- Kjarnyrt
- Posts
- Áróðursstríðið sem þjóðin verður að vinna
Áróðursstríðið sem þjóðin verður að vinna
Stórútgerðin og fylgitungl hennar segja leiðréttingu veiðigjalda vera brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, að hún hagnist ekki óhoflega og borgi raunar þegar allt of mikið til samfélagsins. Það sé einfaldlega ekkert svigrúm til að borga meira. Ríkisstjórnin, sem fer með eignarhaldið á auðlindinni fyrir hönd þjóðarinnar, er á annarri skoðun og byggir það á staðreyndum úr raunheimum. Þjóðin sem kaus ríkisstjórnina til valda er henni sammála. Nú þarf að anda í kviðinn, standa af sér hræðsluáróðurinn og klára málið. Í eitt skipti fyrir öll.
Ný könnun var birt í vikunni. Samkvæmt niðurstöðu hennar styðja 80,5 prósent landsmanna að útgerðir greiði gjald sem tekur mið af raunverulegu verðmæti afla fyrir afnot af fiskimiðunum. Könnunin er gerð eftir að frumvarpsdrög ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu veiðigjalda var birt í samráðsgátt. Í henni kemur líka fram að þessi skoðun er ekki háð búsetu og að kjósendur allra stjórnmálaflokka hafi hana umfram andstöðuna.

Mynd: Gallup
Önnur könnun, gerð nokkrum dögum fyrr, sýndi að 70 prósent svarenda sögðust þekkja frumvarpið vel eða í meðallagi og að 94 prósent þeirra töldu að útgerðir gætu borgað meira í veiðigjöld.

Þessum þjóðarvilja eru þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn Íslands að framfylgja. Þrír flokkar sem allir boðuðu breytt veiðigjöld fyrir síðustu kosningar og hlutu samt sterkt umboð frá kjósendum. Flokkar sem eru með 36 af 63 þingmönnum landsins og mynda nú ríkisstjórn sem boðaði í stefnuyfirlýsingu breytt auðlindagjöld. Ríkisstjórn sem tveir af hverjum þremur landsmönnum styðja.
Rándýrar auglýsingar þar sem venjulegt fólk skýlir stórútgerðum
Það fer varla framhjá neinum að í gangi er gríðarlegt áróðursstríð vegna þeirrar sjálfsögðu og sanngjörnu ákvörðunar réttkjörinna stjórnvalda að leiðrétta veiðigjöld þannig að þau taki mið af markaðsvirði en ekki verði sem útgerðir ákveði sjálfar þegar þær selja eigin vinnslum afla. Það er enda ekki eðlilegt að einn atvinnuvegur fái einfaldlega að ákveða sjálfur það andlag sem gjöld hans í ríkissjóð ráðast af, sérstaklega þegar um er að ræða rekstur sem byggir á nýtingu á þjóðareign sem umræddar útgerðir fá afnot af, en eiga ekki.
Birtingarmynd þessa áróðursstríðs eru margskonar með gríðarlegum fjárhagslegum tilkostnaði. Rándýrar auglýsingar þar sem venjulegu fólki og jafnvel heilu sveitarfélögunum er teflt fram sem skildi fyrir eigendur stórútgerða. Heimsendafréttir í fjölmiðlum með bein eignartengsl við útgerðir og illa uppbyggðar dómsdagsspár sumra þingmanna gömlu helmingaskiptaflokkanna sem hafa tamið sér að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni þegar þeir hafa farið með valdið.
Telja eignarrétt sinn vera brotinn
Samkvæmt umsögn hagsmunagæslusamtaka stórútgerða, sem telur 69 blaðsíður án fylgigagna og var birt í vikunni, þá eru þau ekki á þeirri skoðun að sjávarauðlindin sé þjóðareign, líkt og fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða kveður á um. Þar er því haldið fram að frumvarpsdrögin sem eiga að leiðrétta veiðigjöld séu í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Ég ætla að segja þetta aftur: hagsmunagæsluarmur atvinnuvegar sem byggir tilveru sína á að nýta eign sem hún á ekki telur að ákvörðun eigandans um að breyta leigunni fyrir aðgengið brjóti á eignarrétti sínum.
Þessu svipar til þess að leigjandi íbúðar myndi halda því fram að gengið væri á stjórnarskrárvarinn eignarrétt sinn ef leigusalinn, sem ætti íbúðina, myndi ákveða að hækka leiguna.
Segjast ekki græða óhoflega
Annað stef í ároðurssöngnum er að það sé alls ekki nægileg arðsemi í sjávarútvegi til að standa undir frekari greiðslu veiðigjalda. Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segir að afkoman í sjávarútvegi beri „engin merki þess að þar liggi sérstakur umframarður. Afkoman sveiflast frá einu ári til annars, allt eftir gæftum og markaðsaðstæðum. Sum ár er hún með ágætum en önnur ár er hún áhyggjuefni.“
Það liggur fyrir að framlegð hjá útgerðum landsins – tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði – var 93,8 milljarðar króna árið 2023. Hún hefði farið niður í 84,2 milljarða króna ef þær hefðu greitt leiðrétt veiðigjald það ár. Þetta er mun hærri framlegð en tíðkast almennt í íslensku atvinnulífi.

