• Kjarnyrt
  • Posts
  • Hvað hefðum við getað gert við peningana sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn færðu þeim efnuðustu?

Hvað hefðum við getað gert við peningana sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn færðu þeim efnuðustu?

Þær ríkisstjórnir sem sátu að völdum áratuginn áður en sú sem nú situr einblíndu mjög á ófjármagnaðar skattalækkanir fyrir tekjuhæstu landsmenn, eftirgjöf réttlátra gjalda á stóra atvinnuvegi, viðhald skattaglufna sem gagnast fjármagnseigendum, uppbyggingu stuðningskerfa fyrir þá sem þurftu ekki endilega á þeim að halda og beinar peningagjafir úr ríkissjóði til hópa sem hafa það betur en flestir aðrir. Á sama tíma jókst skattbyrði á venjulegt launafólk, mikilvæg tekjuöflunarkerfi voru látin drabbast niður, velferðarkerfi létu verulega á sjá og gríðarleg innviðaskuld safnaðist upp. Nú öskrar sama fólk og bar ábyrgð á þessum ríkisstjórnum á torgum um að afleiðingarnar af þessu vitaverða getuleysi sé allt þeim sem hafa setið að völdum í tíu mánuði, og eru að taka til eftir partíið þeirra, að kenna.

Nýlega var birt svar við árlegri fyrirspurn um skiptingu eigna og skulda á Alþingi líkt og þær birtast á skattframtölum. Þar kom fram að ríkasta 0,1 prósent landsmanna, sirka 276 fjölskyldur, hafi átt 391 milljarð króna í eigin fé um síðustu áramót. Þessi hópur skuldar lítið sem ekkert. Eiginfjárhlutfall hans af eignum er um 98 prósent. Hver fjölskylda innan hópsins átti tæplega 1,5 milljarð króna að meðaltali í eignum en skuldaði um 33 milljónir króna. Meðaltalið segir auðvitað bara hálfa söguna. Fyrir liggur að sumar fjölskyldur á Íslandi eru, eftir öðrum mælikvörðum en þeim sem Skatturinn styðst við, metnar á tugi ef ekki hundruð milljarða króna.

Frá byrjun árs 2017 – þess árs sem ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við völdum á Íslandi – og fram til loka síðasta árs þegar þeirri stjórn var loksins skipt út, þá jókst eigið fé ríkasta 0,1 prósent landsmanna um 189,4 milljarða króna. Það nánast tvöfaldaðist á þessum tæpu tveimur kjörtímabilum og um 3,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til í íslensku samfélagi á sama tíma. Það þýðir á mannamáli að hinir efnuðustu efnuðust mun hraðar en allir hinir á þessu tímabili. Ríku urðu ríkari.

Tekjur þessa hóps af heildartekjum landsmanna hafa líka farið vaxandi á síðustu árum. Árið 2015 voru þær 2,5 prósent þeirra og árin 2018-2020 2,4-2,6 prósent. Árið 2021, þegar stórtækar örvunaraðgerðir stjórnvalda og vaxtalækkanir Seðlabankans juku auð þeirra sem afla sér fjármagnstekna gríðarlega, fóru þær upp í 4,2 prósent heildartekna. Síðustu tvö árin hafa þær verið 3,3 prósent.

Alls eru 75 prósent allra tekna sem þessi ríkasti hópur landsmanna aflar fjármagnstekjur og hann tekur til sín um fjórðung allra slíkra sem verða til í landinu á ári hverju. Önnur leið til að líta á þetta er að ríkasta 0,1 prósentið þénar að jafnaði næstum jafn mikið í fjármagnstekjur og þau 90 prósent landsmanna sem eru með lægstu tekjurnar. Aftur, þetta eru 276 fjölskyldur.

Fjármagnstekjuskattur er 22 prósent á meðan tekjuskattur er þrepaskiptur, 31,49 til 46,29 prósent, eftir því hversu háar tekjurnar eru. Það er því umtalsvert skattalegt hagræði fólgið í því að þéna tekjur með því að láta fjármagn vinna fyrir sig í stað þess að fá greidd laun frá vinnuveitanda. Sá fyrrnefndi greiðir hlutfallslega miklu minna af tekjum sínum til samneyslunnar en sá síðarnefndi.

