• Kjarnyrt
  • Posts
  • Stjórnarandstaða sem virðist ekki vilja láta taka sig alvarlega

Stjórnarandstaða sem virðist ekki vilja láta taka sig alvarlega

Álit flokkanna sem mynda minnihlutann á Alþingi á fjárlögum liggur nú fyrir. Hún er sambland af orðasalati sem gæti fyllt hálfa hefðbundna skáldsögu, öfugum dyggðarskreytingum og hreint ótrúlegum hugmyndum um að breyta Íslandi í tilraunaeldhús fyrir frjálshyggjubrjálæði. Ef þetta yrði innleitt myndi það grafa undan samfélagsgerðinni eins og við þekkjum hana og fara langleiðina með því að ganga frá velferðarkerfinu sem hún byggir á. Allt svo hægt yrði að lækka skatta á efnaðasta fólkið, draga úr eftirliti, einkavæða nær öll ríkisfyrirtæki og veikja mikilvægar lýðræðisstoðir. Sem betur fer er ríkisstjórn í landinu sem er með allt aðrar áherslur. Ríkisstjórn sem sýnir ábyrgð, vinnur fyrir alla og vill auka velferð með vexti.

Síðustu daga hefur staðið yfir önnur umræða um fjárlög næsta árs. Þau eru hápólitísk og sýna skýrt þá breytingu sem orðið hefur við þau hreinu stjórnarskipti sem urðu fyrir tæpu ári. Þetta eru alvöru fjárlög fyrir venjulegt fólk.

Í þeim er verið að taka til, meðal annars með hagræðingu, eftir heimsins versta partí síðustu ríkisstjórnar, sem rak ríkissjóð á yfirdrætti árum saman svo hún gæti gefið út gúmmítékka og ófjármagnaðar skattalækkanir fyrir breiðustu bökin. Á sama tíma er verið að mæta viðkvæmum hópum, styrkja velferðarkerfið og vinna á innviðaskuld. Allt er þetta gert af ábyrgð og framsýni, án þess að eyða um efni fram, og með það skýra markmið að skila ríkissjóði hallalausum á árinu 2027.

Frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september hefur ýmislegt gerst. Alls kyns efnahagsáföll hafa dunið yfir og efnahagshorfur hafa breyst. Samt hefur ekki þurft að grípa til neinna drastískra aðgerða í fjárlagagerðinni til að mæta þessu. Sem hlutfall af landsframleiðslu eru útgjöld áætluð nákvæmlega þau sömu og þau voru snemma í haust og tekjur ríkissjóðs eru nú áætlaðar aðeins lægra hlutfall af landsframleiðslu en í september. Samt er verið að bæta í þar sem góð rök hafa verið sett fram um nauðsynlegheit.

Það ríkir, með öðrum orðum, jafnvægi og stöðugleiki. Samhliða hafa vextir lækkað um 1,75 prósentustig frá því að boðað var til kosninga í fyrra, sem skilar venjulegum fjölskyldum tugum þúsunda króna í vasann á mánuði, og verðbólga hefur ekki verið lægri í fimm ár.

Ríkisstyrkt hugveita vísar veginn

Stjórnarandstaðan hefur mætt ábyrgri fjárlagagerð með fyrirsjáanlegri vanstillingu. Að hluta til byggir hún á samantekt frá ríkisstyrktu hugveitunni Viðskiptaráði, sem ásamt öðrum hagsmunagæsluaðilum í Húsi atvinnulífsins fá um 245 milljónir króna í árgjöld frá fyrirtækjum að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Á síðastliðnum áratug nema ríkisstyrkir til þeirra um tveimur milljörðum króna. Fyrir þann pening hefur harða hægrið fengið alls kyns greiningar og umsagnir, sem oft hafa einhvers konar hlutlaust yfirvarp en eru glerhörð pólítík, sem nýtist flokkum í því sólkerfi til að reka brauðmolaefnahagstefnuna sína.

