefur hagur fyrirtækjanna í geiranum, og þeirra sem eiga þau, vænkast um á áttunda hundrað milljarða króna á því tímabili. Hugsið aðeins um þá tölu.

Verðmætasta bókfærða eignin sem þessi fyrirtæki eiga eru aflaheimildir, kvóti, sem íslensk lög skilgreina reyndar sem „sameign íslensku þjóðarinnar“. Kvótinn er rúmlega helmingur allra eigna sjávarútvegsfyrirtækja. Hinar eru það sem kallaðir eru varanlegir rekstrarfjármunir (skip, vinnslur og annað slíkt tengt rekstrinum) sem metnir eru á 225 milljarða króna og svo það sem geirinn kallar „aðrar eignir“ sem metnar eru á 277 milljarða króna.

Hér sést hvert bókfært virði eigna útgerða á Íslandi er. Engar frekari skýringar er að finna um hvað felist í 277 milljarða króna eignum sem skilgreinar eru sem „aðrar”. Mynd: Deloitte

Um er að ræða upplýsingar frá geiranum sjálfum og því bestu fáanlegu upplýsingar um stöðu hans, sem oft hefur verið sveipuð leyndarhjúp. Þetta er í fyrsta sinn sem bókfært virði kvótans, eignar íslensku þjóðarinnar sem útgerðir bókfæra samt sem sína einkaeign, er birt í yfirferð Deloitte þegar hún er kynnt með viðhöfn á Sjávarútvegsdeginum sem fyrirtækið heldur í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök atvinnulífsins.

Virði kvótans er verulega vanmetið

Það er gagnlegt að taka fram, sérstaklega vegna þess að ef horft er til þeirra viðskipta sem verið hafa með kvóta milli sjávarútvegsfyrirtækja þá virðist virði hans verulega vanmetið í bókum geirans. Það útskýrist á því að mörg fyrirtæki bókfæra virði kvótans á því verði sem þau fengu hann.

Ef fyrirtæki fékk úthlutað kvóta við upphaf kvótakerfisins á krónur núll þá bókfærist hann á krónur núll. Ef hann var keyptur á tíunda áratugnum á slikk þá bókfærist hann á slikk, jafnvel þótt það væri augljóslega hægt að selja kvótann á mun hærri upphæð í dag.

Skoðum raundæmi. Þegar Síldarvinnslan keypti Vísi í Grindavík fyrir nokkrum árum, í einum stærstu viðskiptum sem orðið hafa innan sjávarútvegs, greiddi hún til að mynda 31 milljarð króna fyrir, að meðtalinni skuldayfirtöku upp á ellefu milljarða króna. Síldarvinnslan bókfærði kvótann sem hún keypti í viðskiptunum á 30 milljarða króna. Kvótinn var uppistaðan í því sem verið var að kaupa.

Bókfærður á minna en hálfvirði

Ef miðað er við viðskipti sem urðu með kvóta árið 2021 er heildarvirði hans sennilega yfir 1.200 milljarðar króna hið minnsta miðað við það verð sem hægt er að fá fyrir hann á markaði. Og sá verðmiði fer hækkandi samhliða því að verð fyrir sjávarafurðir hefur rokið upp síðustu misseri.

Það er til að mynda áætlað, samkvæmt upplýsingum úr nýlega birtum Peningamálum Seðlabanka Íslands, að útflutningsverð sjávarafurða verði 14 prósent hærra í ár en í fyrra. Þar segir enda að „alþjóðleg eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum hefur verið sterk og áhrif tollahækkana Bandaríkjanna virðast takmörkuð.“

Til að taka allt ofangreint saman þá bókfærir sjávarútvegur eign annarra sem sína. Hann segir að hrein eign sín, allar eignir umfram skuldir, séu rúmlega 500 milljarðar króna en sennilega er hún raunverulega í kringum 1.200 milljarða króna hið minnsta. Þessa hreinu eign getur geirinn veðsett til annarra verka, til dæmis til að fjárfesta í óskyldum geirum eða til að kaupa aðra út úr sjávarútvegi. Það gerir hann mjög mikið.