Kökusneið hinna ríkustu stækkar á ný

Það eru fleiri tíðindi í áðurnefndu svari. Þar kemur til að mynda fram að ríkasta eitt prósentið, um 2.760 fjölskyldur, átti 1.314 milljarða króna í eigin fé í lok árs 2024. Það skuldar líka lítið sem ekkert og eiginfjárhlutfallið er rúmlega 96 prósent. Hópurinn bætti við sig tæplega 82 nýjum milljörðum króna á síðasta ári, eða tæplega 14 prósentum af þeim nýja auð sem varð til hjá fjölskyldum landsins á árinu 2024.

Stóru fréttirnar eru hins vegar þær að í fyrsta sinn síðan 2010 jókst hlutfall ríkasta eins prósentsins af heildareigin fé landsmanna og mælist nú 14,3 prósent. Sömu sögu er raunar að segja með þau fimm prósent sem eiga mestar hreinar eignir. Sá hópur heldur nú á 34,8 prósentum af kökunni á Íslandi.

Síðasta útgáfa þeirrar ríkisstjórnar sem réð ríkjum á Íslandi á árunum 2017 til 2024. Mynd: Stjórnarráðið

Þessar tölur eru svo auðvitað verulega vanmetnar. Þessir hópar sem eru til umfjöllunar hér að ofan eiga til að mynda meginþorra þeirra hlutabréfa sem eru í eigu einstaklinga á Íslandi. Virði þeirra í tölum Skattsins er reiknað á nafnvirði, ekki á því verði sem hægt væri að fá fyrir bréfin ef þau yrðu seld. Það verð er miklu hærra. Ríkustu Íslendingarnir eiga líka fleiri fasteignir en meðal Jón og Gunna í launavinnu, sem eiga flest í besta falli þakið yfir höfuðið. Heimilið. Í tölum Skattsins miðar virði fasteigna við fasteignamat, en á mörgum stöðum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem langflestir landsmenn búa, þá er markaðsvirði fasteigna nær undantekningarlaust umfram það mat.

Svo á þessi hópur líka stóran hluta af úthlutuðum fiskveiðikvóta, sennilega verðmætustu eign sem hægt er að eiga á Íslandi. Þau eiga reyndar ekki þennan kvóta heldur leigja hann af ríkinu, en það er önnur og sorglegri saga sem þurfti hrein stjórnarskipti til að fara að skrifa með hag almennings að leiðarljósi. Kvótinn er bókfærður langt undir markaðsvirði sínu. Þar skeikar sennilega vel yfir 700 milljörðum króna þegar allt er talið til.

Juku skattbyrði á launafólk en léttu af eignafólki

Á sama tíma og ofangreind þróun átti sér stað í tíð síðustu ríkisstjórna þá jókst skattbyrði þeirra 90 prósent landsmanna sem voru með lægstu tekjurnar en skattbyrði þeirra tíu prósent sem þénuðu mest, og sérstaklega þeirra hópa sem fjallað var um hér að ofan, dróst saman. Ekki nóg með það heldur dróst kaupmáttur ungs fólks verulega saman og geta þess til að komast inn á húsnæðismarkað án þess að geta fengið meðgjöf frá foreldrum líka.

Á þessari mynd sést vel hvernig skattbyrði tekjuhæstu á Íslandi þróaðist frá 2013 til 2023, og þær auknu byrðar sem allir hinir voru látnir axla vegna þessa.

Þetta er allt saman ágætt að hafa í huga þegar riddarar verðleikanna, heilagir talsmenn efsta lagsins í samfélaginu inni á Alþingi, öskra sig ítrekað hása yfir aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar. Aðgerðum sem miða að því að láta kerfin virka fyrir venjulegt vinnandi fólk og vinna á þeirri hnignun velferðarkerfa sem varð á vakt fyrri valdhafa svo þeir gætu skammtað efsta laginu frekari fríðindum.

