• Kjarnyrt
  • Posts
  • Leiðir til að hafna því að auður endurspegli siðferðilega yfirburði

Leiðir til að hafna því að auður endurspegli siðferðilega yfirburði

Á Íslandi er reglulega rifist um erfðafjárskatt og hvort hann sé réttlætanlegur. Þeir sem stundi „toppinn niður“ pólitík telja hann gríðarlegt óréttlæti á meðan að þeir sem trúa á að það sé til eitthvað sem heitir samfélag telja hann ekki einungis réttlátan heldur beinlínis nauðsynlegan. Það er nefnilega þannig að þeir sem erfa háar fjárhæðir eru ekki verðmeira fólk en sá sem erfir ekkert. Og ef tilfærsla á eignum milli kynslóða er ekki skattlögð þá mun auður einnar slíkrar stjórna þeirri næstu.

Í desember gaus skyndilega upp mikil umræða um erfðafjárskatt. Það gerðist í kjölfar þess að minnihlutaflokkarnir á Alþingi héldu ranglega fram að það stæði til að hækka hann. Morgunblaðið spilaði að venju með og birti stríðsfyrirsögnina „Stórhækkun erfðafjárskatts“.

Forsíða Morgunblaðsins á fullveldisdaginn í fyrra. Mynd: Skjáskot

Um var að ræða eina af tveimur fréttum á forsíðunni þann dag sem byggðust á röngum staðhæfingum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, síðar sameiningartákns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Ályktun sína byggði Guðlaugur Þór á því að fjármála- og efnahagsmatið hefði endurmetið væntanlegar tekjur af erfðafjárskatti í samræmi við þær tekjur sem hann hefur skilað á undanförnum árum, en vegna þess að fyrirframgreiðsla á arfi hefur stóraukist undanfarið þá hafa tekjur ríkissjóðs vegna erfðafjárskatts verið meiri en áætlað hefur verið í fjárlögum. Endurmatið skilaði því að tekjurnar af erfðafjárskatti eru nú áætlaðar 2,1 milljarður króna. Þær verði 14 milljarðar króna í stað 11,9 milljarða króna.

Raunveruleikinn er því að erfðafjárskattur hækkaði ekkert. Hann var tíu prósent 2025 og verður tíu prósent árið 2026. Það eina sem breytist er að frítekjumark hans hækkar milli ára um 292 þúsund krónur og er nú tæplega 6,8 milljónir króna. Það þýðir að allir sem erfa eitthvað undir þeirri upphæð fá þann arf óskertan.

Upplýsingaóreiða

Framganga stjórnarandstöðunnar og fjölmiðlanna sem slógu á sömu trommu var því upplýsingaóreiða. Með sömu aðferðarfræði og þetta gengi beitti til að framkalla hughrifin um „stórhækkun erfðafjárskatts“ mætti segja að fjármagnstekjuskattur hafi stórhækkað á milli áranna 2023 og 2024, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stærsti flokkurinn í ríkisstjórn, en tekjur ríkissjóðs vegna hans fóru upp um sex milljarða króna á þeim tíma.

Líkt og ég fór yfir í greiningu seint í desember þá hækkuðu engir skattar um síðustu áramót. Öll þrepin í tekjuskatti einstaklinga eru þau sömu, en þrepamörkin hækka ásamt persónuafslætti og skattleysismörkum, sem skilur fleiri krónur eftir í veskjum heimila en áður. Tryggingagjald verður áfram 6,35 prósent líkt og það hefur verið frá 2022. Fjármagnstekjur eru áfram 22 prósent. Tekjuskattur hluta- og einkahlutafélaga er 20 prósent líkt og hann var áður en síðasta ríkisstjórn hækkaði hann í eitt ár í 21 prósent. Tekjuskattur sameignar- og samlagsfélaga er 37,6 prósent líkt og hann var áður en síðasta ríkisstjórn hækkaði hann í 38,4 prósent í eitt ár. Bankaskattur er óbreyttur.

Þær breytingar sem gerðar voru sneru að skattaglufum – eða skattastyrkjum eins og þær hafa verið kallaðar í fjárlögum árum saman sama hvaða flokkar hafa stýrt landinu – sem nýttust fáum og af uppistöðu ríku fólki.

Gríðarleg aukning í útgreiðslu á arfi

En aftur að erfðafjárskattinum. Hann hefur verið að skila ríkissjóði auknum tekjum á síðustu árum þrátt fyrir að skattprósentan hafi verið sú sama. Við skulum skoða raundæmi.

Árið 2021 fengu 2.205 arfleifendur greiddan arf, alls upp á 87,1 milljarð króna. Þar af var 35,2 milljarðar króna fyrirframgreiddur arfur, greiddur af fólki sem enn er á lífi til niðja sinna til að hjálpa þeim að koma sér fyrir í lífinu. Ári síðar fengu tæplega átta prósent færri greiddan arf, en heildarumfang hans í krónum talið var samt sem áður um 30 milljörðum krónum meira. Árið 2023 fækkaði þeim sem fengu arf enn og aftur en heildarumfangið jókst samt um 14,5 milljarða króna.