Því fyrirkomulagi svipar til þess að leigjandi íbúðar myndi bókfæra eignarhlut leigusalans sem sinn og taka ýmiss konar lán út á hann. Hljómar furðulega en þannig er kerfið sem Ísland hefur komið sér upp.

Minni hagnaður en metfjárfesting

Rekstrarhagnaður sjávarútvegs – fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og alla skatta – var 75 milljarðar króna í fyrra. Þegar rekstarhagnaður án söluhagnaðar er tekinn saman reyndist hann vera 56 milljarðar króna. Á myndinni hér að neðan sést hvaða gjöld greinin þurfti að greiða áður en endanlegur hagnaður hennar lá fyrir.

Fjármagnskostnaður jókst mikið milli ára og beit fast í afkomu sjávarútvegs. Mynd: Deloitte

Þar munaði langmest um 22 milljörðum króna í fjármagnskostnað, sem er tilkominn vegna þess að vextir og verðbólga voru svimandi háar breytur í óstjórn síðustu ríkisstjórnar. Allt í allt skilaði þetta greininni hreinum hagnaði upp á 32 milljarða króna.

Það var vissulega minni hagnaður en árið áður – dregst saman um 45 prósent milli ára – og fjölmiðlarnir í hugmyndafræðilega bandalaginu með efsta laginu í útgerð lögðu alla áherslu á þann punkt í sinni umfjöllun um skýrslu Deloitte. Undirliggjandi sögnin þar er sú að það sé ágjöf á sjávarútveg og því ótækt að leiðrétta leigugjöld hans fyrir aðgang að þjóðarauðlind.

En þar með er sagan öll alls ekki sögð. Í fyrra réðst sjávarútvegur nefnilega í gríðarlegar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum upp á alls 34 milljarða króna. Það er um 62 prósentum hærri fjárhæð en geirinn fjárfesti árið áður og met innan árs í krónum talið.

Svo er það blessuð loðnan. Hún er uppsjávarfiskur og skilaði þeim útgerðum sem hana veiddu tugum milljarða króna í tekjur árið 2023. Í fyrra varð hins vegar fullkominn loðnubrestur og fyrir vikið dróst uppsjávarafli saman um 42 prósent milli ára.

Veiðar á botnfiski – aðallega þorski og ýsu – sem eru uppistaðan af veiðum og vinnslu íslenskra útgerða skiluðu hins vegar meiri framlegð – tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði – í fyrra en árið 2023. Hún var 26 prósent 2023 en 28 prósent 2024.

Á myndinni sést skýrt hver áhrifin af loðnubresti voru á framlegð útgerða í fyrra. Mynd: Deloitte

Eitt þúsund milljarðar

Samtals greiddi sjávarútvegur 27,8 milljarða króna í opinber gjöld til eiganda auðlindarinnar á síðasta ári. Þar er um að ræða tekjuskatt, tryggingagjald, kolefnisgjald og veiðigjald. Veiðigjaldið alræmda var eitt og sér rétt rúmlega tíu milljarðar króna. Þessi beinu opinberu gjöld drógust saman um 14,1 prósent milli ára.

Frá 2009 og út árið 2024 hefur sjávarútvegur greitt rétt yfir 300 milljarða króna í þessi opinberu gjöld að kolefnisgjaldinu undanskildu. Deloitte er nýbyrjað að telja það með en gjaldið hefur verið um tveir milljarðar króna á ári síðustu ár og breytir ekki heildarmyndinni mikið.

Þessi tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður, auk þess sem búið er að taka tillit til fjárfestingar í geiranum, til dæmis í skipum eða vinnslu, sem býr til eign.

Hagnaður geirans áður en hann greiddi veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð var samtals rétt undir eitt þúsund milljörðum króna frá 2009 og út árið 2024. Af þessum hagnaði sat um 70 prósent eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 30 prósent fór í opinber gjöld.

Til að grípa aftur til líkingarinnar í byrjun greinarinnar þá hefur leigjandinn haft miklar tekjur af nýtingu eignarinnar, hefur greitt vel undir þriðjungi þess sem hann halar inn til eigandans en heldur sjálfur eftir vel rúmlega tveimur þriðju.

