• Kjarnyrt
  • Posts
  • Er þjóðin bara að ruglast?

Er þjóðin bara að ruglast?

Örvinglun hefur gripið minnihlutann á Alþingi. Hann er sannfærður um að Íslendingar hafi einfaldlega ruglast þegar þeir kusu ranga flokka til valda í haust. Séu eitthvað ringlaðir þegar þeir segja í öllum könnunum að þeir kunni að meta verk og stefnu þessara sömu flokka. Skilji greinilega ekki hversu mikilvægt það var að stjórnmálaöfl sem var hafnað í kosningum reyni að taka lýðræðið úr sambandi ef þau fá ekki að ráða. Á meðan minnihlutinn ráfar um í myrkrinu í leit að einhvers konar pólitískum persónuleika þá er eina vöruframboðið sem hann getur boðið upp á hræðsluáróður og samsæriskenningar af ýmsum toga. Og fólkið í landinu sér í gegnum það.

Útgangspunkturinn í lýðræði er að vald eigi sér uppsprettu hjá fólkinu í viðkomandi samfélagi. Að stjórnmálamenn og -flokkar bjóði upp á hugmyndir um hvernig það samfélag eigi að þróast og svo kjósi fólkið milli þeirra hugmynda. Þau öfl sem njóti mests stuðnings fái að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Í fyrra gerðist það í annað sinn í lýðveldissögunni að meirihlutastjórn var mynduð eftir kosningar sem innihélt hvorki Sjálfstæðisflokk né Framsóknarflokk. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er því önnur fullnuma ríkisstjórnin sem situr frá 1944 án aðkomu valdaflokkanna tveggja.

Flokkarnir þrír sem skipa þá ríkisstjórn: Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins, hafa eðlilega aðrar hugmyndir um hvernig megi bæta samfélagið en flokkarnir sem hafa meira og minna stýrt íslensku samfélagi og þriðji flokkurinn sem nú er í stjórnarandstöðu, að uppistöðu mannaður pólitískum flóttamönnum úr þeim báðum.

Þær hugmyndir komu skýrt fram í kosningaáherslum stjórnarflokkanna í aðdraganda kosninga, í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eftir að hún var mynduð og í þingmálaskrá hennar þegar Alþingi hóf störf að nýju.

Það ruglaðist einhver og óboðnir fóru að stjórna

Það mátti alltaf reikna með harðri stjórnarandstöðu í kjölfar hreinna valdaskipta. Að það yrði kveinað. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn telja sig enda eiga einhvers konar hefðarrétt á valdi á Íslandi og viðbúið var að þeir myndu láta eins og niðurstöður kosninga, þar sem stjórnarflokkarnir fengu 36 þingmenn af 63 en gömlu valdaflokkarnir fengu báðir sína verstu niðurstöðu í kosningum frá upphafi, væru órökréttar.

Það áttu hins vegar fáir von á því að minnihlutinn á Alþingi myndi einfaldlega hafna framgangi lýðræðisins. Færi í sambræðing af setuverkfalli og frekjukasti sem birtist í formi málþófs, tafarleikja og þinglegra klækjabragða í málum af öllum tegundum, líka skýrum umbótamálum sem minnihlutinn er sammála. Að forsvarsmenn hans myndu fara í pontu Alþingis og segja að það væri heilög skylda að stöðva öll mál meirihlutans sem væru ekki þóknanleg flokkunum sem var hafnað í síðustu kosningum. Milli þess sem þau misstu nánast meðvitund af móðgunargirni og súrefnisskorti eftir að hafa festst á innsoginu.

Að það myndi í alvöru gerast að minnihlutinn á lýðræðislega kjörnu þjóðþingi hafi reynt að banna meirihlutanum að framkvæma kerfisbreytingu á því hvernig veiðigjöld eru reiknuð út. Að í stað þess hafi minnihlutinn rétt fulltrúum meirihlutans umslag með eigin frumvarpi sem hafði alla þá áferð að hljóta velþóknun stórútgerðarinnar og segja honum að leggja það fram í staðinn fyrir sitt eigið.

Að þingið væri í þeirri stöðu, mánuði eftir að það átti að ljúka störfum, að minnihlutinn hefði sett sögulegt Íslandsmet í kjaftavaðli úr pontu og væri búinn að hóta því opinberlega að margbæta það met ef ekki yrði farið að vilja fulltrúa verulegs minnihluta kjósenda í landinu.

