• Kjarnyrt
  • Posts
  • Hvernig klofnar þjóð með því að fá að ráða eigin örlögum?

Hvernig klofnar þjóð með því að fá að ráða eigin örlögum?

Heimurinn er að breytast hratt. Net alþjóðastofnana og leikreglna sem byggðu á samningum milli líkt þenkjandi þjóða eftir seinni heimsstyrjöld tryggði mesta velmegunartímabil mannkynssögunnar fullt af friði og framförum. Nú ríkir óvissa um þetta vegna þess að Bandaríkin, voldugasta ríki heims, hafa ákveðið það einhliða. Það kallar á breytt hagsmunamat smáríkja eins og Íslands sem hefur á baki þess farið frá því að vera fátækasta land Norður-Evrópu í að vera eitt það ríkasta. Ein þeirra ákvarðana sem þjóðin þarf að taka er hvort hún vilji sitja við borðið í Evrópusambandinu þegar ákvarðanir eru teknar þar. Loksins eru komin stjórnvöld sem treysta þjóðinni til að svara þeirri spurningu sjálf, í stað þess að láta hræðslu flokka sem var hafnað í síðustu kosningum við eigin samborgara stýra því hvernig Evrópusamstarfi Íslands sé háttað.

Það hefur vart farið fram hjá neinum að staðan í alþjóðakerfinu hefur breyst hratt. Það hriktir í stoðum þess kerfis sem sett var á laggirnar eftir síðari heimsstyrjöld til að tryggja frið og farsæld í heiminum með því að binda saman hagsmuni lýðræðisríkja með svipað gildismat og stjórnskipan. Það var gert í gegnum alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, NATO, OECD, ÖSE, Evrópuráðið, Alþjóðaviðskiptastofnun og Evrópusambandið. Jafnvægið hvíldi svo á að alþjóðalög og leikreglur þeirra yrðu virtar.

Fyrir herlaust smáríki sem er í ofanálag eyja úti í miðju Ballarhafi með svipaðan íbúafjölda og stórborgirnar Coventry í Bretlandi eða Wuppertal í Þýskalandi þá skiptir þetta kerfi öllu máli. Með því að vera til að mynda stofnaðili að NATO og með gerð varnarsamningsins við Bandaríkin skömmu síðar voru varnir landsins tryggðar án þess að Ísland þyrfti sjálft að reyna að koma sér upp her.

Í marga áratugi fólst í þessu að hér væri herstöð en frá 2006 hefur samstarfið, sem fer fram í gegnum NATO og er grundvallað á tvíhliða uppsegjanlegum samningi, falið í sér reglulega viðveru, viðbúnaðargetu á Miðnesheiði og heræfingar sem fara fram hérlendis ásamt reglulegri loftrýmisgæslu.

Um það þarf engum blöðum að fletta að Ísland hefur líka haft mikinn efnahagslegan hag af aðkomu sinni að öllum þessum alþjóðlegu stofnunum. Fyrir seinni heimsstyrjöld var Ísland fátækasta ríki Norður-Evrópu. Í dag er það eitt það ríkasta.

Enn nú er óvissa um þetta kerfi.

Kannski á þetta ekkert að koma á óvart

Ástæðan er auðvitað ekkert leyndarmál og óþarfi að tala sig í kringum hana. Sitjandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur verið skýr með það að hann ætli að feta aðrar leiðir en forverar hans síðustu 80 ár. Í stað þess að standa með þessu vel ofna kerfi vestrænna ríkja til að tryggja öryggi, lífsgæði og framfarir þá hefur hann komið því skýrt á framfæri að nú séu þröngir og beinir hagsmunir Bandaríkjanna settir framar öllum öðrum í allri ákvarðanatöku.

Það var kannski ekki alveg ljóst hvað þetta myndi þýða þegar Trump tók við stjórnartaumunum öðru sinni eftir að hafa sigrað forsetakosningar með því að leggja áherslu á innflytjendamál, efnahagsmál og menningarstríð. Það sem síðar gerðist átti þó ekkert að koma neitt sérstaklega á óvart þar sem fyrir lá um 900 blaðsíðna stefnu- og stjórnunarhandbók sem var sett saman af íhaldssömum hugveitum úr sólkerfi forsetans og hlaut nafnið „Project 2025“.

