- Kjarnyrt
- Posts
- Skattahækkunarlygin
Skattahækkunarlygin
Síðasta ríkisstjórn réðst í fjöldann allan af ófjármögnuðum skattalækkunum og -ívilnunum sem gögnuðust fyrst og síðast þeim hópum samfélagsins sem hafa mest á milli handanna. Nú stendur til að bæta skattskil, loka glufum í skattkerfinu og fækka undanþágum. Samhliða stendur til að auka skilvirkni og leiðrétta gjaldtöku þar sem við á. Það er í samræmi við ábendingar alþjóðlegra stofnana og liður í aðgerðum sem ætlað er að leiða af sér stóraukna fjárfestingu í innviðum, hallalaus fjárlög og því að krónunum í veskjum þorra venjulegs vinnandi fólks fjölgi um hver mánaðamót. Þetta kallar stjórnarandstaðan skattahækkanir. Ríkisstjórnin kallar þetta hins vegar skynsemi og réttlæti.
Stjórnarandstaðan klifar nú á því að skattahækkunarhrina gangi yfir þjóðina sem heild. Þar er aðallega þrennt sem hún telur til. Í fyrsta lagi að það eigi að láta sjávarútvegsfyrirtæki sem eru arðbærari en nokkur önnur fyrirtæki í landinu vegna nýtingu á þjóðarauðlind, og hafa sankað að sér mörg hundruð milljörðum króna í eigið fé þrátt fyrir tugmilljarða króna arðgreiðslur, borga aðeins meira í samneysluna svo hægt sé að vinna á mörg hundruð milljarða króna uppsafnaðri innviðaskuld. Hér er mjög mikilvægt að hafa í huga að veiðigjald er ekki skattur heldur gjald fyrir aðgengi að takmarkaðri auðlind sem er frádráttarbært frá skatti. Yfir það hef ég farið í nokkrum greinum, meðal annars þessari hér:
Í öðru lagi er því haldið fram að boðaðar breytingar á lögum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem fela meðal annars í sér að þau sveitarfélög sem nýti ekki skattstofna sína fái lægri framlög úr sjóðnum. Á mannamáli þýðir þetta að Jöfnunarsjóður, sem er fjármagnaður með opinberu fé og hefur það lögbundna hlutverk að jafna útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga, greiðir minna út til þeirra sem rukka lægra útsvar af íbúum sínum.
Í framkvæmd munu sveitarfélög því ekki geta haldið útsvari sem íbúar eiga að greiða fyrir þjónustu lágu en fengið samt háar greiðslur úr sameiginlegum sjóði til að fjármagna það að rukkað útsvar standi ekki undir rekstri. Þetta kallar stjórnarandstaðan skattahækkun, sem er auðvitað fjarstæðukennt.
Í þriðja lagi er svo um að ræða afnám samnýtingar efstu skattþrepa. Ég ætla að dvelja aðeins við hana í greiningu dagsins.
Skattbyrði þeirra sem þéna mest hefur lækkað mest
Fyrst smá sagnfræði. Síðastliðinn rúma áratuginn hafa verið teknar ákvarðanir af þáverandi ríkisstjórnum um að lækka tekjur ríkissjóðs með skattkerfisbreytingum. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna svart á hvítu að þær skattalækkanir hafa fyrst og síðast nýst þeim tíu prósentum landsmanna sem þéna mest. Allir aðrir bera nú þyngri skattbyrði. Þetta er einfaldlega töluleg staðreynd.

Skattkerfisbreytingarnar hafa því flestar ekki verið almennar, að minnsta kosti í nýtingu, heldur sértækar til að gagnast fyrst og síðast þeim sem hafa mest á milli handanna.
Það má telja margt til. Hér er til að mynda mjög einfalt fyrir tekjuháa að breyta atvinnutekjum í fjármagnstekjur í gegnum notkun einkahlutafélaga og greiða þar af leiðandi mun lægri skatta, enda fjármagnstekjuskattur 22 prósent á meðan að tekjuskattur er þrepaskiptur, 31,49 til 46,29 prósent, eftir því hversu háar tekjurnar eru. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur metið að þessi skattaglufa kosti ríkissjóð um tíu milljarða króna.
Stuðningur til að kaupa bíla
Um nokkurra ára skeið fengu kaupendur nýrra rafbíla mjög ríflega styrki frá íslenska ríkinu. Á rúmum áratug nam styrkur ríkissjóðs með slíkum bílum með niðurfellingu á virðisaukaskatti um 34 milljörðum króna. Alls fóru um 28 prósent af þeirri niðurgreiðslu til þeirra tíu prósent landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar. Sá helmingur fjölskyldna landsins sem þénaði minnst fékk að sama skapi 27 prósent þess sem ríkið hefur lagt í púkkið til að reyna að rafbílavæða þjóðina.
