- Kjarnyrt
- Posts
- Flokkur pólitískra púðurskota lítur til fortíðar eftir nýrri framtíð
Flokkur pólitískra púðurskota lítur til fortíðar eftir nýrri framtíð
Helsti valdaflokkur Íslandssögunnar er í vanda. Fylgið er eitt það minnsta sem hann hefur nokkru sinni mælst með og annar flokkur, hægra megin við, er að sjúga til sín þjóðernislegt íhaldsfylgi mánuði til mánaðar. Einungis rétt tæplega þriðjungur flokksmanna segir nýjan flokksformann hafa staðið sig vel og sama hlutfall þeirra telur hana raunar hafa staðið sig illa. Til að bregðast við þessari krísu blés Sjálfstæðisflokkurinn til ásýndarfundar. Þar kom fram að fortíðin er nýja ásýndin hjá flokki sem vill helst bara standa kyrr.
Það blasir við öllum með augu og eyru að Sjálfstæðisflokkurinn er í gríðarlegum vanda. Hann er fastur í pólitískri persónuleikakrísu og veit ekkert hvert hann vill fara. Frjálslynt og alþjóðlega sinnað fólk er fyrir ansi löngu búið að yfirgefa flokkinn og finna sér heimastað í öðrum, aðallega Viðreisn. Ungliðar flokksins vilja svo elta Miðflokkinn út í þjóðernispopúlískan skurð fjarhægrisins. Eftir stendur forysta sem veit ekkert í hvorn fótinn hún á að stíga eða hvert hún vill fara.
Í þeirri krísu boðaði Sjálfstæðisflokkurinn fund um síðustu helgi sem átti að hafa þann tilgang að kynna nýja ásýnd. Innvolsið átti að vera niðurstaða hringferðar forystunnar um landið þar sem tekin hefðu verið um borð skilaboð flokksfólks um hvað það vildi á pólitíska diskinn sinn.
Úr varð furðuverk.
„Engin ástæða til að breyta neinu“
Fundurinn hófst á því að fyrrverandi varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hélt upphitunarræðu fyrir nýja forystu sem var bæði mun betur flutt og með meira innihaldi en aðalrétturinn. Pólitísk söngrödd hennar á mun meira erindi en það sem forystuhljómsveitin hafði upp á að bjóða.
Ræða Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokks, skildi nefnilega þá sem á hlýddu, og vonuðust eftir hugmyndafræðilega skýrri stefnumörkun hjá Sjálfstæðisflokknum á viðburðinum, eftir með mun fleiri spurningar en svör.
Vísir náði að kjarna ræðu Guðrúnar á viðburðinum þannig að litlu var við að bæta. Í frétt miðilsins, sem bar fyrirsögnina „Engin ástæða til að breyta neinu“ sagði: „Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að halla sér frekar til hægri eða vinstri til að bregðast við auknu fylgistapi að sögn formanns flokksins sem kynnti nýja ásýnd á sérstökum fundi í dag. Engar breytingar voru boðaðar á stefnu flokksins sem lítur til fortíðar.“
Frasar um frasastjórnmál
Ræða Guðrúnar, undir yfirskriftinni „Skýr stefna - Sterkara Ísland” snerist meira um hefðbundið skítkast út í núverandi verkstjórn, og sérstaklega Samfylkinguna, en nýja stefnu eða ferska vinda. Hún var því hvorki skýr né sterk. Frasar um frasastjórnmál og slagorðapólitík, ásakanir um að allt gott sem núverandi stjórn sé að gera séu verkefni sem síðasta ríkisstjórn hafi ýtt af stað og allt slæmt sem hent hafi samfélagið þá áratugi sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrði landinu hafi í raun orðið til á síðustu 10-11 mánuðum.
Það að PISA-kannanir (sú síðasta birt í tíð síðustu ríkisstjórnar) sýni að fjórðungur barna geti ekki lesið sér til gagns er til að mynda verkstjórninni að kenna. Það að tekið hafi verið upp bókstafakerfi við einkunnargjöf og samræmd próf aflögð, löngu áður en stjórnarskipti urðu, er líka á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar.
Nema í Reykjavík, þar sem Sjálfstæðisflokknum hefur blessunarlega verið haldið meira og minna frá völdum í rúma þrjá áratugi. Þar hefur vandinn víst magnast upp árum saman undir stjórn einhverra vinstrivillinga sem senda einungis frá sér langa leiðbeiningarbæklinga um hvernig skuli halda barnaafmæli.
Þess má geta að nemendur í Reykjavík hafa komið best allra nemenda úr PISA-könnunum. Hægt er að lesa um það hér.