Aðgerðum sem hafa það skýra markmið að endurheimta efnahagslegan stöðugleika með ábyrgri hagstjórn, tiltekt í ríkisrekstrinum og öflun nýrra tekna fyrir ríkissjóð svo hægt sé að vinna á mörg hundruð milljarða króna innviðaskuld. Nýju tekjurnar munu koma í gegnum sjálfbæran hagvöxt annars vegar og með sanngjarnri skattlagningu á breið bök hins vegar. Til dæmis með álagningu eðlilegra auðlindagjalda og með því að loka skattaglufum svo sumir komist ekki hjá því að greiða sinn skerf til samneyslunnar. Ef Samfylkingin hefði fengið sitt fram þá hefði fjármagnstekjuskattur líka verið hækkaður með eðlilegri tilfærslu frítekjumarka þannig að sú hækkun myndi lenda fyrst og síðast á þeim tíu prósentum sem þéna 70 prósent allra fjármagnstekna í landinu. Það verður bara að bíða hreina meirihlutans.

En aftur að öskrunum. Það er ágætt að staldra við og hugsa aðeins út í það hver staðan í dag væri ef Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn hefðu ekki tekið þær ákvarðanir um ráðstöfun fjár og tækifæra sem ríkisstjórnir þeirra síðastliðinn rúma áratug tóku. Hvað hefði verið hægt að gera fyrir samfélagið fyrir alla peningana ef ríkisstjórnir þeirra hefðu ekki ákveðið að létta aðallega undir með þeim sem þurfa enga aðstoð. Sem áttu nóg fyrir.

Hefst þá hin dapurlega upptalning:

Þegar þau lækkuðu bankaskattinn

Árið 2021 var tekin ákvörðun um, sem hluti af mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, að lækka bankaskatt úr 0,376 prósent af heildarskuldum banka umfram 50 milljarða króna í 0,145 prósent. Þessi lækkun átti að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra.

Skattalækkunin, sem átti upphaflega að eiga sér stað í skrefum fram til 2024, minnkaði skattgreiðslur bankanna þriggja um samtals tólf milljarða króna frá því sem áður var áætlað. Ef bankaskatturinn hefði haldist óbreyttur væri lækkunin enn meiri og skilað mörgum milljörðum króna í ríkissjóð á hverju ári.

Bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkuninni og sagt að með henni myndi vaxtamunur – munurinn á því sem þeir greiða í vexti af peningum sem þeir fá lánað og þeim vöxtum sem þeir innheimta fyrir að lána peninga út – dragast saman. Lán til heimila og fyrirtækja yrðu, samkvæmt yfirlýsingum, ódýrari.

Það gerðist ekki. Samkvæmt skýrslu starfshóps Lilju D. Alfreðsdóttur, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra og sennilega verðandi formanns Framsóknar, um greiningu á gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem birt var í ágúst 2023 stungu Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og hluthafa sinna.

Þegar þau lækkuðu veiðigjöldin

Veiðigjöldum var komið á með herkjum árið 2012. Ríkisstjórn Villtu strákanna úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, undir forsæti núverandi formanns Miðflokksins, hóf samstundis að rífa þau niður þegar hún tók við völdum árið 2013 með því að innleiða á ný frádrátt bókhaldslegra afskrifta og vaxtagjalda.

Villtu strákarnir voru mjög gjafmildir við efnahagslegar yfirstéttir landsins.

Þegar það lá fyrir árið 2018 að gengisbreytingar væru að leiða til hækkunar á veiðigjöldum þá var ákveðið að endurskoða lögin svo það myndi nú alls ekki gerast.

Þessu er sitjandi ríkisstjórn þegar búin að snúa við og samþykkja lög sem gera það að verkum að þau fyrirtæki sem halda á kvóta greiði eiganda auðlindarinnar, fólkinu í landinu, sanngjarnt gjald fyrir þá nýtingu. Fjármunirnir sem það skilar ríkissjóði fara í að byggja vegi. Hjúkrunarheimili. Skóla. Halda meðferðarstofnunum opnum. Vinna á biðlistum. Og svo framvegis.