Ofan á þessa niðurgreiðslu þá greiddu eigendur rafbíla ekkert fyrir notkun á vegakerfinu árum saman, eða þangað til í byrjun síðasta árs þegar kílómetragjaldið var tekið upp. Tekjulægri, sem aka í meiri mæli á gömlum bensín- og olíubílum, greiddu hins vegar áfram sem áður þau gjöld. Enn er hægt að fá styrki til rafbílakaupa en þeir eru beinir, greiddir úr Orkusjóði og eru að hámarki 900 þúsund krónur.
Húsnæðisstuðningur þeirra tekjuhæstu
Frá því í nóvember 2014 hefur landsmönnum staðið til boða að nýta séreignasparnaðar til skattfrjálsrar niðurgreiðslu húsnæðisskulda. Um er að ræða eina mestu skattalegu eftirgjöf sem ráðist hefur verið í í Íslandssögunni.
Frá því að opnað var fyrir þessa leið húsnæðisstuðnings og út febrúar síðastliðinn hafa 179 milljarðar króna, á verðlagi hvers árs fyrir sig, ratað inn á höfuðstól lána þeirra sem hafa getað nýtt sér hann. Ef sú upphæð yrði uppreiknuð á fast verðlag fer hún vel yfir 200 milljarða króna. Sú fjárhæð kemur frá þremur aðilum: þeim einstaklingum sem velja að spara í séreign, atvinnurekendum þeirra sem ber samkvæmt lögum að greiða mótframlag sem er ígildi launahækkunar og svo frá ríkissjóði framtíðar. Árið 2023 var húsnæðisstuðningur hins opinbera til þeirra sem nýttu þessa leið um tíu milljarðar króna.

Mynd: HMS
Í skýrslu starfshóps stjórnvalda um húsnæðisstuðning, sem birt var síðla árs 2022, kom fram að 34 prósent þeirra sem nýta sér 2014-úrræðið tilheyra efstu tekjutíund landsins, 61 prósent tilheyra þeim fimmtungi landsmanna sem þéna mest og 80 prósent þremur efstu tekjutíundunum.
Forsenda þess að geta fengið þennan skattaafslátt er að safna í séreignarsparnað. Það telja sig ekki allir geta gert það. Að það sé ekki nóg eftir um mánaðamótin í slíkt. Tölurnar sýna það svart á hvítu. Bein fylgni er milli þess hversu mikið viðkomandi þénar og þess hvort hann safni í séreign. Alls 82 prósent þeirra sem tilheyra tekjuhæstu tíu prósent landsmanna gera það til dæmis, en einungis um tvö prósent þeirra sem tilheyra lægstu tekjutíund.
Afsláttur á sköttum á arðgreiðslur
Hvaða hópur er þessi tekjuhæsta tíund landsins eiginlega? Jú þetta er hópur sem átti alls um 4.850 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2023. Það þýðir að rúmlega helmingur alls eiginfjár í landinu, 53 prósent, var í höndum þessa hóps. Eigið fé hans hafði þá vaxið um 66 prósent frá árinu 2019.
Þegar horft er á þann nýja auð sem íslenskum heimilum áskotnaðist á árinu 2023 kom í ljós að 699 milljarðar króna af honum fóru til efstu tíundarinnar. Það var 53 prósent alls nýs auðs. Þessi hópur er sífellt að taka til sín meira af þeim nýja auð sem verður til á Íslandi. Á árunum 2010 til 2020 fékk hann í sinn hlut 43,5 prósent af honum að meðaltali.
Samkvæmt skattframtölum voru fjármagnstekjur landsmanna alls 303 milljarðar króna á árinu 2023 og hækkuðu um 61 milljarða króna, eða 25 prósent, milli ára. Af þessum fjármagnstekjum þénaði efsta tekjutíundin 211 milljarða króna, eða um 70 prósent þeirra allra. Um þriðjungur af fjármagnstekjum ársins 2023 var arður af hlutabréfum. Efsta tekjutíund landsmanna átti alls verðbréf fyrir 646,7 milljarða króna í lok þess árs, eða 86 prósent allra verðbréfa.
Líkt og áður sagði þá er skattur á fjármagnstekjur mun lægri en á launatekjur, eða 22 prósent. Nokkrar breytingar voru gerðar í álagningu fjármagnstekjuskatts í upphafi árs 2021. Eftir þær þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði sem var undir 300 þúsund krónum og frítekjumark hjóna var hækkað upp í 600 þúsund krónur. Auk þess er einungis helmingur af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda og sem fellur undir húsaleigulög skattskyldur ef ein íbúð er leigð út. Vegna þessa var veittur skattaafsláttur upp á 460 milljónir króna vegna ársins 2023.