Allt rökstutt með því að réttkjörinn meirihluti hlyti bara að vera tímabundið eitthvað að ruglast og minnihlutinn þyrfti því að hafa vit fyrir honum.

Það er þeirra lýðræði.

Það er glundroði ef við ráðum ekki

Við þessar aðstæður tók forseti Alþingis þá ákvörðun að beita ákvæði þingskaparlaga svo lýðræðið gæti fengið framgang. Sú ákvörðun var að öllu leyti ígrunduð á tvíþættu markmiði fulltrúalýðræðis: að tryggja vandaða umræðu áður en ákvarðanir eru teknar og að tryggja að vilji meirihlutans nái fram að ganga.

Viðbrögð minnihlutans, fylgitungla hans, málgagnanna og valdakerfisins sem allir framantaldir tilheyra við þessu voru ofsakennd. Svart varð hvítt og upp niður. Svo virtist að í huga margra innan þessa kerfis væri það andlýðræðislegt að lykilmál ríkisstjórna með meirihluta kjósenda á bakvið sig og níu manna meirihluta í þinginu fengi framgang.

Það felist í því einhvers konar glundroði að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, eða klofningur úr þeim, ráði ekki ferðinni í íslensku samfélagi.

Fólkið sem ræður ekki lengur. Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Í þessu einstaka máli, þar sem var verið að taka þá ákvörðun að láta veiðigjöld sem greidd eru fyrir aðgang að auðlind í eigu þjóðar taka mið af markaðsverði í stað þess að útgerðir ákveði einfaldlega sjálfar hvað þær borga, gekk ríkisstjórnin líka bersýnilega í skýrum takti við meirihluta þjóðarinnar.

Allir flokkarnir sem sitja í stjórninni boðuðu kerfisbreytingar á veiðigjöldum fyrir síðustu kosningar, bættu allir við sig verulegu fylgi og fengu saman rúmlegan meirihluta á þingi. Allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið árum og áratugum saman hafa sýnt að mikill meirihluti fólks í landinu taldi að skiptingin á auðnum sem yrði til vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind væri rammskökk.

Samtöl við fólkið í landinu, kannanir sem gerðar voru á afstöðu þess og skilaboðin sem birtust á öllum miðlum regnbogans á síðustu mánuðum sýndu skýrt að fólk skildi frumvarpið, miklu fleiri studdu það en voru á móti og sívaxandi stuðningur við ríkisstjórnina þrátt fyrir þá fordæmalausu stöðu sem minnihlutinn skapaði sýndi að vilji almennings var að málið yrði klárað. Í hugum margra var ekki einvörðungu verið að breyta gjaldtöku, heldur að brjóta upp valdakerfi sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna.

Minnihlutinn meðtók ekkert af þessu. Hans afstaða var áfram sem áður: Fólkið í landinu er bara eitthvað að ruglast.

Tveir af hverjum þremur landsmönnum misskilja

Í vikunni var birt niðurstaða könnunar sem gerð var um afstöðu fólks til þeirrar ákvörðunar forseta Alþingis að beita 71. grein þingskaparlaga til að hætta umræðu um veiðigjöld og láta greiða atkvæði um málið. Niðurstaða hennar er afgerandi: 65 prósent sögðu að hún hefði verið rétt og einungis 22 prósent voru henni andvíg. Það er svipað hlutfall og styður ríkisstjórnina, nánast það sama og hefur lýst yfir ánægju með störf forsætisráðherra, álíka fjöldi og studdi veiðigjaldafrumvarpið og sama hlutfall og er á þeirri skoðun að málþóf sé sóun á tíma þingmanna og starfsmanna Alþingis.

Alls sögðust 65 prósent aðspurðra vera ánægð með notkun ákvæðisins til að stöðva umræðu um veiðigjöld. Mynd: Prósent

Það er líka samsvarandi fjöldi og taldi að ríkisstjórnin hafi staðið vel að sölu á hlutum í Íslandsbanka í vor. Til samanburðar töldu sex prósent landsmanna að vel síðasta ríkisstjórn, skipuð Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, hafi staðið vel að sölu á hlut í sama banka vorið 2022. Tífalt fleiri voru sáttir með það hvernig núverandi ríkisstjórn seldi banka en þegar sú síðasta gerði það.