Ef sú leiðrétta útfærsla á veiðigjaldi sem nú er verið að innleiða hefði verið við lýði á árunum 2014-2023, og það hefði skilað 7,5 milljörðum króna í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð á hverju ári þess áratugar, þá hefði ríkissjóður haft úr 75 milljörðum króna til viðbótar að spila við að vinna á innviðaskuld og bæta þjónustu við landsmenn. Þess í stað fóru þeir 75 milljarðar króna til útgerða.

Þegar þau gáfu makrílkvótann

Árið 2019 var ákveðið að færa makríl, sem synt hafði inn í íslenska landhelgi nokkrum árum fyrr, í kvóta án endurgjalds. Sá kvóti, sem var talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði á þeim tíma, fór að langmestu leyti til stærstu útgerða landsins.

Þetta var launað með því að nokkrar stórútgerðir fóru í mál við ríkið og kröfðust yfir tíu milljarða króna í bætur vegna þess að þær fengu ekki nægilega mikinn kvóta. Eftir að fjölmiðlar upplýstu um bótakröfuna hættu þær allar við nema Vinnslustöðin og dótturfélag hennar Huginn. Þau héldu frekjukastinu til streitu sem skilaði því að Huginn fékk 250 milljónir króna í bætur en máli Vinnslustöðvarinnar var vísað frá vegna vanreifunar.

Þegar þau gáfu fjármagnseigendum afslátt

Nokkrar breytingar voru gerðar í álagningu fjármagnstekjuskatts í upphafi árs 2021, en um 70 prósent allra fjármagnstekna fara til ríkustu tíundar þjóðarinnar. Eftir þær breytingar þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði sem var undir 300 þúsund krónum og frítekjumark hjóna var hækkað upp í 600 þúsund krónur. Samhliða var ekkert gert til að koma í veg fyrir að persónuafsláttur væri líka nýttur á milli hjóna til frádráttar frá fjármagnstekjuskatti. Þannig varð til tvöfalt skattaafsláttarkerfi sem nýttist bara efnuðustu Íslendingunum.

Um er að ræða miklar fjárhæðir. Eftirgjöf fjármagnstekjuskatts vegna frítekjumarksins var 8,9 milljarðar króna í fyrra. Nú ætlar ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að hætta að heimila þeim sem greiða þessa skatta að nýta persónuafsláttinn. Enginn tvöfaldur afsláttur lengur í boði fyrir þá sem láta peninga vinna fyrir umfram þá sem vinna með höndunum eða höfðinu. Það mun skila ríkissjóði um 1,2 milljörðum króna í nýjar tekjur á árinu 2026.

Þegar þau leyfðu sköttum af bílum að hrynja

Á síðustu árum hefur orðið eðlisbreyting á bílaflota landsmanna. Í stað bíla sem eyða nokkuð miklu, og borga þar af leiðandi töluverð eldsneytisgjöld í ríkissjóð þegar eigendurnir taka bensín á hákana, eru komnir mun sparneytnari bílar og rafbílar, sem borga lítið eða lengi vel ekkert. Fyrir vikið hafa olíu- og bensíngjöld, sem eiga að standa undir samgönguframkvæmdum og viðhaldi, hrunið.

Á árunum 2010 til 2017 voru skatttekjur af ökutækjum og eldsneyti 1,7 prósent af landsframleiðslu að meðaltali. Í tíð síðustu ríkisstjórnar fjaraði undan þessum tekjustofni og hann var kominn niður í um eitt prósent af landsframleiðslu. Ef ekkert yrði að gert þá var fyrirséð að hann myndi fara yfir það mark. Fyrir vikið var ekki hafist handa við nein ný jarðgöng á síðustu tveimur kjörtímabilum og fjárfestingar í samgöngum hafa verið um 0,5 prósent af landsframleiðslu á ári, þegar meðaltalið í öðrum ríkjum OECD hefur verið eitt prósent. Afleiðingin er, samkvæmt Samtökum iðnaðarins og félagi ráðgjafaverkfræðinga, að uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu er komin í 265 til 290 milljarða króna og íslenskt innviðakerfi hefur ekki fylgt eftir vexti hagkerfisins.