Úr minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birt var seint á síðasta ári. Í töflunni sést hvernig þróun á útgreiðslu arfs hefur verið síðustu ár. Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árið 2024 var svo sett algjört met, þegar alls voru greiddir 151,8 milljarðar króna í arf innan árs. Það var rúmlega 20 milljörðum krónum meira en árið áður og 74 prósentum meira en árið 2021. Til að fólk átti sig á umfanginu þá jukust arfgreiðslur innan árs í heild á umræddu tímabili – frá 2021 til 2024 – um 65 milljarða króna.

Þar munar langmest um aukningu í útgreiðslu á fyrirframgreiddum arfi. Þær fóru úr um 35 milljörðum króna í 91 milljarð króna á sama tímabili. Það er aukning um 53 milljarða króna, eða 160 prósent.

Íslendingar orðnir ríkari

Ástæðan er auðvitað sú að íslenskt samfélag í heild hefur orðið miklu ríkara á síðustu árum en það var áður. Eigið fé heimila landsins, eign eftir að búið er að draga skuldir frá, var 9.461 milljarður króna í lok árs 2024. Það hefur næstum þrefaldast síðan í árslok 2016.

Auður flestra annarra landsmanna er að mestu bundinn í steypu, húsnæðinu sem viðkomandi fjölskyldur búa í. Næstum átta af hverjum tíu hreinum krónum sem landsmenn eiga eru eign í fasteign. Þar liggur stóra ástæðan fyrir þessari miklu hækkun: hér var bóla á húsnæðismarkaði sem skilaði því að húsnæðisverð hækkaði meira á Íslandi en í nokkru öðru aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Frá 2015 hefur raunverð tvöfaldast og í krónum talið nálægt því þrefaldast.

Það leiddi til þess að þeir sem áttu húsnæði – rúmlega 70 prósent þjóðarinnar – juku auð sinn gríðarlega á nokkrum árum. Hinir, tæpur þriðjungur hennar, sátu hins vegar eftir. Þessar tölur sýna svart á hvítu að lífsgæði fólks á Íslandi hafa ráðist fyrst og síðast af stöðu þeirra á húsnæðismarkaði á undanförnum árum.

Flestir erfa húsnæði eftir foreldra sína eða aðra arfleiðendur. Það vegur langþyngst í dánarbúum þjóðarinnar. Auknar greiðslur í ríkissjóð vegna tíu prósenta erfðafjárskatts, þrátt fyrir hækkandi frítekjumark á hverju ári, eru því að stóru leyti vegna þess að verðið á því húsnæði sem er að erfast hefur hækkað svona svakalega mikið.

En þeir ríkustu orðnir miklu ríkari

Svo er það þannig að sumir eiga meira en aðrir. Á Íslandi er sá hópur sífellt að taka meira til sín. Efnaðasta 0,1 prósent landsmanna, alls um 276 fjölskyldur, áttu 391 milljarð króna í eigin fé um síðustu áramót. Í tíð síðustu ríkisstjórnar – sem skipuð var Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Vinstri grænum – nánast tvöfaldaðist eigið fé þessa hóps og 3,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á tímabilinu 2017 til 2024 fór til hans.

Það vita svo allir sem vilja vita að auður þessa hóps er verulega vanmetinn, þar sem hann á flest hlutabréf í eigu einstaklinga í landinu og þau eru metin á nafnvirði, ekki upplausnarvirði, í tölum Skattsins. Auk þess er efnaðasta fólk landsins í sífellt auknum mæli að sanka að sér fasteignum sem fjárfestingarvörum og á því langt um fleiri slíkar en bara heimilið sem það býr í. Í tölum Skattsins er miðað við fasteignamat þegar þær eignir eru metnar en fyrir liggur að raunvirði getur verið vel umfram það mat.

Samandregið voru hinir ríku mun ríkari á þessum árum. Það sést til að mynda á því að í fyrsta sinn síðan 2010 jókst hlutfall ríkasta eins prósents landsmanna af heildareigin fé landsmanna og mældist 14,3 prósent í árslok 2024. Sömu sögu er raunar að segja með þau fimm prósent sem eiga mestar hreinar eignir. Sá hópur heldur nú á 34,8 prósentum af kökunni á Íslandi.