Þetta á ekkert að koma mikið á óvart. Það vita það enda allir sem vilja að á milli Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins er snúningshurð sem ansi margir hafa gengið um án þess að hafa skipt um markmið eða tilgang starfa.

Í ár ber umsögn Viðskiptaráðs um tekjubreytingar ríkissjóðs fyrirsögnina „átta skattahækkanir á næsta ári“ þrátt fyrir að breytingarnar séu að uppistöðu blanda af gjaldahækkunum og lokun á skattaglufum sem hafa aðallega nýst efnuðustu hópum landsmanna.

Það er nefnilega munur á sköttum, sem allir þurfa að borga óháð því hvort þeir nýti sér þjónustu eða ekki, og gjöldum, sem notendur þjónustu greiða. Svo hefur þessi hópur tekið upp á því að kalla auknar tekjur af skattstofnum skattahækkanir þrátt fyrir á álagningin hafi ekkert hækkað. Sýnilegast er það í galinni umræðu um erfðafjárskatt, sem hefur verið tíu prósent með skattfrelsismörkum sem fylgja verðlagsþróun í á annan áratug og breytist ekkert milli ára. Þar sem Íslendingum fjölgar og fleiri í samfélaginu eru að erfa niðja sína að eignum en áður þá skilar þessi skattur meiri tekjum. Það er hins vegar ekki skattahækkun, og það veit ríkisstyrka hugveita harða hægrisins mæta vel.

Hálf skáldsaga um lítið sem ekkert

En aftur að minnihlutanum á Alþingi.

Hann skilaði þremur álitum um fjárlög. Álit Stefáns Vagns Stefánssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og nefndarmanns í fjárlaganefnd, verður fyrst og síðast minnst fyrir að vera 93 blaðsíður útprentaðar og 39.583 orð, sem er sirka hálf hefðbundin skáldsaga eða tvær meistararitgerðir. Það er langlengsta álit sem skilað hefur verið um fjárlög í seinni tíð. Meðaltalið síðustu kjörtímabil hefur verið 17 blaðsíður. Innihaldið er samt sem áður lítið sem ekkert, breytingartillögurnar svo fáar og ómerkilegar að það tekur varla að rýna þær og sannarlega í engu samræmi við magnið sem skilað var inn.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokks sem situr í fjárlaganefnd, skilaði áliti sem snýst nær einvörðungu um að stöðva greiðslur til borgarlínu, lækka greiðslur til RÚV og einhvers konar aðra hagræðingu sem á að skila 423 milljónum króna í frumvarpi sem gerir ráð fyrir 1.625 milljarða króna útgjöldum. Það er allt og sumt, innan um súpu af öfugum dyggðarskreytingum með alls kyns fabúleringum um útlendinga og loftslagsmál.

Hliðarveruleiki litaður af taugaveiklun

Og þá komum við að Sjálfstæðismönnunum í fjárlaganefnd og minnihlutaálitinu þeirra. Það litast mjög af þeirri taugaveiklun sem einkennir þann flokk vegna þess að hann er hratt og örugglega að tapa stöðu sinni sem leiðandi afl á hægri kanti stjórnmálanna til Miðflokksins vegna yfirboða í menningarstríðspólitík. Nýjustu kannanir sýna að sá síðarnefndi er farinn að mælast með meira fylgi en móðurskipið og að það er sjálft nú með næstminnsta fylgi sem það hefur nokkru sinni mælst með. Helstu ástæðu þessa má rekja til þess að Sjálfstæðisflokkurinn þykist vera eitt en er í raun annað. Hans eina meginmarkið hefur verið að stjórna og verja kerfin sem hann bjó til. Allt annað er leikrit.

Minnihlutaálitið, sem er einn slíkur leikþáttur, er skrifað af þeim Guðlaugi Þór Þórðarsyni (Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 14,7 prósent fylgi í hans kjördæmi) og Njáli Trausta Friðbertssyni (Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 10,1 prósent fylgi í hans kjördæmi).