Í umræðunni er oft látið eins og að óskilgreind landsbyggð sé mótfallin því að útgerðin greiði veiðigjald sem taki mið af raunverulegu aflaverðmæti. Ný könnun sýnir hið gagnstæða. Mynd: Gallup
Það liggur líka fyrir að rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs – það hlutfall af tekjum sem situr eftir sem hagnaður þegar allur kostnaður hefur verið greiddur – var að meðaltali 24 prósent á árunum 2014 til 2023. Í íslensku viðskiptahagkerfi var þetta hlutfall níu prósent á sama tíma. Sjávarútvegur er því langarðbærasta atvinnugrein landsins. Ef sjávarútvegur hefði greitt níu milljörðum krónum meira í veiðigjöld á hverju ári á ofangreindum áratug hefði rekstrarhagnaðarhlutfall hans farið úr 24 í 20 prósent. Það væri enn rúmlega tvöfalt á það sem gengur og gerist í íslensku viðskiptalífi.
Reynt að þvæla með tölur
Hagnaður útgerðarinnar var 67,5 milljarðar króna árið 2023 og telur mörg hundruð milljarða króna á síðustu 15 árum. Þetta er það sem eftir stendur þegar búið er að fjárfesta, borga allan kostnað og greiða niður skuldir. Ef hagnaðurinn á þeim tíma er uppreiknaður á núvirði er hann sennilega yfir eitt þúsund milljarðar króna. Af þeirri arðsemi sem verður af veiðum og vinnslu hefur um 70 prósent setið eftir hjá eigendum útgerða og um 30 prósent farið í greiðslu allra opinberra gjalda. Þar er ekki bara verið að tala um veiðigjald heldur tekjuskatt og tryggingagjald líka. Þetta er samkvæmt tölum sem teknar eru saman fyrir útgerðina sjálfa á hverju ári og birtar með pompi og prakt á Sjávarútvegsdeginum að hausti.
Eigendur útgerða hafa greitt hluta af hagnaðinum út í arð. Í umsögn SFS segir að „arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði“ séu lægri en í öðrum geirum. Þetta er í besta falli villandi framsetning. Á tímabilinu 2009 til 2023 námu slíkar greiðslur um 190 milljörðum króna á gengi hvers árs fyrir sig í sjávarútvegsfyrirtækjum. Uppreiknað með tilliti til verðbólgu er arðgreiðsluupphæðin miklu hærri. Ástæða þess að arðgreiðsluhlutfallið af hagnaði er lægra en í ýmsum öðrum greinum er að hagnaðurinn í krónum talið er svo gríðarlegur í sjávarútvegi að þótt það sé ekki nema brot af honum borgaður út í arð þá er það samt miklu hærri upphæð en eigendur flestra annarra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu fá í slíkar greiðslur.
Sum árin hafa arðgreiðslurnar, sem nýtast eigendum útgerða meðal annars til að kaupa sig inn í flesta aðra anga íslensks viðskiptalífs, verið hærri en heildargreiðslur í opinbera sjóði. Það sem er ekki greitt út í arð safnast svo upp sem eigið fé í fyrirtækjunum. Eign sem eigendurnir eiga, og geta veðsett, þótt þeir séu ekki búnir að taka hana út.
Afvegaleiðing hugtaka
Í lok árs 2022, sem eru nýjustu birtu tölur, var bókfært eigið fé sjávarútvegs 449 milljarðar króna. Það hafði þá aukist um 150 milljarða króna á fimm árum. Til samanburðar þá var eigið fé Landsbankans, stærsta banka landsins, um 326 milljarðar króna um síðustu áramót. Hans meginhlutverk er að miðla peningum – peningarnir eru varan sem hann sýslar með – og íslenskir bankar eru undir mjög ströngum eiginfjárkröfum sem skikka þá til að halda á miklu eigin fé.
Ein þeirra leiða sem notuð er til að mæla árangur fjármálafyrirtækja er sú arðsemi sem þeir ná á eigin fé. Landsbankinn náði til að mynda 12,1 prósent arðsemi á sitt í fyrra. Hagsmunagæslusamtök stórútgerða, og fjölmiðlar á þeirra línu, vilja að sama tól sé notað til að mæla arðsemi í sjávarútvegi. Í umsögn SFS segir að „arðsemi eigin fjár er hvorki meiri né minni en í öðrum atvinnugreinum“.
Aftur, þá er þetta afar villandi framsetning. Í fyrsta lagi er arðsemi eigin fjár í sjávarútvegi meiri en í flestum örðum atvinnugreinum. Í öðru lagi er eigið féð sem safnast hefur saman í sjávarútvegi samanlagt miklu meira en í flestum öðrum greinum, að fjármálastarfsemi undanskilinni. Það liggur í hlutarins eðli að hlutfallsleg arðsemi af mjög miklu getur verið minni en hlutfallsleg arðsemi af miklu minna en á sama tíma skili fyrrnefnda arðsemin miklu fleiri peningum í veski eigenda sinna en sú síðarnefnda.