Þegar ég spurði gervigreindina hversu stóran hluta af þessari áætlun Trump-stjórnin hafi hrint í framkvæmd á fyrsta árinu eftir að hún settist aftur í Hvíta húsið er niðurstaðan eftirfarandi: „Um 45–50 prósent af tillögum Project 2025 hafa orðið að raunverulegum stefnu- eða stjórnvaldsaðgerðum. Greining í fjölmiðlum sem fylgst hefur með mælingum á því hversu mörg atriði úr safninu hafa verið tileinkuð og það bendir til að tæplega helmingur af tillögum hafi verið innleiddur, sett í framkvæmd eða er í þróun á fyrsta ári hans.“

Það sem hefur bein áhrif á Ísland

Það þarf ekki að telja allt til sem breyst hefur á þessu ári. Sumt – til dæmis það að taka réttindi af trans fólki, sem er um 0,5 prósent af íbúum Bandaríkjanna, og stórfelldar handtökur á innflytjendum sem hent hefur verið úr landi – hefur skapað ástand í borgum Bandaríkjanna sem líkt hefur verið við borgarastyrjaldir eða stiklu úr Handmaid´s Tale. Annað hefur haft bein áhrif á grundvallar hugmyndir um hvernig stjórnskipan og sjálfstæði stofnana eigi að vera innan þess ríkis. Þá er ótalið að stjórnin hefur ráðist í víðtækan niðurskurð sem leitt hefur til margháttaðra áhrifa á veitta þjónustu, bæði innanlands og utan.

Hér ætla ég aðallega að dvelja við það sem hefur haft einhvers konar bein áhrif á Ísland og alþjóðaumhverfið. Þar ber kannski fyrst að nefna þá ákvörðun Trump að hefja tollastríð við meira og minna allan heiminn. Trump rökstuddi þessa kúvendingu frá frjálsum viðskiptum með því að umheimurinn hefði hagnýtt sér Bandaríkin og nú þyrfti hann að borga til baka. Alls konar öðrum, og misvel ígrunduðum, ástæðum var svo bætt við til að rökstyðja mjög háa tolla á ákveðin ríki. Til dæmis var settur 35 prósenta tollur á vörur frá Kanada vegna fullyrðinga um að þaðan streymdi fentanyl yfir landamærin til Bandaríkjanna þrátt fyrir að fyrir liggi að undir eitt prósent af efninu sem flutt sé til landsins komi frá þessum nágranna þess.

Ísland slapp ágætlega út úr tollunum í öllu samhengi, aðallega með því að láta lítið fyrir sér fara.

Bandaríkin fyrst, svo allt hitt

Trump hefur líka, oft og ítrekað, talað um alls kyns landvinninga. Hann talaði opinskátt um að vilja innlima Kanada, taka yfir Gaza-svæðið og Panama, og þá aðallega til að geta stýrt Panama-skurðinum. Bandaríkin hafa líka tekið þátt í loftárásum á Íran og Jemen og steyptu Nicolas Maduro, forseta Venesúela, í byrjun árs með því að handtaka hann og flytja til New York. Í kjölfarið sagði Trump að Bandaríkin ætluðu að stjórna landinu og hagnýta sér það til olíuvinnslu. Unnið er að uppsetningu sérstaks friðarráðs Trumps sem hægt er að kaupa sæti í, forsetinn mun ráða hverjir fá að taka þátt og verður sjálfur formaður þess. Hugsunin er að þetta ráð eigi að vera nokkurs konar keppinautur við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna en með þeirri sýnilegu breytingu að einungis einn einstaklingur mun hafa neitunarvald, Donald Trump.

Fyrir okkur á Íslandi hefur þó sennilega verið mest truflandi að hlusta á síendurteknar yfirlýsingar um að Bandaríkin þurfi að eignast Grænland og að það geti mögulega gerst með beitingu hervalds. Sérstaklega í ljósi þess að Trump hefur sagt skýrt á fyrstu dögum þessa árs að hann telji sig ekki bundinn af alþjóðalögum, heldur einungis eigin siðferði.

