Hvað var verið að fela?

Á Íslandi eiga nokkrar fjölskyldur mörg hundruð milljarða króna auð sem þær hafa eignast með nýtingu á þjóðareign. Þann auð hafa þær nýtt til að kaupa sig inn í óskyldan rekstur í viðskiptalífinu. Fyrir liggja upplýsingar um sterka stöðu þeirra í smásölu, fjölmiðlum, fasteignaviðskiptum, heildsölu, fjármálakerfinu og jafnvel í sósugerð. Heildarmyndin um ítök stærstu eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna í íslensku samfélagi liggur þó ekki fyrir og fyrri tilraunir til að varpa ljósi á hana hafa mætt mótstöðu fyrri stjórnvalda. Nú á loksins að birta þessa mynd enda engin þörf á leynd ef enginn hefur neitt að fela.

Í vikunni samþykkti Alþingi beiðni Dags B. Eggertssonar og tólf annarra þingmanna um að kortleggja eignarhald 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og eigenda þeirra í óskyldum rekstri á Íslandi. Þetta var í annað sinn sem Dagur er fyrsti flutningsmaður hóps þingmanna sem lagði fram beiðnina en ekki tókst að vinna skýrsluna á síðasta þingi.

Áður hafði Hanna Katrín Friðriksdóttir, þá þingmaður en nú ráðherra, verið fyrsti flutningsmaður af 20 sem lögðu fram sambærilega skýrslubeiðni árið 2020 sem þáverandi sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tók átta mánuði í að svara. Eða svara ekki.

Þingmennirnir vildu að ráðherrann myndi láta taka saman fjárfestingar útgerðarfélaganna, dótturfélaga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu tíu árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019. Í beiðninni var sérstaklega farið fram á að í skýrslunni yrðu raunverulegir eigendur þeirra félaga sem yrðu til umfjöllunar tilgreindir og gerð samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.

Skýrslan sem var birt svaraði ekki að neinu leyti því sem spurt var um og bar fyrir sig alls konar ómöguleika sem síðar hefur verið sýnt fram á að stóðust enga skoðun. Þær tölur sem settar voru fram í skýrslunni sýndu hvorki krosseignartengsl né ítök útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi.

Skýrsluhöfundar héldu því meðal annars fram að persónuverndarlög hömluðu því að hægt væri að birta upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækjanna 20. Fyrir vikið var ekkert yfirlit að finna yfir þau fyrirtæki sem útgerðarmenn og aðilar tengdir þeim hafa keypt í óskyldum geirum í skýrslu sem átti fyrst og síðast að sýna slíkt yfirlit. Persónuvernd gerði alvarlegar athugasemdir við þessa túlkun og sagði skýrsluna byggja á rangfærslum.

Þeir sem ráðherrann fékk til að gera skýrsluna vissu auðvitað að upplýsingarnar sem settar voru fram í henni væru þvæla. Á einum stað sögðu þeir enda beint út að það verði að hafa „fyrirvara um ályktanir sem kunna að verða dregnar af þeim tölulegu gögnum, um bókfært virði fjárfestinga, sem skýrslan byggir á.“

Með öðrum orðum: Það var ekkert að marka niðurstöður þessarar skýrslu.

Hanna Katrín sagði í viðtali þegar skýrslan birtist að hún vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta. „Ég hallast frekar að því að hlægja. Það er eitthvað fyndið við að þetta skuli verða niðurstaðan. Að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forðast að umbeðnar upplýsingar kæmust fyrir augu almennings fyrir kosningar […] Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurningu: hvað er verið að fela?“

Auðsöfnun gefið forskot

Í skýrslubeiðni Dags var sérstaklega tekið fram að hún byggi á sama grunni og sú sem Hanna Katrín lagði fram en þó með breytingum til að upplýsingabeiðnin næði að bregða frekari birtu á viðfangsefnið, meðal annars með því að horfa til skilgreininga samkeppnislaga um tengda aðila og spurningu um krosseignatengd félög. Viðbæturnar voru gerðar til að bregðast við áðurnefndum ómöguleika sem nýttur var til að svara ekki síðast. Þær eiga að tryggja að almenningur fái að vita.