Meirihluti kjósenda allra stjórnmálaflokka telur að útgerðin geti borgað markaðsgjald fyrir aðgang að þjóðarauðlindinni. Mynd: Gallup
Annað fyrirbæri sem notað er til að sýna að samfélagslegt framlag er skattspor, sem sagt er að hafi verið 87 milljarðar króna hjá sjávarútvegi árið 2023. Til að útskýra hvar þar er á ferðinni þá er öllum sköttum og gjöldum sem greiðast í tengslum við rekstur fyrirtækja safnað saman og úr því myndað umrætt skattspor.
Launaskattar starfsmanna, lífeyrisgreiðslur þeirra, það sem allir birgjar greiða, skattar greiddir af vátryggjendum, það sem fer til lánveitenda í formi vaxta, eigenda í formi arðs og svo loks það sem fyrirtækin sjálf greiða beint í skatta vegna starfsemi sinnar. Þar er allskonar undir: tekjuskattur, útsvar, tryggingagjald sem lagt er ofan á launagreiðslur, kolefnisgjöld, veiðigjöld, hafnargjöld, fasteignaskattar. Það vantar bara að telja líka til virðisaukaskattinn af matarinnkaupum þeirra sem vinna hjá útgerðinni og jafnvel erfðafjárskattinn sem sama fólk greiðir þegar það deyr.
Með þessari framsetningu er hægt að mála upp mjög skakka og miklu stærri mynd, enda ekkert sem liggur fyrir að flest af þessu myndi ekki finna sér farveg óháð starfsemi sjávarútvegs.
Sagt hafa neikvæð áhrif á virði skráðra fyrirtækja
Eitt heitasta útspilið í áróðursstríðinu er að ákvörðun stjórnvalda, sem fara með eignarhald þjóðar á sjávarútvegsauðlindinni, um að leiðrétta veiðigjöld muni, samkvæmt mati sem SFS keypti, mögulega lækka virði þriggja sjávarútvegsfyrirtækja sem skráð eru á markað um rúmlega 53 milljarða króna.

Forsíðufrétt Morgunblaðsins á þriðjudag. Síðar sama dag birti SFS umsögn sína um veiðigjaldafrumvarpið. Stærsti einstaki eigandi Morgunblaðsins er fjölskyldan sem er kennd við Ísfélagið. Mynd: Skjáskot
Fyrirtækin sem um ræðir eru þrjú: Síldarvinnslan, Brim og Ísfélagið. Samanlagt markaðsvirði þeirra í dag er um 380 milljarðar króna.
Nú er það svo veiðigjaldið verður áfram sem áður þannig að þriðjungur af hagnaði af afla mun fara til ríkisins sem veiðigjald en 2/3 verða eftir hjá útgerð. Umfang hagnaðar mun áfram sveiflast með því hvernig gengur að veiða. Munurinn nú felst einungis í því að miðað verður við markaðsverð í stað þess að útgerðin ákveði sjálf á hvaða verði hún selur eigin vinnslum aflann úr veiðum.

Forsíðufrétt Morgunblaðsins hafði verið sögð daginn áður en hún var birt, á Innherja Vísis, daginn áður. Framkvæmdastjóri SFS settist í stjórn Sýnar, eiganda Vísis, í síðasta mánuði. Mynd: Skjáskot
Svo er það þannig að þegar atvinnustarfsemi byggist á því að nýta takmarkaða auðlind í þjóðareigu, þá hafa ákvarðanir eigenda hennar eðlilega áhrif á virði þess sem fær að nýta hana. Það má til að mynda færa rök fyrir því að sú ákvörðun síðustu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að breyta veiðigjaldainnheimtu þannig að gjaldið hefur dregist verulega saman ef það er sett á verðlag dagsins í dag hafi aukið markaðsvirði umræddra fyrirtækja á kostnað þeirrar rentu sem eigendur auðlindarinnar gátu innheimt.
Þegar stjórnvaldsákvörðun hækkar markaðsvirði
Sama á við um fleiri stórar stjórnvaldsákvarðanir. Nú skulum við fara aftur til haustsins 2021. Þá lá fyrir mikil óvissa á kynþroskamati í haustmælingum Hafrannsóknastofnunar á loðnukvóta. Samt úthlutaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, kvóta til útgerða. Það gerðist eftir þingkosningarnar 2021 en áður en að ný ríkisstjórn, skipuð sömu flokkum og kjörtímabilið áður, tók við. Kristján Þór var ekki í framboði í kosningunum 2021 og var því hættur á þingi þegar úthlutunin átti sér stað en beið myndun nýrrar ríkisstjórnar á ráðherrastóli.