Allt ykkur að kenna og framboð í Reykjavík
Að ofangreindu tilefni má benda á að Sjálfstæðisflokkurinn sat sleitulaust í ríkisstjórn frá 2013 og næstum út 2024, og þar áður frá 1991 til 2009. Á síðustu 34 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórnum sem báru ábyrgð á menntamálum í 29 ár. Samt eiga þeir að vera stikkfrí gagnvart stöðu mála í menntamálum. Það er allt öðrum að kenna. Nú er þjóðin skyndilega orðin nánast ómenntuð á örfáum mánuðum, og fyrir vikið við það að dæma sig úr leik.
Þetta stef var svo endurtekið í öðrum málaflokkum. Í húsnæðismálum. Heilbrigðismálum. Útlendingamálum. Efnahagsmálum. Allir þessir málaflokkar, sem ný ríkisstjórn var meira og minna kosin til að laga, voru í framsetningu Guðrúnar í lagi áður en að ný ríkisstjórn tók við fyrir tæpum ellefu mánuðum, en hafa síðan hrunið.
Svo sagðist formanninum, sem er úr Hveragerði og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, hlakka alveg svakalega til að hreinsa til í ráðhúsi Reykjavíkur í vor, sem einhverjir túlkuðu sem óvænt framboð í borgarstjórn.
Að troða blokkum á bílastæðin í Valhöll
Höldum okkur í Hveragerði. Guðrún, sem stýrir flokki sem seldi bílastæðin fyrir utan höfuðstöðvar sínar Valhöll undir þéttar blokkir fyrir mikinn pening, gagnrýndi líka þéttingu byggðar og reyndi að klæða þá gagnrýni í búning brandara. Hann var svona: „Í Hveragerði heitir þetta að troða blokkum þar sem þær eiga ekki heima!“
Það sagði ýmislegt um hversu ferskur tónn hafi verið slegin að eina sýnilega fréttin um viðburðin, nýju ásýndina og stefnuna, á vefmiðli hins sögulega málgagns Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðsins sem lengi vel lét þingfréttaritara sína sitja þingflokksfundi móðurflokksins, snerist um að formanninum hafi þótt erfitt að selja Valhöll. Að minnsta kosti mun erfiðara en flokknum fannst að selja öll bílastæðin fyrir utan tómlegu höllina undir þéttari byggð.

Á myndinni sést loftmynd af hluta framkvæmda í kringum Valhöll frá árinu 2022. Nú er þarna risin þétt byggð. Mynd: Fréttablaðið
Jens Garðar Helgason, heilagur varaformaður flokksins, fylgdi formanninum eftir með svipuðu moði. Fólkið sem fór í jakkafötin og dragtirnar á laugardagssíðdegi fékk alla gömlu súru slagaranna, í enn falskari tón en áður.
Niðurstaðan var hugmyndafræðileg kyrrstaða, reidd fram með bröndurum sem lentu ekki og pillum sem misstu algjörlega marks, allt flutt flatt og horfandi niður. Sjálfstæðisflokkur framtíðar ætlar ekki að breyta neinu heldur að tala hærra um það sem hefur ekki verið að virka, horfa til fortíðar og vona það besta.
Nyja stefnan var ekki skýrari en svo að formaðurinn hefur eytt síðustu dögum í fjölmiðlum að reyna að útskýra hvað í henni felst.
Ekki verið í verri stöðu á kjörtímabilinu
Þetta væri svo sem skiljanlegt ef staða Sjálfstæðisflokksins væri góð. Ef hann væri aðsópsmikill. Ef landsmenn væru að tengja við stefnu og forystu flokksins. Svo er hins vegar ekki. Þvert á móti.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk nefnilega í fyrsta sinn undir 20 prósent atkvæða í þingkosningum fyrir rétt tæpu ári. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist hann með 17,6 prósent fylgi þrátt fyrir að hafa skipt um formann og varaformann fyrr á þessu ári. Það er minnsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili.

Skýr stefna um engar breytingar boðuð um síðustu helgi. Mynd: XD.is
Ef frá eru taldar nokkrar vikur í fyrrahaust, í aðdraganda skyndikosninga þar sem flokkurinn var enn leiddur af óvinsælasta stjórnmálamanni Íslandssögunnar, þá er þetta minnsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nokkru sinni mælst með. Og það virðist tímaspursmál hvenær aðrir hægri flokkar taka fram úr honum.