Var ekki kallað skattahækkun árið 2019
Þá komum við að afnámi samnýtingar efstu skattþrepa. Árið 2010 var tekið upp þrepaskipt tekjuskattskerfi á Íslandi. Samhliða var heimilað að samnýta skattþrep hjá samsköttuðum. Við fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í árslok 2015, þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sátu í ríkisstjórn, rýmkaði samnýtingarheimildin umtalsvert.
Reynt var að taka á þessari stöðu árið 2016 þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og þá formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram frumvarp sem fól meðal annars í sér að samnýting milli skattþrepa yrði afnumin. Meirihlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, að mestu skipaður þáverandi stjórnarflokkum, stöðvaði hins vegar þessar breytingar. Í nefndaráliti þeirra sagði meðal annars: „Afstaða meirihlutans er að mikilvægt sé að þessi heimild haldist inni og telur að þau sjónarmið sem bent hafi verið á vegi ekki eins þungt og þeir hagsmunir einstaklinga sem þarna búa að baki.“
Bjarni Benediktsson reyndi að afnema samnýtingu skattþrepa árið 2016. Mynd: Stjórnarráðið
Í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa, sem kom út árið 2019, sagði meðal annars að „Í kjölfar þessarar rýmkunar hefur endurgreiðsla vegna samsköttunar meira en tvöfaldast og er nú um tvö prósent af öllum tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga.“
Þar sagði líka að „flestir eru þannig að hámarka afsláttinn ef þeir njóta samnýtingar á annað borð með því að annar aðilinn er þá heimavinnandi og hinn með háar tekjur.“
Heildarkostnaður vegna samnýtingar tekjuskattþrepa var áætlaður 3,5 milljarðar króna við álagningu tekjuskatts á árinu 2018 vegna tekna sem aflað var 2017. Uppreiknað að teknu tilliti til verðlags er sú upphæð um fjórir milljarðar króna í dag.
Þegar skattþrepunum var fjölgað úr tveimur í þrjú árið 2019, með tilkomu lægsta skattþrepsins, þá dró úr þessum skattaafslætti. Það var þó ekki kallað skattahækkun á þeim tíma. Bjarni Benediktsson sagði þvert á móti að það væri ekki „verið að auka skattbyrðina neins staðar.“
Ívilnun fyrir tekjuhæsta fólkið
Ívilnunin virkar í dag þannig að ef annar aðili í hjónabandi eða skráðri sambúð er með árstekjur sem greiða þarf skatta af í efsta skattþrepi (þar sem skattur er 46,29 prósent) en maki viðkomandi er með lægri tekjur þá getur tekjuhærri aðilinn fært tekjur sínar sem lenda í efsta þrepi tekjuskattsstigans niður í miðþrep.
Við það lækkar skattur á hluta launa viðkomandi úr 46,29 prósent í 37,99 prósent. Til þess að fá þessa skattaívilnun þarf að vera með 1.325.127 krónur í mánaðartekjur eða meira. Fyrir hjón sem eru annars vegar með 20 milljónir króna á ári í tekjur og hins vegar 15 milljónir króna þá þýðir þetta aukna skattbyrði upp á 3.118 krónur á mánuði.
Því er um er að ræða skattaafslátt sem nær einungis tekjuhæsta fólk landsins getur nýtt sér. Það er ekki ályktun, heldur staðreynd sem er grundvölluð í tölum.
Skattagögn sýna að það eru einungis lítil hluti skattgreiðenda sem geta nýtt sér glufuna og skattaafslátturinn sem þessi hópur fær að launum var 2,7 milljarðar króna á árinu 2023.
Af þessum hópi tilheyra 95 prósent efsta tekjutíund, þeim tíu prósent landsmanna sem eru með hæstu tekjurnar. Af þeim eru 93,3 prósent í efri hluta efstu tekjutíundarinnar. Karlar eru svo dómínerandi i þessum litla hópi. Þeir eru yfir 80 prósent þeirra sem nýta sér ónýtt miðþrep maka. Þeir sem njóta samnýtingar „fá álagðan 26 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti einstaklinga og er því einnig um að ræða eignamikla aðila."
Fleipur, reiknivélar og grunneiningin
Þetta afnám á skattaívilnun fyrir tekjuhæsta hóp landsmanna kallar stjórnarandstaðan skattahækkun.
Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði til að mynda nýverið í ræðu á Alþingi að samsköttun hefði þann „ágæta kost að sambúðaraðilar fullnýta persónuafslátt hvors annars og það getur komið sér vel þegar mikill munur er á launum hjóna eða sambúðarfólks, sé annar aðilinn í hlutastarfi, sinni börnum eða í námi […] Það er fólkið sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur finnst eðlilegast að skattleggja aukalega.“
Rósa fór með fleipur. Áfram sem áður verður hægt að nýta persónuafslátt maka líkt og áður. Það truflaði hana ekki í að segja í sömu ræðu að afnám samsköttunar myndi „því lenda illa á barnafjölskyldum sem eru í svokölluðu harki en hingað til hafa hjón eða sambúðarfólk í miklum mæli nýtt sér þennan möguleika sem felst í samsköttun.“
Hún bætti svo við að fólk gæti reiknað þetta sjálft með reiknivél sem „hagfræðingur nokkur hefur búið til og birt á netinu. Þar er hægt að sjá það svart á hvítu hvað þessi aðgerð mun fela í sér fyrir hvert heimili.“
Sú reiknivél sem Rósa vísaði til, og virðist hafa verið andlag gagnrýni flokksmanna hennar, byggði hins vegar á röngum forsendum og hefur verið uppfærð. Hún ofmat áhrif afnáms samsköttunar verulega. Stjórnvöld birtu rétta reiknivél þann 10. apríl. Hana má sjá hér.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem reyndi að verða formaður flokksins á síðasta landsfundi hans en tapaði, sagði í sömu umræðu að sannleikurinn væri sagna bestur. hún sagði svo að ríkisstjórnin ætlaði að auka „skattbyrði fjölskyldufólks um allt land, fólk sem rekið hefur sitt heimili sem eina heild, með fyrirhugaðri niðurfellingu samsköttunar.“
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, var á svipuðum slóðum í grein sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudag. Þar sagði hann að þarna væri ekki um glufu að ræða „heldur bara skattkerfið eins og það er og hefur verið, sanngjarnt og eðlilegt, hvað samsköttun varðar, hugsað til þess að styðja við fjölskylduna sem grunneiningu íslensks samfélags.“
Lægri vextir skila flestum krónum til heimila
Tölum íslensku. Eitt af markmiðum nýrrar ríkisstjórnar er að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Ein af aðgerðunum sem hún ætlar að ráðast í til að ná þessu markmiði er að afnema þessa samnýtingu á skattþrepum. Hún ætlar líka að leiðrétta auðlindagjöld og laga óréttlætanlegar skekkjur í regluverki.
Stærsta gjaldahækkunin sem lagst hefur á venjulegar íslenskar fjölskyldur, barnafjölskyldurnar í harkinu, á síðustu árum eru vaxtagjöld. Svimandi háir vextir og verðbólga hafa gert það að verkum að miklu færri peningar hafa verið til staðar í veskinu hjá flestum fjölskyldum til að borga daglegar nauðsynjar.
Í fyrra, þegar fjárlagafrumvarp þáverandi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar var lagt fram, kom þetta ansi skýrt fram. Þar var birt mynd sem sýndi að hlutfall þess hóps sem greiðir yfir 20 prósent af ráðstöfunartekjum sínum – það sem situr eftir á bankareikningnum þegar skattar og önnur opinber gjöld hafa verið greidd – í vexti hafði farið úr ellefu prósentum árið 2019 í 14 prósent í lok árs 2023. Þegar fólk undir 40 ára er skoðað einvörðungu þá birtist allt önnur og enn verri mynd. Hlutfall þess hóps sem borgar meira en 25 prósent af því sem hann á eftir um hver mánaðamót þegar ríki og sveitarfélög hafa tekið sitt í vexti hafði farið úr 13 í 21 prósent.

Þessi staða hefur án vafa versnað í fyrra. Nýjar tölur Hagstofunnar sýna að heimili landsins greiddu 121 milljarð króna í vaxtagjöld á árinu 2024. Þau höfðu vaxið um ellefu milljarða króna frá árslokum 2023 og alls 51 milljarð króna frá árinu 2021. Hvert prósentustig í lækkun vaxta skilar heimilunum tugum milljarða króna í auknar ráðstöfunartekjur og því er til mikils unnið að sýna ábyrgð í efnahagsmálum með því að auka tekjur þar sem það er hægt og hagræða þar sem það bitnar ekki á þjónustu.
Það er sitjandi ríkisstjórn að gera. Hún er að sýna ábyrgð í ríkisrekstri, ætlar að ná hallalausum ríkissjóði árið 2027, ekki að ráðast í útgjöld sem ekki eru til peningar fyrir, hætta að reka ríkissjóð á fokdýrum yfirdrætti ár eftir ár, skapa þannig skilyrði fyrir hagvexti, innviðauppbyggingu til að aflétta hinum raunverulega landsbyggðarskatti, lægri verðbólgu og lægri vöxtum, sem leiða til þess að miklu fleiri krónur verða eftir í veskinu hjá miklu fleiri fjölskyldum um hver mánaðamót.
Ofurskattinum á venjulegt vinnandi fólk, um allt land, verður lyft.
Reply