• Kjarnyrt
  • Posts
  • Guggan er sjaldnast áfram gul og það hefur ekkert með veiðigjöld að gera

Guggan er sjaldnast áfram gul og það hefur ekkert með veiðigjöld að gera

Áratugum saman hafa þær breytur í rekstri útgerða sem hafa mest áhrif á gangverk hans verið skýrar. Þær eru raungengi krónu, aðstæður á mörkuðum, fjármagnskostnaður á hverjum tíma, úthlutanir aflaheimilda, mögulegur aflabrestur og auðvitað sú staðreynd að stanslaust hefur verið hagrætt í geiranum samhliða því að stærri útgerðir taka yfir minni með tilheyrandi lokunum og tilfærslum. Sú hagræðing virkar vanalega þannig að útgerðir eru keyptar, vinnslum þeirra lokað og kvótinn er færður yfir á önnur skip. Þetta skilar útgerðum stórauknum hagnaði og efnahagslífinu meiri framlegð. Kerfið þjappast saman. Það hefur ekkert breyst þótt stórútgerðir sæti nú færis og kenni réttlatri leiðréttingu veiðigjalda um allt milli himins og jarðar.

Þau válegu tíðindi bárust nýverið að Vinnslustöðin ætlaði að loka fiskvinnslunni Leo Seafood, sem hún keypti ásamt systurútgerð hennar Ós árið 2023, og segja upp 50 manns. Vinnslustöðin mun samt sem áður veiða þann fisk sem var unninn í vinnslunni en hann verður nú unninn í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar, nýs fiskvinnsluhúsnæðis sem byrjað var að byggja í fyrra, auk þess sem sala á markaði verður aukin.

Forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar hafa kennt leiðréttingu veiðigjalda um þessa ákvörðun. Það er í besta falli óskammfeilið þótt það væri nokkuð fyrirséð að stórútgerðir landsins myndu sæta færist og klína allri hagræðingu á hóflega leiðréttingu á því gjaldi sem sjávarútvegur greiðir til eiganda auðlindar fyrir aðgang að henni. Leiðréttingu sem felur ekki annað í sér en að nú er miðað við markaðsverð þegar veiðigjöld ákvarðast í stað þess að sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga alla virðiskeðjuna ákveði það verð í innri viðskiptum.

Það þarf nefnilega ekki annað en að vera sæmilega læs til að sjá að lokun Leo Seafood er fyrst og fremst tilkomin vegna klassískrar hagræðingar sem fylgir kaupum stórútgerða á minni og rekstrarerfiðleikum sem voru komnir fram löngu áður en veiðigjöld verða leiðrétt. Hagræðingu sem hefur skilað þeim sem standa eftir í sjávarútvegi gríðarlegri framleiðniaukningu og arðsemi sem á sér ekki hliðstæðu í íslensku atvinnulífi.

Hin réttláta leiðrétting veiðigjalda kemur enda ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári.

Þeirra eigin ástæður fyrir tapinu

Ástæðurnar fyrir þessu öllu saman birtast skýrt í síðasta birta ársreikningi samstæðu Vinnslustöðvarinnar, vegna ársins 2024. Þar kemur fram að samstæðan skilaði um hálfs milljarðs króna tapi á árinu 2024 þrátt fyrir umtalsverðan rekstrarhagnað. Sú niðurstaða kom í kjölfar methagnaðar 2023 upp á 4,5 milljarða króna. Raunar hefur bara gengið helvíti vel hjá Vinnslustöðinni upp á síðkastið. Svo vel að eigendur hennar fengu alls um fjóra milljarða króna í arð á síðustu sex árum.