Dagur sagði í færslu vegna þessa að margt bendi til þess að „arður af auðlindinni hafi ekki nema að takmörkuðu leyti ratað til þjóðarinnar og hafi auðsöfnun fyrir vikið gefið forskot og færi til stórra fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja og eigenda þeirra í miklum fjölda fyrirtækja í óskyldum rekstri. Mikilvægt er að lýsa gegnum þessa þróun, sem staðið hefur árum saman og vonandi verður þess ekki langt að bíða að skýrslan líti dagsins ljós.“

Fleiri skref hafa verið stigin á þessu ári til að varpa ljósi á stöðu mála í þessum gríðarlega mikilvæga geira á Íslandi, sem stendur undir 18 prósent af útflutningi þjóðarinnar. Á síðasta þingi var til að mynda lagt fram prýðilegt frumvarp sem var ætlað að auka gagnsæi í sjávarútvegi, aðlaga leikreglurnar sem tíðkast hafa í sjávarútvegi við aðrar og skilgreina systkini og sambúðarfólk sem tengda aðila. Það frumvarp hlaut ekki afgreiðslu vegna málþófs, tafarleikja og pólitískra klækja minnihlutans á Alþingi. Fyrirstöðu sem lagt var í til að reyna að koma í veg fyrir réttláta leiðréttingu veiðigjalda.

Vonandi verður það frumvarp lagt aftur fram sem fyrst, enda vita allir með réttu ráði að systkini eru tengd og eiga að vera skilgreind þannig samkvæmt lögum.

Ríkustu Íslendingarnir

Ein skýrasta birtingarmynd þess að staða sjávarútvegs er einstök á Íslandi felst í því að hann hefur hagnast um að minnsta kosti vel á sjöunda hundrað milljarða króna frá árinu 2009. Á árunum 2021, 2022 og 2023 einum saman var hagnaðurinn 190 milljarðar króna. Þessi gríðarlega auðsöfnun þess fámenna hóps nokkurra fjölskyldna sem tekur mest til sín í geiranum setur þau í sérflokk í íslensku atvinnulífi. Flokk sem þau hafa ratað í á baki þess að fá að veiða mest allra af sameiginlegri auðlind þjóðar.

Í sérútgáfu Frjálsrar verslunar, tímarits í eigu útgáfufélags Viðskiptablaðsins, sem kallaðist „Ríkustu Íslendingarnir“ og kom út vorið 2023 voru til að mynda flest efstu sætin skipuð fólki úr þessum fjölskyldum. Í öðru og þriðja sæti voru frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján V. Vilhelmsson, kenndir við Samherja, ásamt fjölskyldum sínum, sem voru á þeim tíma metnir samanlagt á 220 milljarða króna. Ef einungis er horft til þess að sá auður hafi haldið í við verðlagsbreytingar þá má ætla að hann sé nú kominn yfir 250 milljarða króna. Lögmál íslensks viðskiptalífs segja þó að sennilegast sé að Samherja-fjölskyldurnar hafi ávaxtað sitt pund enn meira en það.

Fjölskyldur úr sjávarútvegi voru fyrirferðamiklar á lista tímarits eigenda Viðskiptablaðsins um ríkustu Íslendinganna sem kom út fyrir rúmum tveimur árum. Mynd: Skjáskot

Þessar eignir eru ekki einungis í sjávarútvegi, heldur í mörgum öðrum geirum. Inni í þessu mengi er meðal annars fjárfestingaarmur sem kallast Kaldbakur og átti eignir upp á 42 milljarða króna í lok síðasta árs. Á meðal þeirra eigna er átta prósenta hlutur í smásölurisanum Högum, stór hlutur í Sjóvá, allsráðandi hlutur í Jarðborunum og Slippnum á Akureyri auk þess sem félagið hefur fjárfest í ýmsum tæknifyrirtækjum.

Á síðustu árum hafa þessar eignir að mestu leyti verið fluttar frá foreldrum til barna með blöndu af fyrirframgreiddum arfi og „sölu“ með lánum frá foreldrum.

Í snertingu við flesta á hverjum degi

Ísfélagsfjölskyldan, Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, sátu í fimmta sæti á þessum lista tímarits eigenda Viðskiptablaðsins með auð sem var metinn á 80 milljarða króna fyrir tæpum tveimur árum. Þá var ekki búið að sameina Ísfélagið og Ramma í eitt og skrá það félag á markað, en sameiginlegt félag, þar sem félag Ísfélagsfjölskyldunnar á næstum helming, er nú metið á um 100 milljarða króna.

