- Kjarnyrt
- Posts
- Pólitískt yfirprjón vegna þess að planið er að virka
Pólitískt yfirprjón vegna þess að planið er að virka
Íslenskt hagkerfi stendur styrkum fótum. Ábyrg efnahagsstjórn er að koma Íslandi aftur á rétta braut eftir piss í skóinn - vegferð síðustu ríkisstjórna. Verið er að endurheimta jafnvægið. Fram undan er stærsta framkvæmdartímabil sögunnar og verðmætasköpun sem byggir á aukinni framleiðni sem hefur það markmið að skapa ný og vel borgandi störf út um allt land. Við þær aðstæður leitar minnihlutinn á þingi í uppnefningasmiðju hlaðvarpa eftir pólitískri leiðsögn. Og staðfestir um leið eigin vangetu.
Það er sérkennilegt andrúmsloft í íslenskum stjórnmálum. Einhvers konar Þórðargleði hefur gripið um sig hjá stjórnarandstöðunni á þingi vegna áfalla sem orðið hafa í atvinnulífinu. Hún telur sig loksins hafa fundið eitthvað sem hægt sé að nota á vinsæla og afkastamikla ríkisstjórn og fyrir vikið er eins og það hlakki í, að minnsta kosti hluta, andstöðunnar.
Umrædd áföll eru lokun PCC á Bakka vegna markaðserfiðleika, tollastríðs og óvilhallrar samkeppni við erlend ríki, gjaldþrot flugfélagsins Play og bilun í álveri Norðuráls á Grundartanga sem hefur dregið tímabundið úr framleiðslu þess.
Ekkert þessara áfalla hefur átt sér stað vegna ákvarðana stjórnvalda, þótt þau séu öll alvarleg og fylgst sé vel með áhrifum þeirra á þjóðarbúið. Síðasta tæpa árið hefur enda farið í að taka til, loka skattaglufum, hagræða upp 100 milljarða króna á gildistíma fjármálaáætlunar, sameina stofnanir, einfalda ferla, láta kerfin virka, lækka hallann á ríkissjóði gríðarlega og skila honum réttu megin við árið 2027 og lækka skuldir ríkissjóðs um 7,5 prósent af landsframleiðslu sem hefur lækkað ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Stýrivextir eru lægri en þegar síðustu kosningar fóru fram og þótt verðbólga hafi verið þrálát þá er hún markvert lægri en hún var þegar sitjandi ríkisstjórn tók við. Það er allt að þróast í rétta átt eftir plani.
Krafa Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknar hefur hins vegar verið að það þurfi að panikka. Fara leiðina sem síðustu ríkisstjórnir fóru í sífellu. Feta veg tækifærissinnaða pilsfaldarkapítalismans sem kalla má pissa í skóinn -leiðina. Pumpa út peningum og veikja tekjustofna, allt á yfirdrætti.
Með málflutningi sínum þá opinbera þessir flokkar vangetu sína til að geta stýrt efnahagsmálum þjóðar. Sem er ágætt í sjálfu sér. Þá veit almenningur það.
Pólitísk leiðsögn sótt til hlaðvarpa
Svo er það ágætis sögn í stjórnmálum að þegar gripið er til þess að uppnefna pólitíska andstæðinga þá er viðkomandi sennilega orðinn rökþrota.
Fyrir um það bil viku fór hlaðvarpsvinahópur sem skiptist á að vera spyrjendur og viðmælendur í alls kyns dagskrárliðum sem enda á -málum fram með frasann um að gengin væri í garð Kristrúnar Frostaveturinn mikli.
Nokkuð sýnilegt er að margir innan minnihlutaflokkanna á Alþingi sækja sína pólitíska leiðsögn í þessi hlustunarherbergi. Það á sérstaklega við flokkana sem vanalega hafa stýrt Íslandi, Sjálfstæðisflokk og Framsókn, með þeim afleiðingum að báðir eru komnir á pólitíska gjörgæsludeild samkvæmt könnunum.
Nýverið kastaði oddviti Framsóknar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóri fram þessum uppnefningarfrasa, oddviti Sjálfstæðisflokks í öðru Reykjavíkurkjördæminu og fyrrverandi ráðherra til margra ára át hann upp í kjölfarið og ritari Framsóknarflokksins, einn þriggja valdamestu einstaklinga í flokknum, skrifaði svo grein um hann. Þingflokksformaður Framsóknar rak svo smiðshöggið á þennan sérkennilega leiðangur í pontu Alþingis í gær þegar hún reyndi að halda sína eigin sérstaka umræðu um efnahagsmál nokkrum mínútum áður en sérstök umræða um efnahagsmál við forsætisráðherra fór fram.