Bílum sem ganga fyrir rafmagni hefur fjölgað gríðarlega hratt á Íslandi á skömmum tíma. Mynd: ON

Þessu er sitjandi ríkisstjórn að mæta með því að innleiða kílómetragjald á alla bíla og innleiða breytingar á vörugjöldum svo tekjur af ökutækjum geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem þarf að ráðast í í samgöngukerfinu. Svo hægt sé að bora göng. Leggja vegi og auka öryggi.

Þegar þau bjuggu til stuðningskerfi fyrir ríka

Árið 2014 innleiddi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar húsnæðisstuðningskerfi sem gagnast fyrst og síðast efstu tekjuhópunum. Þar er um að ræða skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar. Upphaflega átti úrræðið einungis að vera tímabundið til örfárra ára en var svo endurnýjað aftur og aftur og aftur. Alls hefur hið opinbera gefið eftir skatttekjur upp á sennilega um 90 milljarða króna á þeim rúma áratug sem úrræðið hefur verið í gildi vegna þess, og á síðustu fjórum árum einum saman nemur eftirgjöf þeirra 33 milljörðum króna.

Nú stendur til að láta almenna skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána falla niður um komandi áramót og móta nýjar leiðir í opinberum húsnæðisstuðningi sem styðja við þá sem þurfa virkilega á stuðningi að halda, ekki bæta við eignarmyndun þess tæpa þriðjungs þjóðarinnar sem á fyrir mest.

Þegar tekjuháir fengu styrk upp á milljarða

Til staðar hefur verið skattaleg ívilnun til sambúðarfólks þar sem annar aðilinn hefur tekjur í efsta skattþrepi en hinn ekki. Þá getur sá sem þénar meira nýtt sér skattþrep hins til að borga lægri skatta. Til að falla undir þessa skilgreiningu þarf tekjuhærri aðilinn að vera með að minnsta kosti 1.325 þúsund krónur í mánaðarlaun, eða tvöfalt hærri laun en miðgildi mánaðarlauna var á Íslandi í fyrra.

Einungis 4,1 prósent þeirra sem eru á skattskrá uppfylla þessi skilyrði og þorri þeirra á miklar hreinar eignir. Hlutfall íbúa sveitarfélaga sem njóta þessa skattafsláttar umfram aðra er hæst á Seltjarnarnesi og í Garðabæ, þeim sveitarfélögum þar sem hlutfallslega flestir eru með fjármagnstekjur. Þetta er því skattaafsláttur fyrir mjög fáa suma, og alls ekki alla.

Um er að ræða skattastyrk upp á 2,8 milljarða króna á ári sem nýtist aðallega vel settum körlum yfir miðjum aldri. Samkvæmt greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fer upphæðin öll til þeirra sjö prósent landsmanna sem þéna mest, um 700 milljónir króna fara til efsta prósentsins, 93,3 prósent fer til fimm prósent efstu í fimm prósent efsta laginu og meðalaldur þeirra sem njóta ívilnunarinnar er 52 ár. Tekjuhærri makinn er vanalega í efstu tekjutíund og sá tekjulægri í næstefstu, þeir sem njóta samnýtingar eru eignameiri en aðrir og hafa mun meiri fjármagstekjur en aðrir hópar.

Þeir sem njóta samnýtingar þrepa eru efsta tekjulagið í samfélaginu sem er með mestar fjármagnstekjur. Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stjórnarandstaðan lætur eins og allir sem hagnist á þessari skattaglufu séu í fæðingarorlofi, séu í námi, glími við veikindi innan fjölskyldu eða séu tekjulitlir vegna þess að tekjuhái makinn sé frá heimili vegna vinnu stóran hluta árs. Gögnin og greiningarnar hér að ofan sýna allt aðra mynd. Enn og aftur eru minnihlutaflokkarnir að nota venjulegt fólk sem skjöld fyrir breiðu bökin.

Reynt hefur verið að loka þessari skattaglufu í áratug, samkvæmt skýrum ábendingum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að þetta sé tómt rugl, en það stoppað af Sjálfstæðisflokknum í nefndum. Nú ætlar ábyrg ríkisstjórn loks að klára málið.

