• Kjarnyrt
  • Posts
  • Það að endurtaka lygar oft gerir þær ekki að sannleika

Það að endurtaka lygar oft gerir þær ekki að sannleika

Þrátt fyrir að engir skattar séu að hækka um áramót þá heldur stjórnarandstaðan því staðfastlega fram að hér sé allt morandi í skattahækkunum. Þrátt fyrir að gjaldabreytingar séu að uppistöðu mjög hóflegar í öllum samanburði við síðustu ár öskrar sami hópur um að þær séu fordæmalausar. Þrátt fyrir að aukin útgjöld ríkissjóðs séu fyrst og fremst vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og verðlagsbreytinga, skuldir hans hafi lækkað gríðarlega og hallalaus rekstur í augsýn er látið eins og það sé verið að keyra landið fram af bjargbrún. Þrátt fyrir að verið sé að afnema skattastyrki sem nýtast fáum og ríkum er logið til um áhrif á alla. Svona vinnur örvæntingarfullt fólk fullt af valdmissisgremju þegar fólkið í landinu velur aðra til að stjórna. Aðra sem eru að gera nákvæmlega það sem þeir sögðust ætla að gera fyrir kosningar, að baka enn stærri köku þar sem hráefnið er sanngirni, jöfnuður og velferð fyrir alla.

Það er áhugaverð mannfræðistúdía að fylgjast með stjórnmálafólki og -öflum eins og meginþorra minnihlutans á þingi sem hafa vanist því að stjórna, og telja sig nánast eiga hefðarrétt á því, missa völdin. Hugmyndafræðilega þá hafa þau beðið fullkomið skipsbrot enda tilgangur pólitísks vafsturs þeirra árum saman fyrst og síðast að deila og drottna, ekki stuðla að framþróun og heildrænni bætingu samfélagsins.

Vegna þessa er viðbragðið við hreinum stjórnarskiptum, innkomu fólks sem er með skýra stefnu sem er óhrætt við að taka erfiðar en réttar ákvarðanir, hefur ríkan verkvilja og lítur á stjórnmál sem þjónustu við allan almenning, fullkomin yfirkeyrsla. Allar aðfinnslur eru settar í efsta stig, aðallega vegna þess að minnihlutinn á þingi hefur svo lítið annað fram að færa en slíkar upphrópanir.

Góður maður kallaði þetta „valdmissisgremju“ í nýlegri grein. Það nýyrði lýsir sálarástandi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og flokksbrotanna úr þeim tveimur sem fundu sér nýtt heimili í Miðflokknum prýðilega.

Engir skattar hækkuðu en glufum var lokað

Skýrasta birtingarmynd þessa er umræða og orðræða þeirra um fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar síðustu vikur og mánuði. Þótt breytingar á tekjum ríkissjóðs hafi ekki verið meiri en hefð er fyrir, og mun minni í heildarsamhengi en oft þegar síðasta ríkisstjórn stýrði landinu, þá hafa stjórnarandstöðuþingmenn, og fjölmiðlar sem ganga í takti við þá, verið óþreytandi við að öskra af fullkominni vanstillingu um fordæmalausar skattahækkanir og útgjaldaaukningu.

Raunveruleikinn, sem birtist einfaldlega í tölum á blaði, er hins vegar sá að engir skattar voru hækkaðir á milli ára. Ekki einn. En það er búið að afnema nokkrar undanþágur frá sköttum sem nýttust fyrst og síðast afmörkuðum, og án undantekninga tekjuháum, hópum í þeirri skýru viðleitni að gera skattkerfið almennt, einfalt og sanngjarnt fyrir alla, ekki að matarholum fyrir suma.

Og aukin útgjöld, sem eru auðvitað eðlileg þegar samfélag vex og íbúum þess fjölgar, eru fyrst og síðast vegna launabreytinga opinberra starfsmanna sem búið var að semja um í kjarasamningum, verðlagsbreytinga sem gera það að verkum að gjöld fylgja raunverði og eiga sér alltaf stað á milli ára , aukins kostnaðar vegna upptöku nýs örorkulífeyriskerfis sem samþykkt var fyrir síðustu kosningar og svo tilfærslu á milli liða vegna uppgjörs á ÍL-sjóði, myllusteini um háls íslensku þjóðarinnar sem síðustu ríkisstjórnum tókst ekki að leysa úr en ný stjórn kláraði á nokkrum vikum. Það eru sannarlega ný útgjöld til að byggja vegi, hjúkrunarheimili, halda meðferðarstofnunum opnum, taka á vanda barna með fjölþættan vanda, fjölga lögreglumönnum, taka á krítískum vanda á húsnæðismarkaði og til ýmissa annarra þátta sem síðustu ríkisstjórnir létu sitja á hakanum til að fjármagna ósjálfbærar skattalækkanir fyrir efsta tekju- og eignalag samfélagsins, svo fátt eitt sé nefnt.

