• Kjarnyrt
  • Posts
  • Að þora að breyta matarholum og braski sumra í tækifæri fyrir alla hina

Að þora að breyta matarholum og braski sumra í tækifæri fyrir alla hina

Á Íslandi hefur það fengið að viðgangast allt of lengi að fjárfestar geti safnað upp íbúðum sem fjárfestingavörum og verslað svo með þær meira og minna skattfrjálst. Á Íslandi hafa braskarar getað haldið lóðum sem gætu hýst blómlega byggð óbyggðum árum saman til að reyna að knýja fram meira byggingamagn eða vegna þess að þeir eru að bíða eftir að fá hærra verð fyrir að gera ekkert. Á Íslandi hefur byggingaregluverk í allt of langan tíma verið seinvirkt og tyrfið. Á Íslandi hefur húsnæðisstuðningi síðustu ríkisstjórna fyrst og síðast verið beint gegn efnamestu landsmönnunum. Þessu á öllu að breyta núna. Og það er bara byrjunin.

Fyrsti húsnæðispakki sitjandi ríkisstjórnar var kynntur í liðinni viku. Hann er troðfullur af aðgerðum og hápólitískur. Í pakkanum endurspeglast áherslur um að setja stöðu venjulegs fólks framar hagsmunum braskara, að mæta ákalli um fleiri íbúðir hraðar með skýrum og beinskeyttum aðgerðum, stórbæta stöðu fyrstu kaupenda á markaðnum og fjölga öruggustu, gæðamestu og ódýrustu kostunum sem eru í boði á leigumarkaði, svo fátt eitt sé nefnt.

Til að byrja með er verið að framfylgja því loforði Samfylkingarinnar að íbúðir verði fyrst og fremst heimili, ekki fjárfestingavara. Því markmiði verður meðal annars náð með því að draga úr skattfrelsi söluhagnaðar þeirra sem eiga margar íbúðir frá og með 1. janúar 2027. Þeir einstaklingar sem eiga margar íbúðir (það eru til dæmis 7.645 íbúðir í eigu einstaklinga sem eiga þrjár eða fleiri) hafa þá 14 mánuði til að selja þær áður en skattfrelsið verður skert. Við það myndast skýr hvati til að reyna að koma fleiri íbúðum inn á markaðinn innan þess tíma og auka með því framboð. Hin hliðin á þessum peningi er að umræddir fjárfestar, sem eru eðlilega sífellt að leita leiða til að ávaxta sitt pund, munu í auknum mæli setja peningana sína í fjárfestingar í atvinnulífinu, sem er frábært.

Til viðbótar á að heimila sveitarfélögum að leggja fasteignagjaldsálag á byggingarlóðir sem eru látnar standa auðar í þéttbýli og taka þannig á óþolandi braski með lóðir sem gætu fyrir löngu verið komnar í blómlega uppbyggingu, samfélaginu til heilla. Svo verður Airbnb-frumvarpið, sem var lagt fram í vor en komst ekki í gegn vegna málþófs minnihlutans vegna leiðréttingar veiðigjalda, klárað nú í haust. Það mun takmarka skammtímaleigu við lögheimili og eina aðra fasteign utan þéttbýlis og ýta þannig fleiri eignum inn á markaðinn.

Ofan á þetta verður skattafsláttur leigutekna gerður minni (fara úr 50 í 25 prósent) og innleitt fyrirkomulag sem á að koma í veg fyrir leiguverðshækkun á fyrstu tólf mánuðum tímabundinna leigusamninga. Allt felur þetta í sér að haldið er áfram á þeirri skýru vegferð að loka skattaglufum sem sérhagsmunaríkisstjórnir síðustu ára og áratuga hafa komið inn í kerfið til að búa til skattafslætti eða -leysi fyrir suma og helst hina allra efnuðustu og eignamestu.