Auk þess á fjölskyldan meðal annars ÍSAM, eina stærstu heildverslun landsins sem flestir Íslendingar komast í snertingu við eignir frá á hverjum degi, stóran hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrirtækið Fastus sem selur vörur til hótela, veitingastaða og ýmiss konar heilsutengdan varning, á Korputorg eins og það leggur sig og er stórtæk í fasteignaþróun víða. Svo fátt eitt sé nefnt.

Beint á eftir Ísfélagsfólkinu á listanum var Guðmundur Kristjánsson í Brimi sem var metinn á 75 milljarða króna fyrir rúmum tveimur árum síðan. Hann er langstærsti eigandi Brims gegnum Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 44 prósenta hlut í Brimi. Hann er auk þess forstjóri fyrirtækisins til viðbótar við að vera stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hagsmunagæsluarms sjávarútvegsins. Útgerðarfélag Reykjavíkur er líka í eigin útgerð og Guðmundur er eini eigandi félagsins.

Guðmundur og Brim rötuðu í fréttirnar nýverið þegar fyrirtækið keypti Lýsi á 30 milljarða króna.

Fjármál, eldsneyti, matur, lyf, fjölmiðlar, sósur

Í níunda sæti á títtnefndum lista voru Eskjuhjónin þau Björk Aðalsteinsdóttir, dóttir Alla ríka, og eiginmaður hennar, Þorsteinn Kristjánsson, sem eiga samnefnda útgerð og voru sögð eiga 50 milljarða króna í auð. Á meðal eigna þeirra í óskyldum rekstri er hlutur í Streng, sem er ráðandi eigandi í Skel fjárfestingafélagi. Skel er skráð á markað og á hluti í fasteignafélaginu Kaldalóni, fjármálafyrirtækinu Skaga (eiganda VÍS) sem er nú í samrunaviðræðum við Íslandsbanka, og Dröngum (eiganda Samkaupa, Orkunnar og Lyfjavals). Þessi listi er alls ekki tæmandi.

Við þennan lista má bæta Kaupfélagi Skagfirðinga, sem átti eigið fé upp á um 60 milljarða króna í lok síðasta árs. Verðmætustu eignir félagsins eru aflaheimildir og umsvif þess eru langmest í útgerð. Það er hins vegar líka fyrirferðamesta landbúnaðarfyrirtæki landsins, hefur keypt hluti í skyndibitakeðjum og sósuframleiðendum svo stiklað sé á stóru. Þá á Kaupfélag Skagfirðinga líka stóran hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins og stýrir ferðinni þar með Ísfélagsfólkinu.

Þær upplýsingar sem taldar eru upp hér að ofan um þessar örfáu fjölskyldur og eitt kaupfélag, sem eiga að minnsta kosti sameiginlegan auð upp á um 500 milljarða króna, eru fjarri því að gefa neina heildarmynd af umsvifum allra þessara aðila og þar af leiðandi áhrifum þeirra innan íslensks samfélags. Og þetta eru einungis nokkrir af þeim sem halda á mestu kvóta.

Þess vegna er skýrslubeiðnin sem var samþykkt í vikunni mikilvæg. Hún eykur gagnsæi og skerpir á skilning okkar allra á því hvernig gagnverk samfélags þar sem örfáir einstaklingar hafa hagnast langt umfram alla aðra, og hafa nýtt þann auð til að kaupa sig inn í mörg önnur svið, er.

Heilög skylda að banna breytingar

Í þeim slag sem varð í vor og sumar um eðlilega leiðréttingu veiðigjalda þá reyndist mjög mikilvægt að benda á þá gríðarlegu auðsöfnun sem átt hefur sér stað á meðal þeirra sem halda á mestum kvóta, og ráða þeim stórútgerðum sem munu greiða mest í viðbótarveiðigjald. Hversu mikið af arði af nýtingu þjóðareignar sæti eftir hjá þeim sem leigja aðgang að henni og hversu lítið færi til eigenda hennar. Það ójafnvægi er, að mati þorra þjóðarinnar, fullkomlega ólíðandi.