Í inngangi álitsins byrja höfundarnir á að segja ósatt. Þar skrifa þeir að forsætisráðherra hafi lofað „í kosningabaráttunni að hún skyldi negla niður vextina með „sleggju“ en sú sleggja er nú hvergi sjáanleg. Verðbólgan er enn viðvarandi og ekki útlit fyrir að hún nálgist markmið að neinu ráði í bráð, vaxtalækkunarferlið stöðvaðist af þeim sökum í maí.“

Þetta skrifa þeir félagar þrátt fyrir að verðbólgan sé nú undir efri viðmiðunarmörkum Seðlabanka Íslands og hefur ekki verið minni í fimm ár. Stýrivextir hafa sömuleiðis lækkað um 1,75 prósent frá því að boðað var til síðustu kosninga, og við blasti kjósendum að þeir gætu losnað við þá vanhæfu flokka sem rekið höfðu landið á stanslausum yfirdrætti til að standa undir ófjármögnunum skattalækkunum fyrir breiðustu bök samfélagsins. Síðast lækkuðu þeir í nóvember og greiningaraðilar eru flestir sammála um að þeir muni halda áfram að lækka við næstu vaxtaákvörðun. Þessi vaxtalækkun sem þegar er fallin til skilar venjulegri vinnandi fjölskyldu með hefðbundið óverðtryggt íbúðalán um 60 þúsund krónum á mánuði í lægri vaxtabyrði. Það er upphæð sem skiptir verulegu máli.

Einkavæðum nánast allt

Inngangurinn á þó ekkert í breytingartillögurnar sem Guðlaugur Þór og Njáll Trausti leggja til. Þeir vilja selja allt hlutafé ríkisins í Landsbankanum. Þeir vilja selja fimmtung allra fasteigna sem Framkvæmdasýsla ríkisins heldur á. Þeir vilja selja ÁTVR, selja allar fasteignir í eigu Íslandspósts. Selja tíu prósent af jörðum sem ríkið á. Þeir vilja selja allt hlutafé í Endurvinnslunni, selja Nýsköpunarsjóðinn Kríu, selja Sparisjóð Austurlands og selja 49 prósent af hlutafé ríkisins í ISAVIA, sem á meðal annars Keflavíkurflugvöll.

Fyrir þetta ætla þeir að fá 420 milljarða króna. Þess má geta að Landsbankinn, stærsti banki landsins, á eigið fé upp á 335 milljarða króna. Ef horft er á markaðsvirði Arion banka, sem er skráður á markaði, þá er það 1,19 sinnum eigið fé hans. Ef sami mælikvarði er notaður til að meta virði Landsbankans ætti hann að vera metinn á tæplega 400 milljarða króna. Það þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn vill selja allt hitt á sirka 20 milljarða króna. Það ætti ekki einu sinni að duga fyrir því að kaupa tæpa helminginn í ISAVIA sem þeir félagar vilja selja. Restin af eignunum yrði þá væntanlega gefin einhverjum viðeigandi aðilum úr flokkastarfinu.

Annað sem vert er að benda á er að Landsbankinn hefur greitt ríkissjóði 211 milljarða króna í arð til ríkissjóðs frá 2013 og arðgreiðslur hans fara hækkandi. Þegar Njáll Trausti var spurður í umræðum um fjárlögin hvort þetta hafi verið reiknað inn í ætlaða hagræðingu Sjálfstæðismanna af sölu Landsbankans þá gat hann ekki svarað því. Sagðist ekki vera með tölurnar á blaði.

Fjölskyldubíllinn Land Rover

Kannski hélduð þið að þetta væri allt saman. Svo er ekki. Þeir Guðlaugur Þór og Njáll Trausti leggja líka til að lækka tekjuskatt einstaklinga um 5,4 milljarða króna á ári, að tekjuskattur fyrirtækja verði lækkaður um tíu milljarða króna, að virðisaukaskattur verði lækkaður um sex milljarða króna og stimpilgjald um 3,1 milljarð króna.

