• Kjarnyrt
  • Posts
  • Þjóð sem styður leiðrétt veiðigjöld, er andvíg málþófi og kann að meta ríkisstjórnina

Þjóð sem styður leiðrétt veiðigjöld, er andvíg málþófi og kann að meta ríkisstjórnina

Siðustu daga hefur birst staðfesting á því að íslensk þjóð kann ekki að meta málþóf, tafarleiki og heilaga skyldu minni flokka í stjórnarandstöðu til að koma í veg fyrir framgang þjóðþrifamála. Það hefur komið í ljós að stuðningur við sitjandi ríkisstjórn er sá mesti sem mælst hefur svona mörgum mánuðum eftir kosningar frá bankahruni. Það liggur fyrir að næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum styðja leiðréttingu veiðigjalds en undir fjórðungur er andvígur málinu. Og það er skýrt að víglína stuðnings við það frumvarp liggur ekki milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Maskína birti niðurstöðu könnunar á afstöðu fólks til leiðréttingar veiðigjalda í síðustu viku. Þar kom fram að 62 prósent landsmanna eru fylgjandi því að sjávarútvegur greiði réttláta leigu, byggða á markaðsverði, fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind. Einungis 24 prósent eru því andvíg. Þetta er svipuð staða og var í mars, þegar frumvarpið lá inni í samráðsgátt stjórnvalda.

Könnunin sýnir enn fremur að landsmenn þekkja um hvað frumvarpið snýst, og að þekking þeirra á því hefur aukist eftir því sem umræðan hefur undið fram. Nú segjast alls 75 prósent landsmanna þekkja veiðigjaldafrumvarpið vel, eða í meðallagi, en einungis 24 prósent segjast þekkja það illa. Það er sama hlutfall landsmanna og er andvígt frumvarpinu, en það er sennilega bara tilviljun.

Stjórnarandstaðan og hagsmunagæsluaðilar stórútgerða hafa reynt, líkt og spáð var á þessum vettvangi strax í apríl, að stilla málinu upp þannig að hér sé um átök milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis að ræða. Að landsbyggðin sé á móti leiðréttingu veiðigjalda en borgarbúar fylgjandi. Niðurstöður könnunar Maskínu styðja með engu við þessa staðhæfingu.

Það vekur athygli að fleiri eru hlynntir frumvarpinu en andvígir í öllum aldurshópum. Mynd: Maskína

Þvert á móti er staðan þannig að fleiri segjast hlynntir frumvarpinu en andvígir í Reykjavík, nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, á Vesturlandi og Vestfjörðum, Austurlandi, Suðurlandi og á Reykjanesi. Eina landssvæðið sem sýnir aðra niðurstöðu er Norðurland, en þar er ekki einu sinni meirihluti andvígur, heldur rúmlega 45 prósent.

Afgerandi stuðningur þvert á flesta flokka

Þegar afstaða til leiðréttra veiðigjalda er skoðuð eftir stjórnmálaskoðunum kemur í ljós að kjósendur Sjálfstæðisflokks eru afgerandi mest á móti þeim. Einungis 15 prósent þeirra styðja það að ríkissjóður fái markaðsverð fyrir aðgang að þjóðarauðlind en 67 prósent eru því andvíg. Kjósendur Framsóknarflokksins koma, ekkert sérstaklega óvænt, þar á eftir en 59 prósent þeirra eru á móti frumvarpinu.

Miðflokkurinn sker sig aðeins úr á meðal stjórnarandstöðuflokka þar sem munurinn á milli þeirra sem styðja frumvarpið og eru á móti því á meðal kjósenda hans er mun minni en hjá gömlu valdaflokkunum. Alls segist þriðjungur Miðflokkskjósenda vilja að veiðigjöld verði leiðrétt en minna en helmingur þeirra er því mótfallinn.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera sig verulega úr þegar kemur að því að vera á móti veiðigjaldafrumvarpinu. Mynd: Maskína

Kjósendur allra annarra flokka sem mælast með eitthvað fylgi styðja leiðréttingu veiðigjalda með afar afgerandi hætti. Þar er átt við kjósendur stjórnarflokkanna Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins en líka þeirra þriggja flokka sem náðu ekki inn á þing í síðustu kosningum, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalistaflokksins. Sá stuðningur er á bilinu 79 til 97 prósent.