Minnihlutinn á þingi telur þetta samt allt bara einhvern misskilning hjá tveimur af hverjum þremur landsmönnum. Þetta fólk sem kaus stjórnarflokkanna, svaraði skoðanakönnunum, lýsti yfir afstöðu sinni á opinberum vettvangi og telur að áherslur stjórnarandstöðuflokkanna séu ekki þær sem eru líklegastar til að bæta samfélagið er bara að ruglast.

Einn stjórnarandstöðuþingmanna setti færslu á samfélagsmiðla þar sem hann gerði öllu þessu fólki sem hefur aðrar meiningar en hann um hvernig uppbyggileg þróun í samfélaginu er upp skoðanir, lífsafstöðu og tilfinningar. Hann lýsti stuðningsfólki stjórnarflokkanna sem „líklega bitrum“, „í vandræðum með sjálfsmynd sína“ og sagði að þeim fyndist þeir „ekki metnir að verðleikum“. Þarna væri saman kominn hópur sem þyki erfitt þegar öðrum gangi vel og, ef ég skil pistilinn rétt, sennilega hópur sem borgi minna til samfélagsins en hann þiggi og sem telji að þeir sem séu vel stæðir hafi „skarað eld að eigin köku með óeðlilegum hætti“.

Samandregið, samkvæmt þessu, er þorri þjóðarinnar bara blindaður af öfundsýki út í þá sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa ákveðið að séu framúrskarandi.

Verið hrædd við fólkið sem er að ruglast

Af hverju er stjórnarandstaðan að ganga svona af göflunum? Fyrir því geta verið nokkrar ástæður.

Ein er að gömlu valdaflokkarnir tveir eru í miklu tilvistarlegu öngstræti. Þeir eru þjakaðir af innanmeinum og forystukreppu. Þegar þeir fara ekki með vald virðast þeir án pólitísks persónuleika. Skilaboðin sem þeir senda kjósendum sínum eru út um allt. Enginn virðist ganga í takt.

Önnur ástæða er sú að til valda er komin ríkisstjórn sem vinnur á þeim forsendum að hér sé samfélag og samtakamáttur, ekki bara einstaklingar, fjölskyldur, tækifærismennska og valdabarátta. Að hægt sé að byggja upp það samfélag á hugsjónum frá botni upp, með almannahagsmuni að leiðarljósi, í stað þess að það sé rekið af valdstjórn frá toppi niður með aðgæslu sérhagsmuna í fyrirrúmi.

Það valdakerfi sem byggt hefur verið upp á Íslandi í tíð þeirra flokka sem oftast nær hafa stýrt landinu byggir í grunninn á að fólk geti aðallega hagnast á grundvelli betra aðgengis að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra sem það fær á gráa svæðinu milli viðskipta og stjórnmála.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lýsti þessari stöðu í viðtali fyrir rúmum fjórum árum þar sem hann sagði að Ísland væri „að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá.“ Það verður seint hægt að afskrifa Ásgeir sem vinstrivilling eða öfundarmann sem geti ekki sofið vegna þess að einhverjir séu að græða peninga. Þar fer maður sem sér allt sem hann vill í kerfinu.

Þetta valdakerfi er byrjað að molna niður vegna tilvistar sitjandi ríkisstjórnar, þar sem áherslan er á fólkið fyrst, svo allt hitt. Því lengur sem stjórnin verður við völd, því meira hriktir í þessum stoðum.

Ruglið í kringum samband

Þegar þetta opinberaðist þeim sem vanir eru að fara með vald og virðast telja að þeir hafi svipað eignarhald á því og útgerðir telja sig hafa á þjóðarauðlind, þá virðist örvinglun hafa gripið þá. Háttsemi minnihlutans á þingi á síðustu mánuðum, holan sem hann gróf sér við þinglok og ákvörðun um að halda áfram á þessari vegferð vanstillingar, rangfærslna, villandi málflutnings og gaslýsinga sýnir hann virðist ekki hafa neitt annað fram að færa en þetta. Eina pólitíska vöruframboðið er hræðsluáróður.

Það sést best í nýjasta útspilinu, því sem stjórnarandstaðan ætlar greinilega að leggja allt undir á að muni skila henni aftur að kjötkötlunum: andstöðu við Evrópusambandið.

Lengi hefur legið fyrir að íslensk þjóð vilji fá ákvörðunartökuvald um hvort Ísland eigi að ganga í það samband eða ekki. Árum saman hafa kannanir sýnt að fleiri eru fylgjandi inngöngu en andvígir og mikill meirihluti, næstum tveir af hverjum þremur, hefur þá skoðun að það eigi að spyrja landsmenn í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort það eigi að fara í viðræður um inngöngu.