Í grein áðurnefnds ritara taldi hún upp öll ofangreind áföll en bætti við að það væri samdráttur í ferðaþjónustu. Ritarinn klykkti út með því að það hefði verið framið áhlaup á útgerðina með því að leiðrétta veiðigjöld. Niðurstaða ritarans var: „Þegar allt þetta er saman dregið er komin kreppa á Íslandi.“
Það er engin kreppa
Það að halda því fram að á Íslandi sé kreppa er sennilega eitt mesta pólitíska yfirprjón sem hefur verið hent í lengi. Þótt öll áföll í atvinnulífinu séu alvarleg, og hugur sé hjá þeim sem verða fyrir áhrifum af þeim, þá er ekkert þeirra sem átt hefur sér stað síðustu misseri þess eðlis að þau ógni efnahagslífinu í heild. Og ekkert þeirra er afleiðing af stefnu sitjandi ríkisstjórnar.
PCC var ekki samkeppnishæft og stjórnvöld eru að vinna að því að nýta tækifæri til að byggja upp starfsemi á Bakka. Risastór aðgerð í þá veru var kynnt í gær þegar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tilkynnti að Landsnet muni hraða uppbyggingu nýs tengivirkis á Bakka, til að auðvelda tvítengingu Húsavíkur í gegnum svæðið og samhliða því opna á mögulega starfsemi nýrra stórnotenda á iðnaðarsvæðinu. Norðurál ætlar að halda áfram að framleiða ál á Íslandi og mun takast á við bilunina sína á þeim forsendum. Engum hefur verið sagt upp þar. Play var einfaldlega búið að vera í vanda í langan tíma og gjaldþrot þess félags mun hafa takmörkuð áhrif á þjóðarbúskapinn og ríkisfjármálin.
Svona atburðir eru ekki einsdæmi og eitt sem við getum verið viss um að þeir munu gerast aftur. Því er nauðsynlegt að byggja upp viðnámsþrótt ríkissjóðs svo hægt sé að takast á við efnahagleg áföll. Að tryggja að grunnstoðir hagkerfisins séu sterkar, og það hefur ríkisstjórnin verið að gera.
Stærsta framkvæmdartímabil Íslandssögunnar
Styrkleiki hagkerfisins sést vel á hagtölum. Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 0,3 prósent að raunvirði borið saman við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2024. Hagstofan spáir 2,2 prósenta hagvexti í ár og áframhaldandi hagvexti næstu tvö ár. Í fyrra, þegar önnur stjórn réð, var hins vegar samdráttur.
Í síðustu viku var kynntur fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar. Þar eru fjölmargar aðgerðir sem munu draga úr þenslu og stuðla að verðstöðugleika. Seðlabankinn brást nær samstundis við og rýmkaði lánþegaskilyrði. Hann hefur auk þess verið markvisst að reyna að kæla hagkerfið síðustu ár eftir þenslufyllerí síðustu stjórnar og mun bregðast við hagsveiflum með lækkun stýrivaxta.
Það er ekki sýnilegur samdráttur í ferðaþjónustu. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs komu alls 1.792.426 ferðamenn til landsins. Það eru 48.623 fleiri en á sama tímabili í fyrra og munurinn er enn meiri ef miðað er við árið 2023.
Atvinnuleysi á Íslandi mældist 3,5 prósent í síðustu birtu tölum, sem er undir meðaltali og langt undir því sem gengur og gerist í flestum viðmiðunarlöndum.
Svo er verið er að móta atvinnustefnu til næstu tíu ára. Hún snýst um aukna verðmætasköpun og hefur það markmið að hagvöxtur verði drifinn áfram af auknum útflutningi og að vel launuðum störfum fjölgi út um allt land. Það verður mikill viðsnúningur frá fyrri stefnu þar sem hagvöxtur var knúinn áfram af fólksfjölgun og aðflutningi fólks erlendis frá síðustu ár.
Margt annað mjög jákvætt er í pípunum hérlendis. Fram undan er sennilega stærsta framkvæmdatímabil Íslandssögunnar. Hjá Landsvirkjun stendur til að stækka Þeistareykjar- og Sigölduvirkjun, byggja Hvammsvirkjun og reisa fyrsta vindmyllulundinn. Þetta mun stíga myndarlega á móti hagsveiflu. Á sama tíma er samstæða Orkuveitunnar að fara inn í skeið fjárfestinga sem nemur 245 milljörðum króna á nokkrum árum. Þá erum við ekki byrjuð að snerta á boðuðum fjárfestingum ríkis og sveitarfélaga í innviðum, til að vinna á mörg hundruð milljarða króna uppsafnaðri skuld.
