• Kjarnyrt
  • Posts
  • Það verður hætt að velja sigurvegara á Íslandi

Það verður hætt að velja sigurvegara á Íslandi

Hagvöxtur á mann á Íslandi hefur verið mun minni en í samanburðarlöndum, enda nánast enginn á síðustu árum. Sú atvinnustefna sem rekin var hérlendis fól í sér að stjórnvöld völdu sigurvegara í stað þess að þau sköpuðu tækifæri til vaxtar með samstarfi við atvinnulífið. Þetta er nú breytt og yfir stendur vinna við að móta atvinnustefnu til tíu ára. Hún snýst um aukna verðmætasköpun, hefur það markmið að hagvöxtur verði drifinn áfram af auknum útflutningi og að vel launuðum störfum fjölgi út um allt land.

Þegar áherslur við mótun nýrrar atvinnustefnu voru kynntar í síðustu viku hélt Sveinbjörn Finnsson, aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar sem leiðir verkefnið, kynningu á niðurstöðum þeirrar greiningar.

Þar kom fram að hagvöxtur hefur verið mikill á Íslandi undanfarin 15 ár í samanburði við önnur lönd, og að sama hafi verið uppi á teningnum síðustu fimm ár. Á lengra tímabilinu hefur hagvöxturinn á Íslandi verið meiri en á öllum Norðurlöndunum, í Bretlandi, Bandaríkjunum og samanlagt innan allra aðildarríkja Evrópusambandsins.

Þegar horft er til síðustu fimm ára er eina landið sem nær að skríða fram úr okkur Danmörk með sitt Novo Nordisk, sem framleiðir vinsælustu þyngdarstjórnunarlyf í heimi, ævintýri en á undanförnum tveimur árum hefur lyfjaiðnaðurinn í Danmörku bætt meira en tveimur prósentustigum við hagvöxt þar í landi á ári. Hjá okkur hefur þessi hagvöxtur að uppistöðu verið drifinn áfram af makrílveiðum og miklum vexti í ferðaþjónustu.

Þegar ofangreindar tölur eru skoðaðar þá ætti Ísland ekkert að vera að væla. Hér virðist allt í blóma. Smjör virtist drjúpa af hverju strái í hagvaxtarlandinu Íslandi. Málið flækist hins vegar þegar raunhagvöxtur á hvern íbúa er skoðaður. Þá er ekki bara verið að skoða hvað kakan stækkar mikið milli ára heldur hvað hver sneið íbúa stækkar.

Nánast enginn hagvöxtur á mann

Við það kemur í ljós að við erum ekkert sérstök á síðustu 15 árum með minni hagvöxt á mann en í Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum og alræmda Evrópusambandinu, sem mörgum hræðsluáróðursmanninum og -miðlinum er tíðrætt um að sé statt í fullkominni efnahagslegri stöðnun.

Staðan er okkur enn óhagstæðari í samanburðinum þegar horft er til síðustu fimm ára. Þá mælist hagvöxtur á mann á Íslandi einungis 0,3 prósent, eða varla nokkur. Það er svipað og í Bretlandi, sem er almennt flokkað sem efnahagslegt ringulreiðarland eftir útgöngu þess úr Evrópusambandinu snemma árs 2020.

Í Danmörku var hann á sama tíma 2,1 prósent, alls 1,8 prósent í Bandaríkjunum og eitt prósent í staðnaða Evrópusambandinu. Ein ástæða þessa er sú að Ísland gerði efnahagsleg mistök eftir kórónuveirufaraldurinn og var lengur að ná vopnum sínum en viðmiðunarlönd. Áhrif þessa teygðu sig inn á síðustu ár, enda samdráttur í kerfinu heilt í fyrra og hagvöxtur því umtalsvert neikvæður deilt niður á hvern íbúa.

Þorri raunvaxtar vegna fólksfjölgunar

Í greiningunni sem Sveinbjörn kynnti kemur fram það sem flestir vita nú þegar: Að hagvöxtur á Íslandi hefur verið knúinn áfram af fólksfjölgun og aðflutningi fólks erlendis frá síðustu ár.

Þetta er ekki ályktun, heldur töluleg staðreynd. Í krónum og aurum þýðir þetta að 580 milljarðar króna af framlagi til hagvaxtar á síðustu 15 árum eru tilkomnir vegna fólksfjölgunar, eða 60 prósent af raunhagvexti þess tímabils. Það er umtalsvert meira en því sem aukning framleiðni vinnuaflsins hefur skilað.

Fyrir liggur að einungis eitt prósent starfa sem orðið hafa til á síðustu 15 árum hafa orðið til í háframleiðnigeirum, þar sem verðmætasköpun á hvern starfsmann er mikil. Af 16 þúsund störfum sem orðið hafa til í útflutningsgreinum á því tímabili voru um 15 þúsund í lágframleiðnigreinum. Þar er ferðaþjónusta fyrirferðamest, enda hlutfall hennar í útflutningi Íslands vaxið úr 19 í 32 prósent frá árinu 2010.

