- Kjarnyrt
- Posts
- Við hvað eruð þið eiginlega hrædd?
Við hvað eruð þið eiginlega hrædd?
Tveir af hverjum þremur landsmönnum eru ánægðir með þær stóru ákvarðanir sem teknar hafa verið nýverið á sviði stjórnmálanna. Almenningur skynjar, eftir margra ára kyrrstöðustjórnmál, að það sé hægt að breyta hlutunum með rétta fólkinu og réttu flokkunum. Það er verið að draga úr sundrungu og byggja upp traust eftir áralangan klofning þar sem almenningur trúði því ekki að ráðamenn hefðu gengið sinna erinda. Fyrir vikið er komin fram tiltrú á stjórnmál og óþol fyrir pólitískri aðferðafræði sem byggir á því að hræða fólk, giska í eyðurnar og slást við ímyndaða strámenn. Aðferðarfræði sem minnihlutinn ætlar samt að halda áfram að beita í umræðum um samstarf Íslands við Evrópu.
Öllum sem fylgst hafa með var ljóst að allur þungi minnihlutans á Alþingi á fyrri hluta ársins var settur á að stöðva framgang frumvarps sem hafði þann tilgang að auka hlutdeild eiganda auðlindar í arðsemi af nýtingu hennar, og draga á sama tíma lítillega úr gríðarlegri arðsemi stórútgerða sem eru að uppistöðu í eigu fjögurra fjölskyldna og eins kaupfélags. Stjórnarflokkarnir stóðu í lappirnar gagnvart því þegar minnihlutinn ætlaði sér að banna samþykkt frumvarpsins og tók lýðræðið í gíslingu um leið. Fyrir vikið urðu óvenjuleg þinglok þar sem ákvæði þingskaparlaga var beitt til að stöðva umræðu eftir að Íslandsmet var sett í málþófi og þing var komið mánuð fram yfir þann tíma sem til stóð að slíta því.
Fyrir vikið þurfti að fresta afgreiðslu margra afar brýnna mála sem ríkisstjórnin og flokkarnir sem að henni stóðu voru búin að vinna vel, en minnihlutinn stóð í vegi fyrir að fengju afgreiðslu með tafarleikjum, málþófi og þinglegum klækjabrögðum.
Nú liggur fyrir nokkurs konar punktstaða eftir fyrstu lotu kjörtímabilsins. Í hverri könnuninni á fætur annarri síðustu vikur hefur álit landsmanna á því sem átti sér stað á síðasta þingi birst nokkuð skýrt.
Tveir af hverjum þremur ánægðir
Í nýlega birtri könnun Gallup kemur fram að um 65 prósent landsmanna segjast hlynnt frumvarpinu um breytingar á veiðigjöldum. Meginþorri fólks segist hafa kynnt sér það vel. Innan við fjórðungur landsmanna er andvígur frumvarpinu, sama hlutfall og sagðist hafa kynnt sér frumvarpið illa eða ekkert. Einu kjósendahóparnir sem eru í meirihluta andvígir því eru kjósendur Sjálfstæðisflokks og Miðflokks.
Nær sama hlutfall, um 65 prósent, sagðist sátt við ákvörðun forseta Alþingis um að beita heimild í 71. grein þingskaparlaga til að stöðva málþóf stjórnarandstöðu í veiðigjaldamálinu. Rétt yfir fjórðungur var ósáttur með þá ákvörðun.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, virkjaði 71. grein þingskaparlaga til að stöðva umræðu um veiðigjöldin. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna telur það hafa verið rétta ákvörðun. Mynd: Skjáskot
Rúmlega sjö af hverjum tíu voru á þeirri skoðun að málflutningur minnihlutans á Alþingi hafi verið málþóf til að hindra framgang veiðigjaldafrumvarpsins.
Um 64 prósent töldu að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu staðið sig betur en stjórnarandstaðan í umræðu og afgreiðslu veiðigjaldafrumvarpsins en undir 22 prósent töldu að minnihlutinn hefði staðið sig betur.
Heilt yfir, og samandregið, þá virðist vilji tveggja af hverjum þremur landsmönnum hafa fengið fram að ganga í stað þess að stefna sem um fjórðungur styður hafi fengið að vera ráðandi.
Aldrei meiri stuðningur við ríkisstjórnarflokka
Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur aldrei mælst meira en það gerir nú hjá Gallup, rúmum sjö mánuðum eftir að þeir tóku við völdum. Ef kosið yrði í dag myndu Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins fá 56 prósent atkvæða og 41 þingmann, eða fimm fleiri en þeir eru með. Það myndi þýða að stjórnarflokkarnir væru með tvo af hverjum þremur þingmönnum.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst á milli mánaða og mælist nú rúmlega 65 prósent. Aftur eru næstum tveir af hverjum þremur að baki ríkisstjórninni.