Það sem gerðist á milli áranna 2023 og 2024 hefur ekkert með veiðigjöld að gera. Samkvæmt skýrslu stjórnar Vinnslustöðvarinnar mátti þvert á móti rekja taprekstur í fyrra „að mestu leyti til þess að ekki voru gefnar út aflaheimildir í loðnu á rekstrarárinu og erfiðlega gekk að veiða aflaheimildir í makríl.“

Á sama stað segir að fjármagnsgjöld hafi verið „há á rekstrarárinu sökum ástands á fjármálamörkuðum og þar með hás fjármögnunarkostnaðar félagsins við kaup á félögunum Ós ehf. og Leo Seafood ehf. á árinu á undan.“

Guggan er aldrei alltaf gul

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Vinnslustöðin hefur ráðist í skuldsettar yfirtökur á öðrum félögum, meðal annars Ós útgerðarfélagi og Leo Seafood, á undanförnum árum. Þegar kaupin fóru í gegn fylgdi gamalkunnur söngur um að vinnslu yrði áframhaldið og fyrirkomulag veiða yrði með sama hætti. Það vita þó allir sem vilja að mestu verðmætin í svona yfirtökum eru fiskveiðikvóti og algengt að hagrætt sé í kjölfar slíkra kaupa, til dæmis með því að breyta fyrirkomulagi vinnslu og veiða. Um það geta að minnsta kosti 28 bæjarfélög víðsvegar um land, sem urðu fyrir því að kippt væri undan þeim tilverugrundvellinum þegar útgerðarmenn sem héldu á kvóta ákváðu að selja hann annað, vottað.

Slíkt skref er enn fyrirsjáanlegra þegar kaupandinn, í þessu tilfelli Vinnslustöðin, er nýbúinn að koma sér upp nýju fiskvinnsluhúsnæði sem getur tekið við vinnslunni af Leo Seafood. Sem er það sem gerðist.

Til viðbótar er Vinnslustöðin líka að reyna að selja eina togarann sem Ós átti og eftir stendur þá einungis kvótinn sem áður var á honum, sem var bókfærður á 2,7 milljarða króna fyrir rúmu einu og hálfu ári.

Guggan átti alltaf að vera á Ísafirði og að vera áfram gul. Þangað til að Samherji ákvað að hún ætti ekki að vera það lengur.

Þetta er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem stórútgerð kaupir minni, lokar vinnslunni, selur skipið og hirðir kvótann. Guggan varð á endanum ekkert alltaf gul og allt það.

Ógeðslega dýrt að skulda ógeðslega mikið

Þessar yfirtökur hafa gert það að verkum að skuldir Vinnslustöðvarinnar hafa aukist mikið, eða um meira en 50 prósent frá árslokum 2022 og fram að síðustu áramótum. Þá voru heildarskuldir samstæðunnar komnar í tæplega 44 milljarða króna á núvirði. Það hefur varla farið fram hjá neinum að kostnaður við lántökur er ansi hár og fjármögnunarumhverfið ansi krefjandi, svo vægt sé til orða tekið, vegna hárra stýrivaxta og langvarandi verðbólgu.

Það er því dýrt að skulda svona mikið. Fjármagnsgjöld Vinnslustöðvarinnar voru tæplega 2,7 milljarðar króna á árinu 2024 sem var rúmlega 530 milljónum krónum meira en árið áður, þegar hún keypti Ós og Leo Seafood. Til að setja þá tölu í samhengi þá greiddi samstæða Vinnslustöðvarinnar rétt undir hálfan milljarð króna í veiðigjöld á síðasta ári, eða minna en sem nemur auknum fjármagnsgjöldum hennar á því ári.

Fyrir yfirtökuna, á árinu 2022, borgaði Vinnslustöðin undir einum milljarði króna á ári í fjármagnsgjöld. Þau gjöld þrefölduðust á tveimur árum.

Ókosturinn við að gera upp í útlensku

Samkvæmt síðustu birtu upplýsingum gera um 250 íslensk fyrirtæki upp í erlendri mynt. Af öllum atvinnuvegum er það fyrirkomulag vinsælast í sjávarútvegi.

Vinnslustöðin er eitt þeirra fyrirtækja. Hún gerir upp í evrum en greiðir starfsmönnum á Íslandi laun í krónum. Slík uppgjörsaðferð bætir afkomu útflutningsgreina þegar raungengi krónu er veikt en gerir hana síðri þegar raungengið er sterkt, líkt og það er um þessar mundir. Þá rýkur kostnaður við laun og innlend þjónustukaup upp.