Svo er líka ótalið langstærsta fjárfestingaverkefni einkaaðila sem farið hefur verið í hérlendis, fjárfesting upp á mörg hundruð milljarða króna í landeldi. Þar er um að ræða græn verkefni sem nýta sér hreinleika vatns, jarðsjó og græna orku. Fullbúin munu þau framleiða um 150 til 200 þúsund tonn af landeldisfiski án þess að nota til þess jarðefnaeldsneyti. Þetta gæti skapað um 150 til 220 milljarða króna í útflutningstekjur á ári strax snemma á næsta áratug.
Dómsdagsþvaðrið um hið meinta áhlaup
Að lokum skulum við dvelja við þá fullyrðingu að framið hafi verið áhlaup á útgerðir landsins þegar ný ríkisstjórn ákvað að leiðrétta veiðigjöld þannig að ríkissjóður fengi loksins sanngjarna hlutdeild í arðseminni af nýtingu náttúruauðlindar sem er skilgreind í lögum sem eign þjóðar.
Eftir áratugaþref þá steig loks fram stjórnmálafólk sem gat ekki lengur sætt sig við það að leigjandinn fengi að ákveða einhliða hvað hann greiddi í leigu. Sem gat ekki lengur sætt sig við það að hann var augljóslega að velja að greiða leigu langt undir markaðsvirði og byggði samhliða upp gríðarlegt eigið fé sem með réttu hefði átt að renna í uppbyggingu vega, fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu eða til að styrkja skólastarf. Á síðasta áratug Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefðu leiðrétt veiðigjöld getað skilað á áttunda tug milljarða króna í slík fjársvelt verkefni. Það er ansi stór biti af innviðaskuldinni sem ófjármagnaðar skattalækkanir, pilsfaldarkapítalismi og annars konar auðmannadekur þeirra flokka skilaði þjóðinni á þeim tíma.
Minnihlutaflokkarnir á þingi héldu Alþingi Íslendinga, og þjóðinni allri með, í fordæmalausu málþófi til að reyna að koma í veg fyrir þessa leiðréttingu. Þeir töluðu hver ofan í annan um þær alvarlegu afleiðingar sem byggðir landsins og sjávarútvegurinn í heild myndu verða fyrir ef það yrði innleitt fyrirkomulag sem gerði hann í heild bara mun arðbærari en aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Fjárfesting myndi stöðvast, fiskur yrði meira og minna allur fluttur úr landi til vinnslu annars staðar og landsbyggðin sennilega leggjast af. Það þyrfti ekki einu sinni að leggja veiðigjöldin á. Allt þetta myndi gerast strax og búið væri að samþykkja lög þess efnis á þingi.
Það skilaði þeim minnihluta því að nú segjast næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum vera óánægðir með störf hans, en það hlutfall var í kringum fjórðungur í upphafi árs.
Jákvæða afkomuviðvörunin
Þrátt fyrir það þá virðast stjórnarandstæðingar ætla að slá aftur í þennan steindauða klár og byggja það á því að örfáir hafi, með alveg ótrúlega óskammfeilnum hætti, reynt að klína löngu ákveðinni hagræðingu á leiðréttingu veiðigjalda sem er ekki einu sinni komin í gagnið. Blessunarlega sjá nær allir í gegnum þau leikrit. Lesa má um slíkt hér að neðan:
Raunveruleikinn er nefnilega allt annar. Fyrir skemmstu birti eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Síldarvinnslan, jákvæða afkomuviðvörun. Í henni kom fram að fyrirtækið hagnaðist mun meira en það hafði gert ráð fyrir á fyrstu níu mánuðum ársins. Nú áætlar Síldarvinnslan að rekstrarhagnaður hennar – hagnaður áður en fyrirtækið borgar skatta, afskrifar og greiðir af lánum sínum – hafi verið allt að 12,8 milljarðar króna á tímabilinu, sem er 2,4 milljörðum krónum meira en fyrirtækið reiknaði með. Á fyrstu tíu mánuðum ársins greiddi Síldarvinnslan undir 650 milljónir króna í veiðigjöld. Jafnvel þótt sú tala myndi tvöfaldast í nýju kerfi þá yrði heildargreiðslan vegna þeirra 1,3 milljarðar króna, eða rétt rúmur helmingur þess viðbótarrekstrarhagnaðar Síldarvinnslunnar á fyrstu níu mánuðum ársins.