Fjárfesting sat eftir

Við heyrum oft talað um mörg hundruð milljarða króna innviðaskuld. Skuld sem Samtök iðnaðarins hafa metið á um 680 milljarða króna. Þessi staða er uppi vegna þess að íslenskt samfélag fjárfesti ekki í innviðum í neinum takti við þá fjölgun notenda þeirra sem farið var yfir hér að ofan. Önnur leið til að segja þetta er að íbúum fjölgaði um tugi þúsunda og ferðamönnum sem heimsóttu landið um á aðra milljón á árunum 2010 til 2024. Notendur innviða urðu miklu fleiri. Fjárfesting í þeim var hins vegar vel undir sögulegu meðaltali. Það var pólitísk ákvörðun fyrri ríkisstjórna að haga málum þannig.

Þannig var fjárfesting í íbúðarhúsnæði, ýmiss konar starfsemi hins opinbera sem flokkast til innviða og atvinnulífsins, 24,2 prósent af landsframleiðslu að meðaltali á árunum 1995 til 2009. Á síðasta hagvaxtarskeiði, sem stóð frá 2010 til 2024, var það 19,9 prósent.

Innviðaskuldin og eftirspurnarverðbólgan sem keyrðist upp á síðustu árum, með þeim afleiðingum að vextir snarhækkuðu með tilheyrandi áhrifum á heimili og fyrirtæki, er því heimatilbúið vandamál. Afleiðing af aðgerðum og aðgerðarleysi stjórnvalda síðustu ára.

Ísland ræður ekki við svona mikinn vöxt

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, benti á það í viðtali við Vísbendingu sumarið 2023 að hagvöxturinn á Íslandi hefði ekki verið sjálfbær og að landið ræði ekki við svona mikinn vöxt. Ferðaþjónustan hafi aukið tekjuflæði inn í hagkerfið, keyrt upp raungengi og búið til neysluspennu. „Þetta er vinnuaflsfrek grein og hún tekur til dæmis undir sig mikið húsnæði, bæði til að hýsa ferðamennina og starfsmennina. Þá skapast þær aðstæður að það vantar húsnæði og allir fara að tala um að það þurfi að byggja meira. En til þess þarf meira en lóðir og lánsfé. Það verða að vera til vinnandi hendur og það þarf að hýsa þessar hendur.“

Í kynningu Sveinbjarnar eru teknar saman prýðilegar upplýsingar um það álag sem hagvöxtur, drifinn áfram af fólksfjölgun, skapar á opinbera þjónustu og helstu innviði. Þar kemur fram að nafnverð fasteigna hafi þrefaldast á síðustu 15 árum og raunverð þeirra meira en tvöfaldast. Afleiðingarnar eru meðal annars þær að lífskjör fólks á Íslandi ráðast nú að miklu leyti á því hvenær fólk komst inn á fasteignamarkað, hvað það er gamalt og hverra manna það er.

Umferð aukist um 80 prósent

Það eru fleiri skýr dæmi um álagið sem skapast hefur vegna þessa. Umferð á hringveginum hefur til að mynda aukist um 80 prósent án þess að ríkið hafi fjárfest nægjanlega í viðhaldi og uppbyggingu vegakerfisins til að standa undir þeirri notendafjölgun. Þessu er nú verið að mæta með því að bæta á áttunda milljarð króna í viðhald vega til að standa undir nauðsynlegu viðhaldi og þjónustu og með því að innleiða kílómetragjald svo tekjur af ökutækjum og eldsneyti geti náð sama hlutfalli af landsframleiðslu og þær voru að meðaltali á árunum 2010 til 2017. Með því verður tryggt fjármagn svo hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum.

Þau störf sem hafa orðið til í íslensku hagkerfi á síðustu árum hafa að stórum hluta verið mönnum af fólki sem flutt hefur til landsins erlendis frá. Um það verður vart deilt enda hlutfall innflytjenda á Íslandi farið frá því að vera átta prósent af íbúafjölda árið 2015 í að vera 18 prósent í fyrra. Það er langmesta fjölgun innflytjenda á meðal OECD-ríkja á tímabilinu. Uppistaðan í þessum hópi er fólk sem flytur til Íslands á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem tryggir frjálsa för fólks innan aðildarríkja þess.

Óhjákvæmilegt er að þessi skarpa samfélagsbreyting skapi þrýsting víða í opinbera kerfinu. Ein birtingarmynd þess er að fjöldi barna á grunn- og leikskólaaldri með erlent ríkisfang hefur meira en þrefaldast.