Svo á að ráðast í stórfellda einföldun á regluverki svo það verði hægt að byggja hraðar, gera róttækar breytingar á byggingareftirliti, taka upp sérstaka byggingagallatryggingu sem mun auðvelda neytendum að fá úrlausn komi gallar í ljós og gera umsóknir um byggingaleyfi stafrænar og sjálfvirkari þannig að afgreiðslufrestur þeirra styttist verulega.

Þúsundir nýrra íbúða og stórbætt kerfi

Hér er verið að gera mikið hratt. Það á að fjölga uppbyggingu almennra íbúða með hærri stofnframlögum strax til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga. Þau fara úr 30 í 35 prósent. Þarna er um að ræða það húsnæðisform sem einna mest eftirspurn er eftir á Íslandi, leiguíbúðir sem hægt að fá á miklu betra verði en annars staðar á leigumarkaði samhliða því að bæði gæði og öryggi er tryggt. Vandamálið hefur verið að önnur sveitarfélög en Reykjavík hafa nánast ekki tekið þátt í uppbyggingu kerfisins, enda eru nærri átta af hverjum tíu almennum íbúðum í höfuðborginni, þar sem jafnaðarmenn hafa ráðið för síðustu áratugi. Þá verður viðbótarframlag ríkisins vegna íbúða fyrir námsmenn, öryrkja og félagsíbúða sveitarfélaga hækkað úr fjórum í fimm prósent.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra kynntu fyrsta húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar. Mynd: Stjórnarráðið

Það á að byggja fjögur þúsund nýjar íbúðir í Úlfarsárdal með nýrri nálgun sem byggir á samvinnu Reykjavíkurborgar og verkalýðshreyfingarinnar. Nýja hverfið verður í höndum sérstaks innviðafélags að loknum samkeppnisviðræðum sem Reykjavíkurborg hyggst auglýsa á næstu vikum. Um er að ræða nýja nálgun sem borgin hefur þróað með verkalýðshreyfingunni og félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. Stefnt verður að því að þarna verði fyrst og síðast um að ræða íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Aðkoma ríkisins verður í gegnum stofnframlög til almennrar íbúðauppbyggingar og hlutdeildarlán sem væntanlegir kaupendur geta fengið.

Það á nefnilega að stórbæta hlutdeildarlánakerfið. Til upprifjunar er um kerfi að ræða þar sem ríkið lánar vaxtalaust hluta af kaupverði húsnæðis. Lánið ber enga vexti og ekki er borgað af því fyrr en annaðhvort eftir að íbúðin er seld eða 25 ár eru liðin. Vandamálið við kerfið er að það hefur ekki verið nægilega nýtanlegt í raunveruleikanum. Nú á að fara með árlega úthlutun úr fjórum í 5,5 milljarða króna, úthluta mánaðarlega og rýmka skilyrðin til þess að fleiri geti nýtt sér þau.

Brugðist við raunveruleika og planað

Til að tryggja áframhaldandi framboð af verðtryggðum lánum, fyrir þá sem þurfa á þeim að halda, þá mun Seðlabankinn leggja fram vaxtaviðmið fyrir þau eins fljótt og auðið er í samráði og samstarfi við ríkisstjórnina. Með því verður þeirri óvissu sem skapast hefur eftir dóminn í vaxtamálinu eytt.

Þótt staðan eins og hún er í dag kalli á að verðtryggð lán séu kostur fyrir þá sem komast ekki inn á húsnæðismarkað nema í gegnum þau er líka stefnt að því að draga úr vægi slíkra lána með reglum um lágmarkshraða afborgana sem taka gildi árið 2027. Brugðist við raunveruleikanum núna, og planað til framtíðar.

Svo er sleggjan líka á lofti. Það á að selja tugmilljarða eignir Húsnæðissjóðs til að lækka skuldir ríkisins og samhliða lækka vaxtagreiðslur þess. Þetta er ekki lítil aðgerð. Lánasafnið sem um ræðir er gríðarlegt að umfangi og í fyrsta skrefinu er stefnt að því að selja lán að andvirði 80 til 120 milljarða króna. Þetta er eins og að selja hlutinn í Íslandsbanka sem var seldur fyrr á árinu rúmlega aftur.