Ástæðan er fyrst og síðast sú að afurðaverð fyrir fiskinn, sem unninn er á Íslandi, er mun hærra en áætlanir gerðu ráð fyrir „auk þess sem reksturinn hefur almennt gengið vel á árinu og veiðar verið að hluta umfram áætlanir.“
Markaðsvirði aukist um 65 milljarða
Þetta eru frábær tíðindi og munu þá skila ríkissjóði auknum tekjum samhliða. Þau eiga reyndar ekkert að koma neitt mikið á óvart. Forstjóri Síldarvinnslunnar fór yfir flest af þessu þegar hann kynnti hálfsársuppgjör hennar fyrr á árinu, þar sem greint var frá því að hreinn hagnaður hefði aukist um 34 prósent milli ára. Við sama tilefni sagði forstjórinn, sem er líka formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), frá því að Síldarvinnslan gæti leyft sér að geyma aflaheimildir til haustsins sem mundi hafa jákvæð áhrif á rekstrartekjur hennar þá. Það er meira í pípunum. Sama SFS fór mikinn í veiðigjaldaumræðunni í vor og haust. Hér að neðan er stutt áminning um hvað gekk á þar.
Önnur leið til að sjá hversu vel gengur í sjávarútvegi, og hversu eðlilega markaðurinn er að bregðast við því að eigandi auðlindar fái aðeins meira borgað fyrir að leigja hana til nýtingar, er að skoða gengi skráðra sjávarútvegsfyrirtækja í kauphöllinni.
Einn þingmaður stjórnarandstöðunnar, Jón Pétur Zimsen, talaði mikið um það í vor og sumar hvað almenningur og lífeyrissjóðir, sem eiga hlut í þeim þremur útgerðum sem eru á markaði, væru að verða af miklum fjármunum vegna veiðigjalda. Það lá við að ef einhver segði orðið „veiðigjöld“ upphátt þá átti það að stórskaða þessar almannaeignir.
Grípum niður í eina af ræðum hans, sem flutt var í byrjun maí: „Við skulum líka hafa það í huga að orð okkar og gerðir sem erum hér á Alþingi hafa mikil áhrif. Stærstu félögin í sjávarútvegi eru í eigu almennings að miklu leyti. Lífeyrissjóðir eiga stóran hluta í mörgum þessara fyrirtækja og um leið og ríkisstjórnin birti þessar sérstöku og í raun hröðu skattahækkun, sem forsætisráðherra var sjálf búin að segja að ætti að taka tíu ár en það á að gerast hér á nokkrum vikum og mánuðum, þá lækkaði virði þessara fyrirtækja á markaði strax. Virðið lækkaði strax.“
Frá því að frumvarp um leiðrétt veiðigjöld var samþykkt hefur markaðsvirði þeirra þriggja sjávarútvegsfyrirtækja – Brims, Síldarvinnslunnar og Ísfélagsins – sem skráð eru á markað aukist um 65 milljarða króna. Í gær voru þau saman metin á um 393 milljarða króna. Það þýðir að markaðsvirði þeirra hefur aukist um 20 prósent frá því um miðjan júlí.
Umræddur þingmaður hefur ekki flutt neina ræðu um þessa þróun síðan að hún varð að veruleika.
Að koma Íslandi aftur á rétta braut
Þótt staðan sé sterk og efnahagsstjórnin örugg þá er, líkt og forsætisráðherra sagði í sérstakri umræðu um efnahagsmál í gær, enn verk að vinna. Sú ábyrgð er tekin alvarlega en stóra myndin er að staðan er miklu betri nú en hún var fyrir ári. Og allt bendir til þess að hún verði enn betri í nánustu framtíð.
Forsætisráðherra orðaði það vel í áðurnefndri umræðu þegar hún sagði: „Við ætlum ekki að hætta við allt sem er erfitt og gera allt fyrir alla. Við ætlum ekki að fara þá leið Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknar. Við ætlum að halda áfram og gera það sem þarf. Með því að halda okkar striki. Til að koma Íslandi aftur á rétta braut.“
Tímabundin ágjöf má ekki éta alla umræðu. Útflutningsgreinarnar okkar standa sterkt og fram undan er mikið blómaskeið. Almenningur á því að taka Kristrúnar Frostavetri fagnandi.
Hann verður mildur og gefandi.
Reply