Réttlátasta skattlagningin

Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart að jafnaðarfólk, sem trúir á samfélag og samtryggingu, telji að erfðafjárskattur sé bæði skynsamlegur og sjálfsagður. Nýverið orðaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, þá afstöðu ágætlega í samtali við Kratann þar sem hún ræddi arf sem henni tæmdist úr dánarbúi foreldra sinna. „Eina ástæðan fyrir því að ég fæ arfinn er að ég fæddist inn í þessa fjölskyldu en ekki einhverja aðra. Ég gerði ekkert til að afla teknanna sem foreldrar mínir öfluðu á lífsleiðinni og nýttu m.a. til að tryggja mér og systrum mínum húsnæðisöryggi og sjá okkur farborða. Það er varla hægt að hugsa sér réttlátari skattlagningu en erfðafjárskatt“.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis. Mynd: Samfylkingin

Það eru líka skýr siðferðisleg og lýðræðisleg rök fyrir erfðafjárskatti, sem kristalla klassískar víglínur stjórnmála. Þeir sem nálgast þau af einstaklingshyggju og hafna jafnvel hugmyndinni um að til sé eitthvað sem heitir samfélag miða alla sína pólitík við að hámarka hag sinn og sinna. Það er gert á grunni þeirrar hugmyndar að þeir sem njóti velgengni geri það vegna þess að þeir búi yfir meiri verðleikum – séu betri – en aðrir sem geri það ekki. Að sama skapi sé það þeim sem vegni illa sjálfum um að kenna að þeir öðlist ekki meiri lífsgæði.

Þessi barnslega einfalda lífssýn, eða rörsýni, hafnar því að til staðar sé kerfi sem umbuni sumum umfram aðra. Raunveruleikinn er hins vegar sá að tilviljanir og heppni eru helsta hreyfiafl tilverunnar. Hvar og hverjum viðkomandi fæðist og á hvaða tímabili hæfileikar hans geta gagnast hefur nefnilega ekkert með verðleika að gera. Bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn Michael Sandel fer mjög vel yfir þetta í stórkostlegri bók sinni Kúgun verðleikanna (e. The Tyranny of Merit) þar sem hann færir skýr og undirbyggð rök fyrir því að ofurtrú einstaklingshyggjufólks í hægrinu á hugmyndina um verðleika sé stórskaðleg samfélagi manna og orsök þess pólitíska og samfélagslega klofnings sem tröllríður nú heiminum.

Erfðafjárskattur er þannig leið til að draga úr þeirri villitrú að efnahagslegt ríkidæmi endurspegli einhvers konar siðferðilega yfirburði.

Auður einnar kynslóðar má ekki stjórna næstu

Annar harður talsmaður erfðafjárskatts er franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Hann telur erfðafjárskatt beinlínis nauðsynlegan til að stemma stigu við að samfélög þróist í arfgengar auðvaldsstéttir. Kjarnarök hans eru þau að auður vex hraðar en hagkerfin þar sem ávöxtun fjármagns er oftast meiri en hagvöxtur ríkis. Þannig safnast auður hraðar upp hjá þeim sem eiga mikið af eignum fyrir en hjá öllum hinum. Slíkt getur beinlínis leitt til þess að áhrif á hagvöxt verði neikvæð, og þar af leiðandi til þess að heildin tapi. Erfðafjárskattur rýfur þessa sjálfvirku uppsöfnun á eignum, peningum og gæðum við tilfærslu milli kynslóða.

Ef slíkur skattur er ekki til staðar verður samfélagið stéttskipt eftir því hverra manna viðkomandi er, ekki eftir frammistöðu hans í lífinu. Til verður erfðabundið forréttindakerfi.

Piketty vill raunar mun áhrifameiri erfðafjárskatt en sá sem er lagður á eignir sem færast milli kynslóða á Íslandi. Hans hugmyndir ganga út á að slíkur skattur sé stigvaxandi og að mjög há prósenta sé lögð á mjög stórar erfðir. Á hinn bóginn eigi litlar eða meðalstórar erfðir að njóta undanþágu frá skatti, eða í mesta lagi greiða lága skattprósentu.

Tilgangurinn er skýr: að koma í veg fyrir að auður einnar kynslóðar stjórni þeirri næstu.

Samfélagslegt gagn og sameiginleg velferð

Erfðafjárskattur er því, allt að öllu, lagður á eignir þegar þær eru færðar á milli kynslóða, ekki á vinnu fólks eða hugvit. Það er sanngjart, réttlátt, lýðræðislegt og efnahagslega skynsamlegt.

Þetta fer gríðarlega fyrir brjóstið á þeim stjórnmálaflokkum á Íslandi, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, sem stunda botninn niður efnahagslega pólitík. Þeirra sem leggja alla áherslu á að gæta hagsmuna þeirra sem eiga mest og beita sér fyrst og síðast fyrir því að reyna að takmarka skattlagningu á þann hóp, draga úr eftirliti með honum og reyna að tryggja að hann fái að kaupa verðmætar samfélagseignir á tombóluverði. Í þeirra huga mun slíkt fyrirkomulag færa öllum íbúum gæði, þar sem „verðminna“ fólkið nýtur þess að fá mylsnur af drekkhlöðnu kökuborði hinna „verðmeiri“.

Ég er með öllu ósammála þessari nálgun. Verðleikar fólks mælast ekki í hverjum það fæðist eða hversu miklar eignir það á. Þeir snúast um að gera samfélagslegt gagn og stuðla að sameiginlegri velferð. Að samtakamáttur allra sem axli ábyrgð og leggi í púkkið búi til bestu heildina.

Að virðing byggist á framlagi, ekki hverra manna viðkomandi er eða hversu mikið hann á.

Reply

or to participate.