Verður til sanngjarn réttur sem allir eiga

Það á síðan loksins að setja sanngjarnan og eðlilegan ramma utan um skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði, sem efstu tekjutíundir hafa fyrst og síðast nýtt sér hingað til og er því að uppistöðu húsnæðisstuðningur fyrir best settu hópana. Það verður gert með því að heimila öllum að nýta sér þá heimild í tíu ár. Það verður réttur sem allir eiga. Þeir sem hafa nýtt hana linnulaust frá 2014 eða 2015, á tíma þar sem hið opinbera hefur gefið eftir rúmlega 90 milljarða króna í skatttekjur vegna leiðarinnar, eru því búnir með sinn nýtingartíma. Þeir sem eru búnir með til dæmis þrjú eiga þá sjö eftir. Þeir sem hafa ekki nýtt eiga það inni til framtíðar ef þeir kjósa, ólíkt því fyrirkomulagi sem var við lýði þar sem úrræðið var framlengt ár frá ári án þess að mynda sama rétt fyrir alla hina.

Samhliða verður efnt til samráðs um leiðir til að auka þátttöku almennings í séreignarsparnaði. Markmiðið verður að láta alla, sama í hvaða tekjuhópi þeir eru, fá þennan stuðning á ævi sinni.

Það þarf enginn að efast um að í séreignarsparnaðarleiðinni, sem felur í sér tvöfalda launahækkun upp á mörg hundruð þúsund krónur á ári vegna aukinna framlaga atvinnurekanda og skattfrelsis frá ríkinu, felst gríðarlegur stuðningur. Vandamálið við leiðina var að í þeirri útfærslu sem síðustu ríkisstjórnir keyrðu, átti fyrst einungis að vera til nokkurra ára og var framlengd ár frá ári vegna þess „að það var svo erfitt að hætta þessu“ þá hefur nýtingin fyrst og fremst verið í efstu tekjutíundum. Þess vegna hefur séreignarsparnaðarleiðin, eins og hún hefur verið útfærð, að stóru leyti verið húsnæðisstuðningur fyrir efnuðustu Íslendinga. Á sama tíma drógu stjórnvöld síðustu ára úr húsnæðisstuðningi við þá sem raunverulega þurftu á honum að halda.

Annar pakki á leiðinni eftir áramót

Þess vegna verður ekkert um það deilt að þeirra útfærsla, þar sem um takmörkuð gæði var að ræða sem fóru óumdeilanlega að langmestu leyti til efnuðustu tíunda landsins (80 prósent til 30 prósent efstu), var óréttlát. Nú er þetta réttur sem allir eiga. Það er réttlátt og verkefnið fram undan er að finna leiðir til að fá sem allra flesta til að nota hann.

Ein slík leið var kynnt í fyrra þegar Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og Már Wolfgang Mixa, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, skrifuðu athyglisverða grein í Vísbendingu þar sem þeir lögðu til eina slíka leið sem vert er að skoða af fullri alvöru. Þeir lögðu til að unnt yrði að gera greiðslu í séreign sjálfvirka þannig að launþegi þurfi að hafa fyrir því að hætta slíkum greiðslum í stað þess að þurfa að sækja um þær eins og nú er gert. Allir yrðu sem sagt látnir greiða í séreignarsparnað, og fá þá launahækkunina sem felst í mótframlagi vinnuveitenda og skattafsláttinn sem felst í nýtingu á sparnaðinum til að borga fyrir húsnæði. Ef viðkomandi vill alls ekki þessa launahækkun og þennan skattafslátt þá getur hann einfaldlega valið að fara út úr fyrirkomulaginu. Í stað þess að þurfa að skrá sig sérstaklega, myndi þurfa að afþakka.