Minnihlutinn á Alþingi ætlaði samt að banna nýrri ríkisstjórn sem tæki við eftir hrein stjórnarskipti að ráðast í þessar kerfisbreytingar. Taldi það heilaga skyldu sína að gera það. Það reyndist honum ekki happadrjúgt, líkt og nýleg Maskínu-könnun sýndi svart á hvítu. Þar kom fram að 62 prósent aðspurðra eru ósátt með störf Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknar. Það er sennilega mesta óánægja sem hefur mælst með stjórnarandstöðu og hún hefur rúmlega tvöfaldast frá fyrstu mælingu á þessu kjörtímabili. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru þó að uppistöðu ekki að líta í eigin barm, heldur kvarta yfir fjölmiðlum og segja að það væri ekki þeirra hlutverk að halda uppi stemmningu.

Stjórnarandstaðan hefur gert sig sögulega óvinsæla á mettíma með hátterni sínu og málefnafátækt. Mynd: Maskína

Í vikunni átti sér líka stað sérstök umræða á þingi sem varpar kannski ágætu ljósi á hvaðan stór hluti stjórnarandstöðunnar var að koma í varnarstöðu sinni fyrir stærstu útgerðir landsins. Sú umræða snerist um lög um fjármál stjórnmálaflokka. Við hana kom meðal annars fram að á kosningaárinu 2021 fengu þáverandi stjórnarflokkarnir þrír, þar á meðal Sjálfstæðisflokkur og Framsókn sem nú eru í minnihluta, alls um 60 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum. Af þeirri upphæð kom næstum helmingur frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og meirihluti upphæðarinnar fór til Sjálfstæðisflokksins, sem gekk lengst í málþófi, digurbarkarlegum yfirlýsingum og tafarleikjum við lok síðasta þings.

Virði skráðra útgerða upp um 40 milljarða

Það er líka ágætt að skoða stöðu sjávarútvegs í heild nú þegar aðeins er liðið frá samþykkt laganna, og áður en nýju veiðigjöldin leggjast á. Þegar er búið að hrekja með öllu tilraunir þeirra sem hafa reynt að klína hagræðingu vegna skuldsettra yfirtakna á leiðrétt veiðigjöld, líkt og má lesa hér að neðan:

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokks fóru mikinn í að halda því fram að lífeyrissjóðir landsins yrðu fyrir stórtjóni vegna sanngjarnra breytinga á veiðigjöldum vegna þess að þeir ættu í skráðu útgerðarfyrirtækjunum þremur: Brim, Síldarvinnslunni og Ísfélaginu. Það hefur lítið heyrst af þeim málflutningi upp á síðkastið, enda staðreyndin sú að samanlagt hefur markaðsvirði þessara þriggja fyrirtækja aukist um næstum 40 milljarða króna frá því að veiðigjaldafrumvarpið varð að lögum. Markaðsvirði Síldarvinnslunnar, sem stýrt er af Gunnþóri Ingvasyni stjórnarformanni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og forsöngvara í harmakveinakór útgerðarinnar, hefur eitt og sér aukist um 26 milljarða króna á þremur mánuðum þrátt fyrir válegar fréttir af veiðiráðgjöf á uppsjávarfiski. Veiðigjöldunum verður sennilega kennt um þá ráðgjöf líka.

Óbeinn stuðningur við arðsöm fyrirtæki

Í vikunni kom svo út ítarleg skýrsla Arion banka um stöðuna í íslenskum sjávarútvegi. Hún er stórmerkileg á margan hátt. Þar segir orðrétt að í gömlu lögunum um veiðigjald hafi falist „óbeinn stuðningur við fiskvinnslufyrirtækin með því að „leyfa“ fyrirtækjum í veiðum að færa ákveðinn hluta af hagnaðinum yfir í fiskvinnslur með tengdu eignarhaldi til þess að lækka þannig byrði veiðigjalds. Hluti af ábatanum af fiskvinnslunum, fyrir eigendur þeirra, var því að draga úr veiðigjaldi. Með því að gera veiðigjaldið óháð því verði sem aflinn er seldur á er í raun verið að taka þann stuðning úr sambandi. Það á við óháð því hvort hin nýju viðmiðunarverð eru nær sönnu markaðsvirði eða ekki. „Leiðrétting“ veiðigjalds getur þannig dregið úr samkeppnishæfni íslenskra fiskvinnslna.“

Í þessu felst staðfesting á því sem stjórnarmeirihlutinn hélt alltaf fram, að stórútgerðir sem eiga alla virðiskeðjuna hafi meðvitað verið að selja vinnslunum sínum afla langt undir raunvirði til að halda veiðigjaldagreiðslum lágum. Þess vegna hafi þurft að taka ákvörðun um leigufjárhæðina sem greiða á í ríkissjóð fyrir að fá að nýta þjóðareign frá leigjandanum og miða þess í stað við markaðsverð.