Fjármuna var aflað með nayðsynlegri hagræðingu, tiltekt og aukinnar gjaldtöku á breiðustu bökin í samfélaginu fyrir nýtingu á þjóðarauðlind. Og peningum gæti hreinlega ekki verið betur varið. En hér var sannarlega enginn að fara á neitt eyðslufyllerí.

Ekki skattahækkun þegar þeir hækkar gjöld

Skoðum þetta nánar, lið fyrir lið.

Fyrir síðustu kosningar lofaði Samfylkingin að hækka ekki skatta á venjulegt vinnandi fólk. Við það hefur verið staðið að öllu leyti. Skattar eru nefnilega það sem allir þurfa að greiða óháð því hvort viðkomandi nýtir sér þjónustu sem ríkið veitir. Ef allt er eðlilegt þá ættu til að mynda þeir sem eru með sömu laun að greiða sama tekjuskatt af þeim launum. Í stjórnartíð þeirra sem mynda minnihlutann á Alþingi nú um stundir, sem stóð frá 2013 og til loka síðasta árs, dróst skattbyrði efstu tekjutíundarinnar, þeirrar sem þénar mest, saman en skattbyrði allra annarra jókst umtalsvert. Með öðrum orðum lækkuðu skattar á fáa ríka en jukust á alla hina.

Gjöld eru svo það sem viðkomandi greiðir fyrir þjónustu sem viðkomandi sannarlega nýtir. Skýrasta dæmið um gjöld eru veiðigjöld, sem útgerðir greiða fyrir að fá að nýta takmarkaða auðlind í eigu þjóðar. Með greiðslu þeirra er leigjandi að greiða leigusala fyrir afnot. Sama á við um kílómetragjöld, sem munu taka gildi um komandi áramót, og verður vikið aðeins betur að síðar í þessari grein.

Með greiðslu þeirra er notandi að borga fyrir afnot af vegum. Ef þú veiðir ekki fisk, þá borgarðu ekki veiðigjald. Ef þú keyrir ekki bíl, þá borgarðu ekki kílómetragjald. Og svo framvegis.

Það er algengt að gjöld sem ríki og sveitarfélög innheimta fyrir ýmsa þjónustu eða vörur sem hafa samfélagslegan kostnað breytist um áramót, í samræmi við verðbólgu. Líkt og þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra sagði í samtali við RÚV í lok árs 2022, þegar slík gjöld ríkisins voru hækkuð um 3,5 prósent: „Þegar gjaldskrár núna eru að hækka í samræmi við verðlag þá eru þær bara að halda verðgildi sínu.“

Sá ráðherra var Bjarni Benediktsson og var formaður Sjálfstæðisflokksins í meira en 15 ár. Enginn í flokki hans kallaði þessar gjaldauppfærslur skattahækkanir eftir þetta viðtal. En 3,7 prósenta hækkanir á sömu gjöldum nú eru nú málaðar upp sem einhvers konar skattalegur glæpur gegn mannkyni.

Þetta er ekki trúverðug pólitík og hana ber ekki að taka alvara.

Aftur, það hækkuðu engir skattar

Þrátt fyrir þennan alveg ótrúlega söng stjórnarandstöðuflokka um skattahækkanir þá er raunveruleikinn sá að tekjuskattur einstaklinga er óbreyttur milli ára. Virðisaukaskattur er óbreyttur milli ára. Erfðafjárskattur er óbreyttur milli ára. Fjármagnstekjuskattur er óbreyttur milli ára. Tryggingagjald er óbreytt milli ára. Bankaskattur er óbreyttur milli ára.