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast með 41 þingmann. Mynd: Gallup
Samfylkingin mælist nú með tvöfalt fleiri þingmenn en flokkurinn sem mælist næststærstur. Hún mælist stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins og hefur bætt verulega við sig í þeim öllum frá síðustu kosningum. Í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem fylgið er mest, er Samfylkingin til að mynda búin að bæta við sig rúmlega einum Sjálfstæðisflokki það sem af er kjörtímabili og fylgið þar er næstum þrisvar sinnum fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Allir í minnihlutanum hafa tapað fylgi
Sjálfstæðisflokkurinn tapar alls 1,9 prósentustigi milli kannana og mælist með 18,9 prósent, sem er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með á kjörtímabilinu. Hann tapar fylgi í öllum aldurshópum nema 18-29 ára, hjá báðum kynjum og í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi. Staðan hjá flokknum er nú þannig að 14,9 prósent kjósenda í Norðausturkjördæmi og Reykjavík norður styðja hann og eina kjördæmið þar sem fylgi Sjálfstæðisflokks fer yfir 20 prósent er í Suðurkjördæmi.
Framsóknarflokkurinn mælist með minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni mælst með í könnun Gallup frá árinu 1992, eða 4,9 prósent, og er það í fyrsta sinn í sögu hans sem fylgismæling fer undir fimm prósent. Það gæti leitt af sér að flokkurinn þurrkist út en flokkurinn myndi fá tvo þingmenn ef kosið yrði í dag. Framsókn tapar í öllum aldurshópum, hjá báðum kynjum og nær öllum kjördæmum. Í Reykjavíkurkjördæmunum mælist það 2,0 til 2,7 prósent og 2,9 prósent í Kraganum.

Málþóf og þinglegir klækjaleikir hafa ekki skilað minnihlutanum neinu nema auknu fylgistapi. Mynd: Gallup
Allir flokkarnir sem mynda stjórnarandstöðuna á þingi mælast nú undir kjörfylgi og saman hafa þeir tapað rúmlega fimm prósentustigum af þegar litlu fylgi sínu frá síðustu kosningum. Eins og sakir standa í dag þá styðja einungis um einn af hverjum þremur kjósendum Sjálfstæðisflokk, Miðflokk eða Framsókn, eða alls 34 prósent.
Þessar kannanir Gallup koma í kjölfar kannana sem Prósent og Maskína gerðu sem sýna nánast sömu stöðu. Í nýjustu könnun Maskínu kemur fram að ánægja með störf ríkisstjórnarinnar hafi aldrei verið meiri en eftir að hún stóð í lappirnar í veiðigjaldamálinu. Fylgiskannanir þess fyrirtækis bentu til þess að fylgi minnihlutaflokka hafi auk þess hríðfallið eftir að þingi lauk.
Tilvistarlegt öngstræti
Niðurstöðurnar sem birtast svo skýrt í öllum könnunum eru í fullu samræmi við þá tilfinningu sem við sem störfum með stjórnarflokkunum höfðum fyrir stöðunni. Að almenningur skynji, eftir margra ára kyrrstöðustjórnmál, að það sé hægt að breyta hlutunum með rétta fólkinu og réttu flokkunum. Að það sé komin tiltrú á stjórnmál að nýju. Og að sami almenningur hafi enga þolinmæði fyrir framgöngu minnihlutans.
Það er líka eðlilegt að velta fyrir sér af hverju stjórnarandstaðan var að ganga svona af göflunum. Fyrir því geta verið nokkrar ástæður.
Nokkuð ljóst er að gömlu valdaflokkarnir tveir – Sjálfstæðisflokkur og Framsókn – eru í miklu tilvistarlegu öngstræti. Þeir eru þjakaðir af innanmeinum og forystukreppu. Þegar þeir fara ekki með vald virðast þeir án pólitísks persónuleika.