Þetta er staðan eftir að þjóðin hefur orðið að sitja undir margra daga málþófi stjórnarandstöðunnar gegn leiðréttingu veiðigjalda. Málþófi sem hefur nú staðið lengur en umræður um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem færði okkur aðgengi fyrir vörur og þjónustu að yfir 450 milljóna innri markaði Evrópu án flestra hindrana eins og tolla gegn því að við skuldbundum okkur til að aðlaga regluverk og lagaumhverfi að gangverki innri markaðarins. Það mál var skilgreinandi fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands enda hefur ekkert eitt fært Íslandi meiri lífskjarabata en sá samningur.

Yfirstandandi málþóf er þegar orðið það þriðja lengsta í sögunni og nálgast óðfluga umræðu um sjálfan Icesave-samninginn 2009, mál sem klauf þjóðina í herðar niður. Vænta má að veiðigjaldafrumvarpið nái að verða lengsta umræða sem nokkru sinni hefur farið fram um nokkurt mál á þjóðþingi Íslendinga þegar það tekur fram úr þriðja orkupakkanum, máli sem nýttist til að endurreisa tilverugrundvöll Miðflokksins eftir Klaustursmálið sumarið 2019 eftir að flokknum tókst með nokkrum árangri að pakka því inn sem einhverskonar fullveldisógn, sem það var sannarlega aldrei.

Þjóðinni meinilla við málþóf

Það vill svo til að Maskína ákvað líka að kanna hvernig þessir málþófstilburðir fara ofan í þjóðina. Niðurstaðan úr þeirri könnun var sú að 65 prósent landsmanna eru á þeirri skoðun að málþóf sé sóun á tíma þingmanna og starfsmanna Alþingis. Rétt tæplega 60 prósent telja að það eigi að innleiða reglur sem koma í veg fyrir málþóf og rúmlega helmingur allra svarenda er á þeirri skoðun að það sé ekki eðlilegt að minnihluti, skipaður flokkum sem töpuðu í síðustu kosningum, geti notað málþóf til að stöðva mál sem hann er á móti.

Það er þó það sem sitjandi minnihluti hefur verið að gera, á hátt sem er sennilega fordæmalaus. Til að skilja hvaðan hann kemur er ágætt að grípa niður í ræðu sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins flutti nýverið.

Þar sagði hann það ekki bara vera lýðræðislegan rétt andstöðu að tala gegn málum, heldur væri það „heilög skylda okkar að standa gegn svona dellumálum og öllum þessum vinstri málum sem eru árásir á ellilífeyrisþega, atvinnulífið í landinu og alla þá sem er verið að reyna að koma með hér í gegn.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að stjórnarandstöðuflokkur, sem er vanur því að stjórna landinu en var hafnað með afgerandi og sögulegum hætti, ætlar sér að banna ríkisstjórn með skýran þingmeirihluta og óskorað lýðræðislegt umboð að koma pólitískum áherslumálum sínum í gegn. Meltið það aðeins.

Tappar, samningar og önnur meint „dellumál“

Birtingarmynd hinnar meintu heilögu skyldu hefur verið alls konar. Í febrúar, þegar þingstörf voru nýhafin, talaði stjórnarandstaðan til að mynda um áfasta plasttappa í fjóra klukkutíma og 36 mínútur. Nokkrum vikum seinna ræddi hún um fríverslunarsamning við Taíland í meira en fjóra klukkutíma, og aðallega um hversu rosalega sammála andstaðan væri gerð samningsins. Með því var fyrra met í umræðum um fríverslunarsamninga, sem var sett árið 2019 þegar rætt var um slíka samninga við tvö ríki sem höfðu orðið uppvís að alvarlegum mannréttindabrotum, var bætt um meira en tvo og hálfan tíma. Auk þess hefur farið fram tilraun til að setja Evrópu- og ólympíumet án atrennu í hinum hressa þingskaparlið fundarstjórn forseta, sem hefur sjaldnast nokkuð með fundarstjórn eða forseta Alþingis að gera.