Tekjuskattur fyrirtækja er líka óbreyttur milli ára, þótt hann muni reyndar mögulega skila ríkinu minni tekjum á næsta ári en í ár. Ástæða þess er sú að skatturinn var hækkaður úr 20 í 21 prósent fyrir árið 2024, af sama Bjarna Benediktssyni og rætt var um hér að ofan. Þótt hækkunin hafi átt við rekstrarárið 2024 þá kom hún til greiðslu í ár, þar sem skattur á fyrirtæki leggst á hagnað síðasta árs. Það liggur því fyrir að tekjur ríkissjóðs af fyrirtækjaskatti miða við 20 prósenta álagningu á næsta ári en miðuðu við 21 prósenta álagningu í ár.

Stundum þarf að breyta kerfum sem virka ekki

Tvær stórar gjaldabreytingar verða á milli ára. Annars vegar verður innviðagjald sem leggst á skemmtiferðaskip lækkað umtalsvert. Hins vegar verður kílómetragjald, sem hreinorkubílar hafa greitt síðastliðin tvö ár, lagt á alla bíla fyrir notkun á samgöngukerfinu frá og með næstu áramótum.

Á móti lækka svo önnur gjöld, sem lögð hafa verið á við dæluna. Fólk áttar sig kannski ekki á því en almennt hefur um helmingur af hverjum seldum bensínlítra farið í ríkissjóð í formi slíkra gjalda, virðisaukaskatts og kolefnisgjalds sem greitt er fyrir að fá að menga. Um komandi áramót hækkar kolefnisgjaldið, líkt og það hefur verið að gera í skrefum árum saman, en sértæku gjöldin falla niður. Við það mun bensínlítrinn lækka umtalsvert. Um hversu mikið er tekist á, en miðað við útreikninga Félags íslenskra bifreiðareigenda á meðallækkun á bensíni að vera um 93 krónur á lítra.

Ástæða þess að það er verið að fara í innleiðingu á kílómetragjaldi er að í tíð síðustu ríkisstjórnar hrundu þeir tekjustofnar sem eiga að standa undir rekstri og viðhaldi vegakerfisins. Á árunum 2010-2017, áður en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna tók við, var meðaltal þeirra tekna 1,7 prósent af landsframleiðslu. Það meðaltal var komið niður í eitt prósent sem gerði það að verkum að það vantaði um sjö milljarða króna hið minnsta á ári til að geta sinnt viðhaldi vega eins og Vegagerðin metur nauðsynlegt að sinna því. Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að tala um nauðsynlegar nýframkvæmdir.

Þótt síðasta ríkisstjórn hafi fyrst og síðast verið til utan um að gera ekkert þá áttaði hún sig þó á nauðsyn þess að ráðast í þessar breytingar, og auka þessar tekjur. Auðvitað tókst henni ekki að klára verkið, frekar en flest önnur. En það sem sömu flokkar öskra núna á torgum um að séu „skattahækkanir“ voru þá kallaðir „bjartari tímar“. Hægt er að lesa um það hér að neðan:

Skattastyrkir upp á 148 milljarða

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur sagði skýrt að hún ætli að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Þetta er í fullu samræmi við kosningaáherslur Samfylkingarinnar. Það byggir allt á jafnaðarmannahugsjóninni um að ríkið eigi að styðja við þá sem þurfa á stuðningi að halda, ekki að vera verkfæri til að skammta þeim sem þurfa ekki á neinum stuðningi að halda peningum, tækifærum og upplýsingum til að ná forskoti í lífinu.

Í fjárlögum er fjallað um svokallaða skattastyrki. Með því er átt við „eftirgjöf á skattkröfu sem leiðir til fráviks frá grunngerð skattkerfisins og veldur tekjutapi fyrir hið opinbera.“ Þetta eru því þessar margfrægu glufur sem nýtast sumum.

Hér sjást skattastyrkir sem veittir eru. Mynd:Skjáskot/fjárlagafrumvarp

Í ár, á grundvelli fjárlaga síðustu ríkisstjórnar, voru skattastyrkir áætlaðir 148,3 milljarðar króna og þeir jukust um sjö milljarða króna milli ára. Í fyrstu fjárlögum síðustu ríkisstjórnar voru styrkirnir áætlaðir 88,7 milljarðar króna. Þeir jukust því um 67 prósent að nafnvirði í tíð hennar, og um næstum fimmtung að raunvirði.

Á mannamáli þýðir það að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna jók skattastyrki verulega. Uppistaðan í skattastyrkjum einstaklinga sem hún innleiddi hefur endað hjá efstu tekjuhópunum í samfélaginu.