Grænland er auðvitað nágranni okkar, fámenn þjóð og eyja rík af náttúruauðlindum. Landið er hluti af Danmörku líkt og við vorum lengi, er hluti af NATO og óbeint Evrópusambandinu í gegnum konungsríkið Danmörku þótt Grænland, sem lýtur heimastjórn, hafi sagt sig úr sambandinu snemma á níunda áratugnum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hvað það myndi þýða ef eitt NATO-ríki myndi innlima annað með hervaldi. Hornsteinn þess bandalags er 5. grein stofnsáttmála þess, sem kveður á um sameiginlega skuldbindingu allra aðildarríkja um að árás á eitt jafngildi árás á þau öll. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, hefur sagt það skýrt að innrás í Grænland þýði endalok þessa mikilvægasta friðar- og öryggissamkomulags sem gert hefur verið.

Ekkert um Grænland án Grænlands

Síðustu daga varð staðan sífellt alvarlegri samhliða því sem Trump sjálfur hefur bætt verulega í yfirlýsingar sínar um yfirtöku á Grænlandi sem leitt hefur til þess að í vikunni hótaði hann að leggja enn hærri tolla á átta Evrópuríki sem hafa tekið þátt í heræfingum á Grænlandi, þar með talið hin Norðurlöndin utan Íslands.

Þetta gerði Bandaríkjaforseti þrátt fyrir að fyrir lægi samkomulag um að beita Evrópusambandsríki ekki frekari tollahækkunum og að óljóst sé hvernig framkvæmd á því að hækka tolla á sum ríki sambandsins en ekki önnur eigi að virka í framkvæmd, þar sem þau mynda saman einn innri markað. Vendingar um miðja viku benda til þess að búið sé að draga úr spennu vegna þessa, að tollahækkanirnar verði ekki að veruleika og að Bandaríkin ætli að sætta sig við að ná fram öryggiskröfum sínum innan ramma sem er í takti við þann varnarsamning sem þegar er í gildi milli þess og Grænlands.

Afstaða íslenskra stjórnvalda hefur allan þennan tíma verið skýr: ekkert um Grænland án Grænlendinga. Ísland stendur þétt með vinum sínum og Grænland er hluti af danska konungsríkinu.

„Við verðum að standa í lappirnar“

Þessar sviptingar leiddu til þess að Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokks, óskaði eftir því í óundirbúnum fyrirspurnum á þriðjudag að forsætisráðherra réttkjörinnar meirihlutastjórnar á Íslandi myndi færa formönnum flokkanna í minnihlutanum skýra aðkomu að því að móta utanríkisstefnu þjóðarinnar. Þetta taldi Guðrún, sem stýrir flokki sem mælist fjórði stærsti í könnunum með undir rúmlega 13 prósenta fylgi, til að tryggja að „samstaða og reglulegt samráð haldist svo við séum ekki að bregðast við í óðagoti heldur með skýrri stefnu og ábyrgð.“

Kristrún svaraði henni með því að segja að hún muni „ekki gefa tommu eftir sem forsætisráðherra þegar kemur að því að standa með sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga. Þeir hafa sagt það sjálfir hvernig þeir vilja sjá sína framtíð þróast og við eigum að virða það. Við eigum vissulega náið og sérstakt samband við Bandaríkin en það breytir því ekki að framganga núverandi Bandaríkjaforseta gagnvart Grænlandi og gagnvart Danmörku er óásættanleg og henni verður að linna. Ég vona svo sannarlega að allir hér inni geti sammælst um það.“

Það væri sjálfsagt að eiga samtal og samráð um „risastórt hagsmunamál fyrir okkar næstu nágranna en líka fyrir íslenska þjóð.“

Lafandi hræðsla fjórða stærsta flokks landsins

Í annarri ræðu Guðrúnar kom hins vegar í ljós að það var ekkert samráð eða samtal sem vakti fyrir henni. Hún fylgdi nefnilega eftir með að spyrja: „Telur forsætisráðherra þá viturlegt, í ljósi þessarar stöðu sem nú er komin upp, að ríkisstjórnin ætli nú að rjúka af stað og hefja aðlögun að Evrópusambandinu, leggja áherslu á mál sem er augljóst að muni kljúfa samstöðu íslensku þjóðarinnar, einmitt nú þegar við eigum að leggja áherslu á mál sem sameina þjóðina?“