Það sjá enda allir sem vilja að ríkið þurfi ekki að vera með „óbeinan stuðning“ við atvinnugrein sem skilar tugum milljarða króna í hagnað á ári og hefur hagnast um mörg hundruð milljarða króna á síðustu 15 árum.

Verð hækkað mikið

Arion banki bendir á í skýrslunni að sá hagnaður sem myndast í sjávarútvegi sé vel umfram það sem almennt gerist í viðskiptalífinu. Þar stendur orðrétt: „Hagnaður í greininni sem hlutfall af tekjum er umfram það sem gengur og gerist í hagkerfinu. Sjávarútvegurinn er almennt minna skuldsettur en viðskiptahagkerfið í heild sinni og endurspeglar sterk arðsemi eigin fjár því sterkan grunnrekstur.“

Þar er líka bent á að verð á sjávarafurðum hafi hækkað alls um 24 prósent á síðustu fimm árum, miðað við fast gengi. Það þýðir að sjávarútvegsfyrirtækin eru að fá miklu meira fyrir hvern fisk, meðal annars vegna þess að það skilar auknum verðmætum að nýta hátt hlutfall af hverjum veiddum fiski og vinna hann hér á landi. Í fyrra komu til að mynda 347 milljarðar króna í kassann fyrir 624 þúsund tonn. Tveimur árum áður voru seld 117 þúsund fleiri tonn, sem skiluðu þó einungis 21 viðbótarmilljarði króna.

Í skýrslu bankans segir að eftir leiðréttingu veiðigjaldsins muni gjaldið ekki verða nema fjórðungur af rekstrarhagnaði alls sjávarútvegs. Það þýðir að 75 prósent hans situr áfram eftir hjá leigjanda auðlindarinnar og 25 prósent fara til eiganda hennar.

Á mannamáli þýðir þetta allt að það verður áfram sem áður mun arðbærara fyrir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja að stunda sína starfsemi umfram það sem gerist í öðrum geirum, þrátt fyrir að þeir borgi aðeins hærri leigu fyrir aðgang að þjóðarauðlind svo hægt sé að gera við vegi, fjárfesta í velferðarkerfum og styðja við þá hópa samfélagsins sem þurfa á stuðningi að halda.

Er eitthvað sem þarf að fela?

Þegar allt er samantekið þá þarf ekkert að velkjast í vafa um að 20 stærstu útgerðir landsins, sem munu greiða meginþorra þeirrar viðbótar sem greidd verður í veiðigjöld eftir leiðréttingu, hafa hagnast gríðarlega á síðustu árum og hafa margar hverjar nýtt þá fjármuni til að kaupa sig inn í geira á flestöllum öðrum sviðum íslensks atvinnulífs. Það liggur líka fyrir að þau munu halda áfram að hagnast mikið þrátt fyrir að ríkið taki til sín aðeins meira í leigu fyrir auðlindina.

Við þær aðstæður er eðlilegt að greina heildrænt hver ítök þessara fyrirtækja, sem mörg hver eru í eigu nokkurra fjölskyldna, eru í íslensku samfélagi og meta hvort það sé heilbrigð staða. Það getur varla verið slæmt upplýsa almenning um gangverk samfélagsgerðarinnar.

Við skulum samt búa okkur undir mikla andstöðu við þetta gegnsæi. Þegar fólki sem á umframgæði, og fjölmiðlar og stjórnmálaflokkar í návígi við það, finnst stöðu sinni ógnað þá grípur það oft til þess að ásaka aðra um öfund. Stundum ganga þau jafnvel svo langt að í beiðnum um greiningar og gagnsæi felist einhvers konar andstyggð á duglegu fólki sem eigi skilið að njóta afraksturs síns brauðstrits á grunni sinna verðleika í friði.

Að þessu fyrirslætti þarf einfaldlega að hlægja, líkt og Hanna Katrín gerði fyrir nokkrum árum, og spyrja líkt og hún gerði þá: hvað er verið að fela?

Reply

or to participate.