Þá er ótalið lagafrumvarp um grunnskóla sem innleiddi nýtt samræmt námsmat í íslenska grunnskóla. Um er að ræða frumvarp sem var fyrst sett fram af síðustu ríkisstjórn, er afrakstur áralangrar vinnu og er nú endurflutt með lítils háttar breytingum sem eru ekki hápólitískar. Samt tók stjórnarandstaðan sig til og ræddi um málið í þriðju umræðu, þegar það fer ekki aftur til nefndar heldur næst í atkvæðagreiðslu, í níu klukkutíma og ellefu mínútur á þremur þingfundum.

Svo gerðist þetta auðvitað í fyrstu umræðu um veiðigjöld, þegar Íslandsmet var sett í þeirri umræðu með vaðali sem stóð yfir í meira en 30 klukkutíma. Þar sem margir úr ýmsum þingflokkum minnihlutans blóðnýttu sínar 15 mínútur og fóru svo í andsvör við kollega sína í stjórnarandstöðu. Þarna var bætt eldra með, sem var sett í umræðum um fjárlög, og stóð í 24 klukkutíma og 40 mínútur.

Ekki verið að etja landsbyggð gegn höfuðborg

Önnur umræða um veiðigjöldin hófst eftir þjóðhátíðardaginn um miðjan síðasta mánuð, og hefur staðið yfir meira og minna síðan þá.

Enginn vafi er á að þar er að eiga sér stað hefðbundið málþóf. Þar hefur stjórnarandstaðan aðallega byggt málflutning sinn á nokkrum afar hæpnum staðhæfingum. Ein er að landsbyggðin sé logandi hrædd við leiðréttingu veiðigjalda og að stjórnarandstaðan sé að verja hana fyrir einhverjum ágangi borgarbúa sem hafi aldrei mígið í saltan sjó.

Þar er vitanlega ekki verið að tala um þau 28 sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa orðið fyrir því að tilverugrundvellinum var kippt undan þeim þegar útgerðamenn þar sem héldu á kvóta ákváðu að selja hann annað, heldur einhvern annan, og óskilgreindan, hluta hennar.

Áðurnefndar tölur Maskínu um afstöðu íbúa landsbyggðarinnar gagnvart frumvarpi ríkisstjórnarinnar segja þó allt aðra sögu. Það er almennur stuðningur við málið í nær öllu landinu.

Þær tölur ríma líka að öllu leyti við upplifun þingmanna stjórnarmeirihlutans úr landsbyggðarkjördæmunum. Þeir finna fyrir sífellt auknum stuðningi í hvert sinn sem þeir fara heim í hérað og segja að fólk sé farið að hafa sjálfstraust til að tala hærra um raunverulega afstöðu sína en það hefur haft í marga áratugi.

Vönduð þingleg meðferð

Stjórnarandstaðan hefur líka haldið því statt og stöðugt fram að það vanti gögn og greiningar í málið, þrátt fyrir að fyrir liggi umfangsmeiri og dýpri greiningar en samanlagt hafa verið gerðar í öllum þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lögum um veiðigjöld síðan að þau voru sett árið 2012. Að verið sé að vinna með rangar tölur þegar fyrir liggur, og er staðfest, að ráðuneytið og atvinnuveganefnd studdist við þær réttu en málflutningur hluta minnihlutans og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) byggði á þeim röngu.

Því er haldið fram að það skorti á samráð við hagaðila þrátt fyrir að á níunda tug umsagna hafi borist atvinnuveganefnd, hún hafi tekið yfir 50 gesti inn á fundi sína og hlustað á málefnalegar athugasemdir með þeim afleiðingum að málið hefur tekið breytingum í vandaðri þinglegri meðferð.

Þær breytingar snúa fyrst og síðast að því að verja lítil og meðalstór fyrirtæki frá því að verða fyrir miklum áhrifum af leiðréttu veiðigjaldi með því að stórhækka frítekjumark. Það hefur meðal annars skilað því að í stað þess að veiðigjöld þeirra sem borga undir eina milljón króna hækki um 78 prósent þá munu þau hækka um 23 prósent. Í stað þess að veiðigjöld þeirra sem greiða eina til tíu milljónir króna í slík gjöld hækki um 58 prósent munu þau hækka um 17 prósent. Í stað þess að gjöld þeirra sem greiða tíu til fimmtíu milljónir króna hækki um 18 prósent munu þau hækka um einungis sjö prósent.

Meginþorri veiðigjalda verður greiddur af örfáum risastórum sjávarútvegsfyrirtækjum sem velta tugum milljarða króna á ári.