Ný forysta Sjálfstæðisflokks tók við fyrir tæpu ári síðan. Síðan þá hefur fylgi flokksins hríðfallið og hann mælist nú næst minnstur þeirra flokka sem myndu ná inn á þing ef kosið yrði í dag. Sá eini sem yrði minni er Framsókn. Mynd: XD

Þetta snerist því á endanum ekkert um samstöðu og samráð á breiðum grunni vegna Grænlands heldur um að Sjálfstæðisflokkurinn sé lafandi hræddur um að ytra umhverfið geti aukið stuðning þjóðarinnar við inngöngu í Evrópusambandið.

Sú pólitík kemur okkur sem störfum innan þessa heims lítið á óvart. Það hefur enda verið meginþema flokkanna í minnihluta á þingi frá síðasta sumri að teikna upp ímyndaða ógn Evrópusambandsaðildar, að saka ríkisstjórnina um að reyna að lauma þjóðinni inn í sambandið gegnum ímyndaðar bakdyr, að hugsa upp eitthvað sem þau hafa kallað leynilegar aðlögunarviðræður og þegar allt þrýtur er öskrað á torgum um að verið sé að kúga þjóðina til inngöngu.

Allt er þetta auðvitað fullkomin þvæla en mjög til marks um hvað flokkarnir í minnihlutanum hafa lítið raunverulegt fram að færa í flóknum heimi nútímans, hvort sem það er inn á við eða út á við.

Treysti þjóðinni en gerir það ekki lengur

Bökkum nú aðeins. Það lá alltaf fyrir við myndun þessarar ríkisstjórnar að eitt af því sem myndi liggja fyrir á kjörtímabilinu væri að greiða atkvæði um það hvort Ísland myndi halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er í stjórnarsáttmála að slík atkvæðagreiðsla eigi að fara fram fyrir lok næsta árs, það var í kosningaáherslum og er hluti af stefnu bæði Samfylkingar og Viðreisnar og Flokkur fólksins hefur nálgast málið mjög skýrt með að hann treysti þjóðinni til að taka rétta ákvörðun.

Það má líka rifja upp að Guðrún fór í forsíðuviðtal við tímarit fyrir rúmum áratug og sagði þar: „Ég tel að við hefðum gott af því sem þjóð að klára þessar viðræður og leyfa síðan þjóðinni að kjósa. Ég treysti þjóðinni algerlega í þessu máli.“

Nú hefur henni snúist algjörlega hugur. Hún treystir ekki lengur þjóðinni.

Forsætisráðherra svaraði enda þessum pólitíska vindhanaskap formanns Sjálfstæðisflokksins með hætti sem hefði nánast getað verið bein tilvitnun í Guðrúnu sjálfa í áðurnefndu viðtali. „Þetta er spurning sem íslensk þjóð getur svarað og ég treysti henni, sérstaklega á tímum sem þessum, til að veita okkur leiðsögn um það hvort hún vilji halda ákveðnum valkostum opnum.“

Aðrir glíma ekki við „pólitískan ómöguleika“

Ísland er eitt Norðurlandanna sem hefur ekki leyft þjóð sinni að hafa skoðun því hvar það staðsetur sig í Evrópusamstarfi. Danir hafa leyft þjóðinni að greiða atkvæði þrisvar, Norðmenn tvisvar og Svíar og Finnar einu sinni. Niðurstaðan hefur verið alls konar. Danir hafa sagt já við inngöngu en nei og svo já ári síðar við Maastricht-sáttmálanum. Norðmenn hafa tvívegis fellt inngöngu með litlum mun en bæði Svíar og Finnar samþykktu slíka fyrir 32 árum síðan.

Kannanir hafa nær alla tíð sýnt mikinn meirihluta fyrir því að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sú nýjasta var gerð af Maskínu í desember og sýndi að 53 prósent þeirra sem tóku afstöðu voru fylgjandi því að fara í viðræður en 47 prósent voru á móti. Jákvæðni gagnvart því hafði aukist milli ára.

Síðasta Gallup-könnun sem gerð var um afstöðu fólks til að ganga í sambandið í apríl í fyrra sýndi að umtalsvert fleiri, 44 prósent, voru því fylgjandi en á móti, sem voru 36 prósent. Rest var óákveðin.