Skilaboðin sem þeir senda kjósendum sínum eru út um allt. Enginn virðist ganga í takt. Varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins náði ágætlega utan um þessa stöðu í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á fimmtudag. Þar sagði hann að almennt megi ætla að traust minnki til stjórnmálaflokks eftir því sem þrammað er í þveröfuga átt við það sem viðkomandi flokkur á að standa fyrir. Hann leggur þar til að báðir gömlu valdflokkarnir „finni leiðir til að endurnýja hugmyndir sínar, það er, að skerpt sé á hugmyndafræði þessara stjórnmálaafla, almenningi til heilla, en minni áhersla lögð á að vernda hagsmuni einstakra aðila í samfélaginu.“

Grein varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um það hvort flokkurinn eigi að standa fyrir hugmyndafræði eða hagsmunagæslu. Mynd: Skjáskot/Morgunblaðið
Formaður Framsóknarflokksins hitti líka naglann óvart ágætlega á höfuðið í nýlegu útvarpsviðtali þar sem hann lýsti flokknum sínum sem hríslu sem bognar í rokinu en brotnar ekki. Það skilur enginn hvað það þýðir.
Svo er ekki langt síðan að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins viðurkenndi í viðtali að klofningur væri í flokknum hennar. Hún sagði að þeir sem myndu ekki ganga í takt við nýja formanninn yrðu skildir eftir og að stuðningsfólk hennar gengist við því að virk stjórnarandstaða væri innan hans gegn henni. Samkvæmt könnunum og fréttum af volki innan Sjálfstæðisflokksins liggur þó hvorki fyrir á þessari stundu hver takturinn til framtíðar á að vera né hver það verður á endanum sem verður skilinn eftir.
Þennan vandræðagang hinna nýtir skilnaðarbarnið Miðflokkurinn sér til að stýra stjórnarandstöðunni í pólitíska sjálfheldu heimóttarskapar og útlandaangistar.
Að slást við strámenn og tala tveimur tungum
Þegar allt ofangreint er tekið saman var eðlilegt að búast við því að minnihlutinn myndi horfa í eigin barm eftir þá útreið sem hann er að fá. Að hann myndi horfa inn á við, stilla sig af og byrja upp á nýtt. Leggja upp með nýja leikjafræði sem sýndi venjulega vinnandi fólki að hann væri með einhverjum hætti tengdur við þeirra veruleika. Það reyndist þó óskhyggja.
Þvert á móti virðist minnihlutinn telja heillavænlegast að gera bara meira af því sama og eyða allri sinni orku í að slást við strámenn. Sá stærsti er ímynduð ógn Evrópusambandsaðildar. Forsvarsmenn hans hafa eytt hásumrinu í að saka ríkisstjórnina um að vera að reyna að lauma Íslandi inn í sambandið bakdyramegin, að leynilegar aðlögunarviðræður standi yfir, að verið sé að kúga þjóðina til inngöngu.
Í ofanálag settu minnihlutaflokkarnir, ásamt málgögnum sínum, á svið helsúrt leikrit um hvort sú umsókn sem var lögð fram árið 2009 væri enn í gildi eða ekki. Þeirri sviðsetningu lauk skyndilega þegar sá sem hafði látið hæst með þetta, fyrrverandi utanríkisráðherra þjóðarinnar til margra ára, var minntur á skýrsludrög sem hann lét skrifa um málið fyrir sjö árum. Ráðherrann sjálfur er skrifaður fyrir inngangi þeirra og í drögunum kemur skýrt fram niðurstaða skýrslunnar, sem ber heitið „Mýrarljós í Evrópusamstarfi“, er skýr um að Ísland hafi aldrei afturkallað aðildarumsókn sína og að íslenskum almenningi hafi verið „gefin misvísandi skilaboð um endalok aðildarviðræðnanna sem enn hafa ekki verið skýrð til fulls.“
Þau stjórnvöld sem ríktu eftir 2013 og fram í desember síðastliðinn, sem innihéldu Sjálfstæðisflokkinn og að frátöldum örfáum mánuðum árið 2017 Framsókn líka, töluðu því tungum tveim í málinu. Beittu vísvitandi blekkingum.
Þau vissu að aðildarumsókn sem Alþingi samþykkti yrði ekki dregin til baka nema Alþingi samþykkti hana. Það var aldrei gert í öll þau ár sem þessir flokkar stýrðu landinu og því hefur umsóknin aldrei verið afturkölluð.
Hræðsla við eigin þjóð
Sama fólkið og þreytist ekki á að kvarta yfir því að stjórnvöld gæti ekki hagsmuna Íslands á alþjóðasviðinu með nægjanlegum hætti og gullhúði allt sem þaðan verst er nú brjálað yfir því að íslenskir ráðamenn hitti forsvarsmenn Evrópusambandsins til að ræða sameiginlega hagsmuni þess og landsins í viðskiptum og öryggis- og varnarmálum. Nú sér minnihlutinn eitt allsherjar samsæri í slíkri hagsmunagæslu og setur fram digurbarkalegar yfirlýsingar á innsoginu um að ríkisstjórn landsins sé að reyna að kljúfa þjóðina.