Þetta kemur reyndar skýrt fram í yfirlýsingu Vinnslustöðvarinnar vegna lokunar Leo Seafood, sé hún lesin til enda. Þar segir að gríðarlegar hækkanir á launakostnaði og sterk króna hafi gert rekstur Leo Seafood erfiðan. „Í tvö ár hefur verið unnið að hagræðingu sem hefur borið árangur en Leo Seafood er ennþá í taprekstri.“

Í samstæðureikningi Vinnslustöðvarinnar er að finna tölur sem styðja við þessi orð. Þar kemur til að mynda fram að tap Leo Seafood hafi verið 132 milljónir króna árið 2023 og tapið í fyrra var, miðað við núverandi gengi evru, rúmlega 200 milljónir króna. Eigið fé Leo Seafood var neikvætt um 104 milljónir króna um síðustu áramót. Það þýðir að miðað við bókfært virði allra eigna félagsins þá myndi enn vanta þá upphæð til að borga upp allar skuldir félagsins ef allar eignirnar yrðu seldar.

Þetta gerðist allt löngu áður en frumvarp um leiðréttingu veiðigjalda var einu sinni lagt fram.

Svo þarf að minna á sjávarútvegsangi Kaupfélags Skagfirðinga, eins risanna í íslenskum sjávarútvegi, sem á þriðjung í Vinnslustöðinni. Þegar vel gengur þá fer sama hlutfall af arðgreiðslum út úr Vestmannaeyjum og til Skagafjarðar. Á síðastliðnum áratug, þegar kaupfélagið hefur verið að koma undir sig fótunum sem stórveldi í sjávarútvegi, hefur eigið fé þess meira en tvöfaldast og stóð í tæplega 53 milljörðum króna í lok síðasta árs. Langverðmætustu eignir Kaupfélags Skagfirðinga eru tengdar útgerð og sú samstæða skilaði 709 milljón króna hagnaði á árinu 2024.

Ekki ásættanlegt að hagnast um tugi milljarða

Það er ekki bara Vinnslustöðin sem er að nota leiðréttingu veiðigjalda sem skálkaskjól til að ráðast í alls kyns hagræðingu, sem hefði hvort eð er átt sér stað. Gunnþór Ingvason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sagði nýverið að fleiri fyrirtæki myndu ráðast í uppsagnir og að ástæða þess væri leiðrétting veiðigjalda. Samkeppnishæfni geirans væri að minnka og kostnaðarliðir að hækka, meðal annars vegna þess að allar stærstu útgerðir landsins gera upp í evrum eða dölum og raungengi krónu er mjög sterkt um þessar mundir. En aðalástæðan væri samt veiðigjöld sem ekkert liggur enn fyrir hversu há verða.

Þegar Gunnþór er ekki formaður hagsmunasamtaka þá er hann forstjóri einnar stærstu útgerðar landsins, Síldarvinnslunnar, fyrirtækis sem hefur hagnast um yfir 70 milljarða króna frá árinu 2014. Síldarvinnslan birti uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins nýverið. Við það tilefni sagði Gunnþór að arðsemi væri ekki ásættanleg í sjávarútvegi.

Aukinn hagnaður og enn verið að fjárfesta

Í uppgjörinu kemur fram að rekstrarhagnaður Síldarvinnslunnar var 85 prósentum meiri á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Hreinn hagnaður hennar var 1,7 milljarðar króna og talið í uppgjörsmynt fyrirtækisins þá jókst hagnaðurinn um 34 prósent milli ára. Þetta var meðal annars vegna þess að veiði og vinnsla gengu prýðilega, verð voru há og sala gekk vel. Þá gat Síldarvinnslan leyft sér að geyma aflaheimildir til haustsins sem mun hafa jákvæð áhrif á rekstrartekjur hennar þá.