Þjóðin er með og kann að meta verkstjórnina

Hvað hafa síðustu vikur og mánuðir skilað stjórnarandstöðunni? Ekkert sérstaklega miklu. Stjórnmálafræðiprófessor sagði í fjölmiðlum í síðustu viku að það væri „augljóst að stjórnarandstöðunni hefur gjörsamlega mistekist“.

Þar var hann að fjalla um könnun á fylgi stjórnmálaflokka sem Maskína birti fyrir nokkrum döf. Niðurstaða þeirrar könnunar er sú að Samfylkingin mælist langstærsti flokkur landsins með 28,1 prósent fylgi. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum Maskínu og fyrirrennara hennar, sem ná ansi mörg ár aftur í tímann. Það er líka umtalsvert meira fylgi en Samfylkingin fékk í kosningunum 2024, þegar 20,4 prósent kjósenda settu X við S.

Viðreisn mælist við kjörfylgi með 15,3 prósent og Flokkur fólksins mælist með tæplega sjö prósenta stuðning. Fylgi stjórnarflokkanna er samanlagt meira og minna það sama og þeir fengu í kosningunum í nóvemberlok 2024, rúmu hálfu ári eftir að þeir tóku við völdum. Áðurnefndur prófessor sagði þetta vera besta gengi ríkisstjórnar frá hruni.

Eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem er að mælast yfir kjörfylgi er Miðflokkurinn, og sú aukning er meira að segja innan skekkjumarka. Hann tekur smá kipp í fylgi milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn tapar hins vegar fylgi og mælist nú með rétt yfir 17 prósenta stuðning. Til að setja þá stöðu í samhengi mældist flokkurinn með rúmlega 24 prósent fylgi í marslok, eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir tók við sem formaður. Síðan þá hefur flokkurinn dalað hratt og örugglega milli mánaða og nú er munurinn milli hans og Viðreisnar innan vikmarka. Framsóknarflokkurinn er svo pikkfastur í því að mælast með um sjö prósent fylgi, minna en hann hefur nokkru sinni fengið í kosningum frá því að hann var stofnaður.

Erfitt er að draga aðra ályktun af þessu öllu en að fólk kunni að meta ríkisstjórn sem er samstillt, dugleg og hamhleypa til verka. Harkaleg stjórnarandstaða, sem byggist upp á ætlaðri heilagri skyldu minnihluta til að standa í vegi fyrir þeirri staðreynd að hugmyndir hans og áherslur hlutu ekki brautargengi í síðustu kosningum, og felur aðallega í sér tafarleika og málþóf, virðist hins vegar skila litlu, og jafnvel engu.

Það staðfestist í enn einni könnun Maskínu sem birt var í dag og sýnir að næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum telja Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Framsókn hafa staðið sig illa á kjörtímabilinu en einungis 9 til 17 prósent telja þá hafa staðið sig vel. Staðan er sérstaklega slæm hjá Sjálfstæðisflokknum, þess sem telur það heilaga skyldu sína að stöðva framgang lýðræðisins. Af þeim sex flokkum sem eiga sæti á Alþingi eru kjósendur hans minnst ánægðir með frammistöðu sinna fulltrúa.

Smá skilaboð í lokin. Ég ætla að setja þetta fréttabréf í smá sumarfrí og vænti þess að hefja útgáfu þess á ný í ágúst. Þess vegna ákvað ég að senda það út í dag, á fyrsta degi júlímánaðar, frekar en á föstudag líkt og venja er. Ég vænti þess þó að halda mig við vikulega föstudagsútgáfu þegar Kjarnyrt fer aftur í gang síðsumars.

Viðbrögðin við þessum miðli hafa verið framar vonum og fjöldinn sem hefur skráð sig sem áskrifendur langt umfram það sem ég gat ímyndað mér. Þegar ég skoða tölurnar á bak við notkun á fréttabréfinu er skýrt að meginþorri áskrifenda opnar það í hverri einustu viku til að lesa og að áskriftarfjöldinn hefur haldist afar stöðugur þrátt fyrir alls kyns breytingar og væringar hjá mér frá því að fyrsta Kjarnyrt-bréfið fór í loftið í september í fyrra. Ég vildi því bara segja takk fyrir viðbrögðin, alla póstana, skilaboðin, peppið og allt hitt.

Reply

or to participate.