Þá hefur fjárfesting í löggæslu setið svo verulega á hakanum að í fyrra voru jafn margir lögreglumenn á vakt á öllu höfuðborgarsvæðinu um helgar og voru bara í Reykjavík árið 2007. Í millitíðinni fjölgaði íbúum á svæðinu um vel yfir 50 þúsund auk þess sem fjöldi ferðamanna sem heimsótti það margfaldaðist. Önnur birtingarmynd af þessu álagi er að sjúkrarýmum á hverja 100 þúsund íbúa hefur fækkað um tæplega 30 prósent.

Enga lobbýista, takk

Þetta er einfaldlega staðan. Tölurnar sem farið var yfir hér að framan eru staðreyndir. Þrátt fyrir allt of litla fjárfestingu í innviðum hefur ríkissjóður samt sem áður verið rekinn í mörg hundruð milljarða króna halla linnulaust frá árinu 2019. Á því er verið að taka með ábyrgum aðgerðum í efnahagsmálum þar sem tiltekt eftir vont partí síðustu ára er meginþema ásamt því að hefja fjárfestingar í innviðum af krafti að nýju án þess að ógna stöðugleika. Hallinn á ríkissjóði verður lítill á næsta ári og enginn árið 2027, skuldir ríkissjóðs eru að lækka skarpt sem hlutfall af landsframleiðslu og uppsöfnuð hagræðing til ársins 2030 er metin á 107 milljarða króna.

Samhliða er verið að hugsa til lengri tíma með því að móta vaxtaplan næsta áratugar. Áherslur þess verða allt aðrar en á því tilviljunarkennda skeiði sem lauk með endalokum síðustu ríkisstjórnar og brotthvarfi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins úr ríkisstjórn. Í stað þess að hagvöxtur sé drifinn áfram af fólksfjölgun á hann að vera drifinn áfram af auknum útflutningi.

Til að stuðla að því ætlar ríkið sér að bæta samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja með því að efla innviði sem þau geta nýtt sér, einfalda regluverk án þess að gefa afslátt á eftirliti, auka skilvirkni í opinberri þjónustu og halda áfram stuðningi hins opinbera við nýsköpun. Með þessu verður verðmætasköpun aukin í samstarfi við atvinnulífið. Ríkið eflir það en velur ekki hvaða greinar eiga að vera sigurvegarar, líkt og hefur allt of oft liðist í fortíðinni.

Sú áhersla kom skýrt fram hjá forsætisráðherra þegar hún greindi frá því að engir lobbýistar yrðu skipaðir í fimm manna atvinnuvegaráð svo það væri hægt að forðast að hver og einn myndi „lobbýa“ fyrir sinn geira. Það myndi enda leiða til þess að „niðurstaðan verði minnsti samnefnari allra“.

Fólk að vinna á fullu við að breyta

Nýlega sagði þingmaður mér að hann hefði farið á fund þar sem skilaboðin voru mikil ánægja með störf ríkisstjórnarinnar. Þegar kafað var dýpra, og spurt hvað það væri sérstaklega sem hefði breyst, þá kom tvennt skýrast fram. Annars vegar að hér væri loksins komin stjórn sem þorir að breyta. Fyrir vikið er tiltrú á að það sé hægt að hrista upp í kerfunum snúin aftur.

Hins vegar að þessi ríkisstjórn er ekki bara að tala. Hún og þingflokkarnir sem standa að henni eru skýrir um hvað þeir ætla að gera, sýna dugnað, seiglu og metnað til að koma því til leiðar og vanda sig við að sameina frekar en sundra á þeirri vegferð. Þegar er búið að sýna nú er unnið til langs tíma fyrir alla, ekki skamms tíma fyrir suma. Atvinnustefna til tíu ára, sem á að móta án þess að lobbýistar vatni hana niður í núll prómíl og hefur það að leiðarljósi að auka verðmætasköpun til að geta verið með meira svigrúm til að bæta lífsgæði sem flestra, er skýrt merki um það.

Það eru eðlilega ekki alltaf allir sammála þeim áherslum sem ríkisstjórnin hefur, en það er ljóst á könnunum að mikill meirihluti almennings er það. Fylgi ríkisstjórnarflokkanna og stuðningur við ríkisstjórnina hafa enda aukist það sem af er kjörtímabili, sem er sjaldgæf þróun.

Fyrir vikið hefur dregið úr spennu í samfélaginu. Það er meiri ró þegar fólk sem nálgast stjórnmál sem þjónustustarf í stað þess að líta á þau sem heimild til valdboðs situr við stjórnvölinn.

Tilfinningin er að venjulegu fólki finnist það ekki lengur þurfa að vera stanslaust með augun á öllu sem er að gerast á vettvangi stjórnmála vegna þess að það treystir nú valdhöfum, en gerði það ekki áður.

Tilfinningin er sú að traustið sé að koma til baka.

Reply

or to participate.