Staða Íslands er hins vegar þannig að þeir flokkar sem hafa meira og minna stýrt landinu frá lýðveldisstofnun, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, hafa aldrei þorað að spyrja þjóðina um hug hennar gagnvart Evrópusamstarfi. Í aðdraganda kosninga 2013 lofuðu bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, þá stýrt af núverandi formanni Miðflokksins, að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort það ætti að klára viðræður við Evrópusambandið. Einnhelstit forvígismaður Sjálfstæðisflokks á þeim tíma sagði að allir flokkar landsins „yrðu bundnir af þeirri niðurstöðu“. Þetta má allt sjá í klippunum hér að neðan.

Þetta var svo allt svikið eftir kosningar og „pólitískum ómöguleika“ kennt um. Viðræðurnar voru settar á ís ári síðar en aðildarumsókn Íslands aldrei formlega afturkölluð. Hún hefur því legið óhreyfð í næstum tólf ár.

Að vera hræddur við eigin þjóð

Þessi öfl, sem nú sitja saman í minnihluta á Alþingi, eru logandi hrædd við eigin þjóð. Það eru fjölmiðlarnir þeirra, ríkisstyrktu hugveiturnar og hagsmunasamtökin sem tengjast sama sólkerfi líka. Þau treysta þjóðinni ekki til að taka ákvörðun um hvað sé henni fyrir bestu. Ákvörðun sem öll hin Norðurlöndin hafa treyst sínum íbúum til að taka.

Til að ramma inn þessa afstöðu í frasasúpu, án þess að segja það upphátt að þau telji umbjóðendur sína í landinu vera of takmarkaða til að taka upplýsta ákvörðun, er hlaðið í fullyrðingar um að ekki sé um eiginlegar viðræður að ræða, heldur aðlögun. Að sjálft fullveldið sé að veði. Að það að treysta hverjum og einum landsmanni með kosningarétt til að taka ákvörðun um sína afstöðu út frá sínum hagsmunum, hugmyndum og stöðu sé til þess fallið að kljúfa þjóðina.

Þetta er oft á tíðum sama fólk sem virðist helst telja að í fullveldi felist að gera Ísland að einhvers konar hjálendu Bandaríkjanna en koðnar svo niður þegar Ísland rís upp og notar fullveldisréttinn skýrt til að verja sjálfsákvörðunarrétt nágranna okkar. Fólkið sem fær stjörnur í augun þegar harðir menningarstríðshermenn að vestan – sem vilja konur aftur í eldhúsið, fjölbreytileikann í sögubækurnar og að Darwinismi sé ráðandi í alþjóðakerfinu – baka kökur eða búa til gervigreindarmyndir sem eigi að sýna hversu mikil hörkutól þau séu. Fólk sem er í grunninn einangrunarsinnar vegna þess að það treystir sér ekki til að keppa á stærri velli.

Að sitja við borðið eða vera á matseðlinum

Ég hef sagt það áður og segi það enn: það að greiða atkvæði um hvort fara eigi í aðildarviðræður við Evrópusambandið klýfur ekki þjóðina, heldur valdeflir hana. Hún eykur traust á stjórnmál vegna þess að stjórnmálin sýna að þau treysta dómgreind almennings til að velja hvað sé Íslandi fyrir bestu.

Aðild að Evrópusambandinu hefur enda kosti og galla og það er eðlilegt að hver og einn meti þá á sínum forsendum. Velji þjóðin að fara í viðræður þá klárast þær og svo verður kosið aftur um þann samning sem mun liggja á borðinu. Hafni þjóðin viðræðum þá er spurningin um aðild af borðinu um fyrirsjáanlega framtíð.

Augljóst má vera öllum með augu og eyru að kúvending á stöðunni í alþjóðakerfinu á skömmum tíma hefur þrýst enn meira á að Ísland staðsetji sig í breyttum heimi. Líkt og Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, sagði í nýlegri ræðu sem mun rata í sögubækurnar vegna þess að hann gerði enga tilraun til að nefna ekki hinn nýja raunveruleika sem er upp, þá liggur fyrir að „ef þú situr ekki við borðið ertu á matseðlinum.“

Reply

or to participate.