Glufum sumra sem hefur verið lokað

Það skiptir kannski ekki öllu máli hvort þessar ívilnanir séu kallaðar glufur, styrkir eða salat. Meginmálið er að þetta skilar fáum, sem í langflestum tilfellum eru á meðal tekjuhæstu landsmanna, ávinningi umfram aðra. Hér að neðan eru nokkur dæmi.

Fyrst ber að nefna að um áramót verður tvöfaldur skattafsláttur fjármagnseigenda afnumin, en í honum felst að geta nýtt sér bæði persónuafslátt og frítekjumark til frádráttar. Þetta hefur engin áhrif á fólk sem er með launatekjur. Til að vera með fjármagnstekjur þarf einstaklingur að eiga viðbótarfjármagn sem hann getur látið vinna fyrir sig og af þeim ávinningi greiðir hann mun lægri skatta en fólk af launum sínum. Til að venjulegt vinnandi fólk máti sig inn í þessa uppmúrun í skattaglufu þá er ágætt að horfa til þess að 70 prósent allra fjármagnstekna fara til ríkustu tíu prósenta landsmanna, alls nálægt 250 milljörðum króna árlega. Þessi hópur þarf ekki tvöfaldan skattaafslátt.

Þessu reyndu þingmenn minnihlutans að pakka inn og selja fólki að ríkið væri að taka af þeim nýtingu persónuafsláttar. Bara í alvöru.

Samnýting er ekki samsköttun

Það var líka ákveðið að afnema samnýtingu skattþrepa, sem þau sex prósent landsmanna með hæstu launin geta nýtt sér. Um er að ræða skattalega ívilnun til sambúðarfólks þar sem annar aðilinn hefur tekjur í efsta skattþrepi en hinn ekki. Þá getur sá sem þénar meira nýtt sér skattþrep hins til að borga lægri skatta. Til að falla undir þessa skilgreiningu þarf tekjuhærri aðilinn að vera með að minnsta kosti 1.325 þúsund krónur í mánaðarlaun, eða tvöfalt hærri laun en miðgildi mánaðarlauna var á Íslandi í fyrra.

Þessu reyndu þingmenn minnihlutans að pakka inn og selja sem afnám samsköttunar, líkt og hjón og sambúðarfólk geti þá ekki lengur talið saman fram til skatts. Bara í alvöru.

Samanlagt skilar afnám þessara tveggja glufna því að ríkissjóður fær um fjóra milljarða króna í viðbótartekjur á ári en ríkasta fólk landsins þarf í staðinn að greiða skatta án undanþágu, líkt og þorri landsmanna gerir undanbragðalaust. Fjóra milljarða króna sem geta nýst í samfélagslega uppbyggingu.

Styrkir til orkuskipta sem fóru ekki í orkuskipti

Fyrirtæki hafa líka fengið ýmsar skattaívilnanir, sem hafa verið misvel undirbyggðar. Þar má til að mynda nefna bíleigur, sem hafa fengið undanþágu á greiðslu virðisaukaskatts þegar þær selja vistvæna bíla. Þetta átti að vera hvati til að auka þátttöku þeirra í orkuskiptum, enda hefur fjöldi þeirra fimmfaldast frá árinu 2011 og bílaleigubílar í landinu nú um 33 þúsund talsins.

Áhrif þessa skattaafsláttar á orkuskipti til eigenda bílaleigna hafa verið lítil. Hlutfall nýskráðra rafmagnsbíla hjá bílaleigum er aðeins níu prósent á meðan sama hlutfall er 49 prósent hjá öðrum fyrirtækjum og 60 prósent hjá heimilum landsins. Hlutfall hreinorkubíla af fólksbílaflota bílaleigna var átta prósent í nóvember 2025. Með öðrum orðum þá skilaði skattaívilnunin ekki því sem hún átti að gera, þegar hún var innleidd.

Allskyns skattastyrkir hafa verið veittir til bílaleigna til að ýta undir orkuskipti á síðustu árum. Mynd: ON

Hún kostar hins vegar ríkið fullt af peningum. Áætlað er að þessi glufa hafi kostað ríkissjóð um tvo milljarða króna frá 2021 og þar af einn milljarð króna bara í ár. Þessir fjármunir renna beint í vasa bílaleigna. Önnur fyrirtæki og heimili landsins hafa ekki notið þessarar undanþágu.

Þessi skattafsláttur hefur nú verið afnuminn. Það er rétt ákvörðun vegna þess að ívilnunin skilaði ekki þeim árangri sem hún átti að skila sem skref í átt að almennara skattkerfi fyrir alla. Að kalla þá breytingu skattahækkun er einhvers konar raunveruleikarof.