Eitt af síðustu stóru verkum Kristjáns Þórs Júlíussonar í sjávarútvegsráðuneytinu var að undirrita reglugerð um úthlutun á stærsta lóðnukvóta sem úthlutað hefur verið í næstum 20 ár. Það gerði hann 13. október 2021. Mynd: Stjórnarráðið
Engum loðnukvóta hafði verið úthlutað í tvö ár áður en kom að þessum risakvóta, sem var sá stærsti í tæpa tvo áratugi, þannig að um gríðarlega búbót var að ræða fyrir útgerðir sem fengu úthlutað loðnu, sem skilaði á sjötta tug milljarða króna í kassann fyrir þær. Á endanum tókst ekki að veiða allan kvótann sem úthlutað var þarna um haustið 2021 og síðustu tvö ár hefur vart verið nein loðna. Stofninn hefur ekki staðið undir veiðum.
Af hverju er verið að rifja þetta upp hér? Jú, vegna þess að þessi ákvörðun stjórnmálamannsins Kristjáns Þórs Júlíussonar skilaði því að þrjú fyrirtæki fengu 56,5 prósent af þeim loðnukvóta sem var úthlutað. Ísfélagið, þá einkafyrirtæki að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og barna hennar, fékk mest, 19,99 prósent. Síldarvinnslan og tengd félög komu þar á eftir með 18,5 prósent og Brim var í þriðja sæti með um 18 prósent.
Tvö þessara félaga, Síldarvinnslan og Brim, voru skráð á hlutabréfamarkað þegar loðnukvótanum var úthlutað og það þriðja, Ísfélagið, bættist við í desember 2023. Eftir tilkynninguna um úthlutun kvótans rauk markaðsvirði skráðu fyrirtækjanna upp. Á níu mánuðum hækkaði virði Brim og Síldarvinnslunnar um meira en 120 milljarða króna. Þegar Ísfélagið var skráð á markað, eftir sameiningu við Ramma, var félagið metið á um 110 milljarða króna.
Það er rangt gefið
Það sem ríkisstjórnin er að gera er að leiðrétta veiðigjöld þannig að eigandi auðlindarinnar fái réttláta hlutdeild í arðinum sem af nýtingu hennar hlýst. Eins og staðan er í dag dugar veiðigjaldið vart, og stundum ekki, fyrir þeim kostnaði sem ríkið leggur út vegna þjónustu við sjávarútveg.
Frumvarpið sem liggur fyrir er vel undirbúið og vel undirbyggt. Það er lagt fram af stjórn flokka sem allir boðuðu breytingar á þessari gjaldtöku fyrir kosningar, hlutu yfirgnæfandi stuðning kjósenda til að hrinda þeim breytingum í framkvæmd, boðuðu það í stjórnarsáttmála og eru nú að standa við stóru orðin. Framkvæmdin er þannig að hún nýtur yfirgnæfandi stuðnings þjóðarinnar sem skilur hvað hún snýst um.
Ef það þarf að aðlaga frumvarpið við þinglega meðferð málsins til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á litlar eða meðalstórar útgerðir sem hafa ekki tök á að standa undir frekari breytingum á veiðigjöldum þá verður það gert. En það verður ekki gefið neitt eftir þegar kemur að stóru myndinni.
Það þýðir ekki að hér séu komnir til valda stjórnmálamenn sem hati sjávarútveg eða skilji ekki mikilvægi hans fyrir þjóðarbúið. Þvert á móti þá er öllum ljóst hversu mikilvæg sú atvinnugrein er Íslandi og hversu mikil verðmæti þeir sem treyst hefur verið fyrir takmarkaðri nýtingu þjóðarauðlindarinnar hafa búið til úr þeim tækifærum sem kvótakerfið hefur fært þeim.
Tölurnar hér að ofan tala sínu máli. Það hefur verið rangt gefið þegar kemur að skiptingu á hagnaði af nýtingu þjóðarauðlindar í allt of langan tíma. Viðbúið var að þeir sem hafa hagnast umfram það sem eðlilegt er af slíkri skiptingu muni beita öllum tiltækum tólum og tækjum til að vinna gegn breytingum í þágu þjóðar, en mjög mikilvægt er vera óhrædd og að sjá í gegnum þann áróður.
Takist það mun samfélagið í heild vinna.
Reply