Úr uppgjörskynningu Síldarvinnslunnar

Gunnþór var líka í fréttum í maí þegar hann sagði að allar fjárfestingar yrðu settar á ís vegna þess að veiðigjöldum yrði breytt. Það stóðst þó ekki alveg því í ágúst tilkynnti Síldarvinnslan um að hún ætlaði að setja tvo nýja milljarða króna í fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, fyrirtæki sem hún keypti sig inn í fyrir 15 milljarða króna árið 2022 en hefur tapað umtalsverðum fjármunum það sem af er ári.

Úr uppgjörskynningu Síldarvinnslunnar,

Önnur aðfinnsla forsvarsmanna stórútgerða í slagnum um veiðigjöldin var að með því væri verið að færa fjármuni frá nærsamfélaginu og í aðra landshluta. Þau rök ganga ekki alveg upp í samahengi við fjárfestingu Síldarvinnslunnar, sem er með heimilisfesti í Neskaupstað á Austurlandi, í Arctic Fish, sem er með heimilisfesti á Ísafirði og starfsemi á Vesturlandi.

Ekkert óeðlilegt að hagræða

Það er ekki einungis Síldarvinnslan sem hefur aukið hagnað sinn það sem af er ári. Hagnaður Brims var til að mynda tæplega 1,6 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er næstum tvöfalt það sem hann var á sama tímabili í fyrra.

Brim hefur líka verið á annarri vegferð en Vinnslustöðin og verið með áherslu á að borga niður skuldir til að draga úr fjármagnskostnaði, í stað þess að auka við þær. Allt í allt eru skuldir Brims um 4,7 milljörðum króna lægri en þær voru um mitt ár í fyrra, sem þýðir að vaxtagjöld samstæðunnar á fyrri helmingi árs voru í heild næstum 190 milljónum krónum lægri en þau voru á sama tíma árið áður.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi Brims, sagði við Morgunblaðið í liðinni viku að það væri ekkert óeðlilegt við að hagræða í sjávarútvegi. Það hefði verið gert í áratugi og það verði gert áfram. Það sé líka skýrt að fleira kalli á hagræðingu en veiðigjöld, til dæmis sterkt raungengi íslensku krónunnar.

Ísfélagið, þriðja stórútgerðin sem er skráð á markað, var rekið með tapi á fyrri hluta árs og rekur það sjálft að mestu til gengisbreytinga. Það er bjartsýni í uppgjörsgögnum fyrirtækisins, sagt að markaðir hafi verið góðir á tímabilinu, verð á þorski og ýsu hafi hækkað mikið milli ára og verð á frosnum makríl- og síldarafurðum hafi haldist hátt.

Í árshlutauppgjöri þess segir líka að „veiking bandaríkjadollars hefur mjög mikil neikvæð áhrif á fjármagnskostnað félagsins á tímabilinu. Hækkun tolla í Bandaríkjunum mun hafa tiltölulega lítil bein áhrif, þar sem aðeins um fimm prósent af tekjum félagsins eru vegna viðskipta í Bandaríkjunum. Lítil loðnuveiði hafði talsverð áhrif á afkomu félagsins á tímabilinu.“

Þar hefur heldur ekki skort á fjárfestingu og tiltekið að Ísfélagið hafi þegar „lokið við að auka afköst fiskimjölsverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum og vinna er hafin við rafvæðingu hennar og byggð hefur verið ný frystigeymsla á Þórshöfn. Væntingar standa til að þessar fjárfestingar muni bæta reksturinn í framtíðinni auk þess sem félagið er áfram fjárhagslega afar sterkt til að takast á við frekari fjárfestingar og tækifæri á komandi árum.“

Virði allra hækkað frá samþykkt veiðigjalda

Þessi góði sláttur í skráðu sjávarútvegsfyrirtækjunum endurspeglast mjög vel í verðlagningu á hlutabréfum þeirra. Frá því að frumvarp um veiðigjöld var samþykkt um miðjan júlímánuð og þangað til um miðja liðna viku höfðu þau öll hækkað umtalsvert í verði. Ísfélagið um tæplega tíu prósent, Brim um sjö prósent og Síldarvinnslan um tæp níu prósent.