Stundum meira í arð en í gjöld til eiganda

Eigendur sjávarútvegs greiða sér ekki út hátt hlutfall af hagnaði í arð. Á tímabilinu 2009 til 2024 námu slíkar greiðslur, líkt og áður sagði, rúmlega 200 milljörðum króna á gengi hvers árs fyrir sig í sjávarútvegsfyrirtækjum. Uppreiknað með tilliti til verðbólgu er arðgreiðsluupphæðin þó miklu hærri. Miklu, miklu hærri.

Yfir þessu hafa eigendur sjávarútvegsfyrirtækja kvartað, það er að arðgreiðsluhlutfall af hagnaði sé lægra en í ýmsum öðrum greinum. Ástæða þess er þó sú að hagnaðurinn í krónum talið er svo gríðarlegur í sjávarútvegi að þótt ekki sé nema brot af honum borgaður út í arð þá er það samt miklu hærri upphæð en eigendur flestra annarra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu fá í slíkar greiðslur. Sum árin hafa arðgreiðslurnar meira að segja verið hærri en heildargreiðslur í opinbera sjóði.

Vegna þess að það þarf ekki að borga hátt hlutfall af myljandi rekstrarhagnaði út til að halda hluthöfunum ánægðum, gefa þeim tækifæri til að lifa góða lífinu og kaupa sig inn í aðra geira, þá hefur eigið fé bunkast upp í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og geirinn í heild bókfærði, líkt og áður sagði, yfir 500 milljarða króna sem slíkt í lok árs 2023. Það er meira eigið fé en stærsti banki landsins, Landsbankinn, átti um síðustu áramót þegar eigið fé hans var 326 milljarðar króna.

Annað sem liggur fyrir er að rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs – það hlutfall af tekjum sem situr eftir sem hagnaður þegar allur kostnaður hefur verið greiddur – var að meðaltali 24 prósent á árunum 2014 til 2023. Í íslensku viðskiptahagkerfi var þetta hlutfall níu prósent á sama tíma. Sjávarútvegur var því langarðbærasta atvinnugrein landsins á þessu tímabili. Lítil breyting varð á þessu hlutfallil í fyrra. Rekstrarhagnaðarhlutfallið var um 23 prósent.

Allt upp á við eftir samþykkt veiðigjalda

Og þá komum við að veiðigjöldunum. Þessum sem voru leiðrétt í sumar eftir fordæmalaust málþóf stjórnarandstöðu fyrir hönd, aðallega, fjögurra fjölskyldna og eins kaupfélags í sjávarútvegi sem eiga yfir 500 milljarða króna saman í eigið fé og vilja helst ekki borga meiri skatta. Það var allt týnt til. Landsbyggðin myndi sennilega leggjast í eyði, útflutningur Íslands hrynja, aflinn yrði fluttur óunninn til fátækari landa og kakan alræmda myndi dragast saman með þeim afleiðingum að engin mylsna myndi lengur hrynja af borði þeirra ríkustu fyrir hina til að slást um.

Ekkert af þessu rættist auðvitað. Einhverjir skuldsettir aðilar í sjávarútvegi hafa reynt að nota ferðina og klína hagræðingaraðgerðum sem þeir ætluðu alltaf að ráðast í hvort eð er á leiðréttingu veiðigjalda sem er ekki einu sinni komin til framkvæmda.

Flestir hinna hafa haft sig hæga síðustu mánuði enda virði skráðu sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja búið að aukast samtals um meira en 100 milljarða króna síðan að veiðigjaldafrumvarpið var samþykkt og hagnaður þeirra verið svo langt yfir áætlunum að sum þeirra hafa þurft að gefa út jákvæðar afkomuviðvaranir. Það þýðir á mannamáli að þau eru að vara fjárfesta við að þau séu að græða mun meira en þau ætluðu.

Hér að neðan sést glæra úr erindi Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar og formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem hann flutti á Sjávarútvegsdeginum í vikunni. Þar metur hann stöðu geirans á næsta ári.