Stjórnmálamenn gamla Íslands hafa hins vegar staðið í vegi fyrir því. Fyrir þeim hefur það verið pólitískur ómöguleiki að spyrja þjóðina. Hún gæti nefnilega ruglast, alveg eins og í öllum hinum málunum sem betur færi á að leyfa bara flokkum sem hafnað var í kosningum að taka ákvarðanir um.

Svo er hægt að bilast af rugli

Nú þegar við völd er ríkisstjórn sem treystir fólkinu í landinu til að taka ákvörðun um hvort Ísland eigi að fara í viðræður um aðild að Evrópusambandinu og ætlar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það á þessu kjörtímabili, þá hreinlega bilast stjórnarandstaðan og fylgitungl hennar af bræði.

Líkt og góður ráðherra ríkisstjórnar lýsti í hnitmiðaðri færslu á samfélagsmiðlum nýlega þá hlupu þau upp til „handa og fóta yfir því að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins heimsæki Ísland, að leiðtogi stærstu viðskiptablokkar heims, með mörgum okkar helstu vinaþjóðum, ræði við íslenska ráðamenn um viðskiptakjör Íslands og varnar- og öryggismál á breyttum tímum.

Loks eru nú settar fram samsæriskenningar um að Þorgerður Katrín ætli einhvern veginn að smygla Íslandi inn í Evrópusambandið og að Ursula von der Leyen taki við skipunum frá Kristrúnu Frostadóttur um það hvað hún eigi að segja á blaðamannafundum.

Þessar samsæriskenningar eru ekki settar fram af einhverjum bloggurum útiíbæ eða samfélagsmiðla-bottum heldur af helstu talsmönnum minnihlutans, gamalla og virðulegra stjórnmálaflokka á Alþingi.

Fólk sem talar svona, þyrlar upp hræðsluáróðri og beitir sér gegn vestrænni samvinnu með þessum hætti er upptekið við eitthvað allt annað en að gæta hagsmuna Íslands og gera samfélagið okkar betra.“

Það er eiginlega ekki hægt að orða þetta betur.

Kannski er enginn að ruglast

Pólitískur veruleiki á Íslandi er fyrir vikið þannig að nokkrir flokkar sem töpuðu síðustu kosningum telja að þeir þurfi að bjarga þjóðinni frá sjálfri sér. Að hún hljóti að vera að ruglast fyrst hún, í hverju málinu á fætur öðru, er ósammála þeim en sammála einhverjum bitrum flokkum sem eru bara öfundsjúkir út í ríka karla og uppfullir af fólki í vandræðum með sjálfsmynd sína. Í stað þess að hlusta á þjóðarviljann þá forherðast þeir og telja sjálfum sér trú um að á einhverjum tímapunkti hljóti fólkið í landinu að finna það sem gömlu valdaflokkarnir telja að sé leiðin heim.

Þetta sést til að mynda í nýjustu könnun Maskínu á fylgi flokka, sem er gerð um og eftir þinglok. Könnun sem mælir punktstöðu eftir fyrstu lotu kjörtímabilsins. Niðurstaðan er sú að stjórnarflokkarnir þrír eru að mælast með meira fylgi en þeir fengu í kosningunum í fyrrahaust og mesta sameiginlega fylgi sem þeir hafa mælst með á kjörtímabilinu. Minnihlutaflokkarnir þrír eru allir að mælast undir kjörfylgi og fylgi þeirra hrundi niður í sögulegar lægðir eftir að þingi var slitið.

Ný könnun Maskínu sýnir meðal annars að fylgi Sjálfstæðisflokks á Norðurlandi mælist 8,8 prósent. Mynd Maskína

Enda er þjóðin ekkert að ruglast. Hún er ekki áttavillt. Þvert á móti er hún loks með augun galopin. Hún sér skýrt hvað er í gangi og skilur það.

Að það sé ríkisstjórn í landinu sem ætlar að vinna fyrir fólkið í landinu og er tilbúin að taka slaginn við forhert og úr sér gengið valdakerfi ef með þarf. Ríkisstjórn sem ætlar að sýna að það er hægt að breyta.

Ekkert er ómögulegt. Það eina sem þarf er vilji og elja.

Reply

or to participate.