Varlega má áætla að samtals hafi markaðsvirði útgerðanna þriggja aukist um 27 milljarða króna á þessum rúma einum og hálfa mánuði, þrátt fyrir blessuð veiðigjöldin sem eru fram undan.

Svo er sannarlega enn sýnilegur áhugi á að kaupa í óskráðum útgerðum. Nýverið keyptu til að mynda hjónin Jakob Valgeir Flosason og Björg Hildur Daðadóttir tvo bræður Jakobs Valgeirs úr samnefndu útgerðarfélagi fyrir vestan.

Um var að ræða 25 prósenta hlut í útgerð sem skilaði um 620 milljón króna hagnaði árið 2023 og átti eigið fé upp á 6,8 milljarða króna í lok þess árs. Þótt kaupverðið á hlut bræðranna hafi ekki verið gefið upp þá má ganga út frá því að það hafi hlaupið á milljörðum króna miðað við þessa stöðu.

Veiðigjöldum hefur oft verið breytt

Leiðrétting veiðigjalda er grundvölluð á því að afkoma sjávarútvegs í heild er betri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Sú greiningarvinna sem unnin var vegna frumvarpsins sem samþykkt var í sumar er meiri en samanlögð greiningarvinna sem unnin hefur verið í fyrri breytingum samanlagt. Því var vandað verulega til verka og komið til móts við málefnalegar athugasemdir við þinglega meðferð, meðal annars með því að hækka frítekjumark veiðigjalda umtalsvert til að draga úr áhrifum á litlar og meðalstórar útgerðir út um allt land.

Hreinn hagnaður sjávarútvegs eftir greiðslu allra gjalda – þar með talið til hins opinbera og fjármálastofnana – og alla fjárfestingu var 67,5 milljarðar króna árið 2023. Á þremur árum, 2021 til 2023, var hann 190 milljarðar króna og eigendur útgerða greiddu sér út 63 milljarða króna í arð á þessum árum. Eigið fé sjávarútvegs var komið upp í 449 milljarða króna í lok árs 2022 og hefur vaxið umtalsvert síðan þá.

Þetta hefur meðal annars gert vegna þess að samþjöppun hefur átt sér stað í kerfinu, heimilt hefur verið að veðsetja kvóta sem útgerðirnar eiga ekki og við það hefur skapast svigrúm til aukinnar fjárfestingar og nýsköpunar. Þessi þróun hefur leitt af sér miklu meiri framleiðni í sjávarútvegi en auðvitað fækkað störfum samhliða.

Á myndinni hér að ofan, í dálknum lengst til hægri, sést að framleiðni í sjávarútvegi er langt um meiri en í öðrum lykilgreinum íslensks efnahags. Framleiðnin er næstum þreföld á við ferðaþjónustu. Mynd: Stjórnarráð Íslands

Svona er hægt að halda endalaust áfram og vísa í staðfestar tölur til að sýna fram á að það er gríðarleg umframarðsemi í sjávarútvegi á Íslandi. Geirinn hefur mjög mikið svigrúm til að greiða eiganda auðlindarinnar aðeins meira í leigu fyrir afnotin sem skila honum öllum þessum arði. Auðvitað munu aðrar breytur eins og skuldsetning, aflaúthlutun, staða á mörkuðum, raungengi krónu og hagræðing vegna yfirtöku hafa lykiláhrif á rekstur fyrirtækjanna sem starfa innan geirans.

Það hefur líka oftsinnis gerst áður að veiðigjöldum hefur verið breytt, stundum til hækkunar og stundum til lækkunar. Það að segjast taka ákvarðanir um rekstur útgerða á þeim grundvelli að ekkert myndi breytast í þessum efnum í fyrirsjáanlegri framtíð – sérstaklega í ljósi þess hversu umdeilt málið hefur verið áratugum saman – er því í besta falli barnalegt, og aðallega ótrúverðugt.

Reply

or to participate.