Minnihlutinn á þingi: Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsókn, hafa reyndar ekki bætt neinu við fylgi sitt frá síðustu kosningum. Samanlagt fengu þeir þá 39,4 prósent og þeir mælast nú með 39,4 prósent. Munurinn er sá að 11,4 prósent þeirra sem kusu Framsókn þá og um 20 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn, myndu nú kjósa Miðflokkinn.
Mikill minnihluti treystir formanninum sínum
Þetta eru ekki einu kannanirnar sem koma skelfilega út fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í nýlegri könnun Maskínu kemur fram að einungis 14 prósent landsmanna telja að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi staðið sig vel í starfi. Til samanburðar telja 60 prósent að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, hafi staðið sig vel.
Staðan verður enn svartari fyrir Guðrúnu þegar horft er til þess hvernig hennar eigin kjósendur líta á störf hennar. Þar kemur nefnilega fram að einungis 31 prósent Sjálfstæðismanna telja hana hafa staðið sig vel, sem er sama hlutfall og telur hana hafa staðið sig illa. Fleiri flokksmenn eru ánægðir með störf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns í öðrum hægri flokki, en eru ánægðir með Guðrúnu.

Úr könnun Maskínu sem birt var nýverið.
Guðrún er líka eini flokksformaðurinn á þingi sem þarf að lifa við það að njóta ekki stuðnings að minnsta kosti 64 prósent kjósenda sinna. Meira að segja Sigurður Ingi Jóhannsson, sem stýrir flokki í tilvistarbaráttu með 5,5 prósent fylgi og sem hefur þegar tilkynnt að hann muni hætta á næstu mánuðum, nýtur stuðnings öruggs meirihluta sinna manna. Sá formaður sem nýtur mest trausts sinna fylgismanna er svo Kristrún, en 91 prósent kjósenda Samfylkingarinnar segjast treysta henni.
Varaformenn sem meina ekki það sem þeir segja
Þeir flokkar sem sitja í minnihluta á þingi glíma, hver fyrir sig, við allskyns persónuleikavanda. Miðflokkurinn, sem telur sig vera búinn að finna takt með endalausu hundaflauti, innfluttum leikbókum um and-vók orðræðu og vilja til að líf kvenna skilgreinist fyrst og siðast af því hversu mörgum börnum þær geti komið á legg, stendur nú í því að þurfa að takast á við að flokkurinn er að fyllast af fólki með jaðarskoðanir.
Fólki sem er stolt af því að vera rasistar, sem trúir að genamengi sé ráðandi breyta þegar kemur að verðleika, hatast opinberlega út í transfólk, og trúir á samsæriskenningar um djúpríki og bólusetningar. Fólk sem mun mjög hratt verða mjög ósátt þegar það áttar sig á því að Miðflokkurinn er sennilega ekki flokkur sem er sammála öllum skoðunum þeirra. Sú stemmning er þegar orðin mjög sýnileg á samfélagsmiðlinum X, til dæmis eftir að nýr þingflokksformaður Miðflokksins, aðspurð um fullyrðingar um hrun vestrænnar siðmenningar, sagði nýjan varaformann flokksins vera skáldlegan og ekki endilega meina neitt sem hann segi.
„Flokkur hugmyndanna“ hefur enga hugmynd
Framsóknarflokkurinn er svo á barmi þess að halda sér pólitískt lifandi. Á þessu kjörtímabili hefur hann oft ekki mælst með mann inni á þingi og engan í borgarstjórn Reykjavíkur. Formaður flokksins er að hætta og enginn kjörinn fulltrúi þykir, að minnsta kosti sem stendur, spennandi eða augljós kostur til að taka við af honum.
Sýnileg togstreita er á milli þeirra sem telja sig ráða flokknum um í hvaða átt hann eigi að fara. Á hann bara að tala hærra um þá stefnu sem fáir virðast tengja við eða á hann að verða að einhverskonar félagasamtökum sem ætla sér að leiða andstöðu við það að leyfa þjóðarvilja að ráða hvort Ísland eigi að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið eða ekki.
Hvorugur þessara flokka er þó í sama vanda og Sjálfstæðisflokkurinn. Flokks sem formaður hans lýsti sem „flokki hugmyndanna“ í sömu andrá og hún sagði framtíðina vera þá að gera áfram það sama og kjósendur flokksins eru að hafna í síauknum mæli.
Flokks sem boðaði nýja ásýnd en bauð svo ekki upp á neitt nema pólitísk púðurskot, illa fluttar og innihaldslitlar ræður, upptöku á gamalli útgáfu af fálka og aðeins dekkri bláan lit í letrinu á heimasíðunni.
Flokks fortíðar.
Reply