Þetta er heldur ekki eina ívilnunin sem bílaleigur hafa fengið hjá ríkinu á undanförnum árum. Þvert á móti er sennilega vandfundinn geiri sem hefur notið jafn mikilla skattaívilnana. Heildarumfangið hleypur á mörgum milljörðum króna. Hægt er að lesa um þær í þessu nýlega minnisblaði.

Allt sem þið fáið á móti

Allt að öllu þá er flest á réttri leið, þrátt fyrir að upplýsingaóreiða minnihlutans á þingi reyni að mála upp aðra mynd. Búið er að ná tökum á ríkisfjármálum, lækka skuldir ríkissjóðs umtalsvert, draga verulega úr halla á rekstri hans og ganga þannig frá málum að hann verður rekinn hallalaus árið 2027. Nú geta ríkisfjármálin tekist á við efnahagsleg áföll eins og þau sem dundu á í haust og ófyrirséðar sviptingar án þess að allt skipulag fari á hliðina.

Verðbólga hefur almennt verið að lækka og þótt tölurnar hafi farið upp nú í desember þá er enn um að ræða lægstu verðbólgu í jólamánuðinum í fimm ár. Hækkunin á milli mánaða útskýrist nær einvörðungu á tveimur liðum. Annars vegar hækkaði verð á hitaveitu um meira en það hefur gert milli mánaða síðan skömmu eftir hrun til að fjármagna fjárfestingar Veitna í komandi framtíð og hins vegar hækkuðu flugfargjöld um næstum þriðjung, sem hægt er að rekja til skorts á samkeppni eftir gjaldþrot Play. Hvorugt er afleiðing af stjórnvaldsákvörðun. Góðu fréttirnar eru að matarverð er að lækka, húsnæðisverð er ekki lengur leiðandi og verðbólga er enn lægri en spá Seðlabankans gerði ráð fyrir.

Alls hafa stýrivextir lækkað fimm sinnum síðan kosið var síðast sem skilar venjulegri fjölskyldu með 40 milljón króna óverðtryggt íbúðarlán um 60 þúsund krónum á mánuði í minni vaxtakostnaði. Lyfting þess ofurskatts á venjulegt vinnandi fólk er mesta kjarabót sem massinn á Íslandi getur fengið.

Við erum öll í þessu saman

Það kostar að reka samfélag. Það þurfa allir að leggja sitt að mörkum við þann rekstur. Það var meginstefna Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar að byggja upp lífskjör og velferð á Íslandi á grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Að tala hreinskiptið og af sjálfstrausti um að sú stefna sem rekin hafði verið hér á undanförnum árum, þar sem vöxtur var á kostnað velferðar, myndi ekki ganga lengur.

Við erum í þessu saman og þannig náum við árangri. Ef hver og einn á bara að sjá um sig sjálfur, og lífsbaráttan á einungis að snúast um að ná að skófla til sín eins miklu og hver getur án tillits til samhengis eða áhrifa á samfélagið, þá náum við aldrei þeim árangri sem Ísland getur náð og á að ná. Slík stefna og hugarfar einstaklingshyggju gerir ekkert annað en að eitra samfélagsgerðina, draga úr jöfnuði, auka misskiptingu, stilla hópum á móti hvorum öðrum og á endanum lágmarka mögulega velsæld.

Í aðdraganda síðustu kosningar skrifaði ég að í stað þessarar úr sér gengnu stefnu sem er meginstef núverandi minnihluta á þingi ættum við öll að setjast „í augnhæð við borðið, passa upp á hvort annað og hjálpast að við að baka enn stærri köku þar sem hráefnið er aukin velferð. Það er alveg hægt að fjármagna betri almannaþjónustu. Það er hægt með því að hækka álögur á breiðu bökin sem greiða allt of lítið til samneyslunnar. Það er hægt að gera það með því að láta hagkerfið vaxa með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Slíkt er enginn pólitískur ómöguleiki. Það eina sem þarf er þor, von og vilji.“

Samfylkingin og sitjandi ríkisstjórn hafa það þor, þá von og þann vilja og hafa sýnt það í verki. Það var skýrt fyrir síðustu kosningar og er enn skýrara í dag þegar stjórnin hefur lokið fyrsta starfsári sínu.

Gleðileg jól og takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Næsta fréttabréf kemur út 9. janúar.

Reply

or to participate.