Þótt þær aðgerðir sem tilteknar hafa verið hér að ofan séu gríðarlegar að umfangi, og muni skila miklu fyrir marga, þá er þetta bara fyrsti húsnæðispakkinn. Sá næsti verður kynntur strax á fyrri hluta næsta árs. Í honum verða meðal annars kynntar leiðir fyrir ríkið til að liðka fyrir uppbyggingu nýrra íbúða, tekið á uppbyggingu íbúða á ríkislóðum, breytingu ríkiseigna í íbúðir og regluverki á leigumarkaði eftir að frumvarp um skráningarskyldu leigusamninga hefur hlotið afgreiðslu á Alþingi.

Munurinn á þeim sem gera og þeim sem sitja

Allar þessar aðgerðir sem taldar hafa verið upp hér að ofan eru nauðsynlegar til að bregðast við afar flókinni stöðu sem er uppi í samfélaginu þar sem stórir hópar hafa verið útilokaðir frá því að geta keypt sér þak yfir höfuðið og stjórnvöld síðustu ára gerðu ekkert sem skipti máli til að bregðast við. Í þeim kristallast munurinn á þeim sem gera og þeim sem bara sitja að völdum. Kyrrir og verklitlir.

Seðlabanki Íslands hefur líka eytt síðustu árum í afar stórkallalegum aðgerðum til að slá á þenslu í samfélaginu. Reyna að kæla hagkerfið. Það gerði hann með því að keyra upp stýrivexti í 9,25 prósent og halda þeim þar í meira en eitt ár. Þótt vextirnir hafi lækkað síðustu misseri eftir að ný ríkisstjórn tók við og verðbólga dróst saman, þá eru þeir enn 7,5 prósent. Samhliða herti hann lánþegaskilyrði húsnæðislána vegna þess að hann hélt að það væri að myndast bóla á þeim markaði.

Á mannamáli þýðir þetta að peningar urðu dýrari og aðgengi að því að fá þá lánaða varð erfiðara. Hugmyndin var að fá heimili og fyrirtæki til að eyða minna, segja fullorðnu fólki að búa áfram heima hjá foreldrum sínum og biðja skjannahvíta og veðurbarna Íslendinga um að hætta að fara svona oft til Tene.

Þessi kæling hefur gengið mun hægar en til stóð og flestir eru sennilega sammála um að meðferðin sé að mörgu leyti búin að valda meiri sársauka en upprunalegi sjúkdómurinn. Það á sérstaklega við um þá viðkvæmu hópa sem sitja alltaf uppi með það að reyna að hemja verðbólguna. Hér er verið að tala um láglaunafólk. Einstæðinga. Leigjendur. Skuldsettar barnafjölskyldur.

Síðasta ríkisstjórn skildi þau eftir með stórlækkaðan kaupmátt ráðstöfunartekna sem gerði allar lífsnauðsynjar miklu dýrari og margfaldan vaxtakostnað.

Örugg skref í rétta átt

Nú má merkja að Seðlabankanum sé orðið nokkuð ágengt í markmiði sínu. Hagkerfið hefur kólnað. Í ofanálag féll áðurnefndur vaxtadómur sem gerði það að verkum að bankarnir breyttu lánaframboði sínu og hættu að mestu að lána verðtryggt. Á meðal þess sem gerðist í kjölfarið var að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði lækkaði sem varð til þess að bankastjóri Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir, lét hafa eftir sér í vikunni að vextir gætu nú farið að lækka. Samhliða má gera hóflegar væntingar til þess að Seðlabankinn rýmki lánþegaskilyrðin á ný þannig að miklu fleiri geti orðið fyrstu kaupendur að fasteign en eru það í dag.

Þótt nýjustu verðbólgutölurnar hafi slegið aðeins á þessar væntingar þá er skýrt að það er farið að glitta í ljós við enda ganganna, sérstaklega vegna þess að ríkisstjórnin er að taka ríkisfjármálin mjög föstum tökum. Er í mikilli tiltekt og er óhrædd við að breyta kerfum sem eru ekki að virka fyrir venjulegt vinnandi fólk.

Samhliða er verið að takast á við þær áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir, til dæmis að hjálpa fleirum að koma þaki yfir höfuðið.

Í öruggum skrefum erum við að færast í rétta átt.

Reply

or to participate.