Þeir vilja að hætt verði við hækkun á vörugjöldum á ökutæki og innleiðingu kílómetragjalds – sem ríkisstjórn þeirra sjálfra hannaði og ætlaði sjálf að koma í gagnið um síðustu áramót en er núna orðið að stórhættulegri skattahækkun í huga Sjálfstæðismanna – sem muni skila því að ríkið fái samtals 10,8 milljörðum færri krónum í sjóð sinn á næsta ári. Um er að ræða breytingu á gjaldtöku fyrir notkun á vegum vegna þess að gjöld sem rukkuð eru við dæluna standa ekki lengur undir viðhaldi, þjónustu og nýframkvæmdum hafa hrunið niður í um eitt prósent af landsframleiðslu. Til að ná meðaltali áranna 2010 til 2017 þarf að ná því upp í 1,7 prósent. Það ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að gera þegar hann var í ríkisstjórn en er nú hættur við þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins gerði meira að segja myndband um þessa nýju stefnu. Myndbandið gerði hann í bílakjallara Alþingis og í því benti hann á Land Rover-jeppa, sem kostar nokkra tugi milljóna króna, og kallaði hann venjulegan fjölskyldubíl. Það eitt og sér sýnir ákveðna firringu.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins með það sem hann telur vera venjulegan fjölskyldubíl. Mynd: Facebook/Skjáskot

Veikja eftirlit, fjölmiðla og félagslegt íbúðakerfi

Þeir eru ekki hættir þarna. Guðlaugur Þór og Njáll Trausti vilja líka setja 3,5 prósenta hagræðingarkröfu á allar ríkisstofnanir, setja 7,5 prósenta aðhald á aðalskrifstofur allra ráðuneyta og 25 prósenta aðhald í utanríkisþjónustu. Þeir vilja leggja af ráðstöfunarfé ráðherra, samræma lög um opinbera starfsmenn að öllu leyti við almennan vinnumarkað og fara í óskilgreinda bætta lausafjárstýringu sem á að skila lægri vaxtagjöldum.

Þeir ætla sér að spara 6,1 milljarð króna með því að leggja niður Neytendastofu og Umboðsmann skuldara, skera framlög til Samkeppniseftirlitsins og RÚV um helming, sameina héraðsdómstóla, ráðast í sameiningu í yfirbyggingu ýmissa listastofnana og stofnana á sviði borgaralegra réttinda.

Þá vilja þeir spara 15,5 milljarða króna með því að skrúfa fyrir allt fjármagn til Fjölmiðlanefndar, Gæða- og eftirlitsnefndar velferðarmála, ýmissa styrkja og framlaga á sviði jafnréttismála, virðismats starfa og verkefnastofu um samgöngugjöld.

Þeim er líka meinilla við félagslega húsnæðisaðstoð og leggja til að stofnframlög vegna félagslegra íbúða verði aflögð ásamt vaxtabótakerfinu, sem styður við tekjulægri heimili á eignarmarkaði. Meltið það aðeins.

Þeir vilja lækka fjárframlög til einkarekinna fjölmiðla um 55 prósent, til stjórnmálaflokka um 20 prósent, styrkja, framlaga og verkefna í umhverfismálum um 60 prósent, fjárframlög til umsækjenda um alþjóðlega vernd um 40 prósent og til innflytjendaráðs og móttöku flóttamanna um 60 prósent. Þá eiga styrkir til olíufélaga samkvæmt byggðaáætlun að leggjast af.

Þeir vilja líka hætta við jafnlaunavottun í heild sinni og heimsmarkmiðasjóð atvinnulífsins.