Þegar sumir geta stýrt hvað þeir borga í skatta

Ein umdeildasta skattaglufan sem er til staðar í skattkerfinu er hið svokallaða Ehf-gat. Áratugum saman hefur það verið það fyrirkomulag hérlendis að tekjuháir einstaklingar geti talið launatekjur fram sem fjármagnstekjur í gegnum einkahlutafélög og þannig komið sér undan því að greiða sömu skatta og annað launafólk. Þetta kallast reiknað endurgjald og býður upp á mikinn freistnivanda til að reikna sér laun langt undir raunlaunum en hærri fjármagnstekjur, sem bera lægri skattprósentu.

Svona glufa – tvöfalt skattkerfi þar sem massinn greiðir launaskatta í þrepum en lítill hluti fjármagnseigenda getur stýrt sinni skattagreiðslu sér í hag – er ekki til staðar á hinum Norðurlöndunum, þar sem fjármagnstekjuskattur er reyndar líka hærri en hann er hérlendis.

Alþýðusamband Íslands áætlaði fyrir nokkrum árum að hið opinbera verði af um átta milljörðum króna vegna þessa. Það eru sennilega yfir tíu milljarðar króna á núvirði. Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar voru úrbætur á þessu boðaðar og frumvarp þess efnis var bætt á þingmálaskrá í desember 2022. Það lét á sér standa og kom aldrei fram.

Þegar ríkissjóður gaf 110 milljarða í skaðabætur

Svo er það auðvitað blessuð Leiðréttingin, úrræði sem fól líka í sér að yfir 110 milljarðar króna á núvirði voru millifærðir úr ríkissjóði sem skaðabætur inn á hluta þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009.

Um 70 prósent þeirrar upphæðar fór til efnameiri helmings þjóðarinnar, tæplega 14 prósent fór til ríkustu tíu prósent landsmanna og á meðal þeirra sem fengu þennan styrk úr ríkissjóði fyrir rúmum áratug voru fjölskyldur sem greitt höfðu auðlegðarskatt, en til þess að gera það þurftu þær að eiga meira en tæplega 160 milljónir króna á núvirði í hreinni eign.

Þegar við sjáum afleiðingarnar

Þrátt fyrir allt ofangreint þá dirfast forvígismenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Miðflokksins, allt fólk sem ber alla ábyrgð á öllu ofangreindu, að láta eins og ástæðan fyrir því að velferðarkerfið sé víða í erfiðleikum sé ríkisstjórn sem hefur setið í tíu mánuði að kenna.

Að hún hafi átt að vera búin að laga öll þessi kerfi sem voru fjársvelt svo síðustu ríkisstjórnir gátu fært hundruð milljarða króna til tekjuhæstu hópa samfélagsins í stað þess að fjárfesta í velferð og byggja upp innviði. Að hún beri sennilega líka ábyrgð á því að ríkissjóður hafi verið rekinn á yfirdrætti í næstum áratug svo hægt væri að fjármagna þessa gúmmítékka til efsta lagsins. Þessi holi hljómur væri fyndinn ef hann væri ekki svona óskammfeilinn.

Það má reyndar fagna því að allt þetta fólk í minnihlutanum, sem sýndi af sér vítavert og endurtekið ábyrgðarleysi við stjórn efnahagsmála árum saman, hafi svo mikla trú á nýrri stjórn að hún eigi að laga allt á svo skömmum tíma. Það hefur enda mikið verið gert, og enn meira við sjóndeildarhringinn, en engum dylst að það er gríðarlega mikið eftir.

Það kostar nefnilega að reka samfélag. Það þarf auknar tekjur til að standa undir uppbyggingu þess. Þær er hægt að finna með hagræðingu, tiltekt og aukinni verðmætasköpun. Í öruggum skrefum munum við komast á réttan kjöl og kveðja tilfærslutímabilið þar sem stjórnvöld höfðu þá meginstefnu í efnahagsmálum að auka eigið fé sumra, á kostnað allra hinna.

Og á þeim skrefum ber ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur sannarlega alla og óskoraða ábyrgð.

Reply

or to participate.