Úr glærum sem fylgdu framsögu Gunnþórs Ingvasonar á Sjávarútvegsdeginum í vikunni. Glæran málar upp ansi aðra mynd en þá sem Morgunblaðið teiknaði á fimmtudag. Mynd: Skjáskot

Þess má geta að Síldarvinnslan, fyrirtækið sem Gunnþór stýrir, er nú metið á rúma 186 milljarða króna. Markaðsvirði þess hefur aukist um 56 milljarða króna frá því að veiðigjaldafrumvarpið var afgreitt og hagnaður Síldarvinnslunnar á þriðja ársfjórðungi 2025 var 68 prósent meiri en á sama tíma í fyrra.

Sáralítil áhrif í hefðbundnu árferði

Fjárlagafrumvarp næsta árs reiknar með að ríkissjóður fái 7,5 milljarða króna í viðbótartekjur vegna veiðigjalda árið 2026. Í skýrslu Deloitte er farið yfir fyrirhugaðar breytingar á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja vegna annars vegar leiðréttra veiðigjalda og hins vegar hærri kolefnisgjalda, sem ákveðin voru af síðustu ríkisstjórn. Ef þessar tvær breytingar hefðu báðar verið komnar til framkvæmda í fyrra og hitteðfyrra þá væri þetta hér að neðan niðurstaðan:

Hafa verður í huga þær sveiflur sem verða í sjávarútvegi vegna loðnukvóta og að eigið fé í geiranum er gríðarlegt. Lítil hlutfallsleg arðsemi á það skilar samt mjög mörgum milljörðum króna í hagnað. Mynd: Deloitte

Þar sést að ef búið hefði verið að leiðrétta veiðigjaldið um átta milljarða króna og hækka kolefnisgjaldið 2023 hefði hagnaður geirans farið úr 58 í 49 milljarða króna þegar loðna var veidd. Það eru allar breytingarnar. Bein opinber gjöld hefðu orðið rúmlega 41 milljarður króna.

Í fyrra, í fullkomnum loðnubresti, hefði hagnaðurinn farið úr 32 í 23 milljarða króna á frekar slöku rekstrarári.

Það er afar bjart fram undan

Þá skulum við taka þetta saman. Sjávarútvegur er í heild í gríðarlega sterkri stöðu. Eigið fé hans er nánast ofsafengið, og samt er það sennilega gríðarlega vanmetið. Hann er í þeirri einstöku stöðu að hafa heimild til að veðsetja eign sem hann á ekki til að fá lán til fjárfestinga, í geiranum en líka í óskyldum geirum. Uppgangur síðustu 17 ára á baki þessu er raunar lygilegur, enda hefur orðið til nokkurs konar fáveldisstétt á Íslandi skipuð stærstu eigendum útgerða. Það sést best á því að fjórar fjölskyldur og eitt kaupfélag eiga yfir 500 milljarða króna hið minnsta í hreina eign.

Það er afar bjart fram undan hjá sjávarútvegi og það eru ofsalega góðar fréttir fyrir þjóðarbúið. Verð eru miklu hærri í ár en þau voru í fyrra og búist er við að sú þróun haldi áfram. Tollastríðin í heiminum virðast ekki vera hafa nein áhrif á geirann og fram undan er loðnuvertíð sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi telur að geti skilað allt að 30 milljörðum króna. Ef loðnukvótinn verður meiri en nú er ætlað, sem er ekki ómögulegt, þá mun sú tala hækka enn frekar. Rekstrarhagnaður, arðsemi, framlegð og allt hitt sem notað er til að mæla árangur verður mun hærra árin 2025 og 2026 að óbreyttu en árið 2024, þrátt fyrir að útgerðir – aðallega þær allra stærstu – greiði aðeins meira í ríkissjóð fyrir afnot af auðlind.

Þetta sjá fjárfestar. Þess vegna hafa íslensku útgerðirnar sem eru skráðar á markað rokið upp um næstum 100 milljarða króna í virði eftir að veiðigjaldafrumvarpið var samþykkt í sumar.

Hér er engin ástæða til að mála neinn skratta á vegginn. En það er sennilega borin von að Sjálfstæðisflokkurinn/Morgunblaðið/Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segi ykkur frá því.

Reply

or to participate.