Skattaívilnun fyrir þá sem eru með heimilishjálp

Guðlaugur Þór og Njáll Trausti vilja, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, hætta við allar gjaldahækkanir sem boðaðar eru. Þar með talið leiðréttingu veiðigjalds, innleiðingu kílómetragjalds og hækkun vörugjalda, lokun á skattaglufum sem nýtast nær einvörðungu efnaðasta fólki landsins og ýmsar breytingar sem ætlaðar eru til þess að fjölga íbúðum á markaði til að takast á við neyðarástand sem flokkur þeirra átti lykilþátt í að skapa. Þá er það þeim afar mikilvægt að séreignarsparnaðarleiðin verði áfram nýtanleg fyrir þá sem eru þegar búnir að nýta tíu ár af henni, en hingað til hefur 80 prósent af tugmilljarða króna stuðningi ríkissjóðs vegna hennar lent hjá þremur efstu tekjutíundum.

Ekki nóg með það heldur vilja þeir félagar líka bæta við nýjum skattalækkunum, sem nýtast að mestu þeim allra ríkustu. Má þar nefna skattalegan frádrátt vegna heimilishjálpar. Fyrri tillögur þeirra í þessum efnum hafa hljóðað upp á nokkra milljarða króna skattaafslátt til þeirra sem ráða sér slíka. Ætla má að það sé efnað fólk fyrst og síðast.

Svo vilja þeir hækka endurgreiðslur á virðisaukaskatti til byggingaverktaka í 60 prósent og gefa veðmálastarfsemi frjálsa, væntanlega án eftirlits. Alls eiga skattalækkunartillögurnar þeirra að skila 31,5 milljörðum króna í lægri tekjur fyrir ríkissjóð en Guðlaugur Þór og Njáll Trausti tiltaka þó að þær séu „aðeins fyrsta skrefið í skattalækkunartillögum Sjálfstæðisflokksins sem kynntar verða á næstu misserum.“

Tilraunaeldhús frjálshyggjubrjálæðis

Samandregið er sögnin í þessu nokkuð einföld: Það á að lækka skatta, sérstaklega á ríkt fólk, algjörlega óháð því hvort það hafi áhrif á getu ríkissjóðs til að standa undir grundvallarþjónustu. Það á að einfalda, og helst afnema, regluverk og eftirlit og leyfa markaðnum að sjá algjörlega um sig sjálfur. Það á að veikja velferðarkerfin með fjársvelti svo það sé hægt að einkavæða þau. Sama gildir um öll fyrirtæki í eigu hins opinbera. Þau á að selja einkaaðilum. Með öðrum orðum þá á bara að kveikja í kofanum.

Markmiðið er einhvers konar hringamyndun við veisluhlaðborð bakað úr helstu hráefnum samfélagsins. Þar á að sitja þóknanleg yfirstétt úr áðurnefndu sólkerfi og fær ein að borða kökurnar sem búið er að bera á borð. Mylsnurnar sem hrynja af eru svo fyrir alla hina sem verða nú án öryggisnets ef eitthvað kemur fyrir í lífinu, enda verður enginn peningum lengur til að reka slíkt.

Þetta byggir allt á þeirri sýn að verðleikar fólks mælist á hversu mikið af eignum það á. Því meiri eignir, því „verðugri“ sé einstaklingurinn. Að þeir sem njóti velgengni líti svo á að það sé fyrst og síðast þeim sjálfum að þakka að þeim vegni vel, ekki kerfi sem umbuni þeim umfram aðra. Og að sama skapi sé þeim sem vegni illa sjálfum um að kenna um eigin afdrif.

Það er ekki hægt að taka stjórnmálamenn sem leggja svona lagað fram alvarlega. Og blessunarlega eru þeir ekki lengur í stöðu til að láta drauma sína um að eyðileggja samfélagið í tilraunaeldhúsi frjálshyggjubrjálæðis. Þess í stað er fólk við stýrið sem tekur hlutverk sitt alvara og vinnur fyrir alla, ekki bara mjög fáa suma.

Fyrir það getum við öll verið þakklát.

Reply

or to participate.