Og á hverju byggir þessi pólitíska hentistefnu-vænisýki? Á því að sitjandi ríkisstjórn hefur boðað að þjóðin fái að greiða atkvæði um hvort hún vilji fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið áður en þetta kjörtímabil er liðið. Það er allt og sumt.
Það kemur kjósendum Samfylkingarinnar ekki á óvart að slíkt ákvæði hafi ratað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur né að stunduð sé stífari hagsmunagæsla á alþjóðavísu. Í kosningaáherslum flokksins fyrir síðustu kosningar stóð enda: „Samfylkingin leggur ekki áherslu á framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB á næsta kjörtímabili. Flokkurinn mun beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna á réttum tímapunkti, til dæmis undir lok næsta kjörtímabils. Mikilvægt er að skapa góða samstöðu meðal þjóðarinnar um svo mikilvægt mál. Samfylkingin leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld nýti með markvissari hætti þau tækifæri sem felast í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), efli hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og bæti framkvæmd EES-samningsins.“
Eftir þessu er verið að fara upp á punkt og prik.
Á fjórðungur að ráða?
Málflutningur minnihlutans í þessu máli er ekki ósvipaður í grunninn og sá sem beitt var í veiðigjaldamálinu. Skilaboðin eru að flokkar sem mikill minnihluti kjósenda kaus, og enn færri styðja í dag, viti betur hvað sé þjóðinni best en hún sjálf.
Aðferðafræði sem byggir fyrst og síðast á því að giska í eyðurnar og hræðsluáróðri, ekki staðreyndum. Vönduð og umfangsmikil umræða, sem endar með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem allir kosningabærir landsmenn geta sagt skoðun sína á því hvort hefja eigi umræður, sé óþörf og beinlínis hættuleg.

Í forsíðuviðtali við Frjálsa verslun snemma árs 2014 sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, sem nú er formaður Sjálfstæðisflokks: eftirfarandi um aðildarviðræður við Evrópusambandið: „Ég tel að við hefðum gott af því sem þjóð að klára þessar viðræður og leyfa síðan þjóðinni að kjósa. Ég treysti þjóðinni algerlega í þessu máli.“ Mynd: Skjáskot/Tímarit.is
Skoðanakannanir hafa sýnt aftur og aftur að næstum sex af hverjum tíu landsmönnum eru fylgjandi því að greiða atkvæði um hvort Ísland taki aftur upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Fjórðungur hefur sagst vera því andvígur.
Minnihlutinn vill að þessi fjórðungur ráði.
Valdefling, ekki klofningur
Það er lýðræðislega heilbrigt að setja svona stóra ákvörðun í hendur þjóðar. Að treysta henni. Aðild að Evrópusambandinu hefur enda kosti og galla og það er eðlilegt að hver og einn meti þá á sínum forsendum. Þeim sem hafa sterkar skoðanir í hvora áttina sem er gefst fullt tækifæri til að koma þeim á framfæri á næstu misserum og þroska þannig umræðuna. Margir eru þegar farnir að gera það með uppbyggilegum og gagnlegum hætti frá andstæðum pólum.
Það er skynsamlegt að framkvæma slíka atkvæðagreiðslu seint á kjörtímabilinu svo að niðurstaða liggi fyrir í aðdraganda næstu kosninga. Þá standa allir stjórnmálaflokkar landsins frammi fyrir því að þurfa að segja upphátt áður en kosið er hvort þeir ætli sér að virða þjóðarviljann og framfylgja niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu eða halda áfram að segja fólki að þeir viti betur hvað sé því fyrir bestu.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort fara eigi í aðildarviðræður við Evrópusambandið klýfur því ekki þjóðina, heldur valdeflir hana. Hún eykur traust á stjórnmál vegna þess að stjórnmálin sýna að þau treysta dómgreind almennings til að velja hvað sé Íslandi fyrir bestu.
Þeir sem raunverulega klufu þjóðina eru flokkarnir sem hafa stýrt landinu á undanförnum árum og ákváðu að það væri aldrei tímabært að gera neitt sem máli skipti. Þeir sem skildu hana eftir með þá tilfinningu að stjórnmál virkuðu ekki. Þeir sem sögðu eitt en gerðu annað. Þeir sem lögðu mesta áherslu á að vernda hagsmuni einstakra aðila í samfélaginu en litla áherslu á samtakamátt og samfélagslega uppbyggingu.
Reply